Gagnleg kennsla á okkar örðugu tímum
„Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. . . . Vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 13.
1, 2. Af hverju ætti það að vera okkur áhugamál hvaða kenningum við fylgjum?
ER VERIÐ að hjálpa þér eða er verið að skaða þig? Er verið að leysa vandamál þín eða er verið að gera þau verri? Með hverju? Með kennslu og kenningum. Já, kenningar geta haft mikil áhrif á líf þitt til ills eða góðs.
2 Þrír aðstoðarprófessorar rannsökuðu þetta nýverið og birtu niðurstöður sínar í tímaritinu Journal for the Scientific Study of Religion. Að vísu hafa þeir sjálfsagt ekki rannsakað stöðu mála hjá þér eða fjölskyldu þinni, en niðurstöður þeirra sýna tengslin milli kenninga og velgengni einstaklingsins eða ófara í að kljást við okkar örðugu tíma. Í næstu námsgrein lítum við á það sem þeir uppgötvuðu.
3, 4. Hvað ber því meðal annars vitni að við lifum á örðugum tímum?
3 En íhugum fyrst eftirfarandi spurningu: Ert þú sammála því að við lifum á tímum sem erfitt er að fást við? Ef svo er hlýtur þú að sjá sannanirnar fyrir því að þetta séu örðugir tímar. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Áhrifin, sem fólk verður fyrir, eru breytileg. Þú veist til dæmis um lönd þar sem skálmöld ríkir á þessari stundu þar sem klofningshópar berjast um pólitísk yfirráð. Annars staðar stafa drápin af trúar- og þjóðerniságreiningi. Og það eru ekki bara hermenn sem særast. Hugsaðu þér þær óteljandi konur og stúlkur sem hafa verið svívirtar og misþyrmt, og aldraða sem hafa verið sviptir mat, hita og húsaskjóli. Óteljandi fjöldi manna líður miklar þjáningar. Afleiðingarnar eru holskeflur flóttamanna og mörg bágindi sem tengjast því.
4 Okkar tímar einkennast einnig af efnahagserfiðleikum sem leiða af sér atvinnuleysi, lokun verksmiðja, bóta-, lífeyris- og atvinnumissi, dvínandi verðmæti gjaldmiðils og smærri eða færri máltíðir. Getur þú bætt við þennan vandamálalista? Sennilega. Aðrar milljónir manna um heim allan þjást af matvælaskorti og sjúkdómum. Orð fá ekki lýst þeim hryllilegu ljósmyndum sem við höfum séð frá Austur-Afríku — af skinhoruðum körlum, konum og börnum. Milljónir manna í Asíulöndum búa við svipuð kjör.
5, 6. Hvers vegna er hægt að segja að sjúkdómar séu einnig áberandi einkenni á okkar örðugu tímum?
5 Við höfum öll heyrt að ógnvekjandi sjúkdómar færist í aukana. Dagblaðið The New York Times sagði hinn 25. janúar 1993: „Alnæmisfaraldurinn í Rómönsku Ameríku, sem þrífst vel innan um lauslæti, hræsni og handahófskenndar varnaraðgerðir, er á góðri leið með að fara fram úr faraldrinum í Bandaríkjunum . . . Þessa aukningu má að verulegu leyti rekja til tíðari sýkinga meðal . . . kvenna.“ Í október árið 1992 sagði fréttatímaritið U.S.News & World Report: „Það eru bara tveir áratugir síðan bandaríski landlæknirinn fagnaði einhverjum mesta sigri í heilbrigðismálum og tilkynnti að nú væri kominn tími til að ‚hætta að gera sér áhyggjur af smitsjúkdómum.‘“ En hvernig er ástandið núna? Fréttin heldur áfram: „Spítalarnir eru nú aftur að yfirfyllast af fórnarlömbum plága sem átti að vera búið að sigrast á. . . . Örverur eru að þróa sífellt snjallari erfðahertækni þannig að þær geta verið skrefinu á undan þróun nýrra fúkalyfja. . . . ‚Nýtt tímaskeið smitsjúkdóma er að hefjast.‘“
6 Nefnum eitt dæmi. Newsweek sagði svo frá þann 11. janúar 1993: „Talið er að 270 milljónir manna sýkist árlega af sníkjudýrum sem valda malaríu og drepi allt að 2 milljónir . . . og valda bráðum veikindum hjá að minnsta kosti 100 milljónum manna. . . . Samtímis er sjúkdómurinn að verða þolnari fyrir lyfjum sem áður læknuðu hann. . . . Sum afbrigði gætu bráðlega orðið ólæknanleg.“ Það setur að manni hroll.
