Höfum andstyggð á hinu vonda
JEHÓVA er heilagur Guð. Til forna var hann ‚Hinn heilagi í Ísrael‘ og krafðist sem slíkur að Ísrael væri hreinn og flekklaus. (Sálmur 89:19) Hann sagði útvalinni þjóð sinni: „Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur.“ (3. Mósebók 11:45) Sá sem vildi „stíga upp á fjall [Jehóva]“ varð að hafa „óflekkaðar hendur og hreint hjarta.“ (Sálmur 24:3, 4) Það var meira en aðeins að forðast syndsamleg verk. Það fól í sér að „hata hið illa.“ — Orðskviðirnir 8:13.
Í kærleika sínum setti Jehóva ítarleg lög til að Ísraelsþjóðin gæti borið kennsl á ranga breytni og forðast hana. (Rómverjabréfið 7:7, 12) Í þessum lögum voru ströng ákvæði um siðferðismál. Hjúskaparbrot, kynvilla, sifjaspell og kynmök við skepnur var allt nefnt sem vanheilög, andleg spilling. (3. Mósebók 18:23; 20:10-17) Þeim sem voru sekir um slíka spillingu var útrýmt úr Ísraelsþjóðinni.
Þegar söfnuður smurðra kristinna manna varð „Ísrael Guðs“ voru honum settar svipaðar siðferðisreglur. (Galatabréfið 6:16) Kristnir menn áttu líka að ‚hafa andstyggð á hinu vonda.‘ (Rómverjabréfið 12:9) Orð Jehóva til Ísraels voru einnig heimfærð á þá: „Verið heilagir, því ég er heilagur.“ (1. Pétursbréf 1:15, 16) Vanheilög verk, svo sem saurlifnaður, hjúskaparbrot, kynvillumök, kynmök við skepnur og sifjaspell, áttu ekki að spilla kristna söfnuðinum. Þeir sem vildu ekki hætta slíku yrðu útilokaðir frá Guðsríki. (Rómverjabréfið 1:26, 27; 2:22; 1. Korintubréf 6:9, 10; Hebreabréfið 13:4) Hið sama gildir um hina „aðra sauði“ núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1; Jóhannes 10:16) Þar af leiðandi mynda smurðir kristnir menn og hinir aðrir sauðir hreina og heilbrigða þjóð og geta borið nafn Guðs síns og kallast vottar Jehóva. — Jesaja 43:10.
Að halda söfnuðinum hreinum
Heimurinn lætur hins vegar alls konar siðleysi viðgangast. Enda þótt sannkristnir menn séu ólíkir heiminum ættu þeir ekki að gleyma að margir, sem þjóna Jehóva núna, voru einu sinni af heiminum. Margir sáu enga ástæðu til að fullnægja ekki girndum og draumórum hins fallna holds áður en þeir kynntust okkar heilaga Guði, og þeir veltu sér í ‚spillingardíkinu.‘ (1. Pétursbréf 4:4) Eftir að Páll postuli hafði lýst viðurstyggilegum athöfnum spilltra manna í heiminum sagði hann: „Þetta voruð þér, sumir yðar.“ Síðan hélt hann áfram: „En þér létuð laugast, þér eruð helgaðir, þér eruð réttlættir fyrir nafn Drottins Jesú Krists og fyrir anda vors Guðs.“ — 1. Korintubréf 6:11.
Þetta eru hughreystandi orð. Hvað sem maður hefur gert áður fyrr breytist hann þegar hið dýrlega fagnaðarerindi um Krist hefur áhrif á hjarta hans. Hann iðkar trú og vígist Jehóva Guði. Þaðan í frá lifir hann siðferðilega hreinu lífi, hann er hreinþveginn í augum Guðs. (Hebreabréfið 9:14) Þær syndir, sem hann drýgði áður, eru fyrirgefnar og hann getur ‚seilst eftir því sem framundan er.‘a — Filippíbréfið 3:13, 14; Rómverjabréfið 4:7, 8.
