Vertu á verði gegn skaðlegu slúðri!
„Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 10:19.
1. Hve skaðlegt er illkvittið slúður eða rógur?
EKKERT getur breytt banvænu eitri í heilsudrykk. Illgirnislegu slúðri eða rógi hefur verið líkt við eitur sem getur rænt heiðvirðan mann góðu mannorði sínu. Rómverska skáldið Júvenal kallaði róg „versta eitur sem til er.“ Og enska leikritaskáldið William Shakespeare lagði einni af leikritapersónum sínum þessi orð í munn: „Sá sem svertir mannorð mitt steypir mér í fátækt en auðgast ekki sjálfur á ráni sínu.“
2. Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
2 En hvað er slúður? Hvaða munur er á slúðri og rógi? Hvers vegna er nauðsynlegt að vera á verði gegn skaðlegu slúðri? Hvernig er hægt að gera það?
Munurinn
3. Hvaða munur er á slúðri og rógi?
3 Slúður er þvaður, stundum ósatt, um annað fólk og það sem því kemur við. Þar eð við höfum öll áhuga á öðru fólki segjum við stundum það sem er gott og uppbyggjandi um aðra. Rógur er annars eðlis. Rógur er „álygar, ósönn illmæli“ og hefur það markmið að spilla góðu mannorði annars manns. Slíkt tal er yfirleitt illgirnislegt og ókristilegt.
4. Hver getur verið kveikja rógburðar, samkvæmt því sem rithöfundur segir, og af hverju er hann sprottinn?
4 Skaðlaust slúður getur hæglega breyst í illviljaðan róg. Rithöfundurinn Arthur Mee sagði: „Oftar en ekki byrjar rógur, sem skaðar manninn, sem getur orðið honum að falli, með slúðri, því slúðri sem á kannski í fyrstu rætur sínar að rekja til einskis verra en iðjuleysis. Það er eitthvert mesta böl í heimi en er nánast alltaf sprottið af fáfræði. Við rekumst á það einkanlega meðal þeirra sem hafa mjög lítið að gera og ekkert sérstakt markmið í lífinu.“
5. Hvert er inntak heilræða Páls í 1. Tímóteusarbréfi 5:11-15?
5 Með því að skraf og mas manna í milli getur breyst í rógburð varaði Páll postuli við slúðrurum af vissu tagi. Eftir að hafa minnst á ekkjur sem gátu fengið fjárhagsaðstoð safnaðarins sagði hann: „En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist . . . og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala. Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis. Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:11-15.
6. Hvað ætti að gera til að sigrast á veikleika fyrir þess konar slúðri sem getur leitt til rógburðar?
6 Úr því að Páll skrifaði undir innblæstri Guðs var hann ekki að sýna þessum konum neina ósanngirni. Það sem hann sagði er mjög alvarlegt umhugsunarefni. Engin guðrækin kona vill ‚hverfa frá til fylgis við Satan.‘ En hvað þá ef kristin kona kemst að raun um að hún er veik fyrir þess konar tali sem gæti gert hana seka um rógburð? Þá ætti hún í auðmýkt að taka til sín heilræði Páls: „Konur [eiga] að vera heiðvirðar, ekki rógberar.“ Hann sagði einnig: „Svo eiga og aldraðar konur að vera í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir. Þær skulu ekki vera rógberar.“ (1. Tímóteusarbréf 3:11; Títusarbréfið 2:3) Bræður ættu einnig að fylgja þessu viturlega ráði.
7. Hvaða biblíuleg rök eru fyrir því að við ættum öll að gæta tungu okkar?
7 Að sjálfsögðu tölum við öll um annað fólk stundum, það sem hendir það í þjónustunni á akrinum og svo framvegis. Við skulum hins vegar aldrei ‚sitja og bakmæla bróður okkar.‘ (Sálmur 50:19, 20) Það er í sannleika sagt viturlegt að tala ekki of mikið vegna þess að „málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.“ (Orðskviðirnir 10:19) Við ættum því að forðast slúður, jafnvel þótt það virðist ekki vera skaðlegt. Það er engin þörf á að tala í sífellu um annað fólk því að við höfum ótalmargt gott til að ræða um ef við hugleiðum það sem er rétt, hreint, elskuvert, göfugt og gott afspurnar. — Filippíbréfið 4:8.