7. Hvernig bregðast margir við hinum erfiðu tímum núna?
7 Þú hefur kannski tekið eftir að margir eru að leita hjálpar til að leysa vandamál sín á þessum örðugu tímum. Hugsaðu til dæmis um þá sem grípa til bóka um hvernig takast megi á við streitu eða einhvern nýjan sjúkdóm. Aðrir leita í örvæntingu ráða vegna hjónabands sem er að bresta, barnauppeldis, áfengis- eða fíkniefnavandamála, eða um það hvernig finna megi jafnvægið milli þeirra krafna sem vinnan gerir til þeirra og þess álags sem þeir finna fyrir heima hjá sér. Já, þeir þarfnast sannarlega hjálpar! Átt þú í baráttu við eitthvert persónulegt vandamál eða þekkir af eigin raun einhverja þeirra erfiðleika sem fylgja stríði, hungursneyð eða náttúruhamförum? Jafnvel þótt aðkallandi vandamál virðist óleysanleg hefur þú tilefni til að spyrja: ‚Hvers vegna er ástandið orðið svona erfitt?‘
8. Hvers vegna ættum við að leita að innsýn og leiðsögn í Biblíunni?
8 Áður en við getum tekist á við vandann með góðum árangri og notið lífsfyllingar núna og í framtíðinni þurfum við að vita hvers vegna slíkir örðugir tímar blasa við okkur. Og, hreinskilnislega sagt, það þýðir að hvert og eitt okkar ætti að taka Biblíuna til athugunar. Hvers vegna bendum við á Biblíuna? Vegna þess að hún ein inniheldur nákvæma spádóma, sögu ritaða fyrirfram, sem getur sýnt okkur hverjar séu ástæðurnar fyrir slæmum kringumstæðum okkar, hvar við stöndum og hvert við stefnum.
Söguleg lexía
9, 10. Hvernig uppfylltist spádómur Jesú í 24. kafla Matteusar á fyrstu öldinni?
9 Varðturninn frá 1. júlí 1994 kom með athyglisverða upprifjun á hinum lifandi spádómi Jesú í Matteusi 24. kafla. Ef þú flettir upp á þeim kafla í biblíunni þinni getur þú séð í 3. versi að postular Jesú spurðu um tákn nærveru hans í framtíðinni og um endalok heimskerfisins. Í 5. til 14. versi sagði Jesús fyrir að koma myndu falskristar, stríð, matvælaskortur, ofsóknir á hendur kristnum mönnum, lögleysi og umfangsmikil prédikun um Guðsríki.
10 Sagan sannar að einmitt þessir atburðir áttu sér stað við endalok gyðingakerfisins. Ef þú hefðir verið upp á þeim tíma hefðu þér vafalaust þótt það erfiðir tímar. En það stefndi í hámark, í fordæmislausa þrengingu yfir Jerúsalem og gyðingakerfinu. Í versi 15 er byrjað að segja frá því sem fór að gerast eftir að Rómverjar höfðu ráðist á Jerúsalem árið 66. Það náði hámarki í þrengingunni sem Jesús nefndi í versi 21 — eyðingu Jerúsalem árið 70, verstu þrengingu sem komið hafði yfir borgina. En þú veist að sagan lét ekki staðar numið þar og Jesús sagði ekki heldur að hún myndi gera það. Í versi 23 til 28 sýndi hann að eftir þrengingu ársins 70 ætti ýmislegt annað eftir að gerast.
11. Á hvaða hátt tengist uppfylling 24. kafla Matteusar okkar tímum?
