Berum vitni um Jehóva og þreytumst ekki
„Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ — HEBREABRÉFIÐ 12:3.
1, 2. Hvernig sannaði Jesús lærisveinum sínum að hann væri upprisinn?
„ÉG HEF séð Drottin.“ Með þessari óvæntu yfirlýsingu sagði María Magdalena þær fréttir að Jesús væri upprisinn. (Jóhannes 20:18) Næstu 40 dagar voru fullir af spennandi viðburðum fyrir lærisveina Krists sem áður höfðu verið niðurbeygðir vegna dauða hans.
2 Jesús vildi ekki að lærisveinar hans væru í nokkrum vafa um að hann væri í raun og sannleika á lífi. Því segir Lúkas: „Birti [Jesús] sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga.“ (Postulasagan 1:3) Einu sinni birtist hann jafnvel „meira en fimm hundruð bræðrum í einu.“ (1. Korintubréf 15:6) Nú komst enginn efi að lengur. Jesús var á lífi!
3. Hvaða spurningu varðandi Guðsríki lögðu lærisveinar Jesú fyrir hann og hvers vegna kom svar hans þeim á óvart?
3 Á þeim tíma hugsuðu lærisveinar Jesú einungis um jarðneskt „Guðs ríki,“ endurreist handa Ísrael. (Lúkas 19:11; 24:21) Þeir spurðu því Jesú: „Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?“ Vafalaust kom þeim svar hans á óvart því hann sagði: „Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi. En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:6-8) Það var sannarlega krefjandi viðfangsefni sem lærisveinarnir áttu fyrir höndum og mikil ábyrgð lögð þeim á herðar! Hvernig gætu þeir unnið slík stórvirki? Þeir fengu brátt svar við því með óvæntum hætti.
Áskoruninni tekið
4. Lýstu því sem gerðist á hvítasunnudeginum.
4 Lúkas segir: „Þá er upp var runninn hvítasunnudagur, voru þeir allir saman komnir. Varð þá skyndilega gnýr af himni, eins og aðdynjanda sterkviðris og fyllti allt húsið, þar sem þeir voru. Þeim birtust tungur, eins og af eldi væru, er kvísluðust og settust á hvern og einn þeirra. Þeir fylltust allir heilögum anda og tóku að tala öðrum tungum, eins og andinn gaf þeim að mæla.“ Svo mikill var gnýrinn að hann vakti athygli þeirra fjölda Gyðinga sem dvöldust í Jerúsalem vegna hátíðarinnar. Þeir undruðust það að heyra ‚talað á sinni eigin tungu um stórvirki Guðs.‘ — Postulasagan 2:1-11.
5. Í hvaða mæli uppfylltist spá Jesú í Postulasögunni 1:8 innan skamms?
5 Pétur beið ekki boðanna að flytja kröftuga ræðu þar sem hann sannaði svo ekki varð um villst að „Jesús frá Nasaret,“ sem þeir höfðu tekið af lífi, var sá „Drottinn“ sem Davíð hafði spáð um með orðunum: „[Jehóva] sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar, þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.“ Er áheyrendur Péturs heyrðu þetta var sem stungið væri í hjörtu þeirra og þeir spurðu hann: „Hvað eigum vér að gjöra, bræður?“ Pétur svaraði: „Gjörið iðrun, og látið skírast hver og einn í nafni Jesú Krists til fyrirgefningar synda yðar.“ Afleiðingin varð sú að 3000 manns létu skírast! (Postulasagan 2:14-41) Nú þegar var verið að bera vitni í Jerúsalem. Síðar teygði vitnisburðurinn sig út um alla Júdeu, síðan til Samaríu og loks „allt til endimarka jarðarinnar.“ Svo hratt óx prédikun Guðsríkis að um árið 60 gat Páll postuli sagt að fagnaðarerindið hefði verið ‚prédikað fyrir öllu, sem skapað er undir himninum.‘ — Kólossubréfið 1:23.
Vöxtur Guðsríkis og ofsókn
6, 7. (a) Hvernig fylgdust vöxtur Guðsríkis og ofsókn á hendur kristnum mönnum að á fyrstu öldinni? (b) Hvaða aðkallandi þörf kom upp meðal kristinna manna í Jerúsalem og hvernig var henni fullnægt?
