Gefum gaum að fræðslunni
„Prédika þú orðið . . . Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.“ — 2. TÍM. 4:2.
1. Hvaða fyrirmæli gaf Jesús lærisveinum sínum og hvaða fordæmi sýndi hann?
ÞÓTT Jesús hafi unnið stórkostleg máttarverk þegar hann var hér á jörð var hann fyrst og fremst þekktur sem kennari en ekki sem læknir eða kraftaverkamaður. (Mark. 12:19; 13:1) Það sem hafði forgang í lífi Jesú var að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki. Þetta starf hefur líka forgang í lífi fylgjenda hans nú á dögum en þeim hefur verið falið að gera menn að lærisveinum með því að kenna þeim að halda allt það sem Jesús bauð. — Matt. 28:19, 20.
2. Hvernig getum við gert starfi okkar góð skil?
2 Til að gera prédikunarstarfinu góð skil leitumst við stöðugt við að bæta kennslutækni okkar. Páll postuli lagði áherslu á það þegar hann skrifaði starfsfélaga sínum Tímóteusi. Hann sagði: „Haf gát á sjálfum þér og fræðslunni. Ver stöðugur við þetta. Þegar þú gjörir það, muntu bæði gjöra sjálfan þig hólpinn og áheyrendur þína.“ (1. Tím. 4:16) Þegar Páll talar hér um fræðslu átti hann ekki einungis við það að miðla upplýsingum. Færir biblíukennarar ná til hjartna fólks og vekja hjá þeim hvöt til að breyta lífi sínu. En hvernig getum við bætt kennslutækni okkar og orðið færari í því að segja öðrum frá fagnaðarerindinu um Guðsríki? — 2. Tím. 4:2.
Bætum kennslutækni okkar
3, 4. (a) Hvernig getum við bætt kennslutækni okkar? (b) Hvernig hjálpar Boðunarskólinn okkur að verða góðir kennarar?
3 Það er list að vera góður kennari og maður þroskar þessa list með námi, eftirtekt og æfingu. Til að verða færir biblíukennarar verðum við að hafa þetta þrennt í huga: Í fyrsta lagi þurfum við að lesa efnið og rannsaka það í bænarhug til að fá réttan skilning á því. (Lestu Sálm 119:27, 34.) Í öðru lagi er gott að fylgjast með góðum kennurum til að læra kennsluaðferðir þeirra og líkja eftir þeim. Og í þriðja lagi slípum við aðferðir okkar með því að nota að staðaldri það sem við höfum lært. — Lúk. 6:40; 1. Tím. 4:13-15.
4 Jehóva er sá sem kennir okkur. Fyrir milligöngu safnaðar síns hér á jörð kennir hann þjónum sínum hvernig þeir eigi að prédika. (Jes. 30:20, 21) Þess vegna er Boðunarskólinn á dagskrá vikulega í hverjum söfnuði. Þessi skóli hjálpar nemendunum að verða hæfir boðberar Guðsríkis. Biblían er helsta kennslubókin. Í henni er okkur sagt hvað við eigum að kenna. Hún segir okkur líka hvaða kennsluaðferðir beri árangur og séu við hæfi. Í Boðunarskólanum lærum við að verða hæfari kennarar með því að byggja kennsluna á orði Guðs, nota spurningar á áhrifaríkan hátt, kenna á auðskilinn og einfaldan hátt og sýna öðrum einlægan áhuga. Skoðum þessi atriði nánar, hvert fyrir sig. Síðan ræðum við um það hvernig hægt sé að ná til hjartna biblíunemenda.
Byggjum kennsluna á orði Guðs
5. Á hverju ættum við að byggja kennsluna og hvers vegna?