Þannig verður slúður að rógi
8. Hvers vegna er ekki alltaf rangt að tala um trúbræður okkar?
8 Það er ekkert skaðlegt að tala um þjónustuna á akrinum og önnur guðrækileg verk trúbræðra okkar ef við segjum rétt frá og ekkert tjón hlýst af því. Jákvæðar athugasemdir af því tagi geta meira að segja verið öðrum til hvatningar. (Samanber Postulasöguna 15:30-33.) Sumir kristnir menn töluðu um hinn trúfasta öldung Gajus. Jóhannes postuli skrifaði honum: „Þú breytir dyggilega, minn elskaði, í öllu sem þú vinnur fyrir bræðurna og jafnvel ókunna menn. Þeir hafa vitnað fyrir söfnuðinum um kærleika þinn.“ (3. Jóhannesarbréf 5, 6) Það er því ekki alltaf rangt að tala um kristna bræður okkar.
9. (a) Hvernig getur gaspur um daginn og veginn breyst í rógburð? (b) Hvaða spurninga væri rétt að við spyrðum okkur?
9 Mas manna í milli getur samt sem áður breyst í róg gegn heiðvirðum mönnum ef við förum að hnýsast í einkamál þeirra, dylgja um hvatir þeirra og tilefni eða vekja grunsemdir um breytni þeirra. Við gætum tamið okkur að spyrja okkur spurninga svo sem: Getur það sem ég segi skaðað mannorð annars manns? Er það satt sem ég segi? (Opinberunarbókin 21:8) Myndi ég segja hið sama í návist hans? Getur það sáð sundurlyndi í söfnuðinum? Gætu orð mín orðið þess valdandi að hann glataði þjónustusérréttindum? Getur verið að öfund búi í hjarta mínu? (Galatabréfið 5:25, 26; Títusarbréfið 3:3) Ætli ávöxtur orða minna verði góður eða slæmur? (Matteus 7:17-20) Hefði ég sagt eitthvað svipað um postulana? (2. Korintubréf 10:10-12; 3. Jóhannesarbréf 9, 10) Er slíkt tal sæmandi þeim sem bera lotningu fyrir Jehóva?
10, 11. Hvað munum við ekki gera, samkvæmt Sálmi 15:1, 3, ef við þráum að vera gestir Guðs?
10 Sálmur 15:1 vísar óbeint til þeirra sem bera lotningu fyrir Guði þegar þar er spurt: „[Jehóva], hver fær að gista í tjaldi þínu, hver fær að búa á fjallinu þínu helga?“ Davíð svarar hver fái notið slíkra sérréttinda: „Sá er eigi talar róg með tungu sinni, eigi gjörir öðrum mein og eigi leggur náunga sínum svívirðing til.“ (Sálmur 15:3) Orðin „talar róg“ eru hér þýðing hebreskrar sagnar sem merkir „að ganga.“ Ísraelsmönnum var boðið: „Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns.“ (3. Mósebók 19:16) Sá er ‚gengur um sem rógberi‘ er ekki gestur Guðs né vinur.
11 Vinir Guðs gera félögum sínum ekkert illt og taka ekki við sem sannleika nokkurri illmælgi um ráðvanda vini sína eða kunningja. Í stað þess að breiða út kjaftasögur um trúbræður sína og auka þar með á þær álygar óguðlegra manna, sem þeir þurfa að bera nú þegar, ættum við að tala vel um þá. Við ættum aldrei að vilja þyngja byrðar trúfastra bræðra okkar og systra með því að tala illa um þau.
Þegar erfiðleikar koma upp
12. Hvernig getur Postulasagan 15:36-41 hjálpað okkur ef við finnum okkar freistað til að slúðra um þann sem við eigum í ósætti við?
