Byggðu upp traust til Jehóva með því að nema orð hans ötullega
„Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag . . . því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar.“ — 5. MÓSEBÓK 32:46, 47.
1, 2. (a) Hverju stóðu Ísraeslmenn frammi fyrir er þeir höfðu slegið búðum á Móabssléttum? (b) Hvaða hvatningu gaf Móse þjóðinni?
HIN langa för þeirra um eyðimörkina var nánast á enda. Ekkert skildi nú milli þjóðarinnar og hins langþráða fyrirheitna lands annað en bugðótt Jórdanáin. En fyrir leiðtoga þjóðarinnar, Móse, var tilhugsunin um að hún gengi inn í fyrirheitna landið tilefni alvarlegra hugleiðinga. Hann mundi hvernig þjóðinni hafði einu sinni orðið fótaskortur vegna þess að hana skorti traust til Jehóva, og að af þeim sökum hafði henni verið meinað að ganga inn í Kanaanland. — 4. Mósebók 13:25-14:30.
2 Móse kallaði því þjóðina saman á Móabsvöllum. Eftir að hafa rifjað upp sögu hennar og ítrekað lögmál Guðs flutti hann það sem kallað hefur verið ljóð Móse. Á fögru ljóðmáli hvatti hann Ísrael til að treysta og hlýða Jehóva, ‚trúföstum Guði og tállausum, réttlátum og réttvísum.‘ Að lokum hvatti Móse: „Hugfestið öll þau orð, sem ég flyt yður í dag, til þess að þér getið brýnt þau fyrir börnum yðar, svo að þau gæti þess að halda öll orð þessa lögmáls. Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar.“ — 5. Mósebók 32:4, 46, 47.
Að ‚hugfesta‘ orð Guðs
3, 4. (a) Hvað áttu Ísraelsmenn að ‚hugfesta‘ og hvað fólst í því? (b) Hvernig heimfærðu síðari tíma kynslóðir heilræði Móse?
3 Móse áminnti Ísraelsmenn um að ‚hugfesta‘ ekki aðeins hið hrífandi ljóð hans heldur öll hin helgu rit. Þeir áttu að „beina hjarta sínu að“ því (NW), „hlýða nákvæmlega“ (Today’s English Version) eða „ígrunda“ (The Living Bible) lögmál Guðs. Aðeins með því að kunna góð skil á því gætu þeir ‚boðið börnum sínum að halda öll orð þessa lögmáls.‘ Í 5. Mósebók 6:6-8 skrifaði Móse: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum . . . Þú skalt binda þau til merkis á hönd þér og hafa þau sem minningarbönd á milli augna þinna.“
4 Biblíuskýrandinn W. H. Davey segir frá því hvernig „Gyðingar túlkuðu þessi orð bókstaflega [síðar á tímum] og þau boð, sem í þeim fólust, urðu tilefni hjátrúar. Ákveðin vers . . . voru skrifuð á bókfell og borin á handlegg og enni þegar menn báðust fyrir.“ Á dögum Jesú báru menn vönduð leðurhylki, sem innihéldu ritningarstaði, og sumir sértrúarflokkar Gyðinga bera þau enn þann dag í dag. (Matteus 23:5) En Davey bætir við: „Í flónsku sinni létu menn sér nægja að bera á sér afrit af orðum lögmálsins, í stað þess að sýna í daglegu lífi að þeir héldu þau boðorð sem það geymdi.“
5. Hvernig bar að skilja orð Móse í 5. Mósebók 6:6-8?
5 Nei, lögmál Guðs átti ekki að vera bundið bókstaflega við hönd þeirra eða enni heldur vera þeim ‚hugfast,‘ vera ‚í hjarta þeirra.‘ Ef þeir ekki aðeins tileinkuðu sér þekkingu á því heldur mætu það að verðleikum yrði það þeim alltaf fyrir hugskotssjónum, líkt og væri það skrifað á steintöflu fyrir augum þeirra eða bundið við hendur þeirra.
