Jehóva getur veitt þér kraft
„Hann veitir kraft hinum þreytta og gnógan styrk hinum þróttlausa.“ — JESAJA 40:29.
1, 2. Nefndu nokkur merki um hinn ríkulega kraft Jehóva.
JEHÓVA er Guð sem er „ríkur að veldi.“ Við getum séð sannanir fyrir ‚eilífum krafti hans og guðdómleika‘ í mikilfengleik hins efnislega sköpunarverks hans. Þeir sem viðurkenna ekki slík sönnunargögn fyrir því að hann sé skapari alls eru án afsökunar. — Sálmur 147:5; Rómverjabréfið 1:19, 20.
2 Kraftur Jehóva verður því ljósari sem vísindamenn rýna lengra út í alheiminn, með óteljandi vetrarbrautum hans sem teygja sig hundruð milljónir ljósára. Horfðu á himininn á dimmri, heiðskírri nóttu og vittu hvort þér líður ekki eins og sálmaritaranum: „Þegar ég horfi á himininn, verk handa þinna, tunglið og stjörnurnar, er þú hefir skapað, hvað er þá maðurinn þess, að þú minnist hans, og mannsins barn, að þú vitjir þess?“ (Sálmur 8:4, 5) Og hversu vel hefur ekki Jehóva séð um manninn, um okkur! Hann sá fyrsta manninum og konunni fyrir fögru, jarðnesku heimili. Jafnvel jarðvegurinn bjó yfir krafti — til að láta spretta af sér gróður og gefa af sér næringarríka og ómengaða fæðu. Menn og dýr sækja líkamsþrótt í þann kraft sem Guð sýnir af sér með þessum hætti. — 1. Mósebók 1:12; 4:12; 1. Samúelsbók 28:22.
3. Hvað annað en hinn sýnilegi alheimur ber vitni um kraft Guðs?
3 Ekki er nóg með það að himinninn sé hrífandi og gróður og dýralíf jarðar unaðslegt, heldur sýnir það okkur líka kraft Guðs. Páll postuli skrifaði: „Hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans.“ (Rómverjabréfið 1:20) En það er annað merki kraftar hans sem við ættum að gefa gaum að og vera þakklát fyrir. ‚Hvað sýnir okkur kraft Guðs betur en alheimurinn?‘ spyrð þú kannski með sjálfum þér. Svarið er Jesús Kristur. Vegna innblásturs segir Páll postuli meira að segja að Kristur staurfestur sé ‚kraftur Guðs og speki Guðs.‘ (1. Korintubréf 1:24) ‚Hvernig þá?‘ spyrð þú kannski, ‚og hvernig tengist það lífi mínu núna?‘
Kraftur fyrir milligöngu sonar hans
4. Hvernig birtist kraftur Guðs í tengslum við son hans?
4 Kraftur Guðs sýndi sig fyrst þegar hann skapaði eingetinn son sinn í sinni mynd. Þessi andasonur þjónaði Jehóva sem „verkstýra“ með því að nota ríkulegan kraft Guðs til að skapa alla aðra hluti. (Orðskviðirnir 8:22, 30) Páll skrifaði kristnum bræðrum sínum í Kólossu: „Enda var allt skapað í honum í himnunum og á jörðinni, hið sýnilega og hið ósýnilega . . . Allt er skapað fyrir hann og til hans.“ — Kólossubréfið 1:15, 16.
5-7. (a) Hvernig birtist kraftur Guðs meðal manna til forna? (b) Hvaða ástæða er til að trúa að kraftur Guðs geti birst í þágu kristinna manna nú á tímum?
5 Við erum hluti af ‚því sem skapað er á jörðinni.‘ Getur kraftur Guðs þá náð til okkar mannanna? Í samskiptum sínum við ófullkomna menn hefur Jehóva af og til gefið þjónum sínum sérstakan kraft til að framkvæma tilgang sinn. Móse vissi að venjulegt æviskeið manna er 70 eða 80 ár. (Sálmur 90:10) Hvað um Móse sjálfan? Hann náði 120 ára aldri en þó „glapnaði honum [ekki] sýn, og eigi þvarr þróttur hans.“ (5. Mósebók 34:7) Enda þótt þetta þýði ekki að Guð geri öllum þjónum sínum kleift að lifa svo lengi eða halda slíkum þrótti sannar það að Jehóva getur gefið mönnum kraft.