12 Með því að við erum ófullkomin kann okkur að þykja freistandi að tala illa um einhvern þann sem við höfum átt í alvarlegu ósætti við. En lítum á sem dæmi hvað gerðist þegar Páll postuli var í þann mund að leggja af stað í aðra trúboðsferð sína. Barnabas var ráðinn í að hafa Markús með í förinni en Páll var á öðru máli því að hann hafði „skilið . . . við þá í Pamfýlíu og ekki gengið að verki með þeim.“ Það olli því að þeim varð „mjög sundurorða“ og skildu leiðir með þeim. Barnabas tók Markús með sér til Kýpur en Páll tók Sílas með sér um Sýrland og Kilikíu. (Postulasagan 15:36-41) Síðar var missætti þeirra Páls, Barnabasar og Markúsar greinilega úr sögunni því að Markús var með postulanum í Róm og Páll bar honum gott orð. (Kólossubréfið 4:10) Jafnvel þótt missætti hafi komið upp bendir ekkert til þess að þessir kristnu menn hafi slúðrað hver um annan meðal trúbræðra sinna.
13. Undir hvaða kringumstæðum forðaðist Páll hugsanlega freistingu til að slúðra um kristinn bróður?
13 Páll spornaði einnig gegn hugsanlegri freistingu í þá átt að fara með skaðlegt slúður er hann áminnti Kefas (Pétur) sem hafði ekki þorað að matast með eða hafa félagsskap við trúaða menn af þjóðunum, vegna kristinna manna af hópi Gyðinga frá Jerúsalem sem voru nærstaddir. Í stað þess að baktala Pétur andmælti Páll honum „upp í opið geðið . . . í allra áheyrn.“ (Galatabréfið 2:11-14) Pétur slúðraði ekki heldur um Pál eftir áminninguna. Síðar talaði hann um hann sem ‚hinn elskaða bróður vorn, Pál.‘ (2. Pétursbréf 3:15) Jafnvel þótt trúbróðir þurfi á leiðréttingu að halda er það engin afsökun fyrir því að slúðra um hann. Það eru ærnar ástæður til að varast slíkt tal og sporna gegn freistingunni til að útbreiða skaðlegt slúður.
Hvers vegna þarf að vera á verði?
14. Hver er meginástæðan fyrir því að við ættum ekki að hlusta á eða útbreiða skaðlegt slúður?
14 Meginástæðan fyrir því að við ættum ekki að hlusta á skaðlegt slúður eða taka þátt í að útbreiða það er sú að við viljum þóknast Jehóva sem fordæmir rógburð. Eins og bent hefur verið á kom viðhorf Guðs til rógburðar skýrt fram er hann bauð Ísraelsmönnum: „Þú skalt eigi ganga um sem rógberi meðal fólks þíns og eigi krefjast blóðs náunga þíns. Ég er [Jehóva].“ (3. Mósebók 19:16) Ef við eigum að njóta velvildar Guðs megum við því ekki rægja nokkurn þann sem við kunnum að minnast á í samræðum okkar.
15. Hver er fremsti rógberinn og hvaða áhrif getur það haft á samband okkar við Guð ef við gerumst sek um skaðlegt slúður?
15 Önnur ástæða til að forðast skaðlegt slúður er sú að það gæti leitt okkur út í að líkjast Satan, mesta rógbera gegn Jehóva. Þessum erkióvini Guðs var réttilega gefið nafnið „djöfull“ (á grísku diabolos) sem merkir „rógberi.“ Þegar Eva hlustaði á rógburð Satans gegn Guði og lét hann hafa áhrif á sig olli það vináttuslitum fyrstu mannlegu hjónanna og besta vinar þeirra. (1. Mósebók 3:1-24) Við skulum aldrei falla í gildrur Satans og gera okkur sek um skaðlegt tal sem kallar yfir okkur vanþóknun Guðs og getur þar af leiðandi gert okkur viðskila við besta vin okkar, Jehóva Guð.
