Gerðu sanngjarnar kröfur til sjálfs þín og haltu gleðinni í þjónustu Jehóva
„MÉR mistókst enn einu sinni!“ Hvað hefurðu sagt þetta oft við sjálfan þig vegna þess að þér tókst ekki að gera það sem þú ætlaðir þér? Ung kristin móðir segir ef til vill eitthvað þessu líkt þegar henni finnst hún ekki geta sinnt trúnni sem skyldi vegna þess að nýfætt barn hennar þarfnast stöðugrar umönnunar. Bróðir hefur kannski lágt sjálfsmat vegna þess hvernig hann var alinn upp og hugsar sem svo að hann geri aldrei nóg fyrir söfnuðinn. Eldri systir gæti verið niðurdregin vegna þess að hún getur ekki tekið eins mikinn þátt í kristnu starfi og hún var vön þegar hún hafði meiri orku og betri heilsu. „Stundum fæ ég tár i augun þegar ég heyri uppörvandi ræðu um brautryðjandastarfið,“ segir Christiane sem getur ekki gert eins mikið og hún vildi í þjónustunni við Jehóva vegna fjölskylduaðstæðna.
Hvað er til ráða þegar okkur líður þannig? Hvað hafa sumir í söfnuðinum gert til að sjá aðstæður sínar í réttu ljósi? Hvernig er það okkur til góðs að gera raunhæfar kröfur til okkar?
Verum sanngjörn
Páll postuli benti á mikilvægt atriði til að halda gleðinni í þjónustunni þegar hann sagði: „Verið ávallt glöð í Drottni. Ég segi aftur: Verið glöð. Ljúflyndi [„sanngirni“, NW] ykkar verði kunnugt öllum mönnum.“ (Fil. 4:4, 5) Við verðum að gera sanngjarnar kröfur til okkar miðað við getu okkar og aðstæður ef við viljum vera glöð og ánægð í þjónustunni við Guð. Ef við streitumst við að ná óraunhæfum markmiðum, sama hvað það kostar, erum við að setja óþarfa pressu á okkur. En að sjálfsögðu megum við ekki gera of litlar kröfur til okkar og nota það sem við teljum hamla okkur sem afsökun til að hægja á okkur í þjónustunni meira en nauðsynlegt er.
Jehóva ætlast til þess að við gefum honum okkar besta óháð því hvaða aðstæður við búum við. Við eigum að þjóna honum af heilum hug og heilu hjarta. (Kól. 3:23, 24) Ef við gæfum honum minna en það værum við ekki að lifa í samræmi við vígsluheit okkar. (Rómv. 12:1) Þá færum við líka á mis við þá innilegu ánægju, sönnu gleði og aðrar blessanir sem fylgja því að þjóna Jehóva heilshugar. — Orðskv. 10:22.
Orðið, sem þýtt er „ljúflyndi“ í Filippíbréfinu 4:4, felur í sér þá hugmynd að vera hugulsamur. Bókstafleg merking er „eftirgefanlegur“. (Jak. 3:17, neðanmáls, NW) Orðið felur einnig í sér þá hugsun að vera ekki of strangur. Ef við erum sanngjörn getum við þess vegna séð aðstæður okkar í réttu ljósi. Er það erfitt? Það getur verið það fyrir suma þótt þeir geti verið sanngjarnir við aðra. Ef við tökum eftir að náinn vinur er að örmagnast vegna þess að hann reynir að gera of mikið í einu myndum við líklega reyna að sýna honum fram á að hann þurfi að gera einhverjar breytingar á lífi sínu. En við þurfum á sama hátt að læra að þekkja sjálf okkur og sjá einkenni þess að við séum að ganga of nærri okkur. — Orðskv. 11:17.
