Tilfinningaleg líðan
Biblían varar við tilfinningum sem eru okkur skaðlegar og hvetur okkur til að hlúa að hugarfari sem gerir okkur gott.
REIÐI
MEGINREGLA: „Sá sem er seinn til reiði er betri en kappi.“ – Orðskviðirnir 16:32.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Það er okkur til góðs að læra að hafa stjórn á tilfinningunum. Þó að reiði geti stundum verið réttlætanleg er stjórnlaus reiði skaðleg. Þegar fólk er reitt segir það oft eða gerir eitthvað í hita augnabliksins sem það sér síðan eftir.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT: Lærðu að hafa stjórn á reiðinni svo að hún fari ekki að stjórna þér. Þó að sumum finnist stjórnlaus reiði vera merki um styrkleika ættum við að hafa í huga að hún er í rauninni merki um veikleika. Í Biblíunni segir: „Eins og opin borg án borgarmúra, svo er sá maður sem ekki hefur stjórn á skapi sínu.“ (Orðskviðirnir 25:28) Það auðveldar okkur að hafa hemil á reiðinni ef við kynnum okkur staðreyndir mála áður en við bregðumst við. „Það er viska að vera seinn til reiði.“ (Orðskviðirnir 19:11) Við fáum líklega næga innsýn í málið til að geta haft stjórn á tilfinningunum ef við hlustum vel á báðar hliðar þess.
ÞAKKLÆTI
MEGINREGLA: „Verið ... þakklát.“ – Kólossubréfið 3:15.
HVAÐ FELUR ÞAÐ Í SÉR? Sagt hefur verið að þakklæti sé forsenda hamingju. Jafnvel þeir sem hafa orðið fyrir gríðarlegum missi geta tekið undir það. Þeir segja að þakklæti hafi hjálpað þeim að takast á við tilfinningarnar. Þeir einbeittu sér að því sem þeir áttu frekar en því sem þeir höfðu misst.
ÞAÐ SEM ÞÚ GETUR GERT: Hugsaðu á hverjum degi um það sem þú ert þakklátur fyrir. Það þarf ekki að vera neitt stórt. Hugsaðu til dæmis bara um fallega sólarupprás, notalegt samtal sem þú áttir við góðan vin eða einfaldlega að þú skulir vera á lífi. Þetta getur sannarlega bætt tilfinningalega líðan þína – svo framarlega sem þú tekur þér tíma til að taka eftir því og meta það að verðleikum.
Það getur hjálpað mikið að hugleiða hvers vegna þú ert þakklátur fyrir fjölskyldu þína og vini. Og þegar þú veist hvað þú kannt sérstaklega að meta í fari þeirra skaltu segja þeim frá því. Þú getur gert það augliti til auglitis, í bréfi, tölvupósti eða smáskilaboðum. Þá styrkist vinátta ykkar án efa og þú færð að finna ánægjuna af að gefa. – Postulasagan 20:35.
FLEIRI MEGINREGLUR BIBLÍUNNAR
LÁTTU EKKI HAFA ÞIG ÚT Í DEILUR.
„Þegar deila kviknar er sem tekin sé úr stífla, láttu hana því niður falla áður en sennan hefst.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 17:14.
HAFÐU EKKI ÓÞARFAR ÁHYGGJUR AF FRAMTÍÐINNI.
„Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur. Hverjum degi nægja sín vandamál.“ – MATTEUS 6:34.
HUGSAÐU MÁLIN TIL ENDA Í STAÐ ÞESS AÐ BREGÐAST VIÐ ÚT FRÁ TILFINNINGUM.
„Aðgætnin mun vernda þig og hyggindin varðveita þig.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 2:11.