Vonum á Jehóva og verum hugrökk
„Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“ — SÁLMUR 27:14.
1. Hve mikilvæg er vonin og hvernig er þetta orð notað í Biblíunni?
SÖNN von er eins og skært ljós. Hún hjálpar okkur að horfa til framtíðarinnar með hugrekki og gleði í stað þess að einblína á vandamál líðandi stundar. Jehóva er sá eini sem getur gefið okkur örugga von og hann gerir það í innblásnu orði sínu. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Orðin „von“ og „vona“ koma um 170 sinnum fyrir í Biblíunni í ýmsum myndum og lýsa tilhlökkun og fullvissu um eitthvað gott og vísa einnig til þess sem vonast er eftir.a Slík von er meira en óskhyggja um eitthvað sem rætist kannski aldrei.
2. Hvernig hjálpaði vonin Jesú?
2 Þegar Jesús varð fyrir prófraunum og erfiðleikum horfði hann til framtíðarinnar og vonaði á Jehóva. „Vegna gleði þeirrar, er beið hans, leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Jesú var mikið í mun að upphefja drottinvald Jehóva og helga nafn hans og þess vegna óhlýðnaðist hann honum aldrei hvað sem það kostaði hann.
3. Hvernig hjálpar vonin þjónum Guðs?
3 Davíð konungur benti á sambandið milli vonar og hugrekkis og sagði: „Vona á Drottin, ver öruggur og hugrakkur, já, vona á Drottin.“ (Sálmur 27:14) Ef við viljum vera hugrökk megum við aldrei leyfa voninni að dofna heldur verðum við að varðveita hana og hafa hana alltaf skýrt í huga. Það hjálpar okkur að líkja eftir hugrekki og eldmóði Jesú þegar við tökum þátt í því starfi sem hann fól lærisveinum sínum. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Já, Biblían segir að von, ásamt trú og kærleika, eigi að einkenna líf þjóna Guðs. — 1. Korintubréf 13:13.
Ert þú auðugur að voninni?
4. Til hvers hlakka andasmurðir kristnir menn og félagar þeirra, aðrir sauðir?
4 Þjónar Guðs hafa dásamlega framtíðarvon. Andasmurðir kristnir menn bíða þess með eftirvæntingu að þjóna með Kristi á himnum og ‚aðrir sauðir‘ vonast til að verða leystir „úr ánauð forgengileikans til dýrðarfrelsis [jarðneskra] Guðs barna“. (Jóhannes 10:16; Rómverjabréfið 8:19-21; Filippíbréfið 3:20) Þetta ‚dýrðarfrelsi‘ felur í sér lausn undan syndinni og hörmulegum afleiðingum hennar. Jehóva gefur ‚sérhverja góða gjöf og sérhverja fullkomna gáfu‘ og myndi ekki veita trúföstum þjónum sínum neitt minna. — Jakobsbréfið 1:17; Jesaja 25:8.
5. Hvernig verðum við auðug að voninni?
5 Hvað ætti framtíðarvonin að hafa mikil áhrif á líf okkar? Í Rómverjabréfinu 15:13 lesum við: „Guð vonarinnar fylli yður öllum fögnuði og friði í trúnni, svo að þér séuð auðugir að voninni í krafti heilags anda.“ Já, þessi von er ekki eins og kertaljós í myrkri heldur eins og bjartir geislar morgunsólarinnar sem veita okkur frið, hamingju, hugrekki og tilgang í lífinu. Taktu eftir því að við verðum auðug að von ef við trúum á ritað orð Guðs og fáum heilagan anda hans. Í Rómverjabréfinu 15:4 segir: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ Spyrðu því sjálfan þig: „Viðheld ég voninni með því að vera iðinn biblíunemandi og lesa í orði Guðs daglega? Bið ég oft um anda Guðs?“ — Lúkas 11:13.
6. Hvað verðum við að varast til að viðhalda von okkar?
6 Jesús er fyrirmynd okkar og hann sótti styrk í orð Guðs. Með því að gefa vandlega gaum að fordæmi hans ‚þreytumst við hvorki né látum hugfallast‘. (Hebreabréfið 12:3) Ef við höfum biblíulegu vonina ekki skýrt í huga og hjarta eða förum að einblína á eitthvað annað — til dæmis efnislega hluti eða veraldleg markmið — gætum við fljótt orðið andlega þreytt og með tímanum misst siðferðisþrótt okkar og hugrekki. Ef þetta gerðist gætum við jafnvel „liðið skipbrot á trú [okkar]“. (1. Tímóteusarbréf 1:19) Sönn von styrkir hins vegar trúna.
