Jehóva er minn hjálpari
„Því getum vér öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast, hvað geta mennirnir gjört mér?“ — HEBREABRÉFIÐ 13:6.
1, 2. (a) Hvaða traust til Jehóva létu bæði sálmaritarinn og Páll postuli í ljós? (b) Hvaða spurningar vakna?
JEHÓVA Guð er óbrigðul uppspretta hjálpar. Sálmaritarinn þekkti það af eigin reynslu og gat sagt: [Jehóva] er með mér, ég óttast eigi, hvað geta menn gjört mér?“ (Sálmur 118:6) Páll postuli lét í ljós svipað hugarfar er hann skrifaði hið innblásna bréf sitt til kristinna Hebrea.
2 Páll vitnaði greinilega í orð sálmaritarans í grísku Sjötíumannaþýðingunni er hann sagði hebreskum trúbræðrum sínum: „Því getum vér öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Hebreabréfið 13:6) Hvers vegna skrifaði postulinn þetta og hvað getum við lært um það af samhenginu?
Þeir þörfnuðust hjálpar Jehóva
3. (a) Við hvaða aðstæður reyndist Jehóva hjálpari Páls? (b) Hvers vegna þurftu kristnir Hebrear sérstaklega á Jehóva að halda sem hjálpara?
3 Páll var fórnfús vottur sem þekkti af eigin raun að Jehóva var hjálpari hans. Guð hjálpaði postulanum í mörgum þrengingum. Páll var hnepptur í fangelsi, barinn og grýttur. Á ferðum sínum sem kristinn þjónn orðsins beið hann skipbrot og lenti í mörgum öðrum hættum. Hann var vel kunnugur striti, næturvökum, hungri, þorsta og jafnvel nekt. „Ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag,“ sagði hann, „áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.“ (2. Korintubréf 11:24-29) Páll bar þess konar umhyggju fyrir kristnum Hebreum. Dagar Jerúsalem voru taldir og bræður og systur postulans af hópi Gyðinga í Júdeu áttu í vændum miklar trúarraunir. (Daníel 9:24-27; Lúkas 21:5-24) Þau þurftu því að eiga sér Jehóva sem hjálpara.
4. Hver er kjarni þeirrar hvatningar sem er að finna í Hebreabréfinu?
4 Í inngangi bréfs síns til kristinna Hebrea sýnir Páll fram á að hjálp Guðs veitist aðeins þeim sem hlusta á son Guðs, Jesú Krist. (Hebreabréfið 1:1, 2) Hann vinnur nánar úr því atriði í bréfi sínu. Til dæmis rökstyður hann þetta heilræði með því að minna lesendur sína á að Ísraelsmönnum hafi verið refsað fyrir óhlýðni sína í eyðimörkinni. Kristnir Hebrear myndu enn síður komast hjá refsingu ef þeir höfnuðu því sem Guð sagði þeim fyrir milligöngu Jesú, og gerðust fráhvarfsmenn með því að halda sér við Móselögin sem fórn Krists hafði numið úr gildi. — Hebreabréfið 12:24-27.
Bróðurkærleikur í verki
5. (a) Hvaða annað heilræði inniheldur Hebreabréfið? (b) Hvað sagði Páll um kærleika?
5 Bréfið til Hebreanna leiðbeindi væntanlegum erfingjum ríkisins á himnum um það hvernig þeir ættu að fylgja fyrirmynd sinni, Jesú Kristi, ‚veita heilaga þjónustu í lotningu og ótta‘ og eiga sér Jehóva sem hjálpara. (Hebreabréfið 12:1-4, 28, 29) Páll hvatti trúbræður sína til að koma reglulega saman og ‚hvetja hver annan til kærleika og góðra verka.‘ (Hebreabréfið 10:24, 25) Núna ráðlagði hann: „Bróðurkærleikurinn haldist.“ — Hebreabréfið 13:1.
6. Í hvaða skilningi gaf Jesús fylgjendum sínum „nýtt boðorð“ um kærleika?
