Borin kennsl á ‚lögleysingjann‘
„Þá mun lögleysinginn opinberast, — og honum mun Drottinn Jesús tortíma.“ — 2. ÞESSALONÍKUBRÉF 2:8.
1, 2. Hvers vegna er mikilvægt að bera kennsl á lögleysingjann?
VIÐ lifum tíma lögleysis. Það teygir sig til allra þjóða. Alls staðar er ótti við lögleysingja og glæpamenn og þá ógnun sem þeir eru lífi manna og eigum. En langtum lævísari lögleysingi hefur verið að störfum um aldaraðir. Hann er í Biblíunni nefndur „lögleysinginn.“
2 Það er mikilvægt fyrir okkur að bera kennsl á hann. Hvers vegna? Vegna þess að það er ásetningur hans að grafa undan góðri stöðu okkar frammi fyrir Guði og von okkar um eilíft líf. Hvernig? Með því að fá okkur til að yfirgefa sannleikann og trúa lygum og blekkingum í staðinn, og þannig hyggst hann fá okkur til að hætta að tilbiðja Guð „í anda og sannleika.“ (Jóhannes 4:23) Ljóst er af hátterni þessa löglausa afls að það beitir sér sérstaklega gegn Guði og tilgangi hans, svo og vígðum þjónum hans.
3. Hvernig vekur Biblían athygli okkar á lögleysingjanum?
3 Biblían segir okkur frá þessum lögleysingja í 2. Þessaloníkubréfi 2:3. Undir innblæstri anda Guðs skrifaði Páll postuli: „Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn [þegar Jehóva eyðir þessu illa kerfi] nema fráhvarfið komi fyrst og lögleysinginn birtist.“ (Neðanmálstexti) Hér spáði Páll fráhvarfi frá sannri trú og tilkomu lögleysingja fyrir endalok þessa heimskerfis. Reyndar sagði Páll í 7. versi: „Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum.“ Lögleysinginn var þannig tekinn til starfa þegar á fyrstu öld.
Uppruni lögleysingjans
4. Hvaðan er lögleysinginn kominn og hvert sækir hann stuðning sinn?
4 Hver er uppruni þessa lögleysingja og hvert sækir hann stuðning? Páll svarar: „Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.“ (2. Þessaloníkubréf 2:9, 10) Satan er því faðir lögleysingjans, styður hann og nærir. Og hvort sem lögleysinginn gerir sér grein fyrir því eða ekki er hann andsnúinn Jehóva, tilgangi hans og þjónum hans á sama hátt og Satan.
5. Hvaða örlög bíða lögleysingjans og þeirra sem fylgja honum?
5 Þeir sem fylgja þessum lögleysingja að málum munu hljóta sömu örlög og hann — tortímingu: „Þá mun lögleysinginn opinberast — og honum mun Drottinn Jesús tortíma . . . og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.“ (2. Þessaloníkubréf 2:8) Þessi eyðingartími lögleysingjans og þeirra sem styðja hann (‚þeirra sem glatast‘) er nálægur „þegar Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottinn vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun.“ — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.
6. Hvaða frekari vitneskju veitir Páll okkur um lögleysingjann?
6 Páll lýsir þessum lögleysingja enn fremur þannig að hann ‚setji sig á móti Guði og rísa gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann setjist í musteri Guðs og geri sjálfan sig að Guði.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:4) Páll varar þannig við því að Satan myndi vekja upp lögleysingja sem yrði ranglega tilbeðinn og myndi jafnvel setja sig ofar lögum Guðs.
Hver er lögleysinginn?
7. Hvers vegna ályktum við að Páll sé ekki að tala um einstakling og hvað stendur lögleysinginn fyrir?
7 Var Páll að tala um einhvern einstakling? Nei, því hann segir að þessi ‚lögleysingi‘ væri þegar kominn fram og myndi vera til uns Jehóva eyddi honum við endalok þessa heimskerfis. Hann hefur því verið til í margar aldir. Augljóst er að enginn einn maður hefur lifað svo lengi. Orðið „lögleysinginn“ hlýtur því að standa fyrir hóp manna.
