„Orð Guðs er lifandi og kröftugt“
1, 2. (a) Hvað áorkar breytingum í lífi þeirra manna sem taka kristna trú? (b) Hve djúptæk áhrif getur Biblían haft á fólk?
UM miðbik fyrstu aldar okkar tímatals skrifaði Páll postuli kristnum mönnum í Róm bréf. Í því lagði hann áherslu á þá kröfu að sannkristnir menn yrðu að taka breytingum. Hann sagði: „Hegðið yður eigi eftir öld þessari, heldur takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins, svo að þér fáið að reyna, hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna.“ (Rómverjabréfið 12:2) Hvað er það sem umbreytir fylgjendum Jesú og gerbreytir hugsunarhætti þeirra? Fyrst og fremst er það kraftur orðs Guðs, Biblíunnar.
2 Páll benti á hve djúptæk áhrif Biblían getur haft á okkur er hann skrifaði: „Orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.“ (Hebreabréfið 4:12) Hinn óvenjulegi kraftur Biblíunnar til að breyta fólki þannig er mjög sannfærandi sönnun fyrir því að hún sé meira en aðeins orð manna.
3, 4. Að hvaða marki breytist persónuleiki kristins manns?
3 Gríska orðið, sem þýtt er „takið háttaskipti“ í Rómverjabréfinu 12:2, er komið af metamorfo. Það gefur í skyn algera breytingu líkt og myndbreytingu fiðrildislirfu í fiðrildi. Breytingin er svo alger að Biblían talar um hana sem persónuleikabreytingu. Í öðru biblíuversi lesum við: „Þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.“ — Kólossubréfið 3:9, 10.
4 Í bréfi til safnaðarins í Korintu vakti Páll athygli á hve miklum breytingum persónuleiki manna hefði tekið á fyrstu öld. Hann sagði: „Hvorki munu saurlífismenn né skurðgoðadýrkendur, hórkarlar né kynvillingar, þjófar né ásælnir, drykkjumenn, lastmálir né ræningjar Guðs ríki erfa. Og þetta voruð þér, sumir yðar. En þér létuð laugast.“ (1. Korintubréf 6:9-11) Já, siðlausir og deilugjarnir menn, þjófar og drykkjumenn höfðu umbreyst í kristna menn sem voru til fyrirmyndar á alla lund.
Persónuleikabreytingar nú á dögum
5, 6. Hvernig gerbreytti kraftur Biblíunnar persónuleika ungs manns?
5 Svipaðar breytingar hafa átt sér stað á persónuleika manna nú á dögum. Sem dæmi má nefna ungan pilt í Suður-Ameríku sem varð munaðarlaus níu ára að aldri. Hann ólst upp án leiðsagnar foreldra og með honum þróuðust alvarlegir skapgerðargallar. Hann segir: „Þegar ég náði 18 ára aldri var ég orðinn alger þræll fíkniefna og var þá búinn að sitja í fangelsi fyrir þjófnað til að standa straum af þessum ósið.“ Frænku hans, sem var einn af vottum Jehóva, tókst hins vegar um síðir að hjálpa honum.
6 Ungi maðurinn segir svo frá: „Frænka mín fór að nema Biblíuna með mér og eftir sjö mánuði tókst mér að hætta fíkniefnaneyslunni.“ Hann sleit líka tengsl við sína fyrri félaga og eignaðist nýja vini meðal votta Jehóva. Hann heldur áfram: „Þessir nýju félagar, ásamt reglulegu námi mínu í Biblíunni, gerðu mér kleift að taka framförum og síðan að vígja líf mitt þjónustu við Guð.“ Þessi fyrrverandi fíkniefnaneytandi og þjófur er núna virkur, hreinlífur, kristinn maður. Hvað olli svona róttækri breytingu á persónuleika hans? Það var kraftur Biblíunnar.
7, 8. Lýstu hvernig alvarlegir skapgerðargallar voru bættir með hjálp Biblíunnar.
7 Annað dæmi, sem við skulum taka, er frá Suður-Evrópu. Þar óx ungur maður úr grasi með alvarlegan skapgerðargalla: Hann var mjög ofsafenginn í skapi og sífellt að lenda í slagsmálum. Í einu rifrildi fjölskyldunnar sló hann jafnvel föður sinn niður! Síðar fór hann að nema Biblíuna með vottum Jehóva og veitti athygli boði Guðs í Rómverjabréfinu: „Gjaldið engum illt fyrir illt. . . . Hafið frið við alla menn að því leyti sem það er unnt og á yðar valdi. Hefnið yðar ekki sjálfir, þér elskaðir, heldur lofið hinni refsandi reiði Guðs að komast að.“ — Rómverjabréfið 12:17-19.
