Fimmti kafli
Trú þeirra stóðst eldraunina
1. Hvernig hugsa margir um hollustu við Guð og land sitt?
ÆTTI hollusta þín að beinast að Guði eða landinu þar sem þú býrð? Margir myndu svara: ‚Ég veiti hvoru tveggja hollustu mína. Ég tilbið Guð eins og trú mín mælir fyrir og ég sver föðurlandinu hollustueið.‘
2. Hvernig gegndi konungur Babýlonar í senn trúarlegu og pólitísku hlutverki?
2 Mörkin milli trúrækni og þjóðrækni eru oft óljós nú á dögum en í Babýlon fortíðar voru þau varla til. Hið borgaralega og hið trúarlega var svo samtvinnað að stundum varð ekki greint á milli. „Í Forn-Babýlon var konungurinn bæði æðstiprestur og borgaralegur stjórnandi,“ skrifar prófessor Charles F. Pfeiffer. „Hann færði fórnir og stjórnaði trúarlífi þegna sinna.“
3. Hvað sýnir að Nebúkadnesar var afar trúrækinn?
3 Lítum á Nebúkadnesar konung. Nafn hans merkir „Ó Nebó, verndaðu erfingjann!“ en Nebó var guð visku og jarðyrkju. Nebúkadnesar var mjög trúrækinn. Eins og áður er getið fegraði hann musteri margra babýlonskra guða og reisti önnur. Sérstaklega var hann hrifinn af Mardúk sem hann þakkaði hersigra sína.a Nebúkadnesar virðist jafnframt hafa byggt hernaðaráætlanir sínar mjög á spásögnum. — Esekíel 21:18-23.
4. Lýstu trúaranda Babýlonar.
4 Segja má að trúarlífið hafi gagnsýrt Babýlon. Í borginni voru rösklega 50 musteri þar sem tilbeðin var mikil gyðju- og guðafjöld, þar á meðal þrenningin Anú (guð himinsins), Enlíl (guð jarðar, lofts og storma) og Ea (guð vatnanna). Sin (tunglguðinn), Sjamas (sólguðinn) og Ístar (frjósemisgyðjan) mynduðu aðra þrenningu. Galdrar, særingar og stjörnuspeki gegndi stóru hlutverki í trúarlífi Babýloníumanna.
5. Hvernig reyndi trúarumhverfið í Babýlon á hina útlægu Gyðinga?
5 Það var mikil þraut fyrir hina útlægu Gyðinga að búa meðal fjölgyðismanna. Öldum áður hafði Móse varað Ísraelsmenn við því að það hefði skelfilegar afleiðingar að gera uppreisn gegn æðsta löggjafa sínum. Hann sagði þeim: „[Jehóva] mun leiða þig og konung þinn, þann er þú munt taka yfir þig, til þeirrar þjóðar, er hvorki þú né feður þínir hafa þekkt, og þar munt þú þjóna öðrum guðum, stokkum og steinum.“ — 5. Mósebók 28:15, 36.
6. Af hverju reyndi veran í Babýlon sérstaklega á þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja?
6 Nú stóðu Gyðingar í þessum sporum og erfitt yrði að sýna Jehóva ráðvendni, einkum fyrir þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja. Ungu mennirnir fjórir höfðu verið valdir sérstaklega til að hljóta þjálfun í stjórnsýslustörfum. (Daníel 1:3-5) Við munum að þeim höfðu jafnvel verið gefin babýlonsk nöfn — Beltsasar, Sadrak, Mesak og Abed-Negó — sennilega til að þeir samlöguðust betur nýju umhverfi.b Það þætti grunsamlegt, jafnvel landráð, ef menn í jafnháum stöðum og þeir neituðu að tilbiðja guði landsins.
GULLLÍKNESKI ÓGNAR
7. (a) Lýstu líkneskinu sem Nebúkadnesar lét reisa. (b) Hver var tilgangurinn með því að reisa það?
