Varðveittu trú þína og andlegt heilbrigði
„Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.“ — 2. TÍMÓTEUSARBRÉF 1:13.
1. Hvers vegna er góð líkamsheilsa dýrmæt eign sem menn þurfa að gæta vel?
GÓÐ líkamsheilsa er verðmæt. Hraustur og heilbrigður maður getur gert margt og notið lífsins vel. Langvinn veikindi eða fötlun gera lífið mun erfiðara. Að sjálfsögðu er mikilvægt að reyna að varðveita góða heilsu. Margir hugsa hins vegar lítið um heilsufar sitt eða stofna því í hættu með skaðlegum ósiðum. Þeir sem temja sér heilbrigt líferni eru þó yfirleitt hraustir og heilsugóðir mestan part ævi sinnar.
2. (a) Hvers vegna er andlegt heilbrigði enn dýrmætara en líkamlegt heilbrigði? (b) Hvað þarf til að vera heilbrigður í trúnni?
2 Andlegt heilbrigði er langtum þýðingarmeira en góð líkamsheilsa. Hraustur líkami getur ekki gefið mönnum þá gjöf Guðs sem eilíft líf er. Gott andlegt heilsufar er afleiðing hreinnar guðsdýrkunar og trúar er byggist á nákvæmri þekkingu. (Jóhannes 17:3; Hebreabréfið 11:6; Jakobsbréfið 1:27) Páll postuli sagði: „Aldraðir menn skulu vera bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni, kærleikanum og þolgæðinu.“ (Títusarbréfið 2:2) Sá sem vill eiga heilbrigða trú verður að leggja sig fram til þess og halda sífellt vöku sinni. Andlegu heilbrigði getur stafað hætta bæði af sjálfum okkur og umhverfi okkar. Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessum hættum ef við ætlum okkur að varðveita trú og andlegt heilbrigði í þessum sjúka heimi.
Hve sjúkur er heimurinn?
3, 4. Hvernig birtist siðferðilegur sjúkleiki í þessum heimi og í athöfnum fólks?
3 Enginn vafi leikur á að siðferðilegt heilsufar þessa heims er á afar lágu stigi. Við sjáum merki banvænna sjúkdóma í öllum „lífærum“ þessa heims — trúarbrögðum hans, stjórnmálakerfi, viðskiptastofnunum og skemmtanalífi. Fáir bera virðingu fyrir Guði og þeim lögum sem hann hefur sett mannkyninu til góðs. Og mannkynssagan sýnir að siðferðileg hnignun leiðir óhjákvæmilega til aukinna erfiðleika og líkamlegra sjúkdóma. Svo fáránlegt sem það er vilja fæstir gera nokkurn skapaðan hlut til að bæta þetta sjúklega ástand, vegna þess að þeir hafa yndi af því sem veldur því.
4 Þessi heimur er sannarlega sjúkur! Margir eyðileggja líf sitt með áfengi eða fíkniefnum sem þeir neyta til að auka spennuna í lífi sínu eða flýja veruleikann. Ofbeldi er alls staðar, mannslífið lítils metið og fangelsin yfirfull af glæpamönnum. Víða um lönd endar helmingur allra hjónabanda með skilnaði. Foreldrar vanrækja börn sín í uppvextinum og þau verða afbrotamenn á unga aldri. Sökum hins útbreidda lauslætis breiðast eyðni og aðrir samræðissjúkdómar ört út.
5. Hvernig lýsti Jesaja ástandinu í Júda til forna?
5 Guð gæti sagt hið sama um þennan sjúka heim og hann blés Jesaja í brjóst að segja um hina vegvilltu Júdamenn: „Vei hinni syndugu þjóð, þeim lýð, sem misgjörðum er hlaðinn, afsprengi illræðismanna, spilltum sonum! Þeir hafa yfirgefið [Jehóva], smáð Hinn heilaga í Ísrael og snúið baki við honum. Hvar ætlið þér að láta ljósta yður framvegis, fyrst þér haldið áfram að þverskallast? Höfuðið er allt í sárum og hjartað allt sjúkt. Frá hvirfli til ilja er ekkert heilt.“ — Jesaja 1:4-6.