6 Það var ekki langt liðið frá hvítasunnunni árið 33 er lærisveinar Jesú höfðu ástæðu til að minnast orða hans: „Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður.“ (Jóhannes 15:20) Leiðtogar Gyðinga voru ævareiðir er „orð Guðs breiddist út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem fór stórum vaxandi.“ Lærisveinninn Stefán var grýttur til bana fyrir falskar sakargiftir. Það virtist vera merkið sem margir biðu eftir því að „á þeim degi hófst mikil ofsókn gegn söfnuðinum í Jerúsalem. Allir dreifðust út um byggðir Júdeu og Samaríu.“ — Postulasagan 6:7; 7:58-60; 8:1.
7 Ofsóknirnar hjöðnuðu aftur um sinn. En skömmu síðar lét Heródes Agrippa I drepa Jakob postula. Pétur var hnepptur í fangelsi en engill hleypti honum út. Síðar komust bræðurnir í Jerúsalem í nauðir fjárhagslega og trúbræður þeirra annars staðar þurftu að senda þeim hjálpargögn. (Postulasagan 9:31; 12:1-11; 1. Korintubréf 16:1-3) Er Páll kom til Jerúsalem var trúarofstækið slíkt að mannfjöldinn æpti: „Burt með slíkan mann af jörðinni! Eigi hæfir, að hann lifi!“ (Postulasagan 22:22) Kristnir menn, sem bjuggu í Jerúsalem og Júdeu, þurftu sannarlega að fá mikla hvatningu til að halda áfram að bera trúfastir vitni um ríki Guðs. Jesús hafði lofað lærisveinunum að „andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni,“ myndi vera ‚hjálpari þeirra.‘ (Jóhannes 14:26) En hvernig myndi faðirinn nú veita þá hjálp og hughreystingu sem þurfti? Það gerði hann meðal annars fyrir milligöngu Páls postula.
Bréf Páls til Hebreanna
8. (a) Hvað fékk Pál til að skrifa bréf sitt til Hebreanna? (b) Að hvaða þætti bréfs hans ætlum við að beina athygli okkar og hvers vegna?
8 Um árið 61 var Páll hnepptur í fangelsi í Róm. Honum var þó kunnugt um það sem dreif á daga bræðra hans í Jerúsalem. Þess vegna skrifaði hann hið tímabæra bréf til Hebreanna undir leiðsögn anda Jehóva. Bréfið er fullt af kærleiksríkri umhyggju fyrir hebreskum bræðrum hans og systrum. Páll vissi hvers þeir þörfnuðust til að byggja upp trú sína og trúartraust á Jehóva sem hjálpara sinn. Þá gætu þeir ‚þreytt þolgóðir skeið það sem þeir áttu framundan‘ og öruggir sagt: „[Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Hebreabréfið 12:1; 13:6) Við ætlum núna að beina athygli okkar að þessum hluta í bréfi Páls til Hebreanna (11.-13. kafla). Hvers vegna? Vegna þess að vottar Jehóva nútímans standa frammi fyrir því sama og þessir frumkristnu menn.
9. Hverju standa kristnir menn frammi fyrir nú á tímum sem bræður þeirra á fyrstu öld gerðu einnig, og hver er eina leiðin til að mæta því?
9 Innan okkar kynslóðar hefur mikill fjöldi manna brugðist jákvætt við boðskap Guðsríkis með því að vígja sig Jehóva og láta skírast sem vottar hans. En samhliða þessum vexti sannrar guðsdýrkunar hafa brotist út heiftarlegar ofsóknir og margir kristnir menn jafnvel týnt lífi líkt og Stefán, Jakob og aðrir trúfastir vottar á fyrstu öld. Við stöndum því frammi fyrir sömu áskorun nú og var þá: Hver mun geta staðist prófun ráðvendni sinnar andspænis þeirri andstöðu sem boðskapur Guðsríkis mætir? Hver mun geta horfst í augu við þá ógnþrungnu viðburði sem verða munu í ‚þrengingunni miklu‘ sem bráðlega kemur yfir núverandi kynslóð, þrenging sem engin hefur þvílík verið fyrr? (Matteus 24:21) Það eru þeir sem eru reiðubúnir til að ‚berjast trúarinnar góðu baráttu,‘ þeir sem eru „stöðugir í trúnni.“ Það eru þeir sem munu geta sagt þegar allt er afstaðið: „Trú vor, hún er sigurinn, hún hefur sigrað heiminn. “ — 1. Tímóteusarbréf 6:12; 1. Pétursbréf 5:9; 1. Jóhannesarbréf 5:4.
