Tjáskipti innan fjölskyldunnar og safnaðarins
„Mál yðar sé ætíð ljúflegt, en salti kryddað.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:6.
1. Hvað sagði Adam þegar Guð leiddi Evu til hans?
„ENGINN maður er eyland . . . Sérhver maður er hluti meginlandsins.“ Svo ritaði athugull fræðimaður fyrir fáeinum öldum. Með orðum sínum var hann einungis að staðfesta það sem skaparinn sagði um Adam: „Eigi er það gott, að maðurinn sé einsamall.“ Adam hafði hæfileika til að tala og átti sér tungumál því að hann hafði gefið öllum dýrunum nöfn, en hann hafði enga aðra mannveru sem hann gat átt tjáskipti við. Engin furða er að hann skyldi hrópa upp yfir sig er Guð leiddi hina undurfögru Evu til hans sem eiginkonu: „Þetta er loks bein af mínum beinum og hold af mínu holdi“! Adam byrjaði því að eiga tjáskipti við aðra manneskju um leið og fyrsta fjölskyldan varð til. — 1. Mósebók 2:18, 23.
2. Hvernig geta óhóflegar setur við sjónvarpið verið til tjóns?
2 Fjölskyldan er kjörinn vettvangur samræðna og skoðanaskipta. Velgengni fjölskyldulífsins veltur meira að segja á þeim. En tjáskipti kosta tíma og viðleitni. Sjónvarpið er einhver mesti tímaþjófur okkar daga. Það getur valdið tjóni á að minnsta kosti tvo vegu. Í annan stað getur það verið svo lokkandi að meðlimir fjölskyldunnar verði sjónvarpssjúklingar og innbyrðis tjáskipti þeirra dvíni stórum. Í hinn stað getur sjónvarpið verið mönnum undankomuleið þegar misskilningur eða sárindi verða. Í stað þess að leysa vandamálin kjósa hjón stundum að steinþegja og horfa á sjónvarpið. Sjónvarpstækið getur þannig komið í veg fyrir nauðsynleg tjáskipti en það er sagt vera helsta sundrunarorsök hjónabandsins. Þeir sem eiga erfitt með að halda sjónvarpsnotkuninni í skefjum ættu að íhuga í alvöru að losa sig algerlega við sjónvarpið. — Matteus 5:29; 18:9.
3. Hvaða gagn hafa sumir haft af því að takmarka sjónvarpsnotkun sína?
3 Reyndar hafa okkur borist bréf hrifinna fjölskyldna sem lýsa þeirri blessun er fylgdi því að draga úr sjónvarpsnotkun eða losa sig alveg við sjónvarpið. Í einu bréfinu sagði: „Við tölum meira hvert við annað . . . nemum Biblíuna meira . . . Við spilum og leikum okkur saman . . . Þjónusta okkar á akrinum hefur aukist á öllum sviðum.“ Eftir að hafa losað sig við sjónvarpið skrifaði önnur fjölskylda: „Bæði spörum við peninga [þau höfðu verið áskrifendur að kapalsjónvarpi] og höfum styrkt fjölskylduböndin og fundið okkur mörg önnur verðug viðfangsefni. Okkur leiðist aldrei.“
Að horfa, tala og hlusta
4. Hvernig geta hjón komið því á framfæri að þau meti hvort annað mikils?
4 Tjáskipti innan fjölskyldunnar eru af mismunandi tagi. Sum eru orðalaus. Það eitt að tvær manneskjur horfi hvor á aðra er ákveðin tegund tjáskipta. Það að vera saman getur tjáð umhyggju. Hjón ættu að forðast það að vera í burtu hvort frá öðru langan tíma í senn, nema það sé óhjákvæmilegt. Hjón geta stuðlað að hamingju hvors annars með því að rækta hið nána samfélag sem þau eiga innan hjónabandsins. Með ástúð en þó virðingu í framkomu hvort við annað, bæði í fjölmenni og einrúmi, og með því að sýna viðeigandi reisn í klæðaburði og háttum, geta þau orðalaust sýnt hve mikils þau meta hvort annað. Hinn vitri konungur Salómon orðaði það þannig: „Uppspretta þín sé blessuð, og gleð þig yfir festarmey æsku þinnar.“ — Orðskviðirnir 5:18.
5, 6. Hvers vegna ættu eiginmenn að vera vakandi fyrir mikilvægi þess að eiga tjáskipti við konur sínar?