8. Hver er lögleysinginn og hvað einkennir hann meðal annars?
8 Hvaða menn eru það? Öll rök hníga að því að það séu hinir rembilátu og metnaðargjörnu klerkar kristna heimsins sem hafa um aldaraðir gert sjálfa sig að eins konar lögum. Það má sjá af því að til eru þúsundir ólíkra trúarbragða og sértrúarflokka innan kristna heimsins, hver með sína klerkastétt, sem þó eru ósammála á sumum sviðum kenningafræði eða iðkana. Þessi sundrung er skýr sönnun þess að þeir fylgja ekki lögum Guðs. Þeir geta ekki verið frá Guði. (Samanber Míka 2:12; Markús 3:24; Rómverjabréfið 16:17; 1. Korintubréf 1:10) Það er öllum þessum sértrúarstefnum sameiginlegt að þær halda sér ekki við kenningar Biblíunnar og hafa brotið regluna: „Farið ekki lengra en ritað er.“ — 1. Korintubréf 4:6; sjá einnig Matteus 15:3, 9, 14.
9. Hvaða óbiblíulegar trúarskoðanir hefur lögleysinginn tekið upp í stað sanninda Biblíunnar?
9 Þessi lögleysingi er því samsett persóna: klerkastétt kristna heimsins. Allir klerkar, hvort heldur páfar, prestar, patríarkar, öldungar eða prédikarar, bera samfélagsábyrgð á trúarlegum syndum kristna heimsins. Þeir hafa skipt á sannleika Guðs fyrir heiðnar lygar og kennt óbiblíulegar lygar svo sem ódauðleika mannssálarinnar, vítiseld, hreinsunareld og þrenningu. Þeir eru eins og trúarleiðtogarnir sem Jesús sagði við: „Þér eigið djöfulinn að föður og viljið gjöra það, sem faðir yðar girnist. . . . Hann er lygari og lyginnar faðir.“ (Jóhannes 8:44) Verkin afhjúpa einnig lögleysi þeirra því að þeir taka þátt í mörgu sem brýtur gegn lögum Guðs. Jesús segir slíkum mönnum: „Farið frá mér, illgjörðamenn.“ — Matteus 7:21-23.
Þeir upphefja sig
10. Hvert er samband lögleysingjans og pólitískra valdhafa?
10 Mannkynssagan sýnir að þeir sem mynda þennan lögleysingja hafa sýnt slíkt rembilæti og hroka að þeir hafa í reynd sagt valdhöfum veraldar fyrir verkum. Undir yfirskyni kenningarinnar um ‚konunga af Guðs náð‘ hefur klerkastéttin sagst vera hinn nauðsynlegi milliliður milli valdhafanna og Guðs. Hún hefur krýnt konunga og keisara og bolað þeim frá völdum. Hún hefur getað snúið fjöldanum gegn eða til fylgis við valdhafa. Klerkarnir hafa í reynd sagt eins og æðsti prestur Gyðinga sem hafnaði Jesú: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ (Jóhannes 19:15) Samt sem áður kenndi Jesús skýrt og greinilega: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi.“ — Jóhannes 18:36.
11. Hvernig hafa klerkarnir upphafið sig?
11 Til að upphefja sig enn frekar yfir almúgann hefur þessi löglausi hópur tekið sér einkennisklæðnað, oftast svartan. Auk þess hefur hann skreytt sig alls konar mikilfenglegu skarti ásamt kórónum, krossum og biskupshúfum. (Samanber Matteus 23:5, 6.) En Jesús og fylgjendur hans báru ekki slík klæði; þeir klæddu sig eins og almenningur. Klerkar hafa að auki tekið sér titla svo sem „Faðir,“ „Heilagi faðir,“ „séra,“ „hágöfgi“ og marga fleiri sem á sinn þátt í að upphefja þá yfir alla aðra. En Jesús sagði um trúarlega hefðartitla: „Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu.“ (Matteus 23:9) Og Elíhú svaraði hræsnifullum huggurum Jobs þannig: „Ég ætla ekki að draga taum neins, og ég ætla engan að skjalla.“ — Jobsbók 32:21.
12. Hverjum sagði Páll að klerkarnir væru í raun að þjóna?
12 Er Páll sagði á sínum tíma að lögleysinginn væri þegar tekinn að starfa sagði hann einnig um þá sem hafa sömu viðhorf og lögleysinginn: „Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists. Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd. Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd rettlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.“ — 2. Korintubréf 11:13-15.