6 Það sem Guð gerði fyrir konu Abrahams sýnir enn fremur að hann getur gefið bæði körlum og konum kraft. „Fyrir trú öðlaðist Sara kraft til að eignast son, og þó var hún óbyrja og komin yfir aldur. Hún treysti þeim, sem fyrirheitið hafði gefið.“ Eða líttu á hvernig Guð gaf dómurum og öðrum í Ísrael kraft: ‚Gídeon, Barak, Samson og Jefta, og Davíð, Samúel og spámennirnir . . . urðu styrkir, þótt áður væru þeir veikir.‘ — Hebreabréfið 11:11, 32-34, neðanmáls.
7 Slíkur kraftur getur birst í okkar þágu líka. Við búumst sjálfsagt ekki við að eignast barn með kraftaverki nú á tímum eða að fá afl á við Samson. En við getum samt fengið kraft eins og Páll nefnir við ósköp venjulega menn í Kólossu. Já, Páll skrifaði körlum, konum og börnum eins og við þekkjum í söfnuðunum nú á tímum, og hann sagði að þau væru ‚styrkt með alls konar krafti.‘ — Kólossubréfið 1:11, Bi. 1912.
8, 9. Hvernig kom kraftur Jehóva fram á fyrstu öldinni í sambandi við menn eins og okkur?
8 Meðan jarðnesk þjónusta Jesú stóð yfir lét Jehóva skýrt í ljós að kraftur hans starfaði fyrir atbeina sonar hans. Þegar menn komu til dæmis hópum saman til Jesú í Kapernaum var „kraftur [Jehóva] . . . með honum til þess að lækna.“ — Lúkas 5:17.
9 Eftir upprisu sína fullvissaði Jesús fylgjendur sína um að þeir ‚fengju kraft er heilagur andi kæmi yfir þá.‘ (Postulasagan 1:8) Það rættist svo sannarlega! Sagnaritari skýrir frá gangi mála fáeinum dögum eftir hvítasunnuna árið 33: „Postularnir báru vitni um upprisu Drottins Jesú með miklum krafti.“ (Postulasagan 4:33) Páll var sjálfur einn þeirra sem fékk kraft til þess starfs sem Guð fól honum að vinna. Eftir að hann hafði snúist til trúar og fengið sjónina aftur „efldist [hann] æ meir og gjörði þá Gyðinga, sem bjuggu í Damaskus, rökþrota, er hann sannaði, að Jesús væri Kristur.“ — Postulasagan 9:22.
10. Hvernig kom kraftur frá Guði Páli til hjálpar?
10 Vissulega þurfti Páll að fá sérstakan kraft þegar haft er í huga hvílíkt hugarþrek og hvílíkan andlegan þrótt þurfti til að fara í þrjár trúboðsferðir og ferðast mörg þúsund kílómetra. Hann þoldi líka alls konar þrengingar, meðal annars sat hann í fangelsi og stóð frammi fyrir píslarvættisdauða. Hvernig réð hann við það? Hann svaraði: „Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina.“ — 2. Tímóteusarbréf 4:6-8, 17; 2. Korintubréf 11:23-27.
11. Hvaða von lét Páll í ljós um samþjóna sína í Kólossu í sambandi við kraft Guðs?
11 Það kemur því ekki á óvart að Páll skyldi í bréfi sínu til ‚bræðranna í Kólossu sem eru í Kristi,‘ fullvissa þá um að þeir gætu ‚styrkst með hvers konar krafti eftir dýrðarmætti Jehóva, svo að þeir fylltust þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi með gleði.‘ (Kólossubréfið 1:2, 11, Bi. 1912) Þótt þessum orðum væri fyrst og fremst beint til smurðra kristinna manna geta allir, sem feta í fótspor Krists, haft mikið gagn af því sem Páll skrifaði.
Veittur kraftur í Kólossu
12, 13. Hvert var tilefni bréfsins til Kólossumanna og hver er líklegt að viðbrögðin hafi verið?
