Unglingar — Jehóva gleymir ekki verki ykkar
„Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ — HEBREABRÉFIÐ 6:10.
1. Hvernig sýna Hebreabréfið og Malakíbók að Jehóva kunni að meta þjónustu þína?
HEFURÐU einhvern tíma gert eitthvað fallegt fyrir vin þinn en ekki verið þakkað fyrir? Það getur verið mjög sárt þegar góðverki er tekið sem sjálfsögðum hlut eða, það sem verra er, það gleymist algerlega. En þannig er því ekki farið með heilshugar þjónustu okkar við Jehóva. Biblían segir: „Guð er ekki ranglátur. Hann gleymir ekki verki yðar og kærleikanum, sem þér auðsýnduð nafni hans, er þér veittuð hinum heilögu þjónustu og veitið enn.“ (Hebreabréfið 6:10) Hugsaðu um hvað þetta þýðir. Jehóva áliti það hreint ranglæti — synd — af sinni hálfu ef hann myndi gleyma því sem þú hefur gert og heldur áfram að gera í þjónustu hans. Hann er sannarlega þakklátur Guð. — Malakí 3:10.
2. Af hverju er það svona einstakt að þjóna Jehóva?
2 Þú hefur einstakt tækifæri til að tilbiðja þennan þakkláta Guð og þjóna honum. Sérréttindi þín eru óneitanlega sjaldgæf ef hugsað er til þess að tilbiðjendur Jehóva eru ekki nema sex milljónir í samanburði við sex milljarða jarðarbúa. Og sú staðreynd að þú hlustar á fagnaðarerindið og vinnur í samræmi við það sannar að Jehóva hefur áhuga á þér sem einstaklingi. „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann,“ sagði Jesús. (Jóhannes 6:44) Já, Jehóva hjálpar hverjum og einum að njóta góðs af lausnarfórn Jesú Krists.
Að sýna þakklæti fyrir stórkostleg sérréttindi þín
3. Hvernig létu synir Kóra í ljós þakklæti sitt fyrir þau sérréttindi að þjóna Jehóva?
3 Þú hefur sérstakt tækifæri til að gleðja hjarta Jehóva eins og fjallað var um í greininni á undan. (Orðskviðirnir 27:11) Þú ættir aldrei að líta á það sem sjálfsagðan hlut. Í einum af sálmunum létu synir Kóra í ljós þakklæti sitt fyrir þau sérréttindi að þjóna Jehóva. Þar segir: „Einn dagur í forgörðum þínum er betri en þúsund aðrir, heldur vil ég standa við þröskuldinn í húsi Guðs míns en dvelja í tjöldum óguðlegra.“ — Sálmur 84:11.
4. (a) Hvers vegna gæti sumum fundist þjónustan við Jehóva setja sér skorður? (b) Á hvaða hátt sýnir Jehóva að hann tekur eftir þjónum sínum og umbunar þeim?
4 Lítur þú svona á þau sérréttindi að mega þjóna himneskum föður þínum? Kannski finnst þér stundum að tilbeiðslan á Jehóva setji frelsi þínu skorður. Við þurfum vissulega að fórna ýmsu til að lifa í samræmi við meginreglur Biblíunnar. En þegar allt kemur til alls er þér fyrir bestu að gera það sem Jehóva biður þig um. (Sálmur 1:1-3) Jehóva sér auk þess hvað þú leggur á þig og lætur í ljós þakklæti sitt fyrir trúfesti þína. Páll sagði að Jehóva „umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Jehóva leitar að tækifærum til að umbuna þér. Réttlátur spámaður í Forn-Ísrael sagði: „Augu Drottins hvarfla um alla jörðina, til þess að hann megi sýna sig máttkan þeim til hjálpar, sem eru heils hugar við hann.“ — 2. Kroníkubók 16:9.
5. (a) Hver er ein besta leiðin til að sýna að þú sért heilshugar við Jehóva? (b) Hvers vegna gæti virst erfitt að tala við aðra um trúna?