8 Þessi orð vöktu hann til vitundar um hve alvarlegur veikleiki hans væri. Vaxandi þekking á Biblíunni mótaði samvisku hans sem síðan vann gegn skapofsanum. Einu sinni, eftir að hann hafði tekið nokkrum framförum í námi sínu, hrópaði ókunnur maður fúkyrði að honum. Ungi maðurinn fann hina gamalkunnu reiði ólga innra með sér. En þá fann hann fyrir öðrum krafti: Hann fór að skammast sín fyrir og það hindraði hann í að láta reiðina ná tökum á sér. Hann hafði þroskað með sér sjálfstjórn sem er mikilvægur ávöxtur andans. (Galatabréfið 5:22, 23) Svo var mætti orðs Guðs fyrir að þakka að persónuleiki hans var nú breyttur.
9. Hvað er það sem breytir persónuleika okkar, að því er Páll segir?
9 En hvernig hefur Biblían svona sterk áhrif? Í Kólossubréfinu 3:10 sagði Páll að persónuleiki okkar breyttist vegna nákvæmrar þekkingar sem er að finna í Biblíunni. En hvernig fær þekking breytt mönnum?
Hlutverk nákvæmrar þekkingar
10, 11. (a) Hvað lærum við um æskileg og óæskileg persónueinkenni er við nemum Biblíuna? (b) Hvað er nauðsynlegt, auk þekkingar, til að breyta persónuleika okkar?
10 Í fyrsta lagi bendir Biblían á óæskileg persónueinkenni sem menn þurfa að losa sig við. Þar má nefna ‚drembileg augu, lygna tungu og hendur sem úthella saklausu blóði, hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka, ljúgvott sem lygar mælir, og þann er kveikir illdeilur meðal bræðra.‘ (Orðskviðirnir 6:16-19) Í öðru lagi lýsir Biblían æskilegum einkennum sem við ættum að rækta með okkur, en það eru meðal annars „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi.“ — Galatabréfið 5:22, 23.
11 Nákvæm þekking hjálpar þannig einlægum manni að skoða sjálfan sig og koma auga á þau persónueinkenni sem hann þarf að leitast við að uppræta. (Jakobsbréfið 1:25) Það er þó aðeins byrjunin. Auk nákvæmrar þekkingar þarf áhugahvöt sem lætur hann langa til að breyta sér. Þar kemur nákvæm þekking á Biblíunni einnig til sögunnar.
Hvöt til þess sem gott er
12. Hvernig breytir þekking á persónuleika Guðs persónuleika okkar?
12 Páll sagði að hinn eftirsóknarverði, nýi persónuleiki verði „mynd skapara síns.“ (Kólossubréfið 3:10) Kristinn persónuleiki þarf því að líkjast persónuleika Guðs sjálfs. (Efesusbréfið 5:1) Guð opinberar okkur persónuleika sinn í Biblíunni. Við getum lesið þar um samskipti hans við mannkynið og skoðað hina góðu eiginleika hans svo sem kærleika, góðvild, gæsku, miskunn og réttlæti. Slík þekking vekur löngun með réttsinnuðum mönnum til að elska Guð og vera þess konar menn sem Guð hefur velþóknun á. (Matteus 22:37) Eins og hlýðin börn viljum við þóknast himneskum föður okkar, þannig að við reynum að líkjast persónuleika hans eins mikið og við getum sem ófullkomnir menn. — Efesusbréfið 5:1.
13. Hvaða vitneskja hjálpar okkur að ‚elska réttlæti og hata ranglæti‘?
13 Áhugahvöt okkar styrkist við þá þekkingu sem Biblían gefur um það hvaða afleiðingar góð persónueinkenni og slæm hafi. (Sálmur 14:1-5; 15:1-5; 18:21, 25) Við lærum að Davíð hlaut blessun vegna guðrækni sinnar og kærleika til réttlætisins en þjáðist er hann missti stjórn á sjálfum sér. Við sjáum hinar hryggilegu afleiðingar þess er góðir eiginleikar Salómons spilltust á elliárum hans. Blessunin sem hlaust af ráðvendni Jósía og Hiskía stingur mjög í stúf við ógæfuna sem hlaust af veikleika Akabs og þrjóskufullu fráhvarfi Manasse frá trúnni. (Galatabréfið 6:7) Þannig lærum við að ‚elska réttlætið og hata ranglætið.‘ — Hebreabréfið 1:9; Sálmur 45:8; 97:10.
14. Hver er tilgangur Jehóva með heiminn og einstaklingana sem byggja hann?
14 Þessi áhugahvöt styrkist enn meira við þekkingu á tilgangi Guðs. Slík þekking hjálpar okkur að breyta „anda og hugsun,“ sjálfum kraftinum sem knýr huga okkar og er hvati hugsana og athafna. (Efesusbréfið 4:23, 24) Þegar við nemum Biblíuna lærum við að Jehóva mun ekki umbera ranglætið að eilífu. Bráðlega mun hann eyða þessum rangláta heimi og þá rennur upp ‚nýr himinn og ný jörð þar sem réttlæti býr.‘ (2. Pétursbréf 3:8-10, 13) Hverjir munu lifa í þessum nýja heimi? „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.
