Varpað ljósi á nærveru Krists
„Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni . . . mun [hann] skilja hvern frá öðrum.“ — MATTEUS 25:31, 32.
1. Hvernig hafa klerkar kristna heimsins túlkað orðin í Matteusi 24:3?
ÞREM dögum fyrir dauða Jesú komu fjórir af lærisveinum hans til hans og spurðu einlægir í bragði: „Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar [á grísku, parósía] og endaloka veraldar?“ Um aldaraðir hafa klerkastétt og rithöfundar kristna heimsins túlkað þessi orð Jesú í Matteusi 24:3 á þann veg að hann myndi koma aftur sýnilegur í holdi og allt mannkyn sjá hann. Þess vegna hafa þeir kennt að endurkoma Krists yrði samfara mikilfenglegu sjónarspili og sýnilegri viðhöfn. Þeir tala um hana sem síðari komu Krists. En eru hugmyndir þeirra réttar?
2, 3. (a) Hvernig gerði 2. bindi Rannsókna á Ritningunni greinarmun á orðunum „koma“ og „nærvera“? (b) Hverju fengu þjónar Jehóva skilning á varðandi merkingu parósía Krists?
2 Árið 1889 höfðu smurðir þjónar Jehóva, ljósberar hans á 19. öld, fengið réttan skilning á því hvers eðlis endurkoma Krists yrði. Í öðru bindi ritverksins Rannsóknir á Ritningunni, blaðsíðu 158 til 161, skrifaði Charles T. Russell, fyrsti forseti Biblíu- og smáritafélagsins Varðturninn: „Parósía . . . táknar nærveru og ætti aldrei að þýða sem komu eins og algengt er í hinni almennu ensku biblíu . . . ‚Emphatic Diaglott,‘ afar verðmæt þýðing Nýjatestamentisins, þýðir parósía réttilega sem nærveru . . . ekki sem komu, eins og hann sé á leiðinni, heldur sem nærveru, eins og eftir komuna . . . [Jesús] segir: ‚Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við parósía [nærveru] Mannssonarins.‘ Takið eftir að ekki er verið að bera saman komu Nóa og komu Drottins vors . . . Það er verið að bera saman nærverutíma Nóa meðal fólksins ‚fyrir flóðið‘ og nærverutíma Krists í heiminum, við síðari komu hans, ‚fyrir eldinn‘ — hina miklu erfiðleika á degi Drottins [Jehóva] sem þetta tímabil endar á.“ — Matteus 24:37.
3 Þjónar Jehóva á 19. öld skildu þannig réttilega að parósía Krists yrði ósýnileg. Þeir höfðu líka hlotið skilning á því að tímar heiðingjanna myndu enda haustið 1914. Samhliða aukinni andlegri upplýsingu skildu þeir síðar að Jesús Kristur hafði verið settur í hásæti á himnum sem konungur Guðsríkis þetta sama ár, 1914. — Orðskviðirnir 4:18; Daníel 7:13, 14; Lúkas 21:24; Opinberunarbókin 11:15.
„Nærvera Drottins okkar“
4. Hvað er „nærvera Drottins okkar Jesú Krists“?
4 Hvað er þá á okkar dögum átt við með hinu biblíulega orðfæri „nærvera Drottins okkar Jesú Krists“? (1. Þessaloníkubréf 5:23, NW) Ein heimild segir að hugtakið „nærvera,“ parósía, „hafi orðið opinbert heiti fyrir heimsókn háttsettra manna, einkum konunga og keisara er þeir heimsóttu stjórnsýsluhéruð.“ Þetta orðalag vísar því til nærveru Drottins Jesú Krists sem konungs frá og með 1914, eftir að hann var settur í hásæti á himnum. Hann er ósýnilega nærverandi til að ‚drottna mitt á meðal óvina sinna‘ og ríkir sem konungur og uppfyllir þetta spádómlega boð. (Sálmur 110:2) Núna hafa menn á jörðinni fundið fyrir áhrifunum af ósýnilegri nærveru Krists sem konungur í um 79 ár.
5. Hvaða þróun á parósía-tímanum verður fjallað um í þrem námsgreinum í þessu blaði?
5 Í þessari þriggja greina röð munum við rifja upp hinn eftirtektarverða vitnisburð um það sem ríki Krists hefur áorkað á þessu tímabili. Fyrst munum við draga fram nokkra biblíuspádóma um atburði sem hafa nú þegar gerst eða eru að gerast jafnvel núna. Í öðru lagi verður lýst hinu mikla starfi sem hinn trúi og hyggni þjónn, er Jesús notar allan konunglegan nærverutíma sinn, er að vinna. (Matteus 24:45-47) Þriðja greinin lýsir fyrir okkur hinum miklu endalokum, tímabilinu sem nefnt er ‚þrengingin mikla.‘ Það er sá tími er Jesús kemur til að fullnægja dómi Jehóva og eyða hinum ranglátu og frelsa hina réttlátu. (Matteus 24:21, 29-31) Páll postuli lýsti þessum eyðingartíma þannig: „Yður, sem þrengingu líðið, veitir hann hvíld ásamt oss, þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:7, 8.
