Verið glaðir í Jehóva!
„Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 4:4.
1. Af hverju kann okkur að vera spurn hvað Páll hafi átt við, þegar hann sagði að kristnir menn ættu alltaf að vera glaðir?
SVO getur virst sem ekki sé margt að gleðjast yfir nú á dögum. Menn af moldu, jafnvel sannkristnir menn, lenda í aðstæðum sem valda þeim sorg og áhyggjum — atvinnuleysi, heilsubresti, ástvinamissi, árekstrum við aðra, eða þá andstöðu ættingja, sem eru ekki í trúnni, eða fyrrverandi vina. Hvernig eigum við þá að skilja hvatningu Páls: „Verið ávallt glaðir“? Er það jafnvel gerlegt í ljósi þeirra óþægilegu og erfiðu aðstæðna sem við þurfum öll að takast á við? Málið skýrist ef við athugum samhengi þessara orða.
Að vera glaður — hvers vegna og hvernig?
2, 3. Hve mikilvæg er gleðin eins og Jesús og Ísraelsmenn til forna eru dæmi um?
2 „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ Þetta minnir okkur kannski á orð sem beint var til Ísraelsmanna fyrir hér um bil 24 öldum: „Gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur [„vígi,“ NW] yðar,“ eða samkvæmt þýðingu Moffatts: „Að gleðjast í hinum Eilífa er styrkur ykkar.“ (Nehemía 8:10) Gleði gefur styrk og er eins og vígi þar sem hægt er að leita skjóls og verndar. Gleði átti jafnvel sinn þátt í að hjálpa hinum fullkomna manni Jesú að halda út. „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Ljóst er að hjálpræði okkar er háð því að við getum verið glöð andspænis erfiðleikum.
3 Áður en Ísraelsmenn gengu inn í fyrirheitna landið hafði þeim verið fyrirskipað: „Þú skalt gleðjast yfir öllum þeim gæðum, sem [Jehóva] Guð þinn hefir gefið þér, þú og skyldulið þitt, og levítinn og útlendingurinn, sem hjá þér eru.“ Það hefði alvarlegar afleiðingar að þjóna Jehóva ekki með gleði. „Allar þessar bölvanir munu koma fram á þér, elta þig og á þér hrína, uns þú ert gjöreyddur, af því að þú . . . þjónaðir ekki [Jehóva] Guði þínum með gleði og fúsu geði, af því að þú hafðir allsnægtir.“ — 5. Mósebók 26:11; 28:45-47.
4. Hver gæti ástæðan verið ef við erum ekki glöð?
4 Það er því bráðnauðsynlegt að hinar smurðu leifar nútímans og félagar þeirra, hinir ‚aðrir sauðir,‘ séu glaðir! (Jóhannes 10:16) Með því að endurtaka ráðleggingu sína, „ég segi aftur,“ lagði Páll áherslu á mikilvægi þess að gleðjast yfir öllu því góða sem Jehóva hefur gert fyrir okkur. Gerum við það? Eða verðum við svo upptekin af hinu daglega amstri að við missum stundum sjónar á þeim mörgu ástæðum sem við höfum til að gleðjast? Hrannast upp svo mikil vandamál að þau byrgja okkur sýn þannig að við sjáum ekki Guðsríki og blessanir þess? Rænum við okkur gleðinni með einhverjum öðrum hætti — með því að óhlýðnast lögum Guðs, virða ekki meginreglur hans eða vanrækja kristnar skyldur okkar?
5. Hvers vegna á ósanngjarn maður erfitt með að vera glaður?
5 „Látið sanngirni ykkar verða kunnuga öllum mönnum. Drottinn er í nánd.“ (Filippíbréfið 4:5, NW) Ósanngjarnan mann skortir jafnvægi. Hann hugsar kannski ekki nógu vel um heilsuna og leggur óþarfa spennu eða áhyggjur á líkamann. Kannski hefur hann ekki lært að virða takmörk sín og lifa samkvæmt því. Ef til vill setur hann markið of hátt og reynir síðan að ná því hvað sem það kostar. Eða þá að hann notar takmörk sín sem afsökun fyrir því að hægja ferðina eða slá slöku við. Hann skortir jafnvægi og er ósanngjarn og á þar af leiðandi erfitt með að vera glaður.
