Fordæmir þú heiminn með trú þinni?
„Fyrir trú . . . smíðaði [Nói] örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn.“ — HEBREABRÉFIÐ 11:7.
1, 2. Hvað getum við lært af því að virða fyrir okkur ævi og störf Nóa?
JEHÓVA veitti Nóa og fjölskyldu hans — aðeins átta manns — þau sérréttindi að vera einu mennirnir sem lifðu af flóðið. Allir aðrir samtíðarmenn Nóa fórust þegar Guð lét flóðið steypast yfir heiminn. Þar eð Nói er forfaðir okkar allra ættum við að vera mjög þakklát fyrir þá trú sem hann sýndi.
2 Við getum margt lært af því að virða fyrir okkur líf og störf Nóa. Ritningin segir okkur hvers vegna Guð veitti honum hjálpræði ásamt fjölskyldu sinni en útrýmdi öllum öðrum af hans kynslóð. Af þessari innblásnu frásögn frá Guði kemur einnig greinilega fram að okkar kynslóð á áþekkan dóm Guðs í vændum. Um það sagði Jesús: „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.“ (Matteus 24:21) Með því að líkja eftir trú Nóa getum við átt von um að lifa af hina yfirvofandi tortímingu þess illa heims sem nú er. — Rómverjabréfið 15:4; samanber Hebreabréfið 13:7.
3. Hvers vegna lét Jehóva flóðið koma?
3 Þau 1656 ár, sem liðu frá sköpun Adams fram til flóðsins, hneigðust afar fáir til góðs lífernis. Siðferði hrapaði niður á mjög lágt stig. „[Jehóva] sá, að illska mannsins var mikil á jörðinni og . . . allar hugrenningar hjarta hans voru ekki annað en illska alla daga.“ (1. Mósebók 6:5) Ofbeldi, nautnasýki og nærvera holdgaðra engla, sem höfðu kvænst konum og eignast afkvæmi er voru risavaxin, stuðlaði að því að Guð fullnægði dómi á þessum forna mannheimi. Jehóva sagði við Nóa: „Endir alls holds er kominn fyrir minni augsýn, því að jörðin er full af glæpaverkum þeirra.“ Þolinmæði skaparans, ‚dómara alls jarðríkis,‘ var á þrotum. — 1. Mósebók 6:13; 18:25.
Nói gekk með Guði
4. (a) Hvernig leit Jehóva á Nóa og hvers vegna? (b) Hvernig birtist kærleikur Guðs gagnvart Nóa og fjölskyldu hans, þótt réttlæti hans krefðist þess að hinum óguðlega heimi væri tortímt?
4 Nói var sannarlega ólíkur samtíðarmönnum sínum. Hann „fann náð í augum [Jehóva]. . . . Nói var maður réttlátur og vandaður á sinni öld. Nói gekk með Guði.“ (1. Mósebók 6:8, 9) Hvernig gekk Nói með Guði? Með því að gera það sem var rétt, svo sem að prédika réttlætið og smíða örk í trú og hlýðni. Þótt heimi fortíðar væri tortímt vegna spillingar sinnar „varðveitti [Guð] Nóa, prédikara réttlætisins, við áttunda mann, er hann lét vatnsflóð koma yfir heim hinna óguðlegu.“ (2. Pétursbréf 2:5) Já, hinn ástríki og réttvísi Guð, Jehóva, eyddi ekki hinum réttlátu með hinum óguðlegu. Hann bauð Nóa að smíða risastóra örk til björgunar sjálfum sér, fjölskyldu sinni og miklum fjölda dýra, þannig að hægt væri að byggja jörðina á ný eftir flóðið. Og Nói „gjörði svo.“ — 1. Mósebók 6:22.
5. Hvernig lýsir Ritningin réttlæti Nóa og trú?
5 Er smíði arkarinnar var lokið sagði Guð Nóa: „Gakk þú og allt fólk þitt í örkina, því að þig hefi ég séð réttlátan fyrir augliti mínu í þessari kynslóð.“ Páll dregur atburðina saman með þessum orðum: „Fyrir trú fékk Nói bendingu um það, sem enn þá var ekki auðið að sjá. Hann óttaðist Guð og smíðaði örk til björgunar heimilisfólki sínu. Með trú sinni dæmdi hann heiminn og varð erfingi réttlætisins af trúnni.“ — 1. Mósebók 7:1; Hebreabréfið 11:7.
