Hver leiðir þjóna Guðs nú á dögum?
„Minnist leiðtoga ykkar.“ – HEBR. 13:7.
1, 2. Hverju veltu postularnir ef til vill fyrir sér eftir að Jesús var hrifinn upp til himna?
POSTULAR Jesú standa á Olíufjallinu og stara til himins. Þeir hafa rétt í þessu séð Jesú, herra sinn og vin, hrifinn upp til himins og hverfa bak við ský. (Post. 1:9, 10) Jesús hafði kennt þeim, uppörvað þá og leitt í um tvö ár. Nú var hann farinn. Hvað áttu þeir að gera?
2 Jesús hafði gefið fylgjendum sínum þetta verkefni: „Þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.“ (Post. 1:8) Hvernig áttu þeir að geta gert því skil? Jesús hafði að vísu fullvissað þá um að þeir hlytu bráðum heilagan anda. (Post. 1:5) En til að boða trúna um öll lönd var þörf á að stýra starfinu og skipuleggja það. Til forna notaði Jehóva sýnilega fulltrúa til að leiðbeina þjónum sínum og skipuleggja þá. Postularnir veltu því ef til vill fyrir sér hvort Jehóva myndi núna skipa nýjan leiðtoga.
3. (a) Hvaða mikilvægu ákvörðun tóku trúföstu postularnir eftir að Jesús var stiginn upp til himna? (b) Um hvað er rætt í þessari grein?
3 Innan við tveim vikum síðar leituðu lærisveinar Jesú ráða í ritningunum, báðu Guð um leiðsögn og völdu svo Matthías til að taka við af Júdasi Ískaríot sem 12. postulinn. (Post. 1:15-26) Af hverju var þetta svona mikilvæg ákvörðun fyrir þá og fyrir Jehóva? Lærisveinarnir vissu að postularnir þurftu að vera 12.a Jesús hafði ekki aðeins útvalið postulana til að vera með sér í boðuninni. Þeir áttu að gegna mikilvægu hlutverki meðal þjóna Guðs. Hvaða hlutverk var það og hvernig notaði Jehóva Jesú til að búa þá undir það? Hvaða svipaða fyrirkomulag ríkir meðal þjóna Guðs nú á dögum? Og hvernig getum við ,minnst leiðtoga okkar‘, ekki síst þeirra sem mynda ,hinn trúa og hyggna þjón‘? – Hebr. 13:7; Matt. 24:45.
SÝNILEGT RÁÐ UNDIR ÓSÝNILEGUM LEIÐTOGA
4. Hvaða hlutverki gegndu postularnir og aðrir öldungar í Jerúsalem á fyrstu öld?
4 Postularnir tóku að veita kristna söfnuðinum forystu á hvítasunnu árið 33. Á þeim degi „steig Pétur fram og þeir ellefu“ og sögðu fjölmennum hópi Gyðinga og trúskiptinga sannindi sem gátu veitt þeim líf. (Post. 2:14, 15) Margir þeirra tóku kristna trú og helguðu sig „uppfræðslu postulanna“ þaðan í frá. (Post. 2:42) Postularnir höfðu umsjón með fjármálum safnaðarins. (Post. 4:34, 35) Þeir sáu fyrir andlegum þörfum þjóna Guðs. „Við munum helga okkur bæninni og þjónustu orðsins,“ sögðu þeir. (Post. 6:4) Þeir fólu líka reyndum kristnum mönnum að boða trúna á nýjum svæðum. (Post. 8:14, 15) Með tímanum sáu aðrir andasmurðir öldungar um mál safnaðanna ásamt postulunum. Saman mynduðu þeir stjórnandi ráð og veittu öllum söfnuðunum leiðbeiningar. – Post. 15:2.
5, 6. (a) Hvernig fékk hið stjórnandi ráð kraft heilags anda? (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvernig aðstoðuðu englar hið stjórnandi ráð? (c) Hvernig lét hið stjórnandi ráð orð Guðs leiðbeina sér?