Það getur verið erfitt að vera sanngjarn við sjálfan sig ef maður hefur verið alinn upp af foreldrum sem gerðu óraunhæfar kröfur til manns. Sumum fannst, þegar þeir voru börn, að þeir þyrftu alltaf að gera aðeins meira eða vera aðeins betri til að verðskulda ást foreldra sinna. Ef sú var raunin hjá okkur gæti verið að við höfum ekki rétta sýn á hvernig Jehóva lítur á okkur. Jehóva elskar okkur af því að við þjónum honum af öllu hjarta. Hann fullvissar okkur í orði sínu um að hann ‚þekki eðli okkar, minnist þess að við erum mold‘. (Sálm. 103:14) Hann þekkir aðstæður okkar og elskar okkur þegar við þjónum honum kappsamlega þrátt fyrir takmörk okkar. Ef við munum að Jehóva er ekki strangur verkstjóri getur það hjálpað okkur að viðurkenna takmörk okkar og gera ekki nema hóflegar kröfur til sjálfra okkar. — Míka 6:8.
Engu að síður finnst sumum erfitt að temja sér þetta viðhorf. Ef það á við um þig gæti verið tilvalið að biðja reyndan trúbróður eða systur, sem þekkir þig vel, að hjálpa þér. (Orðskv. 27:9) Tökum dæmi. Þig langar ef til vill til að gerast brautryðjandi. Það er frábært markmið. Gengur illa að ná því? Kannski þarftu hjálp til að einfalda líf þitt. Eða kannski ræðir góður vinur þinn í söfnuðinum við þig um hvort brautryðjandastarfið sé raunhæft markmið eins og er miðað við fjölskylduábyrgð þína. Hann gæti hjálpað þér að sjá hvort það sé raunhæft fyrir þig að leggja á þig aukið starf eða hvaða breytingar gætu gert þér það mögulegt. Eiginmaður er líka í góðri aðstöðu til að hjálp eiginkonu sinni að meta hvað hún geti komist yfir. Hann gæti til dæmis lagt til að hún hvíli sig áður en hún gerir átak í boðunarstarfinu í nýjum mánuði. Þá hefur hún kannski meiri orku og það gæti hjálpað henni að halda gleðinni í þjónustunni.
Hafðu augun opin fyrir því sem þú getur gert
Aldur eða heilsa setja okkur ef til vill takmörk í þjónustunni við Jehóva. Ef þú ert foreldri finnst þér kannski þú hafa lítið gagn af sjálfsnámi eða safnaðarsamkomum vegna þess að mestallur tíminn og orkan fer í að hugsa um börnin. En gæti verið að þú komir ekki auga á hvað þú getur gert af því að þú einblínir á það sem þú getur ekki gert?
Fyrir þúsundum ára langaði levíta nokkurn til að gera eitthvað sem hann hafði engin tök á. Hann hlaut þann heiður að þjóna í musterinu í tvær vikur á ári hverju. Helst vildi hann þó vera þar allt árið. (Sálm. 84:2-4) Hvað hjálpaði þessum trúfasta manni að halda gleðinni? Hann gerði sér grein fyrir að jafnvel einn dagur í forgörðum musterisins væri sérstakur heiður fyrir hann. (Sálm. 84:5, 6, 11) Við getum haft svipað hugarfar og reynt að koma auga á það sem við getum gert og verið þakklát fyrir það í stað þess að einblína á takmörk okkar.
Tökum Nerlande sem dæmi. Hún býr í Kanada og er bundin við hjólastól. Henni fannst hún ekki geta gert nógu mikið í boðunarstarfinu. En síðan breytti hún um viðhorf og fór að líta á verslunarmiðstöð í nágrenninu sem sitt einkasvæði. Hún segir: „Ég sit í hjólastólnum nálægt bekk í verslunarmiðstöðinni. Ég hef gaman af því að vitna fyrir fólki sem kemur og sest niður til að hvíla sig smá stund.“ Það er Nerlande mikils virði að geta tekið þátt í boðunarstarfinu með þessum hætti.
Breyttu því sem þarf
Ímyndum okkur mann á seglskútu. Það er góður byr og seglin þanin. En þegar stormur skellur á neyðist maðurinn til að lækka seglin. Hann getur ekki stjórnað storminum en með því að laga sig að aðstæðum getur hann haft stjórn á skútunni. Við getum ekki heldur stjórnað stormum sem við verðum fyrir í lífinu. En við getum notað líkamlegt, hugarfarslegt og tilfinningalegt atgervi okkar þannig að við höfum sem besta stjórn á lífi okkar. Þegar við tökum tillit til breyttra aðstæðna fáum við hjálp til að halda ánægjunni og gleðinni í þjónustunni við Guð. — Orðskv. 11:2.
