Spurningar frá lesendum
Er skynsamlegt af kristnum manni að leita til sálfræðings eða geðlæknis?
Fregnir frá ýmsum löndum gefa til kynna að tilfinningaleg vandamál og geðsjúkdómar hafi færst í aukana núna á „síðustu dögum.“ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Kristnir menn finna sárlega til með trúbræðrum sínum sem verða fyrir slíku, en þeim er ljóst að hver og einn verður að ákveða sjálfur hvort hann leitar meðferðar á kvilla sínum eða ekki, og þá hvers konar meðferðar.a „Sérhver mun verða að bera sína byrði.“ (Galatabréfið 6:5) Sumir, sem eru haldnir geðklofa, geðhvarfasýki, alvarlegu þunglyndi, þráhyggjusýki, sjálfssköddunarhvöt og öðrum erfiðum kvillum, hafa getað lifað tiltölulega eðlilegu lífi eftir að hafa fengið rétta sérfræðihjálp.
Sums staðar er það komið í tísku að leita sér meðferðar. Oft á sjúklingurinn ekki við alvarlegan geðsjúkdóm að stríða heldur á hann í erfiðleikum með að takast á við einhverjar aðstæður í lífinu. Það er hins vegar Biblían sem veitir áhrifaríkustu hjálpina til að takast á við hin erfiðu vandamál lífsins. (Sálmur 119:28, 143) Í Biblíunni miðlar Jehóva okkur visku, íhygli og sannri þekkingu — en það er það sem eflir hugann og styrkir okkur tilfinningalega. (Orðskviðirnir 2:1-11; Hebreabréfið 13:6) Trúfastur þjónn Guðs, sem er í mjög miklu uppnámi, tjáir sig kannski stundum órökrétt. (Jobsbók 6:2, 3) Jakobsbréfið 5:13-16 hvetur slíkan mann til að leita hjálpar og ráða hjá öldungunum. Kristinn maður getur verið andlega veikur eða miður sín vegna óbreytanlegra aðstæðna eða þjakandi álags, eða fundist hann ranglæti beittur. (Prédikarinn 7:7, NW; Jesaja 32:2; 2. Korintubréf 12:7-10) Slíkur maður getur fengið hjálp öldunganna sem „smyrja hann með olíu“ — það er að segja beita Biblíunni fagmannlega til að veita honum hughreystandi ráð — og einnig „biðjast fyrir yfir honum.“ Og með hvaða árangri? „Trúarbænin mun gjöra hinn sjúka heilan, og [Jehóva] mun reisa hann á fætur [úr örvæntingunni eða eyða þeirri tilfinningu að Guð hafi yfirgefið hann].“
En hvað nú ef einstaklingurinn er enn þjáður í huga og ringlaður þrátt fyrir fagmannlega hjálp andlegra hirða safnaðarins? Sumir, sem eru í þeirri aðstöðu, hafa kosið að gangast undir rækilega læknisrannsókn. (Samanber Orðskviðina 14:30; 16:24; 1. Korintubréf 12:26.) Geðrænir og tilfinningalegir sjúkdómar geta átt sér líkamlegar orsakir. Í sumum tilvikum hafa þeir, sem eiga við tilfinningalegan eða geðrænan sjúkdóm að stríða, fengið verulega bót þegar ráðist hefur verið gegn hinu líkamlega meini.b Ef ekkert líkamlegt mein finnst eru líkur á að læknirinn mæli með því að leitað sé til geðlæknis eða sálfræðings. Hvað þá? Eins og áður hefur verið nefnt verður hver og einn að vega og meta sjálfur hvað hann gerir. Aðrir ættu ekki að gagnrýna hann eða dæma fyrir. — Rómverjabréfið 14:4.
Samt sem áður er nauðsynlegt að sýna heilbrigða skynsemi og gæta þess að gleyma ekki meginreglum Biblíunnar. (Orðskviðirnir 3: 21; Prédikarinn 12:13) Þegar um líkamlega sjúkdóma er að ræða eiga sjúklingar oft um að velja margs konar meðferðarkosti, allt frá hefðbundnum lækningaaðferðum til náttúru-, nálarstungu- og smáskammtalækninga. Á sviði geðlæknisfræði og sálfræði er líka um ólíka kosti að velja. Þeirra á meðal má nefna greiningarsálfræði þar sem kafað er ofan í sögu sjúklingsins til að reyna að finna orsakir fyrir óvenjulegri hegðun hans eða sárum tilfinningum. Atferlissálfræðingar reyna kannski að kenna sjúklingnum ný atferlismynstur. Sumir geðlæknar álíta að meðhöndla megi flesta geðræna kvilla með lyfjum.c Og aðrir eru sagðir mæla með vissu mataræði og vítamínum.