Hjálp til að læra lögmál Guðs
6, 7. (a) Hvaða ráðstöfun gerði Jehóva til að Ísraelsmenn gætu þekkt Móselögmálið? (b) Hvernig kunna þjónar Guðs til forna einnig að hafa hlotið fræðslu í orði Guðs?
6 En hvernig gátu Ísraelsmenn lært hér um bil 600 ákvæði lögmálsins? Vafalaust voru afrit fremur sjaldgæf í fyrstu. Konungar Ísraels í framtíðinni áttu að ‚rita eftirrit af [lögmálinu] handa sér í bók . . . og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að þeir læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls.‘ (5. Mósebók 17:18, 19) Guð gerði þá ráðstöfun að lögmálið yrði lesið sjöunda hvert ár á laufskálahátíðinni. (5. Mósebók 31:10-13) Þótt slíkt hafi vafalaust verið hvetjandi hefur það tæplega verið fullnægjandi til að veita þjóðinni djúptæka þekkingu.
7 Jehóva fól einnig ættkvísl Leví að ‚kenna Jakob dóma sína og Ísrael lögmál sitt.‘ (5. Mósebók 33:8, 10; samanber Malakí 2:7.) Við ákveðin tækifæri gerðu Levítarnir fræðsluátak sem þjónaði allri þjóðinni. (2. Kroníkubók 17:7-9; Nehemía 8:7-9) Svo virðist sem almenningur hafi einnig síðar á tímum haft aðgang að í það minnsta hluta af orði Guðs.a Því gat sálmaritarinn skrifað: „Sæll er sá maður, er . . . hefir yndi af lögmáli [Jehóva] og hugleiðir lögmál hans dag og nótt.“ (Sálmur 1:1, 2) Hvatning Móse um að ‚hugfesta orð Guðs‘ jafngilti því boði um að nema Biblíuna kostgæfilega.
Hvernig við getum ‚hugfest orð Guðs‘ nú á dögum
8. Að hvaða marki fylgdi Ísrael áminningum Móse og með hvaða afleiðingum?
8 Ísraelsmenn gættu þess ekki að fylgja áminningum Móse. Þegar Ísrael varð konungsveldi er ljóst að fæstir konunganna ‚rituðu eftirrit af lögmálinu handa sér og lásu í því alla ævidaga sína.‘ Þegar kom fram á sjöundu öld f.o.t., á dögum Jósía konungs, var ‚lögbókin‘ næstum týnd. (2. Konungabók 22:8-13) Hið slæma fordæmi forystumanna þjóðarinnar flýtti vafalaust fyrir fráhvarfi þjóðarinnar frá sannri trú. Eins og Móse hafði aðvarað skall mikil ógæfa yfir þjóðina árið 607 f.o.t. — 5. Mósebók 28:15-37; 32:23-35.
9. Hvað er hliðstætt með aðstöðu kristinna manna núna og Ísraelsmanna til forna?
9 Líkt og Ísraelsmenn til forna standa kristnir nútímamenn við landamæri fyrirheitins lands — hins réttláta nýja heims Jehóva. (2. Pétursbréf 3:13) Miklir atburðir munu bráðlega gerast: yfirlýsing um ‚frið og enga hættu,‘ fall ‚Babýlonar hinnar miklu‘ og árás ‚Gógs frá Magóg.‘ Þessir atburðir munu reyna á traust okkar til Jehóva. Því er áríðandi að við ‚hugfestum orð Guðs‘ núna! — 1. Þessaloníkubréf 5:3; Opinberunarbókin 18. kafli; Esekíel 38. kafli.
10. Hvers vegna slaka sumir á í einkanámi sínu?
10 Það getur þó verið krefjandi verkefni núna á okkar ‚örðugu tímum.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Veraldleg atvinna, barnauppeldi, skóli og ábyrgð innan safnaðarins getur allt krafist tíma okkar og athygli. Þar af leiðandi kunnum við að hafa tilhneigingu til að afsaka það að við slökum á í biblíunámi okkar og hugsa sem svo að við gerum nóg til að bjarga okkur. En Biblían áminnir kristna menn: „Stunda þetta, ver allur í þessu.“ (1. Tímóteusarbréf 4:15, 16) Við skulum nú athuga nokkrar þýðingarmiklar ástæður til að gera það.