Uppreisn gegn sannri guðsdýrkun
13. Hvað er fráhvarfið sem Páll sagði fyrir?
13 Páll sagði að þessi lögleysingi myndi þróast jafnhliða fráhvarfi frá trúnni. Reyndar er fyrsta vísbending Páls um það hver lögleysinginn sé sú að ‚ekki komi dagurinn [er Jehóva eyðir hinu illa heimskerfi] nema fráhvarfið komi fyrst.‘ (2. Þessaloníkubréf 2:2, 3) En hvað er átt við með ‚fráhvarfi‘? Í þessu samhengi merkir það ekki aðeins fráfall frá trúnni vegna andlegs veikleika. Gríska orðið, sem þýtt er ‚fráhvarf,‘ merkti meðal annars „svik við málstað“ eða „uppreisn.“ Nokkrir biblíuþýðendur nota reyndar orðið „uppreisn.“ Til dæmis segir í þýðingu Williams Barcleys: „Þessi dagur getur ekki komið fyrr en uppreisnin mikla hefur átt sér stað.“ The Jerusalem Bible kallar þetta líka „uppreisnina miklu.“ Þegar Páll talar um ‚fráhvarf‘ hér á hann því við uppreisn gegn sannri guðsdýrkun.
14. Hvenær hófst fráhvarfið fyrir alvöru?
14 Hvernig þróaðist þetta fráhvarf eða uppreisn? Í 2. Þessaloníkubréfi 2:6 talaði Páll um það sem ‚aftraði‘ lögleysingjanum frá því að koma fram í dagsljósið á dögum Páls. Hvað var það? Það voru hin styrkjandi áhrif postulanna. Návist þeirra, sem höfðu fengið miklar máttargjafir vegna heilags anda, kom í veg fyrir að fráhvarfið brytist út eins og faraldur. (Postulasagan 2:1-4; 1. Korintubréf 12:28) En eftir að postularnir voru látnir nálægt lokum fyrstu aldar var þessi hemill horfinn.
Óbiblíuleg klerkastétt kemur fram
15. Hvaða fyrirkomulag setti Jesús kristna söfnuðinum?
15 Söfnuðurinn, sem Jesús hafði stofnsett, óx og þroskaðist á fyrstu öldinni undir handleiðslu öldunga (umsjónarmanna) og safnaðarþjóna. (Matteus 20:25-27; 1. Tímóteusarbréf 3:1-13; Títusarbréfið 1:5-9) Þeir voru valdir úr söfnuðinum sjálfum. Þetta voru hæfir, andlegir menn, en þeir voru ekki klerk- eða guðfræðimenntaðir frekar en Jesús. Andstæðingar hans undruðust meira að segja ‚hvernig þessi maður hefði orðið lærður og hefði þó ekki fræðslu notið.‘ (Jóhannes 7:15) Trúarleiðtogarnir tóku eftir hinu sama í fari postulanna: „Þegar þeir sáu djörfung Péturs og Jóhannesar og skildu, að þeir voru ólærðir leikmenn, undruðust þeir. Þeir könnuðust og við, að þeir höfðu verið með Jesú.“ — Postulasagan 4:13.
16. Hvernig olli fráhvarfið því að horfið var frá því skipulagi safnaðarins sem verið hafði á fyrstu öld?
16 En með fráhvarfinu komu hugmyndir fengnar frá klerkastétt Gyðinga og síðar trúarskipulagi hins heiðna Rómaveldis. Er tímar liðu og horfið var frá sannri trú myndaðist klerkastétt sem átti sér enga biblíulega forsendu. Páfinn með kórónu á höfði tók að stjórna kardínálum, en þeir voru valdir úr hópi hundruða biskupa og erkibiskupa sem sjálfir höfðu verið hækkaðir í tign úr röðum presta er hlotið höfðu menntun í prestaskólum. Þannig tók dulúðleg prestastétt völd í kristna heiminum ekki löngu eftir fyrstu öld. Þessi stétt sótti ekki fyrirmynd sína til öldunga og safnaðarþjóna fyrstu aldar heldur til trúkerfa heiðingjanna.
17. Hvenær treystust völd lögleysingjans sérstaklega?
17 Strax á þriðju öld okkar tímatals hafði hinum óbreyttu trúuðu mönnum verið skipað í lægri, annars flokks leikmannastétt. Hinn trúvillti lögleysingi tók smám saman stjórnartaumana í sínar hendur. Völd hans styrktust mjög í stjórnartíð Konstantínusar keisara í Róm, einkum eftir Níkeuþingið árið 325. Þá bræddust kirkja og ríki saman. Þannig varð lögleysinginn — klerkastétt kristna heimsins — aldalöng röð fráhvarfsmanna, uppreisnarmanna gegn hinum sanna Guði, Jehóva. Þau lög og reglur, sem þeir hafa fylgt, eru þeirra eigin, ekki Guðs.
