NÁMSGREIN 30
Þroskumst í kærleikanum
‚Sýnum kærleika og þroskumst á allan hátt.‘ – EF. 4:15.
SÖNGUR 2 Þú heitir Jehóva
YFIRLITa
1. Hvaða sannindi lærðir þú þegar þú fórst að rannsaka Biblíuna?
MANSTU eftir því þegar þú fórst fyrst að rannsaka Biblíuna? Þú hefur ef til vill verið hissa að uppgötva að Guð á sér nafn. Þér var kannski létt þegar þú uppgötvaðir að Guð kvelur ekki fólk í vítislogum. Og það gladdi þig líklega að komast að því að þú getur fengið að sjá látna ástvini þína aftur og búið með þeim í paradís á jörð.
2. Hvaða framförum tókstu samfara aukinni biblíuþekkingu? (Efesusbréfið 5:1, 2)
2 Kærleikur þinn til Jehóva jókst eftir því sem þú lærðir meira í orði hans. Þessi kærleikur knúði þig til að fara eftir því sem þú lærðir. Þú tókst betri ákvarðanir byggðar á meginreglum Biblíunnar. Viðhorf þín og breytni urðu betri vegna þess að þú vildir gleðja Guð. Þú líktir eftir föður þínum á himnum rétt eins og barn líkir eftir ástríku foreldri. – Lestu Efesusbréfið 5:1, 2.
3. Hvers gætum við spurt okkur?
3 Við gætum spurt okkur: Er kærleikur minn til Jehóva sterkari en þegar ég gerðist vottur? Hef ég tekið framförum í að líkja eftir Jehóva í hugsun og verki eftir að ég lét skírast, sérstaklega í að sýna bræðrum og systrum kærleika? Ekki missa móðinn ef kærleikurinn sem þú hafðir í upphafi hefur kólnað að einhverju leyti. Eitthvað svipað henti suma kristna menn á fyrstu öld. Jesús gafst ekki upp á þeim og hann gefst ekki heldur upp á okkur. (Opinb. 2:4, 7) Hann veit að við getum endurvakið kærleikann sem við höfðum þegar við lærðum sannleikann fyrst.
4. Hvað skoðum við í þessari námsgrein?
4 Í þessari námsgrein ræðum við hvernig við getum haldið áfram að styrkja kærleikann til Jehóva og annarra. Síðan beinum við athyglinni að blessuninni sem við og aðrir njóta þegar við styrkjum kærleika okkar.
STYRKJUM KÆRLEIKANN TIL JEHÓVA
5, 6. Hvaða erfiðleikum mætti Páll postuli í þjónustu sinni en hvað hvatti hann til að halda áfram að þjóna Jehóva?
5 Páll postuli var ánægður í þjónustu Jehóva en hún var samt ekki alltaf auðveld. Hann ferðaðist langar leiðir og ferðalög voru ekki auðveld í þá daga. Hann var stundum á ferðalögum sínum „í hættu í ám“ og „í hættu af völdum ræningja“. Andstæðingar hans beittu hann stundum líkamlegu ofbeldi. (2. Kor. 11:23–27) Og aðrir bræður voru ekki alltaf þakklátir fyrir það sem Páll lagði á sig til að hjálpa þeim. – 2. Kor. 10:10; Fil. 4:15.
6 Hvað hjálpaði Páli að halda áfram í þjónustu Jehóva? Hann kynntist mörgu varðandi persónuleika hans bæði úr Biblíunni og af eigin reynslu. Hann sannfærðist um að Jehóva elskaði hann. (Rómv. 8:38, 39; Ef. 2:4, 5) Og hann fór að elska Jehóva innilega. Páll sýndi kærleika sinn til Jehóva með því að „þjóna hinum heilögu“. – Hebr. 6:10.
7. Hvernig getum við styrkt kærleika okkar til Jehóva?
7 Við getum styrkt kærleika okkar til Guðs með því að vera iðin við að rannsaka orð hans. Þegar þú lest í Biblíunni skaltu reyna að koma auga á hvað hún segir þér um Jehóva. Spyrðu þig: Hvernig sýnir þessi frásaga að Jehóva elskar mig? Hvað er að finna hér sem gefur mér ástæðu til að elska Jehóva?