Jehóva fyrirgaf Davíð morð og hjúskaparbrot þegar hann iðraðist, og hann fyrirgaf hinum iðrandi Manasse siðlausa skurðgoðadýrkun og miklar blóðsúthellingar. (2. Samúelsbók 12:9, 13; 2. Kroníkubók 33:2-6, 10-13) Við getum verið innilega þakklát fyrir að hann skuli vera reiðubúinn að fyrirgefa okkur líka ef við iðrumst og komum til hans í einlægni og auðmýkt. En þótt Jehóva fyrirgæfi Davíð og Manasse urðu þeir báðir — og Ísrael með þeim — að taka afleiðingum syndugra verka sinna. (2. Samúelsbók 12:11, 12; Jeremía 15:3-5) Enda þótt Jehóva fyrirgefi iðrunarfullum syndurum geta syndir þeirra líka haft ýmsar afleiðingar sem ekki verður undan komist.
Óumflýjanlegar afleiðingar
Maður, sem lifir siðlausu lífi og smitast af alnæmi, tekur kannski við sannleikanum, breytir líferni sínu, vígist og skírist. Nú er hann andlega hreinn kristinn maður og á samband við Guð og dásamlega framtíðarvon, en hann er samt alnæmissmitaður. Sjúkdómurinn getur dregið hann til dauða um síðir sem eru sorglegar en óumflýjanlegar afleiðingar hinnar fyrri breytni. Ýmsar aðrar afleiðingar grófs siðleysis í fortíðinni geta fylgt kristnum mönnum. Til dæmis gætu þeir þurft að berjast í mörg ár eftir skírnina eða jafnvel alla ævi við löngun holdsins til að snúa aftur til fyrra siðleysis. Mörgum tekst að standa gegn lönguninni með hjálp anda Jehóva, en baráttan er engu að síður stöðug. — Galatabréfið 5:16, 17.
Þeir syndga ekki svo lengi sem þeir hafa hemil á löngunum sínum. En það getur verið viturlegt af karlmönnum að ‚sækjast‘ ekki eftir ábyrgð í söfnuðinum meðan þeir eiga enn í baráttu við sterkar, holdlegar kenndir. (1. Tímóteusarbréf 3:1) Af hverju? Af því að þeir vita hvaða traust söfnuðurinn ber til öldunganna. (Jesaja 32:1, 2; Hebreabréfið 13:17) Þeir gera sér ljóst að leitað er til öldunganna með ýmis mjög persónuleg einkamál og þeir þurfa að taka á viðkvæmum málum. Það væri hvorki kærleiksríkt, viturlegt né sanngjarnt að sá sem ætti í stöðugri baráttu við óhreinar, holdlegar langanir sæktist eftir slíkri ábyrgðarstöðu. — Orðskviðirnir 14:16; Jóhannes 15:12, 13; Rómverjabréfið 12:1.
Hjá manni, sem var barnaníðingur áður en hann lét skírast, geta afleiðingarnar verið aðrar. Þegar hann kynnist sannleikanum iðrast hann og snýr við blaðinu og kemur ekki með þessa grimmilegu synd inn í söfnuðinn. Hann tekur síðan góðum framförum og sigrast algerlega á röngum tilhneigingum sínum. Hann finnur jafnvel hvöt hjá sér til að ‚sækjast eftir‘ ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. En hvað nú ef það þarf lengri tíma til að samfélagið gleymi fornum ávirðingum hans sem fyrrverandi barnaníðings? Væri hann þá ‚óaðfinnanlegur . . . og hefði góðan orðstír hjá þeim sem standa fyrir utan‘? (1. Tímóteusarbréf 3:1-7, 10; Títusarbréfið 1:7) Nei. Þess vegna væri hann ekki hæfur til að fara með sérréttindi í söfnuðinum.
Þegar vígður kristinn maður syndgar
Jehóva skilur að við höfum veikleika og að við getum syndgað jafnvel eftir að við skírumst. Jóhannes postuli skrifaði kristnum mönnum samtíðarinnar: „Þetta skrifa ég yður til þess að þér skuluð ekki syndga. En ef einhver syndgar, þá höfum vér árnaðarmann hjá föðurnum, Jesú Krist, hinn réttláta. Hann er friðþæging fyrir syndir vorar og ekki einungis fyrir vorar syndir, heldur líka fyrir syndir alls heimsins.“ (1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Já, vegna fórnar Jesú fyrirgefur Jehóva skírðum kristnum mönnum sem syndga — ef þeir iðrast einlæglega og snúa baki við rangri stefnu sinni.