15. Hvaða áhrif mun það hafa á okkur sem einstaklinga ef við í sannleika trúum því sem Biblían segir um Jehóva?
15 Ef við trúum í sannleika á þetta fyrirheit mun það hafa áhrif á hugsunarhátt okkar. Eftir að Pétur postuli hefur spáð um eyðingu hinna óguðlegu segir hann: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12) Persónuleiki okkar ætti að mótast af sterkri löngun til að vera meðal hinna ráðvöndu manna sem fá að lifa þegar óguðlegum verður tortímt.
16. Hvers konar persónueinkenni eiga ekki heima í hinum nýja heimi og hvaða áhrif ætti sú þekking að hafa á okkur?
16 Opinberunarbókin lofar ráðvöndum mönnum því að ‚Guð muni þerra hvert tár af augum þeirra og dauðinn muni ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl vera framar til. Hið fyrra skuli vera farið,‘ eftir endalok þessa heims. En síðar varar hún við því að ‚hugdeigum og vantrúuðum og viðurstyggilegum og manndrápurum og frillulífismönnum og þeim sem stunda spíritisma, skurðgoðadýrkendum og öllum lygurum‘ verði útrýmt. (Opinberunarbókin 21:4, 8) Það er sannarlega viturlegt að forðast hina óæskilegu eiginleika sem Guð mun ekki leyfa í sínum nýja heimi!
Utanaðkomandi hjálp
17. Hvers konar hjálpar hvetur Biblían okkur til að leita?
17 En menn eru máttlitlir og yfirleitt þurfa þeir einhverja hjálp, auk þekkingar og áhugahvatar, ef þeim á að takast að breyta sér. Þeir þarfnast persónulegrar hjálpar og Biblían sýnir okkur hvar hægt sé að fá hana. Til dæmis segir hún: „Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.“ (Orðskviðirnir 13:20) Ef við höfum félagsskap við fólk með eiginleika, sem okkur langar til að rækta, þá er það okkur mikil hjálp til að líkjast þeim. — 1. Mósebók 6:9; Orðskviðirnir 2:20; 1. Korintubréf 15:33.
18, 19. Hvað þurfum við að gera til að gera hugi okkar og hjörtu móttækileg fyrir anda Guðs?
18 Auk þessa hjálpar Jehóva okkur beint með því að gefa okkur heilagan anda — sama anda og hann notaði til að vinna kraftaverk fyrr á tímum. Hinir mjög svo eftirsóknarverðu eiginleikar „kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð og bindindi,“ eru meira að segja nefndir „ávöxtur andans.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Hvernig öðlumst við hjálp heilags anda? Þar eð Biblían var innblásin með heilögum anda erum við að opna hugi okkar og hjörtu fyrir sannfæringarkrafti andans þegar við lesum hana eða tölum við aðra um hana. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Jesús hét því að við gætum fundið fyrir beinum áhrifum andans þegar við töluðum við aðra um von okkar. — Matteus 10:18-20.
19 Biblían býður okkur enn fremur að vera „staðfastir í bæninni.“ (Rómverjabréfið 12:12) Með bæn ávörpum við Jehóva, lofum hann, þökkum honum og biðjum um hjálp hans. Ef við biðjum um hjálp til að sigrast á óæskilegum persónueinkennum svo sem geðvonsku, þrjósku, óþolinmæði eða stolti, þá mun andi Guðs styðja sérhverja viðleitni okkar sem samræmist þeirri bæn. — Jóhannes 14:13, 14; Jakobsbréfið 1:5; 1. Jóhannesarbréf 5:14.
20. Hvers vegna þurfa kristnir menn að vinna stöðugt að því að íklæðast hinum nýja persónuleika?
20 Þegar Páll skrifaði: „Takið háttaskipti með endurnýjung hugarfarsins“ var hann að ávarpa söfnuð skíðra, smurðra kristinna manna. (Rómverjabréfið 1:7; 12:2) Á frummálinu, grísku, notaði hann sagnbeygingu sem gefur til kynna áframhaldandi athöfn. Það gefur til kynna að endurnýjungin, sem nákvæm þekking Biblíunnar hefur í för með sér, sé markviss og áframhaldandi. Við nútímamenn erum, líkt og kristnir menn á dögum Páls, umkringdir heimi sem er fullur af spillingaráhrifum og við erum líka ófullkomnir og hættir til að gera það sem rangt er líkt og þeir. (1. Mósebók 8:21) Þess vegna þurfum við stöðugt að vinna að því að sigrast á hinum gamla, eigingjarna persónuleika og íklæðast hinum nýja, alveg eins og þeir. Frumkristnum mönnum tókst það svo vel að þeir voru gerólíkir heiminum umhverfis sig. Því er líkt farið með kristna menn nú á tímum.
