-
Hann var Guði þóknanlegurVarðturninn (almenn útgáfa) – 2017 | Nr. 1
-
-
„BURT NUMINN TIL ÞESS AÐ HANN SKYLDI EKKI DEYJA“
Hvernig lauk ævi Enoks? Það má segja að það hvíli enn meiri leyndardómur yfir dauða hans en lífshlaupi. Í 1. Mósebók segir einfaldlega: „Enok gekk með Guði, þá hvarf hann því að Guð tók hann.“ (1. Mósebók 5:24) Hvernig tók Guð Enok? Páll postuli sagði síðar: „Fyrir trú var Enok burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja eins og ritað er: ,Ekki var hann framar að finna af því að Guð hafði numið hann burt.‘ Áður en hann var burt numinn hafði hann fengið þann vitnisburð ,að hann hefði verið Guði þóknanlegur‘.“ (Hebreabréfið 11:5) Hvað átti Páll við með orðunum „burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja“? Sumar biblíuþýðingar orða það þannig að Guð hafi tekið Enok til himna. En það getur ekki verið því að í Biblíunni kemur fram að Jesús Kristur hafi verið sá fyrsti sem var reistur upp til himna. – Jóhannes 3:13.
Hvernig var Enok þá „burt numinn til þess að hann skyldi ekki deyja“? Líklega sá Jehóva Guð til þess að Enok dæi á sársaukalausan hátt. En áður en það gerðist fékk hann þann vitnisburð að „hann hefði verið Guði þóknanlegur“. Hvernig þá? Vera má að Enok hafi fengið sýn frá Guði rétt áður en hann dó þar sem hann fékk að sjá jörðina sem paradís og síðan hafi hann sofnað dauðasvefni fullviss um velþóknun Jehóva. Páll postuli skrifaði um Enok og aðra trúfasta menn og konur: „Allir þessir menn dóu í trú.“ (Hebreabréfið 11:13) Óvinir Enoks hafa ef til vill leitað að honum en „ekki var hann framar að finna“. Kannski lét Jehóva líkama hans hverfa svo að þeir gætu ekki vanhelgað hann eða notað í tengslum við falstrúariðkun.b
Með þessi rök Biblíunnar í huga skulum við reyna að ímynda okkur hvernig ævi Enoks gæti hugsanlega hafa endað. Skoðum einn möguleika: Sjáðu Enok fyrir þér þar sem hann er á hlaupum. Hann er alveg að gefast upp. Ofsækjendurnir eru á hælum hans og reiðin ólgar í þeim yfir dómsboðskapnum. Enok finnur stað þar sem hann getur falið sig og hvílst um stund. En hann veit að hann getur ekki falið sig lengi. Hans bíður hræðilegur dauðdagi. Hann biður til Guðs á meðan hann kastar mæðinni. Þá kemur ólýsanlegur friður yfir hann. Hann sér sýn sem er svo ljóslifandi að það er eins og hann sé kominn þangað.
Ímyndaðu þér að það opnast fyrir honum sýn inn í heim sem er gerólíkur þeim sem hann þekkir. Hann er jafn fallegur og Edengarðurinn en þar eru engir kerúbar sem hamla mönnum inngöngu. Þar er fjöldi karla og kvenna, öll geislandi af æsku og lífsþrótti. Friður ríkir og hvergi örlar á því hatri og trúarofsóknum sem Enok þekkir allt of vel. Hann finnur að Jehóva hefur velþóknun á honum og elskar hann. Hann er fullviss um að þarna eigi hann að vera og eigi eftir að búa. Hann fyllist smám saman friði, lokar augunum og sofnar djúpum draumlausum svefni.
Og hann sefur enn dauðasvefninum – geymdur í ótakmörkuðu minni Jehóva Guðs. Eins og Jesús gaf loforð um rennur upp sá dagur að allir sem eru í minni Guðs heyra raust Krists og rísa upp til lífs á ný. Þeir vakna í fallegum og friðsælum nýjum heimi. – Jóhannes 5:28, 29.
-
-
Hann var Guði þóknanlegurVarðturninn (almenn útgáfa) – 2017 | Nr. 1
-
-
b Á svipaðan hátt tryggði Guð líklega að menn fyndu ekki líkama Móse og Jesú svo að þeir gætu ekki vanhelgað þá. – 5. Mósebók 34:5, 6; Lúkas 24:3-6; Júdasarbréfið 9.
-