6. Hvaða viðtökur hefur hvatning Jehóva um að ‚læra gott að gjöra‘ fengið á okkar tímum og í Júda til forna?
6 Jehóva talaði að mestu leyti fyrir daufum eyrum er hann hvatti þjóðina til að iðrast og ‚læra gott að gjöra.‘ (Jesaja 1:16-20) Að síðustu leiddi það til þess að Jerúsalem var eytt og Gyðingar fluttir í útlegð til Babýlonar. Aðeins fáeinir trúfastir einstaklingar nutu blessunar Guðs og verndar meðal hinnar sjúku þjóðar. Eins er það núna að þessi heimur er sjúkur frá hvirfli til ilja og aðeins fáeinir vilja læra að gera það sem gott er. Þessir trúföstu þjónar Jehóva leggja sig kostgæfilega fram við að varðveita trú og andlegt heilbrigði núna, og vonast til að öðlast fullkomna líkamsheilsu og eilíft líf í fyrirheitnum, nýjum heimi Guðs. — 2. Pétursbréf 3:13; Opinberunarbókin 21:1-4.
Andlegar hættur í sjúkum heimi
7. (a) Hvaða hættur steðja að trú okkar og andlegu heilbrigði? (b) Hvað segir Ritningin um það hvernig hægt sé að takast á við þrjár stærstu hætturnar sem steðja að andlegu heilbrigði okkar?
7 Ekki er auðhlaupið að því að varðveita trú og andlegt heilbrigði vegna þess að siðferðilegur sjúkleiki þessa heims er afar smitandi. Kristnir menn verða einnig að berjast gegn arfgengum ófullkomleika sínum. (Rómverjabréfið 7:21-25) Þar við bætist að Satan, „höfðingi heimsins,“ þekkir veikleika holdsins og er snillingur í að freista okkar. (Jóhannes 14:30; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Þetta eru þrjár helstu hætturnar sem steðja að trú okkar og andlegu heilbrigði — holdið, heimurinn og djöfullinn — og þetta eru ekki árennilegir óvinir. Eigi að síður er hægt að vera ‚ekki hluti af heiminum‘ þótt við búum í honum. Við getum ‚lifað í anda Guðs án þess að fullnægja girnd holdsins.‘ Og með hjálp Guðs getum við „staðist vélabrögð djöfulsins.“ (Jóhannes 17:15, 16; Galatabréfið 5:16; Efesusbréfið 6:11; 2. Korintubréf 2:11) Við skulum nú skoða hvernig við getum barist gegn þessum þrem hættum sem steðja að trú okkar og andlegu heilbrigði.
8. Hvernig lýsti Jesús þeim öflum hið innra með okkur sem vinna gegn andlegu heilbrigði?
8 Í hinu ófullkomna eðli okkar eru að verki tilhneigingar sem geta leitt til syndar og andlegs sjúkleika. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Þar á ekki síst hlut að máli hið táknræna hjarta. Jesús sagði: „Innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp, hórdómur, ágirnd, illmennska, sviksemi, taumleysi, öfund, lastmælgi, hroki, heimska. Allt þetta illa kemur innan að og saurgar manninnn.“ — Markús 7:21-23.
9. (a) Hvaða hvatir búa í hinu táknræna hjarta? (b) Hvernig getum við varðveitt hjartað samkvæmt Orðskviðunum 4:20-23?
9 Þótt hjartað sé uppspretta slæmra tilhneiginga er það hjá guðræknum mönnum einnig setur djúprar lotningar fyrir Jehóva og kærleika til þess sem rétt er. (Matteus 22:37; Efesusbréfið 4:20-24) Hvort hið góða eða illa nær yfirhöndinni ræðst af því hvað við látum inn í hjörtu okkar. Orð Guðs ráðleggur: „Son minn, gef gaum að ræðu minni, hneig eyra þitt að orðum mínum. Lát þau eigi víkja frá augum þínum, varðveit þau innst í hjarta þínu. Því að þau eru líf þeirra, er öðlast þau, og lækning fyrir allan líkama þeirra. Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ — Orðskviðirnir 4:20-23.