7 Nebúkadnesar hefur eflaust ætlað sér að efla einingu ríkisins með gulllíkneskinu sem hann lét reisa í Dúradal. Líkneskið var 60 álnir (27 metrar) á hæð og 6 álnir (2,7 metrar) á breidd.c Sumir telja að líkneskið hafi verið broddsúla eða súlulaga. Það kann að hafa verið stór stytta í mannsmynd á mjög háum stalli, annaðhvort táknmynd Nebúkadnesars sjálfs eða guðsins Nebós. Hvort heldur sem var, þá var þetta gnæfandi líkneski tákn heimsveldisins Babýlonar. Mönnum var ætlað að sjá það og dýrka. — Daníel 3:1.
8. (a) Hverjir voru kallaðir til vígsluhátíðar líkneskisins og hvers var krafist af öllum viðstöddum? (b) Hvaða viðurlög voru við því að falla ekki fram fyrir líkneskinu?
8 Nebúkadnesar boðar nú til vígsluhátíðar. Hann stefnir saman jörlum, landstjórum, landshöfðingjum, ráðherrum, féhirðum, dómurum, lögmönnum og öllum embættismönnum skattlandanna. Kallari kallar hárri röddu: „Svo er yður öllum boðið, hverrar þjóðar og hvaða landsmenn sem þér eruð og á hverja tungu sem þér mælið: Þegar er þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, þá skuluð þér falla fram og tilbiðja gull-líkneskið, sem Nebúkadnesar konungur hefir reisa látið. En hver sá, er eigi fellur fram og tilbiður, honum skal á samri stundu kastað verða inn í brennandi eldsofn.“ — Daníel 3:2-6.
9. Hvaða þýðingu hafði það greinilega að falla fram fyrir líkneskinu sem Nebúkadnesar lét reisa?
9 Sumir telja að Nebúkadnesar hafi haldið þessa athöfn til að reyna að þvinga Gyðinga til að hnika sér frá tilbeiðslunni á Jehóva. Trúlega var ástæðan þó önnur því að ekki verður séð að aðrir hafi verið kallaðir til vígslunnar en embættismenn stjórnarinnar. Því hafa engir Gyðingar verið viðstaddir aðrir en opinberir embættismenn. Sú athöfn að láta alla falla fram fyrir líkneskinu virðist því hafa átt að styrkja samstöðu valdastéttarinnar. Fræðimaðurinn John F. Walvoord segir: „Slík athöfn af hálfu embættismannanna var í annan stað ánægjulegur vitnisburður um vald þess heimsveldis sem Nebúkadnesar réði, og í hinn stað þýðingarmikil viðurkenning á þeim guðdómum sem þeir ímynduðu sér að þeir ættu sigra sína að þakka.“
ÞJÓNAR JEHÓVA NEITA AÐ LÁTA UNDAN
10. Af hverju hafa aðrir en Gyðingar ekki átt erfitt með að hlýða skipun Nebúkadnesars?
10 Þeim sem saman voru komnir frammi fyrir líkneski Nebúkadnesars flökraði ekki við því að tilbiðja það þótt þeir tilbæðu sjálfir ýmsa verndarguði. „Þeir voru vanir að tilbiðja skurðgoð, og tilbeiðsla á einum guði kom ekki í veg fyrir að þeir sýndu öðrum lotningu,“ segir biblíufræðingur og bætir við: „Það kom heim og saman við ríkjandi viðhorf skurðgoðadýrkenda að til væru margir guðir . . . og að það væri ekki óviðeigandi að veita guðum einhvers lands eða þjóðar lotningu.“
11. Hvers vegna neituðu Sadrak, Mesak og Abed-Negó að falla fram fyrir líkneskinu?
11 En afstaða Gyðinga var allt önnur. Þeim hafði verið skipað af Guði sínum, Jehóva: „Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni. Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, [Jehóva] Guð þinn, er vandlátur Guð.“ (2. Mósebók 20:4, 5) Þess vegna stóðu þrír ungir Hebrear kyrrir þegar tónlistin hljómaði og allir aðrir féllu fram fyrir líkneskinu. Þetta voru þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. — Daníel 3:7.
