Haltu fast í trúna þrátt fyrir prófraunir!
„Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 1:2.
1. Þrátt fyrir hvað þjónar fólk Jehóva honum í trú og með „gleði og fúsu geði“?
FÓLK Jehóva er vottar hans og þjónar honum í trú og með „gleði og fúsu geði“ þrátt fyrir ýmsar raunir. (5. Mósebók 28:47; Jesaja 43:10) Þrátt fyrir erfiðleikana leita þeir hughreystingar í orðunum: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ — Jakobsbréfið 1:2, 3.
2. Hvað er vitað um ritara Jakobsbréfsins?
2 Þessi orð voru skrifuð um árið 62 af lærisveininum Jakobi, hálfbróður Jesú Krists. (Markús 6:3) Jakob var öldungur í söfnuðinum í Jerúsalem. Hann var ‚álitinn máttarstólpi‘ ásamt þeim Kefasi (Pétri) og Jóhannesi — sterkur og traustur burðarás í söfnuðinum. (Galatabréfið 2:9) Þegar umskurnardeilan var lögð fyrir ‚postulana og öldungana‘ um árið 49 kom Jakob með tillögu byggða á Ritningunni sem þetta stjórnandi ráð fyrstu aldar samþykkti. — Postulasagan 15:6-29.
3. Nefndu nokkur vandamál sem kristnir menn á fyrstu öld stóðu frammi fyrir og hvernig getum við haft mest gagn af Jakobsbréfinu?
3 Jakob var umhyggjusamur, andlegur hirðir og ‚hafði nákvæmar gætur á útliti sauðanna.‘ (Orðskviðirnir 27:23) Honum var ljóst að kristnir menn á þeim tíma urðu fyrir miklu mótlæti. Sumir hygluðu hinum ríku og þurftu að leiðrétta hugsunarhátt sinn. Hjá mörgum var tilbeiðslan einungis formsatriði. Sumir unnu tjón með taumlausri tungu sinni. Veraldlegt hugarfar hafði skaðleg áhrif og margir voru hvorki þolinmóðir né bænræknir. Reyndar voru sumir kristnir menn orðnir andlega sjúkir. Bréf Jakobs fjallar um slík mál í uppbyggilegum tón og ráð hans eiga jafn vel við núna og á fyrstu öld. Það er mjög gagnlegt fyrir okkur að skoða þetta bréf eins og það væri stílað á okkur persónulega.a
Þegar við lendum í raunum
4. Hvernig ættum við að líta á raunir?
4 Jakob bendir á hvernig við eigum að líta á raunir og erfiðleika. (Jakobsbréfið 1:1-4) Hann nefnir ekki fjölskyldutengsl sín við son Guðs heldur kallar sig hógværlega ‚þjón Guðs og Drottins Jesú Krists.‘ Jakob stílar bréfið á ‚hinar tólf kynkvíslir‘ andlegs Ísraels „í dreifingunni“ sem varð upphaflega vegna ofsókna. (Postulasagan 8:1; 11:19; Galatabréfið 6:16; 1. Pétursbréf 1:1) Kristnir menn nú á tímum eru líka ofsóttir og ‚rata í ýmiss konar raunir.‘ En ef við munum að raunirnar, sem við stöndumst, styrkja trú okkar þá ‚álítum við það eintómt gleðiefni‘ að verða fyrir þeim. Ef við varðveitum ráðvendni við Guð í raunum veitir það okkur varanlega hamingju.
5. Hvaða raunir getum við ratað í og hvað gerist þegar við stöndumst þær?
5 Við verðum fyrir sams konar mótlæti og allir aðrir. Við getum til dæmis átt við heilsubrest að stríða. Guð lætur ekki kraftaverkalækningar eiga sér stað núna en hann svarar bænum okkar um visku og hugarþrek til að takast á við veikindi. (Sálmur 41:2-4) Við þjáumst líka vegna réttlætisins þegar við erum ofsótt sem vottar Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 3:12; 1. Pétursbréf 3:14) Þegar við stöndumst slíkar raunir hefur trú okkar sannað sig og ‚trúarstaðfestan‘ er komin í ljós. Og þegar trúin sigrar ‚vekur það þolgæði.‘ Trú, sem styrkist í raunum, hjálpar okkur að standast prófraunir framtíðarinnar.
