Varastu vantrú
„Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.“ — HEBREABRÉFIÐ 3:12.
1. Hvaða skelfilegum veruleika vekja orð Páls til kristinna Hebrea athygli á?
ÞAÐ er skelfileg tilhugsun að fólk, sem hefur átt einkasamband við Jehóva, skuli geta myndað með sér ‚vont hjarta‘ og að það geti ‚fallið frá lifanda Guði.‘ Þetta er alvarleg viðvörun! Þessum orðum Páls postula var ekki beint til vantrúaðra heldur fólks sem hafði vígt Jehóva líf sitt vegna trúar á lausnarfórn Jesú Krists.
2. Hvaða spurningar þurfum við að skoða?
2 Hvernig getur það gerst að hjarta manns, sem nýtur þessarar andlegu blessunar, verði ‚vont vantrúarhjarta‘? Hvernig getur nokkur maður, sem hefur kynnst kærleika Guðs og óverðskuldaðri góðvild, snúið baki við honum af ásettu ráði? Gæti það hent eitthvert okkar? Þetta er umhugsunarvert og við verðum að kynna okkur ástæðurnar fyrir þessari viðvörun. — 1. Korintubréf 10:11.
Hvers vegna svona alvarleg viðvörun?
3. Lýstu aðstæðum í Jerúsalem og nágrenni sem höfðu áhrif á kristna menn fyrstu aldar.
3 Páll virðist hafa skrifað bréf sitt til kristinna Hebrea í Júdeu árið 61. Sagnfræðingur sagði að um þær mundir hafi „enginn einlægur, heiðarlegur maður búið við frið eða öryggi, hvorki í Jerúsalemborg né annars staðar í öllu héraðinu.“ Þetta voru tímar lögleysis og ofbeldis. Kúgun rómverska hersins og sýndarhugrekki öfgamanna Gyðinga ýtti undir það, svo og þjófar sem notfærðu sér glundroðann til glæpaverka. Kristnir menn reyndu sem þeir gátu að láta ekki flækja sig í neinu af þessu en áttu erfiða daga. (1. Tímóteusarbréf 2:1, 2) Sumir litu reyndar á þá sem utangarðsmenn, jafnvel uppreisnarmenn, sökum hlutleysis þeirra, og þeir sættu oft illri meðferð og eignamissi. — Hebreabréfið 10:32-34.
4. Hvaða trúarlegum þrýstingi sættu kristnir Hebrear?
4 Kristnir Hebrear máttu líka sæta afar miklum þrýstingi af trúarlegu tagi. Kostgæfni trúfastra lærisveina Jesú og hraður vöxtur kristna safnaðarins, sem hún olli, hlaut að vekja öfund og reiði Gyðinga — einkum trúarleiðtoganna. Þeir létu einskis ófreistað til að áreita og ofsækja fylgjendur Jesú Krists.a (Postulasagan 6:8-14; 21:27-30; 23:12, 13; 24:1-9) Og jafnvel þeir kristnu menn, sem sluppu við beinar ofsóknir, voru engu að síður fyrirlitnir og hæddir af Gyðingum. Kristnin var fyrirlitin sem ný trú. Hana skorti glæsileik gyðingdómsins, hún átti sér ekkert musteri, enga prestastétt, engar hátíðir, engar formlegar fórnir og svo mætti lengi telja. Leiðtogi hennar, Jesús, hafði meira að segja verið líflátinn sem fordæmdur glæpamaður. Til að iðka trú sína þurftu kristnir menn að hafa trú, hugrekki og þolgæði.
5. Af hverju þurftu kristnir menn í Júdeu að halda andlegri vöku sinni?
5 Síðast en ekki síst lifðu kristnir Hebrear í Júdeu á örlagatímum í sögu þjóðarinnar. Margt var komið fram af því sem Drottinn þeirra, Jesús Kristur, hafði sagt myndu einkenna endalok gyðingakerfisins. Endirinn gat ekki verið langt undan. Til að bjargast þurftu kristnir menn að halda andlegri vöku sinni og vera tilbúnir að ‚flýja til fjalla.‘ (Matteus 24:6, 15, 16) Myndu þeir hafa þá trú og þann andlega þrótt sem þurfti til að forða sér þegar í stað eins og Jesús hafði sagt þeim að gera? Einhver vafi virtist leika á því.
