Tilbiðjið Skaparann, ekki sköpunina
„[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ — LÚKAS 4:8.
1. Hvernig er sögnin „að tilbiðja“ skilgreind og hvernig ber að iðka sanna guðsdýrkun?
SÖGNIN „að tilbiðja“ er skilgreind svo í Orðabók Menningarsjóðs: „Dýrka, veita lotningu . . . hafa hóflaust dálæti á.“ Hverjum ættum við að veita slíka tilbeiðslu? Jesús Kristur sagði: „Elska skalt þú [Jehóva], Guð þinn, af öllu hjarta þínu, allri sálu þinni og öllum huga þínum.“ (Matteus 22:37) Þegar Satan bauð Jesú öll ríki heims, ef hann vildi falla fram og ‚tilbiðja‘ hann, neitaði Jesús og sagði: „[Jehóva], Guð þinn, skalt þú tilbiðja og þjóna honum einum.“ (Lúkas 4:7, 8) Af orðum Jesú og athöfnum er ljóst að það er einungis Jehóva Guð sem við eigum að tilbiðja. Þessi tilbeiðsla felur í sér heilaga þjónustu því að ‚trúin er dauð án verka.‘ — Jakobsbréfið 2:26.
2. Hvers vegna er viðeigandi að tilbiðja aðeins skaparann?
2 Slík tilbeiðsla á Jehóva er við hæfi vegna þess að hann er æðsti drottinvaldur alls alheimsins, skapari hinna ógnþrungnu himna og jarðar með öllu því lífi sem á henni er. Sem slíkur er hann verður ‚dýrkunar, lotningar og mikils dálætis‘ okkar mannanna. Biblían segir: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ (Opinberunarbókin 4:11) Enginn maður og enginn lifandi eða lífvana hlutur gæti verið verður slíkrar ‚dýrkunar, lotningar og dálætis.‘ Jehóva einn verðskuldar „algera hollustu.“ — 2. Mósebók 20:3-6, NW.
Mikið liggur við
3. Hvers vegna er sérstaklega áríðandi að tilbiðja Guð?
3 Við lifum öll á dómstíma og þess vegna er sérstaklega áríðandi núna að tilbiðja Guð á réttan hátt. Verið er að ákveða eilíf örlög manna. Spádómsorð Guðs segir okkur að núna á „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis sé Kristur Jesús kominn í himneskri dýrð „og allir englar með honum.“ Í hvaða tilgangi? Jesús sagði það fyrir er hann sagði: „Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.“ Sauðirnir munu fara „til eilífs lífs,“ en hafrarnir „til eilífrar refsingar“ eða afnáms. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 25:31, 32, 46.
4. (a) Hvernig talar Páll um þá sem verður tortímt endanlega við endalok þessa heims? (b) Hver eru viðhorf þeirra sem hljóta eilíft líf?
4 Páll postuli skrifaði um það þegar „Drottinn Jesús opinberast af himni með englum máttar síns. Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7-9) Örlög hinna táknrænu hafra, manna sem eru þrjóskir og vilja ekki kynnast tilgangi Guðs eða neita að grípa tækifærið þegar það gefst, verða því eilíf tortíming. En ‚eilíft líf‘ eru örlög auðmjúkra, sauðumlíkra manna sem vilja þekkja Jehóva, hlýða á fyrirmæli hans og lúta síðan vilja hans. Biblían segir: „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:17; sjá einnig 2. Pétursbréf 2:12.
5, 6. (a) Hvað þurfa menn að gera til að finna sannleikann um Jehóva og tilgang hans? (b) Hvers vegna getum við treyst því að unnendur sannleikans komist í tengsl við sannleikann, óháð aðstæðum sínum í lífinu?
5 Sauðumlíkir menn eru fúsir til að fórna tíma, kröftum og efnum í leit að sannleikanum. Þeir gera það sem Orðskviðirnir 2:1-5 segja: „Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“
6 Það er viljinn til að leita að Jehóva sem skilur „sauðina“ frá höfrunum. „Ef þú leitar hans, mun hann gefa þér kost á að finna sig; ef þú yfirgefur hann, mun hann útskúfa þér um aldur.“ (1. Kroníkubók 28:9) Óháð kynþætti manns eða þjóðerni, menntun hans eða efnum mun hann finna sannleikann um Guð ef hann leitar í einlægni. Frá bústað sínum á himnum munu Kristur og englar hans sjá til þess að sá sem leitar komist í snertingu við sannleikann, óháð því hvar hann býr. Hvaða laun mun slík leit hafa í för með sér? Jesús sagði: „Það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.“ — Jóhannes 17:3; sjá einnig Esekíel 9:4.
