Varðveittu hjartað
„Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:23.
1, 2. Hvers vegna þurfum við að varðveita hjartað?
GAMALL maður á eyju í Karíbahafi kemur fram úr öruggu skjóli eftir að fellibylur er genginn yfir. Hann horfir í kringum sig og virðir tjónið fyrir sér. Allt í einu áttar hann sig á því að gríðarstórt tré, sem staðið hafði um áratuga skeið nálægt hliðinu að garðinum hans, er horfið. ‚Hvernig gat þetta gerst fyrst smærri tré í grenndinni stóðu af sér óveðrið?‘ hugsar hann með sér. En svarið liggur í augum uppi þegar hann lítur á stubb fallna trésins. Þótt tréð hafi virst svo sterkt og stöðugt er stofninn fúinn að innan. Óveðrið hefur einungis afhjúpað hinar leyndu skemmdir.
2 Það væri ákaflega dapurlegt ef sannkristinn maður virtist standa djúpum rótum í trúnni en stæðist svo ekki þegar á hann reyndi. Biblían segir réttilega að ‚hugrenningar mannshjartans séu illar frá bernsku hans.‘ (1. Mósebók 8:21) Það merkir að bestu hjörtu geta látið tælast til að gera illt, ef stöðug aðgát er ekki viðhöfð. Þar eð ekkert ófullkomið hjarta er ónæmt fyrir spillingu þurfum við að taka ráðleggingu Orðskviðanna 4:23 alvarlega: „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ En hvernig getum við varðveitt hið táknræna hjarta?
Regluleg skoðun er nauðsynleg
3, 4. (a) Hvaða spurninga mætti spyrja varðandi hið bókstaflega hjarta? (b) Hvað getur hjálpað okkur að skoða hið táknræna hjarta?
3 Ef þú ferð í rækilega læknisskoðun er líklegt að hjartað sé meðal annars rannsakað. Ber almennt heilsufar þitt, þar á meðal ástand hjartans, vott um að þú fáir öll nauðsynleg næringarefni? Hvernig er blóðþrýstingurinn? Er hjartslátturinn stöðugur og sterkur? Hreyfirðu þig nægilega mikið? Er hjartað undir of miklu álagi?
4 Ljóst er að það þarf að fylgjast reglulega með hinu bókstaflega hjarta, en hvað um hið táknræna? Jehóva rannsakar það og við ættum að gera það líka. (1. Kroníkubók 29:17) Hvernig? Með því að spyrja spurninga á borð við: Fær hjartað nóga andlega næringu með reglulegu einkanámi og samkomusókn? (Sálmur 1:1, 2; Hebreabréfið 10:24, 25) Er boðskapur Jehóva mér hjartfólginn líkt og ‚sem eldur brenni í hjarta mínu‘ og knýr hann mig til að boða Guðsríki og gera menn að lærisveinum? (Jeremía 20:9; Matteus 28:19, 20; Rómverjabréfið 1:15, 16) Langar mig til að leggja mig allan fram og taka þátt í einhverri þjónustugrein í fullu starfi eftir því sem ég hef tök á? (Lúkas 13:24) Hvers konar umhverfi bý ég táknrænu hjarta mínu? Sækist ég eftir félagsskap við þá sem eru sameinaðir í sannri tilbeiðslu? (Orðskviðirnir 13:20; 1. Korintubréf 15:33) Verum fljót að koma auga á sérhvern brest og gera viðeigandi ráðstafanir þegar í stað.
5. Hvaða gagnlegum tilgangi geta prófraunir þjónað?
5 Oft reynir á trúna og þá er tækifæri til að kanna ástand hjartans. Móse sagði Ísraelsmönnum er þeir voru í þann mund að ganga inn í fyrirheitna landið: „[Jehóva] Guð þinn hefir leitt þig alla leiðina þessi fjörutíu ár í eyðimörkinni til þess að auðmýkja þig og reyna þig, svo að hann kæmist að raun um, hvað þér býr í hjarta, hvort þú mundir halda boðorð hans eða ekki.“ (5. Mósebók 8:2) Oft bregður okkur við þær tilfinningar, langanir eða viðbrögð sem sýna sig við óvæntar aðstæður eða freistingar. Þær prófraunir, sem Jehóva leyfir, geta vakið okkur til vitundar um galla okkar og gefið okkur færi á að ráða bót á þeim. (Jakobsbréfið 1:2-4) Hugleiðum viðbrögð okkar við prófraunum og ræðum þau við Jehóva í bæn.