Heiðnar kenningar
18. Hvaða heiðnar kenningar, sem svívirða Guð, tók lögleysinginn upp?
18 Lögleysinginn, sem nú var að taka á sig endanlega mynd, tók líka heiðnar kenningar að láni. Til dæmis tók hann sér dularfullan, óskiljanlegan þrenningarguð í stað hans sem segir: „Ég er [Jehóva], það er nafn mitt, og dýrð mína gef ég eigi öðrum.“ „Ég er [Jehóva] og enginn annar. Enginn Guð er til nema ég.“ (Jesaja 42:8; 45:5) Sú stefna að taka hugmyndir manna, jafnvel heiðnar, upp í stað sanninda Guðs þróaði af sér enn frekara guðlast: dýrkun á hinni hógværu Maríu í Biblíunni sem „guðsmóður“ kristna heimsins. Talsmenn slíkra falskenninga, klerkastéttin, varð þannig gróskumesta „illgresið,“ sem Satan hafði sáð til að reyna að kæfa góða sæðið er Kristur sáði. — Matteus 13:36-39.
19. Hvernig hefur kristni heimurinn klofnað og sundrast í aldanna rás en hverju hefur hann viðhaldið?
19 Með sundrung og ósætti klofnaði kristni heimurinn í hundruð trúfélaga og sértrúarsafnaða. Með fáum undantekningum viðhéldu þó nýju sértrúarflokkarnir stéttaskiptingu klerka og leikmanna. Þannig hefur lögleysinginn haldið velli fram til þessa dags. Og enn stillir hann sér á stall ofar almenningi með einkennisklæðnaði sínum og hljómmiklum titlum. Páll fór sannarlega ekki með neinar ýkjur er hann sagði að lögleysinginn myndi upphefja sjálfan sig í guðlega stöðu.
Páfadæmið
20. Hvernig lýsir kaþólskt fræðirit páfanum?
20 Páfadæmið í Róm er augljóst dæmi um slíka upphafningu. Kirkjuleg orðabók eftir Lucio Ferraris, gefin út á Ítalíu, segir um páfann að „hátign hans og göfgi sé slík að hann sé ekki einfaldlega maður heldur nánast sem Guð og umboðsmaður Guðs.“ Kóróna hans er þrískipt „sem konungs himins, jarðar og helvítis.“ Sama orðabók segir: „Páfinn er sem Guð á jörð, hinn einasti höfðingi trúfastur Kristi, hinn mesti konungur allra konunga.“ Hún bætir við: „Páfinn getur stundum breytt út af lögum Guðs.“ The New Catholic Dictionary segir um páfann: „Sendiherrar hans eru tignari öðrum opinberum fulltrúum Páfagarðs.“
21. Berðu saman hátterni páfans og hátterni Péturs og engils.
21 Ólíkt lærisveinum Jesú klæðist páfi oft íburðarmiklum klæðum og lætur sér vel líka skjall og fleðulæti manna. Páfinn leyfir að fólk hneigi sig eða krjúpi fyrir honum, kyssi hring hans og beri hann á öxlum sér á sérstökum stóli. Páfarnir hafa sýnt mikinn hégómleik í aldanna rás! Þeir eru harla ólíkir hinum auðmjúka og hversdagslega Pétri sem sagði við Kornelíus, rómverska herforingjann sem féll við fætur honum til að sýna honum lotningu: „Statt upp, ég er maður sem þú“! (Postulasagan 10:25, 26) Þeir eru harla ólíkir englinum sem færði Jóhannesi postula opinberunina. Jóhannes reyndi að falla fram til að tilbiðja fyrir fótum engilsins en engillinn sagði: „Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.“ — Opinberunarbókin 22:8, 9.
22. Eftir hvaða reglu Biblíunnar getum við borið kennsl á lögleysingjann?
22 Er þetta einum of harður dómur yfir klerkastéttinni? Við getum gengið úr skugga um það með því að fylgja reglunni sem Jesús gaf til að bera kennsl á falsspámenn: „Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá.“ (Matteus 7:15, 16) Hver hefur verið ávöxtur klerkastéttarinnar í aldanna rás og á okkar öld? Hver verða örlög þessa lögleysingja og hverjir munu deila örlögum með honum? Hver er ábyrð þeirra sem óttast Guð sannleikans í sambandi við þennan lögleysingja? Greinarnar á eftir munu ræða það.
Upprifjun
◻ Hvað er lögleysinginn og hvenær kom hann fram?
◻ Hvernig bendir Biblían á frumkvöðul þessa lögleysingja?
◻ Hvernig hafa klerkar upphafið sig yfir almenning?
◻ Hvaða fráhvarfskenningar og -athafnir tók klerkastéttin upp?
◻ Hvernig eru viðhorf páfanna ólík viðhorfum Péturs og engils?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Ólíkt páfunum leyfði Pétur postuli mönnum ekki að sýna sér lotningu.