Áfengi — hvernig ber kristnum manni að líta á það?
„HVER æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu? Þeir sem sitja við vín fram á nætur.“ (Orðskviðirnir 23:29, 30) Já, Biblían viðurkennir að áfengi geti haft ýmis mjög óæskileg áhrif: skynvillur, svívirðilega breytni, geðveikisáhrif, sjúkdóma og jafnvel fátækt.
Taktu eftir því að Biblían talar um þá sem „sitja við vín fram á nætur,“ ávanadrykkjumenn! Fyrir slíka menn er áfengi líkt og eitur og hefur oft skaðleg árif bæði á huga og líkama. (Orðskviðirnir 23:32-35) Hóflaus drykkja getur komið mönnum til að missa stjórn á sjálfum sér og gera hluti sem þeir myndu undir eðlilegum kringumstæðum skammast sín fyrir. Því aðvarar Biblían: „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.“ (Orðskviðirnir 23:20, 21) Drykkjuskapur er líka nefndur meðal ‚verka holdsins‘ sem geta meinað mönnum aðgang að Guðsríki. — Galatabréfið 5:19, 21; 1. Korintubréf 6:10.
„Ekki viturlegt“ — fyrir hverja?
Merkir þetta að kristnum mönnum sé algerlega bannað að neyta áfengis? Hvað um fullyrðingu prestsins, nefnd í greininni hér á undan, sögð byggð á Orðskviðunum 20:1, þess efnis, að „vitrir menn drekki alls ekkert áfengi.“ Í versinu stendur: „Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.“ Enn sem fyrr atyrðir Biblían ekki þá sem drekka vín heldur þá sem láta það blekkja sig! Þeir sem „sitja við vín fram á nætur“ og eru ‚drykkjurútar‘ — það eru þeir sem eru ‚óvitrir.‘
Athugum líka Jesaja 5:11, 22. Þar stendur: „Vei þeim, sem rísa árla morguns til þess að sækjast eftir áfengum drykk, sem sitja fram á nótt eldrauðir af víni. Vei þeim, sem kappar eru í víndrykkju og öflugar hetjur í því að byrla áfengan drykk.“ Hvað er Jesaja að fordæma? Er það ekki óhófleg drykkja, það að drekka frá því „árla morguns . . . fram á nótt“?
Trúfastir þjónar Guðs — svo sem Abraham, Ísak og Jesú — eru sagðir hafa neytt víns í hófi. (1. Mósebók 14:18; 27:25; Lúkas 7:34) Biblían nefnir líka vín sem eina af blessunum Jehóva. (1. Mósebók 27:37; 5. Mósebók 11:14; Jesaja 25:6-8) Biblían gefur jafnvel til kynna að hófleg notkun víns geti verið til góðs. Vín „gleður hjarta mannsins,“ sagði sálmaritarinn. (Sálmur 104:15) Páll postuli ráðlagði Tímóteusi: „Ver þú ekki lengur að drekka [mengað] vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.“ — 1. Tímóteusarbréf 5:23.
Vín eða vínberjasafi?
Sumir halda því fram að ‚vínið,‘ sem nefnt er í þessum versum Biblíunnar, sé í raun venjulegur vínberjasafi. En Cyclopædia McClintocks og Strongs minnir okkur á að „Biblían gerir engan greinarmun á áfengu og óáfengu víni — hvorki vísar til né gefur í skyn slíkan greinarmun.“ Í samræmi við það talar Biblían um „vín“ sem áfengan drykk og nefnir það ‚sterkan drykk.‘ — 1. Mósebók 9:21; Lúkas 1:15; 5. Mósebók 14:26; Orðskviðirnir 31:4, 6.
Athyglisvert er að fyrsta kraftaverk Jesú skuli hafa verið það að breyta vatni í vín. Frásögn Biblíunnar segir: „Veislustjóri bragðaði . . . [vínið], og vissi ekki, hvaðan það var, . . . þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: ‚Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.‘“ (Jóhannes 2:9, 10) Já, „góða vínið,“ sem Jesús gerði, var ósvikið vín.
Sjálfréttvísir trúarleiðtogar á dögum Jesú fundu að því að hann skyldi stundum neyta víns. Jesús sagði: „Nú kom Jóhannes skírari, át ekki brauð né drakk vín, og þér segið: ‚Hann hefur illan anda.‘ Og Mannssonurinn er kominn, etur og drekkur, og þér segið: ‚Hann er mathákur og vínsvelgur.‘“ (Lúkas 7:33, 34) Hvaða vit hefði verið í að bera það saman að Jesús skyldi bragða áfengi en Jóhannes ekki, ef Jesús hefði einungis drukkið óáfengan vínberjasafa? Mundu að sagt var um Jóhannes að hann myndi aldrei „drekka vín né áfengan drykk.“ — Lúkas 1:15.
Augljóst er að Jesús fordæmdi ekki hóflega neyslu áfengra drykkja. Á hans tíð var það hluti páskahaldsins að neyta víns.a Og raunverulegt vín tilheyrði kvöldmáltíð Drottins sem kom í stað páskanna.