5 Jesús er færasti kennari sem lifað hefur á jörðinni og hann byggði kennslu sína á ritningunum. (Matt. 21:13; Jóh. 6:45; 8:17) Hann talaði ekki í eigin nafni heldur í nafni þess sem sendi hann. (Jóh. 7:16-18) Við fylgjum fyrirmynd hans. Það sem við segjum í boðunarstarfinu hús úr húsi eða við biblíunemendur ætti að vera tryggilega byggt á orði Guðs. (2. Tím. 3:16, 17) Hversu snilldarleg sem rökfærsla okkar kann að vera kemst hún ekki í hálfkvisti við sannfæringarkraftinn í hinni innblásnu Biblíu. Orð Guðs er kröftugt. Þegar við reynum að skýra eitthvað fyrir nemandanum er besta aðferðin sú að fá hann til að lesa það sem Biblían segir um málið. — Lestu Hebreabréfið 4:12.
6. Hvernig getur kennari gengið úr skugga um að nemandinn skilji efnið sem farið er yfir?
6 Að sjálfsögðu verðum við samt að undirbúa okkur fyrir hvert biblíunámskeið. Við ættum að velja vandlega hvaða ritningarstaði, sem vísað er í, við látum nemandann lesa eða lesum sjálf í námsstundinni. Yfirleitt er gott að lesa ritningarstaði sem styðja grundvöll trúar okkar. Það er líka mikilvægt að hjálpa nemandanum að skilja hvern ritningarstað sem hann les. — 1. Kor. 14:8, 9.
Notum spurningar á áhrifaríkan hátt
7. Af hverju er það góð kennsluaðferð að nota spurningar?
7 Þegar spurningar eru notaðar af leikni örva þær hugsunina og hjálpa kennaranum að ná til hjarta nemandans. Í stað þess að útskýra ritningarstaði fyrir nemandanum skaltu því biðja hann um að útskýra þá fyrir þér. Stundum gæti þurft að spyrja aukaspurningar eða jafnvel nokkurra spurninga til að hjálpa nemandanum að draga réttar ályktanir. Þegar þú notar þessa aðferð til að draga nemandann inn í námsferlið hjálpar þú honum ekki aðeins að skilja rökin á bak við ákveðna niðurstöðu heldur líka að sannfærast um að þessi niðurstaða sé rétt. — Matt. 17:24-26; Lúk. 10:36, 37.
8. Hvernig getum við dregið fram hvað býr í hjarta nemandans?
8 Námsaðferðin í ritum okkar byggist á spurningum og svörum. Flestir biblíunemendur læra eflaust fljótt að finna svörin við spurningunum í samsvarandi greinum. En athugull kennari lætur sér ekki aðeins nægja að fá rétt svör. Tökum dæmi. Nemandi er kannski fær um að útskýra hvað Biblían segir um saurlifnað. (1. Kor. 6:18) En með því að spyrja háttvísra viðhorfsspurninga er hægt að draga fram hvað honum finnst raunverulega um að það sem hann er að læra. Kennarinn gæti spurt: „Af hverju fordæmir Biblían kynmök utan hjónabands? Hvaða skoðun hefur þú á þessum hömlum sem Guð hefur sett? Heldurðu að það sé okkur til góðs að lifa í samræmi við siðferðiskröfur Guðs?“ Svörin við slíkum spurningum geta leitt í ljós hvað býr í hjarta nemandans. — Lestu Matteus 16:13-17.
Kennum á auðskilinn og einfaldan hátt
9. Hvað ættum við að hafa í huga þegar við miðlum biblíuþekkingu?
9 Flest sannindi Biblíunnar eru í sjálfu sér einföld. Hins vegar gætu kenningar falstrúarbragðanna hafa ruglað biblíunemendur okkar í ríminu. Hlutverk okkar sem kennarar er að gera Biblíuna auðskiljanlega. Færir kennarar koma upplýsingum á framfæri á einfaldan, skýran og nákvæman hátt. Ef við fylgjum þessari meginreglu gerum við sannleikann ekki flóknari en hann þarf að vera. Forðumst óþarfa smáatriði. Það þarf ekki að skýra hvert einasta atriði í þeim ritningarstöðum sem við lesum. Einbeitum okkur að því að útskýra það sem er til umfjöllunar. Nemandinn lærir dýpri biblíusannindi með tímanum þegar skilningur hans eykst. — Hebr. 5:13, 14.