12 Söfnuðurinn í Kólossu í rómverska skattlandinu Asíu var sennilega stofnaður vegna prédikunar trúfasts kristins manns sem hét Epafras. Þegar hann frétti að Páll væri fangi í Róm um árið 58 virðist hann hafa afráðið að heimsækja postulann og uppörva hann með góðum fréttum af kærleika og staðfestu bræðra hans í Kólossu. Líklegt er að Epafras hafi einnig flutt Páli sannorða lýsingu á vandamálum í söfnuðinum í Kólossu sem taka þurfti á. Páll fann þá hjá sér hvöt til að skrifa söfnuðinum hvatningar- og áminningarbréf. Þú getur líka sótt mikla hvatningu í fyrsta kafla þessa bréfs því að það varpar ljósi á hvernig Jehóva getur veitt þjónum sínum kraft.
13 Þú getur ímyndað þér hvernig bræðrunum og systrunum í Kólossu hlýtur að hafa verið innanbrjósts þegar Páll kallaði þau ‚trúaða bræður sem eru í Kristi.‘ Þau áttu hrós skilið fyrir ‚kærleikann, sem þau báru til allra heilagra,‘ og fyrir að ‚bera ávöxt fagnaðarerindisins‘ allt frá því þau gerðust kristin! Er hægt að segja þetta sama um söfnuðinn okkar og um okkur sem einstaklinga? — Kólossubréfið 1:2-8.
14. Hvað þráði Páll í sambandi við Kólossumenn?
14 Páll var svo snortinn af fréttunum, sem hann fékk, að hann sagði Kólossumönnum að hann hefði ekki látið af að biðja fyrir þeim að þeir mættu ‚fyllast þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans svo að þeir hegðuðu sér eins og Jehóva er samboðið.‘ Hann bað þess að þeir ‚fengju borið ávöxt í öllu góðu verki og yxu að þekkingu á Guði og mættu styrkjast á allan hátt með dýrðarmætti Guðs, svo að þeir fylltust þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi með gleði.‘ — Kólossubréfið 1:9-11.
Kraftur líka veittur nú á dögum
15. Hvernig getum við sýnt sama hugarfar og kemur fram í bréfi Páls til Kólossumanna?
15 Páll gaf okkur sannarlega gott fordæmi! Bræður okkar um heim allan þarfnast bæna okkar til að þeir geti verið þolgóðir og haldið gleði sinni þrátt fyrir þjáningar sínar. Líkt og Páll ættum við að vera markviss í bænum okkar þegar við fréttum að bræður okkar í öðrum söfnuði eða öðru landi eigi við erfiðleika að stríða. Vera má að grannsöfnuður okkar hafi orðið fyrir náttúruhamförum eða lent í einhverjum andlegum erfiðleikum. Eða þá að kristnir menn þurfi að þrauka í landi þar sem geisar borgarastríð eða ættflokkar berast á banaspjót. Við ættum að biðja Guð í bæn að hjálpa bræðrum okkar að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið,‘ að halda þolgóðir áfram að bera ávöxt Guðsríkis og að vaxa í þekkingu. Á þennan hátt fá þjónar Guðs kraft anda hans til að ‚styrkjast með hvers konar krafti.‘ Þú mátt vera viss um að faðir þinn heyrir og svarar bæn þinni. — 1. Jóhannesarbréf 5:14, 15.
16, 17. (a) Hvað ættum við að vera þakklát fyrir eins og Páll skrifaði? (b) Í hvaða skilningi hefur fólk Guðs verið frelsað og fyrirgefið?
16 Páll skrifaði að Kólossumenn ættu að ‚þakka föðurnum sem hefði gert þá hæfa til að fá hlutdeild í arfleifð heilagra í ljósinu.‘ Við skulum líka þakka himneskum föður okkar fyrir að eiga sess innan fyrirkomulags hans, hvort heldur er á himnesku eða jarðnesku yfirráðasvæði ríkis hans. Hvernig gerði Guð ófullkomna menn hæfa til þess frá sjónarhóli sínum? Páll skrifaði smurðum bræðrum sínum: „Hann hefur frelsað oss frá valdi myrkursins og flutt oss inn í ríki síns elskaða sonar. Í honum eigum vér endurlausnina, fyrirgefningu synda vorra.“ — Kólossubréfið 1:12-14.
