Bregstu við fyrirheitum Guðs með því að iðka trú
„[Jehóva Guð] hefur . . . veitt oss hin dýrmætu og háleitu fyrirheit.“ — 2. PÉTURSBRÉF 1:4.
1. Hvað gerir okkur kleift að iðka sanna trú?
JEHÓVA vill að við iðkum trú á fyrirheit hans. En „ekki er trúin allra.“ (2. Þessaloníkubréf 3:2) Þessi eiginleiki er ávöxtur heilags anda Guðs eða starfskraftar. (Galatabréfið 5:22, 23) Þess vegna geta þeir einir iðkað trú sem láta leiðast af anda Jehóva.
2. Hvernig skilgreinir Páll postuli „trú“?
2 En hvað er trú? Páll postuli kallar hana ‚sannfæringu um þá hluti sem eigi er auðið að sjá.‘ Vitnisburðurinn um þessa óséðu hluti er svo sterkur að trú er lögð að jöfnu við hann. Trú er líka sögð vera „fullvissa um það, sem menn vona“ vegna þess að þeir sem hafa þennan eiginleika til að bera hafa tryggingu fyrir því að allt sem Jehóva Guð hefur heitið sé svo áreiðanlegt að það sé svo gott sem uppfyllt. — Hebreabréfið 11:1.
Trú og fyrirheit Jehóva
3. Hvað munu smurðir kristnir menn fá að reyna ef þeir iðka trú?
3 Til að þóknast Jehóva verðum við að iðka trú á fyrirheit hans. Pétur postuli sýndi það í hinu síðara innblásna bréfi sínu sem var skrifað um árið 64. Hann benti á að ef smurðir, kristnir meðbræður hans iðkuðu trú myndu þeir sjá „hin dýrmætu og háleitu fyrirheit“ Guðs rætast. Þar af leiðandi myndu þeir „verða hluttakendur í guðlegu eðli“ sem samerfingjar Jesú Krists í ríkinu á himnum. Með trú og hjálp Jehóva Guðs höfðu þeir sloppið úr þrælkun hinna spilltu siða og hátternis heimsins. (2. Pétursbréf 1:2-4) Og hugsaðu þér! Þeir sem iðka sanna trú njóta þessa sama, ómetanlega frelsis nú á dögum.
4. Hvaða eiginleika ættum við að auðsýna í trú okkar?
4 Trú á fyrirheit Jehóva og þakklæti fyrir frelsið, sem Guð hefur gefið, ætti að koma okkur til að gera okkar ítrasta til að verða til fyrirmyndar sem kristnir menn. Pétur sagði: „Leggið þess vegna alla stund á að auðsýna í trú yðar dyggð, í dyggðinni þekkingu, í þekkingunni sjálfsögun, í sjálfsöguninni þolgæði, í þolgæðinu guðrækni, í guðrækninni bróðurelsku og í bróðurelskunni kærleika.“ (2. Pétursbréf 1:5-7) Pétur telur þannig upp marga eiginleika sem væri skynsamlegt af okkur að leggja á minnið. Við skulum líta nánar á þessa eiginleika.
Nauðsynlegir þættir trúar
5, 6. Hvað er dyggð og hvernig getum við auðsýnt hana í trú okkar?
5 Pétur sagði að við ættum að auðsýna dyggð, þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika hvert með öðru og í trú okkar. Við verðum að vinna kappsamlega að því að gera þessa eiginleika að nauðsynlegum þáttum trúar okkar. Við látum til dæmis ekki í ljós dyggð óháð trú. Orðabókarhöfundurinn W. E. Vine bendir á að í 2. Pétursbréfi 1:5 sé „dyggð fyrirskipuð sem nauðsynlegur eiginleiki í iðkun trúarinnar.“ Hver og einn hinna eiginleikanna, sem Pétur nefndi, er líka þáttur í trú okkar.
6 Fyrst verðum við að auðsýna dyggð í trú okkar. Að vera dyggðugur merkir að gera það sem er gott í augum Guðs. Sumar biblíuþýðingar nota orðið „góðsemi“ fyrir gríska orðið sem hér er þýtt „dyggð.“ (New International Version; The Jerusalem Bible; Today’s English Version) Dyggð örvar okkur til að forðast að gera eitthvað rangt eða valda öðrum tjóni. (Sálmur 97:10) Hún hvetur líka til hugrekkis í því að gera öðrum gott andlega, líkamlega og tilfinningalega.
