Títus — „Starfsbróðir hjá yður“
VANDAMÁL skutu stundum upp kollinum í kristna söfnuðinum á fyrstu öld. Þau þurfti að leysa og það þurfti hugrekki og hlýðni til. Títus þurfti oftar en einu sinni að takast á við einhver þeirra. Hann starfaði með Páli postula og lagði sig allan fram um að hjálpa öðrum að breyta í samræmi við vilja Jehóva. Þess vegna sagði Páll kristnum mönnum í Korintu að Títus væri ‚starfsbróðir hjá þeim.‘ — 2. Korintubréf 8:23.
Hver var Títus? Hvaða hlutverki gegndi hann í því að greiða úr vandamálum? Og hvernig getum við haft gagn af því að ígrunda breytni hans?
Umskurnardeilan
Títus var óumskorinn Grikki. (Galatabréfið 2:3)a Páll kallar hann ‚skilgetinn son sinn í sameiginlegri trú‘ sem kann að merkja að hann hafi verið eitt af andlegum börnum postulans. (Títusarbréfið 1:4; samanber 1. Tímóteusarbréf 1:2.) Títus fór með þeim Páli, Barnabasi og fleirum frá Antíokkíu í Sýrlandi til Jerúsalem um árið 49 til að fjalla um umskurnardeiluna. — Postulasagan 15:1, 2; Galatabréfið 2:1.
Þar eð trúskipti óumskorinna heiðingja voru til umræðu í Jerúsalem hefur því verið slegið fram að Títus hafi verið hafður með í för til að sýna fram á að Gyðingar og menn af öðru þjóðerni gætu hlotið velþóknun Guðs, hvort sem þeir væru umskornir eða ekki. Sumir í söfnuðinum í Jerúsalem, sem höfðu verið farísear áður en þeir tóku kristna trú, héldu því fram að heiðingjum, sem gerðust kristnir, væri skylt að láta umskerast og halda lögmálið, en þeirri skoðun var mótmælt. Með því að neyða Títus og aðra menn af þjóðunum til að umskerast væri verið að afneita því að hjálpræði byggðist á óverðskuldaðri góðvild Jehóva og trú á Jesú Krist, en ekki á lögmálsverkum. Þá hefði því líka verið afneitað að menn af þjóðunum hefðu fengið heilagan anda Guðs. — Postulasagan 15:5-12.
Sendur til Korintu
Þegar umskurnardeilan var útkljáð fengu Páll og Barnabas óskorað umboð til að prédika fyrir þjóðunum. Jafnframt leituðust þeir við að minnast fátækra. (Galatabréfið 2:9, 10) Þegar næst er minnst á Títus í hinni innblásnu frásögu sex árum síðar er hann staddur í Korintu sem erindreki Páls og er þá að skipuleggja samskot handa hinum heilögu. En þegar Títus var að sinna þessu verkefni stóð hann frammi fyrir öðru erfiðu vandamáli.
Í fyrra bréfinu til Korintumanna segir Páll þeim að ‚umgangast ekki saurlífismenn.‘ Hann þurfti að segja þeim að víkja iðrunarlausum saurlífismanni úr söfnuðinum og skrifaði þeim hið kröftuga bréf „með mörgum tárum.“ (1. Korintubréf 5:9-13; 2. Korintubréf 2:4) Títus var sendur til Korintu til að aðstoða við samskot þar handa bágstöddum kristnum mönnum í Júdeu. Vera má að tilgangurinn hafi í og með verið sá að kanna viðbrögð Korintumanna við bréfi Páls. — 2. Korintubréf 8:1-6.
Hvernig skyldu Korintumenn bregðast við ráðleggingum Páls? Hann var óþreyjufullur að fá fréttir af því og vera má að hann hafi sent Títus frá Efesus yfir Eyjahaf til Korintu með þau fyrirmæli að láta sig vita eins fljótt og hægt væri. Ef sendiförinni lyki áður en siglingar legðust niður fyrir veturinn (um miðjan nóvember) gæti Títus komið sjóleiðis til Tróas eða farið lengri leiðina landleiðis og yfir um Hellusund. Páll hefur sennilega komið snemma til Tróas, þar sem þeir höfðu ákveðið að hittast, því að hann þurfti að yfirgefa Efesus fyrr en hann ætlaði sökum uppþota sem silfursmiðirnir stóðu fyrir. Eftir að Páll hafði beðið Títusar í Tróas með nokkrum kvíða varð honum ljóst að hann kæmi ekki sjóleiðina. Hann lagði því af stað landleiðina til móts við Títus í von um að mæta honum. Þegar Páll var kominn yfir til Evrópu hefur hann farið eftir veginum Vía Egnatía og loks hitti hann Títus í Makedóníu. Honum til mikils léttis og gleði hafði Títus góðar fréttir að færa frá Korintu, því að söfnuðurinn hafði tekið ráðleggingum hans vel. — 2. Korintubréf 2:12, 13; 7:5-7.
