Höldum áfram að þjóna í einingu
„Þá mun ég gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir, svo að þær ákalli allar nafn Drottins og þjóni honum einhuga.“ — SEFANÍA 3:9.
1. Hvernig er Sefanía 3:9 að uppfyllast?
Í HEIMINUM eru töluð um það bil 6.000 tungumál. Þar fyrir utan eru ýmsar mállýskur. Hins vegar hefur Jehóva gert öllum kleift að læra og tala hið hreina tungumál þótt þeir tali jafnólík mál og arabísku og þýsku. Þetta er uppfylling á loforði sem gefið var fyrir milligöngu spámannsins Sefanía: „Þá mun ég [Jehóva Guð] gefa þjóðunum nýjar, hreinar varir [„hreint tungumál,“ NW], svo að þær ákalli allar nafn Drottins og þjóni honum einhuga.“ — Sefanía 3:9.
2. Hvert er hið ‚hreina tungumál‘ og hvað gerir það fólki kleift?
2 Hið ‚hreina tungumál‘ er sannleikurinn um Guð sem er að finna í orði hans Biblíunni. Sérstaklega er það sannleikurinn um Guðsríki sem mun helga nafn Jehóva, réttlæta drottinvald hans og veita öllu mannkyni blessun. (Matteus 6:9, 10) Þetta er eina tungumálið á jörðinni sem er andlega hreint og það er talað af fólki af öllum þjóðum og kynþáttum. Það gerir þeim kleift að þjóna Jehóva „einhuga.“
Hlutdrægni ætti ekki að finnast meðal þjóna Guðs
3. Hvers vegna getum við þjónað Jehóva í einingu?
3 Við, kristnir menn, erum þakklátir fyrir þá samstöðu sem ríkir meðal okkar og þótt við prédikum fagnaðarerindið um ríkið á mörgum tungumálum þjónum við Guði í einingu. (Sálmur 133:1) Þetta er mögulegt vegna þess að við tölum hið hreina tungumál, Jehóva til lofs, sama hvar á jörðinni við búum.
4. Hvers vegna ætti hlutdrægni ekki að finnast meðal þjóna Guðs?
4 Hlutdrægni ætti ekki að finnast meðal þjóna Guðs. Pétur postuli kom því skýrt til skila árið 36 þegar hann prédikaði heima hjá heiðnum hundraðshöfðingja sem hét Kornelíus. Hann sagði: „Sannlega skil ég nú, að Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ (Postulasagan 10:34, 35) Í kristna söfnuðinum ætti því ekki að vera nein hlutdrægni, klíkuskapur eða mismunun.
5. Af hverju er rangt að ýta undir klíkuskap í söfnuðinum?
5 Háskólanemandi sagði eftir að hafa heimsótt ríkissal Votta Jehóva: „Oftast laða kirkjur að sér fólk af ákveðnum kynþætti eða þjóðernishópi. . . . Vottar Jehóva sátu allir saman og mynduðu engar klíkur.“ En sumir í söfnuðinum í Korintu til forna ýttu undir flokkadrátt og sundurþykkju og unnu þannig á móti starfsemi heilags anda Guðs sem stuðlar að friði og einingu. (Galatabréfið 5:22) Ef við færum að mynda klíkur innan safnaðarins værum við að vinna á móti leiðsögn andans. Við skulum því hafa í huga orð Páls til Korintumanna: „Ég áminni yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér séuð allir samhuga og ekki séu flokkadrættir á meðal yðar, heldur að þér séuð fullkomlega sameinaðir í sama hugarfari og í sömu skoðun.“ (1. Korintubréf 1:10) Páll lagði einnig áherslu á einingu í bréfi sínu til Efesusmanna. — Efesusbréfið 4:1-6, 16.
6, 7. Hvað sagði Jakob um hlutdrægni og hvernig getum við heimfært orð hans á okkur?
6 Þess hefur alltaf verið krafist af kristnum mönnum að þeir séu óhlutdrægir. (Rómverjabréfið 2:11) Sumir í söfnuðinum á fyrstu öld gerðu ríkum mönnum hátt undir höfði. Þess vegna skrifaði lærisveinninn Jakob: „Bræður mínir, farið ekki í manngreinarálit, þér sem trúið á dýrðardrottin vorn Jesú Krist. Nú kemur maður inn í samkundu yðar með gullhring á hendi og í skartlegum klæðum, og jafnframt kemur inn fátækur maður í óhreinum fötum, ef öll athygli yðar beinist að þeim, sem skartklæðin ber, og þér segið: ‚Settu þig hérna í gott sæti!‘ en segið við fátæka manninn: ‚Stattu þarna, eða settu þig á gólfið við fótskör mína!‘ hafið þér þá ekki mismunað mönnum og orðið dómarar með vondum hugsunum?“ — Jakobsbréfið 2:1-4.