5 Kristnum mönnum á fyrstu öld var ljóst að Jehóva Guð stýrði hinu stjórnandi ráði fyrir milligöngu leiðtoga þeirra, Jesú. Hvernig gátu þeir verið vissir um það? Í fyrsta lagi fékk hið stjórnandi ráð kraft heilags anda. (Jóh. 16:13) Heilögum anda var úthellt yfir alla andasmurða en hann veitti postulunum og öðrum öldungum í Jerúsalem sérstaka hæfni til að gegna hlutverki sínu sem umsjónarmenn. Hið stjórnandi ráð fékk til dæmis leiðsögn heilags anda árið 49 til að taka ákvörðun um umskurn. Söfnuðirnir fóru eftir leiðbeiningum þeirra og „styrktust í trúnni og urðu fjölmennari dag frá degi“. (Post. 16:4, 5) Bréfið, þar sem greint var frá ákvörðuninni, ber þess einnig merki að hið stjórnandi ráð sýndi ávöxt anda Guðs, svo sem kærleika og trú. – Post. 15:11, 25-29; Gal. 5:22, 23.
6 Í öðru lagi fékk hið stjórnandi ráð aðstoð engla. Kornelíus fékk til dæmis bendingu frá engli um að senda eftir Pétri postula. Eftir að Pétur hafði boðað Kornelíusi og skyldfólki hans trúna var heilögum anda úthellt yfir þau enda þótt karlarnir hafi ekki verið umskornir. Kornelíus lét skírast og varð þar með fyrsti óumskorni heiðinginn til að taka kristna trú. Þegar postularnir og aðrir bræður fréttu af þessu gengust þeir undir vilja Guðs og buðu óumskorna heiðingja velkomna í kristna söfnuðinn. (Post. 11:13-18) Englar efldu auk þess boðunina sem hið stjórnandi ráð hafði umsjón með. (Post. 5:19, 20) Í þriðja lagi leitaði hið stjórnandi ráð leiðsagnar í orði Guðs. Þessir andasmurðu öldungar létu ritningarnar leiðbeina sér hvort sem þeir þurftu að taka ákvörðun um kenningarleg atriði eða leiðbeina söfnuðunum. – Post. 1:20-22; 15:15-20.
7. Hvers vegna getum við sagt að Jesús hafi leitt frumkristna söfnuðinn?
7 Hið stjórnandi ráð fór vissulega með völd í frumkristna söfnuðinum en bræðurnir í ráðinu viðurkenndu samt að Jesús væri leiðtogi þeirra. „Frá honum [Kristi] er sú gjöf komin að sumir eru postular,“ skrifaði Páll postuli. Síðan hvatti hann söfnuðinn til að ástunda kærleika og ,vaxa í öllu upp til hans sem er höfuðið, Kristur‘. (Ef. 4:11, 15) Lærisveinarnir drógu ekki nafn sitt af einhverjum áberandi postula heldur voru þeir „kallaðir kristnir“. (Post. 11:26) Páll gerði sér að vísu grein fyrir mikilvægi þess að ,halda fast við kenningarnar‘ sem postularnir og aðrir bræður í forystu safnaðarins kenndu og byggðu á ritningunum. Engu að síður bætti hann við: „En ég vil að þið vitið að Kristur er höfuð sérhvers karlmanns [þar á meðal allra bræðranna í hinu stjórnandi ráði] ... og Guð höfuð Krists.“ (1. Kor. 11:2, 3) Já, hinn ósýnilegi og upprisni Jesús Kristur leiddi söfnuðinn undir stjórn höfuðs síns, Jehóva Guðs.
„ÞETTA ER EKKI VERK MANNA“
8, 9. Hvaða mikilvæga hlutverki gegndi bróðir Russell frá síðari hluta 19. aldar?