Tökum dæmi. Ef við erum kraftlítil gæti verið skynsamlegt að þreyta okkur ekki um of fyrri hluta dagsins þannig að við höfum úthald til að sækja samkomu um kvöldið. Þá getum við notið þess betur að vera með trúsystkinum. Ef móðir á erfitt með að komast í boðunarstarfið hús úr húsi vegna þess að barnið hennar er veikt gæti hún kannski boðið annarri systur í símastarf heima hjá sér á meðan barnið sefur.
Hvað ef aðstæður þínar gera þér erfitt fyrir að undirbúa þig fyrir allt sem farið verður yfir á samkomunum? Veltu fyrir þér hvað þú getur undirbúið þig mikið og gerðu það síðan eins vel og þú getur. Með því að laga smærri markmiðin að aðstæðum okkar getum við haldið gleðinni og verið áfram virk í þjónustunni.
Það getur þurft einbeitni og viðleitni að laga markmið sín að breyttum aðstæðum. Hjónin Serge og Agnès, sem búa í Frakklandi, urðu að gera miklar breytingar á áformum sínum. „Þegar við komumst að því að Agnès ætti von á barni rann draumur okkar um að gerast trúboðar út í sandinn,“ segir Serge. Núna eiga þau hjónin tvær fjörugar stelpur og hafa sett sér ný markmið í trúnni. Serge segir: „Þar sem við gátum ekki þjónað á erlendri grund ákváðum við að gerast ‚trúboðar‘ í eigin landi. Við störfum nú með erlendum málhópi.“ Hefur þetta nýja markmið verið þeim til góðs? „Okkur finnst við koma að góðu gagni í söfnuðinum,“ segir Serge.
Odile er systir á áttræðisaldri sem býr í Frakklandi. Hún er með slitgigt í hnjánum og getur því ekki staðið lengi í einu. Hún varð niðurdregin þegar heilsan gerði henni ófært að taka þátt í boðunarstarfinu hús úr húsi. En hún gafst samt ekki upp. Hún breytti um starfsvettvang og fór að taka þátt í símastarfi. Hún segir: „Þetta er auðveldara og skemmtilegra en ég hélt.“ Þessi breyting hefur endurvakið eldmóð hennar fyrir starfinu.
Það er til blessunar að gera sanngjarnar kröfur til sjálfs sín
Við getum hlíft okkur við óþarfa vonbrigðum ef við gerum sanngjarnar kröfur til sjálfra okkar. Með því að setja okkur raunhæf markmið finnum við að við áorkum einhverju þrátt fyrir takmörk okkar. Og við getum glaðst yfir afrekum okkar þótt þau séu kannski smá í sniðum. — Gal. 6:4.
Þegar við reynum að gera ekki nema sanngjarnar kröfur til sjálfra okkar verðum við líka tillitssamari í garð trúsystkina. Við gerum okkur grein fyrir takmörkum þeirra og kunnum betur að meta það sem þau gera fyrir okkur. Með því að sýna þakklæti fyrir þá hjálp sem við fáum stuðlum við að samvinnu og gagnkvæmum skilningi í söfnuðinum. (1. Pét. 3:8) Munum að Jehóva er kærleiksríkur faðir sem biður okkur aldrei um meira en við getum gefið. Og þegar við gerum sanngjarnar kröfur til okkar og setjum okkur raunhæf markmið höfum við enn meiri gleði og ánægju af þjónustunni við hann.
[Innskot á blaðsíðu 29]
Við verðum að gera sanngjarnar kröfur til okkar miðað við getu okkar og aðstæður ef við viljum vera glöð og ánægð í þjónustunni við Guð.
[Mynd á blaðsíðu 30]
Nerlande hefur ánægju af því sem hún getur gert í boðunarstarfinu.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Lærðu að „lækka seglin“.
[Credit line]
© Wave Royalty Free/age fotostock
[Mynd á blaðsíðu 32]
Það hefur verið Serge og Agnèsi til góðs að setja sér ný markmið.