Hvað leiða orð okkar í ljós?
6. Hvað getur umræðuefni okkar leitt í ljós í sambandi við hjartað?
6 Hvernig getum við gengið úr skugga um hvað við geymum í hjörtum okkar? Jesús sagði: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði hjarta síns, en vondur maður ber vont fram úr vondum sjóði. Af gnægð hjartans mælir munnur hans.“ (Lúkas 6:45) Umræðuefni okkar er yfirleitt góð vísbending um það hvað hjartanu er kært. Tölum við oft um efnislega hluti og veraldargengi? Eða snúast samræðurnar oftar um andleg mál og guðræðisleg markmið? Auglýsum við mistök annarra eða gerum við okkur far um að breiða yfir þau? (Orðskviðirnir 10:11, 12) Höfum við tilhneigingu til að tala mikið um annað fólk og það sem það er að gera en lítið um andleg og siðferðileg mál? Gæti það verið merki þess að við sýnum einum of mikinn áhuga á einkamálum annarra? — 1. Pétursbréf 4:15.
7. Hvað má læra um verndun hjartans af frásögunni af tíu bræðrum Jósefs?
7 Lítum á atburði sem áttu sér stað í stórri fjölskyldu. Tíu elstu synir Jakobs voru öfundsjúkir út í Jósef, yngsta bróður sinn, vegna þess að faðir þeirra hélt mikið upp á hann og þeir ‚gátu ekki talað vinsamlegt orð‘ við hann. Síðar lét Guð Jósef dreyma drauma sem sönnuðu að hann hafði velþóknun á honum, en bræður hans ‚hötuðu hann þá enn meir.‘ (1. Mósebók 37:4, 5, 11) Þeir sýndu af sér þá grimmd að selja hann til þrælkunar og reyndu að breiða yfir brot sitt með því að telja föður sínum trú um að villidýr hefði drepið hann. Hinir tíu bræður Jósefs gættu ekki að hjarta sínu. Ef við erum gagnrýnin á aðra, er þá hugsanlegt að það sé merki öfundar eða afbrýði í hjarta okkar? Við þurfum að vera vel vakandi fyrir því sem við segjum og vera fljót til að uppræta rangar tilhneigingar.
8. Hvað getur hjálpað okkur að rannsaka hjartað ef við freistumst til að ljúga?
8 Það er ‚óhugsandi að Guð fari með lygi‘ en ófullkomnum mönnum hættir hins vegar til þess. (Hebreabréfið 6:18) „Allir menn ljúga,“ sagði sálmaritarinn mæðulega. (Sálmur 116:11) Pétur postuli laug meira að segja er hann afneitaði Jesú þrisvar. (Matteus 26:69-75) Ljóst er að við þurfum að gæta þess að ljúga ekki því að Jehóva hatar ‚lygna tungu.‘ (Orðskviðirnir 6:16-19) Ef við freistumst einhvern tíma til að ljúga væri gott að brjóta ástæðuna til mergjar. Stafaði það af ótta við menn eða af ótta við refsingu? Var undirrótin kannski hrein eigingirni eða sú að við vildum bjarga andlitinu? Hver sem ástæðan var ættum við að íhuga málið, viðurkenna brot okkar auðmjúklega, sárbæna Jehóva um fyrirgefningu og leita hjálpar hans til að sigrast á veikleika okkar. ‚Öldungar safnaðarins‘ gætu verið vel til þess fallnir að veita viðeigandi hjálp. — Jakobsbréfið 5:14.
9. Hvað leiða bænir okkar í ljós í sambandi við hjartað?
9 Salómon bað Jehóva að veita sér visku og þekkingu og Jehóva svaraði konungi: „Sakir þess, að þetta bjó þér í hjarta, og þú baðst eigi um auðlegð, fé og sæmd, . . . þá er viska og þekking veitt þér, og auðlegð, fé og sæmd vil ég veita þér.“ (2. Kroníkubók 1:11, 12) Bænir Salómons — það sem hann bað um og það sem hann bað ekki um — sögðu Jehóva hvað byggi í hjarta hans. Hvað er okkur hjartfólgið ef mið er tekið af bænum okkar til Guðs? Bera þær vott um þekkingarþorsta og þrá eftir visku og hyggindum? (Orðskviðirnir 2:1-6; Matteus 5:3) Standa málefni Guðsríkis hjarta okkar næst? (Matteus 6:9, 10) Ef bænir okkar eru orðnar vélrænar og yfirborðslegar gæti það bent til þess að við þurfum að gefa okkur tíma til að hugleiða verk Jehóva. (Sálmur 103:2) Allir kristnir menn ættu að vera vakandi fyrir því hvað bænir þeirra leiða í ljós.