Það styrkir samband okkar við Guð
11, 12. (a) Hvaða áhrif hafði nánari þekking á Guði á Job? (b) Hvernig getum við ‚séð‘ Guð skýrar en Job gerði?
11 Job var maður „guðhræddur og grandvar.“ En eftir að Jehóva hafði opinberast honum í stormi gat Job sagt: „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefur auga mitt litið þig.“ (Jobsbók 1:1; 42:5) Getum við nú á dögum „litið“ Guð, það er að segja ekki aðeins haft smákynni af honum heldur þekkt náið hinar mörgu hliðar persónuleika hans? Svo sannarlega getum við það! Á blöðum Biblíunnar hefur Jehóva opinberað meira um sjálfan sig en jafnvel Job þekkti.
12 Við höfum skýrari þekkingu á dýptinni í kærleika Guðs; við vitum að „svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn.“ (Jóhannes 3:16) Spádómar Biblíunnar draga upp fyrir okkur mynd af starfsemi Guðs — allt út til enda þúsundáraríkisins! (Opinberunarbókin 18.-22. kafli) Við höfum skráða frásögu af samskiptum Guðs við kristna söfnuðinn: Hann hefur gefið heiðingjunum aðild að honum, skipað ‚trúan og hygginn þjón‘ til að gefa fólki sínu fæðu og safnað saman ‚miklum múgi‘ manna sem á í vændum að lifa að eilífu á jörð sem verður paradís. (Matteus 24:45; Opinberunarbókin 7:9, 14-17; Efesusbréfið 3:3-6) Eftir að hafa rýnt í hin djúpu sannindi Guðs og ígrundað dásemdarverk hans í okkar þágu getum við ekki annað en hrópað upp yfir okkur: „Hvílíkt djúp ríkdóms, speki og þekkingar Guðs!“ — Rómverjabréfið 11:33.
13. Hvernig getum við ‚leitað Guðs‘ og hvaða gagn höfum við af því?
13 Sálmaritarinn sagði: „Ég leita þín af öllu hjarta.“ Við getum gert slíkt hið sama með því að hugleiða dag hvern biblíulegt efni; það hjálpar mjög til að styrkja tengsl okkar við Jehóva. Einlægt nám hjálpar okkur líka að gera ‚breytni okkar staðfasta svo að við varðveitum lög Guðs.‘ — Sálmur 119:5, 10.
Nám hjálpar okkur að verja trúna
14. Lýstu með dæmi gildi þess að ‚færa rök fyrir kristinni von okkar‘?
14 „Ég vil ekki sjá ykkur vottana í húsi mínu!“ sagði Ghanabúi þegar tveir vottar heimsóttu hann. Hann skammaði vottana fyrir að „þiggja ekki blóðgjafir og heilsa ekki þjóðfánanum.“ Slík andmæli mæta okkur oft í þjónustunni á akrinum. Það væri mikil háðung og auðmýking ef við værum ekki fær um að ‚svara hverjum manni sem krefst raka hjá okkur fyrir voninni, sem í okkur er.‘ (1. Pétursbréf 3:15) Til allrar hamingju gátu þessir vottar notað Biblíuna með áhrifaríkum hætti til að útlista fyrir manninum hið rétta viðhorf til blóðs og hvernig kristinn maður finnur jafnvægið milli virðingar fyrir þjóðtáknum og þess að forðast skurðgoðadýrkun. Hrein og skýr svör þeirra höfðu djúp áhrif á manninn. Núna eru bæði hann og kona hans skírðir vottar.
15. Hvernig gerir einkanám okkur hæf fyrir þjónustuna?
15 Páll hvetur: „Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.“ Einkanám hjálpar okkur ekki aðeins að halda okkur á veginum til lífsins heldur líka að vera ‚albúin og hæf‘ til að hjálpa öðrum að gera það einnig. — 2. Tímóteusarbréf 2:15; 3:17.