5 Tjáskipti kalla einnig á samræður, skoðanaskipti — það að tala hvort við annað, ekki hvort yfir öðru. Þótt konum láti oft betur að tjá tilfinningar sínar en körlum er það engin afsökun fyrir eiginmenn til að þegja. Kristnir eiginmenn ættu að gera sér ljóst að tjáskiptaskortur er stórvandamál í mörgum hjónaböndum, og þeir ættu því að leggja sig í líma við að halda boðskiptaleiðunum opnum. Og það gera þeir ef þeir fara, ásamt eiginkonum sínum, eftir hinum góðu ráðum Páls postula í Efesusbréfinu 5:25-33. Ef eiginmaður á að elska konu sína eins og sinn eigin líkama, þá verður hann að láta sér umhugað um vellíðan og hamingju hennar, ekki aðeins sína eigin. Þar eru góð tjáskipti ómissandi.
6 Eiginmaður ætti ekki að hafa það viðhorf að konan hans hljóti að gera sér ljóst eða giska á að hann meti hana mikils. Hann þarf að fullvissa hana um ást sína. Hann getur sýnt á marga vegu hve mikils hann metur hana — með því að tjá henni ást sína og gefa henni óvæntar gjafir, og eins með því að upplýsa hana fyllilega um þau mál sem kunna að varða hana. Hann þarf líka að tjá konu sinni að hann meti viðleitni hennar mikils, hvort heldur um er að ræða klæðnað hennar og ytra skart, erfiði hennar í þágu fjölskyldunnar eða dyggan stuðning hennar við andlegar athafnir. Auk þess þarf eiginmaður að fara eftir heilræði Péturs postula í 1. Pétursbréfi 3:7 um að ‚búa með konu sinni með skynsemi‘ og lifa sig inn í tilfinningar hennar með því að ræða við hana um öll mál, sem varða þau bæði, og veita henni virðingu sem veikara keri. — Orðskviðirnir 31:28, 29.
7. Hvaða skylda hvílir á eiginkonu í sambandi við tjáskipti við mann sinn?
7 Ef eiginkona á að fara eftir leiðbeiningum Efesusbréfsins 5:22-24 um undirgefni þarf hún einnig að láta sér umhugað um að halda tjáskiptaleiðunum við mann sinn opnum. Hún þarf að sýna eiginmanni sínum djúpa virðingu, bæði í orði og framkomu. Hún ætti aldrei að hegða sér eins og hún sé óháð manni sínum eða virða óskir hans að vettugi. (Efesusbréfið 5:33) Hjón ættu alltaf að eiga trúnaðarsamtöl hvort við annað. — Samanber Orðskviðina 15:22.
8. Hvað verða eiginkonur að vera fúsar til að gera til að halda tjáskiptaleiðunum opnum?
8 Eiginkona ætti enn fremur að varast það að sýna sjálfsmeðaumkun og þjást í þögninni. Ef einhver misskilningur verður milli hennar og manns hennar ætti hún að velja rétta augnablikið til að ræða málið við hann. Þar má draga lærdóm af Ester drottningu. Hún þurfti að vekja athygli eiginmanns síns á máli sem varðaði líf og dauða. Skjót viðbrögð hennar, þó samfara visku og háttvísi, urðu Gyðingum til bjargar. Við skuldum bæði maka okkar og sjálfum okkur að segja frá því ef við höfum verið eða erum særð. Háttvísi og hæfilegt skopskyn getur auðveldað slík tjáskipti. — Esterarbók 4:15–5:8.
9. Hvaða hlutverki gegnir það að hlusta í tjáskiptum?
9 Tjáskipti með orðum skylda báða aðilana einnig til að hlusta hvor á annan — og leggja sig fram um að veita athygli því sem er látið ósagt. Það útheimtir að hlusta með athygli á þann sem talar. Bæði er nauðsynlegt að skynja þær hugsanir sem verið er að tjá og eins og gefa gaum þeim tilfinningum sem að baki liggja, taka eftir hvernig hlutirnir eru sagðir. Oft er eiginmönnum áfátt í því efni og eignkonur þurfa að líða fyrir það að þeir hlusta ekki. Eiginkonur þurfa einnig að sínu leyti að leggja vel við hlustirnar þannig að þær hrapi ekki að ályktunum. „Hinn vitri hlýðir á og eykur lærdóm sinn.“ — Orðskviðirnir 1:5.
Tjáskipti milli foreldra og barna
10. Hvað verða foreldrar að vera fúsir til að gera til að eiga tjáskipti við börn sín?
10 Stundum eiga foreldrar og börn erfitt með að ræða saman og skiptast á skoðunum. Að ‚fræða sveininn um veginn sem hann á að halda‘ kallar á góð tjáskipti. Séu þau í lagi mun það stuðla að því að hann ‚víki ekki af honum á gamals aldri.‘ (Orðskviðirnir 22:6) Þegar foreldrar missa börnin sín út í heiminn má stundum rekja það til þess að tjáskiptaleiðin lokaðist á gelgjuskeiðinu. Sú skylda foreldra að eiga stöðug tjáskipti við börnin sín er undirstrikuð í 5. Mósebók 6:6, 7: „Þessi orð, sem ég legg fyrir þig í dag, skulu vera þér hugföst. Þú skalt brýna þau fyrir börnum þínum og tala um þau, þegar þú ert heima og þegar þú ert á ferðalagi, þegar þú leggst til hvíldar og þegar þú fer á fætur.“ Já, foreldrar verða að eyða tíma með börnum sínum! Þeir verða að vera fúsir til að færa fórnir í þágu barna sinna.
