Byggjum upp söfnuðinn
„Hvetjið . . . og uppbyggið hvert annað.“ — 1. ÞESS. 5:11.
1. Hvaða blessun fylgir því að vera í kristna söfnuðinum en hvaða erfiðleika getum við samt átt við að stríða?
ÞAÐ er mikil blessun að tilheyra kristna söfnuðinum. Þú átt gott samband við Jehóva. Þú reiðir þig á leiðbeiningar Biblíunnar og ert því laus við slæmar afleiðingar af ókristilegu líferni. Þú ert umkringdur sönnum vinum sem vilja að þér vegni vel. Blessunin er margþætt. En flestir þjónar Guðs eiga við að stríða vandamál af einu eða öðru tagi. Sumir þurfa ef til vill hjálp til að skilja hin djúpu sannindi í orði Guðs. Aðrir eru veikir, niðurdregnir eða líða fyrir það að hafa tekið óviturlegar ákvarðanir. Og öll þurfum við að búa í óguðlegum heimi.
2. Hvernig ættum við að bregðast við þegar trúsystkini á í erfiðleikum og hvers vegna?
2 Ekkert okkar langar til að horfa upp á trúsystkini þjást eða eiga í erfiðleikum. Páll postuli líkti söfnuðinum við líkama og sagði: „Hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum.“ (1. Kor. 12:12, 26) Þegar það gerist ættum við að leggja okkur fram um að styðja bræður okkar og systur. Í Biblíunni er sagt frá mörgum dæmum þar sem safnaðarmenn hjálpuðu öðrum að takast á við erfiðleika og sigrast á þeim. Þegar við skoðum þessar frásögur skaltu hugleiða hvernig þú gætir orðið að liði á svipaðan hátt og lýst er í frásögunni. Hvernig geturðu hjálpað trúsystkinum að halda áfram að þjóna Jehóva og átt þátt í að byggja upp söfnuðinn?
Þau „tóku hann að sér“
3, 4. Hvernig hjálpuðu Akvílas og Priskilla Apollósi?
3 Apollós var orðinn kappsamur trúboði þegar hann settist að í Efesus. „Brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú,“ segir í Postulasögunni. „Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.“ Apollós vissi ekki af skírn „í nafni föður og sonar og heilags anda“. Það merkir sennilega að annaðhvort hafi lærisveinar Jóhannesar skírara vitnað fyrir honum eða fylgjendur Jesú fyrir hvítasunnu árið 33. Enda þótt Apollós væri kostgæfinn vantaði töluvert upp á þekkingu hans. Hvernig naut hann góðs af því að umgangast trúsystkini? — Post. 1:4, 5; 18:25; Matt. 28:19.
4 Hjónin Akvílas og Priskilla heyrðu Apollós tala skörulega í samkunduhúsinu. Þau tóku hann að sér og kenndu honum það sem vantaði upp á þekkingu hans. (Lestu Postulasöguna 18:24-26.) Það var kærleiksríkt af þessum kristnu hjónum. Akvílas og Priskilla hafa eflaust verið nærgætin þegar þau komu að máli við hann og gætt þess að hann fengi ekki á tilfinninguna að þau væru að gagnrýna hann. Málið var einfaldlega það að hann þekkti ekki sögu frumkristna safnaðarins. Og Apollós hefur vafalaust verið þakklátur þessum nýju vinum fyrir að veita sér þessar mikilvægu upplýsingar. Þessi nýja vitneskja gerði að verkum að hann „varð til mikillar hjálpar“ trúsystkinum sínum í Akkeu og vitnaði kröftuglega um sannleikann. — Post. 18:27, 28.
5. Hvaða kærleiksríku aðstoð bjóða boðberar þúsundum saman og með hvaða árangri?
5 Í kristna söfnuðinum nú á tímum eru ótalmargir sem eru innilega þakklátir þeim sem fræddu þá um Biblíuna. Traust og varanleg vinátta hefur tekist með mörgum nemendum og kennurum. Í flestum tilvikum er nauðsynlegt að hitta fólk reglulega um nokkurra mánaða skeið til að ræða við það og kenna því sannleikann. En boðberar fagnaðarerindisins eru fúsir til að færa þessa fórn vegna þess að þeir vita að mannslíf eru í húfi. (Jóh. 17:3) Og það er ákaflega ánægjulegt þegar fólk skilur sannleikann, lifir samkvæmt honum og notar krafta sína til að gera vilja Jehóva.
