Finnum ‚fjársjóði spekinnar‘ sem eru fólgnir í Jesú
„Í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ — KÓL. 2:3.
1, 2. (a) Hvaða munir fundust árið 1922 og hvar enduðu þeir? (b) Hvaða boð Biblíunnar stendur öllum opið?
ÞAÐ kemst oft á forsíður dagblaðanna þegar menn finna falda fjársjóði. Breski fornleifafræðingurinn Howard Carter gerði til dæmis merka uppgötvun árið 1922. Eftir áratugalanga nákvæmnisvinnu við mjög erfiðar kringumstæður fann hann nánast ósnortið grafhýsi Tútankamons faraós. Grafhýsið hafði að geyma tæplega 5000 muni.
2 En þótt fjársjóður Carters hafi verið stórfenglegur hafa flestir munirnir, sem fundust, endað á söfnum eða eru í einkaeign. Þeir hafa kannski eitthvert sögulegt eða listrænt gildi en lítil sem engin áhrif á daglegt líf okkar. Orð Guðs, Biblían, býður okkur hins vegar að leita eftir fjársjóðum sem hafa vissulega áhrif á okkur. Þetta boð stendur öllum opið og launin eru miklu verðmætari en nokkur efnislegur fjársjóður. — Lestu Orðskviðina 2:1-6.
3. Hvaða gagn höfum við af þeim fjársjóðum sem Jehóva hvetur tilbiðjendur sína til að leita að?
3 Hugleiddu gagnið af fjársjóðunum sem Jehóva hvetur tilbiðjendur sína til að leita að. Við þroskum meðal annars með okkur guðsótta sem getur verndað okkur á þessum hættulegu tímum. (Sálm. 19:10) Með því að öðlast þekkingu á Guði getum við fengið mesta heiður sem mönnum getur hlotnast — persónulegt samband við hinn hæsta. Og þegar við notum viskuna, þekkinguna og hyggindin, sem við fáum frá Guði, eigum við auðveldara með að takast á við erfiðleika og áhyggjur lífsins. (Orðskv. 9:10, 11) Hvernig getum við fundið slíka fjársjóði?
Að finna andlega fjársjóði
4. Hvaða leiðarvísi höfum við að andlegum fjársjóðum?
4 Ólíkt fornleifafræðingum og öðrum könnuðum, sem oft þurfa að leita út um allar jarðir að fjársjóðum, vitum við nákvæmlega hvar andlega fjársjóði er að finna. Biblían er eins og fjársjóðskort sem vísar okkur rakleitt á fjársjóðina sem Guð hefur lofað. Páll postuli skrifaði um Krist: „Í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“ (Kól. 2:3) Þegar við lesum þessi orð gætum við spurt: Af hverju ættum við að leita að þessum fjársjóðum? Hvernig eru þeir „fólgnir“ í Kristi? Og hvernig finnum við þá? Til að fá svör við þessum spurningum skulum við líta nánar á orð Páls.
5. Af hverju skrifaði Páll um andlega fjársjóði?
5 Páll skrifaði þessi orð til trúsystkina sinna í Kólossu. Hann sagði að hann ætti í mikilli baráttu þeirra vegna og vildi að þau gætu ‚uppörvast í hjörtum sínum og sameinast í kærleika‘. (Lestu Kólossubréfið 2:1, 2.) En hvers vegna hafði hann áhyggjur af þeim? Svo virðist sem Páll hafi vitað um einhverja meðal þeirra sem reyndu að hafa áhrif á safnaðarmenn með því að halda á lofti grískri heimspeki eða hvetja til afturhvarfs til Móselaganna. Hann varaði þá við og sagði: „Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum en ekki frá Kristi.“ — Kól. 2:8.
