Trú kristins manns verður reynd
„Ekki er trúin allra.“ — 2. ÞESSALONÍKUBRÉF 3:2.
1. Hvernig hefur sagan sýnt að það eru ekki allir sanntrúaðir?
ALLA mannkynssöguna hefur verið uppi sanntrúað fólk, karlar, konur og börn. Það er rétt að nota einkunnarorðið „sannur“ af því að milljónir manna hafa sýnt einhvers konar trú sem er í raun réttri trúgirni, því að þeir hafa trúað án þess að hafa gildar forsendur eða rök fyrir trú sinni. Slík trú hefur oft beinst að falsguðum eða tilbeiðsluformi sem samræmist ekki alvöldum Jehóva og opinberun hans, Biblíunni. Þess vegna skrifaði Páll postuli: „Ekki er trúin allra.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:2.
2. Af hverju er mikilvægt að við rannsökum trú okkar?
2 En orð Páls gefa í skyn að sumir samtíðarmanna hans hafi verið sanntrúaðir, og af því má álykta að sumir séu líka sanntrúaðir núna. Flestir lesendur þessa tímarits vilja vera sanntrúaðir og styrkja trúna — trú sem samræmist nákvæmri þekkingu á sannleika Guðs. (Jóhannes 18:37; Hebreabréfið 11:6) Hvað um þig? Ef þú vilt það líka þarftu að gera þér ljóst að trú þín verður reynd og þú verður að vera undir það búinn. Af hverju er hægt að fullyrða það?
3, 4. Hvers vegna ættum við að horfa til Jesú þegar trú okkar er reynd?
3 Við hljótum að viðurkenna að Jesús Kristur gegnir veigamiklu hlutverki í trú okkar. Reyndar talar Biblían um Jesú sem fullkomnara trúarinnar vegna þess sem hann sagði og gerði, einkum hvernig hann uppfyllti spádómana. Hann styrkti þann grundvöll sem menn geta byggt ósvikna trú á. (Hebreabréfið 12:2; Opinberunarbókin 1:1, 2) Þó lesum við að Jesús hafi verið reyndur ‚á allan hátt eins og við en án syndar.‘ (Hebreabréfið 4:15) Já, trú hans var reynd. En það ætti ekki að gera okkur kjarklaus eða kvíðin heldur hughreysta okkur.
4 Jesús ‚lærði hlýðni‘ af miklum prófraunum sem enduðu með dauða á aftökustaur. (Hebreabréfið 5:8) Hann sannaði að menn geta lifað samkvæmt trú sinni í hvaða prófraunum sem vera skal. Þetta öðlast sérstaka þýðingu þegar við hugsum til þess sem Jesús sagði við fylgjendur sína: „Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans.“ (Jóhannes 15:20) Reyndar spáði hann um fylgjendur sína á okkar tímum: „Allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.“ — Matteus 24:9.
5. Hvernig gefur Biblían til kynna að trú okkar verði reynd?
5 Dómurinn hófst á húsi Guðs snemma á þessari öld. Biblían spáði: „Nú er tíminn kominn, að dómurinn byrji á húsi Guðs. En ef hann byrjar á oss, hver munu þá verða afdrif þeirra, sem ekki hlýðnast fagnaðarerindi Guðs? Ef hinn réttláti naumlega frelsast, hvar mun þá hinn óguðlegi og syndarinn lenda?“ — 1. Pétursbréf 4:17, 18.
Trúin reynd — af hverju?
6. Af hverju er reynd trú mjög dýrmæt?
6 Í vissum skilningi er óreynd trú ekki búin að sanna gildi sitt og staðfesta hennar eða gæði eru óþekkt. Það mætti líkja henni við óinnleysta ávísun. Þú hefur kannski fengið greitt með ávísun fyrir vinnu sem þú vannst eða vörur sem þú seldir eða jafnvel fengið hana að gjöf. Ávísunin virðist góð og gild en er hún það? Er hún raunverulega jafnmikils virði og upphæðin sem á henni stendur? Trú okkar verður líka að vera meira en útlitið eða játningin. Það þarf að reyna hana til að sanna að hún sé innihaldsrík og staðföst. Þegar trúin er reynd kemur kannski í ljós að hún er sterk og verðmæt. En prófraun getur líka leitt í ljós að við þurfum að fága eða styrkja trú okkar á einhverjum sviðum.