Þeir „báru honum gott orð“
6, 7. (a) Af hverju valdi Páll Tímóteus sem ferðafélaga? (b) Hvaða framförum tók Tímóteus með hjálp Páls?
6 Þegar postularnir Páll og Sílas heimsóttu Lýstru í annarri trúboðsferðinni hittu þeir þar ungan mann sem hét Tímóteus, en hann kann að hafa verið öðru hvoru megin við tvítugt. Bræðurnir „í Lýstru og Íkóníum báru honum gott orð“. Evnike, móðir Tímóteusar, og Lóis, amma hans, voru vígðir þjónar Guðs en faðir hans var ekki í trúnni. (2. Tím. 1:5) Vera má að Páll hafi kynnst fjölskyldunni þegar hann kom á svæðið í fyrsta sinn um tveim árum áður. En nú gaf postulinn Tímóteusi sérstakan gaum vegna þess að hann virtist einstaklega efnilegur ungur maður. Með samþykki öldungaráðsins í Lýstru varð Tímóteus aðstoðarmaður Páls í trúboðsstarfi hans. — Lestu Postulasöguna 16:1-3.
7 Tímóteus gat lært mikið af sér eldri félaga. Svo góður nemandi var hann að Páll gat óhikað sent hann til annarra safnaða sem fulltrúa sinn. Á þeim 15 árum eða svo, sem Tímóteus naut samvista við Pál, breyttist hann úr óreyndum og ef til vill feimnum ungum manni í framúrskarandi umsjónarmann. — Fil. 2:19-22; 1. Tím. 1:3.
8, 9. Hvernig er hægt að vera ungu fólki í söfnuðinum til hvatningar? Nefndu dæmi.
8 Það er margt efnilegt ungt fólk í kristna söfnuðinum nú á dögum. Ef andlega sinnaðir félagar styðja vel við þetta unga fólk getur það verið því hvatning til að leggja sig vel fram og taka að sér fleiri verkefni. Líttu í kringum þig í söfnuðinum þínum. Sérðu þar ungt fólk sem gæti boðið fram krafta sína líkt og Tímóteus? Með hjálp þinni og hvatningu gætu þessi ungmenni orðið brautryðjendur, Betelítar, trúboðar eða farandumsjónarmenn. Hvað getur þú gert til að hjálpa þeim að vinna að slíkum markmiðum?
9 Martin hefur tilheyrt Betelfjölskyldunni í 20 ár. Hann minnist með þakklæti hvernig farandumsjónarmaður sýndi honum áhuga fyrir 30 árum meðan þeir tveir voru saman í boðunarstarfinu. Umsjónarmaðurinn talaði af innlifun um sitt eigið starf á Betel þegar hann var yngri. Hann hvatti Martin til að setja sér það markmið að bjóða sig fram til starfa í söfnuði Jehóva með svipuðum hætti. Martin telur að þetta eftirminnilega samtal hafi haft sterk áhrif á þær ákvarðanir sem hann tók síðar. Hver veit nema þú getir orðið ungum vinum í söfnuðinum til góðs með því að tala við þá um markmið í þjónustu Jehóva.
Hughreystum niðurdregna
10. Hvernig leið Epafrodítusi og af hverju?
10 Epafrodítus lagði upp í langa og lýjandi ferð frá Filippí til Rómar til að heimsækja Pál postula sem sat þar í fangelsi vegnar trúar sinnar. Epafrodítus var sendur til að færa postulanum gjöf frá söfnuðinum í Filippí en hann áformaði einnig að dveljast hjá honum og liðsinna honum eftir fremsta megni við þessar erfiðu aðstæður. En meðan Epafrodítus var í Róm veiktist hann og var „að dauða kominn“. Honum fannst hann hafa brugðist og varð mjög niðurdreginn. — Fil. 2:25-27.