16. Hvernig veldur rógberi ‚vinaskilnaði‘?
16 Við ættum ekki að hlusta á illgjarna slúðrara því að þeir valda vinaskilnaði. Oft ýkja slúðrarar, segja rangt frá, ljúga og æsa með illmælgi sinni. Í stað þess að tala við mann augliti til auglitis hvísla þeir að baki honum. Oft vekja þeir tilhæfulausar grunsemdir í garð annarra. Þannig ‚veldur rógberinn vinaskilnaði.‘ — Orðskviðirnir 16:28.
17. Hvers vegna ættum við að gæta þess að temja okkur ekki innihaldslítið gaspur?
17 Við ættum jafnvel að varast það að temja okkur létt gaspur úr hófi fram. Hvers vegna? Vegna þess að athugasemd, sem ekki var ætlað að særa neinn, getur orðið skaðleg ef hún er endurtekin. Hún getur verið ýkt eða færð í stílinn uns hún skaðar mannorð guðrækins manns og rænir hann góðum orðstír. Hvernig myndi þér líða ef það gerðist og þú hefðir orðið fyrstur til að segja söguna eða látið hana berast? Fólk kynni að líta svo á þig sem þér væri trúandi til að tala illa um aðra og forðast félagsskap þinn. — Samanber Orðskviðina 20:19.
18. Hvernig getur sá sem slúðrar gert sjálfan sig að lygara?
18 Þá er ástæða til að vera á varðbergi af þeim sökum að skaðlegt slúður getur gert þig að lygara. „Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans.“ (Orðskviðirnir 26:22) Hvað gerist ef þú gleypir við lygum og endurtekur þær? Nú, jafnvel þótt þú haldir lygarnar vera sannleika ert þú eftir sem áður að ljúga ef þú útbreiðir þær. Þegar í ljós kemur að um lygi er að ræða kannt þú að vera álitinn lygari. Langar þig til að það gerist? Gerir Guð ekki falskennara ábyrga fyrir trúarlegum lygum? Jú, og hann mun láta rógberann svara til saka. Jesús aðvaraði: „Hvert ónytjuorð, sem menn mæla, munu þeir verða að svara fyrir á dómsdegi. Því af orðum þínum muntu sýknaður, og af orðum þínum muntu sakfelldur verða.“ (Matteus 12:36, 37) Með því að „sérhver af oss [þarf] að lúka Guði reikning fyrir sjálfan sig,“ myndir þú vilja að hann fordæmdi þig sem lygara og rógbera? — Rómverjabréfið 14:12.
19. Hvers vegna er hægt að segja að skaðlegt slúður geti jaðrað við morð?
19 Enn ein ástæða fyrir því að fara ekki með skaðlegt slúður er sú að það jaðrar við morð. Það getur verið banvænt, eyðilagt gott mannorð saklauss manns. Tungur sumra eru eins og ‚beitt sverð‘ og hvöss orð eru eins og örvaskot úr launsátri á flekklausan mann. Davíð bað Jehóva: „Skýl mér fyrir bandalagi bófanna, fyrir óaldarflokki illvirkjanna, er hvetja tungur sínar sem sverð, leggja örvar sínar, beiskyrðin, á streng til þess að skjóta í leyni á hinn ráðvanda.“ (Sálmur 64:3-5) Myndir þú vilja gera þig sekan um slík illyrði um annan mann að hann fyndi sig knúinn til að biðja Guð um að létta af sér álaginu, líkt og sálmaritarinn? Vilt þú gera þig sekan um það sem jaðrar við morð?
20. (a) Hvernig getur farið fyrir iðrunarlausum rógbera í söfnuði Guðs? (b) Hvers verða öldungarnir að gæta í sambandi við slúður og rógburð?