6. Hvers þörfnuðust kristnir menn í Júdeu mjög?
6 Síðasta áratuginn áður en gyðingakerfið í heild leið undir lok sættu kristnir Hebrear gífurlegum þrýstingi bæði innan safnaðar og utan. Þeir voru uppörvunarþurfi. En þeir þurftu líka ráð og leiðbeiningar til að sjá að þeir hefðu valið réttu stefnuna og hefðu ekki þjáðst og þraukað til einskis. Páll postuli lét málið til sín taka og kom þeim til hjálpar.
7. Af hverju ættum við að hafa áhuga á því sem Páll skrifaði kristnum Hebreum?
7 Við ættum að hafa brennandi áhuga á því sem Páll skrifaði kristnum Hebreum. Af hverju? Af því að við lifum á áþekkum tímum og þeir. Við finnum daglega fyrir álagi heimsins undir stjórn Satans. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Spádómar Jesú og postulanna um síðustu daga og ‚endalok veraldar‘ eru að uppfyllast fyrir augum okkar. (Matteus 24:3-14; 2. Tímóteusarbréf 3:1-5; 2. Pétursbréf 3:3, 4; Opinberunarbókin 6:1-8) Við verðum umfram allt að halda okkur andlega vakandi svo að við megum „umflýja allt þetta, sem koma á.“ — Lúkas 21:36.
Meiri en Móse
8. Til hvers var Páll að hvetja kristna bræður sína í Hebreabréfinu 3:1?
8 Páll drepur á mikilvægt mál er hann segir: „Gefið . . . gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar.“ (Hebreabréfið 3:1) Orðið, sem þýtt er ‚gefið gætur,‘ merkir „að skynja greinilega . . . , að skilja til fullnustu, að íhuga vandlega.“ (Vine’s Expository Dictionary of Old and New Testament Words) Páll var því að hvetja trúbræður sína til að leggja sig fram um að meta til fullnustu hlutverk Jesú í trú þeirra og hjálpræði. Það myndi styrkja þann ásetning þeirra að vera staðfastir í trúnni. Hvert var þá hlutverk Jesú og hvers vegna ættum við að ‚gefa gætur‘ að honum?
9. Af hverju kallaði Páll Jesú „postula“ og ‚æðstaprest‘?
9 Páll kallar Jesú „postula“ og ‚æðstaprest.‘ ‚Postuli‘ er sendiboði og vísar hér til samskiptaleiðar Guðs við mannkynið. ‚Æðstiprestur‘ hefur milligöngu milli Guðs og manna. Þetta tvennt er nauðsynlegt í sannri tilbeiðslu og Jesús er hvort tveggja í senn. Hann var sendur frá himnum til að kenna mannkyninu sannleikann um Guð. (Jóhannes 1:18; 3:16; 14:6) Jesús er líka skipaður æðstiprestur í andlegu musterisfyrirkomulagi Jehóva sem miðlar mönnum syndafyrirgefningu. (Hebreabréfið 4:14, 15; 1. Jóhannesarbréf 2:1, 2) Ef við kunnum að meta þá blessun sem við getum hlotið fyrir atbeina Jesú, þá erum við nógu hugrökk og einbeitt til að vera staðföst í trúnni.
10. (a) Hvernig sýndi Páll kristnum Hebreum fram á yfirburði kristninnar yfir gyðingdóminn? (b) Hvaða alkunn sannindi nefnir Páll máli sínu til stuðnings?