6. Hvernig ‚birtist þolgæðið í fullkomnu verki‘ og hvaða raunhæfar ráðstafanir er hægt að gera þegar við verðum fyrir prófraun eða freistingu?
6 „En þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki,“ segir Jakob. Ef við leyfum prófraun að ganga sinn gang án þess að reyna að binda skjótan enda á hana með óbiblíulegum aðferðum, þá gerir þolgæðið að verkum að við verðum heilsteyptir kristnir menn að því leyti að okkur skortir ekki trú. Ef prófraun leiðir í ljós einhvern veikleika ættum við auðvitað að leita hjálpar Jehóva til að sigrast á honum. Hvað nú ef prófraunin er freisting til siðleysis? Við skulum gera vandamálið að bænarefni okkar og hegða okkur síðan í samræmi við bænirnar. Við gætum þurft að skipta um vinnu eða gera aðrar ráðstafanir til að varðveita ráðvendni við Guð. — 1. Mósebók 39:7-9; 1. Korintubréf 10:13, Biblían 1912.
Leitin að visku
7. Hvaða hjálp getum við fengið til að komast gegnum raunir?
7 Jakob bendir okkur á hvað við eigum að gera ef við vitum ekki hvernig við eigum að bregðast við þegar við rötum í raunir. (Jakobsbréfið 1:5-8) Jehóva ávítar okkur ekki fyrir að bresta visku og biðja um hana í trú. Hann hjálpar okkur að sjá raunina í réttu ljósi og standast hana. Kannski bendir trúbróðir okkur á einhvern ritningarstað eða við komum auga á hann í biblíunámi okkar. Guð hagar málum ef til vill svo að við áttum okkur á hvað við eigum að gera. Andi Guðs getur leiðbeint okkur. (Lúkas 11:13) En til að njóta slíks þurfum við auðvitað að halda okkur fast við Guð og fólk hans. — Orðskviðirnir 18:1, NW.
8. Af hverju fær sá sem efast ekkert frá Jehóva?
8 Jehóva veitir okkur visku til að standast raunir ef við ‚biðjum í trú, án þess að efast.‘ Sá sem efast er líkur óútreiknanlegri „sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.“ Ef við erum svo staðfestulaus andlega, ‚skulum við ekki ætla að við fáum nokkuð hjá Jehóva.‘ Við skulum ekki vera ‚tvílynd‘ og ‚reikul‘ í bænum okkar eða öðru. Höfum heldur trú á Jehóva, uppsprettu viskunnar. — Orðskviðirnir 3:5, 6.
Ríkir og fátækir geta fagnað
9. Af hverju höfum við tilefni til að fagna sem tilbiðjendur Jehóva?
9 Jafnvel ef fátækt er ein af raunum okkar skulum við hafa hugfast að bæði ríkir og fátækir kristnir menn geta fagnað. (Jakobsbréfið 1:9-11) Flestir hinna smurðu voru í litlum efnum áður en þeir gerðust fylgjendur Jesú og heimurinn leit niður á þá. (1. Korintubréf 1:26) En þeir gátu fagnað og hrósað sér af „upphefð“ sinni sem erfingjar Guðsríkis. (Rómverjabréfið 8:16, 17) Ríkir, sem nutu einu sinni virðingar, eru ‚lægðir‘ sem fylgjendur Krists af því að heimurinn fyrirlítur þá. (Jóhannes 7:47-52; 12:42, 43) En sem þjónar Jehóva getum við öll fagnað því að veraldlegur auður og há staða er einskis virði í samanburði við hinn andlega auð sem við njótum. Og við erum innilega þakklát fyrir að stéttarhroki skuli ekki eiga heima á meðal okkar! — Orðskviðirnir 10:22; Postulasagan 10:34, 35.
10. Hvernig ætti kristinn maður að líta á efnislegan auð?
10 Jakob sýnir fram á að líf okkar sé ekki háð auði eða veraldlegum afrekum. Fegurð blómsins kemur ekki í veg fyrir að það deyi í „steikjandi hita“ sólarinnar og eins getur auður ríks manns ekki lengt líf hans. (Sálmur 49:7-10; Matteus 6:27) Hann getur dáið „á vegum sínum,“ kannski meðan hann er að stunda viðskipti. Það sem máli skiptir er því að vera „ríkur hjá Guði“ og gera allt sem við getum til að efla hag Guðsríkis. — Lúkas 12:13-21; Matteus 6:33; 1. Tímóteusarbréf 6:17-19.