20 Rógburður getur leitt til brottrekstrar úr skipulagi Guðs. Rógberi kann að vera gerður rækur úr söfnuðinum, ef til vill sem iðrunarlaus lygari. Ekki er þó gripið til slíkra aðgerða gegn þeim sem eru sekir um lítilsháttar slúður. Öldungarnir ættu að íhuga málin vandlega og leggja þau fyrir Jehóva í bæn, og gera skýran greinarmun á slúðri og illviljuðum rógi. Til að verðskulda brottrekstur þarf syndarinn að vera illviljaður, iðrunarlaus rógberi. Öldungarnir hafa ekki vald til að gera nokkurn mann rækan fyrir smávægilegt slúður sprottið af mannlegum áhuga en hvorki ósatt né illviljað. Það má ekki gera úlfalda úr mýflugu og það verða að vera vitni sem geta borið með órækum hætti að um róg hafi verið að ræða. (1. Tímóteusarbréf 5:19) Iðrunarlausir rógberar eru gerðir rækir fyrst og fremst til að stöðva illskeytt slúður og forða söfnuðinum frá því að gagnsýrast synd. (1. Korintubréf 5:6-8, 13) Öldungarnir ættu þó aldrei að vera svo fljótfærir að gera einhvern rækan úr söfnuðinum án biblíulegra forsendna. Með bæn og góðum leiðbeiningum tekst þeim oft að hjálpa einstaklingi að iðrast, biðjast fyrirgefningar eða bæta með öðrum hætti fyrir misgerðir sínar og taka framförum í að temja tungu sína.
Er það rógburður?
21. Hvað ættir þú að gera í stað þess að slúðra um syndara?
21 Viturlegur orðskviður segir: „Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund leynir sökinni.“ (Orðskviðirnir 11:13) Ber að skilja þetta svo að það væri rógburður að segja frá ef þú vissir af því að einhver annar væri sekur um grófa synd þótt leynt færi? Nei. Að sjálfsögðu ættir þú ekki að slúðra um það. Þú ættir að tala við syndarann og hvetja hann til að leita hjálpar öldunganna. (Jakobsbréfið 5:13-18) Ef hann er ekki búinn að því að hæfilegum tíma liðnum ætti umhyggja þín fyrir hreinleika safnaðarins að koma þér til að skýra öldungunum frá. — 3. Mósebók 5:1.
22. Hvernig má segja að 1. Korintubréf 1:11 gefi okkur ekki heimild til að slúðra?
22 Slík uppljóstrun getur orðið til þess að syndarinn fái aga og það virðist ekkert gleðiefni. Engu að síður uppsker sá maður réttlæti sem tekur aga. (Hebreabréfið 12:11) Skýra ætti þeim sem eru til þess skipaðir að taka á rangri breytni frá henni, ekki slúðrurum sem myndu blaðra um hana við aðra. Páll sagði kristnum mönnum í Korintu: „Mér hefur verið tjáð um yður, bræður mínir, af heimilismönnum Klóe, að þrætur eigi sér stað á meðal yðar.“ (1. Korintubréf 1:11) Var fólk úr þessari fjölskyldu að slúðra um trúbræður sína? Nei, ábyrgum öldungi var skýrt frá sem gat gert það sem nauðsynlegt var til þess að hjálpa þeim sem þurftu að ná aftur fótfestu á vegi lífsins.
23. Hvaða spurningar eru enn óræddar?
23 Ef við hjálpum öðrum að forðast skaðlegt slúður erum við að gera honum gott. Orðskviður segir: „Sá sem gætir munns síns, varðveitir líf sitt, en glötun er búin þeim, er ginið glennir.“ (Orðskviðirnir 13:3) Ljóst er því að það er ærin ástæða til að varast skaðlegt slúður og illviljaðan rógburð. En hvernig er hægt að stöðva skaðlegt slúður? Það er umfjöllunarefni greinarinnar á eftir.
Hverju svarar þú?
◻ Hver er munurinn á smávægilegu slúðri og rógburði?
◻ Hvernig getur slúður breyst í róg?
◻ Nefndu nokkrar ástæður til að varast skaðlegt slúður.
◻ Hvers vegna er það ekki slúður ef við skýrum frá grófri synd einhvers?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Gættu þess vandlega að gerast aldrei sekur um að skjóta mann í bakið með því að slúðra um hann.