8. Hvernig getur bænin styrkt kærleika okkar til Guðs?
8 Önnur leið til að styrkja kærleika okkar til Jehóva er að úthella reglulega hjarta okkar í bæn til hans. (Sálm. 25:4, 5) Jehóva svarar bænum okkar. (1. Jóh. 3:21, 22) Khanh er systir í Asíu. Hún segir: „Kærleikur minn til Jehóva byggðist fyrst á þekkingu en sá kærleikur styrktist þegar ég uppgötvaði hvernig hann svaraði bænum mínum. Það varð til þess að mig langaði að gleðja hann.“b
STYRKJUM KÆRLEIKANN TIL ANNARRA
9. Hvernig sýndi Tímóteus að hann tók framförum í að sýna kærleika?
9 Nokkrum árum eftir að Páll gerðist kristinn hitti hann ungan mann að nafni Tímóteus. Tímóteus elskaði Jehóva og hann elskaði fólk. Páll sagði við Filippímenn: „Ég hef engan [Tímóteusi] líkan, engan sem mun láta sér eins einlæglega annt um velferð ykkar.“ (Fil. 2:20) Hér hrósaði Páll Tímóteusi ekki fyrir hæfni hans til að skipuleggja eða að flytja ræður heldur hafði kærleikur hans til bræðra og systra greinilega mikil áhrif á Pál. Söfnuðirnir sem Tímóteus þjónaði hlökkuðu eflaust til heimsókna hans. – 1. Kor. 4:17.
10. Hvernig sýndu Anna og eiginmaður hennar kærleika sinn til bræðra og systra?
10 Við leitum líka leiða til að hjálpa bræðrum okkar og systrum. (Hebr. 13:16) Skoðum reynslu Önnu, sem minnst er á í námsgreininni á undan. Eftir að ofsaveður hafði geisað heimsótti hún ásamt manninum sínum fjölskyldu í söfnuðinum og þau komust að því að þakið á húsi fjölskyldunnar hafði eyðilagst í óveðrinu. Fjölskyldan átti fyrir vikið engin hrein föt. Anna segir: „Við tókum fötin þeirra, þvoðum þau og skiluðum þeim straujuðum og samanbrotnum. Okkur fannst þetta ósköp lítið en þetta varð til þess að við urðum vinir og erum það enn þann dag í dag.“ Kærleikur Önnu og mannsins hennar til bræðra og systra knúði þau til að veita hjálp. – 1. Jóh. 3:17, 18.
11. (a) Hvaða áhrif gæti viðleitni okkar til að sýna öðrum kærleika haft á þá? (b) Hvernig bregst Jehóva við þegar við sýnum kærleika samkvæmt Orðskviðunum 19:17?
11 Þegar við sýnum öðrum kærleika og góðvild geta þeir séð að við erum að reyna að líkja eftir Jehóva. Og þau kunna kannski betur að meta góðvild okkar en við gerum okkur grein fyrir. Khanh, sem áður er minnst á, man vel eftir þeim sem hjálpuðu henni. Hún segir: „Ég er svo þakklát fyrir allar elskulegu systurnar sem tóku mig með í boðunina. Þær sóttu mig, buðu mér að borða með sér og sáu til þess að ég kæmist heil heim. Ég sé núna að þetta var heilmikil fyrirhöfn fyrir þær. Og þær gerðu þetta með gleði.“ Það hafa að sjálfsögðu ekki allir tækifæri til að endurgjalda okkur fyrir það sem við gerum fyrir þá. Khanh segir um þær sem hjálpuðu henni: „Ég vildi að ég gæti endurgoldið þeim allt það góða sem þær gerðu fyrir mig en ég veit ekki einu sinni hvar þær eiga heima. En Jehóva veit það og ég bið til hans að hann endurgjaldi þeim fyrir mig.“ Þetta er rétt hjá Khanh. Jehóva tekur jafnvel eftir minnsta góðverki sem við gerum fyrir aðra. Hann lítur á það sem dýrmæta fórn og skuld við sig sem hann mun endurgjalda. – Lestu Orðskviðina 19:17.
12. Hvernig geta bræður sýnt kærleika sinn til safnaðarins? (Sjá einnig myndir.)
12 Hvernig geturðu sýnt öðrum kærleika og hjálpað þeim ef þú ert bróðir? Ungur bróðir sem heitir Jordan spurði öldung hvernig hann gæti hjálpað meira til í söfnuðinum. Öldungurinn hrósaði honum fyrir þær framfarir sem hann hafði tekið og gaf honum síðan leiðbeiningar um hvað hann gæti gert meira. Hann stakk til dæmis upp á að Jordan kæmi snemma í ríkissalinn til að taka vel á móti öðrum, tæki þátt í samkomunum, boðaði trúna reglulega með starfshópnum sínum og leitaði leiða til að hjálpa öðrum. Þegar Jordan fylgdi þessum leiðbeiningum lærði hann ekki bara nýja færni heldur styrkti líka kærleikann til bræðra og systra. Jordan komst að því að þegar bróðir verður safnaðarþjónn byrjar hann ekki að hjálpa öðrum – hann heldur áfram að hjálpa öðrum. – 1. Tím. 3:8–10, 13.
