Hinir aðrir sauðir og nýi sáttmálinn
„Og útlendinga, . . . alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls.“ — JESAJA 56:6, 7.
1. (a) Hvað ávinnst samkvæmt sýn Jóhannesar meðan haldið er aftur af vindum dóms Jehóva? (b) Hvaða sérstakan múg sá Jóhannes?
Í FJÓRÐU sýn Opinberunarbókarinnar sá Jóhannes postuli haldið aftur af eyðingarvindum dóms Jehóva meðan lokið var við að innsigla alla þegna ‚Ísraels Guðs.‘ Þeir eru fyrstir til að hljóta blessun fyrir atbeina Jesú, aðalsæðis Abrahams. (Galatabréfið 6:16; 1. Mósebók 22:18; Opinberunarbókin 7:1-4) Í sömu sýn sá Jóhannes ‚mikinn múg, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum. . . . Þeir hrópa hárri röddu: Hjálpræðið heyrir til Guði vorum, sem í hásætinu situr, og lambinu.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 10) Með því að segja „hjálpræðið heyrir til . . . lambinu“ sýnir múgurinn mikli að hann nýtur líka blessunar vegna sæðis Abrahams.
2. Hvenær kom múgurinn mikli fram á sjónarsviðið og á hverju þekkist hann?
2 Kennsl voru borin á þennan mikla múg árið 1935 og núna er hann orðinn rösklega fimm milljónir. Honum er ætlað að lifa af þrenginguna miklu og hann verður skilinn frá til eilífs lífs þegar Jesús greinir ‚sauðina‘ frá „höfrunum.“ Kristnir menn af múginum mikla eru hluti af hinum ‚öðrum sauðum‘ í dæmisögu Jesú um sauðabyrgin. Þeir hafa þá von að lifa að eilífu í paradís á jörð. — Matteus 25:31-46; Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 21:3, 4.
3. Hvernig er staða smurðra kristinna manna og hinna annarra sauða gagnvart nýja sáttmálanum ólík?
3 Blessun Abrahamssáttmálans er miðlað til hinna 144.000 fyrir tilstilli nýja sáttmálans. Sem aðilar að sáttmálanum eru þeir „undir náð“ eða óverðskuldaðri góðvild og eru ‚bundnir lögmáli Krists.‘ (Rómverjabréfið 6:15; 1. Korintubréf 9:21) Þess vegna hafa aðeins hinir 144.000 þegnar Ísraels Guðs neytt með réttu af brauðinu og víninu við minningarhátíðina um dauða Jesú, og það er aðeins við þá sem Jesús gerir sáttmála sinn um ríki. (Lúkas 22:19, 20, 29, NW) Þeir sem mynda múginn mikla eiga ekki aðild að nýja sáttmálanum. Hins vegar umgangast þeir Ísrael Guðs og búa með honum í ‚landi‘ hans. (Jesaja 66:8) Það má því réttilega segja að óverðskulduð góðvild Jehóva nái líka til þeirra og að þeir séu bundnir af lögmáli Krists. Enda þótt þeir eigi ekki aðild að nýja sáttmálanum njóta þeir góðs af honum.
‚Útlendingar‘ og „Ísrael Guðs“
4, 5. (a) Hvaða hópur átti að þjóna Jehóva að sögn Jesaja? (b) Hvernig rætist Jesaja 56:6, 7 á múginum mikla?
4 Spámaðurinn Jesaja skrifaði: „Útlendinga, sem gengið hafa [Jehóva] á hönd til þess að þjóna honum og til þess að elska nafn [Jehóva], til þess að verða þjónar hans — alla þá, sem gæta þess að vanhelga ekki hvíldardaginn og halda fast við minn sáttmála, þá mun ég leiða til míns heilaga fjalls og gleðja þá í bænahúsi mínu. Brennifórnir þeirra og sláturfórnir skulu vera mér þóknanlegar á altari mínu.“ (Jesaja 56:6, 7) Í Ísrael þýddi þetta að ‚útlendingar,‘ það er að segja menn af öðrum þjóðum, myndu tilbiðja Jehóva — elska nafn hans, hlýða ákvæðum lagasáttmálans, halda hvíldardaginn og færa fórnir í musterinu, „bænahúsi“ Guðs. — Matteus 21:13.