Von og trú haldast í hendur
7. Hvers vegna má segja að vonin sé ómissandi þáttur trúarinnar?
7 „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá,“ segir í Biblíunni. (Hebreabréfið 11:1) Vonin er því ómissandi þáttur trúarinnar en ekki eitthvað tilfallandi. Tökum Abraham sem dæmi. Frá sjónarhóli manna voru hann og Sara, eiginkona hans, orðin of fullorðin til að eignast börn þegar Jehóva lofaði þeim erfingja. (1. Mósebók 17:15-17) Hver voru viðbrögð Abrahams? „Abraham trúði með von, gegn von, að hann skyldi verða faðir margra þjóða.“ (Rómverjabréfið 4:18) Já, biblíuleg von Abrahams treysti trú hans á loforðið um að hann myndi eignast afkomanda. Og trú hans styrkti síðan vonina og gerði hana bjartari. Abraham og Sara höfðu meira að segja hugrekki til að yfirgefa heimili sitt og ættingja og búa það sem eftir var ævinnar í tjöldum í ókunnu landi.
8. Hvernig getur þolgæði styrkt von okkar?
8 Abraham viðhélt von sinn með því að hlýða Jehóva í einu og öllu jafnvel þegar það var erfitt. (1. Mósebók 22:2, 12) Við megum líka vera viss um að von okkar rætist ef við hlýðum Jehóva og erum þolgóð í þjónustu hans. Páll sagði að „þolgæðið“ veitti „fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki.“ (Rómverjabréfið 5:4, 5) Þess vegna skrifaði hann einnig: „Vér óskum, að sérhver yðar sýni sömu ástundan allt til enda, þar til von yðar fullkomnast.“ (Hebreabréfið 6:11) Þessi bjarta framtíðarvon, sem við getum átt ef við höfum náið samband við Jehóva, getur gert okkur kleift að mæta hvaða erfiðleikum sem er af hugrekki og jafnvel með gleði.
„Verið glaðir í voninni“
9. Hvað getur hjálpað okkur að vera glöð í voninni?
9 Vonin, sem Guð hefur gefið okkur, er dýrmætari en nokkuð sem heimurinn getur boðið upp á. Í Sálmi 37:34 segir: „Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ Já, við höfum ærna ástæðu til að ‚vera glöð í voninni‘. (Rómverjabréfið 12:12) En við verðum að hafa vonina skýrt í huga. Hugsar þú reglulega um framtíðarvonina? Sérðu sjálfan þig í paradís þar sem þú hefur fullkomna heilsu, ert laus undan öllum áhyggjum, býrð meðal fólks sem þér þykir vænt um og hefur ánægjulegt verk að vinna? Skoðarðu vandlega paradísarmyndirnar í ritum okkar? Þegar við hugsum reglulega um biblíulega von okkar er það eins og að þrífa glugga sem býður upp á stórkostlegt útsýni. Ef við gleymum að þrífa gluggann geta óhreinindi fljótlega farið að skyggja á útsýnið. Þá gætu aðrir hlutir gripið athygli okkar. Látum það aldrei gerast.
10. Af hverju er það að horfa til launanna merki um gott samband við Jehóva?
10 Að sjálfsögðu þjónum við Jehóva aðallega vegna þess að við elskum hann. (Markús 12:30) Samt sem áður ættum við að hugsa til launanna með tilhlökkun. Jehóva ætlast meira að segja til þess að við gerum það. Í Hebreabréfinu 11:6 segir: „Án trúar er ógerlegt að þóknast honum, því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ Af hverju vill Jehóva að við trúum því að hann umbuni okkur? Af því að þannig sýnum við hve vel við þekkjum föður okkar á himnum. Hann er örlátur og hann elskar börnin sín. Ímyndaðu þér hve óhamingjusöm við yrðum og hve fljótlega við misstum kjarkinn ef við hefðum ekki „vonarríka framtíð“. — Jeremía 29:11.