6. (a) Hvað ættu kristnir bræður okkar að sjá í fari okkar en hvað verðum við að forðast? (b) Hvernig hjálpa orð Páls í 2. Korintubréfi 1:24 og Rómverjabréfinu 14:4 okkur að vera sanngjörn?
6 Jafnvel þótt andstæðingar líti á okkur sem ofstækismenn ættu kristnir bræður okkar alltaf að geta séð að við erum sanngjörn. Og það geta þeir ef við varðveitum jafnvægi og ætlumst ekki til fullkomleika, hvorki af okkur né öðrum. Framar öllu verðum við að varast að leggja byrðar á aðra umfram það sem orð Guðs krefst. Páll postuli sagði: „Ekki svo að skilja, að vér viljum drottna yfir trú yðar, heldur erum vér samverkamenn að gleði yðar.“ (2. Korintubréf 1:24) Sem fyrrverandi farísei vissi Páll vel að strangar reglur, sem valdsmenn setja og framfylgja, spilla gleði en gagnlegar uppástungur samverkamanna aftur á móti auka hana. Sú staðreynd að „Drottinn er í nánd“ ætti að minna sanngjarnan mann á að við eigum ekki að ‚dæma annars þjón. Hann stendur og fellur herra sínum.‘ — Rómverjabréfið 14:4.
7, 8. Af hverju verða kristnir menn að reikna með vandamálum, en hvernig geta þeir haldið áfram að vera glaðir?
7 „Verið ekki hugsjúkir um neitt, heldur gjörið í öllum hlutum óskir yðar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð.“ (Filippíbréfið 4:6) Við lifum núna þær ‚örðugu tíðir‘ sem Páll skrifaði um. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Kristnir menn verða því að búast við vandamálum. Orð Páls, „verið ávallt glaðir,“ útiloka ekki þann möguleika að drottinhollur kristinn maður verði stundum örvilnaður eða niðurdreginn. Páll viðurkenndi með raunsæi um sjálfan sig: „Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki, ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.“ (2. Korintubréf 4:8, 9) Hins vegar mildar gleði kristins manns tímabundnar áhyggur og sorg og yfirvinnur þær að lokum. Hún gefur honum þann styrk sem þarf til að halda áfram og missa aldrei sjónar á þeim mörgu ástæðum sem hann hefur til að vera glaður.
8 Glaður kristinn maður biður um hjálp Jehóva í auðmjúkri bæn þegar vandamál koma upp, óháð því hvert eðli þeirra er. Hann lætur ekki þungar áhyggjur ná tökum á sér. Eftir að hann hefur gert það sem hann getur með góðu móti til að leysa vandamálið leggur hann það í hendur Jehóva í samræmi við boð hans: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér.“ Og hann heldur áfram að þakka Jehóva alla gæsku hans. — Sálmur 55:23; sjá einnig Matteus 6:25-34.
9. Hvernig veitir þekking á sannleikanum hugarfrið og hvaða góð áhrif hefur það á kristinn mann?
9 „Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu yðar og hugsanir yðar í Kristi Jesú.“ (Filippíbréfið 4:7) Þekking á sannleika Biblíunnar frelsar huga kristins manns undan ósannindum og blekkingum og hjálpar honum að þroska með sér heilbrigt hugsanamynstur. (2. Tímóteusarbréf 1:13) Þannig er honum hjálpað til að forðast ranga eða óviturlega hegðun sem gæti stofnað friðsömu sambandi við aðra í hættu. Í stað þess að vera vonsvikinn yfir ranglæti og vonsku treystir hann því að Jehóva leysi vandamál mannkynsins fyrir atbeina Guðsríkis. Slíkur hugarfriður varðveitir hjarta hans, heldur áhugahvötum hans hreinum og stýrir hugsun hans eftir brautum réttlætisins. Hreinar áhugahvatir og rétt hugsun gefa honum síðan óteljandi ástæður til að vera glaður þrátt fyrir vandamál og álag sem ringulreið heimsins veldur.