11 Sumir nú á tímum yppa kannski öxlum þegar minnst er á slík dæmi úr fortíðinni og spyrja: ‚Og hvað með það?‘ En það væru mistök. Uppfylling spádómsins á þeim tíma er afskaplega þýðingarmikil. Hvers vegna? Vegna þess að styrjaldirnar, hungrið, jarðskjálftarnir, drepsóttirnar og ofsóknirnar við endalok gyðingakerfisins áttu að endurspeglast í meiri uppfyllingu eftir að ‚tímum heiðingjanna‘ lyki árið 1914. (Lúkas 21:24) Margir eru enn á lífi sem voru sjónarvottar að fyrri heimsstyrjöldinni þegar þessi nútímauppfylling hófst. Jafnvel þótt þú sért fæddur eftir 1914 hefur þú orðið vitni að því að spádómur Jesú hefur uppfyllst síðan þá. Atburðir tuttugustu aldarinnar sanna svo ekki verður um villst að við lifum á endalokatíma hins núverandi illa heimskerfis.
12. Hvað getum við enn þá átt von á að sjá samkvæmt orðum Jesú?
12 Þetta þýðir að ‚þrengingin mikla‘ í versi 29 er framundan. Hún mun fela í sér fyrirbæri á himni sem kann að vera erfitt að gera sér í hugarlund. Vers 30 sýnir að fólk mun þá sjá annað tákn — tákn sem sannar að eyðingin er fyrir höndum. Samkvæmt hliðstæðri frásögn í Lúkasi 21:25-28 munu menn á þeim tíma „gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ Frásögn Lúkasar segir einnig að kristnir menn muni þá lyfta upp höfðum sínum vegna þess að lausn þeirra verði mjög nálæg.
13. Hvaða tvö aðalatriði verðskulda athygli okkar?
13 ‚Þetta er allt gott og blessað,‘ segir þú kannski, ‚en ég hélt að ætlunin væri að fjalla um það hvernig ég geti skilið og horfst í augu við okkar erfiðu tíma.‘ Það er alveg rétt. Fyrsta aðalatriði okkar er að koma auga á helstu vandamálin og sjá hvernig við getum forðast þau. Annað atriðið er tengt því, en það er hvernig kenningar Biblíunnar geti hjálpað okkar að njóta betra lífs núna. Í því sambandi skaltu opna biblíuna þína í 2. Tímóteusarbréfi 3. kafla þar sem er að finna spádóm sem getur hjálpað okkur að takast á við þá erfiðu tíma sem blasa við okkur.
Spádómur um okkar tíma
14. Hvers vegna er ástæða til að ætla að við getum haft gagn af að hugleiða 2. Tímóteusarbréf 3:1-5?
14 Guð innblés Páli postula að skrifa hinum trygglynda kristna manni Tímóteusi og gefa honum fjölmörg góð ráð sem hjálpuðu honum að lifa farsælla og hamingjuríkara lífi. Hluti af því sem Páll skrifaði átti eftir að eiga fyrst og fremst við okkar daga. Jafnvel þótt þú teljir þig þekkja þessi spádómsorð ágætlega skaltu fylgjast vel með í 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5. Páll skrifaði: „Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar.“
15. Af hverju ættum við að hafa sérstakan áhuga á 2. Tímóteusarbréfi 3:1 núna?
15 Taktu eftir að hér voru talin upp 19 atriði. Áður en við skoðum þau og verðum í aðstöðu til að njóta góðs af þeim skulum við fá heildaryfirlit yfir spádóminn. Lítum á 1. versið. Páll sagði: „Á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.“ Hvaða „síðustu dögum“? Þeir hafa verið fjölmargir, allt frá síðustu dögum Pompeii til forna til síðustu daga konungs eða konungsættar. Biblían nefnir jafnvel margs konar síðustu daga, svo sem síðustu daga gyðingakerfisins. (Postulasagan 2:16, 17) En Jesús lagði grunninn að því að við gætum skilið nákvæmlega hvaða síðustu daga Páll átti við hér.