7. Hvers vegna ættum við að auðsýna þekkingu í trú okkar og dyggð?
7 Hvers vegna hvetur Pétur okkur til að auðsýna þekkingu í trú okkar og dyggð? Þegar við stöndum frammi fyrir nýjum áskorunum á trú okkar þörfnumst við þekkingar til að greina rétt frá röngu. (Hebreabréfið 5:14) Við aukum þekkingu okkar með biblíunámi og reynslu í því að heimfæra orð Guðs, og með því að sýna raunhæfa visku í daglegu lífi. Það gerir okkur síðan kleift að viðhalda trú okkar og halda áfram að gera það sem er dyggðugt þegar við lendum í prófraunum. — Orðskviðirnir 2:6-8; Jakobsbréfið 1:5-8.
8. Hvað er sjálfsögun og hvernig er hún tengd þolgæði?
8 Til að hjálpa okkur að sýna trú í prófraunum þurfum við að auðsýna sjálfsögun í þekkingu okkar. Gríska orðið, sem þýtt er „sjálfsögun,“ merkir það að geta tekið sjálfan sig taki. Þessi ávöxtur anda Guðs hjálpar okkur að hafa hemil á okkur í hugsun, orði og hegðun. Með því að vera þrautseig í því að iðka sjálfsögun bætum við þolgæði við hana. Gríska orðið fyrir „þolgæði“ merkir hugrakka staðfestu, ekki það að sætta sig döpur í bragði við óumflýjanlega erfiðleika. Það var vegna þeirrar gleði, sem beið Jesú, að hann leið þolinmóðlega á kvalastaurnum. (Hebreabréfið 12:2) Styrkur frá Guði samfara þolgæði eflir trú okkar og hjálpar okkur að fagna í þrengingum, standast freistingar og forðast eftirgjöf þegar við erum ofsótt. — Filippíbréfið 4:13.
9. (a) Hvað er guðrækni? (b) Hvers vegna ættum við að auðsýna bróðurelsku í guðrækni okkar? (c) Hvernig getum við auðsýnt kærleika í bróðurelsku okkar?
9 Í þolgæði okkar verðum við að auðsýna guðrækni — lotningu, tilbeiðslu og þjónustu við Jehóva. Trú okkar vex þegar við ástundum guðrækni og sjáum hvernig Jehóva á samskipti við þjóna sína. En til að láta í ljós guðrækni þarf bróðurelsku. Þegar allt kemur til alls getur „sá sem elskar ekki bróður sinn, sem hann hefur séð, . . . ekki elskað Guð, sem hann hefur ekki séð.“ (1. Jóhannesarbréf 4:20) Hjörtu okkar ættu að knýja okkur til að sýna öðrum þjónum Jehóva sannan hlýhug og stuðla ætíð að velferð þeirra. (Jakobsbréfið 2:14-17) En hvers vegna er okkur sagt að auðsýna kærleika í bróðurelsku okkar? Pétur átti greinilega við það að við verðum að sýna öllu mannkyni kærleika, ekki bara bræðrum okkar. Þennan kærleika sýnum við sérstaklega með því að prédika fagnaðarerindið og hjálpa fólki andlega. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
Andstæð áhrif
10. (a) Hvernig komum við fram ef við auðsýnum dyggð, þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika í trú okkar? (b) Hvað gerist ef þann sem játar kristna trú skortir þessa eiginleika?
10 Ef við auðsýnum dyggð, þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika í trú okkar munum við hugsa, tala og hegða okkur á þann hátt sem er Guði þóknanlegt. Á hinn bóginn verður sá sem játar kristna trú andlega blindur ef hann lætur hjá líða að sýna þessa eiginleika. Hann „er blindur í skammsýni sinni“ fyrir ljósinu frá Guði og gleymir að hann hefur verið hreinsaður af syndum fortíðarinnar. (2. Pétursbréf 1:8-10; 2:20-22) Við skulum aldrei bregðast á þann hátt og missa þar með trú á fyrirheit Guðs.
