Viturleg ráð til hjóna
„Verið hver öðrum undirgefnir. . . . Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn. Þér menn, elskið konur yðar.“ — EFESUSBRÉFIÐ 5:21, 22, 25.
1. Hvað er rétt viðhorf til hjónabands?
JESÚS sagði að hjónaband væri samband karls og konu sem Guð hefði tengt saman svo að þau yrðu sem „einn maður“. (Matteus 19:5, 6) Hjónabandið er samband tveggja ólíkra einstaklinga sem þurfa að læra að tileinka sér sameiginleg áhugamál og vinna að sameiginlegum markmiðum. Það er ævilöng skuldbinding en ekki tímabundið samkomulag sem er auðveldlega hægt að slíta. Í mörgum löndum er auðvelt að fá skilnað en í augum kristinna manna er hjónabandið heilagt. Það þarf mjög alvarlegar ástæður til að binda enda á það. — Matteus 19:9.
2. (a) Hvaða hjálp geta hjón nýtt sér? (b) Af hverju er mikilvægt að vinna að því að gera hjónabandið farsælt?
2 Hjónabandsráðgjafi sagði: „Gott hjónaband er ferli stöðugra breytinga því að það hefur í för með sér ný viðfangsefni og hjónin takast á við erfiðleika sem upp koma og nýta sér þau úrræði sem eru tiltæk á hverjum tíma.“ Kristin hjón nýta sér viturlegar leiðbeiningar Biblíunnar, stuðning frá trúsystkinum og náið bænasamband við Jehóva. Farsælt hjónaband er traust og veitir hjónunum hamingju og gleði. Síðast en ekki síst heiðrar það Jehóva Guð, höfund hjónabandsins. — 1. Mósebók 2:18, 21-24; 1. Korintubréf 10:31; Efesusbréfið 3:15; 1. Þessaloníkubréf 5:17.
Líkið eftir Jesú og söfnuði hans
3. (a) Lýstu í hnotskurn leiðbeiningum Páls til hjóna. (b) Hvaða góða fordæmi gaf Jesús?
3 Fyrir tvö þúsund árum gaf Páll postuli kristnum hjónum viturleg ráð. Hann skrifaði: „Eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu. Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana.“ (Efesusbréfið 5:24, 25) Þetta er mjög góð samlíking. Kristnar eiginkonur, sem eru mönnum sínum undirgefnar í auðmýkt, líkja eftir söfnuðinum sem viðurkennir meginregluna um forystu og fylgir henni. Trúaðir eiginmenn, sem elska konur sínar í blíðu og stríðu, sýna að þeir fylgja vandlega fyrirmynd Krists sem elskaði söfnuðinn og annaðist hann.
4. Hvernig geta eiginmenn fylgt fyrirmynd Jesú?
4 Kristnir eiginmenn eru höfuð fjölskyldunnar en þeir eiga sér líka höfuð, Jesú. (1. Korintubréf 11:3) Eins og hann annaðist söfnuðinn eiga eiginmenn að annast fjölskyldur sínar af kærleika, bæði andlega og líkamlega, jafnvel þótt það kosti þá fórnir. Þeir taka velferð fjölskyldunnar fram yfir eigin óskir og langanir. Jesús sagði: „Allt sem þér viljið, að aðrir menn gjöri yður, það skuluð þér og þeim gjöra.“ (Matteus 7:12) Þessi meginregla á sérstaklega við í hjónabandinu. Páll sýndi fram á það þegar hann sagði: „Eiginmennirnir [skulu] elska konur sínar eins og eigin [líkama]. . . . Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast.“ (Efesusbréfið 5:28, 29) Eiginmenn ættu að ala og annast konur sínar af sömu natni og þeir ala og annast sjálfan sig.
5. Hvernig geta eiginkonur líkt eftir kristna söfnuðinum?
5 Guðræknar eiginkonur taka söfnuðinn sér til fyrirmyndar. Þegar Jesús var á jörðinni voru fylgjendur hans fúsir til að yfirgefa fyrri iðju og fylgja honum. Eftir dauða hans héldu þeir áfram að vera honum undirgefnir og í tæp 2000 ár hefur sannkristni söfnuðurinn verið Jesú undirgefinn og fylgt forystu hans í öllu. Kristnar eiginkonur lítilsvirða ekki menn sína eða gera lítið úr fyrirmælum Biblíunnar um forystu í hjónabandinu. Þær styðja menn sína og eru þeim undirgefnar, vinna með þeim og hvetja þá. Þegar eiginmaðurinn og eiginkonan sýna slíkan kærleika verður hjónabandið farsælt og bæði finna þau gleði í hjónabandinu.