16. Hvaða ástand á okkar tímum sagði dæmisagan um hveitið og illgresið fyrir?
16 Það gerði Jesús í dæmisögu um hveiti og illgresi. Hvoru tveggja var sáð í akur og látið vaxa. Hann sagði að hveitið og illgresið táknaði fólk — sannkristna menn og falskristna. Við nefnum þessa dæmisögu vegna þess að hún sýnir fram á að langur tími átti að líða áður en kæmi að endalokatíma alls hins illa heimskerfis. Þegar sá endalokatími kæmi átti eitthvað að vera í fullum blóma. Hvað? Fráhvarf frá sannri kristni sem myndi leiða af sér stóruppskeru alls konar illsku. Aðrir biblíuspádómar staðfesta að þetta ætti að eiga sér stað á síðustu dögum hins illa heimskerfis. Það er þar sem við stöndum nú á dögum, á endalokatíma heimskerfisins. — Matteus 13:24-30, 36-43.
17. Hvaða hliðstæðar upplýsingar veitir 2. Tímóteusarbréf 3:1-5 um endalok þessa heimskerfis?
17 Kemur þú auga á þýðingu þessa? Síðara Tímóteusarbréf 3:1-5 gefur okkur hliðstæða vísbendingu um að á endalokatíma heimskerfisins, eða hinum síðustu dögum, yrði ávöxturinn alls staðar umhverfis kristna menn slæmur. Páll var ekki að segja að þessi 19 atriði, sem hann taldi upp, yrðu aðalsönnunin fyrir því að hinir síðustu dagar væru runnir upp. Hann var öllu heldur að vara við því sem menn myndu eiga í höggi við á síðustu dögum. Vers 1 talar um „örðugar tíðir.“ Þetta orðalag er komið úr grísku og merkir bókstaflega „tilteknir tímar grimmir.“ (Kingdom Interlinear) Ert þú ekki sammála því að orðið „grimmur“ lýsi vel því sem við stöndum frammi fyrir nú á dögum? Þessi innblásni boðskapur heldur áfram að veita innsýn frá Guði í þá tíma sem við lifum.
18. Á hvað ættum við einkum að einblína þegar við rannsökum spádómsorð Páls?
18 Áhugi okkar á þessum spádómi ætti að gera okkur kleift að greina hörmuleg dæmi um það hve erfiðir eða grimmir okkar tímar séu. Munum eftir aðalatriðunum tveim: (1) að koma auga á þau vandamál sem gera tímana svona erfiða og sjá hvernig við getum forðast þau og (2) að fylgja kenningum sem eru í alvöru raunhæfar og geta hjálpað okkur að njóta betri tilveru. Í stað þess að leggja áherslu á hið neikvæða beinum við athyglinni að kenningum sem geta hjálpað okkur og fjölskyldum okkar núna á þessum ‚örðugu tímum.‘
Hafðu sem mest gagn af
19. Hvað hefur þú séð sem ber þess vitni að mennirnir séu sérgóðir?
19 Páll hefur upptalninguna á því að spá að á síðustu dögum muni „mennirnir verða sérgóðir.“ Hvað átti hann við? Þú hefur alveg rétt fyrir þér ef þú segir að gegnum alla mannkynssöguna hafi alltaf verið til sjálfbirgingslegir, síngjarnir karlar og konur. Enginn vafi leikur þó á því að þessi galli er óvenjualgengur núna. Og hann fer út í öfgar hjá mörgum. Hann er næstum viðtekin hegðunarregla í heimi stjórnmála og viðskipta. Karlar og konur keppa eftir frægð og frama hvað sem það kostar. Yfirleitt lendir þessi kostnaður á öðrum, því að þessir sérgóðu menn gera sér litlar áhyggjur af því hvernig þeir gera öðrum illt. Þeir eru fljótir til að lögsækja eða svindla á öðrum. Þessi tilhneiging er svo áberandi að margir kalla þetta „ég-kynslóðina.“ Það er fullt af ráðríku og hégómlegu fólki sem er upptekið af sjálfu sér.