Það hjálpar okkur að forðast snörur Satans
16. Hvaða snörur getur Satan lagt fyrir þjóna Jehóva?
16 Holskefla auglýsinga ríður yfir okkur þar sem höfðað er til ‚fýsnar holdsins og fýsnar augnanna og auðæfa-oflætis.‘ (1. Jóhannesarbréf 2:16) Fjölmiðlar sýna siðleysi í jákvæðu ljósi og margir af vinnufélögum og skólafélögum eru eindregið hlynntir frjálsræði í kynferðismálum. Fráhvarfsmenn senda okkur kannski æsingarit. Einstaka bræður hafa af forvitni lesið slíkt efni — og misst trúna. Þá er einnig að nefna hinn eigingjarna, holdlega ‚anda sem nú starfar í sonum óhlýðninnar.‘ Það er hægðarleikur að láta smitast af honum og verða neikvæður og gagnrýninn! — Efesusbréfið 2:2, Ísl. bi. 1912.
17, 18. Hvernig getur einkanám komið í veg fyrir að við ‚berumst afleiðis‘?
17 Fáir ætla sér auðvitað að falla í snörur Satans. Það sem oftast gerist er að menn vanrækja einkanám og berast burt eins og óbundinn bátur og verða þar með auðveld bráð Satans. (Hebreabréfið 2:1) Ungur bróðir gerðist til dæmis sekur um siðlausan verknað með skólasystur sinni. „Það rann upp fyrir mér,“ sagði hann, „að aðalorsökin fyrir því var sú að ég var andlega vannærður. Ég nam aldrei. Þess vegna gat ég ekki staðist freistinguna.“ Reglulegt einkanám hjálpaði bróðurnum að ná andlegum styrk.
18 Satan er ráðinn í að spilla jafnmörgum af þjónum Guðs og hann getur. Með því að næra huga okkar stöðugt á því góða sem kemur frá orði Guðs og trúum ráðsmanni hans getum við forðast að falla í snöru hans. (Filippíbréfið 4:8) Áminningar um að forðast efnishyggju, siðleysi, fráhvarfshugsun og neikvætt hugarfar eru margar og ríkulegar í Biblíunni og ritum Varðturnsfélagsins. Ef við gefum þeim meira en venjulegan gaum munum við aldrei berast afleiðis.
Ráðstafanir frá skipulagi Jehóva okkur til hjálpar
19. Hvernig lýsir frásagan af Eþíópíumanninum þörf okkar fyrir andlega leiðsögn?
19 Nám er erfið vinna. Við getum þess vegna verið þakklát fyrir að skipulag Jehóva skuli leggja okkur lið á marga vegu. Á síðustu árum hafa sumir haldið því fram að hver og einn ætti að fá að túlka Biblíuna út af fyrir sig. En eþíópski hirðmaðurinn hugsaði öðruvísi. Hann viðurkenndi opinskátt að hann þyrfti að fá andlega leiðsögn. Sem umskorinn trúskiptingur hafði hann vafalaust töluverða þekkingu á Biblíunni. Sú staðreynd að hann skyldi reyna að nema jafndjúptækt efni og spádóminn í 53. kafla Jesajabókar gefur það til kynna. En þegar hann var spurður hvort hann skildi það sem hann væri að lesa játaði hann: „Hvernig ætti ég að geta það, ef enginn leiðbeinir mér?“ — Postulasagan 8:26-33.
20. (a) Nefndu nokkrar af ráðstöfunum skipulags Jehóva til að hjálpa okkur við einkanám í Biblíunni? (b) Hvað finnst þér um þessar ráðstafanir?
20 Þjónar Jehóva nú á dögum þarfnast leiðsagnar með sama hætti. Þeir þrá að ‚vera samhuga‘ í andlegum málum og taka tveim höndum þeirri hjálp sem skipulag Jehóva býður fram — og sú hjálp er ekki lítil! (1. Korintubréf 1:10) Við höfum stöðugan upplýsingastraum í tímaritunum Varðturninum og Vaknið! Við höfum fjölda bóka og bæklinga sem spanna yfir breitt svið biblíulegra málefna. Margir geta notfært sér efnisskrá Varðturnsfélagsins, Watchtower Publications Index 1930-1985, en hún er verkfæri sem getur hjálpað fólki að ‚leita að visku eins og að silfri og fólgnum fjársjóðum.‘ — Orðskviðirnir 2:2-4.