Sælir eru þeir sem standast raunir og freistingar
11. Hverjar eru framtíðarhorfur þeirra sem halda fast í trúna í raunum og freistingum?
11 Hvort sem við erum rík eða fátæk getum við ekki verið hamingjusöm nema við stöndumst raunir og freistingar. (Jakobsbréfið 1:12-15) Ef við stöndumst raunir með óskaddaða trú má kalla okkur sæl eða hamingjusöm því að það veitir manninum gleði að gera það sem rétt er í augum Guðs. Með því að halda fast í trúna allt til dauða hljóta andagetnir kristnir menn „kórónu lífsins“ eða ódauðleika á himnum. (Opinberunarbókin 2:10; 1. Korintubréf 15:50) Ef við höfum jarðneska von og varðveitum trúna á Guð getum við hlakkað til eilífs lífs í paradís á jörð. (Lúkas 23:43; Rómverjabréfið 6:23) Jehóva er sannarlega góður við alla sem iðka trú á hann!
12. Af hverju ættum við ekki að segja: „Guð freistar mín,“ þegar við verðum fyrir mótlæti?
12 Er hugsanlegt að Jehóva reyni okkur sjálfur eða freisti með einhverju mótlæti? Nei, við ættum ekki að segja: „Guð freistar mín.“ Jehóva er ekki að reyna að koma okkur til að syndga heldur megum við treysta að hann hjálpi okkur og veiti styrk til að standast raunir og freistingar ef við erum staðföst í trúnni. (Filippíbréfið 4:13) Guð er heilagur þannig að hann setur okkur ekki í aðstöðu sem myndi draga úr mótstöðuafli okkar gegn rangri breytni. Ef við setjum okkur í syndsamlega aðstöðu og drýgjum einhverja synd ættum við ekki að kenna honum um, því að „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ Enda þótt Jehóva leyfi kannski prófraun til að aga okkur til góðs reynir hann okkur ekki af illum ásetningi. (Hebreabréfið 12:7-11) Satan freistar okkar kannski til að gera eitthvað rangt en Guð getur frelsað okkur frá hinum vonda. — Matteus 6:13, neðanmáls.
13. Hvað getur gerst ef við berjumst ekki gegn rangri löngun?
13 Við þurfum að vera bænrækin því að vissar aðstæður geta vakið ranga löngun sem gæti komið okkur til að syndga. Jakob segir: „Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.“ Við getum ekki sakað Guð um synd okkar ef við höfum látið hjartað gæla við synduga löngun. Ef við vísum ekki hinni röngu löngun á bug ‚verður hún þunguð,‘ þroskast í hjartanu og ‚elur synd.‘ Þegar syndin er fullþroskuð „fæðir hún dauða.“ Augljóst er að við þurfum að varðveita hjartað og standa gegn syndugum tilhneigingum. (Orðskviðirnir 4:23) Kain var varaður við því að syndin væri að ná tökum á honum en hann spyrnti ekki við fótum. (1. Mósebók 4:4-8) Hvað þá ef við erum komin út á óbiblíulega braut? Þá ættum við vissulega að vera þakklát ef kristnir öldungar reyna að leiðrétta okkur svo að við syndgum ekki gegn Guði. — Galatabréfið 6:1.
Guð — uppspretta hins góða
14. Í hvaða skilningi er hægt að segja að gjafir Guðs séu ‚fullkomnar‘?
14 Við ættum að hafa hugfast að Jehóva er ekki uppspretta freistinga og rauna heldur hins góða. (Jakobsbréfið 1:16-18) Jakob notar ávarpsorðin „bræður mínir elskaðir“ og bendir á að Guð sé gjafari ‚sérhverrar góðrar gjafar og fullkominnar gáfu.‘ Andlegar og efnislegar gjafir eða gáfur Jehóva eru ‚fullkomnar‘ eða algerar og í engu ábótavant. Þær koma „ofan að,“ frá aðseturstað Guðs á himnum. (1. Konungabók 8:39) Jehóva er ‚faðir ljósanna‘ — sólar, tungls og stjarna. Hann gefur okkur líka andlegt ljós og sannleika. (Sálmur 43:3, NW; Jeremía 31:35; 2. Korintubréf 4:6) Sólin er hæst á lofti aðeins um hádegi og varpar síbreytilegum skuggum eftir því hvar hún er á himni. Aftur á móti gefur Guð hið góða alltaf takmarkalaust. Hann gerir okkur örugglega kleift að standast raunir og freistingar ef við nýtum okkur til fulls þá andlegu fæðu sem hann veitir í orði sínu og fyrir atbeina ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ — Matteus 24:45.
