Hinn komandi lokakafli ‚bókarinnar um bardaga Jehóva‘
‚Svo segir í bókinni um bardaga Jehóva.‘ — 4. MÓSEBÓK 21:14.
1, 2. Við hvaða tækifæri til forna sýndi Jehóva Egyptum að hann væri stríðsguð og hvernig gerði hann það?
FÁIR nútímamenn líta á Guð Biblíunnar, Jehóva, sem stríðshetju. Þannig kom hann þó fram í miklum sjónleik er hann frelsaði þjóð sína til forna úr áþján í Egyptalandi. Ósýnilegur óvinur þeirrar þjóðar, Satan djöfullinn, hafði æst Faraó upp til að reyna að þrælka hana til dauða. Nú rann upp fyrir Faraó hvað hann var að missa með því að leyfa Ísraelsmönnum að fara frjálsum ferða sinna og elti hann þá með her sinn.
2 En Faraó gerði sér ekki grein fyrir því að Guð Ísraelsmanna gat komið fram sem stríðsguð til að frelsa þjóð sína. Þegar her Egypta geystist fullur hefndarþorsta um þurran sjávarbotn Rauðahafsins lét Guð Ísraelsmanna til skarar skríða og drekkti riddurum og vagnstjórum stríðsvagnanna með því að láta sjóinn, sem stóð eins og veggur beggja vegna brautarinnar er hann hafði opnað Ísraelsmönnum gegnum hafið, steypast yfir þá. — 2. Mósebók 14:14, 24-28.
3. Hvernig lýstu Ísraelsmenn Jehóva í sigursöng sínum og hvað virða þjóðir heims einskis nú á dögum?
3 Er Ísraelsmenn voru óhultir á austurbakka Rauðahafsins sungu þeir fagnandi sigursöng og lofuðu hinn himneska frelsara sinn: „Ég vil lofsyngja [Jehóva], því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið. [Jehóva] er styrkur minn og lofsöngur, hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann. [Jehóva] er stríðshetja, [Jehóva] er hans nafn. Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.“ (2. Mósebók 15:1-4) Þarna við Rauðahafið birtist Jehóva sem stríðshetja er gat drýgt mikilfenglegar dáðir — staðreynd sem þjóðir heims hafa kært sig kollóttar um.
4, 5. Hver var sameiginlegur forfaðir hinna tólf ættkvísla Ísraels, vinur hvers var hann og vegna hvaða eiginleika?
4 Spámaðurinn Móse, sem var forsöngvari er Ísraelsmenn sungu hinn innblásna söng, talaði um Jehóva sem ‚Guð föður síns.‘ Hebreinn Abraham var einn af forfeðrum Ísraelsþjóðarinar sem mikið kvað að. Af honum, Ísak, Jakobi og tólf sonum Jakobs voru hinar tólf ættkvíslir Ísraels komnar. Sem tilbiðjandi Jehóva Guðs var Abraham til mikillar fyrirmyndar. Hann hafði svo sterka trú að hann lagði óhikað af stað til þess lands sem Jehóva ætlaði að sýna honum, er hann bauð honum að yfirgefa heimili sitt í Úr í Kaldeu. Hann treysti að Guð myndi standa við loforð sitt um að gefa honum og afkomendum hans það land.
5 Vegna hinnar einstæðu trúar Abrahams hét Jehóva að gefa honum „afkvæmi“ eða sæði er verða myndi öllum ættum jarðar, einnig þeim sem nú lifa, til blessunar. (1. Mósebók 12:2, 3; 22:17, 18) Svo náið var samband Abrahams við Guð að hann var þekktur sem ‚vinur Jehóva‘ og Guð sjálfur kallaði þennan trúfasta ættföður ‚vin sinn.‘ — Jakobsbréfið 2:23; Jesaja 41:8.
6. Hvernig sýndi Abraham að hann var stríðsmaður sem treysti á Jehóva, þótt hann væri friðsamur hirðingi í fyrirheitna landinu?
6 Þótt Abraham færi um sem útlendingur í fyrirheitna landinu gat hann einnig gengið fram sem hermaður og stríðshetja. Einhverju sinni höfðu fjórir konungar ráðist inn í fyrirheitna landið og haft á brott með sér frænda Abrahams, Lot, og fjölskyldu Lots. Hin sterku fjölskyldubönd komu Abraham til að herbúa 318 af þjónum sínum og ásamt liðstyrk þriggja heimamanna er voru í bandalagi við hann, Aners, Eskols og Mamre, elti hann ránsflokkinn. Abraham og sveit hans gerðu óvænta árás að næturlagi og yfirbuguðu innrásarliðið þótt það væri langtum fjölmennara. Abraham vann þar „sigur á konungunum.“ (Hebreabréfið 7:1; 1. Mósebók 14:13-17) Hann bjargaði Lot og fjölskyldu hans og endurheimti allan ránsfenginn.