11. Hvers getum við réttilega vænst af drottinhollum smurðum einstaklingum?
11 Drottinhollir, smurðir kristnir menn hafa trú á fyrirheit Jehóva og leggja sig fram við að gera köllun sína og útvalningu vissa. Við megum vænta þess að þeir sýni guðrækilega eiginleika þrátt fyrir hverjar þær hindranir sem kunna að vera í götu þeirra. Trúföstum, smurðum kristnum mönnum mun „ríkulega veitast inngangur í hið eilífa ríki . . . Jesú Krists“ vegna upprisu þeirra til andlegs lífs á himnum. — 2. Pétursbréf 1:11.
12. Hvernig eigum við að skilja orðin í 2. Pétursbréfi 1:12-15?
12 Pétri var ljóst að hann myndi deyja bráðlega og vænti þess að verða um síðir reistur upp til lífs á himnum. En svo lengi sem hann var lifandi í „þessari tjaldbúð“ — mannslíkama sínum — reyndi hann að byggja upp trú meðbræðra sinna og ýta við þeim með því að minna þá á það sem þyrfti til að hafa hylli Guðs. Eftir burtför Péturs í dauðanum gætu andlegir bræður hans og systur styrkt trú sína með því að rifja upp orð hans. — 2. Pétursbréf 1:12-15.
Trú á spádómsorðið
13. Hvernig gaf Guð trústyrkjandi vitnisburð um komu Krists?
13 Guð hafði sjálfur gefið trústyrkjandi vitnisburð um að Jesús myndi örugglega koma „með mætti og mikilli dýrð.“ (Matteus 24:30; 2. Pétursbréf 1:16-18) Heiðnir prestar sögðu uppspunnar ævintýrasögur af guðum sínum, enda skorti þá sannanir, en Pétur, Jakob og Jóhannes voru sjónarvottar að mikilfengleik Krists í ummynduninni. (Matteus 17:1-5) Þeir sáu hann gerðan dýrlegan og heyrðu Guðs eigin rödd viðurkenna Jesú sem elskaðan son sinn. Þessi viðurkenning og sú ljómandi ásýnd, sem Kristur fékk þá, veitti honum heiður og dýrð. Vegna þessarar opinberunar Guðs kallaði Pétur staðinn, sem sennilega var á fjallsrana út úr Hermonfjalli, ‚fjallið helga.‘ — Samanber 2. Mósebók 3:4, 5.
14. Hvaða áhrif ætti ummyndun Jesú að hafa á trú okkar?
14 Hvaða áhrif ætti ummyndun Jesú að hafa á trú okkar? Pétur sagði: „Enn þá áreiðanlegra er oss því nú hið spámannlega orð. Og það er rétt af yður að gefa gaum að því eins og ljósi, sem skín á myrkum stað, þangað til dagur ljómar og morgunstjarna rennur upp í hjörtum yðar.“ (2. Pétursbréf 1:19) „Hið spámannlega orð“ fól að því er virðist ekki bara í sér spádóma Hebresku ritninganna um Messías heldur líka fullyrðingu Jesú um að hann myndi koma „með mætti og mikilli dýrð.“ Hvernig gerði ummyndunin orðið „enn þá áreiðanlegra“? Þessi atburður staðfesti spádómsorðið um dýrlega komu Krists í mætti Guðsríkis.
15. Hvað er fólgið í því að gefa gaum að hinu spámannlega orði?
15 Við verðum að gefa gaum að hinu spámannlega orði til að styrkja trú okkar. Það felur í sér að nema þetta orð, ræða það á kristnum samkomum og heimfæra heilræði þess. (Jakobsbréfið 1:22-27) Við verðum að láta það vera ‚ljós sem skín á myrkum stað‘ og upplýsir hjörtu okkar. (Efesusbréfið 1:18) Þá aðeins mun það vísa okkur veginn uns ‚morgunstjarnan,‘ „stjarnan skínandi,“ Jesús Kristur, opinberar sig í dýrð. (Opinberunararbókin 22:16) Sú opinberun mun þýða eyðingu fyrir hina trúlausu og blessun fyrir þá sem iðka trú. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-10.