Táknið
6. Hvaða samsettu tákni er lýst í 24. og 25. kafla Matteusar?
6 Fyrir 1900 árum báðu lærisveinar Jesú, sem voru ljósberar þess tíma, hann um tákn eða merki um framtíðarnærveru hans sem konungs. Í svari hans, sem skráð er í 24. og 25. kafla hjá Matteusi, er sagt fyrir samsett tákn sem er allt að uppfyllast núna í alþjóðlegum mæli. Uppfylling þessa tákns markar tíma erfiðleika og mikilla prófrauna. Jesús aðvaraði: „Varist að láta nokkurn leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ‚Ég er Kristur!‘ og marga munu þeir leiða í villu. Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.“ — Matteus 24:4-6.
7. Hvaða þætti táknsins höfum við séð uppfyllast frá 1914?
7 Jesús spáði einnig að það myndu verða umfangsmeiri styrjaldir en nokkurn tíma fyrr. Tvær þeirra hafa í uppfyllingunni verið flokkaðar sem heimsstyrjaldir, önnur frá 1914 til 1918 og hin frá 1939 til 1945. Enn fremur sagði hann að það myndi verða matvælaskortur og jarðskjálftar á einum stað af öðrum. Sannkristnir menn áttu að sæta hörðum ofsóknum. Í samræmi við spádóminn hafa vottar Jehóva, ljósberar nútímans, mátt þola ofsóknir síðastliðna átta áratugi meðan þeir hafa prédikað fagnaðarerindið um ríki Guðs „um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar.“ (Matteus 24:7-14) Hver einasta Árbók votta Jehóva ber vitni um það að þessir þættir táknsins eru að uppfyllast.
8, 9. (a) Hvað felur nærvera Jesú sem konungs í sér? (b) Hvað gefur spádómur Jesú um falskrista til kynna varðandi það hvar og hvernig hann verði nærverandi?
8 Með því að konungdómur Jesú nær yfir alla jörðina er sönn guðsdýrkun í vexti á öllum meginlöndum heims. Nærverutími hans sem konungs (parósía) er tími skoðunar og rannsóknar um allan heim. (1. Pétursbréf 2:12) En er einhver höfuðborg eða miðstöð þar sem hægt er að leita til Jesú? Jesús svaraði því með því að segja fyrir að falskristar myndu koma fram á sjónarsviðið vegna eftirvæntingar um nærveru hans. Hann aðvaraði: „Ef þeir segja við yður: ‚Sjá, hann [Kristur] er í óbyggðum,‘ þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ‚Sjá, hann er í leynum,‘ þá trúið því ekki. Eins og elding sem leiftar frá austri til vesturs, svo mun verða koma [parósía, nærvera] Mannssonarins.“ — Matteus 24:24, 26, 27.
9 Jesús, „Mannssonurinn,“ vissi betur en nokkur annar á jörð hvar hann myndi vera staðsettur þegar nærvera hans hæfist. Hann myndi ekki koma sér fyrir hvorki hér né þar eða á einhverjum sérstökum stað á jörðinni. Hann myndi ekki láta sjá sig á einhverjum afskekktum stað, „í óbyggðum,“ þannig að þeir sem leituðu Messíasar gætu ráðfært sig við hann fjarri augum yfirvalda í landinu og þar sem fylgjendur hans gætu þjálfað sig undir hans forystu og búið sig undir pólitískt áhlaup og komið honum til valda sem messíasarstjórnanda heimsins. Hann myndi ekki heldur fela sig „í leynum“ þar sem aðeins fáeinir útvaldir vissu af honum og hann gæti, án þess að heimurinn tæki eftir eða fyndi hann, gert samsæri og leyniáætlanir með vitorðsmönnum sínum um að steypa stjórnum heimsins og láta smyrja sjálfan sig sem Messías. Nei!