8 Charles Taze Russell og nokkrir félagar hans leituðust við að endurvekja sanna kristna tilbeiðslu seint á 19. öld. Árið 1884 var Zion’s Watch Tower Tract Society lögskráð til að þeir gætu útbreitt sannleika Biblíunnar á ýmsum tungumálum, en bróðir Russell var forseti félagsins.b Hann var kappsamur biblíunemandi og afhjúpaði óhræddur falskenningar á borð við kenningarnar um þríeinan Guð og ódauðleika sálarinnar. Hann komst að raun um að Kristur kæmi í ósýnilegri mynd og að „tímar heiðingjanna“ myndu líða undir lok árið 1914. (Lúk. 21:24) Bróðir Russell notaði tíma sinn, krafta og fjármuni óspart til að segja öðrum frá þessum sannindum. Það er augljóst að Jehóva og höfuð safnaðarins notuðu hann á þessum merku tímamótum.
9 Bróðir Russell sóttist ekki eftir upphefð manna. Árið 1896 skrifaði hann að hvorki hann né aðrir bræður í ábyrgðarstöðum vildu hljóta sérstakan heiður af nokkru tagi. Þeir vildu ekki að fólk ávarpaði þá með titlum eins og séra eða rabbí né að nokkur hópur manna kenndi sig við nöfn þeirra. Síðar sagði hann: „Þetta er ekki verk manna.“
10. (a) Hvenær skipaði Jesús ,hinn trúa og hyggna þjón‘? (b) Útskýrðu hvernig það varð ljóst að hið stjórnandi ráð og Varðturnsfélagið væri ekki eitt og hið sama.
10 Árið 1919, þremur árum eftir dauða bróður Russells, skipaði Jesús ,hinn trúa og hyggna þjón‘. Í hvaða tilgangi? Til að gefa hjúum sínum „mat á réttum tíma“. (Matt. 24:45) Fámennur hópur andasmurðra bræðra, sem starfaði við aðalstöðvarnar í Brooklyn í New York, útbjó strax á þeim tíma andlega fæðu og úthlutaði henni til fylgjenda Jesú. Hugtakið „stjórnandi ráð“ birtist fyrst í ritum okkar á fimmta áratug 20. aldar, en þá var litið svo á að ráðið væri nátengt Biblíu- og smáritafélaginu Varðturninn. Árið 1971 var bent á að hið stjórnandi ráð annars vegar og Varðturnsfélagið og stjórnarmenn þess hins vegar væru ekki eitt og hið sama, enda þjónaði hið síðarnefnda aðeins lagalegum tilgangi. Þaðan í frá gátu andasmurðir bræður, sem voru ekki stjórnarmenn Varðturnsfélagsins, átt sæti í hinu stjórnandi ráði. Á síðari árum hafa bræður af ,öðrum sauðum‘ setið í stjórn hins lögskráða félags og annarra félaga sem þjónar Guðs standa fyrir. Þannig hefur hið stjórnandi ráð getað einbeitt sér að því að veita andlega leiðsögn. (Jóh. 10:16; Post. 6:4) Í Varðturninum 15. júlí 2013 var útskýrt að ,hinn trúi og hyggni þjónn‘ væri fámennur hópur andasmurðra bræðra sem myndar hið stjórnandi ráð.
11. Hvernig starfar hið stjórnandi ráð?
11 Bræðurnir í hinu stjórnandi ráði taka mikilvægar ákvarðanir í sameiningu. Hvernig gera þeir það? Þeir funda vikulega, en það stuðlar að einingu og nánum samskiptum. (Orðskv. 20:18) Þeir skiptast á að vera fundarstjórar á þessum fundum eitt ár í senn þar sem enginn þeirra er talinn mikilvægari en annar. (1. Pét. 5:1) Sami háttur er hafður á í hinum sex nefndum ráðsins. Enginn bræðranna í hinu stjórnandi ráði lítur á sig sem leiðtoga trúsystkina sinna heldur sem „hjú“ sem þiggur andlega fæðu og lagar sig að leiðbeiningum trúa og hyggna þjónsins.