Lærum af fordæmi trúfastra manna
10. (a) Hvað er trú? (b) Hvernig leit Guð á karla og konur trúarinnar til forna?
10 Hvað er trú? Páll svarar: „Trúin er fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Fyrir hana fengu mennirnir fyrr á tíðum góðan vitnisburð.“ (Hebreabréfið 11:1, 2) Páll rökstyður síðan skilgreiningu sína á trúnni með því að nefna dæmi um trú að verki. Hann minnist á nokkur æviatriði sumra ‚manna fyrr á tíðum‘ og kvenna líkt og Söru og Rahab. Það er mjög hvetjandi að komast að raun um að ‚Guð skuli ekki blygðast sín fyrir þá, að kallast Guð þeirra‘! (Hebreabréfið 11:16) Getur Guð sagt hið sama um okkur vegna trúar okkar? Megum við aldrei gefa honum neitt tilefni til að fyrirverða sig fyrir okkur.
11. Hvaða gagn getum við haft af þeim ‚fjölda votta sem umkringir okkur‘?
11 Eftir að Páll hefur sagt frá þessum trúföstu körlum og konum segir hann: „Fyrst vér erum umkringdir slíkum fjölda votta, léttum þá af oss allri byrði og viðloðandi synd og þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan.“ (Hebreabréfið 12:1) Eru þessir trúföstu vottar fortíðarinnar lifandi í hugum okkar, þótt þeir séu nú sofandi í gröfinni? Þekkir þú þá og æviatriði þeirra nógu vel til að geta svarað játandi? Það er ein af hinum mörgu umbunum reglulegs biblíunáms, þess að nota öll skilningarvit okkar til að sjá ljóslifandi fyrir okkur hina spennandi lífsreynslu þessa „fjölda votta.“ Það að taka til okkar hið trúfasta fordæmi þeirra mun vera okkur mikil hjálp til að byggja upp sterka trú. Hún hjálpar okkur síðan að bera djarflega og óttalaust vitni um sannleikann undir öllum kringumstæðum. — Rómverjabréfið 15:4.
Þreytumst ekki
12. (a) Hvernig getur fordæmi Jesú hjálpað okkur að ‚þreytast ekki og láta hugfallast‘? (b) Nefndu nokkur nútímadæmi um menn sem hafa ekki gefist upp.
12 Jesús er mesta og besta fordæmi trúar okkar. Páll hvetur: „Þreytum þolgóðir skeið það, sem vér eigum framundan. Beinum sjónum vorum til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. . . . Virðið hann fyrir yður, sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þér þreytist ekki og látið hugfallast.“ (Hebreabréfið 12:1, 3) Hve nákvæmlega hefur þú virt fyrir þér fordæmi Jesú? Hve ákaft hefur þú einblínt á hann? (1. Pétursbréf 2:21) Satan vill að við ‚þreytumst og látum hugfallast.‘ Hann vill að við hættum að bera vitni. Hvernig gerir hann það? Stundum með beinni andstöðu af hendi trúarlegra og veraldlegra yfirvalda eins og var á fyrstu öld. Á síðasta ári var starf Guðsríkis takmörkum háð í um það bil 40 löndum heims. En kom það bræðrum okkar til að þreytast? Nei! Trúfast starf þeirra varð til þess að yfir 17.000 létu skírast í þessum löndum árið 1988. Það ætti að vera mikil hvatning öllum þeim sem búa í löndum þar sem þokkalegt frjálsræði ríkir! Við skulum aldrei þreytast á að prédika fagnaðarerindið um Guðsríki!
