„Þessir menn séu fyrst reyndir“ — hvernig?
1 Hinn stöðugi vöxtur í skipulagi Jehóva kallar á æ fleiri hæfa safnaðarþjóna. Flesta óútnefnda bræður, þeirra á meðal unglinga, langar til að veita þjónustu í söfnuðinum. Þegar þeir fá verkefni finnst þeim þeir áorka einhverju og koma að gagni. Áður en þeir fá aukna ábyrgð þurfa þeir ‚fyrst að vera reyndir.‘ (1. Tím. 3:10) Hvernig er það gert?
2 Hlutverk öldunganna: Öldungarnir meta hvort bróðir uppfyllir hæfniskröfurnar til safnaðarþjóna í 1. Tímóteusarbréfi 3:8-13 og kanna jafnframt hvort hann sé fær um að axla ábyrgð. Þeir geta falið honum ýmis störf svo sem við ritaafgreiðslu, hljóðnemaburð, viðhald ríkissalarins og svo framvegis. Þeir athuga hve fús hann er að þiggja verkefni og hvernig hann sinnir þeim. Þeir kanna hvort hann sé áreiðanlegur, stundvís, duglegur, lítillátur, viljugur og eigi auðvelt með að umgangast aðra. (Fil. 2:20) Er hann til fyrirmyndar í klæðaburði og snyrtilega klipptur og greiddur? Sýnir hann ábyrgðartilfinningu? Þeir vilja sjá í ‚góðri hegðun hans verk sem lýsa hóglátri speki.‘ (Jak. 3:13) Leggur hann sig ótvírætt fram um að koma að gagni í söfnuðinum? Fylgir hann boði Jesú um að gera menn „að lærisveinum“ með því að vera kostgæfinn í boðunarstarfinu? — Matt: 28:19; sjá Varðturninn 1. mars 1991, bls. 22-32.
3 Enda þótt Biblían setji engan lágmarksaldur fyrir því að verða útnefndur safnaðarþjónn kallar hún slíka bræður „menn sem þjóna.“ Hér getur því tæplega verið um hálfstálpaða unglinga að ræða, einkum þar sem minnst er á að þeir geti verið giftir og átt börn. (1. Tím. 3:12, 13, NW) Slíkir menn eiga ekki að stjórnast af ‚æskunnar girndum‘ heldur vera alvörugefnir, í góðu áliti og hafa hreina samvisku frammi fyrir Guði og mönnum. — 2. Tím. 2:22.
4 Þótt meðfædd hæfni sé gagnleg skipta viðhorf manns og hugarfar mestu máli. Langar bróðurinn auðmjúklega til að lofa Guð og þjóna bræðrum sínum? Ef svo er blessar Jehóva viðleitni hans til að taka framförum í söfnuðinum.