6 Jesús krafðist slíks kærleika af fylgjendum sínum því að hann sagði: „Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan. Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:34, 35) Þetta var „nýtt boðorð“ að því leyti að það gerði meiri kröfur en Móselögin sem sögðu: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ (3. Mósebók 19:18) ‚Nýja boðorðið‘ krafðist meira en þess að maður elskaði náunga sinn eins og sjálfan sig. Það krafðist kærleika og fórnfýsi sem gat útheimt að maður legði líf sitt í sölurnar fyrir aðra. Líf og dauði Jesú bar vitni um slíkan kærleika. Tertúllíanus vísaði til þessa kennimerkis er hann vitnaði í orð veraldlegs fólks um kristna menn og sagði: „‚Sjáið,‘ segja þeir, ‚hvernig þeir elska hver annan . . . og hvernig þeir eru fúsir til að deyja hver fyrir annan.‘“ — Apology kafli XXXIX, 7.
7. Hvernig birtist bróðurkærleikurinn eftir hvítasunnuna árið 33?
7 Bróðurkærleikurinn sýndi sig meðal lærisveina Jesú eftir hvítasunnuna árið 33. Til að margir nýskírðir lærisveinar komnir langt að gætu dvalið lengur en þeir hefðu gert ráð fyrir í Jerúsalem, til að læra meira um hjálpræðisráðstöfun Guðs fyrir milligöngu Krists, „[héldu] allir þeir sem trúðu . . . hópinn og höfðu allt sameiginlegt. Þeir seldu eignir sínar og fjármuni og skiptu meðal allra eftir því sem hver hafði þörf á.“ — Postulasagan 2:43-47; 4:32-37.
8. Hvaða sönnun er fyrir því að bróðurkærleikurinn ríki meðal votta Jehóva nú á tímum?
8 Slíkur bróðurkærleikur ríkir meðal votta Jehóva á okkar tímum. Til dæmis kom slíkur kærleikur þjónum Guðs til að vinna hjálparstarf um tveggja og hálfs árs skeið eftir síðari heimsstyrjöldina. Vottar í Bandaríkjunum, Kanada, Sviss, Svíþjóð, og fleiri löndum gáfu fatnað og fé til matarkaupa handa trúbræðrum sínum í hinum stríðshrjáðu löndum Austurríki, Belgíu, Búlgaríu, Danmörku, Englandi, Filippseyjum, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Ítalíu, Kína, Noregi, Póllandi, Rúmeníu, Tékkóslóvakíu, Ungverjalandi og Þýskalandi. Þetta er aðeins dæmi, því að þjónar Guðs hafa ekki alls fyrir löngu sýnt slíkan kærleika kristnum bræðrum sínum sem orðið hafa fórnarlömb jarðskjálfta í Perú og Mexíkó, óveðurs á Jamaíka og öðrum áþekkum náttúruhamförum annars staðar. Á þennan veg og margra aðra láta þjónar Jehóva ‚bróðurkærleikann haldast.‘
Verið gestrisin
9. (a) Hvaða eiginleika Guði að skapi er minnst á í Hebreabréfinu 13:2? (b) Hvernig ‚hýstu sumir engla‘ óafvitandi?
9 Páll nefnir þessu næst annan eiginleika þeirra sem fylgja Kristi og ‚veita Guði heilaga þjónustu í lotningu og ótta‘ og eiga sér Jehóva fyrir hjálpara. Hann hvatti: „Gleymið ekki gestrisninni, því að hennar vegna hafa sumir hýst engla án þess að vita.“ (Hebreabréfið 13:2) Hverjir ‚hýstu engla‘ án þess að vita? Til dæmis var ættfaðirinn Abraham gestgjafi þriggja engla. (1. Mósebók 18:1-22) Tveir af þeim fóru burt og Lot frændi hans bauð þessum alókunnugu mönnum inn á heimili sitt í Sódómu. En áður en þeir gátu lagst til hvíldar umkringdi mannfjöldi hús Lots, „bæði ungir og gamlir.“ Þeir kröfðust þess að Lot framseldi þeim gesti sína til að þeir gætu fullnægt á þeim siðlausum fýsnum, en hann þverneitaði. Þótt Lot vissi það ekki í fyrstu hafði hann skotið skjólshúsi yfir engla sem síðan hjálpuðu honum og dætrum hans að bjarga lífi sínu er ‚Jehóva lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi af himni.‘ — 1. Mósebók 19:1-26.
