Heiðraðu alls konar menn
„Virðið alla menn, . . . óttist Guð, heiðrið konunginn.“ — 1. PÉTURSBRÉF 2:17, Bi. 1912.
1. (a) Hverja er rétt að heiðra auk Guðs og Krists? (b) Á hvaða sviðum ber að heiðra menn samkvæmt 1. Pétursbréfi 2:17?
VIÐ höfum séð að okkur er skylt að heiðra Jehóva Guð og Jesú Krist. Það er bæði rétt, viturlegt og kærleiksríkt. En orð Guðs sýnir okkur einnig að við eigum að heiðra aðra menn. „Heiðrið alls konar menn,“ er okkur sagt. (1. Pétursbréf 2:17, NW) Af boðinu síðast í versinu um að ‚heiðra konunginn‘ má ráða að okkur beri að virða menn sem eiga rétt á virðingu okkar stöðu sinnar vegna. Hverja ber okkur þá að heiðra? Þeir kunna að vera fleiri en við ímyndum okkur fyrst í stað. Segja má að það sé á fjórum sviðum sem okkur ber að virða aðra menn.
Heiðraðu veraldlega valdhafa
2. Hvernig vitum við að ‚konungurinn,‘ sem nefndur er í 1. Pétursbréfi 2:17, eigi við mennska konunga eða valdhafa?
2 Fyrst þessara sviða lýtur að veraldlegum stjórnvöldum. Við þurfum að heiðra pólitíska valdhafa. Hvers vegna segjum við að Pétur hafi haft pólitíska valdhafa í huga þegar hann bauð okkur að ‚heiðra konunginn‘? Vegna þess að hann var að tala um aðstæður utan kristna safnaðarins. Hann var nýbúinn að segja: „Verið Drottins vegna undirgefnir sérhverju mannlegu skipulagi, hvort heldur er konungi, svo sem hinum æðsta, eða landshöfðingjum, svo sem þeim er af honum eru sendir.“ Veittu líka athygli að Pétur stillir Guði upp sem andstæðu ‚konungsins‘ er hann segir: „Óttist Guð, heiðrið konunginn.“ (1. Pétursbréf 2:13, 14, Bi. 1912) Þegar Pétur hvetur okkur til að heiðra konunginn er hann því að tala um mennska konunga og pólitíska valdhafa.
3. Hver eru ‚yfirvöldin‘ og hvað ber þeim?
3 Páll postuli kom með svipað boð: „Sérhver maður hlýði þeim yfirvöldum, sem hann er undirgefinn.“ Þessi ‚yfirvöld‘ eru ekki Jehóva Guð og Jesús Kristur heldur stjórnmálaleg yfirvöld, embættismenn stjórnvalda. Með þá í huga heldur Páll áfram: „Gjaldið öllum það sem skylt er . . . þeim virðing, sem virðing ber.“ Já, þeir menn sem Guð hefur leyft að fara með stjórnvald eiga rétt á virðingu. — Rómverjabréfið 13:1, 7.
4. (a) Hvernig má heiðra stjórnmálavaldhafa? (b) Hvaða fordæmi gaf Páll postuli í því að heiðra valdhafa?
4 Hvernig heiðrum við pólitíska valdhafa? Ein leið er sú að sýna þeim djúpa virðingu. (Samanber 1. Pétursbréf 3:15.) Þeir eiga kröfu á slíkri virðingu vegna stöðu sinnar, jafnvel þótt þeir séu óguðlegir menn. Rómverski sagnaritarinn Tacítus lýsti Felix landstjóra svo að hann hafi verið maður sem „hélt sig geta unnið hvaða illskuverk sem var sér að meinalausu.“ Samt sem áður hóf Páll málsvörn sína frammi fyrir Felix með virðingu. Eins talaði Páll með virðingu til Heródesar Agrippa II konungs og sagði: „Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig,“ jafnvel þótt Páll vissi að Agrippa lifði í sifjaspelli. Á sama hátt sýndi Páll Festusi landstjóra virðingu og ávarpaði hann: „Göfugi Festus,“ jafnvel þótt Festus væri hjáguðadýrkandi. — Postulasagan 24:10; 26:2, 3, 24, 25.