5 Þeir ‚útlendingar sem gengið hafa Jehóva á hönd‘ nú á dögum eru mikill múgur. Þeir þjóna Jehóva í félagi við Ísrael Guðs. (Sakaría 8:23) Þeir færa sömu þóknanlegu fórnirnar og Ísrael Guðs. (Hebreabréfið 13:15, 16) Þeir tilbiðja Guð í andlegu musteri hans, „bænahúsi“ hans. (Samanber Opinberunarbókina 7:15.) Halda þeir vikulegan hvíldardag? Hvorki hinum smurðu né hinum öðrum sauðum er fyrirskipað að gera það. (Kólossubréfið 2:16, 17) Páll sagði hins vegar smurðum, kristnum Hebreum: „Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs. Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.“ (Hebreabréfið 4:9, 10) Þessir Hebrear gengu inn til ‚sabbatshvíldar‘ þegar þeir gáfu sig undir „réttlæti Guðs“ og hvíldust af því að reyna að réttlæta sig með lögmálsverkum. (Rómverjabréfið 10:3, 4) Smurðir kristnir menn af þjóðunum njóta sömu hvíldar með því að gefa sig undir réttlæti Jehóva. Múgurinn mikli nýtur hvíldarinnar með þeim.
6. Hvernig ganga hinir aðrir sauðir nútímans undir nýja sáttmálann?
6 Auk þess ganga hinir aðrir sauðir undir nýja sáttmálann alveg eins og útlendingar til forna gengu undir lagasáttmálann. Á hvaða hátt? Ekki með því að eignast beina aðild að honum heldur með því að lúta þeim lögum sem tengjast honum og njóta góðs af ráðstöfunum hans. (Samanber Jeremía 31:33, 34.) Hinir aðrir sauðir hafa lögmál Jehóva ritað ‚á hjörtu sér‘ líkt og smurðir félagar þeirra. Þeir elska boð Jehóva og meginreglur innilega og hlýða þeim. (Sálmur 37:31; 119:97) Þeir þekkja Jehóva eins og hinir smurðu. (Jóhannes 17:3) Hvað um umskurnina? Um 1500 árum áður en nýi sáttmálinn kom til skjalanna hvatti Móse Ísraelsmenn: „Umskerið því yfirhúð hjarta yðar.“ (5. Mósebók 10:16; Jeremía 4:4) Skyldubundin umskurn holdsins leið undir lok með lögmálinu en bæði hinir smurðu og hinir aðrir sauðir þurfa að ‚umskera‘ hjörtu sín. (Kólossubréfið 2:11) Loks fyrirgefur Jehóva syndir hinna annarra sauða vegna ‚blóðs sáttmálans‘ sem Jesús úthellti. (Matteus 26:28; 1. Jóhannesarbréf 1:9; 2:2) Guð ættleiðir þá ekki sem andlega syni eins og hinar 144.000 heldur lýsir þá réttláta í sama skilningi og Abraham var lýstur réttlátur sem vinur Guðs. — Matteus 25:46; Rómverjabréfið 4:2, 3; Jakobsbréfið 2:23.
7. Hvað eiga hinir aðrir sauðir í vændum sem lýstir eru réttlátir eins og Abraham?
7 Með því að vera lýstir réttlátir er hinum 144.000 opnuð sú leið að eiga von um að ríkja með Jesú á himnum. (Rómverjabréfið 8:16, 17; Galatabréfið 2:16) Með því að vera lýstir réttlátir sem vinir Guðs geta hinir aðrir sauðir átt von um eilíft líf í paradís á jörð — annaðhvort með því að lifa af Harmagedónstríðið sem hluti af múginum mikla eða með ‚upprisu réttlátra.‘ (Postulasagan 24:15) Hvílík sérréttindi að eiga slíka von og að vera vinur alheimsdrottins, að fá að ‚gista í tjaldi hans.‘ (Sálmur 15:1, 2) Já, bæði hinir smurðu og hinir aðrir sauðir njóta stórkostlegrar blessunar fyrir atbeina Jesú, sæðis Abrahams.