,HVER ER HINN TRÚI OG HYGGNI ÞJÓNN?‘
12. Hvaða spurningar vakna í ljósi þess að hið stjórnandi ráð fær ekki innblástur heilags anda og er ekki óskeikult?
12 Hið stjórnandi ráð fær ekki innblástur heilags anda og er ekki óskeikult. Það getur því gert mistök þegar það útskýrir kenningarleg atriði eða leiðbeinir söfnuðinum. Undir fyrirsögninni „Beliefs Clarified“ í ritinu Watch Tower Publications Index er að finna lista yfir breyttan skilning á trúaratriðum allt frá árinu 1870.c Jesús sagði okkur auðvitað ekki að andlega fæðan, sem trúi þjónninn hans útbyggi, yrði fullkomin. Hvernig getum við þá svarað spurningu Jesú: ,Hver er hinn trúi og hyggni þjónn?‘ (Matt. 24:45) Hvaða sannanir eru fyrir því að hið stjórnandi ráð gegni því hlutverki? Skoðum sömu þrjú atriðin sem leiðbeindu hinu stjórnandi ráði á fyrstu öld.
13. Hvernig hefur heilagur andi hjálpað hinu stjórnandi ráði?
13 Merki um heilagan anda. Heilagur andi hefur hjálpað hinu stjórnandi ráði að skilja biblíuleg sannindi sem menn skildu ekki áður. Veltu til dæmis fyrir þér listanum um gleggri skilning á trúaratriðum sem minnst var á í síðustu tölugrein. Enginn maður á skilið heiðurinn af því að uppgötva og skýra þessi djúpu sannindi Guðs. (Lestu 1. Korintubréf 2:10.) Hið stjórnandi ráð endurómar orð Páls postula sem skrifaði: „Við [segjum] það ekki með orðum sem mannlegur vísdómur kennir heldur með orðum sem andi Guðs kennir.“ (1. Kor. 2:13) Hvernig er hægt að skýra það hve hratt skilningurinn á biblíusannindum hefur aukist frá árinu 1919 eftir margra alda fráhvarf og andlegt myrkur? Eina skýringin er sú að heilagur andi hafi komið því til leiðar.
14. Hvernig aðstoða englar þjóna Guðs nú á dögum samkvæmt Opinberunarbókinni 14:6, 7?
14 Merki um aðstoð engla. Hið stjórnandi ráð okkar tíma hefur það gríðarmikla verkefni að hafa umsjón með alþjóðlegri boðun sem meira en átta milljónir boðbera taka þátt í. Hvers vegna hefur þetta starf borið svona mikinn árangur? Meðal annars vegna þess að englar eiga þar hlut að máli. (Lestu Opinberunarbókina 14:6, 7.) Boðberar hafa margsinnis heimsótt einhvern sem hafði einmitt verið að biðja Guð um hjálp.d Boðunar- og kennslustarfið hefur aukist til muna þrátt fyrir hatramma andstöðu í sumum löndum. Það væri ekki mögulegt nema fyrir ofurmannlega aðstoð.
15. Hvaða munur er á hinu stjórnandi ráði og leiðtogum kristna heimsins? Nefndu dæmi.
15 Traust á orði Guðs. (Lestu Jóhannes 17:17.) Lítum á mál sem var tekið fyrir árið 1973. Í Varðturninum á ensku 1. júní var spurt: „Eru ... þeir sem hafa ekki sigrast á tóbaksfíkn sinni hæfir til að skírast?“ Svarið var: „Biblíuleg rök leiða í ljós að þeir eru það ekki.“ Í Varðturninum var vitnað í ýmis viðeigandi biblíuvers og síðan útskýrt af hverju ætti að víkja iðrunarlausum reykingarmanni úr söfnuðinum. (1. Kor. 5:7; 2. Kor. 7:1) Þar sagði: „Með þessu er ekki ætlunin að gefa geðþóttalegar leiðbeiningar og reyna að stjórna fólki. Þessar ákveðnu leiðbeiningar koma frá Guði sem tjáir sig í rituðu orði sínu.“ Hefur nokkur annar trúarsöfnuður verið tilbúinn til að reiða sig í einu og öllu á orð Guðs, jafnvel þegar það reynir verulega á trúfesti sumra safnaðarmanna? Í nýlegri bók um trúarbrögð í Bandaríkjunum segir: „Kristnir trúarleiðtogar hafa reglulega endurskoðað kenningar sínar til að laga þær að trú og skoðunum sem eru vinsælar meðal fylgismanna þeirra og samfélagsins í heild.“ Fyrst hið stjórnandi ráð lætur orð Guðs leiðbeina sér en ekki vinsælar skoðanir manna, hver leiðir þá þjóna Guðs í raun og veru?