11. Nefndu sumt af því sem foreldrar ættu að koma á framfæri við börn sín.
11 Þið foreldrar verðið að koma því á framfæri við börnin ykkar að Jehóva elskar þau og að þið elskið þau líka. (Orðskviðirnir 4:1-4) Látið þau sjá að þið séuð fús til að fórna eigin þægindum og gamni til að stuðla að hugarfarslegum, tilfinningalegum, líkamlegum og andlegum vexti þeirra. Þar er mikilvægt að foreldrar skilji hugsanagang og tilfinningar barna sinna, það er að segja að þeir geti séð hlutina með þeirra augum. Með því að sýna óeigingjarnan kærleika getið þið foreldrarnir myndað sterkt einingarband við börn ykkar og hvatt þau til að gera ykkur að trúnaðarvinum í stað jafnaldra sinna. — Kólossubréfið 3:14.
12. Hvers vegna ættu börn og unglingar að eiga opinská tjáskipti við foreldra sína?
12 Ykkur börnum og unglingum er líka skylt að eiga opinskáar samræður og skoðanaskipti við foreldra ykkar. Ef þið metið að verðleikum það sem þeir hafa gert fyrir ykkur eigið þið auðveldara með að gera þá að trúnaðarvinum ykkar. Þið þarfnist hjálpar þeirra og stuðnings og það er auðveldara fyrir þá að veita ykkur hann ef þið eruð opinská við þá. Hvers vegna að leita fyrst og fremst ráða hjá jafnöldrum sínum? Þeir hafa trúlega gert lítið fyrir ykkur í samanburði við foreldra ykkar. Þeir hafa engu meiri lífsreynslu en þið, og ef þeir tilheyra ekki söfnuðinum hafa þeir engan raunverulegan áhuga á varanlegri velferð ykkar.
Tjáskipti innan safnaðarins
13, 14. Hvaða meginreglur Biblíunnar kalla á tjáskipti milli kristinna manna?
13 Það er einnig áskorun að halda opnum tjáskiptaleiðunum við bræður þína í söfnuðinum. Við erum alvarlega áminnt um að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar.‘ Til hvers komum við saman? Til að ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ Það kallar á tjáskipti. (Hebreabréfið 10:24, 25) Það er alls engin ástæða til að sækja ekki samkomur þótt einhver móðgi þig. Haltu tjáskiptaleiðunum opnum með því að fylgja leiðbeiningum Jesú í Matteusi 18:15-17. Talaðu við þann sem þér finnst vera valdur að óhamingju þinni.
14 Ef þú ert ósáttur við einhvern af bræðrum þínum skalt þú fara eftir heilræðum Biblíunnar svo sem í Kólossubréfinu 3:13: „Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og [Jehóva] hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.“ Það gefur í skyn samræður og skoðanaskipti en ekki hitt að tala ekki við bróður sinn. Ef þér virðist einhver vera kuldalegur í viðmóti við þig skaltu fara eftir leiðbeiningunum í Matteusi 5:23, 24. Ræddu vandann og reyndu að friðmælast við bróður þinn. Það kallar á kærleika og auðmýkt af þinni hálfu, en þú skuldar sjálfum þér og bróður þínum það að fara eftir heilræðum Jesú.
Heilræði og uppörvun
15. Hvers vegna ættu kristnir menn ekki að láta undir höfuð leggjast að leiðbeina hver öðrum ef þeir eru í aðstöðu til þess?
15 Það kallar einnig á góð tjáskipti að fylgja leiðbeiningum Páls í Galatabréfinu 6:1: „Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.“ Hógværð ætti að fá okkur til að vera þakklát fyrir ábendingar um að okkur hafi orðið á mistök í orðum eða athöfnum. Í raun ættum við öll að hugsa eins og sálmaritarinn Davíð er hann skrifaði: „Sá ráðvandi slái mig, það er elska; hann straffi mig, það er mér viðsmjör á höfði; mitt höfuð skal ei undan færast.“ (Sálmur 141:5, Bi. 1859) Öldungar ættu sér í lagi að skara fram úr í auðmýkt og ekki halda stíft fram eigin viðhorfum heldur vera fúsir til að taka leiðréttingu og hafa hugfast að „vel meint eru vinar sárin.“ — Orðskviðirnir 27:6.
