Trú gerir okkur þolinmóð og bænrækin
„Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:8.
1. Af hverju ættum við að íhuga Jakobsbréfið 5:7, 8?
LANGÞRÁÐ nærvera Jesú Krists stendur nú yfir. (Matteus 24:3-14) Allir sem játa trú á Guð og Krist hafa ríkari ástæðu en nokkru sinni fyrr til að íhuga orð lærisveinsins Jakobs: „Þreyið . . . , bræður, þangað til Drottinn kemur. Sjáið akuryrkjumanninn, hann bíður eftir hinum dýrmæta ávexti jarðarinnar og þreyir eftir honum, þangað til hann hefur fengið haustregn og vorregn. Þreyið og þér, styrkið hjörtu yðar, því að koma Drottins er í nánd.“ — Jakobsbréfið 5:7, 8.
2. Nefndu nokkur vandamál þeirra sem Jakob skrifaði til.
2 Þeir sem Jakob skrifaði innblásið bréf sitt þurftu að þreyja þolinmóðir og ráða fram úr ýmsum vandamálum. Margir breyttu gagnstætt því sem vænst var af þeim er játuðu trú á Guð. Til dæmis höfðu rangar langanir kviknað í hjörtum sumra og það þurfti að gera eitthvað við því. Það þurfti að koma aftur á kyrrð og ró meðal þessara frumkristnu manna. Þeir þurftu líka að fá leiðbeiningar um þolinmæði og bænrækni. Þegar við skoðum það sem Jakob skrifaði þeim skulum við athuga hvernig við getum fylgt orðum hans í lífi okkar sjálfra.
Rangar langanir eru skaðlegar
3. Hvað olli deilum í söfnuðinum og hvað getum við lært af því?
3 Það skorti frið meðal sumra sem játuðu kristna trú og undirrótin var rangar langanir. (Jakobsbréfið 4:1-3) Þrætugirni olli sundrungu og sumir voru kærleikslausir og dæmdu bræður sína. Þetta gerðist af því að girndin, sterk þrá í líkamlegar nautnir, háði stríð í limum þeirra. Sjálf getum við þurft að biðja Guð um hjálp til að standast holdlega löngun í upphefð, völd og eignir, þannig að við gerum ekkert sem myndi raska friði safnaðarins. (Rómverjabréfið 7:21-25; 1. Pétursbréf 2:11) Ágirnd var orðin slík meðal sumra kristinna manna á fyrstu öld að hún hafði magnast upp í hatur og morðhug. Fyrst Guð fullnægði ekki röngum löngunum þeirra börðust þeir fyrir því að ná markmiðum sínum. Ef við höfum sams konar rangar langanir má vera að við biðjum en fáum ekki því að heilagur Guð okkar svarar ekki slíkum bænum. — Harmljóðin 3:44; 3. Jóhannesarbréf 9, 10.
4. Hvers vegna kallar Jakob suma menn ‚ótrúa‘ og hvaða áhrif ættu orð hans að hafa á okkur?
4 Meðal frumkristinna manna gætti veraldlegs hugarfars, öfundar og stolts. (Jakobsbréfið 4:4-6) Jakob kallar suma þeirra ‚ótrúa‘ af því að þeir voru vinir heimsins og þar með sekir um andlegan hórdóm. (Esekíel 16:15-19, 25-45) Við viljum alls ekki verða veraldleg í hugsun, tali og hegðun því að það myndi gera okkur að óvinum Guðs. Orð hans bendir okkur á að „afbrýði“ eða ‚öfundartilhneiging‘ (NW) sé þáttur í fari ófullkominna manna. (1. Mósebók 8:21; 4. Mósebók 16:1-3; Sálmur 106:16, 17; Prédikarinn 4:4) Ef við gerum okkur grein fyrir að við þurfum að berjast gegn öfund, stolti eða öðrum illum tilhneigingum skulum við leita eftir hjálp heilags anda Guðs. Þessi andi, sem Guð miðlar af óverðskuldaðri góðvild, er sterkari en ‚öfundartilhneigingin.‘ Og þótt Jehóva standi gegn dramblátum er hann náðugur við okkur ef við berjumst gegn syndugum tilhneigingum.