7, 8. Hvaðan koma trúarprófraunirnar?
7 Guð leyfir að við séum ofsótt og að trúin sé reynd á annan hátt. Við lesum: „Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu [eða prófraun]: ‚Guð freistar mín.‘ Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Hver eða hvað stendur á bak við slíkar prófraunir? Satan, heimurinn og ófullkomið hold sjálfra okkar.
8 Við viðurkennum kannski að Satan hafi sterk áhrif á heiminn, hugsunarhátt hans og lifnaðarhætti. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Og sennilega vitum við hvernig hann æsir til ofsókna á hendur kristnum mönnum. (Opinberunarbókin 12:17) En erum við jafnsannfærð um að Satan reyni að afvegaleiða okkur með því að höfða til hins ófullkomna holds, með því að veifa veraldlegum tálbeitum fyrir augunum á okkur í þeirri von að við bítum á agnið, óhlýðnumst Guði og bökum okkur vanþóknun hans? Aðferðir Satans ættu auðvitað ekki að koma okkur í opna skjöldu því að hann beitti sömu brögðum þegar hann reyndi að freista Jesú. — Matteus 4:1-11.
9. Hvernig getum við notið góðs af trúarfyrirmyndum?
9 Í orði sínu og í kristna söfnuðinum lætur Jehóva í té góðar trúarfyrirmyndir sem við getum líkt eftir. Páll hvatti: „Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.“ (Filippíbréfið 3:17) Páll var smurður þjónn Guðs á fyrstu öld og tók forystuna í trúarverkum þrátt fyrir miklar raunir sem hann þurfti að þola. Nú við lok þessarar aldar er enginn skortur á sambærilegum fyrirmyndum. Orðin í Hebreabréfinu 13:7 eiga jafnmikið erindi til okkar og til samtíðarmanna Páls: „Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.“
10. Hvaða sérstök nútímadæmi höfum við um trú?
10 Þessi hvatning er sérstaklega mikilvæg þegar litið er til hinna smurðu leifa. Við getum virt fyrir okkur fordæmi þeirra og líkt eftir trú þeirra. Trú þeirra er ósvikin og hefur fágast í prófraunum. Kristið heimsbræðrafélag óx upp úr hinni litlu byrjun á áttunda áratug síðustu aldar. Trú og þolgæði hinna smurðu upp frá því hefur borið þann ávöxt að núna starfar rösklega fimm og hálf milljón votta Jehóva að því að prédika Guðsríki og kenna. Söfnuður kostgæfinna, sannra guðsdýrkenda um heim allan er vitnisburður um reynda trú. — Títusarbréfið 2:14.
Trúin reynd í sambandi við 1914
11. Hvernig var árið 1914 þýðingarmikið fyrir C. T. Russell og samstarfsmenn hans?
11 Hinar smurðu leifar höfðu boðað í mörg ár áður en fyrri heimsstyrjöldin braust út að árið 1914 væri þýðingarmikið í spádómum Biblíunnar. En sumar af væntingum þeirra voru ótímabærar og hugmyndir þeirra um það sem gerast myndi voru ekki nákvæmar að öllu leyti. Fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, C. T. Russell, og samstarfsmenn hans gerðu sér til dæmis grein fyrir að gríðarlegt prédikunarstarf væri nauðsynlegt. Þeir lásu: „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ (Matteus 24:14) En hvernig gat þessi tiltölulega fámenni hópur gert þetta?