Títus naut hjálpar Guðs til að vinna verk sitt. Páll hafði haft áhyggjur af því hvers konar viðtökur erindreki hans fengi en honum var tekið með „ugg og ótta.“ (2. Korintubréf 7:8-15) Biblíuskýrandinn W. D. Thomas segir: „Við megum ætla að [Títus] hafi rætt fagmannlega og nærgætnislega við Korintumenn, án þess þó að draga nokkuð úr hvössum ávítum Páls, og fullvissað þá um að Páll hafi einungis borið andlega velferð þeirra fyrir brjósti.“ Títus hafði lært að meta kristna menn í Korintu sökum hlýðni þeirra og breytinganna sem þeir gerðu. Hrósunarverð afstaða þeirra hafði verið honum til hvatningar.
Hvað um hitt verkefni Títusar í Korintu — að skipuleggja samskotin handa hinum heilögu í Júdeu? Hann hafði einnig unnið að því eins og ráða má af 2. Korintubréfi. Bréfið var sennilega skrifað í Makedóníu haustið 55, skömmu eftir að Páll og Títus hittust. Páll segir í bréfinu að Títus, sem hafði komið söfnuninni af stað, væri nú sendur til Korintu aftur ásamt tveim ónafngreindum aðstoðarmönnum til að ljúka henni. Sökum einlægs áhuga síns á Korintumönnum var Títus meira en fús til að snúa aftur til þeirra. Líklega hefur hann fært þeim síðara innblásna bréfið frá Páli. — 2. Korintubréf 8:6, 17, 18, 22.
Títus hafði góða skipulagsgáfu en hann var líka maður sem hægt var að treysta til að taka á viðkvæmum málum við erfiðar aðstæður. Hann var hugrakkur, þroskaður og staðfastur. Ljóst er að Páll taldi hann færan um að ráða við þá sífelldu ögrun sem stafaði af „hinum stórmiklu postulum“ í Korintu. (2. Korintubréf 11:5) Títus er aftur að sinna krefjandi verkefni þegar næst er minnst á hann í Ritningunni, og það staðfestir að þessi mynd af honum sé rétt.
Á eynni Krít
Títus var á Miðjarðarhafseynni Krít þegar Páll skrifaði honum bréf, sennilega einhvern tíma á árabilinu 61 til 64. Páll hafði skilið hann þar eftir til að ‚færa í lag það sem ógert var og skipa öldunga í hverri borg.‘ Krítarmenn höfðu almennt það orð á sér að vera „síljúgandi, óargadýr og letimagar.“ Títus hefur því aftur þurft að sýna hugrekki og festu. (Títusarbréfið 1:5, 10-12) Þetta var ábyrgðarmikið starf því að það myndi trúlega móta framtíð kristninnar á eynni. Í innblásnu bréfi sínu lagði Páll Títusi lið með því að tilgreina hverju hann ætti að leita að í fari væntanlegra umsjónarmanna. Þessar hæfniskröfur eru enn hafðar að leiðarljósi þegar kristnir öldungar eru útnefndir.
Ritningin lætur ósagt hvenær Títus fór frá Krít, en hann var nógu lengi þar til að Páll gat beðið hann að sinna þörfum þeirra Senasar og Apollóss sem komu einhvern tíma við þar á ferð sinni. En ekki hefur Títus dvalist mjög lengi á eynni. Páll hugðist senda þangað annaðhvort Artemas eða Týkíkus, og síðan átti Títus að hitta Pál í Nikópólis, líklega í samnefndri borg í norðvestanverðu Grikklandi. — Títusarbréfið 3:12, 13.
Að síðustu er minnst stuttlega á Títus, sennilega um árið 65, þegar Páll hefur sent hann til að sinna enn einu verkefni. Hann er þá kominn til Dalmatíu, héraðs austur af Adríahafi þar sem nú er Króatía. (2. Tímóteusarbréf 4:10) Okkur er ekki sagt hvaða erindi Títus átti þangað, en menn hafa getið sér til að það hafi tengst stjórn safnaðarmála og trúboðsstarfi. Ef það er rétt hefur hann gegnt svipuðu hlutverki þar og á Krít.
Við getum verið þakklát fyrir þroskaða kristna umsjónarmenn eins og Títus. Skýr skilningur þeirra á meginreglum Ritningarinnar og hugrekki þeirra í að beita þeim á sinn þátt í því að vernda andlegt hugarfar safnaðarins. Við skulum líkja eftir trú þeirra og líkjast Títusi með því að vinna að andlegum hagsmunum trúbræðra okkar. — Hebreabréfið 13:7.
[Neðanmáls]
a Galatabréfið 2:3 kallar Títus grískan (Helʹlen). Það getur merkt að hann hafi verið af grískum ættum. En því er einnig haldið fram að sumir grískir rithöfundar hafi notað fleirtölumynd orðsins (Helʹlenes) um menn af öðru þjóðerni sem töluðu grísku og lifðu í grísku menningarumhverfi. Hugsanlegt er að það hafi verið í þeim skilningi sem Títus var grískur.
[Mynd á blaðsíðu 31]
Títus vann hugrakkur að hagsmunum kristinna manna í Korintu og víðar.