15. Hver er ein besta gjöf Jehóva?
15 Hver er ein besta gjöf Guðs? Sú að leiða fram andlega syni með heilögum anda sínum í samræmi við fagnaðarerindið eða ‚orð sannleikans.‘ Þeir sem fæðast andlega eru viss „frumgróði“ og útvaldir úr hópi manna til að vera himneskt ‚konungsríki og prestar.‘ (Opinberunarbókin 5:10; Efesusbréfið 1:13, 14) Jakob kann að hafa haft í huga frumgróða bygguppskerunnar sem fram var borinn 16. nísan, daginn sem Jesús var reistur upp frá dauðum, og hveitibrauðin tvö sem fórnað var á hvítasunnudeginum þegar heilögum anda var úthellt. (3. Mósebók 23:4-11, 15-17) Jesús var frumgróðinn og samerfingjar hans „viss frumgróði.“ (NW) Hvað þá ef við höfum jarðneska von? Ef við höfum hana í huga hjálpar hún okkur að halda fast í trúna á gjafara ‚sérhverrar góðrar gjafar‘ sem gerir eilíft líf mögulegt undir stjórn Guðsríkis.
Vertu ‚gerandi orðsins‘
16. Af hverju ættum við að vera ‚fljót til að heyra en sein til að tala og sein til reiði‘?
16 Við verðum að vera „gjörendur orðsins,“ hvort sem við erum að ganga gegnum einhverjar trúarraunir á þessari stundu eða ekki. (Jakobsbréfið 1:19-25) Við þurfum að vera ‚fljót til að heyra‘ orð Guðs, vera hlýðnir gerendur þess. (Jóhannes 8:47) Hins vegar ættum við að vera ‚sein til að tala‘ og íhuga orð okkar vandlega. (Orðskviðirnir 15:28; 16:23) Jakob er kannski að hvetja okkur til að vera ekki fljót til að segja að prófraunir okkar séu frá Guði. Okkur er líka ráðlagt að vera ‚sein til reiði því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er fyrir Guði.‘ Ef við reiðumst orðum einhvers annars skulum við fara okkur hægt til að forðast hranalegt svar. (Efesusbréfið 4:26, 27) Reiðigirni, sem getur valdið okkur erfiðleikum og orðið prófraun fyrir aðra, getur ekki skapað það sem trúin á réttlátan Guð krefst af okkur. Auk þess verðum við ‚sein til reiði‘ ef við erum ‚rík að skynsemd‘ og bræður okkar og systur laðast að okkur. — Orðskviðirnir 14:29.
17. Hvað ávinnst með því að uppræta vonsku úr huga og hjarta?
17 Við þurfum vissulega að vera laus við allan „saurugleik“ — allt sem er Guði andstyggð og stuðlar að heift og reiði. Og við verðum að ‚leggja af alla vonsku.‘ Við ættum öll að losa okkur við allan óhreinleika á holdi og anda. (2. Korintubréf 7:1; 1. Pétursbréf 1:14-16; 1. Jóhannesarbréf 1:9) Að uppræta vonsku úr hjarta okkar og huga hjálpaði okkur að ‚taka með hógværð á móti hinu gróðursetta orði‘ sannleikans. (Postulasagan 17:11, 12) Óháð því hve lengi við höfum verið kristin verðum við jafnt og þétt að láta gróðursetja í okkur fleiri biblíusannindi. Af hverju? Af því að fyrir atbeina anda Guðs skapar hið gróðursetta orð ‚nýjan mann‘ eða persónuleika sem leiðir til hjálpræðis. — Efesusbréfið 4:20-24.