Fólk sem er ‚lærisveinar Jehóva‘
21. Nefndu suma þeirra spádóma sem eru að rætast á þjónum Guðs núna á síðustu dögum.
21 Nú á tímum hefur andi Guðs ekki aðeins áhrif á einstaklinga heldur heilt samfélag kristinna manna sem telst í milljónum. Spádómsorð Jesaja rætast á þessu skipulagi: „Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jesaja 2:3) Á þeim hefur einnig ræst annar spádómur Jesaja: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ (Jesaja 54:13) Hverjir eru þetta sem njóta friðar vegna þeirrar kennslu sem þeir hljóta hjá Jehóva?
22. (a) Hverjir hljóta nú á dögum kennslu hjá Jehóva? (b) Nefndu dæmi um hvernig utanaðkomandi aðilar gera sér grein fyrir að vottar Jehóva eru frábrugðnir öðrum.
22 Hlustaðu á þetta brot úr lesandabréfi sem birtist í norður-amerísku dagblaði er nefnist New Haven Register: „Hvort sem fólki er skapraun af trúboði þeirra eða reiðist því, eins og ég, er ekki hægt annað en að dást að því hvernig þeir helga sig málstað sínum, eru uppbyggilegir og setja frábært fordæmi í hegðun og heilbrigðu líferni.“ Um hverja var bréfritari að tala? Sama hópinn og um var rætt í dagblaðinu Herald í Buenos Aires í Argentínu þar sem sagði: „Vottar Jehóva hafa gegnum árin sýnt sig vera iðjusama, reglusama, sparsama og guðhrædda borgara.“ Ítalska dagblaðið La Stampa tók í sama streng: „Þeir svíkja ekki undan skatti og reyna ekki að skjóta sér undan því að hlýða óþægilegum lögum sér til hagræðis. Hinar háleitu siðferðishugsjónir að elska náungann, neita að gegna valdastöðu, beita ekki ofbeldi og vera heiðarlegir . . . eru hluti af daglegu lífi þeirra.“
23. Hvers vegna skera vottar Jehóva sig úr sem skipulag?
23 Hvers vegna skera vottar Jehóva sig sem hópur úr miðað við aðra, líkt og frumkristnir menn? Að mörgu leyti eru þeir ekkert frábrugðnir öllum öðrum. Þeir eru ófullkomnir eins og allir aðrir frá fæðingu, hafa sömu frumþarfir og eiga við að glíma sömu efnahagsvandamál. En sem heimssöfnuður láta vottar Jehóva orð Guðs hafa áhrif á líf sitt. Það alþjóðlega bræðrafélag sannkristinna manna, sem af hlýst, er kröftugur vitnisburður þess að Biblían sé innblásið orð Guðs. — Sálmur 133:1.
Biblían er innblásin
24. Hvernig biðjum við fyrir öðru fólki?
24 Í þessum tveim greinum höfum við fært aðeins tvenns konar rök fyrir því að Biblían sé orð Guðs en ekki manna. Hvort heldur einlægir menn íhuga hina óviðjafnanlegu visku Biblíunnar eða kraft hennar til að breyta fólki — eða margt annað sem gerir Biblíuna einstæða — er óhjákvæmilegt að þeir geri sér ljóst að hún er innblásin af Guði. Sem kristnir menn biðjum við þess að margir fleiri muni gera sér grein fyrir þessum sannleika. Þá munu þeir líka enduróma söng sálmaritarans: „Sjá, hversu ég elska fyrirmæli þín, lát mig lífi halda, [Jehóva], eftir miskunn þinni. Allt orð þitt samanlagt er trúfesti og hvert réttlætisákvæði þitt varir að eilífu.“ — Sálmur 119:159, 160.
Manst þú?
◻ Hvaða áhrif hefur Biblían á sannkristna menn?
◻ Hvernig stuðlar nákvæm þekking að því að umbreyta okkur?
◻ Hvernig vekur Biblían með okkur löngun til að rækta góða eiginleika og sigrast á slæmum?
◻ Hvers konar hjálp getum við fengið til að þroska eiginleika Guði að skapi?
◻ Hvaða merki sjást um það meðal þjóna Jehóva að Biblían er innblásin af Guði?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Hinar hryggilegu afleiðingar, sem ótrúmennska Salómons á elliárunum hafði, ætti að vekja með okkur hvöt til að elska réttlætið og hata ranglætið.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Ef við biðjum Jehóva um hjálp mun andi hans efla sérhverja viðleiti okkar til að sigrast á óæskilegum einkennum.