Meiri friðþægingardagur
8. Hvað var táknað með fórnum friðþægingardagsins undir lagasáttmálanum?
8 Í umfjöllun sinni um nýja sáttmálann minnti Páll lesendur sína á hinn árlega friðþægingardag undir lagasáttmálanum. Þann dag voru færðar aðskildar fórnir, önnur fyrir prestaættkvísl Leví og hin fyrir ættkvíslirnar 12 sem ekki gegndu prestsþjónustu. Lengi hefur verið bent á að það tákni að hin mikla fórn Jesú gagnist bæði hinum 144.000 með himneska von og þeim milljónum sem eiga jarðneska von.a Páll sýndi fram á að í uppfyllingunni er gagninu af fórn Jesú miðlað fyrir tilstilli meiri friðþægingardags undir nýja sáttmálanum. Jesús er æðstiprestur þessa meiri dags og færði fullkomið líf sitt sem friðþægingarfórn til að afla mönnum „eilífrar lausnar.“ — Hebreabréfið 9:11-24.
9. Hvað gátu smurðir kristnir Hebrear öðlast þar eð þeir voru undir nýja sáttmálanum?
9 Margir kristnir Hebrear á fyrstu öld voru enn „vandlátir um lögmálið,“ það er að segja lögmál Móse. (Postulasagan 21:20) Það var því viðeigandi að Páll skyldi minna þá á þetta: „[Jesús er] meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.“ (Hebreabréfið 9:15) Nýi sáttmálinn leysti kristna Hebrea undan gamla sáttmálanum sem afhjúpaði syndsemi þeirra. Svo var nýja sáttmálanum fyrir að þakka að þeir gátu öðlast „hina eilífu [himnesku] arfleifð, sem heitið var.“
10. Hvað þakka hinir smurðu og hinir aðrir sauðir Guði?
10 „Hver“ sem „trúir á soninn“ nýtur góðs af lausnarfórninni. (Jóhannes 3:16, 36) Páll sagði: „Þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.“ (Hebreabréfið 9:28) Þeir sem bíða Jesú og horfa til hans nú á dögum eru eftirlifandi smurðir kristnir menn af Ísrael Guðs og þær milljónir sem mynda múginn mikla, en þær eiga sér einnig eilífa arfleifð. Báðir hópar þakka Guði fyrir nýja sáttmálann og þá lífgandi blessun sem fylgir honum, þar á meðal hinn meiri friðþægingardag og þjónustu æðstaprestsins Jesú í hinu allra helgasta á himni.
Önnum kafnir í heilagri þjónustu
11. Hvað gera bæði hinir smurðu og hinir aðrir sauðir fagnandi af því að samviska þeirra er hrein vegna fórnar Jesú?
11 Í bréfi sínu til Hebrea lagði Páll áherslu á hve miklu dýrmætari fórn Jesú undir nýja sáttmálanum væri en syndafórnirnar undir gamla sáttmálanum. (Hebreabréfið 9:13-15) Hin betri fórn Jesú getur ‚hreinsað samvisku okkar frá dauðum verkum til að þjóna Guði lifanda.‘ Hjá kristnum Hebreum voru ‚dauð verk‘ meðal annars „afbrotin undir fyrri sáttmálanum.“ Hjá kristnum mönnum nú á tímum fela þau í sér áður drýgðar syndir sem þeir hafa iðrast í einlægni og Guð hefur fyrirgefið. (1. Korintubréf 6:9-11) Þegar samviskan er orðin hrein veita smurðir kristnir menn „Guði lifanda“ heilaga þjónustu. Það gerir múgurinn mikli líka. Þeir hafa hreinsað samvisku sína með „blóði lambsins“ og eru í hinu mikla andlega musteri Guðs og veita honum heilaga þjónustu „dag og nótt.“ — Opinberunarbókin 7:14, 15.