10. Hvernig hefur sannleikur Biblíunnar leiftrað fram um allan heim?
10 Þvert á móti yrði ekkert að fela í sambandi við það að Jesús væri kominn sem konungur og nærvera hans sem konungs hafin. Eins og Jesús sagði fyrir halda sannindi Biblíunnar áfram að leiftra eins og elding yfir stór svæði frá austri til vesturs, um allan heim. Svo sannarlega reynast vottar Jehóva sem nútímaljósberar vera ‚ljós fyrir þjóðirnar, svo að hjálpræði Jehóva sé til endimarka jarðarinnar.‘ — Jesaja 49:6.
Englar að störfum
11. (a) Á hvaða hátt eru englasveitir notaðar til að varpa fram ljósi Guðsríkis? (b) Hvenær og í hvaða hóp hefur meðlimum hveitihópsins verið safnað?
11 Aðrar ritningargreinar tengdar nærveru Jesú lýsa honum þannig að hann hafi í fylgd með sér eða ‚sendi út‘ hersveitir engla. (Matteus 16:27; 24:31) Í dæmisögunni um hveitið og illgresið sagði Jesús að ‚akurinn væri heimurinn,‘ að ‚kornskurðurinn væri endir veraldar og kornskurðarmennirnir væru englar.‘ Það merkir hins vegar ekki að á nærverutíma sínum sem máttugur og dýrlegur konungur Guðsríkis noti hann einungis engla sem sendiboða til að reka erindi sín á jörðinni. Það var árið 1919 sem englar undir forystu Jesú byrjuðu að aðgreina hveitihópinn, hina andagetnu á jörðinni sem atburðir fyrri heimsstyrjaldarinnar höfðu tvístrað, og þeir voru búnir undir frekara starf í nafni konungsins. (Matteus 13:38-43) Á þriðja áratugnum tóku þúsundir manna til viðbótar afstöðu með stofnsettu ríki Guðs og voru smurðar með anda hans. Þessum smurðu einstaklingum var með árangursríkum hætti bætt við raðir hinna upprunalegu leifa. Samanlagt mynda þeir hinn trúa og hyggna þjónshóp nútímans.
12. Í hvaða hreinsun hafa englarnir tekið þátt og með hvaða afleiðingum fyrir jörðina?
12 Opinberunarbókin 12:7-9 segir frá öðru dæmi um þátttöku engla á nærverutíma Jesú og eftir að hann var settur í hásæti á himnum árið 1914: „Míkael [Jesús Kristur] og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn barðist og englar hans, en þeir fengu eigi staðist og eigi héldust þeir heldur lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi, sem heitir djöfull og Satan, honum sem afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina, og englum hans var varpað niður með honum.“ Þannig hafa himnarnir hið efra nú verið hreinsaðir, og aðeins er eftir að hreinsa jörðina algerlega til helgunar nafni Jehóva. Núna, árið 1993, er aðvörun Guðs enn í fullu gildi: „Vei sé jörðunni og hafinu, því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:12.
Himnesk upprisa
13, 14. (a) Hvað gefur Ritningin til kynna að hafi verið að gerast frá 1918? (b) Hvað opinbera Páll og Jóhannes varðandi hinar smurðu leifar nú á tímum?
13 Annar undraverður atburður á nærverutíma Krists er upphaf hinnar himnesku upprisu. Páll postuli gaf til kynna að þeir af smurðum kristnum mönnum, sem hefðu legið lengi í gröfum sínum, yrðu fyrstir lífgaðir til að lifa með Kristi Jesú á hinu andlega tilverusviði. Gegnum árin hefur verið bent á vitnisburð fyrir því að það virðist hafa gerst frá og með árinu 1918. Páll skrifar: „Allir [munu] lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist. En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans [parósía, nærveru], þeir sem honum tilheyra.“ (1. Korintubréf 15:22, 23) Upprisa hinna smurðu á nærverutíma Krists er staðfest í 1. Þessaloníkubréfi 4:15-17: „Því að það segjum vér yður, og það er orð [Jehóva], að vér, sem verðum eftir á lífi við komu [parósía, nærveru] Drottins, munum alls ekki fyrri verða en hinir sofnuðu. . . . Þeir, sem dánir eru í trú á Krist, munu fyrst upp rísa. Síðan munum vér, sem eftir lifum, verða ásamt þeim hrifnir burt í skýjum til fundar við Drottin í loftinu.“ Það eru 144.000 sem tilheyra Kristi sem smurðir þjónar hans og munu að lokum hljóta þessi undursamlegu laun. — Opinberunarbókin 14:1.