7-9. (a) Hvaða prest heimsótti Abraham og hvaða blessun hlaut hann? (b) Hvernig sýndi Abraham að hann vildi verða ríkur einungis fyrir tilstilli hins hæsta Guðs? (c) Hver gaf Abraham hersigur eins og Melkísedek staðfesti?
7 Abraham gerði sér ljóst að herför hans heppnaðist einungis vegna hjálpar Jehóva Guðs, og á heimför sinni úr herförinni bauðst honum tækifæri til að játa það opinberlega. Hann vissi að prestur Guðs hans bjó í borginni Salem. Hann hélt því til borgarinnar. Síðari hluta 14. kafla 1. Mósebókar segir okkur frá því sem gerðist:
8 „Og Melkísekek konungur í Salem kom með brauð og vín, en hann var prestur Hins Hæsta Guðs. Og hann blessaði Abram og sagði: ‚Blessaður sé Abram af Hinum Hæsta Guði, skapara himins og jarðar! Og lofaður sé Hinn Hæsti Guð, sem gaf óvini þína þér í hendur!‘ Og Abram gaf honum tíund af öllu. Konungurinn í Sódómu sagði við Abram: ‚Gef mér mennina, en tak þú fjárhlutina.‘ Þá mælti Abram við konunginn í Sódómu: ‚Ég upplyfti höndum mínum til [Jehóva], Hins Hæsta Guðs, skapara himins og jarðar: Ég tek hvorki þráð né skóþveng, né nokkuð af öllu sem þér tilheyrir, svo að þú skulir ekki segja: „Ég hefi gjört Abram ríkan.“ Ekkert handa mér! Aðeins það, sem sveinarnir hafa neytt, og hlut þeirra manna, sem með mér fóru, Aners, Eskols og Mamre. Þeir mega taka sinn hlut.‘“ — 1. Mósebók 14:18-24.
9 Eins og þessi vers sýna staðfesti prestkonungurinn í Salem, Melkísedek, þá sannfæringu Abrahams að það hefði verið hinn hæsti Guð sem hafði barist fyrir hann og her hans og gefið honum sigur. Prestkonungurinn Melkísedek dró ekki úr þætti Jehóva í sigrinum.
Bókin um bardaga Jehóva
10. Hvenær er fyrst minnst á hernað í Biblíunni og hvers vegna var það einungis upphaf sigursælla bardaga Jehóva?
10 Frásaga 1. Mósebókar 14. kafla af innrásinni í fyrirheitna landið og sigur Abrahams á innrásarliðinu er fyrsta frásögn heilagrar Ritningar af hernaði. Þannig birtist Jehóva sem „stríðshetja,“ hermaður, meira en fjórum öldum fyrir afrek sitt við Rauðahafið. Það var þó aðeins upphafið. Jehóva átti eftir að vinna langtum meiri og mikilfenglegri sigra, meðal annars lokasigur sinn við ‚endalok heimskerfisins.‘ — Matteus 24:3, NW.
11. Hvað er ‚bókin um bardaga Jehóva‘ en hvar annars staðar er að finna fjölmargar frásögur af herförum hans?
11 Að því er segir í 4. Mósebók 21:14 var skrifuð ‚bók um bardaga Jehóva.‘ Þetta áreiðanlega sagnarit um bardaga Guðs í þágu þjóna sinna kann að hafa hafist á þessum bardaga sem háður var í þágu hins trúa Abrahams. Móse þekkti til þessarar bókar en veitir engar frekari upplýsingar um hana. Okkur er því ekki sagt frá öllum þeim tilvikum er Jehóva sýndi sig stríðshetju á því tímabili sem bókin um bardaga Jehóva nær yfir. Stærstur hluti Biblíunnar var þó skrifaður eftir að þessarar bókar er getið og í henni er að finna fjölmargar frásagnir af hersigrum Jehóva.
Hinn meiri Melkísedek — stríðshetja
12. Hvern táknaði Melkísedek og hvaða sálmur Davíðs ávarpar hann sem prest og stríðshetju?
12 Melkísedek blessaði Abraham eftir að hann hafði sigrað Kedolaómer og konungana sem voru í bandalagi við hann. Prestkonungurinn Melkísedek táknaði hann sem átti að verða æðsti prestur hins hæsta Guðs og einnig voldug stríðshetja hins hæsta Guðs. Sálmur 110, er stríðskonungurinn Davíð samdi undir innblæstri, ávarpar þann sem er meiri en Melkísedek í Salem og segir: „[Jehóva] réttir út þinn volduga sprota frá Síon, drottna þú mitt á meðal óvina þinna! [Jehóva] hefir svarið, og hann iðrar þess eigi: ‚Þú ert prestur að eilífu, að hætti Melkísedeks.‘ [Jehóva] er þér til hægri handar, hann knosar konunga á degi reiði sinnar.“ — Sálmur 110:2, 4, 5.
