Sameinaðir hinu fullkomna bandi kærleikans
‚Verið samlyndir og sameinaðir í kærleika.‘ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 2:2, NW.
1, 2. Hvaða sundrungaráhrifa gætir sérstaklega nú á dögum?
HLUSTIÐ! Sterk rödd bergmálar um himin allan: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ (Opinberunarbókin 12:12) Með hverju ári sem líður verða þessi orð óheillavænlegri fyrir jarðarbúa.
2 Hinn mikli óvinur Jehóva hefur lengi verið þekktur sem andstæðingur (Satan) og rógberi (djöfull). En þessi blekkingameistari hefur nú tekið sér annað ógnandi hlutverk — hann er orðinn reiður guð! Af hverju? Af því að Míkael og englar hans úthýstu honum í stríðinu sem hófst á himnum árið 1914. (Opinberunarbókin 12:7-9) Djöfullinn veit að hann hefur aðeins stuttan tíma til umráða til að sanna þá ögrun sína að hann geti snúið öllum mönnum frá tilbeiðslu á Guði. (Jobsbók 1:11; 2:4, 5) Hann á sér enga undankomuleið þannig að hann og illir andar hans eru eins og reiður býflugnasveimur sem lætur bræði sína bitna á eirðarlausu mannhafinu. — Jesaja 57:20.
3. Hvaða áhrif hefur niðurlæging Satans á okkar tímum haft?
3 Þessir atburðir, sem menn gera ekki séð, skýra hið almenna siðferðishrun meðal mannkynsins. Þeir skýra líka örvæntingarfullar tilraunir manna til að sporna gegn sundrungu þjóðanna sem geta einfaldlega ekki búið saman í sátt og samlyndi. Ættflokkar og þjóðabrot ráðast með grimmd og hörku hvert á annað og skilja milljónir manna eftir heimilislausar og uppflosnaðar. Það er engin furða að lögleysi skuli magnast meir núna en nokkru sinni fyrr! Eins og Jesús sagði fyrir er ‚kærleikur alls þorra manna að kólna.‘ Hvert sem litið er einkennist hið eirðarlausa mannkyn nútímans af ósamlyndi og kærleiksleysi. — Matteus 24:12.
4. Af hverju er fólk Guðs sérstaklega í hættu?
4 Bæn Jesú fyrir fylgjendum sínum öðlast dýpri merkingu í ljósi heimsástandsins: „Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa [„hinum vonda,“ NW]. Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ (Jóhannes 17:15, 16) ‚Hinn vondi‘ skeytir skapi sínu núna sérstaklega á þeim sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ (Opinberunarbókin 12:17) Ef ekki væri vökulli og ástríkri umhyggju Jehóva fyrir að þakka yrðu trúfastir vottar hans þurrkaðir út. Líf okkar er undir því komið að við notfærum okkur allar þær ráðstafanir sem Guð gerir til að tryggja andlegt öryggi okkar og velferð. Það felur í sér að við leggjum hart að okkur í samræmi við starfsemi kraftar hans fyrir milligöngu Krists, eins og postulinn hvatti til í Kólossubréfinu 1:29.
5, 6. Hvernig hugsaði Páll postuli til kristinna manna í Kólossu og hvers vegna er árstextinn fyrir 1995 viðeigandi?
5 Enda þótt Páll hefði líklega aldrei hitt bræður sína í Kólossu augliti til auglitis þótti honum innilega vænt um þá. Hann sagði þeim: „Ég vildi að þið gætuð skilið hve djúpar áhyggjur ég hef af ykkur.“ (Kólossubréfið 2:1, J. B. Phillips: The New Testament in Modern English) Þar eð fylgjendur Jesú voru ekki hluti af heiminum myndi ‚hinn vondi‘ halda áfram að reyna að brjóta einingu bræðranna niður með því að sá anda heimsins meðal þeirra. Fréttirnar, sem Epafras kom með frá Kólossu, gáfu til kynna að það hefði átt sér stað að einhverju marki.