5. Á hvaða annan hátt heiðrum við yfirvöld og hvernig setja vottar Jehóva gott fordæmi í því?
5 Páll gefur til kynna aðra leið til að sýna yfirvöldum virðingu er hann ræddi um það að gjalda stjórnvöldum það sem þeim ber. Hann talaði um að gjalda þeim „skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Vottar Jehóva greiða slíka skatta og skyldur óháð því hvar í heimi þeir búa. Ítalska dagblaðið La Stampa sagði einu sinni: „Þeir eru dyggustu þegnar sem nokkur gæti óskað sér: Þeir skjóta ekki undan skatti og reyna ekki að sniðganga óþægileg lög í eiginhagsmunaskyni.“ Og dagblaðið The Post í Palm Beach í Flórída í Bandaríkjunum sagði um votta Jehóva: „Þeir greiða skatta sína. Þeir eru einhverjir heiðarlegustu borgarar í lýðveldinu.“
Heiðraðu vinnuveitendur
6. Hverja aðra ber að heiðra að sögn Páls og Péturs?
6 Vinnustaðurinn er annar vettvangur þar sem okkur ber að heiðra aðra. Bæði Páll og Pétur leggja áherslu á mikilvægi þess að kristnir menn heiðri yfirboðara sína. Páll skrifaði: „Allir þeir, sem eru ánauðugir þrælar, skulu sýna húsbændum sínum allan skyldugan heiður til þess að ekki verði lastmælt nafni Guðs og kenningunni. En þeir, sem trúaða húsbændur eiga, skulu ekki lítilsvirða þá, vegna þess að þeir eru bræður, heldur þjóni þeim því betur.“ Og Pétur sagði: „Þér þjónar, verið undirgefnir húsbændum yðar með allri lotningu, ekki einungis hinum góðu og sanngjörnu, heldur einnig hinum ósanngjörnu.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:1, 2; 1. Pétursbréf 2:18; Efesusbréfið 6:5; Kólossubréfið 3:22, 23.
7. (a) Hvernig eiga heilræði Biblíunnar til ‚þræla‘ um að heiðra ‚húsbændur‘ sína við nú á dögum? (b) Hvers ættu kristnir launþegar, sem eiga kristna vinnuveitendur, að gæta vel?
7 Þrælahald er auðvitað ekki algengt nú á tímum. Meginreglurnar um samband þræls og húsbónda eiga samt sem áður við um samband launþega og vinnuveitanda. Kristnum launþegum er því skylt að heiðra jafnvel ósanngjarna vinnuveitendur. Og hvað ef vinnuveitandinn er líka trúbróðir? Þá ætti launþeginn að þjóna kristnum vinnuveitanda sínum enn fúslegar, en ekki vænta þess að tekið sé sérstakt tillit til hans, og aldrei misnota sér vinnuveitanda sinn á nokkurn hátt.
Heiður innan fjölskyldunnar
8, 9. (a) Hverja ber börnum að heiðra? (b) Hvers vegna ber börnunum að gera það og hvernig geta þau gert það?
8 Þriðja sviðið, þar sem okkur ber að sýna öðrum heiður, er innan fjölskyldunnar. Börnum er til dæmis skylt að heiðra foreldra sína. Þess var krafist ekki aðeins í lögmálinu sem gefið var Móse heldur er það líka krafa til krsitinna manna. Páll postuli skrifaði: „Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt. ‚Heiðra föður þinn og móður.‘“ — Efesusbréfið 6:1, 2; 2. Mósebók 20:12.