12. Hvernig brást einn af samstarfsmönnum Russells við sannleika Biblíunnar?
12 Lítum á hvernig áhrif þetta hafði á A. H. Macmillan, samstarfsmann Russells. Macmillan fæddist í Kanada og var innan við tvítugt þegar hann eignaðist bók Russells, Áætlun aldanna (1886). (Þessi bók var einnig kölluð Aldaáætlun Guðs og varð fyrsta bindi bókaraðarinnar Rannsóknir á Ritningunni. Þessi bókaröð hlaut mikla útbreiðslu og 2. bindið, Tíminn er í nánd, [1889] benti á að „tímar heiðingjanna“ myndu enda árið 1914 [Lúkas 21:24].) Macmillan hugsaði með sér sama kvöld og hann hóf lesturinn: „Þetta hljómar nú eins og sannleikurinn!“ Sumarið 1900 hitti hann Russell á móti Biblíunemendanna eins og vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma. Macmillan lét skírast skömmu síðar og tók að vinna með bróður Russell á aðalstöðvum Félagsins í New York.
13. Hvaða tormerki sáu Macmillan og fleiri á því að Matteus 24:14 uppfylltist?
13 Af biblíulestri sínum gátu þessir smurðu kristnu menn ráðið að árið 1914 markaði tímamót í tilgangi Guðs. En Macmillan og fleiri veltu fyrir sér hvernig hægt væri að prédika fyrir þjóðunum, eins og spáð var í Matteusi 24:14, á þeim stutta tíma sem eftir var. Hann sagði síðar: „Ég man að ég ræddi þetta oft við bróður Russell og hann var vanur að segja: ‚Það eru fleiri Gyðingar í New York en Jerúsalem. Það eru fleiri Írar hér en í Dyflinni. Og það eru fleiri Ítalir hér en í Róm. Ef við náum til þeirra hér erum við að koma boðskapnum til heimsins.‘ En samt vorum við ekki alls kostar ánægðir. Þá kom upp hugmyndin að ‚Sköpunarsögunni í myndum.‘“
14. Hvaða einstakt verkefni var ráðist í fyrir 1914?
14 Með „Sköpunarsögunni í myndum“ var bryddað upp á nýstárlegri hugmynd. Blandað var saman kvikmyndum og lituðum glerskyggnum, og þetta var samstillt biblíuerindum og tónlist af hljómplötum. Árið 1913 sagði Varðturninn um mót í Arkansas í Bandaríkjunum: „Það var ályktað einróma að tímabært væri að nota kvikmyndir til að kenna sannleika Biblíunnar. . . . [Russell] útskýrði að hann hefði unnið að slíkri áætlun í þrjú ár og hefði næstum tilbúnar hundruð fallegra mynda sem myndu eflaust draga að mikinn fjölda og boða fagnaðarerindið, og hjálpa almenningi að öðlast aftur trú á Guð.“
15. Hvers konar árangri skilaði „Sköpunarsagan í myndum“?
15 „Sköpunarsagan í myndum“ kom þessu til leiðar eftir frumsýninguna í janúar árið 1914. Eftirfarandi greinargerðir birtust í Varðturninum það ár:
1. apríl: „Prestur, sem sá tvo hluta sýningarinnar, sagði: ‚Ég hef aðeins séð helminginn af SKÖPUNARSÖGUNNI Í MYNDUM en ég hef lært meira af henni um Biblíuna en af þriggja ára guðfræðinámi.‘ Gyðingur sagði eftir að hafa séð sýninguna: ‚Ég geng burt betri Gyðingur en ég kom inn.‘ Nokkrir kaþólskir prestar og nunnur hafa séð SKÖPUNARSÖGUNA og kunnað vel að meta hana. . . . Aðeins tólf sett eru tilbúin af SKÖPUNARSÖGUNNI . . . Samt sem áður höfum við þegar náð til 31 borgar . . . Rösklega 35.000 manns sjá, heyra, dást að, hugsa um og njóta góðs af sýningunni á hverjum degi.“
15. júní: „Myndirnar hafa aukið kostgæfni mína við að útbreiða sannleikann og kærleikur minn til föðurins á himnum og ástkærs eldri bróður okkar, Jesú, hefur aukist. Ég bið Guð daglega um að blessa ríkulega SKÖPUNARSÖGUNA Í MYNDUM og alla þá sem taka þátt í sýningunni . . . Ég er þjónn ykkar í honum, F. W. KNOCHE. — Iowa.“
