Frumkristnin og ríkið
FÁEINUM klukkustundum áður en Jesús dó sagði hann lærisveinum sínum: „Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.“ (Jóhannes 15:19) En merkir það að kristnir menn eigi að vera fjandsamlegir gagnvart yfirvöldum þessa heims?
Ekki af heiminum en ekki fjandsamlegir
Páll postuli sagði kristnum mönnum sem búsettir voru í Róm: „Sérhver maður sé yfirboðnum valdstéttum hlýðinn.“ (Rómverjabréfið 13:1, Biblían 1912) Pétur postuli tók í sama streng: „Verið Drottins vegna undirgefnir allri mannlegri skipan, bæði keisara, hinum æðsta, og landshöfðingjum, sem hann sendir til að refsa illgjörðamönnum og þeim til lofs er breyta vel.“ (1. Pétursbréf 2:13, 14) Undirgefni við ríkið og réttskipaða fulltrúa þess var greinilega viðtekin meginregla meðal frumkristinna manna. Þeir leituðust við að vera löghlýðnir borgarar og eiga frið við alla menn. — Rómverjabréfið 12:18.
Alfræðibókin The Encyclopedia of Religion segir undir uppflettiorðunum „Kirkja og ríki“:
„Fyrstu þrjár aldirnar e.Kr. var kristna kirkjan að mestu leyti aðgreind frá almennu rómversku samfélagi . . . Kristnir leiðtogar . . . kenndu engu að síður hlýðni við rómversk lög og hollustu við keisarann, innan þeirra marka sem kristin trú setti.“
Heiður, ekki tilbeiðsla
Kristnir menn voru ekki fjandsamlegir rómverska keisaranum. Þeir virtu yfirráð hans og sýndu honum þann heiður sem embætti hans bar. Í stjórnartíð Nerós keisara skrifaði Pétur postuli kristnum mönnum er bjuggu víðsvegar um Rómaveldi: „Virðið alla menn, . . . heiðrið keisarann.“ (1. Pétursbréf 2:17) Páll postuli hvatti kristna menn sem bjuggu í höfuðborg Rómaveldis: „Gjaldið öllum það sem skylt er: . . . þeim virðing, sem virðing ber.“ (Rómverjabréfið 13:7) Keisarinn í Róm krafðist vissulega virðingar. Síðar meir krafðist hann jafnvel tilbeiðslu. En þar drógu frumkristnir menn mörkin.
Sagt er að Pólýkarpus hafi mælt við réttarhöld sín frammi fyrir rómverskum landstjóra á annarri öld: „Ég er kristinn. . . . Okkur er kennt að virða . . . þau máttarvöld og yfirvöld sem skipuð eru af Guði.“ En Pólýkarpus kaus frekar að deyja en tilbiðja keisarann. Trúarverjandinn Þeófílus frá Antíokkíu, sem uppi var á annarri öld, skrifaði: „Ég vil frekar heiðra keisarann, ekki tilbiðja hann, heldur biðja fyrir honum. En Guð, hinn lifandi og sanna Guð, tilbið ég.“
Viðeigandi bænir fyrir keisaranum voru á engan hátt tengdar keisaradýrkun eða þjóðernishyggju. Páll postuli útskýrði hvaða tilgangi þær þjónuðu: „Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.“ — 1. Tímóteusarbréf 2:1, 2.
„Við jaðar samfélagsins“
Þessi virðing af hálfu snemmkristinna manna aflaði þeim ekki vináttu heimsins sem þeir bjuggu í. Franski sagnfræðingurinn A. Hamman lýsir því svo að snemmkristnir menn hafi ‚lifað við jaðar samfélagsins.‘ Í raun réttri lifðu þeir við jaðar tveggja samfélaga, hins gyðinglega og hins rómverska því þeir mættu jafnmiklum fordómum og misskilningi frá þeim báðum.
Til dæmis sagði Páll postuli í vörn sinni frammi fyrir rómverskum landstjóra er leiðtogar Gyðinga báru hann röngum sökum: „Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum. . . . Ég skýt máli mínu til keisarans.“ (Postulasagan 25:8, 11) Páll vissi mætavel að Gyðingar sátu á launráðum við hann og skaut máli sínu til Nerós, og viðurkenndi þannig vald rómverska keisarans. Páll virðist síðan hafa verið sýknaður eftir fyrri réttarhöldin yfir sér í Róm. En síðar var hann hnepptur aftur í fangelsi og samkvæmt arfsögnum var hann líflátinn að skipun Nerós.
Félagsfræðingurinn og guðfræðingurinn Ernst Troeltsch skrifar um hina erfiðu aðstöðu snemmkristinna manna í rómversku samfélagi: „Öll embætti og störf voru útilokuð sem tengdust á nokkurn hátt skurðgoðadýrkun eða keisaradýrkun eða áttu nokkuð skylt við blóðsúthellingar eða dauðarefsingu, eða hefðu komið kristnum mönnum í snertingu við heiðið siðleysi.“ Útilokaði þessi afstaða friðsamlegt samband kristinna manna og ríkisins og gagnkvæma virðingu þeirra í milli?
Að gjalda keisaranum það sem „skylt er“
Jesús gaf forskriftina að samskiptum kristins manns við rómverska ríkið og reyndar hvaða stjórn sem er: „Gjaldið . . . keisaranum það, sem keisarans er, og Guði það, sem Guðs er.“ (Matteus 22:21) Þessi ráðlegging Jesú til fylgjenda sinna stakk mjög í stúf við afstöðu margra þjóðernissinnaðra Gyðinga sem mislíkaði yfirráð Rómverja stórlega og véfengdu lögmæti þess að greiða erlendu ríki skatta.