„Búið með skynsemi saman við konur yðar“
6. Hvaða ráð gaf Pétur eiginmönnum og hvers vegna eru þau mikilvæg?
6 Pétur postuli gaf hjónum líka ráð og orð hans til eiginmanna voru sérstaklega beinskeytt. Hann sagði: „Þér eiginmenn, búið með skynsemi saman við konur yðar sem veikari ker og veitið þeim virðingu, því að þær munu erfa með yður náðina og lífið. Þá hindrast bænir yðar ekki.“ (1. Pétursbréf 3:7) Síðustu orðin í versinu gefa til kynna hve alvarleg ráð hans voru. Ef eiginmaður veitir konu sinni ekki virðingu hefur það áhrif á samband hans við Jehóva. Bænir hans hindrast.
7. Hvernig veitir eiginmaður konu sinni virðingu?
7 En hvernig geta eiginmenn veitt konum sínum virðingu? Að veita konu sinni virðingu þýðir að sýna henni ástúð, heiður og sóma. Mörgum kann að hafa fundist slík framkoma gagnvart eiginkonum framandleg. Grískufræðingur segir: „Samkvæmt rómverskum lögum hafði konan engin réttindi. Í lagalegum skilningi var hún alltaf barn. . . . Hún var algerlega háð eiginmanninum og komin upp á náð hans og miskunn.“ Þetta var í algerri andstöðu við kenningar kristninnar. Kristinn eiginmaður veitti konu sinni virðingu. Framkoma hans í hennar garð stjórnaðist af kristnum meginreglum en ekki eigin geðþótta. Auk þess sýndi hann henni tillitsemi og tók mið af því að hún væri veikara ker.
Á hvaða hátt er konan ‚veikara ker‘?
8, 9. Á hvaða hátt eru konur jafnar körlum?
8 Þegar Pétur sagði að konan væri ‚veikara ker‘ átti hann ekki við að konur væru vitsmunalega eða trúarlega veikari en karlmenn. Að vísu hafa margir kristnir karlmenn þjónustuverkefni í söfnuðinum sem konur búast ekki við að fá og innan fjölskyldunnar eru konur undirgefnar eiginmönnum sínum. (1. Korintubréf 14:35; 1. Tímóteusarbréf 2:12) En ætlast er til þess að allir, bæði karlar og konur, sýni sömu trú og þolgæði og fylgi sömu siðferðisstöðlum. Pétur sagði líka að bæði eiginmaðurinn og eiginkonan myndu „erfa . . . náðina og lífið“. Þau eru jöfn frammi fyrir Jehóva hvað hjálpræði varðar. (Galatabréfið 3:28) Pétur var að skrifa til andasmurðra kristinna manna á fyrstu öldinni. Orð hans minntu því kristna eiginmenn á að þeir og konur þeirra væru „samarfar Krists“ og hefðu bæði sömu himnesku vonina. (Rómverjabréfið 8:17) Seinna myndu þau bæði þjóna sem konungar og prestar í himnesku ríki Guðs. — Opinberunarbókin 5:10.
9 Andasmurðar kristnar eiginkonur voru á engan hátt óæðri smurðum kristnum eiginmönnum. Hið sama gildir í meginatriðum um þá sem hafa jarðneska von. Bæði karlar og konur af ‚hinum mikla múgi‘ þvo skikkjur sínar og hvítfága þær í blóði lambsins. Bæði karlar og konur taka þátt í því að lofa Jehóva „dag og nótt“ um allan heim. (Opinberunarbókin 7:9, 10, 14, 15) Bæði karlar og konur hlakka til þess að njóta „dýrðarfrelsis Guðs barna“ þegar þau hljóta „hið sanna líf“. (Rómverjabréfið 8:21; 1. Tímóteusarbréf 6:19) Allir kristnir menn, hvort sem þeir eru andasmurðir eða af öðrum sauðum, þjóna Jehóva í sameiningu sem „ein hjörð“ undir ‚einum hirði‘. (Jóhannes 10:16) Það er svo sannarlega ærin ástæða fyrir kristin hjón til að sýna hvort öðru viðeigandi virðingu.
10. Í hvaða skilningi eru konur ‚veikara ker‘?
10 Á hvaða hátt eru konur þá ‚veikara ker‘? Pétur var kannski að vísa til þess að konur eru yfirleitt minni en karlar og hafa ekki eins mikinn líkamlegan styrk. Barneignir eru dýrmæt gjöf en vegna ófullkomleikans taka þær sinn toll. Konur á barneignaraldri geta orðið reglulega fyrir líkamlegum óþægindum. Þá þarf að sýna þeim sérstaka umhyggju og tillitsemi og einnig þegar þær ganga með og fæða börn sem reynir mjög mikið á konuna. Eiginmaður stuðlar að farsæld hjónabandsins með því að veita konu sinni virðingu og gera sér grein fyrir því að hún þarf á stuðningi að halda.