13. Hvern táknaði Melkísedek fortíðarinnar samkvæmt 7. og 8. kafla Hebreabréfsins, hvert gekk hann inn og með hvers konar fórn?
13 Hinn innblásni ritari Hebreabréfsins upplýsir okkur um hvern er verið að ávarpa með þessum orðum. Hann segir: „Jesús gekk inn, fyrirrennari vor vegna, þegar hann varð æðsti prestur að eilífu að hætti Melkísedeks.“ (Hebreabréfið 6:20) Í næsta kafla Hebreabréfsins er lýst mikilleik Melkísedeks til forna. Sá sem Melkísedek var fyrirmynd um, hinn upprisni, dýrlega gerði Jesús Kristur, sem gekk fram fyrir hinn heilaga Jehóva Guð sjálfan með verðgildi fórnar er var langtum meira en prestkonungurinn Melkísedek í Salem gat nokkurn tíma borið fram, er þó honum meiri. — Hebreabréfið 7:1-8:2.
14. Hefur hinn meiri Melkísedek veitt klerkum kristna heimsins umboð til að taka þátt í hernaði hinna svokölluðu kristnu þjóða?
14 Prestkonungurinn Melkísedek blessaði hinn sigursæla hermann Abraham. En hvað um hinn meiri Melkísedek, stofnanda sannrar kristni? Klerkastétt kristna heimsins heldur sig vera fulltrúa Jesú Krists er hún blessar heri svokallaðra kristinna þjóða og biður fyrir þeim. En hefur æðsti prestur Jehóva á himnum stutt við bak klerka kristna heimsins með þessum hætti? Hefur hann þannig tekið á sig ábyrgð á öllum þeim blóðsúthellingum sem átt hafa sér stað á hinni svonefndu öld kristninnar, meðal annars því blóði sem úthellt var í heimsstyrjöldunum báðum? Fjarri því! Hann hefur aldrei gefið sönnum lærisveinum sínum umboð til að tilheyra þessum heimi og taka þátt í hernaðarhyggju hans og blóðsúthellingum.
Stríðshetjan Guð skapar sér fagurt nafn
15, 16. Hvað afrekaði Jehóva sér er hann barðist fyrir þjóð sína til að frelsa hana úr Egyptalandi?
15 Nehemía 9:10 lætur þess getið er Jehóva frelsaði hinar tólf ættkvíslir Ísraels úr Egyptalandi: „Þá gjörðir þú tákn og undur á Faraó og á öllum þjónum hans og á öllum lýð í landi hans, því að þú vissir að þeir höfðu sýnt þeim [Ísraelsmönnum] ofstopa. Og þannig afrekaðir þú þér mikið nafn fram á þennan dag.“ — Samanber 2. Mósebók 14:18.
16 Spámaðurinn Jesaja talar um fegurð þessa nafns er hann segir um Jehóva: „Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn.“ Síðan ávarpar hann Jehóva: „Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.“ (Jesaja 63:12-14) Daníel ákallar Jehóva um að ganga fram í þágu þjóðar sinnar og ávarpar hann svo: „Þú sem útleiddir lýð þinn af Egyptalandi með sterkri hendi og afrekaðir þér mikið nafn fram á þennan dag.“ — Daníel 9:15; Jeremía 32:20.
17. Hvern mun Jehóva senda fram til að berjast í nafni sínu og hvað mun hann þannig sýna öllum nútímaþjóðum?
17 Á tilsettum tíma mun Jehóva Guð senda fram Jesú Krist, hinn meiri Melkísedek, sem volduga stríðshetju. Fyrir hans tilstilli mun Jehóva afreka sér nafn með mikilfenglegri hætti en nokkru því er bókin um bardaga Jehóva eða hinar Hebresku ritningar heilagrar Biblíu greina frá. Í síðasta kafla næstsíðustu bókar Hebresku ritninganna er sagt frá alþjóðlegri árás á Jerúsalem. Þá mun Jehóva gera eins og Sakaría 14:3 segir: „[Jehóva] mun út fara og berjast við þessar þjóðir, eins og þegar hann barðist forðum á orustudeginum.“ Á þennan hátt mun Guð Biblíunnar sýna öllum nútímaþjóðum að hann er enn sami stríðsguðinn og hann var á dögum Forn-Ísraels.
18, 19. Hvaða Jerúsalem mun verða fyrir allsherjarárás þjóðanna?