9 Hvers vegna eiga börn að heiðra foreldra sína? Þau eiga að heiðra þá vegna þess valds sem Guð hefur gefið foreldrum þeirra og líka vegna þess sem foreldrar þeirra hafa gert, þess að hafa fætt þau í heiminn, annast þau og alið upp allt frá blautu barnsbeini. Hvernig ættu börn að heiðra foreldra sína? Einkanlega með því að vera þeim hlýðin og undirgefin. (Orðskviðirnir 23:22, 25, 26; Kólossubréfið 3:20) Það getur falið í sér að uppvaxin börn styðji aldraða foreldra sína, afa eða ömmur, bæði efnislega og andlega. Þau þurfa að finna viturlegt jafnvægi milli þess og annarra skyldna sinna, svo sem að annast eigin börn og eiga sem fyllstan þátt í kristnum samkomum og þjónustu á akrinum. — Efesusbréfið 5:15-17; 1. Tímóteusarbréf 5:8; 1. Jóhannesarbréf 3:17.
10. Hvern ber eiginkonum að heiðra og hvernig geta þær gert það?
10 En það eru fleiri en börnin sem er skylt að sýna öðrum virðingu innan fjölskyldunnar. Eiginkonur eiga að heiðra eiginmenn sína. Páll postuli sagði líka að ‚konan skuli bera lotningu fyrir manni sínum.‘ (Efesusbréfið 5:33; 1. Pétursbréf 3:1, 2) Að sýna eiginmanninum „lotningu“ þýðir að sjálfsögðu að heiðra hann. Sara heiðraði eiginmann sinn, Abraham, er hún kallaði hann „herra.“ (1. Pétursbréf 3:6) Þið eiginkonur ættuð því að líkja eftir Söru. Heiðrið eiginmenn ykkar með því að samþykkja ákvarðanir þeirra og vinna að því að þær fái framgang. Þið heiðrið eiginmenn ykkar með því að gera allt sem þið getið til að hjálpa þeim að bera byrðar sínar í stað þess að þyngja þær.
11. Hvern er eiginmönnum skylt að heiðra og hvers vegna?
11 Hvað um eiginmenn? Þeim er fyrirskipað í orði Guðs: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Þetta ætti að vera hverjum eiginmanni íhugunarefni. Það er eins og konan beri merkimiða með áletruninni: „Dýrmæt. Viðkvæm. Meðhöndlist með varúð. Skal sýndur heiður!“ Eiginmenn ættu því að muna að þeir skaða samband sitt við Jehóva Guð ef þeir veita eiginkonum sínum ekki virðingu með því að taka fullt tillit til þeirra, því að bænir þeirra myndu þá hindrast. Það er sannarlega gagnlegt í fjölskyldunni að hver og einn heiðri hina.
Í söfnuðinum
12. (a) Hverjum ber að heiðra aðra innan safnaðarins? (b) Hvernig sýndi Jesús að það sé rétt að þiggja heiður?
12 Öllum er auk þess skylt að heiðra hver annan innan kristna safnaðarins. Okkur er ráðlagt: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Jesús gaf til kynna í einni af dæmisögum sínum að það sé rétt að þiggja heiður. Hann sagði að við ættum, ef okkur væri boðið til veislu, að setjast í neðsta sætið því að okkur myndi veitast virðing frammi fyrir öllum hinum gestunum þegar gestgjafinn byði okkur að flytja okkur hærra upp. (Lúkas 14:10) Úr því að okkur þykir öllum vænt um að veitast virðing, ættum við þá ekki að setja okkur í spor annarra og heiðra þá? Hvernig getum við gert það?
13. Nefndu dæmi um hvernig við getum heiðrað aðra í söfnuðinum.
13 Það að hrósa öðrum fyrir vel unnin verk jafngildir því að heiðra þá. Við getum því heiðrað hvert annað með því að hrósa, til dæmis fyrir ræðu eða athugasemd einhvers í söfnuðinum. Auk þess getum við heiðrað hvert annað með því að íklæðast lítillæti gagnvart kristnum bræðrum okkar og systrum og með því að sýna þeim djúpa virðingu. (1. Pétursbréf 5:5) Við látum þannig í ljós að við metum þá sem heiðvirða samþjóna Jehóva Guðs.