15. júlí: „Við fögnum því að sjá hve stórkostlega góð áhrif myndirnar hafa haft hér í borg, og við erum fullviss um að þessi vitnisburður fyrir heiminum stuðlar líka að því að safna mörgum er sýna þess merki að þeir séu gersemar sem Drottinn sjálfur velur. Við þekkjum töluvert marga einlæga biblíunemendur sem tilheyra söfnuðinum hér núna vegna sýningar Sköpunarsögunnar. . . . Systir ykkar í Drottni, EMMA L. BRICKER.“
15. nóvember: „Ykkur þykir eflaust ánægjulegt að heyra hversu frábær vitnisburður hefur verið gefinn með sýningu SKÖPUNARSÖGUNNAR Í MYNDUM í Óperuhúsi Lundúna við Kingsway. Handleiðsla Drottins hefur sýnt sig svo greinilega í allri þessari sýningu að bræðurnir eru fullir fagnaðar . . . Áhorfendur voru alls konar fólk af öllum stéttum, og við höfum séð marga presta meðal viðstaddra. Prestur nokkur . . . bað um miða svo að hann og konan hans gætu komið og séð hana aftur. Sóknarprestur ensku biskupakirkjunnar hefur séð SKÖPUNARSÖGUNA nokkrum sinnum og . . . komið með marga vini sína til að sjá hana. Tveir biskupar hafa einnig verið viðstaddir og allmargir aðalsmenn.“
1. desember: „Við hjónin erum innilega þakklát himneskum föður okkar fyrir þá miklu og óviðjafnanlegu blessun sem þú hefur verið látinn koma til leiðar. Það var hin fallega SKÖPUNARSAGA Í MYNDUM sem varð til þess að við komum auga á sannleikann og tókum við honum . . . Við eigum hin sex bindi af RANNSÓKNIR Á RITNINGUNNI. Þau eru einstaklega gagnleg.“
Viðbrögð við prófraunum á þeim tíma
16. Af hverju reyndi á trúna árið 1914?
16 En hvað gerðist þegar einlægir og dyggir kristnir menn, eins og þessir, uppgötvuðu að vonir sínar um að sameinast Drottni árið 1914 rættust ekki? Hinir smurðu áttu afar erfiða daga. Varðturninn lýsti yfir 1. nóvember 1914: „Við skulum muna að við lifum á reynslutíma.“ Bókin Vottar Jehóva — boðendur ríkis Guðs (1993) segir um þetta: „Árin 1914 til 1918 voru svo sannarlega ‚reynslutími‘ fyrir Biblíunemendurna.“ Myndu þeir láta fága trú sína og leiðrétta hugsun sína svo að þeir gætu hafist handa við hið mikla starf framundan?
17. Hvernig brugðust trúfastir, smurðir menn við því að þeir skyldu vera enn á jörðinni eftir 1914?
17 Varðturninn sagði 1. september 1916: „Við ímynduðum okkur að uppskerustarfinu, samansöfnun kirkjunnar [hinna smurðu], yrði lokið áður en tímar heiðingjanna enduðu en Biblían sagði ekkert um það. . . . Þykir okkur miður að uppskerustarfið skuli halda áfram? . . . Viðhorf okkar núna, kæru bræður, ætti að vera innilegt þakklæti til Guðs. Við ættum að meta æ meir hinn fagra sannleika sem hann hefur veitt okkur að sjá og kenna okkur við, og kostgæfnin í að færa öðrum þekkingu á sannleikanum ætti að vaxa.“ Trú þeirra hafði verið reynd og þeir höfðu staðist prófið. En við sem erum kristin ættum að gera okkur ljóst að reynt getur á trúna á marga vegu.
18, 19. Hvernig var trú fólks Guðs reynd enn frekar skömmu eftir dauða bróður Russells?
18 Til dæmis reyndi á leifarnar á annan hátt skömmu eftir dauða bróður Charles T. Russells. Nú var hollusta þeirra og trú prófuð. Hver var ‚hinn trúi þjónn‘ í Matteusi 24:45? Sumir álitu að það væri bróðir Russell sjálfur og þráuðust við að vinna með nýju fyrirkomulagi. Ef hann hafði verið þjónninn, hvað áttu bræðurnir þá að gera að honum látnum? Áttu þeir að fylgja einhverjum nýtilnefndum manni eða var kominn tími til að viðurkenna að Jehóva notaði ekki einn mann heldur heilan hóp kristinna manna sem verkfæri sitt eða þjónshóp?