10. Hvaða blessana njóta gestrisnir kristnir menn?
10 Gestrisnir kristnir menn eru margra blessana aðnjótandi. Þeir heyra gesti sína segja frásögur og njóta góðs af andlega auðgandi samfélagi við þá. Gajusi var hrósað fyrir gestrisni við trúbræður sína, „jafnvel ókunna menn,“ líkt og margir þjónar Jehóva nú á tímum sýna farandumsjónarmönnum gestrisni. (3. Jóhannesarbréf 1, 5-8) Gestrisni er ein af kröfunum sem öldungar þurfa að uppfylla. (1. Tímóteusarbréf 3:2; Títusarbréfið 1:7, 8) Það er einnig eftirtektarvert að Jesús hét sauðumlíkum mönnum, sem sýna myndu smurðum „bræðrum“ hans gestrisni, blessun Guðsríkis. — Matteus 25:34-40.
Minnist ofsóttra
11. Hvers vegna voru ráðin í Hebreabréfinu 13:3 vel við hæfi?
11 Þeir sem þrá hjálp Jehóva og ‚veita honum heilaga þjónustu í lotningu og ótta‘ mega ekki gleyma trúbræðrum sínum sem þjást. Páll skildi vel þær þrengingar sem ill meðferð hafði í för með sér fyrir kristna menn. Nokkru áður höfðu lærisveinarnir tvístrast vegna ofsókna og Tímóteus, samverkamaður hans, var nýsloppinn úr fangelsi. (Hebreabréfið 13:23; Postulasagan 11:19-21) Kristnir trúboðar ferðuðust einnig um og stofnuðu nýja söfnuði eða uppbyggðu andlega þá sem fyrir voru. Með því að margir bræður og systur, sem þá voru á faraldsfæti, voru af þjóðunum getur hugsast að sumir kristnir Hebrear hafi ekki sýnt þeim nægja umhyggju. Því var við hæfi áminningin: „Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.“ — Hebreabréfið 13:3.
12. Hvernig getum við fylgt þeim ráðum að hafa í huga bræður okkar sem sæta illri meðferð?
12 Hebrear höfðu ‚þjást með bandingjum‘ en þeir áttu ekki að gleyma slíkum trúföstum guðsdýrkendum, hvort heldur þeir voru af Gyðingum eða þjóðunum. (Hebreabréfið 10:34) En hvað um okkur? Hvernig getum við sýnt að við höfum í huga kristna bræður okkar sem sæta illri meðferð? Í sumum tilvikum getur verið við hæfi að höfða bréflega til yfirvalda í von um að geta hjálpað trúbræðrum okkar sem sitja trúar sinnar vegna í fangelsum í löndum þar sem prédikun Guðsríkis er bönnuð. Einkanlega ættum við að minnast þeirra í bænum okkar, jafnvel með nafni ef þess er kostur. Ofsóknirnar á hendur þeim hafa djúp áhrif á okkur og Jehóva heyrir einlægar bænir okkar í þeirra þágu. (Sálmur 65:3; Efesusbréfið 6:17-20) Enda þótt við sitjum ekki í sama fangaklefa og þeir er það eins og við séum þeim sameinaðir og getum boðið fram hjálp og uppörvun. Andagetnir kristnir menn hafa vissulega samkennd með smurðum bræðrum sínum er sæta illri meðferð. (Samanber 1. Korintubréf 12:19-26.) Þeir bera sömu umhyggju fyrir ofsóttum félögum sínum með jarðneska von sem einnig sæta margs konar illri meðferð af hendi ofsækjenda sinna. Slík samkennd er viðeigandi því að öll höfum við enn mannslíkama og getum sem dýrkendur Jehóva orðið fyrir þjáningum og ofsóknum. — 1. Pétursbréf 5:6-11.