10 Páll leggur áherslu á gildi kristinnar trúar með því að bera Jesú saman við Móse sem Gyðingar álitu mesta spámann forfeðra sinna. Ef kristnir Hebrear skildu fyllilega að Jesús væri meiri en Móse hefðu þeir enga ástæðu til að efast um yfirburði kristninnar yfir gyðingdóminn. Páll bendir á að Móse hefði að vísu verið treyst fyrir „húsi“ Guðs — Ísraelsþjóðinni eða söfnuði Ísraels — en hann hefði einungis verið trúr þjónn. (4. Mósebók 12:7) Jesús var hins vegar sonurinn og herra yfir húsinu. (1. Korintubréf 11:3; Hebreabréfið 3:2, 3, 5) Páll vitnar í alkunn sannindi til að hnykkja á því: „Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.“ (Hebreabréfið 3:4) Enginn véfengir að Guð sé öllum æðri því að hann er skapari alls. Það er því rökrétt að Jesús, sem var samverkamaður Guðs, hljóti að vera æðri allri annarri sköpun, þar á meðal Móse. — Orðskviðirnir 8:30; Kólossubréfið 1:15-17.
11, 12. Hvað hvatti Páll kristna Hebrea til að halda fast í „allt til enda“ og hvernig getum við tekið ráð hans til okkar?
11 Kristnir Hebrear voru í mikilli forréttindastöðu. Páll minnti þá á að þeir væru „hluttakar himneskrar köllunar.“ (Hebreabréfið 3:1) Það voru miklu meiri sérréttindi en nokkuð sem gyðingakerfið hafði að bjóða. (Hebreabréfið 3:1) Orð Páls hljóta að hafa gert þessa smurðu kristnu menn þakkláta fyrir að eiga nýja arfleifð í vændum í stað þess að sjá eftir ýmsu úr gyðinglegri arfleifð sinni sem þeir höfðu sagt skilið við. (Filippíbréfið 3:8) Páll hvatti þá til að varðveita sérréttindi sín og ganga ekki að þeim sem gefnum hlut: „Kristur [var trúr] eins og sonur yfir húsi [Guðs], og hans hús erum vér, ef vér höldum fastri djörfunginni og voninni, sem vér hrósum oss af, allt til enda.“ — Hebreabréfið 3:6.
12 Já, kristnir Hebrear urðu að halda fast í vonina, sem Guð gaf þeim, „allt til enda,“ til að þeir kæmust af þegar gyðingakerfið liði undir lok. Við verðum að gera það líka til að lifa af endalok þessa heimskerfis. (Matteus 24:13) Við megum ekki leyfa áhyggjum lífsins, sinnuleysi fólks eða ófullkomnum tilhneigingum okkar að veikja trúna á fyrirheit Guðs. (Lúkas 21:16-19) Við skulum rýna áfram í orð Páls og sjá hvernig við getum styrkt okkur.
„Forherðið ekki hjörtu yðar“
13. Hvaða viðvörun gefur Páll og hvernig heimfærir hann Sálm 95?
13 Eftir að hafa fjallað um forréttindastöðu kristinna Hebrea varar Páll við: „Heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni.“ (Hebreabréfið 3:7, 8) Páll vitnaði hér í 95. sálminn og gat því sagt: „Heilagur andi segir.“b (Sálmur 95:7, 8; 2. Mósebók 17:1-7) Ritningin er innblásin af Guði með anda hans. — 2. Tímóteusarbréf 3:16.
14. Hvernig brugðust Ísraelsmenn við því sem Jehóva hafði gert fyrir þá og hvers vegna?
14 Eftir frelsunina úr þrælkun í Egyptalandi veittist Ísraelsmönnum sá mikli heiður að gangast undir sáttmálasamband við Jehóva. (2. Mósebók 19:4, 5; 24:7, 8) En í stað þess að meta það sem Guð hafði gert fyrir þá sýndu þeir uppreisnarhug skömmu síðar. (4. Mósebók 13:25–14:10) Hvernig gat það gerst? Páll bendir á ástæðuna: Hjörtu þeirra höfðu forherst. En hvernig forherðast hjörtu sem eru næm og móttækileg fyrir orði Guðs? Hvað þurfum við að að gera til að hindra það?