10. Hvað ræður því hve mikið efni við förum yfir í hverri námsstund?
10 Hve mikið efni á að fara yfir í einni námsstund? Við þurfum að nota dómgreindina til að ákveða það. Hæfni og aðstæður bæði nemandans og kennarans eru mismunandi. Höfum hugfast að markmið okkar er að hjálpa nemandanum að byggja upp sterka trú. Þess vegna gefum við honum nægan tíma til að lesa og skilja biblíusannindi og taka við þeim. Við förum ekki yfir meira efni en hann ræður við. En við ættum samt að halda ákveðnum takti. Þegar nemandinn skilur ákveðið efni snúum við okkur að því næsta. — Kól. 2:6, 7.
11. Hvað lærum við af kennsluaðferðum Páls postula?
11 Páll postuli skýrði fagnaðarerindið á einfaldan hátt fyrir nýjum. Þótt hann hafi verið vel menntaður forðaðist hann háfleygt mál. (Lestu 1. Korintubréf 2:1, 2.) Sannleikurinn í Biblíunni er einfaldur og þess vegna laðast einlægt fólk að honum og hann svalar þörfum þess. Enginn þarf að vera hámenntaður til að skilja sannleikann. — Matt. 11:25; Post. 4:13; 1. Kor. 1:26, 27.
Kennum nemendum að meta fræðsluna mikils
12, 13. Hvað getur verið nemanda hvöt til að breyta eftir því sem hann lærir? Lýstu með dæmi.
12 Fær biblíukennari verður að ná til hjarta nemandans. Nemandinn verður að skilja hvernig fræðslan á við hann persónulega, hvernig hann nýtur góðs af henni og hvernig hann getur fært líf sitt til betri vegar með því að fylgja leiðbeiningum Biblíunnar. — Jes. 48:17, 18.
13 Tökum dæmi. Við erum kannski að fjalla um Hebreabréfið 10:24, 25 þar sem kristnir menn eru hvattir til að safnast saman til að styrkja hver annan í trúnni og efla vináttuböndin. Ef nemandinn er ekki enn farinn að sækja samkomur gætum við stuttlega lýst fyrir honum hvernig þær fara fram og um hvað sé rætt. Við gætum nefnt að samkomusókn sé hluti af tilbeiðslu okkar og bent nemandanum á hvernig samkomurnar gagnast okkur. Síðan gætum við boðið honum að koma með okkur. Hvötin að baki því að fylgja boðum Biblíunnar ætti að vera löngun hans til að hlýða Jehóva en ekki að þóknast kennara sínum. — Gal. 6:4, 5.
14, 15. (a) Hvað geta biblíunemendur lært um Jehóva? (b) Hvaða gagn hafa biblíunemendur af því að kynnast persónuleika Guðs?
14 Hvert er eitt helsta gagnið sem fólk hefur af því að kynna sér Biblíuna og fylgja meginreglum hennar? Það kynnist Jehóva sem persónu og byggir upp vináttusamband við hann. (Jes. 42:8) Hann er ekki aðeins ástríkur faðir og skapari alheims heldur opinberar hann líka persónuleika sinn þeim sem elska hann og þjóna honum. (Lestu 2. Mósebók 34:6, 7.) Þegar Jehóva fól Móse að frelsa Ísraelsmenn úr ánauð í Egyptalandi lýsti hann sjálfum sér með orðunum: „Ég verð sá sem ég verð.“ (2. Mós. 3:13-15, NW) Með þessu gaf hann til kynna að hann gæti orðið hvaðeina sem á þurfti að halda til að fyrirætlun hans með Ísraelsþjóðina næði fram að ganga. Þannig kynntust Ísraelsmenn því að Jehóva var sá sem frelsaði þá, barðist fyrir þá, sá fyrir þeim, uppfyllti loforð sín og hjálpaði þeim á ýmsa aðra vegu. — 2. Mós. 15:2, 3; 16:2-5; Jós. 23:14.