5. Hvaða kröfur verðum við að uppfylla til að njóta óverðskuldaðrar góðvildar Guðs?
5 Hvernig getum við öðlast náð Jehóva Guðs eða óverðskuldaða góðvild? (Jakobsbréfið 4:7-10) Til að njóta hennar verðum við að hlýða honum, þiggja andlegu fæðuna frá honum og lúta vilja hans að öllu leyti. (Rómverjabréfið 8:28) Við verðum líka að ‚standa gegn‘ djöflinum. Hann ‚flýr okkur‘ ef við stöndum stöðug sem stuðningsmenn alheimsdrottinvalds Jehóva. Við njótum hjálpar Jesú sem heldur illum öflum heimsins í skefjum þannig að ekkert geti unnið okkur varanlegt tjón. Og gleymum þessu aldrei: Með bæn, hlýðni og trú nálægjum við okkur Guði og hann verður nálægur okkur. — 2. Kroníkubók 15:2.
6. Af hverju kallar Jakob suma kristna menn ‚syndara‘?
6 Af hverju notar Jakob orðið „syndarar“ um suma þeirra sem játuðu trú á Guð? Af því að þeir höfðu gerst sekir um „stríð,“ morðhug og hatur — viðhorf sem eru ótæk meðal kristinna manna. (Títusarbréfið 3:3) „Hendur“ þeirra voru fullar af vondum verkum og þörfnuðust hreinsunar. Þeir þurftu líka að hreinsa „hjörtun,“ setur hvata og tilefna. (Matteus 15:18, 19) Þessir „tvílyndu“ menn flöktu milli vináttu við Guð og vináttu við heiminn. Við skulum hafa slæmt fordæmi þeirra sem víti til varnaðar og sýna stöðuga árvekni til að ekkert slíkt nái að eyðileggja trú okkar. — Rómverjabréfið 7:18-20.
7. Hvers vegna segir Jakob sumum að ‚syrgja og gráta‘?
7 Jakob segir lesendum sínum að ‚bera sig illa, syrgja og gráta.‘ Hryggð Guði að skapi ber vott um iðrun. (2. Korintubréf 7:10, 11) Sumir, sem segjast hafa trú nú á tímum, eru að sækjast eftir vináttu við heiminn. Ef eitthvert okkar er á slíkri braut, ættum við þá ekki að harma andlegan veikleika okkar og gera ráðstafanir tafarlaust til að bæta úr honum? Með því að gera nauðsynlegar breytingar og öðlast fyrirgefningu Guðs finnum við til gleði af því að við höfum hreina samvisku og þær ánægjulegu framtíðarhorfur að hljóta eilíft líf. — Sálmur 51:12-19; 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Dæmið ekki hver annan
8, 9. Af hverju ættum við ekki að tala illa um eða dæma hver annan?
8 Það er syndsamlegt að tala illa um trúbróður sinn. (Jakobsbréfið 4:11, 12) Sumir eru samt gagnrýnir í garð trúbræðra sinna, kannski sökum sjálfumgleði eða sökum þess að þeir vilja upphefja sjálfa sig með því að niðurlægja aðra. (Sálmur 50:20; Orðskviðirnir 3:29) Gríska heitið, sem þýtt er ‚tala illa um,‘ gefur til kynna fjandskap og ýktar eða rangar ásakanir. Það jafngildir því að dæma bróður sinn harðlega. Í hvaða skilningi er þá verið að ‚tala illa um lögmál Guðs og dæma það‘? Fræðimönnunum og faríseunum tókst ‚listavel að gera boð Guðs að engu‘ og dæma eftir eigin reglum. (Markús 7:1-13) Ef við fordæmdum bróður sem Jehóva myndi ekki fordæma, værum við þá ekki líka að ‚dæma lögmál Guðs‘ og drýgja þá synd að gefa í skyn að það sé ekki nógu gott? Og með því að gagnrýna bróður okkar ranglega værum við ekki að uppfylla lögmál kærleikans. — Rómverjabréfið 13:8-10.
9 Munum að „einn er löggjafinn og dómarinn“ — Jehóva. ‚Lögmál hans er lýtalaust‘ og fullkomið. (Sálmur 19:8; Jesaja 33:22) Guð einn hefur rétt til að setja staðla og reglur um hjálpræði. (Lúkas 12:5) Jakob spyr því: „Hver ert þú, sem dæmir náungann?“ Við höfum engan rétt til að dæma og sakfella aðra. (Matteus 7:1-5; Rómverjabréfið 14:4, 10) Að hugsa um drottinvald Guðs og óhlutdrægni og um syndugt eðli sjálfra okkar ætti að hjálpa okkur að dæma ekki aðra með þótta og yfirlæti.