Á trúarlega sundurskiptu heimili
11. Hvernig getur hjónabandið verið farsælt þótt hjónin séu ekki sömu trúar?
11 Getur hjónaband verið farsælt ef hjónin hafa ólíkar trúarskoðanir, vegna þess að annað þeirra tók við sannleika kristninnar eftir að þau gengu í hjónaband? Reynsla margra gefur til kynna að svo sé. Hjónabandið getur verið farsælt í þeim skilningi að það er traust og veitir báðum hamingju, þótt hjónin hafi ólíkar trúarskoðanir. Þar að auki er hjónabandið enn gilt í augum Jehóva, hjónin eru enn sem „einn maður“. Kristnu fólki er því ráðlagt að búa með vantrúaða makanum ef hann vill vera áfram í hjónabandinu. Ef hjónin eiga börn njóta þau góðs af trúfesti kristna foreldisins. — 1. Korintubréf 7:12-14.
12, 13. Hvernig geta kristnar eiginkonur hjálpað vantrúuðum mönnum sínum með því að fylgja ráðum Péturs?
12 Pétur gefur kristnum konum á trúarlega skiptu heimili vingjarnleg ráð. Meginreglan í orðum hans á líka við kristna karlmenn sem eru í sömu stöðu. Hann segir: „Þér, eiginkonur, [skuluð] vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ — 1. Pétursbréf 3:1, 2.
13 Það er gott ef eiginkonan getur útskýrt trú sína háttvíslega fyrir manni sínum. En sumir eiginmenn vilja ekki hlusta. Það er þeirra mál. En það er ekki öll von úti því að kristileg hegðun gefur líka öflugan vitnisburð. Margir eiginmenn, sem í fyrstu höfðu ekki áhuga á trú eiginkvenna sinna, eða voru jafnvel andsnúnir henni „hneigðust til eilífs lífs“ eftir að hafa séð góða hegðun kvenna sinna. (Postulasagan 13:48, NW) Þótt eiginmaður taki ekki við sannleika kristninnar gæti hann samt hrifist af hegðun konu sinnar og það getur haft góð áhrif á hjónabandið. Eiginmaður konu, sem er vottur Jehóva, viðurkenndi að hann gæti aldrei lifað eftir háleitum lífsreglum vottanna. Samt kallaði hann sjálfan sig „hamingjusaman eiginmann heillandi konu“ og hrósaði hlýlega konu sinni og trúsystkinum hennar í bréfi til dagblaðs.
14. Hvernig geta eiginmenn hjálpað vantrúuðum konum sínum?
14 Kristnir eiginmenn, sem hafa fylgt meginreglunni í orðum Péturs, hafa líka unnið konur sínar með hegðun sinni. Vantrúaðar eiginkonur hafa tekið eftir því að menn þeirra hafa fengið aukna ábyrgðartilfinningu, hætt að eyða peningum í reykingar, drykkju og fjárhættuspil og hætt að nota ljótt orðbragð. Sumar þeirra hafa kynnst öðrum í kristna söfnuðinum og orðið mjög hrifnar af kærleikanum innan bræðrafélagsins. Það sem þær sáu í söfnuðinum laðaði þær að Jehóva. — Jóhannes 13:34, 35.
„Hinn huldi maður hjartans“
15, 16. Hvers konar hegðun gæti unnið vantrúaðan eiginmann?
15 Hvers konar hegðun gæti unnið eiginmann? Það er í rauninni hegðun sem kristnum konum er eðlislægt að rækta með sér. Pétur segir: „Skart yðar sé ekki ytra skart, hárgreiðslur, gullskraut og viðhafnarbúningur, heldur sé það hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda. Það er dýrmætt í augum Guðs. Þannig skreyttu sig einnig forðum hinar helgu konur, er settu von sína til Guðs. Þær voru eiginmönnum sínum undirgefnar, eins og Sara hlýddi Abraham og kallaði hann herra. Og börn hennar eruð þér orðnar, er þér hegðið yður vel og látið ekkert skelfa yður.“ — 1. Pétursbréf 3:3-6.