15. (a) Hvernig ‚heyrðist raust Guðs‘ til forna og hvernig heyrist hún nú? (b) Hvaða spurninga þurfum við að spyrja okkur varðandi ‚raust Guðs‘?
15 Páll byrjar viðvörun sína með skilyrðissetningunni: „Ef þér heyrið raust hans.“ Guð talaði til fólks síns fyrir munn Móse og annarra spámanna. Síðan talaði hann við það fyrir munn sonar síns, Jesú Krists. (Hebreabréfið 1:1, 2) Núna höfum við allt hið innblásna orð Guðs, heilaga Biblíu. Við höfum líka ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ sem Jesús skipaði til að miðla andlegum „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47) Guð er því enn að tala. En hlustum við? Hvernig bregðumst við til dæmis við leiðbeiningum um klæðnað, snyrtingu eða val á skemmtiefni og tónlist? ‚Heyrum‘ við, það er að segja gefum við gaum að því sem sagt er og hlýðum því? Ef við erum vön að afsaka okkur eða móðgast þegar okkur er ráðið heilt, þá erum við að gera okkur berskjölduð fyrir þeirri lævísu hættu að hjartað forherðist.
16. Á hvaða annan hátt geta hjörtu okkar forherst?
16 Hjörtu okkar geta líka forherst ef við færumst undan því að gera það sem við getum og ættum að gera. (Jakobsbréfið 4:17) Þrátt fyrir allt sem Jehóva gerði fyrir Ísraelsmenn iðkuðu þeir ekki trú. Þeir gerðu uppreisn gegn Móse, kusu að trúa neikvæðri lýsingu á Kanaanlandi og neituðu að fara inn í fyrirheitna landið. (4. Mósebók 14:1-4) Jehóva úrskurðaði því að þeir skyldu eyða 40 árum í eyðimörkinni — nógu lengi til að trúlausir menn þeirrar kynslóðar dæju. Guð fékk óbeit á þeim og sagði: „Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína. Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.“ (Hebreabréfið 3:9-11) Getum við dregið lærdóm af þessu?
Lærdómur fyrir okkur
17. Hvers vegna skorti Ísraelsmenn trú þótt þeir sæju máttarverk Jehóva og heyrðu yfirlýsingar hans?
17 Sú kynslóð Ísraelsmanna, sem yfirgaf Egyptaland, sá máttarverk Jehóva með eigin augum og heyrði yfirlýsingar hans með eigin eyrum. Samt höfðu þeir enga trú á að hann gæti leitt þá óhulta inn í fyrirheitna landið. Hvers vegna? „Þeir þekktu ekki vegu mína“ sagði Jehóva. Þeir vissu hvað hann hafði sagt og gert, en þeir höfðu ekki lært að treysta því að hann annaðist þá. Þeir voru svo uppteknir af eigin þörfum og löngunum að þeir hugsuðu lítið um vegi Guðs og tilgang. Já, þá skorti trú á fyrirheit hans.
18. Hvaða stefna getur orsakað ‚vont vantrúarhjarta‘ að sögn Páls?
18 Þessi orð Hebreabréfsins eiga jafnmikið erindi til okkar: „Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.“ (Hebreabréfið 3:12) Páll kemst að kjarna málsins þegar hann bendir á að ‚vont vantrúarhjarta‘ sé afleiðingin af því að ‚falla frá lifanda Guði.‘ Fyrr í bréfinu talaði hann um að ‚berast afleiðis‘ vegna eftirtektarleysis. (Hebreabréfið 2:1) En gríska orðið, sem þýtt er ‚falla frá,‘ merkir „að halda sig í fjarlægð“ og er skylt orði sem merkir „fráhvarf.“ Það lýsir því að standa vísvitandi og meðvitað á móti, draga sig í hlé og svíkjast undan merkjum, og það býr viss lítilsvirðing að baki.