5 Eitt af því besta sem þú getur gert til að sýna að þú sért heilshugar við Jehóva er að tala um hann við aðra. Hefurðu einhvern tíma haft tækifæri til að tala við skólafélagana um trú þína? Kannski óar þig við því í fyrstu og tilhugsunin ein saman getur vakið upp hræðslu. ,Hvað ef þau hlæja að mér eða finnst trú mín skrýtin?‘ spyrðu ef til vill. Jesús sagði að það myndu ekki allir hlusta á boðskapinn um ríkið. (Jóhannes 15:20) En þetta merkir ekki að líf þitt þurfi að einkennast af eintómri höfnun og háði. Margir unglingar meðal votta Jehóva hafa fundið einstaklinga sem vilja hlusta og þeir hafa jafnvel öðlast meiri virðingu jafnaldra sinna fyrir það að svara fyrir sannfæringu sína.
„Jehóva hjálpar þér“
6, 7. (a) Hvernig gat 17 ára stelpa vitnað fyrir bekkjarfélögum sínum? (b) Hvað lærðir þú af reynslu Jennifer?
6 En hvernig geturðu safnað nægum kjarki til að tala um trú þína? Hvers vegna einseturðu þér ekki að vera hreinskilinn og blátt áfram þegar þú færð spurningar um trúna? Tökum Jennifer sem dæmi en hún er 17 ára. Hún segir: „Ég var í hádegismat í skólanum og það vildi svo til að stelpurnar við borðið mitt voru að ræða um trúmál. Ein af stelpunum spurði mig í hvaða trúfélagi ég væri.“ Fannst Jennifer erfitt að svara? Hún viðurkennir: „Já, vegna þess að ég var ekki viss um hvaða viðbrögð ég fengi.“ Hvað gerði hún? „Ég sagði stelpunum að ég væri vottur Jehóva,“ heldur hún áfram. „Þær virtust undrandi í fyrstu. Þær héldu greinilega að vottar Jehóva væru skrýtið fólk. Þær fóru að spyrja mig spurninga og ég gat leiðrétt ýmsar ranghugmyndir sem þær höfðu. Sumar stelpurnar spurðu mig stundum spurninga jafnvel eftir þetta.“
7 Sá Jennifer eftir því að hafa notað tækifærið til að tala um trú sína? Alls ekki. „Ég var mjög ánægð eftir hádegishléið,“ segir hún. „Núna hafa þessar stelpur betri hugmynd um það hverjir Vottar Jehóva eru í raun og veru.“ Ráðlegging hennar er einföld: „Ef þér finnst erfitt að vitna fyrir bekkjarfélögum skaltu fara með stutta bæn. Jehóva hjálpar þér. Maður verður ánægður að hafa notað tækifærið vel með því að vitna um trúna.“ — 1. Pétursbréf 3:15.
8. (a) Hvernig hjálpaði bænin Nehemía við óvæntar aðstæður? (b) Hvaða aðstæður gætu komið upp í skólanum þar sem þú gætir þurft að fara með stutta bæn til Jehóva í hljóði?
8 Taktu eftir þeirri ráðleggingu Jennifer að „fara með stutta bæn“ til Jehóva þegar þú færð tækifæri til að vitna um trúna. Þetta er einmitt það sem Nehemía, byrlari Artahasasta Persakonungs, gerði þegar hann stóð frammi fyrir óvæntum aðstæðum. Nehemía var auðsjáanlega niðurdreginn þar sem hann hafði heyrt um bágindi Gyðinganna og að múrar Jerúsalem væru brotnir. Konungurinn sá að Nehemía var áhyggjufullur og spurði því hvað amaði að. Áður en Nehemía svaraði lagði hann málið fyrir Jehóva í bæn. Eftir það bað hann hugrakkur um leyfi til að fara til Jerúsalem og endurreisa hana. Artahasasta veitti honum fararleyfi. (Nehemíabók 2:1-8) Hver er lærdómurinn af þessari frásögu? Ef þér finnst erfitt að vitna um trúna þegar tækifæri gefst skaltu ekki hika við að biðja til Jehóva í hljóði. Pétur skrifaði: „Varpið allri áhyggju yðar á hann, því að hann ber umhyggju fyrir yður.“ — 1. Pétursbréf 5:7; Sálmur 55:23.