6. Af hverju ættum við að hafa áhuga á ráðleggingum Páls?
6 Við finnum fyrir svipuðum áhrifum frá Satan og illu heimskerfi hans nú á dögum. Heimspeki, þar með talið húmanismi og kenningin um þróun, mótar hugsunarhátt fólks, siðferði þess, markmið og lífsstíl. Fölsk trúarbrögð gegna stóru hlutverki í mörgum vinsælum hátíðum. Skemmtanaiðnaðurinn reynir að höfða til rangra langana holdsins og mikið af því efni, sem er á Netinu, setur unga jafnt sem aldna í hættu. Stöðugt áreiti frá þessum og öðrum veraldlegum áhrifum getur auðveldlega haft áhrif á skoðanir okkar og breytt viðhorfum okkar til leiðbeininga Jehóva. Þetta getur orðið til þess að við förum að fjarlægjast hið sanna líf. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.) Við þurfum greinilega að glöggva okkur á orðum Páls til Kólossumanna og taka ráðleggingar hans til okkar ef við viljum ekki ganga í gildru Satans.
7. Hvað tvennt nefndi Páll sem gat hjálpað Kólossumönnum?
7 Leiðum hugann aftur að orðum Páls til Kólossumanna. Eftir að hafa nefnt áhyggjur sínar minnist hann á tvennt sem myndi hjálpa þeim að uppörvast og sameinast í kærleika. Fyrst nefnir hann að þeir þurfi að hafa „fulla sannfæringu og innsýn“. Þeir urðu að vera algerlega sannfærðir um að þeir hefðu réttan skilning á Biblíunni þannig að trú þeirra væri byggð á föstum grunni. (Hebr. 11:1) Síðan nefnir hann að þeir þurfi að ‚gjörþekkja leyndardóm Guðs‘. Þeir þurftu að bæta við þekkingu sína á sannleikanum og hafa góðan skilning á djúpum sannindum um Guð. (Hebr. 5:13, 14) Þetta voru sannarlega góðar leiðbeiningar til Kólossubúa og til okkar nú á dögum. En hvernig getum við öðlast slíka sannfæringu og nákvæma þekkingu? Páll gaf okkur lykilinn að því þegar hann sagði um Jesú Krist: „Í honum eru allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar fólgnir.“
Fjársjóðir „fólgnir“ í Kristi
8. Hvað merkir orðalagið „fólgnir“ í Kristi?
8 Orðalagið að allir fjársjóðir spekinnar og þekkingarinnar séu „fólgnir“ í Kristi þýðir ekki að okkur sé neitað um aðgang að þessum fjársjóðum. Það þýðir einfaldlega að við verðum að leggja hart að okkur til að finna þá og að við verðum að beina athyglinni að Jesú Kristi. Þetta er í samræmi við það sem Jesús sagði um sjálfan sig: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig.“ (Jóh. 14:6) Já, til að finna þekkinguna á Guði verðum við að nýta okkur hjálpina og leiðsögnina sem við fáum hjá Jesú.
9. Hvaða hlutverkum gegnir Jesús?
9 Auk þess að vera „vegurinn“ sagðist Jesús vera „sannleikurinn og lífið“. Þetta gefur til kynna að hlutverk Jesú einskorðist ekki við að vera tengiliður milli manna og Guðs. Jesús gegnir líka öðrum hlutverkum sem skipta miklu máli til að hægt sé að skilja biblíusannindi og öðlast eilíft líf. Í Jesú eru fólgnir ómetanlegir andlegir gimsteinar sem áhugasamir biblíunemendur ættu að vilja finna. Skoðum nokkra af þessum gimsteinum sem hafa bein áhrif á framtíðarhorfur okkar og sambandið við Guð.
10. Hvað getum við lært um Jesú í Kólossubréfinu 1:19 og 2:9?
10 „Í manninum Jesú býr öll fylling guðdómsins.“ (Kól. 1:19; 2:9) Á þeim óralanga tíma, sem Jesús dvaldi hjá föður sínum á himnum, kynntist hann persónuleika hans og vilja betur en nokkur annar. Þegar Jesús var hér á jörð kenndi hann öðrum það sem faðirinn hafði kennt honum og endurspeglaði með verkum sínum eiginleika sem faðir hans hafði kennt honum. Þess vegna gat Jesús sagt: „Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn.“ (Jóh. 14:9) Öll viska og þekking á Guði er falin í Kristi, eða býr í honum. Besta leiðin til að kynnast Jehóva er þess vegna sú að læra allt sem við getum um Jesú.