16. Hvers vegna getum við haft trú á að öll hin spádómlegu fyrirheit í orði Guðs muni rætast?
16 Spámenn Guðs voru ekki bara skarpskyggnir menn sem komu með viturlegar spár því að Pétur sagði: „Enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns, heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.“ (2. Pétursbréf 1:20, 21) Til dæmis sagði Davíð: „Andi [Jehóva] talaði í mér og hans orð er á minni tungu.“ (2. Samúelsbók 23:1, 2) Og Páll skrifaði: „Sérhver ritning er innblásin af Guði.“ (2. Tímóteusarbréf 3:16) Þar eð spámenn Guðs voru innblásnir af anda hans getum við trúað að öll fyrirheit í orði hans rætist.
Þeir trúðu fyrirheitum Guðs
17. Hvaða fyrirheiti var trúargrundvöllur Abels?
17 Fyrirheit Jehóva voru trúargrundvöllur þess „fjölda votta“ sem voru uppi fyrir daga kristninnar. (Hebreabréfið 11:1–12:1) Til dæmis hafði Abel trú á fyrirheit Guðs um ‚sæði‘ sem myndi merja höfuð ‚höggormsins.‘ Það lá sönnun fyrir því að dómur Guðs á foreldrum Abels hefði ræst. Utan Eden át Adam og fjölskylda hans brauð í sveita síns andlits vegna þess jörðin var bölvuð og þyrnar og þistlar spruttu á henni. Líklega veitti Abel eftirtekt að Eva hafði löngun til manns síns og sá að Adam drottnaði yfir henni. Hún hlýtur að hafa talað um sársaukann samfara þungun. Og kerúbar og logi hins sveipanda sverðs gættu inngangsins að Edengarðinum. (1. Mósebók 3:14-19, 24) Út frá öllu þessu var það „sannfæring“ Abels að frelsun myndi koma fyrir milligöngu hins fyrirheitna sæðis. Abel sýndi trú og færði Guði fórn sem reyndist vera meira virði en fórn Kains. — Hebreabréfið 11:1, 4.
18, 19. Á hvaða vegu iðkuðu Abraham og Sara trú?
18 Ættfeðurnir Abraham, Ísak og Jakob höfðu líka trú á fyrirheit Jehóva. Abraham iðkaði trú á fyrirheit Guðs þess efnis að allar fjölskyldur jarðar skyldu hljóta blessun vegna hans og að afkvæmi hans yrði gefið land. (1. Mósebók 12:1-9; 15:18-21) Ísak sonur hans og Jakob sonarsonur hans voru „samerfingjar með honum að hinu sama fyrirheiti.“ Vegna trúar „settist hann [Abraham] að í hinu fyrirheitna landi“ og beið „þeirrar borgar, sem hefur traustan grunn,“ himnesks ríkis Guðs en undir stjórn þess yrði hann reistur upp til lífs á jörðinni. (Hebreabréfið 11:8-10) Hefur þú sams konar trú?
19 Eiginkona Abrahams, Sara, var um nírætt og löngu komin af barneignaraldri þegar hún iðkaði trú á fyrirheit Guðs og var gert kleift „að eignast son“ og fæða Ísak. Þannig komu af Abraham, sem var 100 ára gamall og „svo gott sem dauður“ hvað barneignir varðaði, „slík niðja mergð sem stjörnur eru á himni.“ — Hebreabréfið 11:11, 12, NW; 1. Mósebók 17:15-17; 18:11; 21:1-7.
20. Hvað gerðu ættfeðurnir enda þótt þeir sæju ekki fyrirheit Guðs við sig rætast að fullu?
20 Hinir trúföstu ættfeður dóu án þess að sjá fyrirheit Guðs við sig rætast að fullu. Samt sem áður „sáu [þeir fyrirheitin] álengdar og fögnuðu þeim og játuðu, að þeir væru gestir og útlendingar á jörðinni.“ Kynslóðir liðu áður en afkomendur Abrahams eignuðust fyrirheitna landið. Hinir guðhræddu ættfeður iðkuðu samt sem áður trú á fyrirheit Jehóva alla sína ævi. Þar eð þeir misstu aldrei trúna verða þeir bráðlega reistir upp til lífs á jarðnesku yfirráðasvæði ‚borgarinnar‘ sem Guð bjó þeim, Messíasarríkisins. (Hebreabréfið 11:13-16) Á svipaðan hátt getur trú haldið okkur ávallt drottinhollum Jehóva, jafnvel þótt við sjáum ekki öll hin stórkostlegu fyrirheit hans rætast þegar í stað. Trú mun líka koma okkur til að hlýða Guði eins og Abraham gerði. Og líkt og hann gaf afkomendum sínum andlega arfleifð, eins getum við hjálpað börnum okkar að iðka trú á hin dýrmætu fyrirheit Jehóva. — Hebreabréfið 11:17-21.