11. (a) Af hverju ætti það ekki að koma okkur á óvart ef einhver í söfnuðinum verður niðurdreginn? (b) Hvað hvatti Páll söfnuðinn í Filippí til að gera fyrir Epafrodítus?
11 Ýmiss konar álag getur gert fólk niðurdregið. Samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni á allt að 1 af hverjum 5 við þunglyndi að stríða einhvern tíma á ævinni. Þetta getur einnig hent þjóna Jehóva. Fólk getur orðið niðurdregið vegna þess að það á erfitt með að sjá fjölskyldunni farborða, á við heilsubrest að stríða, er miður sín vegna veikleika sinna eða af ýmsum öðrum orsökum. Hvað gat söfnuðurinn í Filippí gert til að hjálpa Epafrodítusi? Páll skrifaði: „Takið . . . á móti honum í nafni Drottins með miklum fögnuði og hafið slíka menn í heiðri. Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp þá þjónustu sem þið gátuð ekki veitt mér.“ — Fil. 2:29, 30.
12. Hvað getur verið niðurdregnum til hughreystingar?
12 Við ættum líka að uppörva trúsystkini sem eru niðurdregin eða þunglynd. Við getum örugglega sagt margt jákvætt um þjónustu þeirra við Jehóva. Kannski hafa þau gert miklar breytingar til að gerast kristin eða til að þjóna í fullu starfi. Við vitum hvað þau hafa lagt á sig og getum fullvissað þau um að Jehóva viti það líka. Þó að aldur eða heilsubrestur hindri suma dygga þjóna Jehóva í að gera jafn mikið og áður verðskulda þeir virðingu okkar fyrir áralanga þjónustu. Hver sem staðan er hvetur Jehóva alla trúfasta þjóna sína: „Hughreystið ístöðulitla [„niðurdregna,“ NW], takið að ykkur óstyrka, verið þolinmóð við alla.“ — 1. Þess. 5:14.
„Að fyrirgefa honum og uppörva hann“
13, 14. (a) Til hvaða alvarlegu aðgerða greip söfnuðurinn í Korintu og hvers vegna? (b) Hvaða áhrif hafði það að víkja manninum úr söfnuðinum?
13 Sú staða kom upp í söfnuðinum í Korintu á fyrstu öld að maður lifði í saurlifnaði og iðraðist einskis. Hátterni hans ógnaði hreinleika safnaðarins og hneykslaði meira að segja fólk utan safnaðarins. Páll gaf því eðlilega þær leiðbeiningar að manninum skyldi vikið úr söfnuðinum. — 1. Kor. 5:1, 7, 11-13.
14 Ögunin hafði jákvæð áhrif. Hún verndaði söfnuðinn fyrir spillandi áhrifum og kom vitinu fyrir syndarann svo að hann iðraðist einlæglega. Þar sem maðurinn vann verk samboðin iðruninni sagði Páll í síðara bréfinu til Korintumanna að hann skyldi tekinn inn í söfnuðinn á ný. En það var ekki allt og sumt. Páll hvatti söfnuðinn einnig til að ,fyrirgefa hinum iðrandi syndara og uppörva hann til þess að hann sykki ekki niður í allt of mikla hryggð‘. — Lestu 2. Korintubréf 2:5-8.
15. Hvernig eigum við að líta á iðrandi syndara sem eru teknir aftur inn í söfnuðinn?
15 Hvað má læra af þessari frásögu? Það hryggir okkur ef víkja þarf einhverjum úr söfnuðinum. Þeir hafa ef til vill kastað rýrð á nafn Guðs og komið óorði á söfnuðinn. Hugsanlega hafa þeir jafnvel syndgað gegn okkur persónulega. En þegar öldungarnir, sem falið er að rannsaka málið, ákvarða í samræmi við leiðbeiningar Jehóva að iðrandi syndari skuli tekinn aftur inn í söfnuðinn gefur það til kynna að Jehóva hafi fyrirgefið honum. (Matt. 18:17-20) Eigum við ekki að reyna að líkja eftir Jehóva? Ef við værum harðneskjuleg og ósáttfús værum við eiginlega að setja okkur upp á móti Jehóva. Ættum við ekki frekar að ,sýna kærleika í reynd‘ gagnvart syndurum sem iðrast í einlægni og eru teknir aftur inn í söfnuðinn? Þá njótum við velþóknunar Guðs og stuðlum að friði og einingu í söfnuðinum. — Matt. 6:14, 15; Lúk. 15:7.