Forðastu stærilæti og sjálfsöryggi
10. Hvers vegna ættum við að taka mið af Jehóva í daglegu lífi okkar?
10 Við ættum alltaf að taka mið af Jehóva og lögum hans. (Jakobsbréfið 4:13-17) Hinir sjálfsöruggu virða Guð að vettugi og segja: ‚Í dag eða á morgun förum við til einhverrar borgar, dveljumst þar í ár, verslum og græðum!‘ Ef við ‚söfnum okkur fé en erum ekki rík hjá Guði‘ gæti líf okkar endað á morgun og þá höfum við ekkert tækifæri til að þjóna Jehóva. (Lúkas 12:16-21) Eins og Jakob segir erum við eins og gufa sem „sést um stutta stund en hverfur síðan.“ (1. Kroníkubók 29:15) Aðeins með því að iðka trú á Jehóva getum við vonast eftir varanlegri gleði og eilífu lífi.
11. Hvað merkir það að segja: ‚Ef Jehóva vill‘?
11 Í stað þess að vera með stærilæti og virða Guð að vettugi ættum við að taka þessa afstöðu: „Ef [Jehóva] vill, þá bæði lifum vér og þá munum vér gjöra þetta eða annað.“ Með því að segja: ‚Ef Jehóva vill,‘ gefum við til kynna að við séum að reyna að hegða okkur í samræmi við vilja hans. Það getur reynst nauðsynlegt að stunda verslun til að sjá fjölskyldunni farborða, til að ferðast í starfi Guðsríkis og svo framvegis. En verum ekki stærilát. „Slíkt stærilæti er vont“ af því að við erum þá að láta sem við séum ekki háð Guði. — Sálmur 37:5; Orðskviðirnir 21:4; Jeremía 9:23, 24.
12. Hvað er átt við með orðunum í Jakobsbréfinu 4:17?
12 Jakob lýkur orðum sínum um sjálfsöryggi og stærilæti og segir: „Hver sem því hefur vit á gott að gjöra, en gjörir það ekki, hann drýgir synd.“ Sérhver kristinn maður ætti að viðurkenna í auðmýkt að hann er háður Guði. Ef hann gerir það ekki ‚drýgir hann synd.‘ Sama meginregla gildir auðvitað um allt sem trúin á Guð krefst af okkur en við gerum ekki. — Lúkas 12:47, 48.
Viðvörun til ríkra
13. Hvað segir Jakob um þá sem misnota auð sinn?
13 Þar eð sumir frumkristnir menn voru orðnir efnishyggjumenn eða litu upp til auðmanna kveður Jakob fast að orði um vissa auðmenn. (Jakobsbréfið 5:1-6) Veraldlegir menn, sem notuðu auð sinn á rangan hátt, myndu ‚gráta og kveina yfir þeim bágindum sem kæmu yfir þá‘ þegar Guð gyldi þeim eftir verkum þeirra. Á þeim tíma var auður gjarnan fólginn í fatnaði, korni og víni. (Jóel 2:19; Matteus 11:8) Sumt af þessu gat fúnað og ‚orðið mölétið,‘ en Jakob er ekki að leggja áherslu á að auðurinn sé forgengilegur heldur að hann sé einskis virði. Gull og silfur ryðgar að vísu ekki en ef við sönkum því að okkur væri það jafnverðlaust og ryðgaðir hlutir. ‚Ryð‘ gefur til kynna að efnislegur auður hafi ekki verið notaður til góðs. Við ættum því öll að muna að reiði Guðs kemur „eins og eldur“ yfir þá sem treysta efnislegum eigum og ‚hafa safnað fjársjóðum á síðustu dögum.‘ Þar eð við lifum á ‚endalokatímanum‘ hafa slík orð sérstaka þýðingu fyrir okkur. — Daníel 12:4; Rómverjabréfið 2:5.