14. (a) Hvernig geta bræðurnir í söfnuðinum heiðrað systur? (b) Á hverju sést að það að gefa gjafir er ein leið til að heiðra aðra?
14 Páll postuli ráðlagði hinum unga Tímóteusi að koma fram við aldraðar kristnar systur sem mæður og ungar sem bókstaflegar systur „í öllum hreinleika.“ Já, þegar bræður gæta þess að vera ekki nærgöngulir við kristnar systur sínar, svo sem með því að vera kumpánlegir úr hófi fram, þá eru þeir að heiðra þær. Páll hélt áfram: „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur.“ Ein leið til að heiðra þurfandi ekkju er að styðja hana efnislega. En til að geta fengið slíka hjálp þarf hún að vera „lofsamlega kunn að góðum verkum.“ (1. Tímóteusarbréf 5:2-10) Varðandi efnislegar gjafir skrifaði Lúkas eftirfarandi um Möltubúa: „Höfðu þeir oss í hávegum, og er vér skyldum sigla, gáfu þeir okkur allt, sem vér þurftum til fararinnar.“ (Postulasagan 28:10) Það er því hægt að heiðra aðra með því að gefa þeim efnislegar gjafir.
15. (a) Hverja er okkur sérstaklega skylt að heiðra? (b) Nefndu dæmi um hvernig við getum heiðrað þá sem með forystuna fara.
15 Páll heldur áfram í bréfi sínu til Tímóteusar: „Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.“ (1. Tímóteusarbréf 5:17) Á hvaða vegu getum við heiðrað öldunga eða umsjónarmenn? Páll sagði: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Þegar við hlýðum orðum Páls og breytum eftir honum, þá erum við að heiðra hann. Það á líka við um þá sem taka forystuna meðal okkar nú á dögum. Við heiðrum þá í sama mæli og við líkjum eftir þeim með því að fylgja fordæmi þeirra.
16. Á hvaða aðra vegu getum við heiðrað þá sem fara með forystuna?
16 Önnur leið til að heiðra umsjónarmenn er að hlýða hvatningarorðum þeirra: „Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær.“ (Hebreabréfið 13:17) Á sama hátt og börn heiðra foreldra sína með því að vera þeim hlýðin heiðrum við þá sem fara með forystuna á meðal okkar með því að vera þeim hlýðin og undirgefin. Og, líkt og Páll og félagar hans voru heiðraðir með efnislegum gjöfum hinna vinsamlegu Möltubúa, eins hafa margir farandumsjónarmenn Félagsins verið heiðraðir aftur og aftur. En að sjálfsögðu ættu þeir aldrei að sækjast eftir slíkum gjöfum eða gefa í skyn að þær yrðu kærkomnar eða að þeirra sé þörf.
17. Hverja er þeim sem fara með umsjón skylt að heiðra?
17 Á hinn bóginn er öllum sem hafa með höndum umsjón í guðræðisskipulaginu — hvort heldur í einstökum söfnuði, farandsvæði eða umdæmi, eða við eitthvert af útibúum Varðturnsfélagsins eða innan fjölskyldunnar — skylt að heiðra þá sem þeir hafa umsjón með. Það útheimtir að þeir setji sig í spor annarra og sýni samkennd. Þeir þurfa alltaf að vera viðmótsgóðir, hógværir og af hjarta lítillátir eins og Jesús Kristur sagðist vera. — Matteus 11:29, 30.
Vinnið að því að heiðra hvert annað
18. (a) Hvað getur hindrað okkur í að heiðra þá sem verðskulda það? (b) Hvers vegna er það ekki réttlætanlegt að vera neikvæður og gagnrýninn í huga?