18 Þessi atburður heyrir enn framtíðinni til, en hvaða Jerúsalem mun verða fyrir þessari allsherjarárás? Spádómurinn rættist ekki á Jerúsalemborg á dögum Sakaría. Rómverskur her jafnaði borgina við jörðu árið 70. Jerúsalem var hins vegar endurreist og er nú skoðuð sem heilög borg í augum kristna heimsins og Ísraelsþjóðar að holdinu. Í sex daga stríðinu árið 1967 lögðu Ísraelsmenn að holdinu undir sig alla hina endurbyggðu Jerúsalem á jörð. Það bendir hins vegar alls ekkert til þess að Jehóva Guð hafi átt nokkra aðild að bardögunum þá. Hinn krýndi konungur hans, Jesús Kristur, ríkir ekki í jarðneskri Jerúsalem og hún er ekki lengur „borg hins mikla konungs,“ það er að segja Jehóva. — Matteus 5:35.
19 Nei, þessi opinbera höfuðborg Ísraelsríkisins, sem er eitt aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna, er ekki sú Jerúsalem sem talað er um í spádómi Sakaría. Sakaría er hér að tala um þá Jerúsalem sem við lesum um í Hebreabréfinu. Þar ávarpar Páll smurða kristna menn og segir: „Þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla.“ (Hebreabréfið 12:22) Þessi himneska Jerúsalem er engin önnur en Messíasarríki Guðs. Það á sér núna lítinn hóp smurðra kristinna manna fyrir fulltrúa á jörðinni er bera í brjósti þá von að verða meðstjórnendur Jesú Krists í því ríki. Það er á þá sem verður ráðist samkvæmt spádóminum.
20. Hvernig hughreysti Hiskía konungur þjóð sína er henni var ógnað og hvaða orð konungs sem er meiri en Hiskía láta vottar Jehóva nú á dögum hughreysta sig?
20 En hvorki þeir né hinn mikli múgur kristinna manna, sem hefur jarðneska von og er kominn úr öllum þjóðum og hefur sameinast þeim í hreinni guðsdýrkun, þurfa að óttast lyktir þessarar árásar. Er hinn ógnvekjandi her Sanheribs Assýríukonungs settist um Jerúsalem á dögum Hiskía konungs róaði Hiskía Ísraelsmenn með þessum orðum: „Hann styður mannlegur máttur, en með oss er [Jehóva], Guð vor, til þess að hjálpa oss og heyja orustur vorar.“ Árangurinn varð sá að „lýðurinn treysti á orð Hiskía Júdakonungs.“ (2. Kroníkubók 32:8) Er herveldi þessa heims ógna nútímavottum Jehóva, þá geta þeir sótt styrk í áþekk orð þess konungs sem er meiri en Hiskía, Jesú Krists.
21. (a) Hvers vegna verður orða Jehasíels minnst í árásinni á hina himnesku Jerúsalem? (b) Hvernig mun bardaganum lykta?
21 Á þeim tíma mun minnst verða hinna trústyrkjandi orða Jehasíels levíta: „Eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni [Jehóva] við yður, þér Júdamenn og Jerúsalembúar. Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og [Jehóva] mun vera með yður.“ (2. Kroníkubók 20:17) Já, Jehóva mun vera með þjónum sínum á þessum miklu hættutímum. Öryggi þeirra og frelsun verður undir því komin að hann berjist fyrir þá. Og hann mun sannarlega berjast fyrir milligöngu stríðskonungsins Jesú Krists! Með hvaða árangri? Þeim að sýnilegu skipulagi djöfulsins á jörð verður gereytt. — Opinberunarbókin 19:11-21.
22. (a) Hvernig verður niðurlag bókarinnar um bardaga Jehóva og hvað mun Jehóva afreka sér með því? (b) Hvað mun sigur Jehóva fá þá sem elska nafn hans til að gera?
22 Guð mun sannarlega afreka sér mikið nafn með ógnþrungnum sigri sínum í ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda‘ við Harmagedón! (Opinberunarbókin 16:14, 16) Þá verður sem nýjum kafla verði bætt við bókina um bardaga Jehóva. Það verður stórfenglegt niðurlag er segir frá endalokum þessa heimskerfis. Bókin öll mun sýna að alvaldur Guð hefur aldrei tapað orustu. Þeir sem elska nafn Jehóva munu þá syngja honum undurfagran lofsöng! Þá mun síðasta vers sálmanna í Biblíunni rætast með stórfenglegum hætti: „Allt sem andardrátt hefir lofi [Jehóva]! Halelúja!“ — Sálmur 150:6.
Upprifjun
◻ Hvað gera fæstir nútímamenn sér grein fyrir varðandi Guð Biblíunnar, Jehóva?
◻ Hvaða stríð háði Abraham og hver gaf honum sigur?
◻ Hvað er ‚bókin um bardaga Jehóva‘?
◻ Hvernig mun ‚bókinni um bardaga Jehóva‘ ljúka og með hvaða árangri?