Hvað segja verkin?
10, 11. (a) Hvar eiga saurlifnaður og hórdómur upptök sín? (b) Hvað getur hjálpað okkur að ‚drýgja ekki hór í hjartanu‘?
10 Stundum er haft á orði að verkin segi meira en orðin. Verkin segja vissulega margt um okkar innri mann. Að varðveita hjartað í siðferðismálum er til dæmis meira en að forðast saurlifnað eða hórdóm. Jesús sagði í fjallræðunni: „Hver sem horfir á konu í girndarhug, hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu.“ (Matteus 5:28) Hvernig getum við forðast að drýgja hór í hjartanu?
11 Hinn trúfasti ættfaðir Job sýndi giftum kristnum mönnum, bæði körlum og konum, gott fordæmi. Hann átti eflaust eðlileg samskipti við yngri konur og rétti þeim jafnvel hjálparhönd ef þær þörfnuðust þess. En það hvarflaði ekki að þessum ráðvanda manni að sýna þeim rómantískan áhuga vegna þess að hann hafði einsett sér að horfa ekki löngunaraugum á konur. „Ég hafði gjört sáttmála við augu mín; hvernig hefði ég þá átt að líta til yngismeyjar?“ spurði hann. (Jobsbók 31:1) Gerum sams konar sáttmála við augu okkar og varðveitum hjartað.
12. Hvernig verndar þú hjartað í samræmi við Lúkas 16:10?
12 „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu,“ sagði sonur Guðs, „og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“ (Lúkas 16:10) Við þurfum að rannsaka breytni okkar í því sem virðast kann hversdagslegt eða smávægilegt, jafnvel í því sem á sér stað inni á heimili okkar. (Sálmur 101:2) Biblían segir í viðvörunartón: „Frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum. Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé.“ Gætum við þess að fylgja þessari viðvörun þegar við horfum á sjónvarp eða erum tengd Netinu? (Efesusbréfið 5:3, 4) Og hvað um ofbeldið sem oft er boðið upp á í sjónvarpi og tölvuleikjum? „[Jehóva] rannsakar hinn réttláta og hinn óguðlega,“ segir sálmaritarinn, „og þann er elskar ofríki, hatar hann.“ — Sálmur 11:5.
13. Hvaða varúð er réttmæt þegar skoðað er hvað kemur frá hjartanu?
13 „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það,“ sagði Jeremía. (Jeremía 17:9) Þessi sviksemi hjartans getur birst í því hvernig við afsökum mistök okkar, gerum lítið úr ávirðingum okkar, réttlætum alvarlega persónugalla eða ýkjum afrek okkar. Spillt hjarta getur líka verið tvískipt — það getur sagt eitt en gert annað. (Sálmur 12:3; Orðskviðirnir 23:7) Það er ákaflega mikilvægt að líta heiðarlega í eigin barm og skoða hvað kemur frá hjartanu.
Er augað heilt?
14, 15. (a) Hvað er „heilt“ auga? (b) Hvernig varðveitum við hjartað með því að hafa augað heilt?
14 „Augað er lampi líkamans,“ sagði Jesús. „Sé auga þitt heilt, mun allur líkami þinn bjartur.“ (Matteus 6:22) Heilt auga einbeitir sér að einu markmiði og missir aldrei sjónar á því. Augað á að einbeita sér að því að ‚leita fyrst ríkis Guðs og réttlætis.‘ (Matteus 6:33) Hvaða áhrif getur það haft á hið táknræna hjarta ef þess er ekki gætt að halda auganu heilu?