17 Hvort heldur von okkar er himnesk eða jarðnesk þökkum við Guði daglega fyrir að hafa frelsað okkur frá þessu illa kerfi myrkursins vegna trúar okkar á hina dýrmætu lausnarfórn sem Jehóva færði er hann gaf ástkæran son sinn. (Matteus 20:28) Andasmurðir kristnir menn hafa notið góðs af því að lausnargjaldið skuli hafa verið notað í þeirra þágu á sérstakan hátt, þannig að hægt væri að ‚flytja þá inn í ríki hins elskaða sonar Guðs.‘ (Lúkas 22:20, 29, 30) En hinir ‚aðrir sauðir‘ njóta einnig góðs af lausnargjaldinu nú þegar. (Jóhannes 10:16) Þeir geta hlotið fyrirgefningu Guðs þannig að þeir standi réttlættir frammi fyrir honum sem vinir hans. Þeir eiga stóran þátt í að prédika „þetta fagnaðarerindi um ríkið“ núna á endalokatímanum. (Matteus 24:14) Auk þess hafa þeir þá undursamlegu von að verða algerlega réttlættir og líkamlega fullkomnir við lok þúsundáraríkis Krists. Þegar þú lest lýsinguna í Opinberunarbókinni 7:13-17 ertu sennilega sammála því að hún sé sönnun fyrir frelsun og blessun.
18. Hvaða sáttum, sem nefndar eru í Kólossubréfinu, er Guð enn að vinna að?
18 Bréf Páls hjálpar okkur að gera okkur grein fyrir þeirri miklu þakkarskuld sem við stöndum í við mesta mikilmenni sem lifað hefur. Hverju áorkaði Guð fyrir milligöngu Krists? Hann lét hann „koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu og himnum, með því að semja frið með blóði sínu úthelltu“ á kvalastaur. Það er tilgangur Guðs að gera alla sköpunina fullkomlega samstillta sjálfum sér eins og hún var fyrir uppreisnina í Eden. Sá sem var notaður til að skapa alla hluti er sá og hinn sami og hann notar núna til að koma þessum sættum á. — Kólossubréfið 1:20.
Gefinn kraftur í hvaða tilgangi?
19, 20. Undir hverju er það komið að við séum heilagir og lýtalausir?
19 Þeim sem sættast við Guð er lögð ábyrgð á herðar. Við vorum einu sinni syndug og fjarlæg Guði. En núna höfum við sett trú okkar á fórn Jesú og hugurinn dvelur ekki lengur við vond verk, þannig að við stöndum í reynd ‚heilagir og lýtalausir og óaðfinnanlegir‘ frammi fyrir Guði. (Kólossubréfið 1:21, 22) Hugsaðu þér, eins og Guð fyrirvarð sig ekki fyrir trúfasta votta sína til forna, eins fyrirverður hann sig ekki fyrir okkur, að kallast Guð okkar. (Hebreabréfið 11:16) Enginn getur ásakað okkur núna um að bera hið dýrlega nafn hans ranglega eða um að vera hræddir við að boða þetta nafn til endimarka jarðar!
20 En tökum eftir viðvöruninni sem Páll lætur fylgja í Kólossubréfinu 1:23: „Standið aðeins stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvikið ekki frá von fagnaðarerindisins, sem þér hafið heyrt og prédikað hefur verið fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ Mikið veltur á því að við höldum áfram að vera Jehóva trúföst og fetum í fótspor hins ástkæra sonar hans. Jehóva og Jesús hafa gert svo margt fyrir okkur! Megum við sýna þeim kærleika okkar með því að fylgja ráðleggingum Páls.
21. Hvers vegna höfum við ríka ástæðu til að vera spennt nú á tímum?
21 Kristnir menn í Kólossu hljóta að hafa verið yfir sig hrifnir að heyra að ‚fagnaðarerindið, sem þeir höfðu heyrt,‘ hefði þá þegar verið „prédikað . . . fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.“ Núna er jafnvel enn meira spennandi að heyra í hvaða mæli langt yfir fjórar og hálf milljón votta í liðlega 230 löndum prédikar fagnaðarerindið um ríkið. Á ári hverju sættast næstum 300.000 manns af öllum þjóðum við Guð! — Matteus 24:14, 28:19, 20.