18 Við þurfum öll að vinna kappsamlega að því að heiðra hvert annað því að þar mærum við öflugri fyrirstöðu. Sú fyrirstaða eða hindrun er hið ófullkomna hjarta okkar. „Hugrenningar mannshjartans eru illar frá bernsku hans,“ segir Biblían. (1. Mósebók 8:21) Ein hinna mannlegu tilhneiginga, sem gæti gert okkur erfitt fyrir að heiðra hvert annað, eru neikvæð og gagnrýnin viðhorf. Við erum öll veikbyggðir og ófullkomnir menn og þörfnumst miskunnar Jehóva og óverðskuldaðrar gæsku. (Rómverjabréfið 3:23, 24) Við skulum hafa það hugfast og gæta þess að láta ekki hugann dvelja við veikleika bræðra okkar eða eigna þeim vafasamar hvatir.
19. Hvað hjálpar okkur að vinna gegn neikvæðum tilhneigingum?
19 Sjálfstjórn er mótefnið gegn öllum slíkum neikvæðum tilhneigingum. Við þurfum að vera skilningsrík, trygg og jákvæð í viðhorfum til bræðra okkar og veita athygli góðum eiginleikum þeirra. Ef við skiljum ekki eitthvað, þá ættum við alltaf að reikna bræðrum okkar óvissuna til betri vegar og fara eftir leiðbeiningum Péturs: „Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars, því að kærleikur hylur fjölda synda.“ (1. Pétursbréf 4:8) Við verðum að hafa þess konar kærleika ef við ætlum að veita bræðrum okkar þá virðingu sem þeim ber.
20, 21. (a) Nefndu aðra tilhneigingu sem getur hindrað okkur í að heiðra aðra. (b) Hvað hjálpar okkur að vinna gegn þessari tilhneigingu?
20 Annað einkenni, sem er líklegt til að hindra okkur í að heiðra hvert annað eins og ber, er tilhneigingin til að vera stygglyndur eða viðkvæmur úr hófi fram. Tilfinninganæmi er auðvitað viðeigandi. Listamenn þurfa að vera næmir fyrir hljóðum eða litum í samræmi við listgrein sína. En sá sem er óþarflega næmur eða viðkvæmur í samskiptum við aðra sýnir vissa eigingirni sem getur rænt hann friði og komið í veg fyrir að hann heiðri aðra.
21 Í Prédikaranum 7:9 finnum við góð ráð í þessu efni: „Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.“ Það ber því vott um skort á visku, skynsemi og kærleika að vera viðkvæmur úr hófi fram eða fyrtinn. Við verðum að halda vöku okkar þannig að tilhneigingar hins fallna holds, svo sem neikvæð viðhorf, óhófleg gagnrýni eða viðkvæmni, hindri okkur ekki í að heiðra alla sem heiður ber.
22. Hvernig má draga saman þá skyldu að heiðra aðra?
22 Við höfum margar ástæður til að heiðra aðra og, eins og við höfum séð, getum við gert það á marga vegu. Við þurfum ávallt að gæta þess að eigingjörn eða neikvæð viðhorf komi ekki í veg fyrir að við heiðrum aðra. Einkum þurfum við að halda vöku okkar í þessu efni innan fjölskyldunnar. Eiginmaður og eiginkona þurfa að heiðra hvort annað og börnin foreldra sína. Innan safnaðarins er okkur skylt að heiðra trúbræður okkar, og þó einkum þá sem erfiða okkar á meðal við umsjón safnaðarins. Það er gagnlegt á öllum þessum sviðum að sýna tilhlýðilega virðingu því að „sælla er að gefa en að þiggja,“ eins og Jesús sagði. — Postulasagan 20:35.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna og hvernig heiðrum við yfirvöld?
◻ Hvaða heilræði Biblíunnar má heimfæra á samband vinnuveitenda og launþega?
◻ Hvernig ber að heiðra aðra innan fjölskyldunnar?
◻ Hvaða sérstakan heiður ber að sýna í söfnuðinum og hvers vegna?
◻ Hvernig er hægt að sigrast á mannlegum veikleikum sem tengjast því að heiðra aðra?