13. (a) Hvað gæti einnig komið okkur til að þreytast í prédikunarstarfi okkar? (b) Hver var ‚gleðin sem beið Jesú‘ og hvernig getum við haft sams konar viðhorf?
13 En ýmislegt annað lævíslegra gæti gert okkur þreytt. Þar má nefna andstöðu á trúarlega sundurskiptu heimili, áhyggjur, heilsubrest, þrýsting frá jafnöldrum eða vinnufélögum, kjarkleysi vegna lítils jákvæðs árangurs af prédikun okkar eða þá óþolinmæði vegna þess að endalok þessa heimskerfis eru enn ókomin. Nú, hvað hjálpaði Jesú að þola hugarfarslegar og líkamlegar þjáningar? Það var ‚sú gleði sem beið hans.‘ (Hebreabréfið 12:2) Jesús lét gleðina samfara því að gleðja hjarta föður síns með því að upphefja hann, og vonina um hamingju sína síðar meir er hann myndi miðla stórkostlegum blessunum Messíasarríkisins, halda sér uppi. (Sálmur 2:6-8; 40:10, 11; Orðskviðirnir 27:11) Gætum við líkt betur eftir þessu gleðiríka lífsviðhorfi Jesú? Og munum eftir því sem Pétur segir í 1. Pétursbréfi 5:9: „Vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ Vitneskjan um það að Jehóva skilji okkur, tilfinningin um hlýju bræðrafélagsins um allan heim og það að hafa augun á þeirri gleði sem bíður okkar undir stjórn Guðsríkis — allt þetta hjálpar okkur að þreytast ekki á því að þjóna Jehóva í trú og á því að prédika nú þegar endirinn er svo nálægur.
Hvers vegna Jehóva agar
14. Hvaða gagn getum við haft af prófraunum og þjáningum sem við kunnum að þurfa að þola?
14 Páll varpar nú ljósi á ástæðuna fyrir því hvers vegna við þurfum stundum að þola prófraunir og þjáningar. Hann leggur til að við lítum á það sem ögun. Páll segir: „Sonur minn, lítilsvirð ekki hirtingu [Jehóva], og lát ekki heldur hugfallast er hann tyftar þig. Því að [Jehóva] agar þann, sem hann elskar.“ (Hebreabréfið 12:5, 6) Jafnvel Jesús „lærði . . . hlýðni af því, sem hann leið.“ (Hebreabréfið 5:8) Vissulega þurfum við líka að læra hlýðni. Taktu eftir þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur að láta aga móta okkur. Páll sagði: „Eftir á gefur hann þeim, er við hann hafa tamist, ávöxt friðar og réttlætis.“ Það er mjög uppörvandi! — Hebreabréfið 12:11.
15. Hvernig getum við heimfært það ráð Páls að ‚láta fætur okkar feta beinar brautir‘?
15 Ef við tökum við ‚aga Jehóva‘ með þessu hugarfari, þá munum við taka til okkar hin jákvæðu heilræði Páls: „Réttið því úr máttvana höndum og magnþrota knjám. Látið fætur yðar feta beinar brautir.“ (Hebreabréfið 12:12, 13) Stundum er það mjög auðvelt að víkja út af ‚mjóa veginum sem liggur til lífsins.‘ (Matteus 7:14) Pétur postuli og fleiri í Antíokkíu gerðust einu sinni sekir um það. Hvers vegna? Vegna þess að „þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins.“ (Galatabréfið 2:14) Við verðum líka að halda áfram að hlusta á hinn mikla kennara okkar, Jehóva Guð. Við þurfum að nota okkur til fulls þá hjálp sem hann veitir fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ Það mun tryggja að fætur okkar feti „beinar brautir.“ — Matteus 24:45-47; Jesaja 30:20, 21.
16. (a) Hvernig gæti „beiskjurót“ grafið um sig í söfnuði? (b) Hvernig tengir Páll saman siðleysi og það að meta ekki að verðleikum það sem heilagt er, og hvernig getum við varast slíkar hættur?