7 Ef ríkir menn, sem ekki voru í trúnni, komu á samkomu í fallegum fötum og með gullhringa á fingrum og líka fátækir menn, sem voru í skítugum fötum, fengu hinir ríku sérstaka athygli. Þeim var boðið að setjast í ‚góð sæti‘ en hinum fátæku var sagt að standa eða sitja á gólfinu við fætur einhvers. En Guð er ekki hlutdrægur. Hann sá bæði ríkum og fátækum fyrir lausnarfórn Jesú. (Jobsbók 34:19; 2. Korintubréf 5:14, 15) Ef við ætlum að gleðja Jehóva og þjóna honum einhuga megum við ekki vera hlutdræg eða „meta menn eftir hagnaði.“ — Júdasarbréfið 4, 16.
Möglið ekki
8. Hvaða afleiðingar hafði mögl Ísraelsmanna?
8 Til að viðhalda einingunni og varðveita velþóknun Guðs verðum við að fylgja leiðbeiningum Páls: „Gjörið allt án þess að mögla.“ (Filippíbréfið 2:14, 15) Eftir að búið var að leysa trúlausa Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi mögluðu þeir gegn Móse og Aroni og þar af leiðandi gegn Jehóva Guði. Þetta hafði þær afleiðingar að öllum mönnum 20 ára og eldri, að undanskildum hinum trúföstu Jósúa og Kaleb og levítunum, var meinað að ganga inn í fyrirheitna landið. Þeir dóu á 40 ára eyðimerkurgöngu Ísraels. (4. Mósebók 14:2, 3, 26-30; 1. Korintubréf 10:10) Möglið varð þeim dýrkeypt!
9. Hvað kom fyrir Mirjam þegar hún möglaði?
9 Þetta dæmi sýnir okkur hvað getur hent heila þjóð sem möglar. En hvað um einstaklinga sem mögla? Mirjam, systir Móse, og Aron bróðir hennar mögluðu og sögðu: „Hefir Drottinn aðeins talað við Móse? Hefir hann ekki talað við okkur líka?“ Síðan segir frásagan: „Drottinn heyrði það.“ (4. Mósebók 12:1, 2) Hver var afleiðingin? Guð auðmýkti Mirjam sem var greinilega forsprakkinn í þessu máli. Hvernig þá? Hún fékk líkþrá og varð að dvelja fyrir utan tjaldbúðina í sjö daga þangað til hún var orðin hrein. — 4. Mósebók 12:9-15.
10, 11. Hvaða afleiðingar getur mögl haft ef það er ekki stöðvað? Lýstu með dæmi.
10 Það að mögla er ekki það sama og að kvarta undan rangsleitni. Þrálátir möglarar leggja of mikla áherslu á eigin tilfinningar eða stöðu og draga þannig athyglina að sjálfum sér en ekki Guði. Ef þetta er ekki stöðvað veldur það deilum meðal trúbræðra og kemur í veg fyrir að þeir þjóni Jehóva einhuga. Þetta gerist vegna þess að þeir sem mögla kvarta alltaf við aðra, eflaust til að fá þá á sitt band.
11 Til dæmis gæti einhver gagnrýnt það hvernig viss öldungur flytur ræður eða sinnir ábyrgðarstörfum sínum í söfnuðinum. Ef við hlustum á kvörtunarmanninn gætum við farið að hugsa eins og hann. Áður en þessari óánægju var sáð í huga okkar var kannski ekkert við störf öldungsins sem truflaði okkur, en nú erum við á annarri skoðun. Að lokum finnst okkur ekkert sem öldungurinn gerir vera rétt og við förum ef til vill að kvarta undan honum líka. Slík hegðun á ekki heima í söfnuði þjóna Jehóva.
12. Hvað áhrif getur kvörtunarsemi haft á samband okkar við Guð?
12 Þegar fólk möglar gegn hirðum hjarðar Guðs getur það leitt til lastmælis. Slíkt mögl eða lastmæli getur skaðað samband okkar við Jehóva. (2. Mósebók 22:28) Iðrunarlausir lastmælendur erfa ekki Guðsríki. (1. Korintubréf 5:11; 6:10) Lærisveinninn Júdas skrifaði um fólk sem möglaði og ‚mat að engu drottinvald og lastmælti tignum,‘ það er að segja mönnum sem sinntu ábyrgðarstöðum innan safnaðarins. (Júdasarbréfið 8) Þessir möglarar nutu ekki velþóknunar Guðs og það er viturlegt af okkur að forðast illa stefnu þeirra.