11. Hvernig gerði von Móse honum kleift að taka viturlegar ákvarðanir?
11 Móse var framúrskarandi dæmi um mann sem hafði vonina alltaf skýrt í huga. Þar sem hann var „dóttursonur Faraós“ hefði hann getað fengið völd, virðingu og auðæfi í Egyptalandi. Hvort ætlaði hann að sækjast eftir þessum hlutum eða þjóna Jehóva? Móse sýndi hugrekki og valdi hið síðarnefnda. Af hverju? Af því að hann „horfði fram til launanna“. (Hebreabréfið 11:24-26) Já, Móse stóð greinilega ekki á sama um vonina sem Jehóva hafði veitt honum.
12. Af hverju er vonin eins og hjálmur?
12 Páll postuli líkti voninni við hjálm. Þessi táknræni hjálmur verndar hugann og gerir okkur kleift að taka viturlegar ákvarðanir, hafa rétta forgangsröð og vera ráðvönd. (1. Þessaloníkubréf 5:8) Ert þú alltaf með þennan táknræna hjálm á höfðinu? Ef svo er geturðu verið eins og Móse og Páll sem treystu ekki „fallvöltum auði, heldur Guði, sem lætur oss allt ríkulega í té til nautnar“. Það kostar að vísu hugrekki að snúa baki við eigingjarnri lífsstefnu og ganga gegn því sem almennt viðgengst í samfélaginu en það er vel þess virði. Af hverju ættum við að sætta okkur við eitthvað minna en „hið sanna líf“ sem bíður þeirra sem vona á Jehóva og elska hann? — 1. Tímóteusarbréf 6:17, 19.
„Ég mun ekki sleppa af þér hendinni“
13. Um hvað fullvissar Jehóva trúfasta þjóna sína?
13 Þeir sem leggja traust sitt á þennan heim hljóta að fyllast kvíða þegar þeir horfa til framtíðarinnar þar sem ástandið í heiminum fer hríðversnandi. (Matteus 24:8) En þeir sem vona á Jehóva eru lausir við þennan ótta. Þeir halda áfram að ‚búa óhultir, vera öruggir og munu engri óhamingju kvíða‘. (Orðskviðirnir 1:33) Þar sem þeir binda ekki vonir sínar við þennan heim fylgja þeir fúslega orðum Páls: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ — Hebreabréfið 13:5.
14. Af hverju þurfa kristnir menn ekki að hafa of miklar áhyggjur af efnislegum nauðsynjum?
14 Af þessu versi sjáum við greinilega að Guð mun annast okkur. Jesús fullvissaði okkur einnig um að Guði væri innilega annt um okkur og sagði: „Leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta [efnislegar nauðsynjar] veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur.“ (Matteus 6:33, 34) Jehóva veit að það getur verið erfitt að vera kappsöm í þjónustunni við hann samhliða þeirri ábyrgð að sjá fyrir efnislegum þörfum. Við skulum því hafa fullt traust til þess að hann bæði geti séð fyrir þörfum okkar og vilji gera það. — Matteus 6:25-32; 11:28-30.
15. Hvernig halda kristnir menn auganu heilu?
15 Við sýnum að við treystum Jehóva með því að halda ‚auganu heilu‘. (Matteus 6:22, 23) Heilt auga er einlægt, hefur hreinar hvatir og er laust við græðgi og framagirni. Það þýðir samt ekki að við verðum að búa við sára fátækt eða vanrækja þá kristnu skyldu að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar. Við verðum öllu heldur að vera heilbrigð í hugsun og setja þjónustuna við Jehóva framar öðru í lífinu. — 2. Tímóteusarbréf 1:7, NW.
16. Af hverju verðum við að sýna trú og hugrekki til að halda auganu heilu?
16 Við verðum að sýna trú og hugrekki til að halda auganu heilu. Segjum sem svo að vinnuveitandi þinn vilji að þú vinnir reglulega á samkomutímum. Munt þú sýna hugrekki og láta andleg mál hafa forgang? Ef við efumst um að Jehóva standi við loforðið um að annast þjóna sína er nóg fyrir Satan að halda áfram að beita okkur þrýstingi og þá hættum við kannski alveg að mæta á samkomur. Já, ef okkur skortir trú gefum við Satan færi á að stjórna okkur og við látum hann, en ekki Jehóva, hafa áhrif á það hvernig við forgangsröðum. Það væri mjög sorglegt. — 2. Korintubréf 13:5.