16 Pétur ráðleggur kristnum eiginkonum að treysta ekki á ytra útlit heldur leyfa mönnum sínum að sjá áhrifin sem kennsla Biblíunnar hefur á þeirra innri mann. Þær ættu að sýna honum nýja persónuleikann að verki. Kannski mun maðurinn bera hann saman við gamla persónuleika konu sinnar. (Efesusbréfið 4:22-24) Honum finnst hógvær og kyrrlátur andi hennar örugglega endurnærandi og aðlaðandi. Slíkt lunderni hefur ekki aðeins góð áhrif á eiginmanninn heldur er það einnig „dýrmætt í augum Guðs“. — Kólossubréfið 3:12.
17. Hvaða góða fordæmi gefur Sara kristnum eiginkonum?
17 Sara er nefnd sem fyrirmynd og hún er gott fordæmi fyrir kristnar konur, hvort sem eiginmenn þeirra eru í trúnni eða ekki. Sara leit tvímælalaust á Abraham sem höfuð sitt. Hún kallaði hann meira að segja „herra“ í hjarta sér. En það gerði engan veginn lítið úr henni. Hún var greinilega andlega sterk kona og hafði óbifanlega trú á Jehóva. Hún er í hópi þeirra „fjölda votta“ sem hefur gefið okkur gott fordæmi og trúfesti þeirra ætti að hvetja okkur til að ‚þreyta þolgóð skeið það sem við eigum fram undan‘. (Hebreabréfið 11:11; 12:1) Það er ekki lítillækkandi fyrir kristna konu að líkja eftir Söru.
18. Hvaða meginreglur ætti að hafa hugfastar á trúarlega skiptu heimili?
18 Eiginmaðurinn er líka höfuðið á trúarlega skiptu heimili. Sé það hann sem er í trúnni tekur hann tillit til trúar konu sinnar án þess þó að víkja frá trú sinni. Sé það konan sem er í trúnni víkur hún ekki heldur frá trú sinni. (Postulasagan 5:29) Samt sem áður gengur hún ekki gegn forystu eiginmannsins. Hún virðir stöðu hans og er áfram undir „lögmálinu, sem bindur hana við manninn“. — Rómverjabréfið 7:2.
Viturlegar leiðbeiningar Biblíunnar
19. Hvað getur reynt á hjónabandið og hvernig er hægt að standa gegn slíku álagi?
19 Margt getur reynt á hjónabandið nú á dögum. Sumir karlmenn axla ekki ábyrgð sína. Sumar eiginkonur neita að lúta forystu manna sinna. Í sumum hjónaböndum beitir annar makinn hinn ofbeldi. Margt getur reynt á trúfesti kristinna manna eins og fjárhagsörðugleikar, mannlegur ófullkomleiki og andi heimsins ásamt siðleysi og brengluðu gildismati fólks. En kristnir karlar og konur hljóta blessun Jehóva ef þau fylgja meginreglum Biblíunnar, hverjar sem aðstæður þeirra eru. Og þótt aðeins annar makinn fylgi meginreglum Biblíunnar er það betra en ef hvorugur gerði það. Auk þess elskar Jehóva og styður þjóna sína sem standa við hjúskaparheit sitt jafnvel við erfiðar aðstæður. Hann gleymir ekki trúfesti þeirra. — 1. Samúelsbók 26:23; Hebreabréfið 6:10; 1. Pétursbréf 3:12.
20. Hvaða ráð veitti Pétur öllum kristnum mönnum?
20 Þegar Pétur hafði gefið körlum og konum í hjónabandi ráð endaði hann með þessum hlýlegu hvatningarorðum: „Að lokum, verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir. Gjaldið ekki illt fyrir illt eða illmæli fyrir illmæli, heldur þvert á móti blessið, því að þér eruð til þess kallaðir að erfa blessunina.“ (1. Pétursbréf 3:8, 9) Þetta eru svo sannarlega viturleg ráð fyrir alla, ekki síst hjón.
Manstu?
• Hvernig líkja kristnir eiginmenn eftir Jesú?
• Hvernig líkja kristnar eiginkonur eftir söfnuðinum?
• Hvernig geta eiginmenn veitt konum sínum virðingu?
• Hvað ætti kristin eiginkona að gera ef maður hennar er ekki í trúnni?
[Mynd á blaðsíðu 14]
Kristinn eiginmaður elskar og annast konu sína.
Kristin eiginkona virðir og heiðrar mann sinn.
[Mynd á blaðsíðu 15]
Ólíkt rómverskum lögum kröfðust kenningar kristninnar þess að eiginmenn veittu konum sínum virðingu.
[Mynd á blaðsíðu 16]
Bæði karlar og konur, sem tilheyra ‚hinum mikla múgi‘, hlakka til þess að búa að eilífu í paradís.
[Mynd á blaðsíðu 17]
Sara leit á Abraham sem herra sinn.