Góð dómgreind er nauðsynleg
Biblían fordæmir því ekki neyslu áfengra drykkja. Yfirleitt verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort hann neytir áfengis eða ekki. Hins vegar fordæmir Biblían afdráttarlaust ölvun og ofát. „Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt, því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir.“ (Orðskviðirnir 23:20, 21) Allir ættu því að gæta hófs og sjálfstjórnar. „Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum.“ Hafðu hugfast að sjálfstjórn er einn ávaxta anda Guðs. — Efesusbréfið 5:18; Galatabréfið 5:19-23.
Meira að segja þurfa menn ekki að verða ölvaðir til að þeim geti stafað hætta af áfengi. Bæklingur gefinn út af bandarískri stofnun, sem lætur sig varða fíkniefnanotkun, segir: „Þegar maður fær sér í glas, flæðir vínandinn hratt í gegnum veggi meltingarfæranna út í blóðið og berst á skammri stundu til heilans. Þar tekur hann að hægja á starfsemi þeirra hluta heilans sem stýra hugsun og tilfinningum. Manninum finnst hann hömlulausari, frjálsari.“ Þessi tilfinningi ‚hömluleysis‘ getur haft siðferðilegar hættur í för með sér.
Önnur hætta blasir við þar sem akstur á í hlut. Sumir áætla að í Bandaríkjunum einum látist 25.000 manns á ári í umferðarslysum sem drukknir ökumenn valda. Ljóst er að margir vanmeta stórlega hversu áfengi dregur úr viðbragðshraða þeirra. En kristnir menn líta á lífið sem gjöf frá Jehóva. (Sálmur 36:10) Væri það samrýmanlegt við þetta viðhorf að hætta lífi sínu og annarra með því að aka bifreið undir áhrifum áfengis? Margir kristnir menn snerta alls ekki áfengi þegar þeir þurfa að aka bifreið.
Kristinn maður lætur sér einnig umhugað hvaða áhrif það hefur á aðra ef hann neytir áfengis. Vafalaust er það þess vegna sem kristnir umsjónarmenn, safnaðarþjónar og aldraðar konur eru hvattar til að vera ekki ‚sólgnar í vín.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:2, 3, 8; Títusarbréfið 2:2, 3) Þótt einn maður kunni að virðast þola meira áfengi en annar ber honum að gæta hófs í notkun áfengis til að hafa ekki óheppileg áhrif á aðra. Hann reynir ekki heldur að neyða þann, sem ekki vill drekka, til að þiggja áfengi. Biblían segir enn fremur: „Það er rétt að eta hvorki kjöt né drekka vín né gjöra neitt, sem bróðir þinn steytir sig á.“ — Rómverjabréfið 14:21.
Kringumstæður geta jafnvel kallað á algert áfengisbindindi. Tökum þungun sem dæmi. Dagblaðið International Herald Tribune (Parísarútgáfan) vitnaði í athugun sem gerð var við University of North Carolina í Bandaríkjunum og skýrði svo frá að „óhófleg drykkja einu sinni snemma á meðgöngutímanum geti valdið hinu vaxandi barni alvarlegu tjóni á huga og líkama.“ Konur ættu að íhuga alvarlega áhættuna samfara því að drekka á meðgöngutímanum.
Þeim sem hafa verið drykkfelldir eða hættir til að drekka of mikið er oft farsælast að neyta alls ekki áfengis.b Eins gæti verið gott að bragða ekki áfengi í viðurvist drykkjusjúklings eða þess sem er samvisku sinnar vegna mjög á móti áfengisnotkun. Og neysla áfengis fyrir kristnar samkomur eða meðan tekið er þátt í opinberu prédikunarstarfi væri ekki við hæfi. Levítarnir til forna gáfu þar fyrirmynd um að neyta alls ekki áfengis meðan þeir gegndu þjónustu í musterinu. — 3. Mósebók 10:8-10.
Að sjálfsögðu er það þitt einkamál hvort þú neytir áfengis eða ekki, og þá hve mikið eða lítið þú drekkur. Það er Guði til lofs þegar við sýnum góða dómgreind og gætum hófs. Fylgdu því þeirri viturlegu stefnu þannig að ‚hvort sem þú etur eða drekkur eða hvað sem þú gerir, þá gerir þú það allt Guði til dýrðar.‘ — 1. Korintubréf 10:31.
[Neðanmáls]
a Vínberjauppskeran í Palestínu fór fram síðsumars. Páskar Gyðinga og kvöldmáltíð Drottins voru haldin að vori — hálfu ári síðar. Án sérstakra geymsluefna eða -aðferða hlaut vínberjasafinn að gerjast af sjálfu sér.
b Læknar mæla með því að sá sem talinn er drykkjusjúklingur bragði alls ekki áfengi. Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 8. júlí 1982. Að lokum ber að gefa gaum að landslögum. Í sumum löndum er áfengi stranglega bannað. Sums staðar mega þeir einir neyta áfengis sem náð hafa vissum aldri. Kristinn maður hlýðir slíkum lögum ‚yfirvalda.‘ — Rómverjabréfið 13:1.
[Mynd á blaðsíðu 6]
Kristinn maður getur kosið að afþakka áfengi vegna samvisku einhvers annars.