6. Hvernig fordæmdi Nói heim samtíðar sinnar með trú sinni?
6 Nói hafði sterka trú. Hann trúði því er Guð sagðist mundu afmá þá kynslóð. Nói hafði heilnæman ótta við að misþóknast Jehóva og hlýddi honum með því að smíða örk samkvæmt fyrirmælum Guðs. Sem prédikari réttlætisins sagði hann einnig öðrum frá hinni yfirvofandi eyðingu. Þótt þeir gæfu orðum hans ekki gaum neitaði hann að láta hinn illa heim ‚þrengja sér í sitt mót.‘ (Rómverjabréfið 12:2, Phillips) Með trú sinni fordæmdi Nói heiminn fyrir óguðleika sinn og sýndi fram á að hann verðskuldaði eyðingu. Hlýðni hans og réttlátar athafnir sýndu að aðrir, auk hans og fjölskyldu hans, hefðu getað lifað af ef þeir hefðu viljað breyta um lífsstefnu. Nói sýndi ljóslega fram á að hægt væri að lifa lífinu eins og Guði þóknaðist, þrátt fyrir álag hins ófullkomna holds, hins illa mannheims umhverfis og djöfulsins.
Hvers vegna Guð mun eyða þessu heimskerfi
7. Hvernig vitum við að við lifum síðustu daga?
7 Með hverjum áratug sem líður sekkur heimur nútímans dýpra í guðleysið. Svo hefur verið einkum frá upphafi fyrri heimsstyrjaldarinnar. Mannkynið er svo djúpt sokkið í siðleysi, glæpi, ofbeldi, hernað, hatur, ágirnd og misnotkun blóðs að unnendur réttlætisins eiga erfitt með að ímynda sér að ástandið geti versnað úr þessu. En Biblían sagði fyrir að þessi mikla vonska myndi magnast og versna á dögum okkar kynslóðar sem er enn ein sönnun þess að við lifum „á síðustu dögum.“ — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Matteus 24:34.
8. Hvað hafa sumir sagt um syndina?
8 Þorri manna er þeirrar skoðunar núorðið að ekki sé til neitt sem heitir synd. Fyrir meira en fjórum áratugum sagði Píus páfi XII: „Synd þessarar aldar er missir allrar syndarvitundar.“ Okkar kynslóð viðurkennir ekki hugtökin synd eða sekt. Í bók sinni Whatever Became of Sin? (Hvað er orðið af syndinni?) segir dr. Karl Menninger: „Orðið ‚synd‘ . . . er næstum horfið — bæði sjálft orðið og hugtakið. Hvers vegna? Eru allir hættir að syndga?“ Margir hafa glatað hæfni sinni til að greina rétt frá röngu. Það kemur okkur þó ekki á óvart því að Jesús sagði fyrir slíka þróun er hann ræddi um ‚tákn nærveru sinnar‘ á ‚endalokatímanum.‘ — Matteus 24:3; Daníel 12:4.
Fyrirmynd dómsins gefin á dögum Nóa
9. Hvernig líkti Jesús því sem gerast myndi við nærveru hans við daga Nóa?
9 Jesús stillti upp sem hliðstæðum atburðunum á dögum Nóa og því sem myndi gerast er hann yrði nærverandi sem konungur Guðsríkis frá árinu 1914. Hann sagði: „Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins. Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina. Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.“ — Matteus 24:37-39.
10. Hvaða afstöðu hefur fólk almennt til þeirra atburða sem eru tengdir nærveru Krists?
10 Fólk gefur engan gaum nú á dögum frekar en var á dögum Nóa. Það er mjög upptekið af hinu daglega lífi og eigingjörnum hugðarefnum og vill ekki horfast í augu við þá staðreynd að núverandi ástand mála sé í veigamiklum atriðum ólíkt því sem áður hefur verið, og svari nákvæmlega til þess sem Jesús sagði myndu einkenna tíma endalokanna. Í mörg ár hafa vottar Jehóva sagt sinni kynslóð frá því að Jesús hafi byrjað að ríkja á himnum sem Messíasarkonungur árið 1914 og að nú standi yfir ‚endalok heimskerfisins.‘ (Matteus 24:3) Flestir gera gys að boðskapnum um Guðsríki en jafnvel það var búið að segja fyrir. Pétur postuli skrifaði: „Þetta skuluð þér þá fyrst vita, að á hinum síðustu dögum munu koma spottarar er stjórnast af eigin girndum og segja með spotti: ‚Hvað verður úr fyrirheitinu um komu hans? Því að frá því feðurnir sofnuðu stendur allt við sama eins og frá upphafi veraldar.‘“ — 2. Pétursbréf 3:3, 4.
11. Hvers vegna verður núverandi kynslóð án afsökunar þegar þrengingin mikla skellur á?
11 Okkar kynslóð mun þó vera án afsökunar þegar þrengingin mikla skellur á. Hvers vegna? Vegna þess að Biblían geymir frásögur af dómum Guðs til forna sem eru fyrirmynd þess sem Guð mun gera á okkar dögum. (Júdasarbréfið 5-7) Þeir biblíuspádómar, sem eru að uppfyllast fyrir augum þeirra, sýna svo ekki verður um villst hvar við stöndum í aldanna rás. Þessi kynslóð hefur líka fyrir augum sér prédikun votta Jehóva og ráðvendni þeirra sem líkist ráðvendni Nóa.