14. Hvernig koma auðmenn oft fram og hvað ættum við að gera í því?
14 Auðmenn hafa oft af verkamönnum sínum og launin, sem þeir halda eftir, „hrópa“ á endurgjald. (Samanber 1. Mósebók 4:9, 10.) Veraldlegir auðmenn hafa „lifað í sællífi.“ Með hóflausu munaðarlífi sínu ala þeir í brjósti sér feit og ónæm hjörtu og verða enn að því á „slátrunardegi“ sínum. Þeir ‚sakfella og drepa hinn réttláta.‘ Jakob segir: „Hann veitir yður ekki viðnám.“ Við ættum ekki að líta upp til eða hygla hinum ríku. Við verðum að láta andleg mál ganga fyrir í lífinu. — Matteus 6:25-33.
Trú hjálpar okkur að vera þolinmóð
15, 16. Hvers vegna er mjög mikilvægt að vera þolinmóð?
15 Eftir að hafa rætt um auðuga kúgara heimsins hvetur Jakob kúgaða kristna menn til að vera þolinmóða. (Jakobsbréfið 5:7, 8) Ef hinir trúuðu bera erfiðleika sína með þolinmæði verður þeim umbunuð trúfestin á nærverutíma Krists þegar dómurinn kemur yfir kúgara þeirra. (Matteus 24:37-41) Þessir frumkristnu menn þurftu að vera eins og akuryrkjumaðurinn sem bíður þolinmóður eftir haustregninu þegar hann getur gróðursett, og vorregninu sem stuðlar að góðri uppskeru. (Jóel 2:23) Við þurfum líka að vera þolinmóð og styrkja hjörtun, einkum þar eð Drottinn Jesús Kristur er ‚kominn‘ og nærvera hans stendur nú yfir!
16 Af hverju ættum við að vera þolinmóð? (Jakobsbréfið 5:9-12) Þolinmæði hjálpar okkur að stynja hvorki né kvarta þegar trúbræður okkar fara í taugarnar á okkur. Ef við ‚kvörtum hver yfir öðrum‘ í gagnrýnistón fáum við áfellisdóm frá dómaranum Jesú Kristi. (Jóhannes 5:22) Nú er nærvera hans hafin og hann „stendur fyrir dyrum.“ Við skulum því stuðla að friði með því að vera þolinmóð við bræður okkar sem rata í margs konar trúarraunir. Trú sjálfra okkar styrkist þegar við minnumst þess hvernig Guð umbunaði Job fyrir þolgæði hans í þrengingum. (Jobsbók 42:10-17) Ef við iðkum trú og erum þolinmóð komumst við að raun um að „[Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ — Míka 7:18, 19.
17. Hvers vegna segir Jakob: „Sverjið ekki“?
17 Ef við erum ekki þolinmóð gætum við misnotað tunguna undir álagi. Við gætum til dæmis svarið eið í fljótræði. „Sverjið ekki,“ segir Jakob og varar við ábyrgðarlausum eiðstöfum. Það hljómar líka eins og hræsni að vera sífellt að staðfesta orð sín með eiði. Við ættum því hreinlega að segja sannleikann, meina já þegar við segjum já og nei þegar við segjum nei. (Matteus 5:33-37) Jakob er auðvitað ekki að segja að það sé rangt að sverja þess eið að segja sannleikann fyrir rétti.
Trú og bænir okkar
18. Undir hvaða kringumstæðum ættum við að ‚biðja‘ stöðugt og ‚syngja lofsöng‘?
18 Bænin verður að gegna stóru hlutverki í lífi okkar ef við viljum stjórna orðum okkar, vera þolinmóð og varðveita heilbrigða trú á Guð. (Jakobsbréfið 5:13-20) Sérstaklega er mikilvægt að ‚biðja‘ stöðugt þegar við rötum í raunir. Ef vel liggur á okkur skulum við ‚syngja lofsöng‘ eins og Jesús og postular hans gerðu þegar hann stofnsetti minningarhátíðina um dauða sinn. (Markús 14:26) Stundum erum við svo full þakklætis til Guðs að við syngjum jafnvel lofsöng í hjartanu. (1. Korintubréf 14:15; Efesusbréfið 5:19) Og það er mjög gleðilegt að lofa Jehóva í söng á kristnum samkomum!