Varastu það að dýrka sköpunina
7, 8. (a) Hvaða hætta er því samfara að tilbiðja menn? (b) Lýstu þeirri ‚lotningu og hóflausu dálæti‘ sem Maríu er sýnd.
7 Víða á jörðinni eru menn — lífs eða liðnir — ‚dýrkaðir, veitt lotning eða haft á þeim hóflaust dálæti.‘ Vera kann að mönnum finnist það vera þáttur í guðsdýrkun þeirra en í reyndinni gerir það menn fjarlægja sannri guðsdýrkun. Það opnar leiðina fyrir átrúnað og athafnir sem ganga í berhögg við vilja Guðs. Það hvernig milljónir manna, bæði í rómversk-kaþólskum og grísk-kaþólskum löndum, líta á Maríu, móður Jesú, er áberandi dæmi um það.
8 Í þeim löndum fellur fólk fram með djúpri lotningu fyrir líkneskjum og helgimyndum af Maríu, og í opinberri kirkjukenningu er hún kölluð „María mey guðsmóðir.“ Orðið „guðsmóðir“ er þýðing gríska orðsins þeotokos sem merkir „sú sem fæðir Guð“ eða „móðir Guðs.“ Í New Catholic Encyclopedia segir: „María er móðir Guðs. . . . Ef María er ekki raunveruleg móðir Guðs, þá er Kristur ekki sannur Guð og ekki heldur sannur maður.“ Þannig kenna þessi trúarbrögð sem hluta þrenningarkenningar sinnar að Jesús hafi verið alvaldur Guð í mannsmynd, og þannig er María gerð að „guðsmóður.“ Í þessari sömu alfræðibók er því bætt við að hollusta við Maríu feli í sér: „(1) Djúpa virðingu eða lotningarfulla viðurkenningu á tign hinnar heilögu meyjar, móður Guðs; (2) áköll til hinnar heilögu móður og drottningar um milligöngu hennar; . . . og einkabænir [til Maríu].“
9. Kennir Biblían að María hafi verið „guðsmóðir“?
9 Orðið þeotokos kemur hins vegar hvergi fyrir í hinni innblásnu ritningu. Og hvergi segir Biblían að María hafi verið „guðsmóðir.“ Hvorki Jesús né kristnir menn á fyrstu öld kenndu það. Auk þess sýnir Biblían skýrt og greinilega að Jesús hafi ekki verið alvaldur Guð í mannsmynd heldur sonur Guðs.a Þegar engill tilkynnti Maríu að hún myndi eignast son sagði hann henni: „Heilagur andi mun koma yfir þig og kraftur hins hæsta mun yfirskyggja þig. Fyrir því mun og barnið verða kallað heilagt, sonur Guðs.“ (Lúkas 1:35) Jesús var þannig sonur Guðs, ekki Guð sjálfur í mannsmynd. María var því móðir sonar Guðs, Jesú, ekki móðir Guðs í mannsmynd. Þess vegna kölluðu hvorki Jesús né lærisveinar hans Maríu nokkru sinni „móður Guðs.“
10, 11. (a) Hvaða atvik sýna hvernig Jesús leit á móður sína? (b) Hvernig litu postularnir og lærisveinar Jesú á móður hans?
10 Viðhorf Jesú til móður sinnar gefa líka til kynna stöðu hennar gagnvart honum. Frásaga Biblíunnar af brúðkaupsveislu í Kana greinir frá orðaskiptum þeirra: „Er vín þraut segir móðir Jesú við hann: ‚Þeir hafa ekki vín.‘ Jesús svarar: ‚Hvað varðar það mig og þig, kona?‘“ (Jóhannes 2:3, 4) Öðru sinni sagði einhver við hann: „Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir.“ Þetta var kjörið tækifæri fyrir Jesú til að sýna móður sinni sérstaka virðingu og sýna þannig að aðrir ættu að gera það líka. En í staðinn sagði Jesús: „Já, því sælir eru þeir, sem heyra orð Guðs og varðveita það.“ — Lúkas 11:27, 28.
11 Þessi atvik sýna að Jesús gætti þess að sýna ekki Maríu móður sinni ótilhlýðilega virðingu og hann ávarpaði hana ekki með neinum sérstökum titli. Hann lét ekki skyldleika þeirra hafa áhrif á sig. Og postularnir og lærisveinarnir fylgdu fordæmi hans, því að hvergi í innblásnum ritum þeirra er Maríu sýnd ótilhlýðileg virðing eða eignuð sérstök áhrif, eða þá ávörpuð með sérstökum titli. Enda þótt þeir hafi virt hana sem móður Jesú létu þeir staðar numið þar. Þeir töluðu aldrei um hana sem „guðsmóður.“ Þeir vissu að Jesús var ekki alvaldur Guð í mannsmynd og þess vegna var óhugsandi að María væri móðir Guðs, enda myndi það veita henni langtum æðri stöðu en orð Guðs gefur henni.