12. Hvernig sýnum við að við höfum ‚öruggt trúartraust‘?
12 Páll sagði einnig: „Látum oss því ganga fram fyrir Guð með einlægum hjörtum, í öruggu trúartrausti, með hjörtum, sem hreinsuð hafa verið og eru laus við meðvitund um synd, og með líkömum, sem laugaðir hafa verið í hreinu vatni.“ (Hebreabréfið 10:22) Hvernig getum við sýnt að við höfum ‚öruggt trúartraust‘? Páll hvatti kristna Hebrea: „Höldum fast við játningu [himneskrar] vonar vorrar án þess að hvika, því að trúr er sá, sem fyrirheitið hefur gefið. Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:23-25) Ef trú okkar er lifandi ‚vanrækjum við ekki safnaðarsamkomurnar.‘ Við höfum þá yndi af því að hvetja bræður okkar og láta þá hvetja okkur til kærleika og góðra verka og styrkjast fyrir hið nauðsynlega starf að játa opinberlega von okkar, hvort sem hún er jarðnesk eða himnesk. — Jóhannes 13:35.
‚Hinn eilífi sáttmáli‘
13, 14. Á hvaða vegu er nýi sáttmálinn eilífur?
13 Hvað gerist þegar vonin verður að veruleika hjá hinum síðasta af þeim 144.000? Fellur nýi sáttmálinn þá úr gildi? Þá verður enginn eftir á jörðinni af Ísrael Guðs. Allir aðilar sáttmálans verða með Jesú í „ríki föður“ hans. (Matteus 26:29) En við munum eftir orðum Páls í bréfi hans til Hebreanna: „Guð friðarins . . . leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála.“ (Hebreabréfið 13:20; Jesaja 55:3) Í hvaða skilningi er nýi sáttmálinn eilífur?
14 Í fyrsta lagi verður hann aldrei látinn víkja fyrir öðrum sáttmála eins og lagasáttmálinn. Í öðru lagi eru afleiðingarnar af starfsemi hans varanlegar líkt og konungdómur Jesú. (Berðu saman Lúkas 1:33 og 1. Korintubréf 15:27, 28.) Hið himneska ríki gegnir eilífu hlutverki í tilgangi Jehóva. (Opinberunarbókin 22:5) Og í þriðja lagi halda hinir aðrir sauðir áfram að njóta góðs af nýja sáttmálanum. Í þúsundáraríki Krists halda trúfastir menn áfram að ‚þjóna Jehóva dag og nótt í musteri hans‘ eins og þeir gera núna. Jehóva minnist ekki fyrri synda sem þeim voru fyrirgefnar á grundvelli ‚sáttmálablóðs‘ Jesú. Þeir halda áfram að standa réttlátir sem vinir Jehóva og lög hans verða rituð áfram á hjörtu þeirra.
15. Lýstu sambandi Jehóva við jarðneska dýrkendur sína í nýja heiminum.
15 Getur Jehóva þá sagt um þessa mennsku þjóna: ‚Ég er þeirra Guð og þeir eru mín þjóð?‘ Já, „hann mun búa hjá þeim, og þeir munu vera fólk hans og Guð sjálfur mun vera hjá þeim, Guð þeirra.“ (Opinberunarbókin 21:3) Þeir verða „herbúðir heilagra,“ jarðneskir fulltrúar ‚borgarinnar elskuðu,‘ himneskrar brúðar Jesú Krists. (Opinberunarbókin 14:1; 20:9; 21:2) Allt verður þetta gerlegt vegna trúar þeirra á úthellt ‚sáttmálablóð‘ Jesú og undirgefni þeirra við konungana og prestana á himnum sem voru Ísrael Guðs meðan þeir voru á jörðinni. — Opinberunarbókin 5:10, NW.
16. (a) Hvað bíður þeirra sem fá upprisu á jörðinni? (b) Hvaða blessun verður við lok þúsund áranna?
16 Hvað um hina dánu sem eru reistir upp á jörðinni? (Jóhannes 5:28, 29) Þeim verður líka boðið að ‚hljóta blessun‘ vegna Jesú, sæðis Abrahams. (1. Mósebók 22:18) Þeir þurfa líka að elska nafn Jehóva, þjóna honum, færa honum velþóknanlegar fórnir og veita honum heilaga þjónustu í bænahúsi hans. Þeir sem gera það ganga inn til hvíldar Guðs. (Jesaja 56:6, 7) Við lok þúsund áranna hefur öllum hinum trúföstu verið lyft upp til mannlegs fullkomleika vegna þjónustu Jesú Krists og 144.000 sampresta hans. Þá verða þeir réttlátir, ekki aðeins lýstir réttlátir sem vinir Guðs. Þeir munu ‚lifna‘ með því að vera leystir algerlega úr fjötrum erfðasyndar og Adamsdauða. (Opinberunarbókin 20:5; 22:2) Hvílík blessun! Frá okkar sjónarhóli núna virðist sem prestsstarf Jesú og hinna 144.000 verði þá fullgert. Blessun hins meiri friðþægingardags hefur verið beitt að fullu. Og Jesús mun ‚selja ríkið Guði föður í hendur.‘ (1. Korintubréf 15:24) Mannkynið gengst undir lokapróf og Satan og illum öndum hans verður endanlega tortímt. — Opinberunarbókin 20:7, 10.