15 Jehóva grípur kannski ekki inn í líf biblíunemenda okkar með jafn áþreifanlegum hætti og Móse fékk að upplifa. En þegar nemandinn styrkist í trúnni og fer að meta fræðsluna að verðleikum og heimfæra hana á líf sitt, skilur hann að hann verður að reiða sig á Jehóva til að fá hugrekki, visku og leiðsögn. Þegar hann gerir það kynnist hann því að Jehóva er vitur og áreiðanlegur ráðgjafi sem verndar hann og annast allar þarfir hans. — Sálm. 55:23; 63:8; Orðskv. 3:5, 6.
Sýnum einlægan áhuga
16. Hvers vegna skipta meðfæddir hæfileikar ekki mestu máli til að við náum árangri sem kennarar?
16 Misstu ekki móðinn þótt þér finnist þú ekki eins fær kennari og þú myndir vilja vera. Jehóva og Jesús hafa umsjón með fræðslustarfinu sem unnið er um allan heim nú á dögum. (Post. 1:7, 8; Opinb. 14:6) Þeir geta blessað viðleitni okkar svo að það sem við segjum hafi tilætluð áhrif á hjartahreint fólk. (Jóh. 6:44) Ef kennara þykir vænt um nemanda sinn getur það bætt upp það sem hann kann að skorta af meðfæddum hæfileikum. Páll postuli sýndi að hann skildi mikilvægi þess að þykja innilega vænt um þá sem hann kenndi. — Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:7, 8.
17. Hvernig getum við sýnt hverjum og einum biblíunemanda einlægan áhuga?
17 Við getum líka sýnt biblíunemanda einlægan áhuga með því að gefa okkur tíma til að kynnast honum. Þegar við ræðum við hann um meginreglur Biblíunnar gerum við okkur líklega betur grein fyrir aðstæðum hans. Við tökum kannski eftir að hann fer nú þegar eftir mörgu af því sem hann er að læra í biblíunámi sínu. En hann gæti samt þurft að gera breytingar á ýmsum sviðum. Við getum hjálpað honum að verða sannur lærisveinn Krists með því að leiða honum fyrir sjónir hvernig námsefnið á við hann sjálfan.
18. Hvers vegna er mikilvægt að biðja með nemanda okkar og fyrir honum?
18 Umfram allt getum við beðið með nemanda okkar og fyrir honum. Nemandanum ætti að vera ljóst að markmið okkar er að hjálpa honum að kynnast skaparanum betur, styrkja tengslin við hann og njóta góðs af leiðbeiningum hans. (Lestu Sálm 25:4, 5.) Þegar við biðjum þess að Jehóva blessi viðleitni nemandans til að fara eftir því sem hann lærir, sér nemandinn mikilvægi þess að verða ‚gerandi orðsins‘. (Jak. 1:22) Og þegar hann hlustar á innilegar bænir okkar lærir hann sjálfur að biðja. Það veitir mikla gleði að hjálpa biblíunemendum að tengjast Jehóva vináttuböndum.
19. Um hvað verður rætt í næstu grein?
19 Meira en sex og hálf milljón votta starfar nú um allan heim. Það er hvetjandi til þess að vita að þeir eru iðnir við að bæta kennslutækni sína. Markmið þeirra er að hjálpa hjartahreinu fólki að halda allt það sem Jesús bauð. Hvaða árangri hefur prédikunarstarfið skilað? Um það verður rætt í næstu grein.
Manstu?
• Af hverju þurfa kristnir menn að bæta kennslutækni sína?
• Hvernig getum við gert kennsluna áhrifaríkari?
• Hvað getur bætt upp það sem okkur kann að skorta af meðfæddum kennsluhæfileikum?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Hefurðu skráð þig í Boðunarskólann?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Af hverju er mikilvægt að biðja nemandann að lesa úr Biblíunni?
[Mynd á blaðsíðu 12]
Biddu með nemanda þínum og fyrir honum.