,Verum reiðubúin að svara‘
9. Hvernig gat Lea, sem er 13 ára, dreift 23 Unglingabókum?
9 Lítum á annað dæmi. Lea, sem er 13 ára, var að lesa bókina Spurningar unga fólksins — svör sem dugaa í hádegishléinu í skólanum. „Aðrir horfðu á mig,“ segir hún, „og fyrr en varði stóð hópur af krökkum fyrir aftan mig. Þau fóru að spyrja mig um hvað bókin væri.“ Í lok dagsins höfðu fjórar stelpur beðið Leu um eintak af Unglingabókinni. Þær sýndu öðrum bókina og þá vildu enn fleiri fá eintak. Fyrir vikið dreifði Lea 23 Unglingabókum meðal skólafélaga og vina þeirra vikurnar á eftir. Fannst henni auðvelt að svara skólafélögunum þegar þeir fóru að fyrra bragði að spyrja hana út í bókina sem hún var að lesa? Síður en svo! „Ég var taugaóstyrk til að byrja með,“ viðurkennir hún. „En ég bað til Jehóva og ég vissi að hann var með mér.“
10, 11. Hvernig gat ung ísraelsk stúlka hjálpað sýrlenskum hershöfðingja að læra um Jehóva og hvaða breytingar gerði hann eftir það?
10 Ef til vill minnir reynsla Leu þig á unga ísraelska stúlku sem var fangi í Sýrlandi. Sýrlenski hershöfðinginn Naaman var holdsveikur. Ef til vill hóf kona hans samræðurnar sem leiddu til þess að unga stúlkan fór að tala um trú sína. „Ég vildi óska að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu,“ sagði stúlkan. „Hann mundi losa hann við líkþrána.“ — 2. Konungabók 5:1-3.
11 Hugrekki þessarar ungu stúlku varð til þess að Naaman komst að raun um að „að enginn Guð er til í neinu landi nema í Ísrael.“ Hann ákvað meira að segja að ,færa aldrei framar brennifórnir og sláturfórnir neinum guðum öðrum en Jehóva.‘ (2. Konungabók 5:15, 17) Jehóva blessaði sannarlega hugrekki þessarar ungu stúlku. Hann getur og hann mun gera það sama fyrir ungt fólk nú á dögum. Lea komst að raun um það. Eftir nokkurn tíma komu sumir skólafélaganna til hennar og sögðu að Unglingabókin hjálpaði þeim að bæta hegðun sína. Lea segir: „Ég var ánægð yfir því að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva betur og bæta líf sitt.“
12. Hvað getur hjálpað þér að svara fyrir trú þína?
12 Þú getur fengið að reyna eitthvað svipað og Jennifer og Lea. Fylgdu hvatningu Péturs sem sagði kristnum mönnum: „Verið ætíð reiðubúnir að svara hverjum manni sem krefst raka hjá yður fyrir voninni, sem í yður er. En gjörið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pétursbréf 3:15, 16) Hvernig ferðu að því? Líktu eftir frumkristnum mönnum. Þeir báðu Jehóva um að hjálpa sér að prédika með ,fullri djörfung.‘ (Postulasagan 4:29) Vertu síðan hugrakkur að tala við aðra um trú þína. Árangurinn gæti komið þér á óvart. Auk þess gleðurðu hjarta Jehóva.