19. Hvernig gæti það haft alvarlegar afleiðingar að hlýða ekki á ráðleggingar? Lýstu með dæmi.
19 Lærdómurinn er því þessi: Ef við höfum vanið okkur á að ‚heyra ekki raust Jehóva,‘ að sinna ekki ráðleggingum hans í Biblíunni eða frá hinum trúa og hyggna þjónshópi, þá er þess ekki langt að bíða að hjörtu okkar forherðist og verði tilfinningalaus. Segjum til dæmis að hjónaleysi gangi einum of langt í atlotum sínum hvort við annað. Hvað gerist ef þau láta eins og ekkert sé? Myndi það forða þeim frá því að endurtaka það eða auðvelda þeim að gera það? Hvað gerum við þegar þjónshópurinn minnir á að við þurfum að vera vandfýsin á tónlist, skemmtiefni og fleira slíkt? Tökum við þakklát við ráðleggingunum og gerum þær breytingar sem við þurfum? Páll hvetur okkur til að ‚vanrækja ekki safnaðarsamkomurnar.‘ (Hebreabréfið 10:24, 25) Þrátt fyrir þessi ráð eru sumir skeytingarlausir gagnvart kristnum samkomum. Þeim finnst það kannski skipta litlu máli þótt þeir missi af sumum samkomum eða sleppi jafnvel alveg að sækja aðrar.
20. Af hverju er nauðsynlegt að bregðast vel við biblíulegum ráðum?
20 Ef við hlustum ekki nógu vel á „raust“ Jehóva, sem talar skýru máli í Biblíunni og biblíutengdum ritum, ‚föllum við fljótlega frá lifanda Guði.‘ Við byrjum kannski á því að hunsa ráðleggingar en það getur auðveldlega breyst í opinskáa lítilsvirðingu, gagnrýni og mótspyrnu. Ef ekkert er að gert verður afleiðingin ‚vont vantrúarhjarta‘ og það er oftast mjög erfitt að ná sér upp úr slíkum farvegi. (Samanber Efesusbréfið 4:19.) „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það. Hver þekkir það?“ skrifar Jeremía. (Jeremía 17:9) Þar af leiðandi hvatti Páll hebreska trúbræður sína: „Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir ‚í dag‘, til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.“ — Hebreabréfið 3:13.
21. Hvað erum við öll hvött til að gera og hvaða framtíðarvon er okkur boðin?
21 Það er okkur mikið ánægjuefni að Jehóva skuli halda áfram að tala til okkar fyrir milligöngu orðs síns og skipulags. Við erum þakklát fyrir að hinn „trúi og hyggni þjónn“ skuli áfram hjálpa okkur að halda „staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.“ (Hebreabréfið 3:14) Núna er rétti tíminn til að þiggja kærleika Guðs og handleiðslu. Þegar við gerum það blasir við okkur annað dásamlegt fyrirheit Jehóva — að ‚ganga inn‘ til hvíldar hans. (Hebreabréfið 4:3, 10) Páll ræddi þetta mál við kristna Hebrea í framhaldinu og um það er fjallað í næstu grein.
[Neðanmáls]
a Jósefus greinir frá því að skömmu eftir dauða Festusar hafi Ananus (Ananías) af sértrúarflokki saddúkea orðið æðstiprestur. Hann kallaði Jakob, hálfbróður Jesú, og fleiri lærisveina fyrir æðstaráðið og lét dæma þá til dauða og grýta.
b Páll vitnar greinilega í grísku Sjötíumannaþýðinguna sem þýðir hebresku orðin „Meríba“ og „Massa“ sem „deilur“ og „prófraun.“ Sjá bls. 350 og 379 í 2. bindi handbókarinnar Innsýn í Ritninguna, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Geturðu svarað?
◻ Hvers vegna sendi Páll kristnum Hebreum alvarlega viðvörun?
◻ Hvernig sýndi Páll kristnum Hebreum fram á að hlutskipti þeirra væri betra en gyðingdómurinn?
◻ Hvernig forherðist hjartað?
◻ Hvað verðum við að forðast til að hjarta okkar verði ekki ‚vont vantrúarhjarta‘?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Iðkar þú trú á Jesú, hinn meiri Móse?