12. Lýstu í stuttu máli hvernig Pétur ber saman eyðinguna á dögum Nóa og þá eyðingu sem koma mun yfir ‚þá himna, sem nú eru ásamt jörðinni.‘
12 Pétur skýrir nánar hvernig fara muni fyrir þeim sem ekki gefa þessum staðreyndum gaum. Líkt og Jesús gerir postulinn það með því að vísa til þess sem gerðist á dögum Nóa. Hann segir: „Viljandi gleyma þeir því, að himnar voru til forðum og jörð til orðin af vatni og upp úr vatni fyrir orð Guðs. Þess vegna gekk vatnsflóðið yfir þann heim, sem þá var, svo að hann fórst. En þeir himnar, sem nú eru ásamt jörðinni, geymast eldinum fyrir hið sama orð og varðveitast til þess dags, er óguðlegir menn munu dæmdir verða og tortímast.“ — 2. Pétursbréf 3:5-7.
13. Hvaða ráðum Péturs ber okkur að fylgja í ljósi þeirra þýðingarmiklu atburða sem framundan eru?
13 Við stöndum frammi fyrir þessum áreiðanlega dómi af hendi Guðs og skulum ekki láta spottara blekkja okkur eða hræða. Við þurfum ekki að deila örlögum með þeim. Pétur ráðleggur: „Þar eð allt þetta ferst þannig, hversu ber yður þá ekki að ganga fram í heilagri breytni og guðrækni, þannig að þér væntið eftir og flýtið fyrir komu Guðs dags, en vegna hans munu himnarnir leysast sundur í eldi og frumefnin bráðna af brennandi hita. En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ — 2. Pétursbréf 3:11-13.
Þú getur bjargast með því að líkja eftir trú Nóa
14. Hvaða spurningar geta hjálpað okkur að skoða stöðu okkar grandgæfilega?
14 Við nútímamenn stöndum frammi fyrir sömu áskorunum og Nói og fjölskylda hans er við leitumst við að hljóta og varðveita von um björgun. Líkt og Nói fordæma vottar Jehóva heiminn með trú sinni og styðja hana góðum verkum. En eitt og sérhvert okkar getur spurt sig: ‚Hvernig stend ég? Myndi Guð dæma mig verðugan björgunar ef þrengingin mikla kæmi á morgun? Hef ég, líkt og Nói, sem var „réttlátur og vandaður á sinni öld,“ hugrekki til að vera ólíkur heiminum, eða er stundum erfitt að gera greinarmun á mér og manni úr heiminum vegna þess hvernig ég hegða mér, tala eða klæðist?‘ (1. Mósebók 6:9) Jesús sagði um lærisveina sína: „Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.“ — Jóhannes 17:16; samanber 1. Jóhannesarbréf 4:4-6.
15. (a) Hvernig ættum við, samkvæmt 1. Pétursbréfi 4:3, 4, að líta á hinn veraldlega hugsunarhátt og hegðun sem við tömdum okkur áður? (b) Hvað ættum við að gera ef fyrrverandi vinir okkar í heiminum gagnrýna okkur?
15 Pétur segir: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun. Nú furðar þá, að þér hlaupið ekki með þeim út í hið sama spillingardíki; og þeir hallmæla yður.“ (1. Pétursbréf 4:3, 4) Þeir vinir, sem þú áttir áður í heiminum, hallmæla þér kannski fyrir að þú skulir ganga með Guði en ekki lengur hlaupa með þeim. En þú getur, líkt og Nói, fordæmt þá með trú þinni og góðum verkum sem þú vinnur með hógværð. — Míka 6:8.
16. Hvernig leit Guð á Nóa og hvaða spurningar geta hjálpað okkur að skoða með gagnrýni hugsanir okkar og hátterni?
16 Guð leit á Nóa sem réttlátan mann. Hinn trúi ættfaðir „fann náð í augum [Jehóva].“ (1. Mósebók 6:8) Finnst þér, þegar þú rannsakar hugsanir þínar og hátterni í ljósi staðla Guðs, að hann hafi velþóknun á því sem þú gerir og öllum þeim stöðum sem þú kemur á? Leyfir þú þér að koma nálægt því spillta skemmtanalífi sem er svo útbreitt núna? Orð Guðs segir að við ættum að hugsa um það sem er hreint, heilnæmt og uppbyggjandi. (Filippíbréfið 4:8) Ert þú ötull við nám í orði Guðs til að geta ‚tamið skilningarvit þín til að greina rétt frá röngu‘? (Hebreabréfið 5:14) Hafnar þú slæmum félagsskap og metur mikils samfélagið við trúbræður þína á kristnum samkomum og við önnur tækifæri? — 1. Korintubréf 15:33; Hebreabréfið 10:24, 25; Jakobsbréfið 4:4.
