Síðustu dagar – hvenær?
„EFTIR rúmlega einn milljarð ára verður jörðin líklega sviðin, skraufþurr og ófrjó eyðimörk. Það er erfitt að ímynda sér að nokkrir fjölfrumungar þrífist við þær aðstæður.“ Þetta stóð í tímaritinu Sky & Telescope fyrir réttu ári. Og hver á ástæðan að vera? „Sólarljósið verður sterkara þannig að höfin gufa upp og meginlöndin skrælna,“ segir í tímaritinu Astronomy og bætt er við: „Þessi heimsendasýn er ekki aðeins óþægilegur sannleikur heldur óhjákvæmileg örlög jarðar.“
Í Biblíunni segir hins vegar: „[Guð] grundvallar jörðina á undirstöðum hennar svo að hún haggast eigi um aldur og ævi.“ (Sálmur 104:5) Skapari jarðar er auðvitað fær um að viðhalda henni enda segir: „Hann skapaði hana [og] gerði hana byggilega“. (Jesaja 45:18) En hún á ekki að vera byggð illu og deyjandi mannkyni. Guð ætlar að endurreisa stjórn sína fyrir atbeina ríkisins sem talað er um í Daníelsbók 2:44.
Jesús boðaði fagnaðarerindið um ríki Guðs. Hann talaði um þann tíma þegar þjóðirnar yrðu dæmdar. Hann varaði við þrengingu sem yrði meiri en nokkur önnur þrenging mannkynssögunnar. Og hann lýsti samsettu tákni sem gæfi til kynna hvenær heimurinn í núverandi mynd væri í þann mund að líða undir lok. — Matteus 9:35; Markús 13:19; Lúkas 21:7-11; Jóhannes 12:31.
Að enginn annar en Jesús Kristur skyldi spá þessu hefur valdið mörgum manninum heilabrotum. Hvenær á þetta að gerast? Sumir hafa reynt að reikna út hvenær endirinn komi og rannsakað ítarlega spádóma Biblíunnar og tímatalsfræði hennar. Einn þeirra var stærðfræðingurinn sir Isaac Newton sem var uppi á 17. öld og er kunnur fyrir uppgötvun þyngdarlögmálsins og diffur- og tegurreiknings.
Jesús sagði lærisveinum sínum: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir sem faðirinn hefur sjálfur ákveðið.“ (Postulasagan 1:7) Og þegar hann sagði þeim hvernig þeir gætu séð að ‚hann væri að koma og veröldin að líða undir lok‘ sagði hann jafnframt: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.“ (Matteus 24:3, 36) Eftir að hafa borið saman eyðingu illra manna á dögum Nóa og eyðinguna sem yrði „við komu Mannssonarins“ sagði hann: „Vakið því, þér vitið eigi hvaða dag Drottinn yðar kemur.“ — Matteus 24:39, 42.
En þó að við höfum ekki fengið að vita nákvæmlega hvenær „veröldin“ í núverandi mynd líður undir lok myndi táknið, sem Jesús lýsti, gefa til kynna hvenær ‚síðustu dagar‘ væru runnir upp. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þá væri nauðsynlegt að vaka til að mega ‚umflýja allt þetta sem koma ætti‘. — Lúkas 21:36.
Áður en Jesús lýsti tákninu sagði hann í varnaðartón: „Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: Það er ég! og: Tíminn er í nánd! Fylgið þeim ekki. En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara en endirinn kemur ekki samstundis.“ — Lúkas 21:8, 9.
Hvert er táknið?
Jesús lýsti hvað ætti að einkenna síðustu daga og sagði: „Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum en ógnir og tákn mikil á himni.“ (Lúkas 21:10, 11) Hann sagði líka: „Fagnaðarerindið um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina til þess að allar þjóðir fái að heyra það. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Mannkynið hefur þekkt stríð, jarðskjálfta, drepsóttir og hungur frá örófi alda þannig að atburðirnir, sem Jesús lýsti, yrðu engin nýlunda í sjálfu sér. Munurinn felst í því að allt myndi þetta gerast á sama tímabili.