Sjúklingar og fjölskyldur þeirra ættu að sýna fulla aðgát þegar þeir hugleiða þessa valkosti. (Orðskviðirnir 14:15) Athyglisvert er að prófessor Paul McHugh, forstöðumaður geðlækninga- og atferlisfræðideildar við læknisfræðiskor John Hopkins-háskóla, segir að geðlæknisfræðin sé „ófullkomin læknavísindi. Þau skortir sannanir fyrir greiningar- og meðferðarhugmyndum sínum er þau fást við kvilla flóknasta hluta mannlífsins — huga og hegðunar.“ Þessi staða býður bæði upp á sérvisku og svik og jafnframt vel meintar meðferðarleiðir sem eru meira til ills en góðs.
Þá er einnig rétt að nefna að enda þótt sálfræðingar og geðlæknar hafi háskólagráðu eru líka til menn sem hafa enga faglega menntun en veita eigi að síður ráðgjöf eða meðferð eftirlitslaust. Sumir hafa eytt stórum fjárhæðum í ráðgjöf réttindalausra manna.
Jafnvel þegar hæfir og menntaðir geðlæknar og sálfræðingar eiga í hlut þarf að huga að ýmsu. Þegar við veljum okkur lækni þurfum við að ganga úr skugga um að hann virði biblíuleg viðhorf okkar. Á sama hátt væri hættulegt að leita til geðlæknis eða sálfræðings sem virðir ekki trúarleg og siðferðileg viðhorf okkar. Margir kristnir menn leggja hart að sér að hafa „sama hugarfar og Kristur Jesús,“ þrátt fyrir geðræn og tilfinningaleg vandamál. (Rómverjabréfið 15:5, NW) Þeir eru réttilega á varðbergi gagnvart viðhorfum þeirra sem gætu haft áhrif á hugsun þeirra eða hegðun. Sumir sérfræðingar líta á allar hömlur biblíutrúarinnar sem óþarfar og hugsanlega skaðlegar geðheilsu. Þeir leggja kannski blessun sína yfir og jafnvel mæla með hegðun sem Biblían fordæmir, svo sem kynvillu eða ótryggð í hjónabandi.
Slíkar hugmyndir falla undir það sem Páll postuli kallaði „mótsagnir hinnar rangnefndu þekkingar.“ (1. Tímóteusarbréf 6:20) Þær eru í mótsögn við sannleikann um Krist og eru hluti af „heimspeki og hégómavillu“ þessa heims. (Kólossubréfið 2:8) Prófsteinn Biblíunnar er ótvíræður: „Engin viska er til og engin hyggni, né heldur ráð gegn [Jehóva].“ (Orðskviðirnir 21:30) Geðlæknar og sálfræðingar, sem „kalla hið illa gott og hið góða illt,“ eru „vondur félagsskapur.“ Í stað þess að hjálpa manni, sem er í ójafnvægi, ‚spilla þeir góðum siðum.‘ — Jesaja 5:20; 1. Korintubréf 15:33.
Kristinn maður, sem finnst nauðsynlegt að leita til geðlæknis eða sálfræðings, ætti því að kynna sér vandlega hæfni, viðhorf og orðspor hans og hugsanlegar afleiðingar þeirrar meðferðar sem hann kann að mæla með. Ef þjáður kristinn maður getur ekki gert þetta sjálfur má vera að þroskaður, náinn vinur eða ættingi geti gert það fyrir hann. Kristinn maður, sem er óviss um hvort ákveðin meðferð sé skynsamleg, getur leitað ráða hjá öldungum safnaðarins — enda þótt hann (eða foreldrar hans, eða hjón í sameiningu) verði að taka endanlega ákvörðun.d
Vísindin geta gert miklu meira en áður til að lina þjáningar manna. Margir sjúkdómar — bæði líkamlegir og geðrænir — eru þó ólæknandi enn sem komið er og menn verða einfaldlega að þola þá út þetta heimskerfi. (Jakobsbréfið 5:11) Þangað til réttir ‚hinn trúi og hyggni þjónn,‘ öldungarnir og allir aðrir í söfnuðinum sjúkum meðaumkunar- og hjálparhönd. Og Jehóva sjálfur styrkir þá til að halda út uns sá dýrðartími rennur upp er sjúkdómar verða ekki framar til. — Matteus 24:45; Sálmur 41:2-4; Jesaja 33:24.
[Neðanmáls]
a Stundum er fólk beðið að gangast undir mat hjá geðlækni, ef til vill í tengslum við hæfnismat til að gegna stjórnunarstörfum. Það er persónuleg ákvörðun hvers og eins hvort hann gengst undir slíkt mat, en hafa ber í huga að mat geðlæknis er ekki hið sama og meðferð hjá geðlækni.
b Sjá greinina „Sigrað í baráttunni við þunglyndi“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 1. mars 1990.
c Rétt lyf virðast virka vel á suma geðræna sjúkdóma. En þessi lyf þarf að nota með varúð undir umsjón reynds heimilislæknis eða geðlæknis því að þau geta haft alvarlegar aukaverkanir ef skammtar eru ekki réttir.
d Sjá greinina „Þegar geðkvillar leggjast á kristinn mann“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. október 1988.