10. Um hvað verðum við að tala og hugsa til að geta notið sannrar gleði?
10 „Að endingu, bræður, allt sem er satt, allt sem er göfugt, rétt og hreint, allt sem er elskuvert og gott afspurnar, hvað sem er dyggð og hvað sem er lofsvert, hugfestið það.“ (Filippíbréfið 4:8) Kristinn maður hefur enga ánægju af því að tala eða hugsa um það sem illt er. Það útilokar sjálfkrafa stóran hluta þess skemmtiefnis sem heimurinn býður fram. Enginn getur varðveitt kristna gleði ef hann fyllir hugann lygum, heimskulegu spaugi og því sem er ranglátt, siðlaust, ódyggðugt, andstyggilegt og fyrirlitlegt. Í hreinskilni sagt getur enginn notið sannrar gleði ef hann fyllir hugann og hjartað af óþverra. Í spilltum heimi Satans er það uppbyggjandi að vita að kristnir menn skuli hafa svo margt gott til að ræða og hugsa um!
Óteljandi ástæður til að vera glaðir
11. (a) Hvað ættum við aldrei að taka sem sjálfsagðan hlut og hvers vegna ekki? (b) Hvaða áhrif hafði það á bróður og konu hans að vera viðstödd alþjóðamót?
11 Þegar við tölum um ástæður til að vera glaðir skulum við ekki gleyma alþjóðabræðrafélagi okkar. (1. Pétursbréf 2:17) Meðan þjóðir og þjóðabrot heims láta í ljós magnað hatur hvert til annars tengist fólk Guðs æ nánari kærleiksböndum. Eining þeirra sýnir sig sérstaklega á alþjóðamótum. Mótsgestur frá Bandaríkjunum skrifaði um eitt slíkt mót sem haldið var árið 1993 í Kíev í Úkraínu: „Gleðitárin, geislandi augun, stöðug faðmlög og kveðjurnar, sem sendar voru þvert yfir leikvanginn þegar hópar veifuðu litríkum regnhlífum og vasaklútum, talaði skýru máli um guðræðislega einingu. Hjörtu okkar eru barmafull af stolti yfir því sem Jehóva hefur afrekað á undraverðan hátt í bræðrafélaginu um allan heim. Þetta hefur snortið okkur hjónin mjög djúpt og gefið trú okkar nýja merkingu.“
12. Hvernig er Jesaja 60:22 að rætast fyrir augunum á okkur?
12 Það er mjög styrkjandi fyrir trú kristinna manna nú á tímum að sjá spádóma Biblíunnar uppfyllast fyrir augunum á sér! Tökum sem dæmi orðin í Jesaja 60:22: „Hinn minnsti skal verða að þúsund og hinn lítilmótlegasti að voldugri þjóð. Ég, [Jehóva], mun hraða því, þegar að því kemur.“ Þegar Guðsríki fæddist árið 1914 voru virkir boðberar aðeins 5100 — sem sannarlega má kalla ‚hinn minnsta.‘ En á síðastliðnum fimm árum hefur bræðrafélagið um allan heim stækkað um að meðaltali 5824 nýskírða votta í hverri viku! Árið 1994 náðist nýtt hámark — 4.914.094 virkir þjónar orðsins. Hugsaðu þér bara! Þetta þýðir að „hinn minnsti“ frá árinu 1914 er bókstaflega að „verða að þúsund“!
13. (a) Hvað hefur verið að gerast síðan 1914? (b) Hvernig fara vottar Jehóva eftir meginreglunni í orðum Páls í 2. Korintubréfi 9:7?