Hjónabandið verður að vera heiðvirt
13. Hver er kjarni þess sem Páll sagði í Hebreabréfinu 13:4?
13 Það að fylgja fordæmi Krists og ‚veita Jehóva heilaga þjónustu með lotningu og ótta‘ ætti að hafa margvísleg áhrif á umhyggju okkar fyrir öðrum. Eftir að hafa sagt að „þér sjálfir eruð einnig með líkama“ minnist Páll á líkamlegt samband sem býður upp á tækifæri til að sýna öðrum tilhlýðilega umhyggju. (Hebreabréfið 13:3) Hann hvatti kristna Hebrea: „Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ (Hebreabréfið 13:4) Þetta heilræði var vel við hæfi því að siðleysi var mjög útbreitt í Rómaveldi! Kristnir nútímamenn þurfa einnig að taka til sín þessi orð með tilliti til hins bága siðferðisástands í heiminum og einnig hins að ár hvert eru þúsundir einstaklinga gerðar rækar úr söfnuðinum vegna siðleysis.
14. Rökstyddu það að hjónaband sé heiðvirt.
14 Essenar voru meðal þeirra sem ekki mátu hjónabandið mikils á tímum Páls. Yfirleitt voru þeir einlífismenn líkt og prestar sumra kirkjudeilda nú sem telja sig ranglega helgari en aðra fyrir það að vera ekki í hjónabandi. Af orðum Páls til kristinna Hebrea er hins vegar augljóst að hjónabandið er heiðvirt. Ljóst er að það var mikils metið þegar Naomí lét í ljós eftirfarandi ósk handa ekkjunum Rut og Orpu: „[Jehóva] gefi ykkur, að þið megið finna athvarf hvor um sig í húsi manns síns.“ (Rutarbók 1:9) Annars staðar tók Páll fram að ‚á síðari tímum myndu sumir ganga af trúnni og meina mönnum hjúskap.‘ — 1. Tímóteusarbréf 4:1-5.
15. Hverjir eru kallaðir hórkarlar og frillulífismenn í Hebreabréfinu 13:4 og hvernig mun Guð dæma þá?
15 Hebrear voru nú undir nýja sáttmálanum, en þeir höfðu einu sinni verið undir lögmálinu og þekktu boðorðið: „Þú skalt ekki drýgja hór.“ (2. Mósebók 20:14) En þeir bjuggu í siðlausum heimi og þurftu því að fá þessa aðvörun: „Hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.“ Meðal hórkarla má nefna ógift fólk sem hefur kynmök. Frillulífismenn eru fyrst og fremst þeir sem eru í hjónabandi en hafa kynmök við einhvern sem ekki er maki þeirra og flekka þannig hjónasængina. Með því að þeir sem stunda frillulífi og hórdóm og iðrast ekki verðskulda harðan dóm af Guðs hendi fá þeir hvorki aðgang að hinni nýju Jerúsalem á himnum né eilíft líf á jörð undir stjórn Guðsríkis. (Opinberunarbókin 21:1, 2, 8; 1. Korintubréf 6:9, 10) Þessi aðvörun um að flekka ekki hjónasængina ætti einnig að koma giftum, kristnum mönnum til að forðast óhreinar kynlífsathafnir með maka sínum, þótt eðlileg mök innan vébanda hjónabands séu á engan hátt óhrein. — Sjá Varðturninn (enska útgáfu) þann 15. mars 1983, bls. 27-31.
Látum okkur nægja það sem við höfum
16, 17. Hvað var sagt í Hebreabréfinu 13:5 og hvers vegna þurftu Hebrear að fá þessa leiðbeiningu?
16 Við munum vera nægjusöm og ánægð með hlutskipti okkar ef við fylgjum fyrirmynd okkar og ‚veitum heilaga þjónustu í guðhræðslu og ótta‘ og treystum á Jehóva sem hjálpara okkar. Það getur verið afar freistandi að sökkva sér niður í eftirsókn eftir efnislegum hlutum. En kristnir menn mega ekki gera það. Hebreum var sagt: „Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ‚Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.‘“ (Hebreabréfið 13:5) Hvers vegna þurftu Hebrear á þessu heilræði að halda?