6 Eitt aðaláhugamál Páls í sambandi við kristna bræður hans má draga saman með orðunum: ‚Verið samlyndir og sameinaðir í kærleika.‘ Orð hans hafa sérstaka þýðingu nú á dögum í heimi sem er fullur óeiningar og kærleiksleysis. Ef við tökum ráð Páls til okkar njótum við umhyggju Jehóva. Við finnum þá líka fyrir krafti anda hans í lífi okkar sem hjálpar okkur að standa gegn þrýstingi heimsins. Þetta er sannarlega viturlegt ráð! Kólossubréfið 2:2 verður því árstexti okkar árið 1995.
7. Hvaða sameining ætti að ríkja meðal sannkristinna manna?
7 Í bréfi, sem postulinn hafði áður skrifað Korintumönnum, notaði hann mannslíkamann sem líkingu. Hann skrifaði að ekki skyldi verða „ágreiningur“ í söfnuði smurðra kristinna manna heldur að „limirnir [skyldu] bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.“ (1. Korintubréf 12:12, 24, 25) Þetta er frábær samlíking! Útlimir okkar eru hver öðrum háðir og allir tengdir líkamanum í heild. Hið sama gildir um bræðrafélag okkar um heim allan með hinum smurðu og milljónum manna sem vonast eftir að lifa í paradís á jörð. Við megum ekki slíta okkur frá þeim ‚líkama,‘ sem kristnir bræður okkar mynda, til að vera óháðir þeim! Andi Guðs, sem starfar fyrir milligöngu Krists Jesú, streymir í miklum mæli til okkar gegnum samfélag okkar við bræður okkar.
Sameining tengd þekkingu
8, 9. (a) Hver er forsenda þess að við stuðlum að sameiningu í söfnuðinum? (b) Hvernig hefur þú fengið þekkingu á Kristi?
8 Eitt af því sem Páll lagði þyngsta áherslu á var að kristin sameining væri tengd þekkingu, einkum um Krist. Páll skrifaði að kristnir menn ættu ‚vera samlyndir og sameinaðir í kærleika og öðlast gjörvalla auðlegð þeirrar sannfæringar og skilnings, sem veitir þekkinguna á leyndardómi Guðs, Kristi.‘ (Kólossubréfið 2:2) Við höfum aflað okkur nákvæmrar þekkingar — staðreynda — frá því að við byrjuðum að nema orð Guðs. Skilningur á hinu mikilvæga hlutverki Jesú er liður í því að kunna skil á hvernig margar þessara staðreynda samrýmast tilgangi Guðs. „Í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ — Kólossubréfið 2:3.
9 Er það þannig sem þú hugsar um Jesú og hlutverk hans í tilgangi Guðs? Margir innan kristna heimsins tala gjarnan um Jesú, segjast hafa tekið við honum og frelsast. En þekkja þeir hann í alvöru? Varla, því að flestir trúa hinni óbiblíulegu þrenningarkenningu. En þú bæði þekkir sannleikann í þessu máli og hefur líklega talsvert víðtæka þekkingu á því sem Jesús sagði og gerði. Milljónir manna hafa fengið hjálp til þess með fræðandi námi með hjálp bókarinnar Mesta mikilmenni sem lifað hefur. Við þurfum samt að halda áfram að dýpka þekkingu okkar á Jesú og vegum hans.
10. Á hvaða hátt höfum við aðgang að leyndri þekkingu?
10 Þau orð að „allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar“ séu „fólgnir“ í Jesú merkja ekki að slík þekking sé utan seilingar okkar. Það mætti öllu heldur líkja þessu við námu. Við þurfum ekki að fara vítt og breitt um stórt svæði og velta fyrir okkur hvar við eigum að byrja að grafa. Við vitum það nú þegar — raunveruleg þekking byrjar með því sem Biblían opinberar um Jesú Krist. Þegar við skiljum betur hlutverk Jesú í framvindu tilgangs Jehóva eignumst við fjársjóði sannrar visku og nákvæmrar þekkingar. Við þurfum því að grafa dýpra og dýpra og finna fleiri gimsteina eða gersemar úr þeirri námu sem við erum þegar að grafa í. — Orðskviðirnir 2:1-5.
11. Hvernig getum við aukið þekkingu okkar og visku með því að hugleiða það sem Jesús gerði? (Notaðu sem dæmi að Jesús þvoði fætur lærisveinanna eða önnur dæmi.)