13 Frá 1914 hefur Messíasarkonungurinn ríkt mitt á meðal óvina sinna. Stjórn hans hefur notið stuðnings fúsra fylgjenda af hópi manna sem leggja fram tíma sinn, krafta og peninga til að inna af hendi prédikunarstarfið um allan heim auk byggingaframkvæmda á alþjóðavettvangi. (Sálmur 110:2, 3) Vottar Jehóva fagna því að fjárframlög skulu berast til að ljúka þessum verkefnum, jafnvel þótt varla sé minnst á peninga á samkomum þeirra.a (Samanber 1. Kroníkubók 29:9.) Það þarf ekki að ýta við sannkristnum mönnum til að gefa; þeir líta á það sem sérréttindi að styðja konung sinn í þeim mæli sem aðstæður þeirra leyfa, hver og einn „eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung.“ — 2. Korintubréf 9:7.
14. Hvaða ástand hefur verið greinilegt meðal fólks Guðs frá 1919 og hvaða tilefni hefur það gefið þeim til að vera glaðir?
14 Endurreisn sannrar tilbeiðslu meðal fólks Guðs, sem spáð var, hefur orðið til þess að sköpuð hefur verið andleg paradís. Frá 1919 hefur hún fært út landamæri sín skref fyrir skref. (Sálmur 14:7; Jesaja 52:9, 10) Hver hefur afleiðingin orðið? Sannkristnir menn finna til ‚fagnaðar og gleði.‘ (Jesaja 51:11) Hinn góði ávöxtur, sem af því leiðir, er merki um hvers heilagur andi er megnugur að áorka fyrir atbeina ófullkominna manna. Jehóva á allan heiðurinn af því, en hvaða meiri sérréttindi er hægt að hugsa sér en þau að verða samverkamenn Guðs? (1. Korintubréf 3:9) Jehóva er nógu máttugur til að láta steinana hrópa sannleiksboðskapinn ef þörf krefur. Hann hefur þó ekki talið ástæðu til að grípa til þessa heldur komið fúsum mönnum af moldu til að framkvæma vilja sinn. — Lúkas 19:40.
15. (a) Hvaða nútímaatburðum fylgjumst við með af áhuga? (b) Til hvaða atburðar hlökkum við glaðir í bragði?
15 Með óttablandinni lotningu fylgjast þjónar Jehóva nú með heimsatburðunum eins og þeir tengjast áberandi biblíuspádómum. Þjóðirnar reyna hvað þær geta — en án árangurs — að koma á friði og stöðugleika. Atburðirnir neyða þær til að biðja Sameinuðu þjóðirnar að láta til sín taka á átakasvæðum heimsins. (Opinberunarbókin 13:15-17) En fólk Guðs horfir nú þegar fram veginn með mikilli eftirvæntingu til einhvers gleðilegasta atburðar sem á nokkurn tíma eftir að eiga sér stað, atburðar sem nálgast dag frá degi. „Gleðjumst og fögnum og gefum honum dýrðina, því að komið er að brúðkaupi lambsins og brúður hans hefur búið sig.“ — Opinberunarbókin 19:7.
Prédikun — byrði eða gleði?
16. Lýstu hvernig það gæti rænt kristinn mann gleðinni að fara ekki eftir því sem hann hefur lært.
16 „Þetta, sem þér hafið bæði lært og numið, heyrt og séð til mín, það skuluð þér gjöra. Og Guð friðarins mun vera með yður.“ (Filippíbréfið 4:9) Kristnir menn geta vænst blessunar Guðs þegar þeir fara eftir því sem þeir hafa lært. Eitt það mikilvægasta, sem þeir hafa lært, er að það sé nauðsynlegt að prédika fagnaðarerindið fyrir öðrum. Hver getur haft hugarró eða verið glaður ef hann lætur ekki hjartahreinum mönnum í té þær upplýsingar sem líf þeirra veltur á? — Esekíel 3:17-21; 1. Korintubréf 9:16; 1. Tímóteusarbréf 4:16.