17. Hvernig getum við, sem erum vottar Jehóva, líkt eftir Nóa?
17 Eftir að hafa sagt frá smíði arkarinnar segir Ritningin: „Nói gjörði svo. Allt gjörði hann eins og Guð bauð honum.“ (1. Mósebók 6:22) Þessi guðrækni maður var einnig kostgæfur við að prédika sem vottur um Jehóva. Þú getur, líkt og Nói, verið baráttumaður þess sem rétt er með því að prédika réttlætið á reglulegum grundvelli. Haltu áfram að láta hljóma aðvörun Guðs um endalok þessa óguðlega heims, jafnvel þótt fáir hlusti. Haltu áfram að vinna með trúbræðrum þínum þannig að því starfi að gera menn að lærisveinum megi ljúka áður en endirinn kemur. — Matteus 28:19, 20.
18. Á hvaða grundvelli úrskurðar Jehóva hverjir skulu lifa af þrenginguna miklu?
18 Guð fylgir núna sömu réttlátu stöðlunum og hann fylgdi á dögum Nóa til að ákvarða hver skuli lifa og hver skuli farast í þrengingunni miklu. Jesús líkti aðgreiningarstarfi nútímans við það hvernig fjárhirðir skilur sauði frá geitum. (Matteus 25:31-46) Fólk sem lætur líf sitt snúast um eigingjarnar langanir og hugðarefni vill ekki að hinn gamli heimur líði undir lok. Það mun ekki lifa af. Þeir sem forðast spillingu þessa heims, varðveita sterka trú á Guð og halda áfram að prédika boðskapinn um Guðsríki og vara við hinum komandi dómsdegi Jehóva, munu njóta hylli Guðs og lifa af. Jesús sagði: „Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn. Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.“ — Matteus 24:40, 41; 2. Þessaloníkubréf 1:6-9; Opinberunarbókin 22:12-15.
Erfðu blessunina með Nóa
19. Hvaða samansöfnun á okkar tímum sáu Jesaja og Míka fyrir?
19 Í hliðstæðum spádómum lýstu spámennirnir Jesaja og Míka báðir því sem gerast myndi á síðustu dögum. Þeir sáu fyrir það sem við sjáum rætast nú á dögum — réttsinnað fólk streyma út úr hinum gamla heimi og ganga upp á hið táknræna fjall þar sem sönn guðsdýrkun fer fram. Um leið bjóða þeir öðrum: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ (Jesaja 2:2, 3; Míka 4:1, 2) Gengur þú með þessum glaða mannsöfnuði?
20. Hvaða blessunar munu þeir menn njóta sem fordæma heiminn með trú sinni?
20 Jesaja og Míka lýsa einnig hvaða blessunar þeir sem fordæma heiminn með trú sinni njóta. Meðal þeirra ríkir sannur friður og réttvísi. Þeir temja sér ekki hernað framar. Þeir eiga þá traustu von að hljóta arf frá Jehóva og munu hver og einn „búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré.“ Hver maður verður þó að taka eindregna ákvörðun því að Míka bendir á að um tvo möguleika sé að velja. Hann segir: „Því að allar þjóðirnar ganga hver í nafni síns guðs, en vér göngum í nafni [Jehóva], Guðs vors, æ og ævinlega.“ — Míka 4:3-5; Jesaja 2:4.
21. Hvernig getur þú öðlast þá blessun að öðlast eilíft líf á jörðinni?
21 Biblían dregur ekki dul á það hvers sé krafist af þeim sem vilja lifa af þrenginguna miklu: sterkrar trúar. Nói hafði slíka trú. Hefur þú hana líka? Ef þú gerir það munt þú verða „erfingi réttlætisins af trúnni“ eins og hann. (Hebreabréfið 11:7) Nói lifði af þá eyðingu sem Guð lét koma yfir hans kynslóð. Bæði lifði hann í 350 ár eftir flóðið og eins mun hann hljóta upprisu og eiga von um eilíft líf á jörð. Það er ríkuleg blessun! (Hebreabréfið 11:13-16) Þú getur öðlast hlutdeild í þeirri blessun með Nóa, fjölskyldu hans og milljónum annarra manna sem unna réttlætinu. Hvernig? Með því að vera þolgóður allt til enda og fordæma heiminn með trú þinni.
Manst þú?
◻ Hvers vegna er mikilvægt fyrir kristna menn að kynna sér vel ævi og störf Nóa?
◻ Hverju gefa menn af þessari kynslóð engan gaum og hvaða afleiðingar hefur það?
◻ Hvernig getum við fordæmt þennan heim líkt og Nói?
◻ Hvernig getum við verið prédikarar réttlætisins, líkt og Nói?