„Hann er mér þarfur“
16. Af hverju varð Páll fyrir vonbrigðum með Markús?
16 Við sjáum af annarri frásögu í Biblíunni að við ættum ekki að ala með okkur gremju í garð þeirra sem valda okkur vonbrigðum. Sem dæmi má nefna að Jóhannes Markús olli Páli postula sárum vonbrigðum. Hvernig? Þegar Páll og Barnabas lögðu af stað í fyrstu trúboðsferðina var Markús með í för og var þeim til aðstoðar. En þegar þeir voru komnir nokkuð áleiðis sagði hann skilið við félaga sína og sneri aftur heim. Ósagt er látið hver ástæðan var. Páll varð fyrir svo miklum vonbrigðum að þegar hann var að undirbúa aðra trúboðsferð urðu þeir Barnabas ósáttir um það hvort Markús ætti að koma með þeim. Með hliðsjón af því sem gerðist í fyrstu ferðinni vildi Páll ekki að Markús kæmi með. — Lestu Postulasöguna 13:1-5, 13; 15:37, 38.
17, 18. Hvernig vitum við að Páll og Markús sættust og hvaða lærdóm má draga af því?
17 Ljóst er að Markús tók það ekki óhóflega nærri sér að Páll skyldi hafna honum því að hann hélt áfram trúboðsstarfi annars staðar ásamt Barnabasi. (Post. 15:39) Hann var trúr og traustur eins og sjá má af ummælum Páls nokkrum árum síðar. Páll var þá fangi í Róm og gerði Tímóteusi boð bréflega um að koma til sín. Í bréfinu segir meðal annars: „Tak þú Markús með þér til mín. Hann er mér þarfur í þjónustunni.“ (2. Tím. 4:11) Páll hafði greinilega fengið meiri mætur á Markúsi.
18 Það má draga vissan lærdóm af þessu. Markús tileinkaði sér þá eiginleika sem einkenna góðan trúboða. Hann gerði það ekki að ásteytingarefni að Páll skyldi hafna honum í fyrstu. Þeir voru báðir andlega þroskaðir menn og það var engin varanleg óvild á milli þeirra. Páll viðurkenndi síðar að Markús væri verðmætur aðstoðarmaður. Þegar trúsystkini setja niður ágreining og missættið líður hjá er rétta leiðin að gleyma því sem að baki er og hjálpa öðrum að taka framförum í sannleikanum. Við byggjum upp söfnuðinn með því að vera jákvæð í garð annarra.
Hlutverk þitt í söfnuðinum
19. Hvernig geta allir í söfnuðinum hjálpað hver öðrum?
19 Núna eru „örðugar tíðir“ og þú þarfnast hjálpar trúsystkina þinna í söfnuðinum rétt eins og þau þarfnast hjálpar þinnar. (2. Tím. 3:1) Einstaklingar í söfnuðinum vita ekki alltaf hvernig best sé að bregðast við ákveðnum aðstæðum en Jehóva veit það. Og hann getur notað ýmsa í söfnuðinum — þar á meðal þig — til að hjálpa öðrum að taka réttu stefnuna. (Jes. 30:20, 21; 32:1, 2) Við skulum því fyrir alla muni taka til okkar hvatningu Páls postula: „Hvetjið . . . og uppbyggið hvert annað, eins og þið og gerið.“ — 1. Þess. 5:11.
Hvert er svarið?
• Af hverju er mikilvægt að við uppbyggjum hvert annað í kristna söfnuðinum?
• Hvers konar erfiðleika gætirðu hjálpað öðrum að yfirstíga?
• Af hverju þörfnumst við hjálpar annarra í söfnuðinum?
[Mynd á bls. 11]
Við getum orðið að liði þegar trúsystkini okkar á í erfiðleikum.
[Mynd á bls. 12]
Það er margt efnilegt ungt fólk í kristna söfnuðinum.