Hvenær hefur allt þetta sem nefnt er í guðspjöllunum átt sér stað á einu og sama tímabili? Síðan 1914 hefur mannkynið horft upp á hrikalegar heimsstyrjaldir, mikla jarðskjálfta og ægilegar afleiðingar þeirra svo sem flóðbylgjur, svo og útbreidda og banvæna sjúkdóma á borð við malaríu, flensu og alnæmi. Milljónir manna hafa dáið úr hungri og óttinn við hryðjuverk og gereyðingarvopn hefur lagst þungt á heimsbyggðina. Auk þessa hafa vottar Jehóva prédikað fagnaðarerindið um himneskt ríki Guðs út um allan heim. Þetta hefur gerst nákvæmlega eins og Jesús spáði.
Höfum einnig í huga það sem Páll postuli skrifaði: „Það skaltu vita að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Menn verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, illmálgir, óhlýðnir foreldrum, vanþakklátir, guðlausir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir og andsnúnir öllu góðu, sviksamir, framhleypnir, drambsamir og elska munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar en afneita krafti hennar.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Öll heimsbyggðin myndi einkennast af útbreiddu lögleysi, guðleysi, grimmd og taumlausri ásælni á þessum erfiðu tímum.a
En getur hugsast að ‚síðustu dagar‘, sem eru undanfari endisins, séu ekki byrjaðir enn þá? Er einhver önnur vísbending um það hvenær þeir eiga að byrja?
Hvenær átti endalokatíminn að hefjast?
Eftir að Daníel spámaður hafði fengið innsýn í það sem átti að gerast í framtíðinni var honum sagt: „Míkael [Jesús Kristur], leiðtoginn mikli, sem verndar syni þjóðar þinnar, mun þá [„að endalokum“ sem nefnd eru í Daníelsbók 11:40] birtast.“ (Daníel 12:1) Hvað myndi Míkael gera?
Í Opinberunarbókinni er talað um þann tíma þegar Míkael myndi taka völd sem konungur. Þar segir: „Þá hófst stríð á himni: Mikael og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum. Fagnið því, himnar og þér sem í þeim búið. Vei sé jörðunni og hafinu því að djöfullinn er stiginn niður til yðar í miklum móð því að hann veit að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:7-9, 12.
Samkvæmt lýsingu Biblíunnar myndi stríðið þegar Satan og illu öndunum yrði úthýst af himnum hafa í för með sér miklar hörmungar á jörðinni. Satan yrði ævareiður af því að hann vissi að hann fengi ekki að ráða yfir henni miklu lengur. Og reiði hans myndi færast í aukana á síðustu dögum uns hann biði algeran ósigur í stríðinu við Harmagedón. — Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11, 15; 20:1-3.
Eftir að Jóhannes hefur lýst úrslitum stríðsins á himnum segir hann: „Ég heyrði rödd mikla á himni segja: Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors og veldi hans Smurða. Því að þeim sem stóð frammi fyrir Guði dag og nótt og ákærði þau sem trúa hefur verið steypt niður.“ (Opinberunarbókin 12:10) Tókstu eftir yfirlýsingunni þess efnis að ríki Guðs í höndum Krists hefði verið stofnsett? Það gerðist árið 1914.b En eins og fram kemur í Sálmi 110:2 átti Jesús að ríkja ‚meðal óvina sinna‘ fyrst í stað, uns ríkið tæki öll völd á jörðinni eins og það hafði gert á himnum. — Matteus 6:10.