21. (a) Hvernig lét Páll postuli í ljós áhuga á einkanámi? (b) Með hvaða hætti er hægt að greiða fyrir einkanámi sínu?
21 Notar þú þér rit Félagsins til fullnustu við nám og rannsóknir eða gegna þau litlu öðru hlutverki en að vera hilluskreyting? Athyglisvert er að Páll bað Tímóteus einu sinni að ‚færa sér bækurnar, einkanlega skinnbækurnar,‘ til Rómar. Páll mun hér hafa átt við hluta af Hebresku ritningunum. (2. Tímóteusarbréf 4:13) Vafalaust vildi hann hafa þær við hendina til þess að auðvelda sér nám og rannsóknir. Ef þú hefur ekki nú þegar komið þér upp safni guðræðislegra rita, til þess að þú getir líka stundað rannsóknir, væri ráð að byrja á því nú þegar. Hafðu þessar bækur við hendina, snyrtilegar, hreinar og í skipulegri röð. Finndu þér hljóðlátan og bjartan stað þar sem þú getur numið. Hafðu fastan tíma á stundaskrá þinni til einkanáms.
22. Hvers vegna er þýðingarmeira en nokkru sinni fyrr að ‚hugfesta orð Guðs‘?
22 Líkt og Ísraelsmenn á Móabsvöllum stöndum við á þröskuldi nýs heims. Við þurfum, meira en nokkru sinni fyrr, að nema orð Guðs ötullega og ‚nota hverja stundina‘ til náms, ef til vill að fórna öðrum áhugamálum, svo sem því að horfa á sjónvarpið. (Efesusbréfið 5:16) „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk,“ áminnir Pétur, „til þess að þér af henni getið dafnað,“ ekki aðeins til þroska, heldur „til hjálpræðis.“ (1. Pétursbréf 2:2; samanber Hebreabréfið 5:12-14.) Líf okkar er í húfi. Spornaðu því gegn sérhverri tilhneigingu til að slaka á í einkanámi þínu. Notaðu það sem leið til að dýpka kærleika þinn til Guðs og traust til hans og læra að meta betur að verðleikum það skipulag sem hann notar okkur til stuðnings. Já, ‚hugfestu‘ orð Guðs; vertu iðinn við það og gerðu það reglulega. „Því að það er ekkert hégómamál fyrir yður, heldur er það líf yðar.“
[Neðanmáls]
a Á tímum Biblíunnar var algengt að nota leirtöflubrot sem ódýr skrifföng. The International Standard Bible Encyclopedia (1986) segir: „Jafnvel fátækustu stéttir, sem ekki höfðu efni á öðru til að skrifa á, gátu notað leirtöflubrot.“ Ekki er vitað í hvaða mæli Ísraelsmenn til forna notuðu leirtöflubrot til að hripa niður ritningartexta. Athyglisvert er þó að fundist hafa í Egyptalandi leirtöflubrot frá sjöundu öld okkar tímatals með ritningartextum, sem bendir til að almenningur hafi meðfram þannig haft aðgang að hlutum Biblíunnur.
Upprifun
◻ Hvers vegna hvatti Móse Ísraelsmenn til að ‚hugfesta orð Guðs‘ og hvernig áttu þeir að gera það?
◻ Hvernig styrkir einkanám samband okkar við Guð og hjálpar okkur að verja trúna?
◻ Hvaða hlutverki gegnir einkanám í því að forða okkur frá snörum Satans?
◻ Hvaða ráðstafanir hefur skipulag Jehóva gert til að auðvelda okkur nám í orði Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Í stað þess að skrifa lögmál Guðs á hjörtu sín báru Gyðingar litlar öskjur sem innihéldu ritningarstaði.