18. Hvernig er sá sem er aðeins heyrandi orðsins ólíkur þeim sem er líka gerandi þess?
18 Hvernig sýnum við að orðið sé leiðarljós okkar? Með því að vera hlýðnir „gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess.“ (Lúkas 11:28) „Gjörendur“ hafa trú sem skilar sér í verkum eins og kostgæfni í kristnu boðunarstarfi og reglulegri þátttöku í samkomum fólks Guðs. (Rómverjabréfið 10:14, 15; Hebreabréfið 10:24, 25) Sá sem er aðeins heyrandi orðsins er „líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.“ Hann lítur í spegilinn og gengur svo burt og gleymir því sem hann þurfti kannski að laga í sambandi við útlit sitt. „Gjörendur orðsins“ nema „hið fullkomna lögmál“ Guðs og hlýða því, en það nær yfir allt sem hann krefst af okkur. Frelsið, sem við njótum þannig, er andstæða þrælkunarfjötra syndar og dauða því að það leiðir til lífs. Við skulum því ‚halda okkur við hið fullkomna lögmál,‘ rannsaka það stöðuglega og hlýða því. Og hugsaðu þér! Við sem ‚gleymum ekki því sem við heyrum heldur framkvæmum það‘ höfum þá gleði sem er hylli Guðs samfara. — Sálmur 19:8-12.
Miklu meira en formleg tilbeiðsla
19, 20. (a) Hvers krefst hrein guðsdýrkun af okkur samkvæmt Jakobsbréfinu 1:26, 27? (b) Nefndu nokkur dæmi um flekklausa guðsdýrkun.
19 Til að njóta hylli Guðs verðum við að muna að sönn tilbeiðsla er ekki bara formsatriði. (Jakobsbréfið 1:26, 27) Við höldum kannski að við séum nógu ‚guðræknir‘ til að þóknast Jehóva en það er mat hans á okkur hverjum og einum sem skiptir máli. (1. Korintubréf 4:4) Einn alvarlegur galli í fari okkar gæti verið taumlaus tunga. Við værum að blekkja sjálfa okkur ef við héldum að Guð væri ánægður með tilbeiðslu okkar þótt við rægðum aðra, lygjum eða misnotuðum tunguna á annan hátt. (3. Mósebók 19:16; Efesusbréfið 4:25) Við viljum auðvitað ekki að „guðrækni“ okkar sé „fánýt“ og ótæk í augum Guðs af einhverjum orsökum.
20 Jakob tíundar ekki alla þætti hreinnar guðsdýrkunar en segir að hún feli í sér að „vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra.“ (Galatabréfið 2:10; 6:10; 1. Jóhannesarbréf 3:18) Kristni söfnuðurinn sýnir sérstakan áhuga á því að sjá fyrir ekkjum. (Postulasagan 6:1-6; 1. Tímóteusarbréf 5:8-10) Þar eð Guð er verndari ekkna og munaðarleysingja skulum við vinna með honum með því að gera það sem við getum til að hjálpa þeim andlega og efnislega. (5. Mósebók 10:17, 18) Hrein guðsdýrkun merkir einnig að „varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum,“ af hinu rangláta mannfélagi sem er á valdi Satans. (Jóhannes 17:16; 1. Jóhannesarbréf 5:19) Við skulum því halda okkur frá guðlausu hátterni heimsins til að við getum vegsamað Jehóva og gert gagn í þjónustu hans. — 2. Tímóteusarbréf 2:20-22.
21. Hvaða fleiri spurningar eru athugunar virði í sambandi við Jakobsbréfið?
21 Ráðleggingar Jakobs, sem við höfum skoðað til þessa, ættu að hjálpa okkur að standast raunir og freistingar og halda okkur fast í trúna. Þær ættu að fá okkur til að meta elskuríkan gjafara allra góðra gjafa mikils. Og orð Jakobs hjálpa okkur að ástunda hreina guðsdýrkun. Hverju öðru vekur hann athygli á? Hvað fleira getum við gert til að sýna fram á að við höfum ósvikna trú á Jehóva?
[Neðanmáls]
a Þegar þú ferð yfir þessa grein og næstu tvær einn saman eða með fjölskyldunni væri mjög gott að lesa tilvitnaða kafla í trústyrkjandi bréfi Jakobs.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað hjálpar okkur að standast raunir?
◻ Hvers vegna geta kristnir menn fagnað þrátt fyrir raunir og freistingar?
◻ Hvernig getum við verið gerendur orðsins?
◻ Hvað felst í hreinni guðsdýrkun?
[Mynd á blaðsíðu 9]
Trúðu á mátt Jehóva til að svara bænum þínum þegar þú ratar í raunir.
[Myndir á blaðsíðu 10]
„Gjörendur orðsins“ boða ríki Guðs um heim allan.