Það er athyglisvert að engillinn, sem sagði Daníel spámanni frá ókomnum atburðum, bætti við: „En leyndu þessum orðum, Daníel, og innsiglaðu bókina þar til dregur að endalokum. Menn munu leita víða og skilningur þeirra mun aukast.“ (Daníel 12:4) Í þessum orðum er að finna enn frekari rök fyrir því að endalokin séu nærri vegna þess að nú liggur fyrir góður skilningur á merkingu þessara spádóma og hann er boðaður um víða veröld.c
Hvenær taka ‚síðustu dagar‘ enda?
Ósagt er látið í Biblíunni hve langir hinir síðustu dagar eru. Hins vegar er óhjákvæmilegt að ástandið versni hér á jörð eftir því sem líður á tímann sem Satan hefur til umráða. Páll postuli benti á að „vondir menn og svikarar [myndu] magnast í vonskunni, villa aðra og villast sjálfir“. (2. Tímóteusarbréf 3:13) Og Jesús sagði um það sem ætti eftir að koma fram: „Á þeim dögum verður sú þrenging sem engin hefur þvílík verið frá upphafi sköpunar allt til þessa og mun aldrei verða. Ef Drottinn hefði ekki stytt þessa daga kæmist enginn maður af. En hann hefur stytt þá vegna þeirra sem hann hefur útvalið.“ — Markús 13:19, 20.
Af ókomnum atburðum má nefna ‚mikla þrengingu‘, að meðtöldu Harmagedónstríðinu, og sömuleiðis að Satan og illu andarnir verða fjötraðir svo að þeir geta ekki haft nein áhrif á jörðinni. (Matteus 24:21) „Guð, sem aldrei lýgur,“ hefur lofað þessu. (Títusarbréfið 1:2) Það er Guði að þakka að Harmagedónstríðið verður háð og Satan fjötraður.
Páli postula var innblásið að lýsa ítarlega þeim atburðum sem eiga sér stað áður en Guð tekur í taumana. Hann minntist á „tíma og tíðir“ og skrifaði eftirfarandi: „Dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu. Þegar menn segja: ‚Friður og engin hætta,‘ þá kemur snögglega tortíming yfir þá eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.“ (1. Þessaloníkubréf 5:1-3) Þess er ekki getið hver verður kveikjan að því að menn lýsa á fölskum forsendum yfir ‚friði og engri hættu‘. Tíminn einn leiðir það í ljós en það kemur ekki í veg fyrir að dómsdagur Jehóva renni upp.d
Ef við erum sannfærð um að þessir spádómar séu sannir ættum við að hegða okkur samkvæmt því. Hvernig þá? Pétur svarar: „Þar eð allt þetta ferst, þannig ber ykkur að lifa heilögu og guðrækilegu lífi og bíða eftir degi Guðs og flýta fyrir að hann komi.“ (2. Pétursbréf 3:11, 12) En þér er kannski spurn hvernig það sé þér til hagsbóta. Því er svarað í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a Nánari rök fyrir því að ‚síðustu dagar‘ standi yfir má finna í Vaknið! apríl-júní 2007, bls. 8-10, og Varðturninum 1. október 2005, bls. 4-7, gefin út af Vottum Jehóva.
b Nánari upplýsingar um tímareikning Biblíunnar er að finna á bls. 215-18 í bókinni Hvað kennir Biblían?, gefin út af Vottum Jehóva.
c Sjá bókina Gefðu gaum að spádómi Daníelsbókar og árbók Votta Jehóva 2008, bls. 31-39, gefnar út af Vottum Jehóva.
d Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand! (útgáfu frá 2006), bls. 250-51, greinar 13 og 14.
[Innskot á blaðsíðu 5]
Jesús sagði að enginn nema Guð vissi „þann dag og stund“.
[Mynd á blaðsíðu 4]
Sir Isaac Newton
[Credit line]
© A. H. C./age fotostock
[Myndir á blaðsíðu 7]
Táknið, sem Jesús lýsti, hefur verið áberandi síðan 1914.
[Credit lines]
© Heidi Bradner/Panos Pictures
© Paul Smith/Panos Pictures