11 Við vitum til dæmis að Jesús þvoði fætur postula sinna. (Jóhannes 13:1-20) En höfum við íhugað þá lexíu sem hann var að kenna og það viðhorf sem hann lét í ljós? Þegar við gerum það getum við grafið fram fjársjóði visku sem gera okkur kleift — já, knýja okkur — til að taka upp nýja hætti í samskiptum við bróður eða systur sem hefur þannig persónuleika að hann hefur lengi farið í taugarnar á okkur. Og þegar okkur er falið verkefni, sem okkur fellur ekki alls kostar, bregðumst við kannski öðruvísi við eftir að við höfum skilið Jóhannes 13:14, 15 til fulls. Það er þannig sem þekking og viska hefur áhrif á okkur. Hvaða áhrif gæti það haft á aðra að við líkjum betur eftir Kristi í samræmi við aukna þekkingu á honum? Sennilega ‚verður hjörðin samlyndari og sameinaðri í kærleika.‘a
Það sem getur spillt einingu
12. Gegn hvaða þekkingu þurfum við að vera á varðbergi?
12 Fyrst nákvæm þekking stuðlar að ‚samlyndi okkar og sameiningu í kærleika,‘ hvaða afleiðingar hefur þá ‚hin rangnefnda þekking‘? Alveg hið gagnstæða — deilur, ósamlyndi og fráhvarf frá trúnni. Við verðum því að vera á verði gegn slíkri rangnefndri þekkingu, eins og Páll hvatti Tímóteus til. (1. Tímóteusarbréf 6:20, 21) Páll skrifaði einnig: „Þetta segi ég til þess að enginn tæli yður með áróðurstali [„sannfærandi rökum,“ NW]. Gætið þess, að enginn verði til að hertaka yður með heimspeki og hégómavillu, sem byggist á mannasetningum, er runnið frá heimsvættunum, en ekki frá Kristi.“ — Kólossubréfið 2:4, 8.
13, 14. (a) Hvers vegna voru bræðurnir í Kólossu í hættu í sambandi við þekkingu? (b) Hvernig gæti sumum nú á tímum fundist að þeir séu ekki í svipaðri hættu?
13 Kristnir menn í Kólossu voru umkringdir lævísum áhrifum sem jafngiltu rangnefndri þekkingu. Margir í Kólossu og nágrenni höfðu gríska heimspeki mjög í hávegum. Þar voru einnig menn sem vildu framfylgja siðum og skoðunum Gyðinga og fá kristna menn til að halda Móselögin, svo sem hátíðisdaga þeirra og ákvæði um mataræði. (Kólossubréfið 2:11, 16, 17) Páll hafði ekkert á móti því að bræður hans öfluðu sér nákvæmrar þekkingar, en þeir þurftu að vera á varðbergi til að enginn tældi þá og beitti sannfærandi rökum til að telja þá á að tileinka sér aðeins mannleg viðhorf til lífsins. Þú skilur mætavel að ef einhver í söfnuðinum léti hugsun sína og ákvarðanir stjórnast af slíkum óbiblíulegum hugmyndum og afstöðu til lífsins, ynni það gegn innbyrðis einingu og kærleika safnaðarmanna.
14 ‚Auðvitað geri ég mér grein fyrir hættunni sem Kólossumenn stóðu frammi fyrir,‘ hugsar þú kannski með þér, ‚en ég á ekki á hættu að verða fyrir áhrifum af grískum hugmyndum, svo sem um ódauðleika sálarinnar eða þríeinan guð, og ég sé ekki nokkra hættu á því að ég láti tælast til að halda heiðna helgidaga þeirrar falstrúar sem ég er sloppinn frá.‘ Ágætt. Það er gott að vera fullkomlega sannfærður um yfirburði þeirra frumsanninda sem opinberuðust fyrir milligöngu Jesú og er að finna í Ritningunni. En gæti okkur stafað einhver hætta af annarri heimspeki eða mannlegum viðhorfum sem eru ríkjandi nú á dögum?
15, 16. Hvaða viðhorf til lífsins gæti haft áhrif á hugsunarhátt kristins manns?