19 Enn ein prófraunin varð á vegi sannkristinna manna árið 1918 þegar veraldleg yfirvöld ‚bjuggu skipulagi Jehóva tjón undir yfirskini réttarins,‘ að áeggjan klerka kristna heimsins. (Sálmur 94:20) Grimmileg ofsóknaralda reið yfir Biblíunemendurna bæði í Norður-Ameríku og Evrópu. Þessi andstaða, sem klerkarnir höfðu æst til, náði hámarki 7. maí árið 1918 þegar gefin var út skipun um handtöku J. F. Rutherfords og nokkurra nánustu samstarfsmanna hans, þeirra á meðal A. H. Macmillans. Þeir voru ranglega sakaðir um uppreisnaráróður og yfirvöld tóku ekkert mark á yfirlýsingu þeirra um sakleysi.
20, 21. Hvað var að gerast meðal hinna smurðu eins og spáð var í Malakí 3:1-3?
20 Enda þótt hinum smurðu væri það ekki ljóst þá var hreinsunarstarf í gangi eins og lýst er í Malakí 3:1-3: „Hver má afbera þann dag, er hann kemur, og hver fær staðist, þegar hann birtist? Því að [engill sáttmálans] er sem eldur málmbræðslumannsins og sem lútarsalt þvottamannanna. Og hann mun sitja og bræða og hreinsa silfrið, og hann mun hreinsa levítana og gjöra þá skíra sem gull og silfur, til þess að [Jehóva] hafi aftur þá menn, er bera fram fórnir á þann hátt sem rétt er.“
21 Er dró að lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar urðu Biblíunemendurnir að gera upp við sig hvort þeir ætluðu að varðveita algert hlutleysi gagnvart hernaði þjóðanna. (Jóhannes 17:16; 18:36) Sumir gerðu það ekki. Árið 1918 sendi Jehóva því ‚engil sáttmálans,‘ Krist Jesú, til andlega musterisfyrirkomulagsins til að hreinsa hinn fámenna hóp dýrkenda sinna af veraldlegri flekkun. Þeir sem vildu sýna sanna trú lærðu af reynslunni, stefndu fram á við og héldu áfram að prédika kostgæfilega.
22. Hvað á enn eftir að skoða í sambandi við trúarprófraunir?
22 Það sem við höfum skoðað hér er meira en áhugavert sögubrot. Það er nátengt andlegu ástandi safnaðar Jehóva um heim allan. Í greininni á eftir fjöllum við um sumt sem reynt hefur á trú fólks Guðs nú á dögum, og við könnum hvernig við getum staðist það.
Manstu?
◻ Af hverju mega þjónar Jehóva búast við að trú þeirra verði reynd?
◻ Hvað var gert til að útbreiða boðskap Guðs fyrir 1914?
◻ Hvað var „Sköpunarsagan í myndum“ og hvaða árangri skilaði hún?
◻ Hvernig reyndu atburðir áranna 1914-18 á trú hinna smurðu?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Um síðustu aldamót var fólk víða um lönd að nema Biblíuna með hjálp bókaraðarinnar „Dögun þúsundáraríkisins,“ síðar nefnd „Rannsóknir á Ritningunni.“
[Mynd á blaðsíðu 23]
Bréf frá C. T. Russell með kynningartexta þar sem hann segir að „‚Sköpunarsagan í myndum‘ sé kynnt af Alþjóðasamtökum biblíunemenda. Markmið hennar sé almenningsfræðsla á trúarlegum og vísindalegum nótum og til varnar Biblíunni.“
[Mynd á blaðsíðu 25]
Demetrius Papageorge ferðaðist um og sýndi „Sköpunarsöguna í myndum.“ Síðar var hann hnepptur í fangelsi vegna kristins hlutleysis.