16 Þessu næst kemur Páll með aðvörun: „Hafið gát á, að enginn missi af Guðs náð, að engin beiskjurót renni upp, sem truflun valdi, og margir saurgist af.“ (Hebreabréfið 12:15) Óánægja með og aðfinnslur við það hvernig staðið er að málum í söfnuðinum getur verið eins og „beiskjurót“ sem á skömmum tíma getur eitrað hinar heilnæmu hugsanir annarra í söfnuðinum. Við getum unnið á móti slíkum neikvæðum hugsunum með því að íhuga þær óteljandi blessanir sem sannleikurinn hefur veitt okkur í lífinu. (Sálmur 40:6) Önnur hætta er sú að hafa siðlausar tilhneigingar eða kunna ekki að meta það sem heilagt er, líkt og Esaú. (Hebreabréfið 12:16) Páll tengir þessar tvær hættur saman, því að önnur getur hæglega leitt til hinnar. Enginn kristinn maður þarf að láta slíkar eigingjarnar langanir ná tökum á sér ef hann fylgir orðum Péturs: „Standið gegn [djöflinum], stöðugir í trúnni.“ — 1. Pétursbréf 5:9.
„Sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá“
17. Berðu saman hin ógnþrungnu atvik á Sínaífjalli og það sem blasir við kristnum nútímamönnum.
17 Trú okkar er mjög háð þeim veruleika „sem eigi er auðið að sjá.“ (Hebreabréfið 11:1) Páll talar um sumt af þessum óséða veruleika í Hebreabréfinu 12:18-27. Hann lýsir hinum ógnþrungnu viðburðum á Sínaífjalli þegar Guð talaði beint til Ísraelsmanna og þegar Móse sagði: „Ég er mjög hræddur og skelfdur.“ Síðan bætir postulinn við: „Þér eruð komnir til Síonfjalls og borgar Guðs lifanda, hinnar himnesku Jerúsalem, til tugþúsunda engla, til hátíðarsamkomu.“ Þegar Forn-Ísraelsmenn áttu í hlut við Sínaífjallið skók rödd Guðs jörðina, sagði Páll, en nú hefur hann lofað og sagt: „Enn einu sinni mun ég hræra jörðina og ekki hana eina, heldur og himininn.“ Enda þótt þessum orðum sé fyrst og fremst beint til smurðra kristinna manna getur „mikill múgur“ annarra sauðumlíkra manna einnig tekið þau til sín. (Opinberunarbókin 7:9) Gerir þú þér fulla grein fyrir hvað Páll er að segja? Við stöndum frammi fyrir englum sem eru samankomnir í tugþúsundatali. Að sjálfsögðu stöndum við einnig frammi fyrir Jehóva. Jesús Kristur er honum á hægri hönd. Við erum í enn stórkostlegri aðstöðu og á okkur hvílir enn meiri ábyrgð en Hebreum til forna við Sínaífjallið! Og munum að í hinu komandi Harmagedónstríði mun bæði hinn núverandi, óguðlegi himinn og jörð hrærast og farast. Núna er sannarlega ekki rétti tíminn til að ‚hafna‘ því að hlusta á og hlýða orði Guðs!
18. Hver er eina leiðin til að halda áfram að bera vitni um Jehóva og þreytast ekki?
18 Sannarlega lifum við ógnþrungnustu tíma mannkynssögunnar. Sem vottar Jehóva höfum við verið sendir til ystu endimarka jarðarinnar til að prédika fagnaðarerindið um stofnsett ríki Guðs. Til að gera það verðum við að hafa trú sem ekki haggast, trú sem ekki bilar, trú sem gerir okkur fært að taka við ögun Jehóva. Ef við höfum slíka trú, þá verðum við í hópi þeirra sem „þjóna Guði, svo sem honum þóknast, með lotningu og ótta.“ (Hebreabréfið 12:28) Já, og við munum halda áram að bera vitni um Jehóva og ekki þreytast.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna er bréf Páls til Hebreanna okkur gagnlegt?
◻ Hvaða deilumál verða kristnir menn að horfast í augu við nú á tímum?
◻ Hvernig getum við notið góðs af fordæmi trúfastra votta fortíðarinnar?
◻ Hvers vegna agar Jehóva þá sem hann elskar?
◻ Hver er forsendan fyrir því að bera vitni og þreytast ekki?