Dýrkun móðurgyðjunnar
12. Hvar og hvenær þróaðist sú hugmynd að María væri „móðir Guðs“?
12 Hvaðan er þá sú hugmynd komin að veita Maríu sérstakan heiður? Hún náði smám saman ítökum í kristna heiminum á þriðju og fjórðu öld okkar tímatals, sem þá var orðinn trúvilltur. Sérstaklega tók að bera á því eftir árið 325 þegar kirkjuþingið í Níkeu samþykkti þá óbiblíulegu kenningu að Kristur væri Guð. Eftir að þessi ranga hugmynd hafði verið viðurkennd var auðveldara að kenna að María væri „móðir Guðs.“ Um þetta efni segir The New Encyclopædia Britannica: „Titillinn [‚guðsmóðir‘] virðist hafa verið tekinn upp í guðsdýrkuninni, sennilega í Alexandrínu einhvern tíma á 3. eða 4. öld. . . . Undir lok 4. aldar var þeotokos orðið viðurkennt af ýmsum hópum innan kirkjunnar.“ New Catholic Encyclopedia bendir á að kenningin hafi verið opinberlega viðurkennd „frá og með kirkjuþinginu í Efesus árið 431.“
13. Hvað hefur líklega haft áhrif á það að kirkjuþingið í Efesus árið 431 skyldi opinberlega lýsa Maríu vera „guðsmóður“?
13 Athyglisvert er að skoða hvar þetta kirkjuþing var haldið og hvers vegna. Bókin The Cult of the Mother-Goddess eftir E. O. James segir: „Kirkjuþingið í Efesus var haldið í Þeotokos-basilíkunni árið 431. Ef nokkurs staðar var hægt að staðfesta titilinn ‚sú sem fæddi Guð,‘ þá var það þar í borginni sem var svo alkunn fyrir dýrkun sína á Artemis, eða Díönu eins og Rómverjar kölluðu hana, þar sem líkneski hennar var sagt hafa fallið niður af himni, í skugga musterisins mikla sem helgað var magna mater [móðurinni miklu] allt frá árinu 330 f.Kr., og þar sem María hafði að sögn búið um tíma.“
14. Hvernig staðfestir mannkynssagan að þessi kennisetning er af heiðnum uppruna?
14 Líkt og þrenningarkenningin er kenningin um „guðsmóður“ heiðin, þótt hún sigli undir fölsku flaggi sem kristið trúaratriði. Þessi kenning var áberandi í heiðnum trúarbrögðum öldum fyrir fæðingu Krists. The New Encyclopædia Britannica segir undir fyrirsögninni „Móðurgyðja“: „Einhver af mörgum kvenguðum og móðurtáknum sköpunar, fæðingar, frjósemi, kynmaka, uppfóstrunar og vaxtarhrings. Orðið er einnig notað um jafnólíkar táknmyndir og hinar svonefndu Venusarmyndir frá steinöld og Maríu mey. . . . Ekkert menningarsamfélag er til sem hefur ekki notað einhvers konar móðurtákn til að lýsa guðum sínum. . . . Hún verndar og nærir hið guðlega barn og, í víðari skilningi, allt mannkynið.“ Því sagði kaþólski presturinn Andrew Greely í bók sinni The Making of the Popes 1978: „Maríutáknið tengir kristnina beint fornum [heiðnum] trúarbrögðum með mæðragyðjum sínum.“
Óviðeigandi tilbeiðsla
15. (a) Hvaða afstaða til Maríu þróaðist innan kristna heimsins? (b) Hver einn getur verið milliliður milli Guðs og okkar, samkvæmt Biblíunni?
15 Sú staðhæfing að María hafi verið „móðir Guðs“ upphefur hana í þá stöðu að menn hafa tilhneigingu til að tilbiðja hana, og það er það sem hefur gerst um aldaraðir. Hundruð milljónir manna víða um lönd hafa beðið til hennar eða fyrir hennar milligöngu og sýnt djúpa lotningu líkneskjum og myndum af henni. Enda þótt guðfræðingar reyni að afsaka það á þann hátt að með slíkri tilbeiðslu á Maríu sé óbeint verið að tilbjiða Guð, hefur Guð aðra skoðun á málinu. „Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús.“ (1. Tímóteusarbréf 2:5; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Jesús sjálfur sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.“ — Jóhannes 14:6.