10. Hvaða áhrif hafa veikleikar holdsins á tilfinningar okkar og langanir?
10 Veikleikar holdsins hafa áhrif á tilfinningar okkar og langanir. Hver er ekki af og til kjarklítill, óþolinmóður eða móðgaður? Ef við snúumst strax á móti þessum tilhneigingum holdsins getum við varðveitt andlegt heilbrigði okkar. Stolt og metnaðargirni geta þó skotið fljótt rótum í hjartanu. Ágirnd og óhófleg fíkn í skemmtun og drykkjusamkvæmi getur tekið af okkur ráðin. Og kynhvötin, sem er eðlileg vegna þess hvernig Guð skapaði okkur, getur leitt okkur á villigötur, næstum án þess að við tökum eftir því. Til að forðast að andlegur sjúkleiki af þessu tagi þróist með okkur þurfum við að rækta ávexti anda Guðs í lífi okkar dag hvern, og þjálfa okkur í að ‚hafa andstyggð á hinu vonda en halda fast við hið góða.‘ — Rómverjabréfið 12:9; Galatabréfið 5:22, 23.
Ytri orsakir andlegs sjúkleika
11. (a) Hvaða veraldleg viðhorf og atferli eru mjög smitandi? (b) Í hvaða sambandi þurfum við að gæta að hjörtum okkar, að sögn Jesú?
11 Andleg sýking getur komið utan að. Við getum smitast af þeim sem eru andlega dauðir. (Efesusbréfið 2:1-3) Ef við höfum of náin tengsl við þá getum við farið að líkja eftir viðhorfum þeirra og lífsháttum. Lífið hjá fólki í heiminum snýst um starfsframa, peninga, efnisleg gæði og skemmtanalíf. En löngunin í slíkt er mjög smitnæm og jafnvel smávægileg snerting við hana getur gert okkur andlega sljóa. Jesús aðvaraði: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“ — Lúkas 21:34, 35.
12. Hvernig geta rangar hugmyndir og kenningar ógnað andlegu heilbrigði?
12 Rangar hugmyndir og kenningar þessa heims geta einnig smitað okkur. Páll aðvaraði: „Þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun. Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.“ (2. Tímóteusarbréf 4:3, 4) Falskenningar eru eins og drep í holdi. (2. Tímóteusarbréf 2:16, 17) Þegar drep kemst í hold deyr hluti þess vegna þess að það fær ekki blóð.
13. Hvað þarf að gera ef andlegur sjúkleiki hefur sest að líkt og drep?
13 Drep getur breiðst mjög hratt út. Þurft getur að taka sýktan lim af til að bjarga lífi sjúklings. Ef efasemdir, aðfinnslur eða fráhvarfshugmyndir ógna andlegri heilsu þinni skalt þú skera þær burt sem skjótast. (Samanber Matteus 5:29, 30.) Leitaðu hjálpar öldunga safnaðarins. Vertu ekki eins og þeir sem Páll kallaði ‚sótttekna af þrætum og orðastælum‘ af því að þeir ‚fylgdu ekki hinum heilnæmu orðum.‘ — 1. Tímóteusarbréf 6:3, 4.
14. Hvað geta öldungarnir neyðst til að gera til að vernda andlegt heilbrigði safnaðarins?
14 Öldungar þurfa að „áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla,“ til að vernda andlegt heilbrigði safnaðarins. (Títusarbréfið 1:9, 13, 16; 2:1) Ef til vill er hægt að hjálpa slíkum einstaklingum að ná aftur andlegri heilsu. (2. Tímóteusarbréf 2:23-26) En hvað skal gera ef þeir útbreiða falskar kenningar og iðrast einskis? Þá þarf eiginlega að setja þá í sóttkví. Þeir eru gerðir rækir og við höldum okkur í hæfilegri fjarlægð frá þeim þannig að við smitumst ekki af andlegum sjúkleika þeirra. — Rómverjabréfið 16:17, 18; 1. Korintubréf 5:9-13; Títusarbréfið 3:9-11.