11. Hver eru tengslin á milli Jesú og biblíuspádóma?
11 „Vitnisburður Jesú er andi spádómsgáfunnar.“ (Opinb. 19:10) Þessi orð gefa til kynna að Jesús sé aðalpersónan í framvindu margra spádóma Biblíunnar. Þessa spádóma, allt frá yfirlýsingu Jehóva í 1. Mósebók 3:15 til sýnanna í Opinberunarbókinni, er aðeins hægt að skilja rétt með því að taka mið af hlutverki Jesú í Messíasarríkinu. Það skýrir hvers vegna margir spádómar Hebresku ritninganna vefjast fyrir þeim sem viðurkenna ekki að Jesús sé hinn fyrirheitni Messías. Það skýrir líka hvers vegna Jesús er ekkert meira en merkilegur maður í augum þeirra sem taka ekki mark á Hebresku ritningunum, en þær innihalda marga Messíasarspádóma. Þekking á Jesú hjálpar auk þess fólki Guðs að skilja biblíuspádóma sem enn eiga eftir að rætast. — 2. Kor. 1:20.
12, 13. (a) Hvernig er Jesús „ljós heimsins“? (b) Hvað ber fylgjendum Krists skylda til þar sem þeir hafa verið frelsaðir úr trúarlegu myrkri?
12 „Ég er ljós heimsins.“ (Lestu Jóhannes 8:12; 9:5.) Löngu áður en Jesús fæddist hér á jörð spáði Jesaja: „Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.“ (Jes. 9:1) Matteus postuli útskýrði að Jesús hefði uppfyllt þennan spádóm þegar hann byrjaði að prédika og segja: „Takið sinnaskiptum, himnaríki er í nánd.“ (Matt. 4:16, 17) Boðunarstarf Jesú veitti fólki andlega uppfræðslu og leysti það úr ánauð falskra trúarkenninga. „Ég er ljós í heiminn komið,“ sagði Jesús, „svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.“ — Jóh. 1:3-5; 12:46.
13 Mörgum árum síðar sagði Páll postuli trúsystkinum sínum: „Eitt sinn voruð þið myrkur en nú eruð þið ljós í Drottni. Hegðið ykkur því eins og börn ljóssins.“ (Ef. 5:8) Kristnum mönnum ber skylda til að hegða sér eins og börn ljóssins þar sem þeir hafa verið frelsaðir úr trúarlegu myrkri. Þetta er í samræmi við það sem Jesús sagði við fylgjendur sína í fjallræðunni: „Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.“ (Matt. 5:16) Metur þú andlegu fjársjóðina, sem þú hefur fundið í Jesú, svo mikils að þú vilt láta aðra vita af þeim, bæði með orðum þínum og kristinni hegðun?
14, 15. (a) Hvernig komu sauðir og önnur dýr við sögu í sannri guðsdýrkun á biblíutímanum? (b) Af hverju er hlutverk Jesú sem „Guðs lamb“ óviðjafnanlegur fjársjóður?
14 Jesús er „Guðs lamb“. (Jóh. 1:29, 36) Á biblíutímanum gátu menn notað sauði þegar þeir báru fram syndafórnir og vildu nálgast Guð. Eftir að Abraham sýndi að hann væri fús til að fórna Ísak, syni sínum, var honum sagt að vinna honum ekki mein og var fenginn hrútur í staðinn. (1. Mós. 22:12, 13) Þegar Ísraelsmönnum var bjargað úr Egyptalandi áttu þeir að slátra sauð og bera blóðið á dyrastafi sína áður en engill Jehóva gengi fram hjá. (2. Mós. 12:1-13) Auk þess var kveðið á um ýmsar dýrafórnir í Móselögunum, þar á meðal sauða- og geitafórnir. — 2. Mós. 29:38-42; 3. Mós. 5:6, 7.