19. Hvað ættum við að gera ef við verðum andlega veik og af hverju?
19 Okkur er ef til vill ekki söngur í hug ef við erum andlega veik, kannski vegna þess að við höfum gert eitthvað rangt eða höfum ekki nærst reglulega við borð Jehóva. Ef við erum þannig á vegi stödd skulum við kalla auðmjúk á öldungana svo að þeir geti ‚beðist fyrir yfir okkur.‘ (Orðskviðirnir 15:29) Þeir munu líka ‚smyrja okkur með olíu í nafni Jehóva.‘ Líkt og mýkjandi olía á sár munu hughreystandi orð þeirra og biblíuleg ráð bægja frá okkur depurð, efa og ótta. ‚Trúarbænin mun gera okkur heil‘ ef hún á sér stuðning í okkar eigin trú. Ef öldungarnir komast að raun um að andlegur sjúkleiki okkar stafar af alvarlegri synd, þá benda þeir okkur vinsamlega á hver syndin sé og reyna að hjálpa okkur. (Sálmur 141:5, NW) Og ef við iðrumst getum við treyst að Guð heyri bænir þeirra og fyrirgefi okkur.
20. Af hverju ættum við að játa syndir okkar og biðja hver fyrir öðrum?
20 Að ‚játa syndir okkar opinskátt hver fyrir öðrum‘ ætti að vera okkur aðhald svo að við syndgum ekki frekar. Það ætti að hvetja til gagnkvæmrar meðaumkunar en það er eiginleiki sem fær okkur til að ‚biðja hver fyrir öðrum.‘ Við getum treyst því að það sé gagnlegt fyrir okkur af því að bæn „réttláts manns“ — þess sem iðkar trú og Guð álítur ráðvandan — áorkar miklu hjá Jehóva. (1. Pétursbréf 3:12) Spámaðurinn Elía hafði svipaða veikleika og við en bænir hans báru árangur. Hann bað og það rigndi ekki í þrjú og hálft ár. Síðan bað hann aftur og þá rigndi. — 1. Konungabók 17:1; 18:1, 42-45; Lúkas 4:25.
21. Hvað getum við kannski gert ef trúbróðir okkar „villist frá sannleikanum“?
21 Hvað þá ef safnaðarmaður „villist frá sannleikanum,“ víkur frá réttri kenningu og breytni? Kannski getum við snúið honum aftur frá villu síns vegar með ráðum frá Biblíunni, með bæn og með annars konar hjálp. Ef það heppnast nær lausnarfórn Krists enn til hans og honum er forðað frá andlegum dauða og tortímingardómi. Við hyljum fjölda synda með því að hjálpa villuráfandi manni. Þegar áminntur syndari snýr frá villu síns vegar, iðrast og leitar fyrirgefningar fögnum við því að hafa átt þátt í að hylja syndir hans. — Sálmur 32:1, 2; Júdasarbréfið 22, 23.
Á erindi til okkar allra
22, 23. Hvaða áhrif ættu orð Jakobs að hafa á okkur?
22 Ljóst er að bréf Jakobs inniheldur gagnlegt efni handa okkur öllum. Það sýnir okkur fram á hvernig við getum staðist raunir og freistingar, varar við manngreinaráliti og hvetur okkur til að stunda réttlætisverk. Jakob hvetur okkur til að hafa taum á tungu okkar, standa gegn veraldlegum áhrifum og stuðla að friði. Orð hans ættu líka að gera okkur þolinmóð og bænrækin.
23 Upphaflega var bréf Jakobs sent frumkristnum mönnum sem voru andasmurðir. Samt sem áður ættum við öll að láta leiðbeiningar þess hjálpa okkur að halda fast í trúna. Orð Jakobs geta eflt trúna og komið okkur til að vinna einbeitt í þjónustu Guðs. Og þetta guðinnblásna bréf byggir upp varanlega trú sem gerir okkur að þolinmóðum, bænræknum vottum Jehóva núna á ‚nærverutíma Drottins‘ Jesú Krists.
Hvert er svar þitt?
◻ Af hverju þurftu sumir frumkristnir menn að breyta viðhorfum sínum og hegðun?
◻ Við hverju varar Jakob hina ríku?
◻ Af hverju ættum við að vera þolinmóð?
◻ Hvers vegna ættum við að biðja reglulega?
[Rétthafi myndar á blaðsíðu 18]
Pictorial Archive (Near Eastern History) Est.
[Mynd á blaðsíðu 22]
Sumir frumkristnir menn þurftu að vera þolinmóðari við trúbræður sína.
[Mynd á blaðsíðu 23]
Kristnir menn þurfa að vera þolinmóðir, kærleiksríkir og bænræknir.