15. Með hvaða tveim aðferðum reynir djöfullinn að grafa undan andlegu heilbrigði þjóna Guðs?
15 Djöfullinn er þriðja hættan sem steðjar að andlegu heilbrigði okkar. (Efesusbréfið 6:11, 12) Allt fram til okkar daga hefur hann verið iðinn við að reyna að veikja trú þjóna Jehóva með ofsóknum, meðal annars skrílslátum, barsmíð, fangavist og hótunum um dauða. (Opinberunarbókin 2:10) Þar eð Satan tekst sjaldan með slíkum aðferðum að brjóta á bak aftur ráðvendni eins af þjónum Guðs beitir hann að auki táli þessa heims, sem hann er guð yfir, í von um að fella einhverja. — 2. Korintubréf 4:4; 11:3, 14.
16. Hvernig getum við varið okkur fyrir árásum djöfulsins á trú okkar og andlegt heilbrigði?
16 Hvernig getum við staðist árásir djöfulsins? Með því að íklæðast öllum hinum andlegu herklæðum frá Guði. Umfram allt þurfum við að ‚taka skjöld trúarinnar sem við getum slökkt með öll hin eldlegu skeyti‘ sem Satan sendir okkur. Við verðum líka að biðja í samræmi við orð Jesú: „Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá hinum vonda.“ (Efesusbréfið 6:11-18; Matteus 6:13, neðanmáls) Ef við biðjum þannig og hegðum okkur í samræmi við bænir okkar megum við vænta hjálpar okkar himneska föður við að slökkva öll hin brennandi skeyti Satans.
Varðveitum heilbrigði í trúnni
17. Hve mikilvægt er að fá „mat á réttum tíma“ og taka reglulega þátt í kristnu starfi til að varðveita andlegt heilbrigði?
17 Forvarnir eru mikilvægur þáttur góðs heilsufars. Nauðsynlegt er að fá næga hreyfingu, næringarríkan mat og fylgjast með almennu ástandi huga og líkama. Hið náttúrlega viðnám gegn sjúkdómum er sterkara í heilbrigðum líkama en sjúkum. Til að varðveita andlegt heilbrigði er einnig nauðsynlegt að fylgja því mataræði sem Guð mælir fyrir um og meta að verðleikum þann „mat á réttum tíma“ sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ útbýtir. Við verðum að hafna andlegu „sjoppufæði“ þessa heims, nema Biblíuna og kristin rit og koma reglulega saman með þjónum Guðs. (Matteus 24:45-47; Hebreabréfið 10:24, 25) Við þurfum líka að fá þá hreyfingu sem fylgir því að vera „síauðugir í verki Drottins“ í þjónustunni á akrinum og öðru kristnu starfi. — 1. Korintubréf 15:58.
18. Hver er ‚fyrirmynd heilnæmu orðanna‘ og hvers vegna verðum við að hafa það í hugum okkar og hjörtum?
18 Viljir þú vera heilbrigður í trúnni þarftu að notfæra þér til fulls ráðstafanir Guðs. Páll sagði Tímóteusi: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú. Varðveittu hið góða, sem þér er trúað fyrir, með hjálp heilags anda, sem í oss býr.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13, 14) Tungumál er ákveðið orðamynstur. Á sama hátt hefur hið hreina tungumál biblíulegs sannleika mynstur er byggist einkanlega á því stefi að upphefja nafn Jehóva fyrir milligöngu Guðsríkis. (Sefanía 3:9) Við þurfum að halda okkur við þessa fyrirmynd heilnæmra orða í hjarta og huga ef við ætlum að varðveita trú okkar og andlegt heilbrigði. Ella mun gildi þess dvína í hugum okkar. Það átti sér greinilega stað í söfnuðinum í Korintu þar sem sumir voru „sjúkir og krankir“ vegna þess að þá skorti andlegan skilning. — 1. Korintubréf 11:29-32.
19. (a) Hvað á sá maður að gera sem orðinn er andlega sjúkur? (b) Hvað geta öldungarnir gert ef einhver er andlega sjúkur?