Myndbönd og skólaverkefni
13. Hvaða tækifæri hafa sumir unglingar notað til að vitna um trúna? (Sjá rammagreinar á blaðsíðu 30 og 31.)
13 Margir unglingar hafa notað myndbönd til að segja skólafélögum eða kennurum frá trú sinni. Skólaverkefni hafa stundum opnað tækifæri til að lofa Jehóva. Til dæmis fengu tveir 15 ára strákar, sem báðir eru vottar Jehóva, það verkefni í sögutíma að skrifa ritgerð um ein af trúarbrögðunum í heiminum. Þeir ákváðu að skrifa ritgerð um Votta Jehóva og notuðu bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom (Vottar Jehóva — boðendur Guðsríkis) sem heimild.b Þeir áttu einnig að flytja fimm mínútna munnlega greinargerð um efnið. Eftir á höfðu nemendurnir og kennarinn svo margar spurningar að strákarnir voru 20 mínútur til viðbótar fyrir framan bekkinn. Næstu vikurnar á eftir héldu nemendur áfram að spyrja spurninga um Votta Jehóva.
14, 15. (a) Hvers vegna er ótti við menn snara? (b) Hvers vegna geturðu talað öruggur um trú þína við aðra?
14 Það getur haft mikla blessun í för með sér að tala um trú þína og sannfæringu eins og frásögurnar hér á undan bera vott um. Láttu ekki ótta við menn verða þess valdandi að þú missir af þeim sérréttindum og þeirri gleði sem fylgja því að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Biblían segir: „Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni.“ — Orðskviðirnir 29:25.
15 Mundu að þar sem þú ert kristinn unglingur hefurðu nokkuð sem jafnaldra þína sárvantar — bestu lífsstefnuna núna og von um eilíft líf í framtíðinni. (1. Tímóteusarbréf 4:8) Í Bandaríkjunum var gerð athyglisverð könnun sem leiddi í ljós að rúmlega helmingur unglinga þar í landi tekur trúmál mjög alvarlega og þriðjungur þeirra álítur trúna „mikilvægasta áhrifavaldinn“ í lífi sínu. Og þetta var í landi þar sem halda mætti að fólk almennt sé sinnulaust um trúmál eða veraldlega þenkjandi. Líklega er svipaða sögu að segja víða annars staðar í heiminum. Það gæti þess vegna vel verið að jafnaldrar þínir í skólanum myndu glaðir hlusta á það sem þú hefur að segja um Biblíuna.
Unglingar, nálægið ykkur Jehóva
16. Hvað er fólgið í því að þóknast Jehóva, auk þess að tala um hann við aðra?
16 Vissulega þarf að gera meira en aðeins að tala um Jehóva til að gleðja hjarta hans. Þú verður líka að hegða þér í samræmi við lífsreglur hans. Jóhannes postuli skrifaði: „Í þessu birtist elskan til Guðs, að vér höldum hans boðorð. Og boðorð hans eru ekki þung.“ (1. Jóhannesarbréf 5:3) Þú munt komast að raun um sannleiksgildi þessara orða ef þú nálægir þig Jehóva. Hvernig geturðu gert það?
17. Hvernig geturðu nálægt þig Guði?
17 Taktu frá tíma til að lesa í Biblíunni og biblíutengdum ritum. Því meira sem þú lærir um Jehóva þeim mun auðveldara verður að hlýða honum og tala um hann við aðra. „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns,“ sagði Jesús. „Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ (Lúkas 6:45) Þú skalt þess vegna fylla hjartað af því sem er gott. Hvers vegna seturðu þér ekki markmið hvað þetta varðar? Þú getur kannski undirbúið þig betur fyrir samkomurnar í vikunni. Næsta markmið gæti verið að taka þátt í þeim með því að gefa stutt en einlægt svar. En það er auðvitað líka mikilvægt að þú farir eftir því sem þú lærir. — Filippíbréfið 4:9.