13. Hvers vegna eru ekki allar kvartanir Guði vanþóknanlegar?
13 En það eru ekki allar kvartanir Guði vanþóknanlegar. Hann hunsaði ekki „hrópið“ yfir Sódómu og Gómorru heldur eyddi þessum illu borgum. (1. Mósebók 18:20, 21; 19:24, 25) Í Jerúsalem, stuttu eftir hvítasunnu árið 33, „fóru grískumælandi menn að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun.“ „Hinir tólf“ leiðréttu þetta með því að útnefna „sjö vel kynnta menn“ til að sinna því ‚starfi‘ að úthluta matvælum. (Postulasagan 6:1-6) Öldungar nú á dögum mega ekki ‚byrgja eyrun‘ fyrir réttmætum kvörtunum. (Orðskviðirnir 21:13) Og í stað þess að gagnrýna trúbræður sína ættu öldungarnir frekar að hvetja þá og uppörva. — 1. Korintubréf 8:1.
14. Hvaða eiginleiki getur sérstaklega hjálpað okkur að mögla ekki?
14 Við þurfum öll að forðast að mögla því að kvörtunarsemi er andlega óheilnæm. Hún spillir einingunni. Leyfum heldur anda Guðs að glæða með okkur kærleika. (Galatabréfið 5:22) Ef við fylgjum ‚hinu konunglega boðorði kærleikans‘ hjálpar það okkur að halda áfram að þjóna Jehóva einhuga. — Jakobsbréfið 2:8; 1. Korintubréf 13:4-8; 1. Pétursbréf 4:8.
Vörumst rógburð
15. Hver er munurinn á slúðri og rógburði?
15 Við þurfum að vera varkár í orðum því að kvörtunarsemi getur leitt til skaðlegs slúðurs. Slúður er þvaður um fólk og málefni þess. Rógburður er hins vegar ósannindi sem ætluð eru til að skaða mannorð einhvers. Slíkt tal er illt og óguðlegt. Þess vegna sagði Guð Ísraelsmönnum: „Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns.“ — 3. Mósebók 19:16.
16. Hvað sagði Páll um vissa slúðrara og hvaða áhrif ættu ráð hans að hafa á okkur?
16 Þar sem þvaður getur leitt til rógburðar var Páll opinskár þegar hann ávítaði vissa slúðrara. Fyrst minntist hann á ekkjur sem voru hæfar til að þiggja aðstoð frá söfnuðinum. Síðan talaði hann um ekkjur sem höfðu tamið sér „iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala.“ (1. Tímóteusarbréf 5:11-15) Ef kristin kona finnur að hún er gefin fyrir að tala um hluti sem gætu leitt til rógburðar væri viturlegt af henni að fylgja ráðum Páls og vera ‚heiðvirð, ekki rógberi.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:11) Kristnir karlmenn verða auðvitað líka að varast skaðlegt slúður. — Orðskviðirnir 10:19.
Hættið að dæma!
17, 18. (a) Hvað sagði Jesús um það að dæma trúbræður okkar? (b) Hvernig getum við farið eftir þessum orðum Jesú?
17 En jafnvel þótt við rægjum engan gætum við þurft að leggja hart að okkur til að dæma ekki aðra. Jesús fordæmdi slíkt hugarfar þegar hann sagði: „Dæmið ekki, svo að þér verðið ekki dæmdir. Því að með þeim dómi, sem þér dæmið, munuð þér dæmdir, og með þeim mæli, sem þér mælið, mun yður mælt verða. Hví sér þú flísina í auga bróður þíns, en tekur ekki eftir bjálkanum í auga þínu? Eða hvernig fær þú sagt við bróður þinn: ‚Lát mig draga flísina úr auga þér?‘ Og þó er bjálki í auga sjálfs þín. Hræsnari, drag fyrst bjálkann úr auga þér, og þá sérðu glöggt til að draga flísina úr auga bróður þíns.“ — Matteus 7:1-5.
18 Við ættum ekki að voga okkur að bjóðast til að hjálpa bróður okkar með því að draga ‚flís‘ úr auga hans þegar táknrænn „bjálki“ í okkar eigin auga skerðir dómgreind sjálfra okkar. Ef við kunnum virkilega að meta miskunnsemi Guðs höfum við ekki tilhneigingu til að dæma trúsystkini okkar. Við getum ekki skilið þau jafn vel og himneskur faðir okkar gerir. Það er engin furða að Jesús varaði okkur við því að ‚dæma svo að við yrðum ekki dæmd‘! Ef við erum heiðarleg og viðurkennum okkar eigin ófullkomleika ætti það að koma í veg fyrir að við dæmum aðra á þann hátt sem er Guði vanþóknanlegur.