Síðar sagði Páll kristnum mönnum í Róm: „Þess vegna er nauðsynlegt að hlýðnast, ekki einungis vegna hegningarinnar, heldur og vegna samviskunnar. Einmitt þess vegna gjaldið þér og skatta, því að valdsmennirnir eru Guðs þjónar, sem annast þetta. Gjaldið öllum það sem skylt er: Þeim skatt, sem skattur ber, þeim toll, sem tollur ber.“ (Rómverjabréfið 13:5-7) Enda þótt kristnir menn tilheyrðu ekki heiminum var þeim skylt að vera heiðarlegir, skilvísir skattborgarar og greiða ríkinu fyrir veitta þjónustu. — Jóhannes 17:16.
En eru orð Jesú einskorðuð við greiðslu skatta? Þar eð Jesús skilgreindi ekki nákvæmlega hvað væri keisarans og hvað væri Guðs hlýtur sumt að liggja á mörkunum, og þá þarf að taka afstöðu til þess miðað við aðstæður eða skilning okkar á Biblíunni í heild. Með öðrum orðum þarf samviska kristins manns, upplýst af meginreglum Biblíunnar, stundum að segja honum hvað hann geti goldið keisaranum.
Nákvæmt jafnvægi þegar kröfur stangast á
Margir virðast gleyma því að eftir að Jesús sagði að menn skyldu gjalda keisaranum það sem keisarans er bætti hann við: „Og Guði það, sem Guðs er.“ Pétur postuli benti á hvað gengi fyrir hjá kristnum mönnum. Strax eftir að hann hafði hvatt til undirgefni við ‚keisarann‘ og ‚landshöfðingja‘ hans skrifaði hann: „Þér eruð frjálsir menn, hafið ekki frelsið fyrir hjúp yfir vonskuna, breytið heldur sem þjónar Guðs. Virðið alla menn, elskið bræðrafélagið, óttist Guð, heiðrið keisarann.“ (1. Pétursbréf 2:16, 17) Postulinn benti á að kristnir menn væru þjónar Guðs, ekki mannlegs valdhafa. Enda þótt þeir eigi að sýna fulltrúum ríkisins tilhlýðilega virðingu og heiður eiga þeir að gera það í ótta Guðs, en lög hans eru æðst.
Árum áður hafði Pétur tekið af öll tvímæli um að lög Guðs væru æðri lögum manna. Æðstaráð Gyðinga var stjórnvald sem Rómverjar höfðu veitt bæði borgaraleg og trúarleg yfirráð. Þegar ráðið fyrirskipaði fylgjendum Jesú Krists að hætta að kenna í nafni hans svöruðu Pétur og hinir postularnir með virðingu en einbeitni: „Framar ber að hlýða Guði en mönnum.“ (Postulasagan 5:29) Ljóst er að frumkristnir menn urðu að varðveita nákvæmt jafnvægi milli hlýðni sinnar við Guð og viðeigandi undirgefni við mennsk yfirvöld. Tertúllíanus orðaði það þannig snemma á þriðju öld: „Ef allt tilheyrir keisaranum, hvað er þá eftir sem tilheyrir Guði?“
Látið undan ríkinu
Með tíð og tíma slaknaði á þeirri afstöðu sem kristnir menn á fyrstu öld höfðu tekið gagnvart ríkinu. Fráhvarfið, sem Jesús og postularnir höfðu sagt fyrir, blómgaðist á annarri og þriðju öld okkar tímatals. (Matteus 13:37, 38; Postulasagan 20:29, 30; 2. Þessaloníkubréf 2:3-12; 2. Pétursbréf 2:1-3) Fráhvarfskristni lét undan hinum rómverska heimi, tók upp heiðnar hátíðir hans og heimspeki og féllst á að gegna ekki aðeins borgaralegri þjónustu heldur einnig herþjónustu.
Prófessor Troeltsch segir: „Frá og með þriðju öld sótti til verri vegar því að kristnum mönnum fjölgaði í æðri stéttum þjóðfélagsins og hinum virðulegri starfsgreinum, í hernum og í opinberum embættum. Í nokkrum kristnum ritum [utan Biblíunnar] má finna reiðileg mótmæli gegn þátttöku í slíku, en við rekum okkur líka á tilraunir til að fara bil beggja — rök til að sefa órólega samvisku . . . Frá tímum Konstantínusar eru þessir erfiðleikar úr sögunni; ágreiningur kristinna manna og heiðinna hverfur og öll embætti í ríkinu standa kristnum mönnum opin.“
Undir lok fjórðu aldar okkar tímatals varð þessi spillta málamiðlunarkristni ríkistrú Rómaveldis.
Allt söguskeið sitt hefur kristni heimurinn — undir forystu kaþólskra, rétttrúnaðar- og mótmælendakirknanna — haldið áfram að láta undan ríkinu, sökkt sér niður í stjórnmál og stutt það í styrjöldum þess. Mörg einlæg sóknarbörn, sem hafa hneykslast á þessu, gleðjast eflaust yfir því að til skuli vera kristnir menn nú á dögum sem taka sömu afstöðu til ríkisins og kristnir menn á fyrstu öld. Í greinunum tveim, sem á eftir fara, er fjallað ítarlegar um þetta mál.
[Mynd á blaðsíðu 5]
Neró keisari sem Pétur sagði kristnum mönnum að ‚heiðra.‘
[Rétthafi]
Musei Capitolini, Róm
[Mynd á blaðsíðu 6]
Pólýkarpus kaus að deyja frekar en tilbiðja keisarann.
[Mynd á blaðsíðu 7]
Kristnir menn voru friðsamir, heiðarlegir og skilvísir skattborgarar.