19 Hvað ættir þú að gera ef þú yrðir andlega sjúkur? Þá þarfnast þú kærleiksríkrar hjálpar. Hvar er hana að fá? Jakob segir: „Sé einhver sjúkur yðar á meðal, þá kalli hann til sín öldunga safnaðarins og þeir skulu smyrja hann með olíu í nafni [Jehóva] og biðjast fyrir yfir honum.“ (Jakobsbréfið 5:14) Já, leitaðu hjálpar öldunganna. Eins og andlegir læknar geta þeir hjálpað þér að komast fyrir rætur hins andlega sjúkleika. Þeir munu varfærnislega en þó vandlega smyrja þig með hinni græðandi olíu orðs Guðs. Ef þú hefur syndgað en iðrast þess máttu treysta að Jehóva fyrirgefi. (Sálmur 103:8-14) Hversu máttu vænta þegar öldungarnir biðja með þér og fyrir þér? Jakob svarar: „Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og [Jehóva] mun reisa hann á fætur. Þær syndir, sem hann kann að hafa drýgt, munu honum verða fyrirgefnar.“ — Jakobsbréfið 5:15.
Andlegt heilbrigði leiðir til eilífs lífs
20. (a) Hvaða ráð gaf hið stjórnandi ráð fyrstu aldar sem getur hjálpað okkur að varðveita andlegt heilbrigði? (b) Hvað getur hjálpað okkur meðan við bíðum blessana hins nýja heims?
20 „Lifið heilir!“ Með þessum orðum lauk hið stjórnandi ráð þjóna Jehóva á fyrstu öld bréfi sínu um það sem „nauðsynlegt“ var að kristnir menn gættu. Þeir áttu að ‚halda sér frá kjöti fórnuðu skurðgoðum, blóði, kjöti af köfnuðum dýrum og saurlifnaði.‘ (Postulasagan 15:28, 29, NW) Þetta eru enn góð og gild læknisfyrirmæli til að tryggja góða, andlega heilsu. Á meðan við bíðum eftir blessunum hins nýja heims getum við varðveitt trú okkar og andlegt heilbrigði ef við höldum kappsamlega áfram að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki og halda nafni Jehóva á lofti í þessum sjúka heimi. Ef við erum upptekin af því mun það koma í veg fyrir að við verðum óþolinmóð að bíða blessunar hins nýja heims sem er svo nálæg. Að vísu gerir „langdregin eftirvænting . . . hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré.“ — Orðskviðirnir 13:12.
21. Hvaða blessun mun Guð veita þeim sem varðveita trú sína og andlegt heilbrigði í þessum sjúka heimi?
21 Misstu ekki af hinni stórkostlegu blessun sem Jehóva hefur búið þeim sem elska hann. Það mun ekki vera til einskis fyrir þig að berjast gegn áhrifum heimsins og veikleikum holdsins og að slökkva hin eldlegu skeyti djöfulsins. Í nýjum heimi Jehóva munt þú lifa þann tíma er „enginn borgarbúi mun segja: ‚Ég er sjúkur.‘“ (Jesaja 33:24) Það mun verða vegna þess að Guð fórnaði syni sínum, Jesú Kristi, sem lausnarfórn, honum sem „tók á sig mein vor og bar sjúkdóma vora.“ (Matteus 8:17; Jesaja 53:4) Þú munt geta drukkið af hinni táknrænu „móðu lífsvatnsins“ og etið af „lífsins tré“ sem ber lauf „til lækningar þjóðunum.“ (Opinberunarbókin 22:1, 2) Þér verður umbunað með eilífu lífi, fullkomleika og hamingju ef þú varðveitir trú þína og andlegt heilbrigði í þessum sjúka heimi.
Manstu svarið?
◻ Hvers vegna er andlegt heilbrigði þýðingarmeira en góð líkamsheilsa?
◻ Hvaða þrjár hættur steðja að trú okkar og andlegri heilsu?
◻ Hvert er samband góðrar, andlegrar heilsu og hins táknræna hjarta?
◻ Hvað á sá maður að gera sem er andlega sjúkur?
[Myndir á blaðsíðu 14]
Jafnvel í sjúkum heimi er hægt að hafa sterka trú og vera andlega hraustur.
[Myndir á blaðsíðu 16]
Gott, andlegt heilsufar er komið undir kostgæfu kristnu starfi og reglulegri neyslu andlegrar fæðu á réttum tíma.