15 Tökum dæmi: Kristnum mönnum er skylt að sjá fjölskyldum sínum farborða. (1. Tímóteusarbréf 5:8) En hvernig fer ef við látum löngun til að fá það nýjasta, besta og eftirsóttasta í fæði, klæði, húsnæði og öðru ná tökum á okkur? Gæti það ekki hneppt hjartað og hugann í fjötra og gert okkur hálfvolg í tilbeiðslunni? (Sálmur 119:113; Rómverjabréfið 16:18) Hví skyldum við verða svo upptekin af því að sjá fyrir efnislegum þörfum okkar að lífið fari að snúast eingöngu um fjölskylduna, viðskipti og efnislega hluti? Munum eftir hinu innblásna ráði: „Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.“ — Lúkas 21:34, 35.
16. Hvað ráðlagði Jesús í sambandi við augað og hvers vegna?
16 Augað er mikilvæg boðskiptaleið frá umheiminum til hugans og hjartans. Það sem augað einbeitir sér að getur haft sterk áhrif á hugsanir okkar, tilfinningar og verk. Jesús greip til líkingamáls er hann talaði um það hve sterklega sjónin gæti freistað manns: „Ef hægra auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér, að einn lima þinna glatist, en öllum líkama þínum verði kastað í helvíti.“ (Matteus 5:29) Það þarf að aga augað til þess að einblína ekki á það sem óviðeigandi er. Augað má til dæmis ekki fá að stara á efni sem er til þess ætlað að örva eða vekja upp óleyfilegar fýsnir og langanir.
17. Hvernig hjálpar Kólossubréfið 3:5 okkur að varðveita hjartað?
17 Sjónin er auðvitað ekki eina skilningarvitið sem tengir okkur við umheiminn. Hin skilningarvitin, svo sem snertiskyn og heyrn, hafa sín áhrif og við þurfum að einnig að sýna varúð í sambandi við þau. Páll postuli hvatti: „Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.“ — Kólossubréfið 3:5.
18. Hvað ættum við að gera þegar rangar hugsanir kvikna með okkur?
18 Óviðeigandi löngun getur kviknað einhvers staðar í afkimum hugans. Yfirleitt magnast hún ef maður gælir við hana og hefur þá áhrif á hjartað. „Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd.“ (Jakobsbréfið 1:14, 15) Margir viðurkenna að sjálfsfróun eigi sér yfirleitt stað af þessum orsökum. Það er ákaflega mikilvægt að fylla hugann af því sem andlegt er. (Filippíbréfið 4:8) Og við ættum alltaf að leggja okkur fram um að kæfa rangar hugsanir sem kvikna með okkur.
‚Þjónaðu Jehóva af öllu hjarta‘
19, 20. Hvernig getum við þjónað Jehóva með heilu hjarta?
19 Á gamals aldri sagði Davíð konungur syni sínum: „Salómon, sonur minn, lær að þekkja Guð föður þíns og þjóna honum af öllu hjarta og með fúsu geði, því að [Jehóva] rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugrenningar.“ (1. Kroníkubók 28:9) Salómon bað Jehóva að veita sér „gaumgæfið hjarta“ en síðan var það hlutverk hans sjálfs að varðveita slíkt hjarta alla ævi. — 1. Konungabók 3:9.
20 Til að okkur farnist vel þurfum við bæði að öðlast hjarta sem er Jehóva að skapi og varðveita það. Til þess þurfum við að hneigja hjartað að áminningum Biblíunnar — varðveita þær ‚innst í hjarta okkar.‘ (Orðskviðirnir 4:20-22) Við ættum að temja okkur að rannsaka hjartað, hugleiða hvað orð okkar og verk leiða í ljós og ræða það við Jehóva í bæn. Slík umhugsun er þó lítils virði nema við leitum hjálpar Jehóva í fullri einlægni til að leiðrétta þá veikleika sem koma í ljós. Og við verðum að hafa nákvæma gát á því sem við hleypum að okkur gegnum skilningarvitin! Ef við gerum það höfum við loforð Guðs fyrir því að ‚friður hans, sem er æðri öllum skilningi, varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú.‘ (Filippíbréfið 4:6, 7) Verum staðráðin í að varðveita hjartað framar öllu öðru og þjóna Jehóva með heilu hjarta.
Manstu?
• Af hverju er mikilvægt að varðveita hjartað?
• Hvernig getum við varðveitt hjartað með því að skoða það sem við segjum?
• Af hverju ættum við að halda auganu ‚heilu‘?
[Myndir á blaðsíðu 18]
Hvað er okkur tamt að tala um í boðunarstarfinu, á samkomum og heima?
[Myndir á blaðsíðu 21]
Heilt auga lætur ekki trufla sig.