20. Hvernig ganga ráðleggingar Biblíunnar í berhögg við hinn síngjarna anda sem er svo ríkjandi?
20 Óþarfi er að minna okkur á bitra reynslu sem við höfum ef til vill orðið fyrir í samskiptum við ‚sérgóða‘ einstaklinga. Það er þó staðreynd að Biblían hjálpar okkur með því að benda hreinskilnislega á þetta vandamál, því hún kennir okkur hvernig forðast megi þessa gildru. Þetta er það sem hún segir: „Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður. Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ ‚Hugsið ekki hærra um ykkur en hugsa ber, heldur í réttu hófi.‘ Þessi afbragðsgóðu ráð er að finna í Filippíbréfinu 2:3, 4 og Rómverjabréfinu 12:3.
21, 22. (a) Hvaða víðtækan vitnisburð má finna um að slíkar leiðbeiningar geti reynst gagnlegar nú á tímum? (b) Hvaða áhrif hafa leiðbeiningar Guðs haft á venjulega einstaklinga?
21 Einhver andmælir kannski: ‚Þetta hljómar vel en það er ekki raunhæft.‘ Ó, jú, það er það. Það getur verkað og það gerir það hjá eðlilegu fólki nú til dags. Árið 1990 birti útgáfufyrirtæki Oxfordháskóla rit sem hét The Social Dimensions of Sectarianism. Áttundi kaflinn hét „Vottar Jehóva í kaþólsku landi,“ og hann lýsti rannsókn sem gerð hafði verið í Belgíu. Við lesum: „Ef við beinum athyglinni að hinu jákvæða aðdráttarafli þess að gerast vottur, auk aðdráttarafls ‚sannleikans‘ sjálfs, bentu þeir sem svöruðu stundum aftur á fleiri en eitt einkenni. . . . Hlýja, vingjarnleiki, kærleikur og eining voru oftast nefnd, en heiðarleiki og persónuleg framkoma í því að ‚lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar‘ voru einnig eiginleikar sem voru vottunum kærir.“
22 Við gætum líkt þessu yfirliti við ljósmynd sem tekin er með gleiðlinsu; ef þú notaðir í staðinn súmlinsu eða aðdráttarlinsu gætir þú séð mörg raunsönn dæmi í nærmynd. Meðal annars sæir þú menn sem voru hrokafullir, ráðríkir eða freklega eigingjarnir en eru núna mildari, eru orðnir eiginmenn og feður sem sýna konu sinni, börnum og öðrum meiri hlýju og vinsemd en áður. Einnig mætti sjá konur sem voru stjórnsamar eða harðneskjulegar en hjálpa nú öðrum að læra að lifa í samræmi við sanna kristni. Slík dæmi má finna í hundruðþúsundatali. En segðu nú eins og er: Myndi þér ekki líða miklu betur í návist slíks fólks en vera alltaf í návígi við konur og karla sem elska sjálfa sig fyrst og fremst? Myndi þér ekki þykja auðveldara þá að takast á við okkar örðugu tíma? Myndi það að fara eftir slíkum kenningum Biblíunnar þá ekki gera þig hamingjusamari?
23. Hvers vegna er það þess virði að kanna 2. Tímóteusarbréf 3:2-5 nánar?
23 Við höfum þó aðeins fjallað um fyrsta atriðið í þeirri upptalningu Páls sem skráð er í 2. Tímóteusarbréfi 3:2-5. Hvað um hin? Mun vandleg athugun þín á þeim einnig hjálpa þér að bera kennsl á aðalvandamál okkar tíma til þess að forðast þau og vera fær um að skilja hvaða lífsstefna færi þér og ástvinum þínum mesta hamingju? Greinin hér á eftir hjálpar þér að svara þessum spurningum og öðlast ríkulega blessun.
Til upprifjunar
◻ Hvað ber því meðal annars vitni að við lifum á örðugum tímum?
◻ Hvers vegna getum við verið viss um að við lifum á hinum síðustu dögum?
◻ Hvaða tvö aðalatriði getum við komið auga á frá könnun okkar á 2. Tímóteusarbréfi 3:1-5?
◻ Hvernig hafa kenningar Biblíunnar hjálpað fólki Jehóva á þessum tímum þegar svona margir eru síngjarnir?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 18]
Mynd efst til vinstri: Andy Hernandez/Sipa Press; mynd neðst til hægri: Jose Nicolas/Sipa Press