16. Hvernig tóku Pétur og Jóhannes af öll tvímæli um að enginn skuli fá tilbeiðslu nema Jehóva?
16 Með því að heiðra Maríu beint eða óbeint, biðja til hennar og falla fram fyrir líkneskjum og myndum af henni er verið að tilbiðja hið skapaða en ekki skaparann. Það er skurðgoðadýrkun og kristnum mönnum er fyrirskipað að ‚flýja skurðgoðadýrkunina.‘ (1. Korintubréf 10:14) Taktu eftir hvað gerðist þegar Kornelíus, sem ekki var Gyðingur, féll lotningarfullur fram fyrir Pétri postula: „Þegar Pétur kom, fór Kornelíus á móti honum, féll til fóta honum og veitti honum lotningu. Pétur reisti hann upp og sagði: ‚Statt upp, ég er maður sem þú.‘“ (Postulasagan 10:25, 26) Það var óviðeigandi að falla fram fyrir manni í tilbeiðsluskyni og Pétur vildi ekki leyfa það. Eftir að engill hafði veitt Jóhannesi postula sýn skrifaði hann: „Er ég hafði heyrt það og séð, féll ég niður til að tilbiðja fyrir fótum engilsins, sem sýndi mér þetta. Og hann segir við mig: ‚Varastu þetta! Ég er samþjónn þinn og bræðra þinna, spámannanna, og þeirra, sem varðveita orð þessarar bókar. Tilbið þú Guð.‘“ (Opinberunarbókin 22:8, 9) Ef við höfum ekki einu sinni leyfi til að tilbiðja einn af englum Guðs, hversu miklu síður þá mann eða mynd af manni.
17. Hvaða afleiðingu getur það haft, að sögn kaþólskrar alfræðibókar, að veita Maríu lotningu?
17 The Catholic Encyclopedia viðurkennir að slík lotning fyrir Maríu kunni að leiða til óviðeigandi tilbeiðslu. Í einni af fyrstu útgáfum verksins sagði: „Því verður ekki neitað að sú lotning, sem hinni heilögu mey hefur verið sýnd, hefur oft farið út í öfgar.“
18. Hvaðan getur slík óbiblíuleg kenning verið komin?
18 Hvaðan er svona óbiblíuleg kenning komin? Frumkvöðull hennar hlýtur að vera óvinur Guðs, Satan djöfullinn. (Jóhannes 8:44) Hvers vegna skyldi hann koma slíkri kenningu á framfæri? Í þeim tilgangi að auðmýkja og lítilsvirða alvaldan Drottin Jehóva, upphefja menn og valda ringulreið. Með henni er athygli manna beint frá sannri guðsdýrkun og þeim komið til að vænta hjálpræðis frá hinu skapaða. Um aldaraðir hefur það auk þess ýtt undir vald klerkanna yfir almenningi sem var kennt að hann yrði að vera algerlega auðsveipur trúarleiðtogum sínum, vegna þess að klerkarnir einir byggju yfir þekkingu á þessari flóknu guðfræði.
19, 20. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að sauðumlíkir menn muni finna sannleikann áður en dómum Guðs er fullnægt? (b) Hvað verður fjallað um í greininni á eftir?
19 En Jesús sagði fyrir: „Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) Og Jehóva heitir því að hann muni, með prédikun Guðsríkis, safna saman öllum sauðumlíkum mönnum til að ‚kenna þeim sína vegu og láta þá ganga á sínum stigum.‘ (Jesaja 2:2-4) Með því að þeim er safnað saman til sannrar tilbeiðslu á Jehóva sagði Jesús um þá: „Þér . . . munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jóhannes 8:31, 32) Þeir sem leita sannleikans munu þannig finna hann og losna úr fjötrum falskra trúarkenninga sem hindra fólk í að gera vilja skaparans.
20 Til eru margar fleiri, algengar trúarkenningar og athafnir sem hafa beint athygli fólks frá réttri tilbeiðslu á skaparanum þannig að þeir hafa tilbeðið hið skapaða í staðinn. Í greininni á eftir munum við skoða nokkrar þeirra og þær afleiðingar, sem þær hafa haft, jafnframt því hvað sönn guðsdýrkun felur í sér.
[Neðanmáls]
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig sýndi Jesús greinilega fram á að einungis Jehóva skuli tilbeðinn?
◻ Hvers vegna er sérstaklega áríðandi núna að tilbiðja Guð á réttan hátt?
◻ Hvers vegna ætti ekki að sýna Maríu ótilhlýðilegan heiður?
◻ Hvaðan er sú hugmynd komin að María sé „guðsmóðir“?
◻ Hvernig lögðu postularnir Pétur og Jóhannes áherslu á að Jehóva einn skuli tilbeðinn?