16. Hvers konar leiðbeiningar ættu ungir ræðumenn að þiggja?
16 Það ber vitni um visku og hógværð af hálfu unglinga að leita ráða og leiðsagnar þroskaðra kristinna manna sem líklega geta veitt þeim uppbyggilega aðstoð. Jafnvel öldungar geta þegið slíkt. Til dæmis sagði öldungur nokkur í ræðu að blessunin, sem nefnd er í Opinberunarbókinni 7:16, 17 um að hungra ekki né þyrsta framar, ætti við það sem hinir aðrir sauðir geta hlakkað til í nýja heiminum. Hins vegar hefur verið bent á að þessi ritningarstaður eigi fyrst og fremst við yfirstandandi tíma. (Sjá Revelation — It’s Grand Climax At Hand!, bls. 126-8.) Öldungi í hópi áheyrenda fannst hann eiga að minnast á þetta við hinn, en áður en hann hafði tækifæri til hringdi ræðumaðurinn sjálfur til hans og bað um ábendingar til að bæta ræðu sína. Já, við skulum gera þeim sem vilja hjálpa okkur auðveldara fyrir með því að láta í ljós að okkur langi til að fá ráð. Við skulum ekki vera fyrtin eða viðkvæm úr hófi fram.
17. Hvernig er hægt að uppbyggja bræður sína?
17 Salómon konungur kom fram með meginreglu sem á vel við í þessu sambandi. Hann sagði: „Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.“ (Orðskviðirnir 3:27) Við skuldum bræðrum okkar kærleika. Páll sagði: „Skuldið ekki neinum neitt, nema það eitt að elska hver annan, því að sá, sem elskar náunga sinn, hefur uppfyllt lögmálið.“ (Rómverjabréfið 13:8) Vertu því örlátur á hvatningarorð. Er ungur safnaðarþjónn að flytja sína fyrstu opinberu ræðu? Hrósaðu honum fyrir. Hefur systir lagt sig sérstaklega fram eða skilað einstaklega vel verkefni sínu í guðveldisskólanum? Segðu henni að þú hafir haft ánægju af framlagi hennar. Langflestir bræðra okkar og systra leggja sig fram við að gera sitt besta og það er hvetjandi fyrir þau ef við segjum þeim að við metum það að verðleikum.
18. Hvað væri kærleiksríkt að gera fyrir þann sem sýnir óhóflegt sjálfstraust?
18 En nú má vera að ungur ræðumaður hafi góða hæfileika en geisli frá sér meira sjálfstrausti en hæfir svo ungum manni. Hvað er hægt að gera til að hjálpa honum? Væri það ekki kærleiksríkt ef þroskaður öldungur hrósaði honum fyrir hver þau góð atriði sem hann kom fram með en komi jafnframt með mildilegar ábendingar um það hvernig hann geti sýnt meiri hógværð eftirleiðis? Slík tjáskipti myndu bera vott um bróðurkærleika og hjálpa hinum unga að losna snemma við óheppileg viðhorf, áður en þau verða að rótgróinni venju.
19. Hvers vegna ættu öldungar og fjölskylduhöfuð að leggja sig fram við góð tjáskipti?
19 Öldungar ræða hver við annan innan safnaðarins um það sem er gagnlegt — en forðast auðvitað að tala um trúnaðarmál, til dæmis varðandi dómsmál. Óhóflegt pukur vekur hins vegar upp vantraust og dregur kjark úr mönnum og getur spillt hinum góða anda innan safnaðarins — eða fjölskyldunnar. Öllum finnst til dæmis ánægjulegt að heyra góðar fréttir. Á sama hátt og Páll postuli þráði að miðla andlegum gjöfum, eins ættu öldungarnir að vera áhugasamir um að veita hver öðrum uppbyggjandi vitneskju. — Orðskviðirnir 15:30; 25:25; Rómverjabréfið 1:11, 12.
20. Hvers konar tjáskipti er fjallað um í greininni sem fylgir?
20 Tjáskipti eru lífsnauðsynleg bæði innan kristna safnaðarins og kristinnar fjölskyldu. En þau eru líka ómissandi í boðunarstarfi kristins manns. Í næstu grein fjöllum við um leiðir til að bæta tjáskiptatækni okkar í þessu afarmikilvæga starfi.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig er hægt að yfirstíga algenga hindrun í vegi tjáskipta innan fjölskyldunnar?
◻ Hvað geta hjón gert til að eiga góð tjáskipti hvort við annað?
◻ Hvernig geta foreldrar og börn forðast kynslóðabil?
◻ Hvernig geta góð tjáskipti innan safnaðarins og fjölskyldunnar verið uppbyggjandi?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Góð tjáskipti stuðla að heill og hamingju fjölskyldunnar.