12. Hvernig ákærðu nokkrir Kaldear Hebreana þrjá og hvers vegna?
12 Nokkrir Kaldear reiddust því heiftarlega að þessir þrír hebresku embættismenn skyldu ekki tilbiðja líkneskið. Þeir skunduðu þegar í stað á fund konungs og „ákærðu Gyðingana.“d Þeir vildu ekki heyra neinar skýringar heldur láta refsa Hebreunum fyrir óhollustu og drottinsvik. Þeir sögðu: „Nú eru hér nokkrir Gyðingar, er þú hefir gjört að sýslumönnum yfir Babel-héraði, þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Þessir menn virða þig að engu, konungur. Þeir dýrka ekki þína guði og tilbiðja ekki gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ — Daníel 3:8-12.
13, 14. Hvernig brást Nebúkadnesar við afstöðu Sadraks, Mesaks og Abed-Negós?
13 Nebúkadnesar hlýtur að hafa orðið illa vonsvikinn að Hebrearnir þrír skyldu óhlýðnast sér. Honum hafði greinilega ekki tekist að gera þá Sadrak, Mesak og Abed-Negó að dyggum þjónum babýlonska heimsveldisins. Hafði hann ekki menntað þá í allri speki Kaldea? Hann hafði meira að segja breytt nöfnum þeirra! En hafi Nebúkadnesar haldið að nógu háleit menntun dygði til að kenna þeim nýja tilbeiðsluhætti eða að þeir breyttust við það að fá ný nöfn, þá skjátlaðist honum. Sadrak, Mesak og Abed-Negó voru dyggir þjónar Jehóva eftir sem áður.
14 Nebúkadnesar konungur reiðist stórlega. Hann lætur þegar í stað sækja Hebreana þrjá og spyr: „Er það af ásettu ráði, Sadrak, Mesak og Abed-Negó, að þér dýrkið ekki minn guð og tilbiðjið ekki gull-líkneskið, sem ég hefi reisa látið?“ Eflaust segir Nebúkadnesar þetta í vantrúarblöndnum hneykslistón. Hann hlýtur að hugsa með sér: ‚Hvernig geta þrír skynsamir menn óhlýðnast svona skýrum fyrirmælum — ekki síst með tilliti til þess hver viðurlögin eru?‘ — Daníel 3:13, 14.
15, 16. Hvaða tækifæri gaf Nebúkadnesar Hebreunum þrem?
15 Nebúkadnesar er reiðubúinn að gefa Hebreunum þrem annað tækifæri. „Ef þér nú eruð viðbúnir, jafnskjótt og þér heyrið hljóð hornanna, pípnanna, gígjanna, harpnanna, saltaranna, symfónanna og alls konar hljóðfæra, að falla fram og tilbiðja líkneski það, er ég hefi gjöra látið, þá nær það ekki lengra. En ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?“ — Daníel 3:15.
16 Ekki verður séð að lexían í draumnum um líkneskið (í 2. kafla Daníelsbókar) hafi haft nokkur varanleg áhrif á huga og hjarta konungs. Kannski er hann búinn að gleyma því sem hann sagði sjálfur við Daníel: „Yðar Guð [er] yfirguð guðanna og herra konunganna.“ (Daníel 2:47) Nú virðist Nebúkadnesar vera að ögra Jehóva því að hann segir að hann sé ekki einu sinni fær um að frelsa Hebreana undan refsingunni sem bíður þeirra.
17. Hvernig brugðust Sadrak, Mesak og Abed-Negó við boði konungs?
17 Sadrak, Mesak og Abed-Negó þurfa ekki að hugsa sig um. Þeir svara um hæl: „Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta. Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ — Daníel 3:16-18.
Í ELDSOFNINN
18, 19. Hvað gerðist þegar Hebreunum þrem var kastað í eldsofninn?
18 Nebúkadnesar er bálreiður og fyrirskipar þjónum sínum að kynda ofninn sjöfalt heitara en venjulega. Síðan skipar hann „rammefldum mönnum“ að binda Sadrak, Mesak og Abed-Negó og kasta þeim „inn í brennandi eldsofninn.“ Þeir fara að fyrirmælum konungs og kasta Hebreunum þrem í eldinn, bundnum og alklæddum — kannski til þess að þeir brenni þeim mun fyrr. En það eru menn Nebúkadnesars sjálfs sem bíða bana í logunum. — Daníel 3:19-22.