Veikbyggð en verðskulda virðingu
19. Hvernig ættum við að líta á trúsystkini okkar?
19 Ef við erum staðráðin í að þjóna Guði í einingu með trúsystkinum okkar munum við ekki aðeins varast að dæma þau heldur einnig vera fyrri til að veita þeim virðingu. (Rómverjabréfið 12:10) Þá hyggjum við að hag þeirra en ekki okkar eigin og erum fús til að vinna lítilmótleg verk í þeirra þágu með gleði. (Jóhannes 13:12-17; 1. Korintubréf 10:24) Hvernig getum við haft þetta lofsverða viðhorf? Með því að hafa hugfast að allir tilbiðjendur Jehóva eru dýrmætir í augum hans og að við þörfnumst hvert annars, alveg eins og allir limir líkamans eru háðir hver öðrum. — 1. Korintubréf 12:14-27.
20, 21. Hvaða þýðingu hafa orðin í 2. Tímóteusarbréfi 2:20, 21 fyrir okkur?
20 Kristnir menn eru að vísu veikbyggð leirker sem er treyst fyrir dýrmætum fjársjóði — þjónustunni. (2. Korintubréf 4:7) Ef við ætlum að vinna þetta helga starf, Jehóva til lofs, verðum við að vera honum og syni hans til heiðurs. Við verðum að halda okkur siðferðilega og andlega hreinum ef við ætlum að vera ker sem Jehóva getur notað og eru honum til heiðurs. Um þetta skrifaði Páll: „Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker, og sum eru til heiðurs og sum eru til vanheiðurs. Fái nú einhver sig hreinan gjört af þessu, mun hann verða ker til heiðurs, helgað ker og hagfelt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.“ — 2. Tímóteusarbréf 2:20, 21, Biblían 1912.
21 Fólk sem hegðar sér ekki í samræmi við kröfur Guðs er ‚ker til vanheiðurs.‘ En ef við reynum að líkja eftir Guði verðum við ‚ker til heiðurs, helguð eða tekin frá fyrir þjónustu Jehóva og hæf til sérhvers góðs verks.‘ Við getum því spurt sjálf okkur: ‚Er ég „ker til heiðurs“? Hef ég góð áhrif á trúsystkini mín? Stuðla ég að einingu og samvinnu innan safnaðarins?‘
Höldum áfram að þjóna einhuga
22. Við hvað má líkja kristna söfnuðinum?
22 Kristni söfnuðurinn er eins og fjölskylda. Þegar allir í fjölskyldunni tilbiðja Jehóva er andrúmsloftið innan hennar gott og einkennist af kærleika og hjálpsemi. Í hverri fjölskyldu eru oft margir ólíkir persónuleikar en allir hafa þeir sitt virðingarverða hlutverk. Þetta er svipað innan safnaðarins. Þó að við séum öll ólík — og ófullkomin — hefur Guð dregið okkur til sín fyrir milligöngu Krists. (Jóhannes 6:44; 14:6) Jehóva og Jesús elska okkur og við verðum að sýna að við elskum hvert annað eins og fólk gerir í sameinaðri fjölskyldu. — 1. Jóhannesarbréf 4:7-11.
23. Eftir hverju ættum við að muna og hvað ættum við að vera staðráðin í að gera?
23 Við eigum líka að finna hollustu innan þessarar fjölskyldu sem kristni söfnuðurinn er. Páll postuli skrifaði: „Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum [„hollum,“ NW] höndum, án reiði og þrætu.“ (1. Tímóteusarbréf 2:8) Þannig tengir Páll hollustu við opinberar bænir sem kristnir menn fara með hvar sem þeir koma saman. Aðeins menn sem sýna hollustu ættu að koma opinberlega fram fyrir söfnuðinn í bæn. Guð ætlast auðvitað til þess að við sýnum bæði honum og hvert öðru hollustu. (Prédikarinn 12:13, 14) Við skulum því vera staðráðin í að vinna vel saman eins og limir mannslíkamans. Við skulum líka þjóna í einingu og vera hluti af þeirri fjölskyldu sem tilbiður Jehóva. Og umfram allt skulum við muna að við þörfnumst hvert annars og njótum velþóknunar Guðs og blessunar ef við höldum áfram að þjóna honum einhuga.
Hvert er svarið?
• Hvað gerir fólki Jehóva kleift að þjóna honum einhuga?
• Hvers vegna forðast kristnir menn hlutdrægni?
• Hvers vegna telur þú rangt að mögla?
• Hvers vegna ættum við að veita trúbræðrum okkar virðingu?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Pétur skildi að „Guð fer ekki í manngreinarálit.“
[Mynd á blaðsíðu 16]
Veistu af hverju Guð auðmýkti Mirjam?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Dyggir kristnir menn þjóna Jehóva einhuga og með gleði.