Vonaðu á Jehóva
17. Hvaða umbun hljóta þeir sem leggja traust sitt á Jehóva?
17 Í Biblíunni sjáum við aftur og aftur að þeir sem vona á Jehóva og leggja traust sitt á hann njóta velgengni. (Orðskviðirnir 3:5, 6; Jeremía 17:7) Að vísu gætu þeir stundum þurft að sætta sig við að hafa lítið af efnislegum gæðum en þeim finnst það ekki mikil fórn í samanburði við þá blessun sem bíður þeirra. Þeir sýna þannig að þeir vona á Jehóva og treysta því að hann muni að lokum uppfylla allar réttmætar óskir trúfastra þjóna sinna. (Sálmur 37:4, 34) Þess vegna geta þeir jafnvel núna notið sannrar hamingju. „Eftirvænting réttlátra endar í gleði, en von óguðlegra verður að engu.“ — Orðskviðirnir 10:28.
18, 19. (a) Um hvað fullvissar Jehóva okkur? (b) Hvernig getum við haft Jehóva okkur „til hægri handar“?
18 Þegar lítill drengur heldur í hönd föður síns finnur hann til öryggis. Hið sama má segja um okkur þegar við göngum með himneskum föður okkar. Jehóva sagði við Ísraelsþjóðina: „Óttast þú eigi, því að ég er með þér. . . . Ég hjálpa þér. . . . Því að ég, Drottinn, Guð þinn, held í hægri hönd þína og segi við þig: ‚Óttast þú eigi, ég hjálpa þér!‘“ — Jesaja 41:10, 13.
19 Það er dásamlegt að hugsa til þess að Jehóva skuli leiða okkur. „Ég hefi Drottin ætíð fyrir augum,“ skrifaði Davíð. „Þegar hann er mér til hægri handar, skriðnar mér ekki fótur.“ (Sálmur 16:8) Hvernig getum við haft Jehóva okkur „til hægri handar“? Við höfum að minnsta kosti tvær leiðir til þess. Í fyrsta lagi leyfum við orði hans að leiðbeina okkur á öllum sviðum lífsins. Í öðru lagi horfum við til þeirra dásamlegu launa sem Jehóva hefur heitið okkur. Sálmaritarinn Asaf söng: „Ég er ætíð hjá þér, þú heldur í hægri hönd mína. Þú munt leiða mig eftir ályktun þinni, og síðan munt þú taka við mér í dýrð.“ (Sálmur 73:23, 24) Já, þegar við höfum slíka fullvissu getum við horft örugg til framtíðar.
„Lausn yðar er í nánd“
20, 21. Hvaða framtíðarvon hafa þeir sem vona á Jehóva?
20 Með hverjum degi sem líður er meira áríðandi að hafa Jehóva sér til hægri handar. Fljótlega, í kjölfar eyðingar falstrúarbragðanna, mun þrenging koma yfir heim Satans. Þessi þrenging verður sú mesta sem orðið hefur. (Matteus 24:21) Mikill ótti mun grípa alla trúlausa menn. En á þessum örlagaríku tímum munu hugrakkir þjónar Jehóva fagna í voninni. „Þegar þetta tekur að koma fram,“ sagði Jesús, „þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ — Lúkas 21:28.
21 Við skulum því fagna í voninni sem Guð hefur gefið okkur og láta ekki blekkjast eða freistast af lævísum tilraunum Satans til að dreifa athygli okkar. Leggjum okkur fram um að þroska með okkur trú, kærleika og guðsótta. Ef við gerum það fáum við hugrekki til að hlýða Jehóva undir öllum kringumstæðum og standa gegn djöflinum. (Jakobsbréfið 4:7, 8) Já, „verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin“. — Sálmur 31:25.
[Neðanmáls]
a Í Grísku ritningunum er orðið „von“ oftast notað um himneska von andasmurðra kristinna manna en í þessari grein er rætt um von almennt.
Hvert er svarið?
• Hvernig veitti vonin Jesú hugrekki?
• Hver eru tengslin milli trúar og vonar?
• Hvernig geta von og trú veitt kristnum mönnum hugrekki til að forgangsraða rétt í lífinu?
• Hvers vegna geta þeir sem vona á Jehóva horft hughraustir til framtíðar?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Sérðu sjálfan þig fyrir þér í paradís, óháð því hvort þú ert ungur eða gamall?