15 Engin þessara fórna og raunar engin fórn færð af mönnum gat veitt varanlega lausn frá synd og dauða. (Hebr. 10:1-4) Jesús er hins vegar „Guðs lamb sem ber synd heimsins“. Og þetta hlutverk hans er miklu verðmætara en nokkur fjársjóður sem fundist hefur. Við ættum þess vegna að gefa okkur tíma til að rannsaka og skoða vel lausnarfórnina og iðka trú á þessa einstöku gjöf. Ef við gerum það getum við átt í vændum mikla blessun og umbun — heiður og vegsemd á himnum með Kristi handa ‚litlu hjörðinni‘ og eilíft líf í paradís á jörð handa ‚öðrum sauðum‘. — Lúk. 12:32; Jóh. 6:40, 47; 10:16.
16, 17. Af hverju er afar mikilvægt að við skiljum það hlutverk Jesú að vera ‚höfundur og fullkomnari trúarinnar‘?
16 Jesús er ‚höfundur og fullkomnari trúarinnar‘. (Lestu Hebreabréfið 12:1, 2.) Í 11. kafla Hebreabréfsins finnum við kröftuga umfjöllum Páls um trú. Þar skýrði hann á hnitmiðaðan hátt hvað trú er og taldi í framhaldinu upp karla og konur sem lifðu í samræmi við trú sína. Hann minntist meðal annars á Nóa, Abraham, Söru og Rahab. Síðan hvatti Páll trúsystkini sín til að ‚beina sjónum sínum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar‘. Af hverju?
17 Þótt þessir trúföstu einstaklingar, sem Páll taldi upp, hefðu sterka trú á fyrirheit Guðs vissu þeir ekki í smáatriðum hvernig Guð myndi efna loforð sitt fyrir tilstuðlan Messíasar og ríkisins. Það má því segja að trú þeirra hafi að þessu leyti verið ófullkomin. Jafnvel þeir sem Jehóva notaði til að rita niður Messíasarspádómana skildu ekki að fullu mikilvægi þess sem þeir skrifuðu. (1. Pét. 1:10-12) Trú okkar getur því aðeins orðið fullkomin að við höfum skýra mynd af hlutverki Jesú, ekki síst hvernig hann uppfyllti spádóma. Það er því afar mikilvægt að við skiljum það hlutverk Jesú að vera ‚höfundur og fullkomnari trúarinnar‘.
Höldum leitinni áfram
18, 19. (a) Nefndu fleiri andlega gimsteina sem eru fólgnir í Kristi. (b) Af hverju ættum við að halda áfram að leita að andlegum fjársjóðum í Jesú?
18 Við höfum nú skoðað aðeins nokkur af hlutverkum Jesú í fyrirætlun Guðs til að frelsa mannkynið. En til eru fleiri andlegir gimsteinar fólgnir í Kristi. Ef við leggjum okkur fram um að finna þá munum við uppskera gleði og blessun. Til dæmis kallaði Pétur postuli Jesú „höfðingja lífsins“ og ‚morgunstjörnu‘ sem rennur upp. (Post. 3:15; 5:31; 2. Pét. 1:19) Og í Biblíunni segir að Jesús sé „amen“. (Opinb. 3:14) Veistu hvaða þýðingu þessi hlutverk hafa? Jesús hvatti okkur til að halda leitinni áfram og sagði: „Leitið og þér munuð finna.“ — Matt. 7:7.
19 Enginn í sögunni hefur lifað eins merkingarþrungnu lífi og Jesús og haft jafnmikil áhrif á eilífa velferð okkar. Í honum eru andlegir fjársjóðir sem allir hjartahreinir menn geta auðveldlega fundið. Megi þér hlotnast sú gleði og blessun að finna fjársjóðina sem eru „fólgnir“ í honum.
Manstu?
• Að hvaða fjársjóðum eru kristnir menn hvattir til að leita?
• Af hverju eiga ráðleggingar Páls til Kólossumanna líka erindi til okkar?
• Nefndu og útskýrðu nokkra andlega fjársjóði sem eru „fólgnir“ í Kristi.
[Myndir á blaðsíðu 5]
Biblían er eins og fjársjóðskort sem vísar okkur á verðmætin sem eru ‚fólgin‘ í Kristi.