„MINNIST LEIÐTOGA YKKAR“
16. Hver er ein leið til að minnast hins stjórnandi ráðs?
16 Lestu Hebreabréfið 13:7. Orðið, sem þýtt er „minnist“, má einnig þýða „minnist á“. Ein leið til að ,minnast leiðtoga okkar‘ er því að minnast á hið stjórnandi ráð í bænum okkar. (Ef. 6:18) Veltu fyrir þér ábyrgð þeirra að veita andlega fæðu, hafa umsjón með boðuninni um allan heim og nota framlög okkar skynsamlega. Þeir þurfa vissulega á því að halda að við biðjum reglulega fyrir þeim.
17, 18. (a) Hvernig sýnum við að við séum samstarfsfús við hið stjórnandi ráð? (b) Hvernig styðjum við trúa þjóninn og Jesú með boðuninni?
17 Það er ekki aðeins með orðum okkar sem við minnumst hins stjórnandi ráðs heldur líka með því að fara eftir leiðbeiningum þess. Hið stjórnandi ráð lætur í té leiðbeiningarnar sem við fáum í ritum okkar og á samkomum og mótum. Að auki útnefnir það farandhirða en þeir útnefna safnaðaröldunga. Farandhirðar og öldungar minnast hins stjórnandi ráðs með því að fylgja vandlega leiðbeiningunum sem þeir fá. Og öll sýnum við leiðtoga okkar, Jesú, virðingu með því að vera hlýðin og undirgefin mönnunum sem hann notar til að leiðbeina okkur. – Hebr. 13:17.
18 Önnur leið til að minnast hins stjórnandi ráðs er að leggja sig fram við boðunina. Páll hvatti kristna menn til að líkja eftir trú þeirra sem fóru með forystuna. Trúi þjónninn hefur sýnt einstaka trú með því að efla boðun fagnaðarerindisins um ríki Guðs og kunngera það af kappi. Ert þú í hópi annarra sauða Jesú sem styðja hina andasmurðu í þessu mikilvæga starfi? Þú getur glaðst ákaflega þegar leiðtogi þinn, Jesús, segir: „Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér.“ – Matt. 25:34-40.
19. Af hverju ætlar þú að fylgja leiðtoga okkar, Jesú?
19 Jesús yfirgaf ekki fylgjendur sína þegar hann sneri aftur til himna. (Matt. 28:20) Hann vissi hve mikla hjálp hann hafði fengið frá heilögum anda, englunum og orði Guðs til að fara með forystuna meðan hann var á jörð. Hann sér því til þess að trúi þjónninn nú á dögum fái sömu aðstoð. Þar sem bræðurnir í hinu stjórnandi ráði eru andasmurðir ,fylgja þeir lambinu hvert sem það fer‘. (Opinb. 14:4) Þegar við fylgjum leiðsögn þeirra fylgjum við því Jesú, leiðtoga okkar. Hann leiðir okkur innan skamms til eilífs lífs. (Opinb. 7:14-17) Það er loforð sem enginn mennskur leiðtogi getur veitt.
a Að því er best verður séð ætlaði Jehóva 12 postulum að mynda hina „tólf undirstöðusteina“ nýju Jerúsalem sem koma átti. (Opinb. 21:14) Það var því ekki þörf á að aðrir tækju við af trúföstu postulunum þegar einhver þeirra lyki lífi sínu hér á jörð.
b Frá og með árinu 1955 hefur þetta félag gengið undir nafninu Watch Tower Bible and Tract Society of Pennsylvania.
c Sjá einnig fyrirsögnina „Gleggri skilningur á trúaratriðum“ í Efnislykli að ritum Votta Jehóva.
d Sjá bókina „Bearing Thorough Witness“ About God’s Kingdom, bls. 58-59.