15 Eins slíks viðhorfs hefur gætt lengi: „Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.“ (2. Pétursbréf 3:4) Þessi skoðun er kannski tjáð með öðrum orðum en viðhorfið er það sama. Til dæmis gæti einhver hugsað með sér: ‚Þegar ég kynntist sannleikanum fyrir mörgum áratugum var endirinn „alveg á næsta leiti.“ En hann er ókominn enn þá og hver veit hvenær hann kemur?‘ Vissulega veit enginn maður hvenær endirinn kemur. En taktu eftir því sjónarmiði sem Jesús hvatti okkur til að hafa: „Verið varir um yður, vakið! Þér vitið ekki, nær tíminn er kominn.“ — Markús 13:32, 33.
16 Það væri mjög hættulegt að hugsa sem svo að þar sem við vitum ekki hvenær endirinn kemur ættum við bara að miða við það að lifa „eðlilegu“ lífi og njóta þess! Þessi afstaða gæti endurspeglast í eftirfarandi hugsanagangi: ‚Það er eins gott fyrir mig að gera ráðstafanir til að ég (eða börnin mín) komist í gott og vellaunað starf þannig að ég geti lifað þægilegu lífi. Auðvitað ætla ég að sækja kristnar samkomur og taka einhvern þátt í prédikunarstarfinu, en það er engin ástæða til að ég sé að leggja sérstaklega hart að mér eða færa verulegar fórnir.‘ — Matteus 24:38-42.
17, 18. Hvaða viðhorf hvöttu Jesús og postularnir okkur til að hafa?
17 Hins vegar mæltu Jesús og postular hans óneitanlega með því að við fyndum til þess að það væri áríðandi að prédika fagnaðarerindið, leggja hart að okkur og vera fús til að færa fórnir. Páll skrifaði: „Það segi ég, bræður, tíminn er orðinn stuttur. Hér eftir skulu jafnvel þeir, sem kvæntir eru, vera eins og þeir væru það ekki, . . . þeir sem kaupa, eins og þeir héldu ekki því, sem þeir kaupa, og þeir sem nota heiminn, eins og þeir færðu sér hann ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ — 1. Korintubréf 7:29-31; Lúkas 13:23, 24; Filippíbréfið 3:13-15; Kólossubréfið 1:29; 1. Tímóteusarbréf 4:10; 2. Tímóteusarbréf 2:4; Opinberunarbókin 22:20.
18 Páll var svo sannarlega ekki að leggja til að við hefðum það markmið að lifa þægilegu lífi heldur skrifaði vegna innblásturs: „Ekkert höfum vér inn í heiminn flutt og ekki getum vér heldur flutt neitt út þaðan. Ef vér höfum fæði og klæði, þá látum oss það nægja. . . . Berstu trúarinnar góðu baráttu, höndla þú eilífa lífið, sem þú varst kallaður til og þú játaðist með góðu játningunni í viðurvist margra votta.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:7-12.
19. Hvaða áhrif hefur það á söfnuð þegar safnaðarmenn viðurkenna það viðhorf til lífsins sem Jesús hvatti til?
19 Þegar söfnuður er myndaður úr kostgæfum kristnum mönnum, sem kappkosta eins og þeir geta að ‚játa opinberlega með góðu játningunni,‘ skilar það sér í sameiningu. Þeir láta ekki eftirfarandi viðhorf ná tökum á sér: ‚Nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glaður.‘ (Lúkas 12:19) Þvert á móti eru þeir sameinaðir í sama verki og fúsir til að færa fórnir til að geta átt eins ríkan þátt og frekast er unnt í þessu starfi sem aldrei verður endurtekið. — Samanber Filippíbréfið 1:27, 28.
Vörumst sannfærandi rök
20. Á hvaða öðru sviði gætu kristnir menn látið afvegaleiðast?
20 Kristnir menn gætu að sjálfsögðu á aðra vegu látið ‚tælast af sannfærandi rökum‘ eða innantómum blekkingum sem hindra að við ‚séum samlyndir og sameinaðir í kærleika.‘ Skrifstofa Varðturnsfélagsins í Þýskalandi skrifaði: „Eitt tilvik leiddi til útbreiddra deilna í fjölda safnaða þar sem boðberar og jafnvel öldungar tóku afstöðu til sjúkdómsmeðferðar sem bróðir beitti.“ Og áfram sagði: „Sökum þess hve fjölbreyttum aðferðum er beitt og sjúklingar margir er hætt við deilum á þessum vettvangi, og ef lækningaaðferðir eru með spíritísku ívafi er verið að bjóða hættunni heim.“ — Efesusbréfið 6:12.