Við höfum dæmi um þetta í Korintusöfnuðinum á fyrstu öld. Páll postuli frétti af sifjaspelli og saurlifnaði í hinum unga söfnuði og gaf þau fyrirmæli að hinn seki skyldi gerður rækur. Síðar iðraðist syndarinn og Páll hvatti söfnuðinn til að taka hann inn aftur. (1. Korintubréf 5:1, 13; 2. Korintubréf 2:5-9) Lækningamáttur ástríkrar góðvildar Jehóva og hið mikla lausnarvirði fórnar Jesú hreinsaði manninn af synd hans. Hið sama getur gerst nú á dögum. En jafnvel skírður einstaklingur, sem drýgir alvarlega synd en iðrast og öðlast fyrirgefningu Jehóva, getur þurft að takast á við langvarandi afleiðingar syndarinnar. — Orðskviðirnir 10:16, 17; Galatabréfið 6:7.
Vígð stúlka, sem gerist sek um siðleysi, iðrast kannski einlæglega verknaðar síns og endurheimtir síðar andlegt heilbrigði með hjálp safnaðarins. En hvað nú ef siðleysið leiddi til þess að hún varð barnshafandi? Þá er allt líf hennar gerbreytt vegna þess sem hún gerði. Maður, sem fremur hjúskaparbrot, iðrast kannski og er ekki gerður rækur. En saklaus eiginkona hans hefur biblíulega ástæðu til að skilja við hann og getur kosið að gera það. (Matteus 19:9) Ef hún gerir það þarf maðurinn að búa við afleiðingarnar af synd sinni það sem eftir er ævinnar, enda þótt Jehóva fyrirgefi honum. — 1. Jóhannesarbréf 1:9.
Hvað þá um mann sem sýnir það kærleiksleysi að skilja við eiginkonu sína til að giftast annarri? Kannski iðrast hann síðar og er tekinn inn í söfnuðinn aftur. Með árunum tekur hann kannski framförum og ‚sækir fram‘ til þroska. (Hebreabréfið 6:1) En svo lengi sem fyrri eiginkona hans er ógift er hann ekki hæfur til að gegna ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Hann er ekki „einnar konu eiginmaður“ af því að hann hafði ekki biblíulega ástæðu til að skilja við fyrri konu sína. — 1. Tímóteusarbréf 3:2, 12, neðanmáls.
Er þetta ekki ærið tilefni til þess að rækta með sér andstyggð á hinu vonda?
Hvað um barnaníðing?
Hvað þá ef fullorðinn, skírður kristinn maður misnotar barn kynferðislega? Er syndarinn svo vondur að Jehóva fyrirgefi honum aldrei? Svo þarf ekki að vera. Jesús sagði að ‚lastmæli gegn heilögum anda‘ væri ófyrirgefanlegt. Og Páll sagði að það sé enga fórn að fá fyrir syndir þess sem iðkar synd af ásettu ráði þótt hann þekki sannleikann. (Lúkas 12:10; Hebreabréfið 10:26, 27) En Biblían segir hvergi að ekki sé hægt að fyrirgefa fullorðnum kristnum manni sem misnotar barn kynferðislega — hvort sem það flokkast undir sifjaspell eða ekki. Það er hægt að þvo hann hreinan af syndinni ef hann iðrast af öllu hjarta og snýr baki við fyrri breytni. En hann getur engu að síður þurft að berjast við rangar tilhneigingar holdsins sem hann ræktaði með sér. (Efesusbréfið 1:7) Og synd hans getur haft afleiðingar sem hann fær ekki umflúið.
Þar sem landslög kveða svo á getur barnaníðingurinn þurft að sæta fangavist eða annarri refsingu af hálfu ríkisins. Söfnuðurinn verndar hann ekki fyrir því. Auk þess hefur maðurinn sýnt af sér alvarlegan veikleika sem þarf að taka mið af þaðan í frá. Ef hann virðist iðrunarfullur er hann hvattur til að taka andlegum framförum, taka þátt í boðunarstarfinu og jafnvel hafa verkefni í Guðveldisskólanum og taka þátt í sýnikennslu eða segja frásögur á þjónustusamkomum. En það merkir ekki að hann sé hæfur til að fara með ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Hvaða biblíulegar ástæður eru fyrir því?