19 Nú gerist óvenjulegur atburður. Sadrak, Mesak og Abed-Negó brenna ekki þótt þeir séu inni í eldsofninum. Þú getur rétt ímyndað þér undrun Nebúkadnesars! Þeim hafði verið kastað tryggilega bundnum í eldhafið en þeir eru samt sprelllifandi. Þeir ganga meira að segja um inni í eldinum! En Nebúkadnesar sér fleira. „Höfum vér ekki kastað þremur mönnum fjötruðum inn í eldinn?“ spyr hann ráðgjafa sína. „Jú, vissulega, konungur!“ svara þeir. „Ég sé þó fjóra menn ganga lausa inni í eldinum,“ hrópar hann, „án þess að nokkuð hafi orðið þeim að grandi, og er ásýnd hins fjórða því líkust sem hann sé sonur guðanna.“ — Daníel 3:23-25.
20, 21. (a) Hverju tók Nebúkadnesar eftir í sambandi við Sadrak, Mesak og Abed-Negó þegar þeir komu út úr ofninum? (b) Hvað neyddist Nebúkadnesar til að viðurkenna?
20 Nebúkadnesar gengur nú að dyrum eldsofnsins. „Sadrak, Mesak og Abed-Negó, þjónar hins hæsta Guðs, gangið út og komið hingað!“ hrópar hann. Hebrearnir þrír ganga út úr eldinum. Eflaust eru allir sjónarvottar þessa kraftaverks steini lostnir — þeirra á meðal jarlarnir, landstjórarnir, landshöfðingjarnir og ráðgjafarnir. Það er engu líkara en ungu mennirnir þrír hafi aldrei í ofninn farið! Það er ekki einu sinni brunalykt af þeim og hárið á höfði þeirra hefur ekki sviðnað. — Daníel 3:26, 27.
21 Nebúkadnesar konungur neyðist nú til að viðurkenna að Jehóva sé hinn hæsti Guð. „Lofaður sé Guð þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sem sendi engil sinn og frelsaði þjóna sína, er treystu honum og óhlýðnuðust boði konungsins, en lögðu líkami sína í sölurnar, til þess að þeir þyrftu ekki að dýrka né tilbiðja neinn annan guð en sinn Guð,“ lýsir hann yfir. Síðan bætir hann við þessari alvarlegu viðvörun: „Nú gef ég út þá skipun, að hver sá, hverrar þjóðar, hvers lands og hverrar tungu sem er, er mælir lastmæli gegn Guði þeirra Sadraks, Mesaks og Abed-Negós, sá skal höggvinn verða sundur og hús hans gjört að sorphaug, því að enginn annar guð er til, sem eins getur frelsað og hann.“ Hebrearnir þrír endurheimta hylli konungs og eru hafnir til „stórra mannvirðinga í Babel-héraði.“ — Daníel 3:28-30.
TRÚIN OG ELDRAUN OKKAR DAGA
22. Hvernig eru nútímaþjónar Jehóva í líkri aðstöðu og Sadrak, Mesak og Abed-Negó?
22 Tilbiðjendur Jehóva nú á tímum eru í svipaðri aðstöðu og þeir Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Að vísu eru þjónar Guðs yfirleitt ekki í bókstaflegri útlegð, en Jesús sagði að fylgjendur sínir yrðu „ekki af heiminum,“ það er að segja tilheyrðu honum ekki. (Jóhannes 17:14) Þeir eru „útlendingar“ í þeim skilningi að þeir tileinka sér ekki óbiblíulega siði, viðhorf og háttalag umheimsins. Eins og Páll postuli skrifaði eiga kristnir menn ‚ekki að hegða sér eftir öld þessari.‘ — Rómverjabréfið 12:2.
23. Hvernig sýndu Hebrearnir þrír staðfestu og hvernig geta kristnir menn nú á tímum fetað í fótspor þeirra?
23 Hebrearnir þrír vildu ekki hegða sér að hætti Babýloníumanna. Ítarleg kennsla í fræðum Kaldea hafði ekki einu sinni áhrif á þá. Afstaða þeirra í tilbeiðslumálum var ósveigjanleg og hollusta þeirra bundin Jehóva. Kristnir menn nú á tímum þurfa að vera jafnstaðfastir. Þeir þurfa ekki að skammast sín fyrir að vera öðruvísi en umheimurinn. „Heimurinn fyrirferst og fýsn hans“ hvort eð er. (1. Jóhannesarbréf 2:17) Það væri því heimskulegt og gagnslaust að samlaga sig þessu deyjandi heimskerfi.