22. Hvað getur Guð gert fyrir okkur jafnvel þótt við þjáumst?
22 Enda þótt Páll hafi, að því er best verður séð, setið í fangelsi þegar hann skrifaði bréfið til Kólossumanna harmaði hann ekki hlutskipti sitt á nokkurn hátt. Þess í stað sagði hann: „Nú er ég glaður í þjáningum mínum yðar vegna.“ Páll vissi hvað það þýddi að ‚fyllast þolgæði í hvívetna og umburðarlyndi með gleði.‘ (Kólossubréfið 1:11, 24) En hann vissi að hann gerði það ekki í eigin krafti. Jehóva hafði veitt honum kraft! Eins er það nú á dögum. Þúsundir votta, sem hafa verið fangelsaðar eða ofsóttar, hafa ekki misst gleði sína í þjónustu Jehóva. Þeir hafa þess í stað gert sér grein fyrir sannleiksgildi orða Guðs í Jesaja 40:29-31: „Hann veitir kraft hinum þreytta . . . Þeir, sem vona á [Jehóva], fá nýjan kraft.“
23, 24. Hver er leyndardómurinn sem nefndur er í Kólossubréfinu 1:26?
23 Þjónusta fagnaðarerindisins, sem fjallar um Krist, var Páli mjög hugleikin. Hann vildi að aðrir lærðu að meta gildi þess hlutverks sem Kristur gegnir í tilgangi Guðs þannig að hann kallaði það „leyndardóminn, sem hefur verið hulinn frá upphafi tíða og kynslóða. En hann átti ekki að vera leyndardómur endalaust. Páll bætti við: „Nú hefur hann verið opinberaður Guðs heilögu.“ (Kólossubréfið 1:26) Þegar uppreisnin braust úr í Eden gaf Jehóva fyrirheit um eitthvað betra sem væri í vændum og sagði fyrir að ‚sæði konunnar myndi merja höfuð höggormsins.‘ (1. Mósebók 3:15) Hvað merkti það? Svo kynslóðum skipti, um aldaraðir, var það leyndardómur. Þá kom Jesús og „leiddi í ljós líf og óforgengileika með fagnaðarerindinu.“ — 2. Tímóteusarbréf 1:10.
24 Já, ‚leyndardómurinn‘ fjallar um Krist og Messíasarríki hans. Páll minntist á það sem er ‚á himnum‘ og átti þá við þá menn sem fá hlutdeild í stjórn Guðsríkis með Kristi. Þeir munu eiga þátt í að færa öllu því sem er „á jörðu,“ þeim sem hljóta eilíft líf í paradís á jörð, ólýsanlega blessun. Þú sérð því hve vel það átti við að Páll skyldi tala um ‚dýrðarríkdóm þessa leyndardóms.‘ — Kólossubréfið 1:20, 27.
25. Hver ættu að vera viðhorf okkar núna eins og fram kemur í Kólossubréfinu 1:29?
25 Páll hlakkaði til þess að hljóta stöðu sína í Guðsríki. Hann gerði sér samt ljóst að hann gæti ekki bara beðið í makindum og vonað. „Að þessu strita ég og stríði með þeim mætti, sem kröftuglega verkar í mér.“ (Kólossubréfið 1:29) Tökum eftir að fyrir milligöngu Krists gaf Jehóva Páli kraft til að inna af hendi þjónustu til bjargar mannslífum. Jehóva getur gert hið sama fyrir okkur nú á dögum. En við ættum að spyrja okkur: ‚Hef ég sama trúboðsanda og ég hafði þegar ég kynntist sannleikanum?‘ Hverju svarar þú? Hvað getur hjálpað einu og sérhverju okkar að halda áfram að ‚strita og stríða eftir krafti Jehóva?‘ Næsta grein fjallar einmitt um það efni.
Tókstu eftir?
◻ Af hverju getum við verið viss um að Jehóva geti sýnt kraft sinn í þágu manna?
◻ Hvert var tilefni orða Páls í Kólossubréfinu 1. kafla?
◻ Hvernig er Guð að koma á þeim sáttum sem nefndar eru í Kólossubréfinu 1:20?
◻ Hverju getur Jehóva áorkað með krafti sínum fyrir okkar atbeina?
[Kort/Mynd á blaðsíðu 23]
(Sjá uppsettan texta í ritinu)
KÓLOSSA