Ein ástæðan er sú að öldungur þarf að hafa „stjórn á sjálfum sér.“ (Títusarbréfið 1:8) Ekkert okkar hefur að vísu fullkomna sjálfstjórn. (Rómverjabréfið 7:21-25) En fullorðinn, vígður kristinn maður, sem fremur þá synd að misnota barn kynferðislega, sýnir af sér óeðlilegan, holdlegan veikleika. Reynslan hefur sýnt að slíkur maður getur átt til að misnota önnur börn. Að vísu endurtaka ekki allir barnaníðingar synd sína en margir gera það. Og söfnuðurinn getur ekki séð inn í hjartað til að kanna hver sé líklegur til að misnota börn aftur og hver ekki. (Jeremía 17:9) Þess vegna hafa ráðleggingar Páls til Tímóteusar sérstaka áherslu í sambandi við fullorðna, skírða menn sem hafa misnotað börn kynferðislega: „Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum.“ (1. Tímóteusarbréf 5:22) Maður, sem er vitað að var barnaníðingur, er ekki hæfur til að gegna ábyrgðarstöðu í söfnuðinum. Það er börnum okkar til verndar. Hann getur hvorki verið brautryðjandi né þjónað í nokkurri sérstakri grein í fullu starfi. — Samanber meginregluna í 2. Mósebók 21:28, 29.
Sumum er kannski spurn hvort menn hafi ekki framið annars konar syndir og virst iðrast en svo endurtekið syndina síðar. Það hefur vissulega gerst en það þarf að taka fleira með í reikninginn. Ef maður er með siðlausar umleitanir við fullvaxta konu ætti hún að geta staðið á móti honum. Hins vegar er miklu auðveldara að blekkja börn, rugla þau eða ógna þeim. Biblían talar um að börn skorti visku. (Orðskviðirnir 22:15; 1. Korintubréf 13:11) Jesús tók börn sem dæmi um auðmýkt og sakleysi. (Matteus 18:4; Lúkas 18:16, 17) Sakleysi barnsins helst í hendur við algert reynsluleysi þess. Börn eru að jafnaði opinská og vilja gera fólki til geðs, þannig að þau eru auðveld bráð slóttugs, fullorðins fólks sem þau þekkja og treysta. Þess vegna hvílir sú ábyrgð á söfnuðinum frammi fyrir Jehóva að vernda börnin sín.
Vel uppalin börn læra að hlýða og heiðra foreldra sína, öldungana og aðra fullorðna. (Efesusbréfið 6:1, 2; 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2; Hebreabréfið 13:7) Það væri herfileg óhæfa ef einhver þeirra misnotaði sér sakleysi og traust barns til að tæla það eða neyða til kynferðislegra athafna. Þeir sem hafa sætt þess konar kynferðisofbeldi eiga oft í áralangri baráttu við að sigrast á því tilfinningatjóni sem af hlýst. Barnaníðingur þarf því að sæta þungum aga og hömlum af hálfu safnaðarins. Staða í söfnuðinum ætti ekki að vera áhyggjuefni heldur frekar flekklaus hreinleiki safnaðarins. — 1. Korintubréf 5:6; 2. Pétursbréf 3:14.
Ef barnaníðingur iðrast í einlægni viðurkennir hann viskuna í því að fara eftir meginreglum Biblíunnar. Ef hann hefur andstyggð á hinu vonda fyrirlítur hann það sem hann gerði og streitist við að endurtaka ekki synd sína. (Orðskviðirnir 8:13; Rómverjabréfið 12:9) Og hann þakkar Jehóva örugglega fyrir hinn mikla kærleika hans sem veldur því að iðrunarfullur syndari eins og hann getur eftir sem áður tilbeðið heilagan Guð okkar og vonast til að vera meðal ‚hinna hreinskilnu‘ sem byggja jörðina að eilífu. — Orðskviðirnir 2:21.
[Neðanmáls]
a Sjá „Spurningar frá lesendum“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. maí 1996.