21. Hvernig gæti kristinn maður misst sjónar á því sem máli skiptir nú á dögum?
21 Kristnir menn vilja halda lífi og heilsu þannig að þeir geti tilbeðið Guð. Engu að síður erum við í þessu heimskerfi undirorpin öldrun og sjúkdómum sem stafa af ófullkomleika. Í stað þess að leggja mikla áherslu á heilsufarsmál ættum við að einbeita okkur að hinni raunverulegu lausn, bæði fyrir okkur og aðra. (1. Tímóteusarbréf 4:16) Kristur er þungamiðja þessarar lausnar, alveg eins og hann var þungamiðjan í leiðbeiningum Páls til Kólossumanna. En munum að Páll gaf til kynna að sumir kynnu að beita „sannfærandi rökum“ til að beina athygli okkar frá Kristi og kannski að sjúkdómsgreiningaraðferðum, læknismeðferð eða mataræði. — Kólossubréfið 2:2-4.
22. Hvaða öfgalaust viðhorf ættum við að hafa til hinna fjölmörgu staðhæfinga um aðferðir við greiningu og meðferð sjúkdóma?
22 Um heim allan dynja á fólki auglýsingar og yfirlýsingar um alls konar meðferð og sjúkdómsgreiningaraðferðir. Sumar þessara aðferða eru mikið notaðar og viðurkenndar; aðrar eru mikið gagnrýndar og tortryggilegar.b Sú ábyrgð hvílir á hverjum og einum að ákveða hvað hann geri í sambandi við heilsu sína. En þeir sem taka ráðleggingum Páls í Kólossubréfinu 2:4, 8 láta ekki blekkjast af „sannfærandi rökum“ eða „hégómavillu,“ sem leiða marga á villigötur er hafa ekki vonina um Guðsríki og örvænta um úrræði. Jafnvel þótt kristinn maður sé sannfærður um að ákveðin meðferð komi honum að gagni ætti hann ekki að gerast talsmaður hennar innan hins kristna bræðafélags, því að það gæti orðið kveikja útbreiddra umræðna og deilna. Þannig getur hann sýnt að hann virði fullkomlega að það þurfi að ríkja eining í söfnuðinum.
23. Hvers vegna höfum við sérstaklega tilefni til að gleðjast?
23 Páll postuli lagði áherslu á að kristin sameining sé grundvöllur sannrar gleði. Á hans dögum voru söfnuðirnir vissulega færri en núna. Samt gat hann skrifað Kólossumönnum: „Ég er hjá yður í andanum, þótt ég sé líkamlega fjarlægur, og ég horfi með fögnuði á góða skipan hjá yður og festu yðar í trúnni á Krist.“ (Kólossubréfið 2:5; sjá einnig Kólossubréfið 3:14.) Við höfum sannarlega miklu meiri ástæðu til að gleðjast! Við getum séð ósvikin merki sameiningar, góðrar reglu og trúarstaðfestu í okkar eigin söfnuði sem endurspeglar hið almenna ástand meðal fólks Guðs um allan heim. Á þeim stutta tíma sem núverandi heimskerfi á eftir skulum við því öll vera staðráðin í að ‚vera samlynd og sameinuð í kærleika.‘
[Neðanmáls]
a Þótt möguleikarnir séu nánast ótæmandi skaltu athuga hvað þú getir lært um Jesú af eftirfarandi dæmum, sem gæti stuðlað að sameiningu í söfnuði þínum: Matteus 12:1-8; Lúkas 2:51, 52; 9:51-55; 10:20; Hebreabréfið 10:5-9.
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 15. júní 1982, bls. 22-9.
Tókstu eftir?
◻ Hver er árstexti votta Jehóva árið 1995?
◻ Hvers vegna þurftu kristnir menn í Kólossu að vera samhuga og sameinaðir í kærleika og hvers vegna þurfum við þess?
◻ Hvaða lævísum viðhorfum til lífsins þurfa kristnir menn sérstaklega að vera á varðbergi gegn nú á tímum?
◻ Af hverju ættu kristnir menn að gæta þess að láta ekki sannfærandi rök um heilsufarsmál og sjúkdómsgreiningar villa um fyrir sér?
[Myndir á blaðsíðu 31]
Er nærvera Jesú þungamiðjan í framtíðaráformum þínum?