17. Af hverju ætti prédikunarstarf okkar alltaf að vera okkur gleðiefni?
17 Hvílík gleði að finna sauðumlíka menn sem eru fúsir að læra um Jehóva! Þjónustan við Guðsríki verður alltaf gleðiefni fyrir þá sem þjóna af réttu tilefni. Það stafar af því að aðalástæðan fyrir því að vera vottur um Jehóva er sú að lofa nafn hans og halda á lofti stöðu hans sem drottinvaldur. (1. Kroníkubók 16:31) Sá sem gerir sér grein fyrir þessari staðreynd er glaður jafnvel þegar fólk er svo óviturt að hafna fagnaðarerindinu sem hann færir þeim. Hann veit að prédikun fyrir vantrúuðum tekur enda þegar þar að kemur, en aftur á móti verður haldið áfram að lofa nafn Jehóva að eilífu.
18. Hvað er það sem kemur kristnum manni til að gera vilja Jehóva?
18 Sönn trú hvetur þá sem iðka hana til að gera það sem Jehóva krefst, ekki af því að þeir verði að gera það heldur af því að þeir vilja það. (Sálmur 40:9; Jóhannes 4:34) Margir eiga erfitt með að skilja þetta. Kona sagði einu sinni við vott sem heimsótti hana: „Ég verð að segja að þið eigið hrós skilið. Ég myndi sko aldrei ganga hús úr húsi og prédika trú mína eins og þið gerið.“ Votturinn svaraði brosandi: „Ég skil þig mætavel. Áður en ég varð vottur Jehóva hefði enginn getað fengið mig til að fara til annarra og tala við þá um trúmál. En núna langar mig til þess.“ Konan hugsaði sig um andartak og sagði svo: „Það er greinilegt að trú þín hefur upp á eitthvað að bjóða sem mín hefur ekki. Kannski ætti ég að kynna mér hana nánar.“
19. Af hverju getum við glaðst núna meira en nokkru sinni fyrr?
19 Árstextinn fyrir 1994 minnti okkur stöðugt á að ‚treysta Jehóva af öllu hjarta.‘ (Orðskviðirnir 3:5) Er nokkur betri ástæða til að vera glaður en sú að geta sett traust okkar á Jehóva, vígi okkar sem við getum leitað hælis í? Sálmur 64:11 segir: „Hinn réttláti mun gleðjast yfir [Jehóva] og leita hælis hjá honum.“ Núna er ekki rétti tíminn til að hika eða gefast upp. Hver mánuður sem líður færir okkur nær þeim raunveruleika sem þjónar Jehóva hafa þráð að sjá frá dögum Abels. Núna er rétti tíminn til að treysta Jehóva af öllu hjarta í þeirri vissu að við höfum aldrei áður haft jafnmargar ástæður til að vera glaðir!
[Neðanmáls]
a Á svæðismótum og á safnaðarsamkomum einu sinni í mánuði er lesin upp stutt tilkynning um innkomin frjáls framlög og útgjöld sem standa þarf straum af. Stöku sinnum eru send út bréf með upplýsingum um það hvernig slík framlög eru notuð. Þannig eru allir minntir á fjárhagsstöðu alþjóðastarfs votta Jehóva.
Hverju svarar þú?
◻ Af hverju ættum við að vera glöð að sögn Nehemíabókar 8:10?
◻ Hvernig sýnir 5. Mósebók 26:11 og 28:45-47 fram á mikilvægi þess að vera glaður?
◻ Hvernig getur Filippíbréfið 4:4-9 hjálpað okkur að vera alltaf glöð?
◻ Hvaða ástæðu gaf árstextinn fyrir 1994 okkur til að vera glöð?
[Mynd á blaðsíðu 20]
Rússneskir og þýskir vottar gleðjast yfir því að tilheyra alþjóðlegu bræðrafélagi.
[Mynd á blaðsíðu 21]
Það veitir gleði að segja öðrum frá sannleikanum.