18. Um hvað geturðu verið viss þrátt fyrir andstöðu?
18 Þjónustan við Jehóva hefur langvarandi blessun í för með sér — eilífa blessun. Ef til vill verðurðu stundum fyrir andstöðu eða háði að einhverju marki þar sem þú ert vottur Jehóva. En hugsaðu um Móse. Biblían segir að hann hafi ,horft fram til launanna.‘ (Hebreabréfið 11:24-26) Þú getur verið viss um að Jehóva umbunar þér fyrir það sem þú leggur á þig til að læra um hann og segja öðrum frá honum. Hann mun aldrei ,gleyma verki þínu og kærleikanum sem þú auðsýndir nafni hans.‘ — Hebreabréfið 6:10.
[Neðanmáls]
a Gefin út af Vottum Jehóva.
b Gefin út af Vottum Jehóva.
Manstu?
• Hvers vegna geturðu verið viss um að Jehóva kunni að meta þjónustu þína?
• Hvaða aðferðir hafa reynst sumum vel til að vitna um trúna í skólanum?
• Hvernig geturðu fengið styrk til að vitna fyrir bekkjarfélögum þínum?
• Hvernig geturðu nálægt þig Jehóva?
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 30]
Börn lofa Jehóva
Börnum hefur jafnvel tekist að vitna um trúna í skólanum. Líttu á eftirfarandi frásögur.
Amber er tíu ára stúlka í fimmta bekk. Bekkurinn hennar var að lesa bók um ofsóknir nasista á hendur Gyðingum í seinni heimsstyrjöldinni. Amber ákvað að láta kennarann sinn fá myndbandið Purple Triangles (Fjólubláir þríhyrningar). Kennarinn varð undrandi á því að vottar Jehóva skyldu líka hafa verið ofsóttir í stjórnartíð nasista og sýndi öllum bekknum myndbandið.
Alexa var átta ára þegar hún skrifaði bréf til bekkjarins og útskýrði hvers vegna hún gæti ekki haldið jól með bekknum. Kennarinn varð svo hrifinn að hann lét Alexu lesa bréfið upphátt bæði fyrir bekk sinn og einnig aðra bekki. „Mér hefur verið kennt að bera virðingu fyrir þeim sem hafa aðra trú en ég,“ sagði hún undir lok bréfsins, „og ég þakka ykkur fyrir að virða þá ákvörðun mína að halda ekki jól.“
Stuttu eftir að Eric byrjaði í fyrsta bekk tók hann Biblíusögubókina mína með í skólann og bað um leyfi til að sýna bekkjarsystkinum sínum hana. „Ég er með betri hugmynd,“ sagði kennarinn. „Hvers vegna lest þú ekki sögu fyrir bekkinn?“ Eric gerði það. Eftir lesturinn bað hann alla að rétta upp hönd sem vildu fá eintak af bókinni. Átján réttu upp hönd, þar á meðal kennarinn. Núna finnst Eric hann hafa sitt eigið starfssvæði.
Whitney er níu ára og er þakklát fyrir bæklinginn Vottar Jehóva og menntun.c „Mamma hefur látið kennarana fá þennan bækling á hverju ári,“ segir hún, „en núna gerði ég það sjálf. Það er þessum bæklingi að þakka að kennarinn tilnefndi mig ,nemanda vikunnar.‘“
[Neðanmáls]
c Öll rit, sem nefnd eru hér, eru gefin út af Vottum Jehóva.
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 31]
Tækifæri sem sumir hafa notað til að segja frá trú sinni
Sumir hafa vitnað um trúna þegar þeim er falið að semja ritgerð eða vinna verkefni í skólanum.
Margir unglingar hafa gefið kennara sínum myndband eða rit sem tengist umræðuefni í bekknum.
Sumir unglingar nota frímínúturnar til að lesa í Biblíunni eða biblíutengdum ritum og oft hafa aðrir unglingar farið að spyrja þá spurninga.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Reyndir vottar geta hjálpað unglingum að taka framförum í þjónustunni við Jehóva.