17. Hvað ættum við öll að vera staðráðin í að gera í ljósi þeirrar gleði sem bíður okkar?
17 Hvaða hlutverki, ef nokkru, gegnir hinn ‚eilífi sáttmáli‘ á þeim spennandi tímum sem þá ganga í garð? Við getum ekkert um það sagt. Það sem Jehóva hefur opinberað nú þegar nægir að sinni. Við erum gagntekin lotningu. Hugsaðu þér — að hljóta eilíft líf sem hluti „nýs himins og nýrrar jarðar.“ (2. Pétursbréf 3:13) Megi ekkert verða til þess að draga úr löngun okkar til að erfa þetta fyrirheit. Það verður kannski ekki auðvelt að vera staðfastur. Páll sagði: „Þolgæðis hafið þér þörf, til þess að þér gjörið Guðs vilja og öðlist fyrirheitið.“ (Hebreabréfið 10:36) En munum að hvert það vandamál sem við þurfum að sigrast á og hver sú andstaða sem við þurfum að standast hverfur í skuggann af þeirri gleði sem bíður okkar. (2. Korintubréf 4:17) Megi enginn okkar því vera ‚undanskotsmaður til glötunar.‘ Verum heldur „menn trúarinnar til sáluhjálpar.“ (Hebreabréfið 10:39, Biblían 1912) Megum við öll bera fullt traust til Jehóva, Guðs sáttmálanna, hverju og einu okkar til eilífrar blessunar.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Björgun inn á nýja jörð, 13. kafla, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Skildir þú þetta?
◻ Hverjir hljóta blessun vegna sæðis Abrahams, auk smurðra kristinna manna?
◻ Hvað er líkt með blessun hinna annarra sauða undir nýja sáttmálanum og trúskiptingum undir gamla sáttmálanum?
◻ Hvernig hljóta hinir aðrir sauðir blessun vegna hins meiri friðþægingardags?
◻ Af hverju kallaði Páll nýja sáttmálann ‚eilífan sáttmála‘?
[Rammi á blaðsíðu 31]
Heilög þjónusta í musterinu
Múgurinn mikli tilbiður Guð með smurðum kristnum mönnum í jarðneskum forgarði hins mikla andlega musteris Jehóva. (Opinberunarbókin 7:14, 15; 11:2) Það er engin ástæða til að ætla að þeir séu í aðgreindum forgarði heiðingja. Þegar Jesús var á jörðinni var forgarður ætlaður heiðingjum við musterið. En á guðinnblásnum teikningum af musteri Salómons og musteri Esekíels var enginn forgarður heiðingja. Í Salómonsmusterinu var ytri forgarður þar sem Ísraelsmenn og trúskiptingar tilbáðu saman, jafnt karlar sem konur. Þetta er spádómleg fyrirmynd hins jarðneska forgarðs andlega musterisins þar sem Jóhannes sá mikinn múg veita heilaga þjónustu.
Hins vegar máttu aðeins prestar og levítar fara inn í innri forgarðinn þar sem altarið mikla stóð; aðeins prestarnir máttu fara inn í hið heilaga og enginn nema æðstipresturinn gat farið inn í hið allra helgasta. Við skiljum það svo að innri forgarðurinn og hið heilaga tákni hið sérstaka, andlega ástand smurðra kristinna manna á jörðinni. Og hið allra helgasta táknar sjálfan himininn þar sem smurðir kristnir menn öðlast eilíft líf ásamt himneskum æðstapresti sínum. — Hebreabréfið 10:19, 20.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Í ljósi þeirrar gleði sem bíður okkar skulum við ‚hafa trú til sáluhjálpar.‘