24. Hvernig er afstaða sannkristinna manna áþekk afstöðu Hebreanna þriggja?
24 Kristnir menn þurfa að vera á varðbergi gagnvart hvers kyns skurðgoðadýrkun, þar á meðal lúmskum tegundum hennar.e (1. Jóhannesarbréf 5:21) Sadrak, Mesak og Abed-Negó stóðu hlýðnir og háttvísir frammi fyrir gulllíkneskinu, en þeir gerðu sér ljóst að það væri meira en aðeins virðingarvottur að falla fram fyrir því. Það væri tilbeiðsluathöfn sem myndi kalla yfir þá vanþóknun Jehóva. (5. Mósebók 5:8-10) John F. Walvoord segir: „Þetta var í rauninni eins og fánahylling þótt það kunni líka að hafa haft trúarlegan blæ sökum þess hve trúar- og þjóðhollusta voru samofnar.“ Sannkristnir menn nú á tímum taka jafneindregna afstöðu gegn skurðgoðadýrkun.
25. Hvað hefurðu lært af sögunni um Sadrak, Mesak og Abed-Negó?
25 Frásagan af Sadrak, Mesak og Abed-Negó er skólabókardæmi öllum sem eru ákveðnir í að veita Jehóva óskipta hollustu. Páll postuli mun hafa haft þessa þrjá Hebrea í huga þegar hann talaði um hina mörgu sem iðkuðu trú, þeirra á meðal þá sem „slökktu eldsbál.“ (Hebreabréfið 11:33, 34) Jehóva umbunar öllum sem líkja eftir slíkri trú. Hebrearnir þrír voru frelsaðir úr eldsofninum, en við getum verið viss um að Jehóva reisir upp frá dauðum alla trúa og ráðvanda menn sem týna lífi og veitir þeim eilíft líf. Í öllum tilfellum ‚verndar Jehóva sálir dýrkenda sinna, frelsar þá af hendi óguðlegra.‘ — Sálmur 97:10.
[Neðanmáls]
a Sumir telja að guðinn Mardúk, sem var álitinn stofnandi babýlonska heimsveldisins, tákni Nimrod, en það verður ekki fullyrt með vissu.
b „Beltsasar“ merkir „verndaðu líf konungsins.“ „Sadrak“ merkir „fyrirskipun Aku“ en Aku var súmerski tunglguðinn. „Mesak“ er hugsanlega tengt súmerskum guði og „Abed-Negó“ merkir „þjónn Negó“ eða Nebó.
c Í ljósi þess hve stórt líkneskið var telja sumir biblíufræðingar að það hafi verið gert úr tré og lagt gulli.
d Arameíska orðið, sem þýtt er „ákærðu,“ merkir að ‚éta upp til agna‘ — að naga manninn sundur með rógi ef svo má segja.
e Biblían leggur til dæmis ofát og ágirnd að jöfnu við skurðgoðadýrkun. — Filippíbréfið 3:18, 19; Kólossubréfið 3:5.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Af hverju neituðu Sadrak, Mesak og Abed-Negó að falla fram fyrir líkneskinu sem Nebúkadnesar lét reisa?
• Hvernig brást Nebúkadnesar við afstöðu þremenninganna?
• Hvernig umbunaði Jehóva Hebreunum þrem fyrir trú þeirra?
• Hvað hefur sagan af Sadrak, Mesak og Abed-Negó kennt þér?
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 68]
[Myndir á blaðsíðu 70]
1. Musteristurn (stallapíramídi) í Babýlon.
2. Musteri Mardúks.
3. Bronsskjöldur með mynd af guðunum Mardúk (til vinstri) og Nebó (til hægri) standandi á drekum.
4. Skrautskjöldur með mynd af Nebúkadnesar sem frægur var af byggingaframkvæmdum sínum.
[Mynd á blaðsíðu 76]
[Mynd á blaðsíðu 78]