Trú er nauðsynleg kristnum mönnum
21. Hvað verður að vera innifalið í trúariðkun okkar til að við séum þóknanleg Guði nú á tímum?
21 Trú er að sjálfsögðu meira en það að treysta að fyrirheit Jehóva uppfyllist. Út í gegnum sögu mannkyns hefur verið nauðsynlegt að iðka trú á Guð á ýmsa vegu til að geta notið velþóknunar hans. Páll benti á að „án trúar [sé] ógerlegt að þóknast [Jehóva Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) Til að vera þóknanlegur Jehóva nú á dögum verður einstaklingurinn að iðka trú á Jesú Krist og á lausnarfórnina sem Guð lét í té með honum. (Rómverjabréfið 5:8; Galatabréfið 2:15, 16) Það er eins og Jesús sjálfur sagði: „Því svo elskaði Guð heiminn [mannheiminn], að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum.“ — Jóhannes 3:16, 36.
22. Uppfyllingu hvaða fyrirheita mun Messíasarríkið koma til leiðar?
22 Jesús gegnir þýðingarmiklu hlutverki í uppfyllingu fyrirheita Guðs um ríkið sem kristnir menn biðja um. (Jesaja 9:6, 7; Daníel 7:13, 14; Matteus 6:9, 10) Eins og Pétur sýndi staðfesti ummyndunin spádómsorðið um komu Jesú í mætti og dýrð Guðsríkis. Messíasarríkið mun uppfylla annað fyrirheit Guðs því að Pétur skrifaði: „En eftir fyrirheiti hans væntum vér nýs himins og nýrrar jarðar, þar sem réttlæti býr.“ (2. Pétursbréf 3:13) Svipaður spádómur rættist þegar Gyðingar, sem voru útlægir í Babýlon, fengu að fara heim í land sitt aftur árið 537 f.o.t. undir stjórn þar sem Serúbabel var landstjóri og Jósúa æðsti prestur. (Jesaja 65:17) En Pétur var að vísa til framtíðarinnar þegar ‚nýr himinn‘ — hið himneska Messíasarríki — myndi ríkja yfir ‚nýrri jörð,‘ réttlátu mannfélagi hér á þessum hnetti. — Samanber Sálm 96:1.
23. Hvaða spurningar um dyggð munum við ræða næst?
23 Sem drottinhollir þjónar Jehóva og fylgjendur elskaðs sonar hans, Jesú Krists, þráum við hinn fyrirheitna nýja heim Guðs. Við vitum að hann er nálægur og við höfum trú á að öll hin dýrmætu fyrirheit Jehóva muni rætast. Til að framganga þóknanleg Guði verðum við að styrkja trú okkar með því að auðsýna í henni dyggð, þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika.a Hér má spyrja: Hvernig getum við auðsýnt dyggð? Og hvernig mun dyggð vera sjálfum okkur og öðrum til að góðs, einkum kristnum félögum okkar sem hafa brugðist jákvætt við fyrirheitum Guðs með því að iðka trú?
[Neðanmáls]
a Fjallað er um trú og dyggð í þessu tölublaði Varðturnsins. Rætt verður frekar um þekkingu, sjálfsögun, þolgæði, guðrækni, bróðurelsku og kærleika í síðari tölublöðum.
Hverju svarar þú?
◻ Hvernig má skilgreina „trú“?
◻ Hvaða eiginleika þarf að auðsýna í trú okkar að sögn 2. Pétursbréfs 1:5-7?
◻ Hvaða áhrif ætti ummyndun Jesú að hafa á trú okkar?
◻ Hvaða fordæmi um trú gáfu Abel, Abraham, Sara og aðrir fyrr á tímum?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Veistu hvernig ummyndun Jesú getur haft áhrif á trú einstaklings?