14 Eins og Páll sýnir munu þeir af hinum smurðu, sem eru lifandi núna, ekki komast inn í Guðsríki á undan þessum fyrri, trúföstu, kristnu píslarvottum og lærisveinum. Jóhannes postuli lýsir nánar þeim af hinum smurðu sem deyja nú á dögum: „Sælir eru dánir, þeir sem í Drottni deyja upp frá þessu. Já, segir andinn, þeir skulu fá hvíld frá erfiði sínu, því að verk þeirra fylgja þeim,“ það er að segja eftir að þeir eru upprisnir. (Opinberunarbókin 14:13) Og Páll segir: „Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.“ (1. Korintubréf 15:51, 52) Þetta er furðulegt kraftaverk!
15, 16. (a) Hvaða líkingu kom Jesús með í Lúkasi 19:11-15 og hvers vegna? (b) Hvernig hefur þessi spádómur verið að uppfyllast?
15 Einu sinni, þegar Jesús var að prédika fyrir hópi fylgenda sinna um ríki Guðs, sagði hann líkingu til að hjálpa þeim að leiðrétta rangar hugmyndir. Frásagan segir: „Þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast. Hann sagði: ‚Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur. Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: „Verslið með þetta, þangað til ég kem.“ . . . Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.‘“ — Lúkas 19:11-15.
16 Jesús var ‚maðurinn‘ sem fór til himna, ‚fjarlægs lands,‘ þar sem hann átti að taka við konungsríki. Þetta ríki fékk hann árið 1914. Skömmu síðar gerði Kristur sem konungur upp reikninga við þá sem játuðu sig þjóna hans til að sjá hvað þeir hefðu gert í því að annast þá hagsmuni Guðsríkis sem þeim var trúað fyrir. Trúfastur minnihluti var útvalinn til að hljóta hrós húsbóndans: „Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.“ (Lúkas 19:17) Þessi nærverutími Krists fól í sér áframhaldandi, öflugt prédikunarstarf um Guðsríki, meðal annars yfirlýsingu um dóm Guðs yfir hinum óguðlegu, og umsjón með þessu starfi var fólgin í því valdi sem ‚góða þjóninum‘ var trúað fyrir.
Prédikun um heim allan
17. Hvaða gleði einkennir parósíuna?
17 Hvað annað átti að gerast á þessum parósíu- eða nærverutíma? Hann átti að vera tími mikillar gleði í prédikunarstarfinu og í því að hjálpa nýjum að búa sig undir að lifa gegnum hina komandi miklu þrengingu. Þeir af ‚múginum mikla,‘ sem aðstoða leifarnar, verða „meðmælabréf.“ (Opinberunarbókin 7:9; 2. Korintubréf 3:1-3) Páll minnist á gleði þessa uppskerustarfs er hann segir: „Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans [parósía, nærveru]?“ — 1. Þessaloníkubréf 2:19.
Halda sér hreinum og vammlausum
18. (a) Hvaða bæn Páls vísar til parósíunnar? (b) Hvaða anda verðum við öll að sýna nú á tímum og á hvaða vegu?
18 Páll bað einnig fyrir helgun þeirra sem lifa á nærverutíma Krists: „En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu [parósía, nærveru] Drottins vors Jesú Krists.“ (1. Þessaloníkubréf 5:23) Já, nú á dögum bindur samstarfsandi okkur trúföst saman, hvort heldur við tilheyrum hinum smurðu leifum eða miklum múgi annarra sauða, til að við getum haldið áfram að vera hrein og vammlaus á þessum einstæða tíma. Eins verðum við að sýna þolinmæði. Jakob skrifaði: „Þreyið því, bræður, þangað til Drottinn kemur [parósía, fram til nærveru Drottins]. . . . Styrkið hjörtu yðar, því að koma [parósía, nærvera] Drottins er í nánd.“ — Jakobsbréfið 5:7, 8.
19. Hvaða viðvörun kom Pétur með um parósíuna og hvernig ættum við að bregðast við?
19 Pétur postuli hafði líka eitthvað að segja okkur sem erum á lífi nú á tímum. Hann varaði okkur við spotturum sem eru margir í öllum heimshornum. Pétur segir: „Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu [parósía, nærveru] hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ (2. Pétursbréf 3:3, 4) Þrátt fyrir að spottarar séu margir á nærverutíma Krists halda þjónar Jehóva áfram að skína sem ljós heimsins, mörgum til hjálpræðis.
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvernig fengu þjónar Jehóva stigvaxandi upplýsingu um parósíuna?
◻ Hvernig hefur Matteus 24:4-8 verið að uppfyllast?
◻ Hvernig hafa englar unnið með hinum krýnda Kristi?
◻ Hvaða undravert kraftaverk virðist fylgja parósíunni?
◻ Hvaða gleði ríkir nú á tímum og hverjir njóta hennar?