13. Hvernig hvatti kærleikur Christian til að verða aftur hæfur til að þjóna sem öldungur?
13 Hvað ef þú varst áður safnaðarþjónn eða öldungur? Jehóva man eftir því sem þú gerðir áður og kærleikanum sem hvatti þig til að gera það. (1. Kor. 15:58) Hann tekur líka eftir kærleikanum sem þú sýnir núna. Bróðir sem heitir Christian varð fyrir vonbrigðum þegar hann var tekinn af skrá sem öldungur. Hann segir samt: „Ég ákvað að gera allt sem ég gæti til að þjóna Jehóva af kærleika, hvort sem ég væri öldungur eða ekki.“ Með tímanum var hann aftur útnefndur. Christian viðurkennir: „Ég var svolítið kvíðinn að verða aftur öldungur. En ég ákvað að fyrst Jehóva leyfði mér í miskunn sinni að þjóna aftur sem öldungur ætlaði ég að gera það vegna kærleika míns til hans og bræðra minna og systra.“
14. Hvað lærir þú af því sem systir frá Georgíu segir?
14 Þjónar Jehóva sýna líka náungakærleika. (Matt. 22:37–39) Elena, sem er systir í Georgíu, segir til dæmis: „Í fyrstu var það bara kærleikur minn til Jehóva sem knúði mig í boðuninni. En eftir því sem kærleikurinn til föður míns á himnum jókst, jókst kærleikurinn til náungans líka. Ég reyndi að gera mér í hugarlund hvaða vandamálum fólk stæði andspænis og hvaða umræðuefni gætu snert hjarta þess. Því meir sem ég hugsaði um það þeim mun meira langaði mig að hjálpa því.“ – Rómv. 10:13–15.
JEHÓVA BLESSAR OKKUR ÞEGAR VIÐ SÝNUM ÖÐRUM KÆRLEIKA
15, 16. Hvaða blessun hefur það í för með sér að sýna öðrum kærleika eins og myndirnar sýna?
15 Þegar við sýnum trúsystkinum okkar kærleika eru þau ekki þau einu sem njóta góðs af því. Eftir að COVID-19 faraldurinn skall á hjálpuðu Paolo og konan hans mörgum öldruðum systrum að nota snjalltækin sín í boðuninni. Systir ein sem fannst það erfitt náði að lokum tökum á því. Hún gat notað tækið sitt til að bjóða ættingjum sínum á minningarhátíðina. Sextíu þeirra voru viðstaddir með hjálp fjarfundabúnaðar. Systirin og ættingjar hennar nutu góðs af viðleitni Paolo og konu hans. Síðar skrifaði systirin Paolo: „Takk fyrir að kenna okkur gamla fólkinu. Ég mun aldrei gleyma umhyggju Jehóva og óþreytandi viðleitni ykkar.“
16 Reynsla eins og þessi kenndi Paolo mikilvægan hlut. Hann var minntur á að kærleikurinn er mikilvægari en þekking og hæfileikar. Hann rifjar upp: „Ég var farandhirðir áður. Ég geri mér grein fyrir því að þótt boðberar hafi líklega gleymt ræðunum mínum muna þeir enn þá eftir hagnýtri hjálp sem ég veitti þeim.“
17. Hver nýtur góðs af því þegar við sýnum kærleika?
17 Við njótum oft óvænts gagns af því að sýna öðrum kærleika. Jonathan, sem býr á Nýja Sjálandi, tekur undir þetta. Einn heitan laugardagseftirmiðdag sá hann brautryðjanda einan í boðuninni. Jonathan ákvað að slást í för með honum í boðuninni eftir hádegi á laugardögum. Hann áttaði sig ekki á því þá hversu mikið gagn hann hefði sjálfur af þessu góðverki. „Á þeim tíma fannst mér ekki gaman í boðuninni,“ viðurkennir Jonathan. „En þegar ég fór að fylgjast með kennsluaðferðum brautryðjandans og sá hversu árangursrík boðun hans var fór mér að þykja vænt um þetta starf. Ég eignaðist líka frábæran vin sem hjálpaði mér að taka framförum, njóta þess að vera í boðuninni og styrkja sambandið við Jehóva.“
18. Hvað vill Jehóva að við gerum?
18 Jehóva vill að við styrkjum öll kærleika okkar til hans og annarra. Við styrkjum kærleika okkar til Jehóva með því að lesa í orði hans, hugleiða það og með því að tala reglulega við hann í bæn. Kærleikur okkar til bræðra og systra getur aukist við að rétta þeim hjálparhönd. Eftir því sem kærleikur okkar eykst styrkist sambandið við Jehóva og bræður okkar og systur. Og við munum njóta þessara vináttubanda að eilífu.
SÖNGUR 109 Höfum brennandi kærleika hvert til annars
a Við getum öll tekið framförum hvort sem við erum ný í trúnni eða höfum þjónað Jehóva í mörg ár. Í þessari námsgrein lærum við um mikilvæga leið til þess: að styrkja kærleikann til Jehóva og annarra. Þegar þú hugleiðir efni greinarinnar skaltu velta því fyrir þér hvaða framförum þú hefur þegar tekið og hvernig þú getur tekið enn meiri framförum.
b Sumum nöfnum hefur verið breytt.