17 Ef til vill gerðu Hebrear sér einum of miklar áhyggjur af peningum vegna þess að þeir minntust hinnar ‚miklu hungursneyðar‘ á tímum Kládíusar keisara (41-54). Hungursneyðin var slík að kristnir menn annars staðar sendu bræðrum sínum í Júdeu hjálpargögn. (Postulasagan 11:28, 29) Að sögn Jósefusar, sagnaritara Gyðinga, stóð hungursneyðin í þrjú ár eða lengur og olli mikilli fátækt í Júdeu og Jerúsalem. — Antiquities of the Jews, XX, 2, 5; 5, 2.
18. Hvaða lærdómur fyrir okkur er í Hebreabréfinu 13:5?
18 Getum við dregið lærdóm af þessu? Já, því að þótt við kunnum að vera bláfátæk megum við aldrei elska peninga eða gera okkur óhóflegar áhyggjur af þeim. Í stað þess að hafa áhyggjur af fjárhagslegu öryggi okkar, og verða kannski ágjörn, ættum við að ‚láta okkur nægja það sem við höfum.‘ Jesús sagði: „Leitið fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis, og þá mun allt þetta veitast yður að auki.“ (Matteus 6:25-34) Hann sýndi einnig fram á að við ættum að einbeita okkur að því að vera ‚rík hjá Guði‘ vegna þess að við ‚þiggjum ekki líf af eignum okkar.‘ (Lúkas 12:13-21) Ef ástin á peningum ógnar andlegu hugarfari okkar skulum við taka til okkar heilræði Páls til Hebreanna og hafa einnig í huga að „guðhræðslan samfara nægjusemi er mikill gróðavegur.“ — 1. Tímóteusarbréf 6:6-8.
Treystu á Jehóva
19. Hvernig hughreysti Guð Jósúa og hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur?
19 Við sem erum fylgjendur Jesú og leitumst við að ‚veita heilaga þjónustu í lotningu og ótta‘ megum ekki setja traust okkar á peninga heldur himneskan föður okkar. Hjálp hans er okkur lífsnauðsyn. Hvaða vandamálum sem við stöndum frammi fyrir ættum við að muna eftir hughreystingu hans. „Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Hebreabréfið 13:5) Hér vísaði Páll í orð Guðs til Jósúa: „Ég mun eigi sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.“ (Jósúa 1:5; samanber 5. Mósebók 31:6, 8.) Jehóva yfirgaf Jósúa aldrei og hann mun ekki heldur yfirgefa okkur ef við treystum á hann.
20. (a) Hver er árstextinn fyrir 1990? (b) Hvað ættum við að halda áfram að gera óttalaust?
20 Það verður lögð áhersla á óbrigðula hjálp Guðs meðal votta Jehóva á komandi mánuðum, því að árstexti þeirra fyrir árið 1990 hljóðar svo: „Við getum öruggir sagt: ‚Jehóva er minn hjálpari.‘“ Þessi orð eru tekin úr Hebreabréfinu 13:6 þar sem Páll vitnaði í orð sálmaritarans og sagði Hebreum: „Því getum vér öruggir sagt: [Jehóva] er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?“ (Sálmur 118:6) Þótt við séum ofsóttir erum við ekki óttaslegnir því að menn geta ekki gert okkur meira en Guð leyfir. (Sálmur 27:1) Jafnvel ef við verðum að deyja sem ráðvandir menn höfum við upprisuvon. (Postulasagan 24:15) Við skulum því halda áfram að fylgja fyrirmynd okkar í því að ‚veita heilaga þjónustu með lotningu og ótta,‘ í trausti þess að Jehóva sé hjálpari okkar.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvers vegna þurftu kristnir Hebrear sérstaklega á hjálp Jehóva að halda?
◻ Hvernig hafa þjónar Jehóva látið ‚bróðurkærleikann haldast‘?
◻ Hvers vegna ber okkur að vera gestrisin?
◻ Hvernig getum við sýnt að við munum eftir trúbræðrum okkar sem sæta illri meðferð?
◻ Hvers vegna ber að halda hjónabandið í heiðri?