Bróðurkærleikurinn haldist!
„Bróðurkærleikurinn haldist.“ — HEBREABRÉFIÐ 13:1.
1. Hvað myndir þú gera til að halda eldi logandi á kaldri nóttu og hvaða svipaða ábyrgð höfum við öll?
ÞAÐ er hættulega kalt úti og kólnar enn. Eini hitagjafinn í húsinu er snarkandi eldur í arninum. Lífið er undir því komið að halda eldinum logandi. Siturðu bara og horfir á logana deyja og glæðurnar kulna uns ekkert er eftir nema grá askan? Auðvitað ekki. Þú bætir þrotlaust á eldinn til að halda honum lifandi. Í vissum skilningi höfum við öll svipað verkefni í sambandi við miklu mikilvægari „eld“ — eldinn sem ætti að brenna í hjörtum okkar, það er að segja kærleikann.
2. (a) Hvers vegna mætti segja að kærleikurinn hafi kólnað núna á síðustu dögum? (b) Hve mikilvægur er kærleikurinn fyrir sannkristna menn?
2 Við lifum tíma þegar kærleikur flestra, sem játa kristna trú í heiminum, er að kólna eins og Jesús spáði. (Matteus 24:12) Hann var að tala um þýðingarmestu mynd kærleikans, kærleikann til Jehóva Guðs og orðs hans, Biblíunnar. Aðrar myndir kærleikans eru einnig á undanhaldi. Biblían sagði fyrir að á „síðustu dögum“ yrðu margir „kærleikslausir“ og átti þar við það sem kallað er ‚eðlileg ástúð‘ (NW). (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Það er hverju orði sannara. Fjölskyldan ætti að vera athvarf kærleika og ástúðar en jafnvel innan vébanda hennar eru ofbeldi og misnotkun — stundum óhugnanlega gróf — orðin daglegt brauð. En í þessu kaldranalega umhverfi heimsins er kristnum mönnum ekki aðeins fyrirskipað að elska hver annan heldur að sýna fórnfúsan kærleika, að taka aðra fram yfir sjálfa sig. Við eigum að sýna þennan kærleika svo greinilega að allir sjái. Hann á að vera einkennismerki sannkristna safnaðarins. — Jóhannes 13:34, 35.
3. Hvað er bróðurkærleikur og hvað merkir það að láta hann haldast?
3 Páli postula var innblásið að fyrirskipa: „Bróðurkærleikurinn haldist.“ (Hebreabréfið 13:1) Gríska orðið fíladelfíʹa, sem hér er þýtt ‚bróðurkærleikur,‘ merkir samkvæmt fræðiriti nokkru „ástúð, að sýna góðvild og samúð, bjóða hjálp.“ Og hvað átti Páll við þegar hann sagði að við ættum að láta slíkan kærleika haldast? „Hann á aldrei að kólna,“ segir sama fræðirit. Það er því ekki nóg að láta sér þykja vænt um bræður sína; við verðum að sýna væntumþykjuna. Og við verðum að láta þennan kærleika haldast, hann má aldrei kólna. Er það erfitt? Já, en andi Jehóva getur hjálpað okkur að rækta með okkur bróðurkærleika og viðhalda honum. Við skulum líta á þrjár leiðir til að næra þennan bróðurlega kærleikseld í hjörtum okkar.
Vertu hluttekningarsamur
4. Hvað er hluttekning?
4 Ef þú vilt elska kristna bræður þína og systur heitar þarftu kannski að byrja á því að setja þig í spor þeirra, finna til með þeim í þrengingum og erfiðleikum þeirra í lífinu. Pétur postuli hvatti til þess þegar hann skrifaði: „Verið allir samhuga, hluttekningarsamir, bróðurelskir, miskunnsamir, auðmjúkir.“ (1. Pétursbréf 3:8) Gríska orðið, sem hér er þýtt „hluttekningarsamir,“ merkir að „þjást með.“ Heimildarrit nokkurt um biblíugrísku segir um þetta orð: „Það lýsir því hugarástandi sem ríkir þegar við setjum okkur inn í tilfinningar annarra rétt eins og þær væru okkar eigin.“ Samúðarskilningur er því nauðsynlegur. Trúfastur, aldraður þjónn Jehóva sagði einu sinni: „Samúðarskilningur er kvöl þín í hjarta mér.“
5. Hvernig vitum við að Jehóva er hluttekningarsamur?
5 Er Jehóva svona hluttekningarsamur? Tvímælalaust. Til dæmis lesum við um þjáningar þjóðar hans, Ísraelsmanna: „Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða.“ (Jesaja 63:9) Jehóva sá ekki bara vandræði fólks síns; hann fann til með því. Orð Jehóva sjálfs til fólks síns í Sakaría 2:12 lýsa vel hve sterkar tilfinningar hans eru: „Hver sá er snertir yður, snertir augastein minn.“a Orðaskýrandi segir um þetta vers: „Augað er flóknasti og viðkvæmasti hluti mannslíkamans, og sjáaldrið — opið sem ljósið fer inn um til að við sjáum — er næmasti og mikilvægasti hluti augans. Ekkert lýsir betur hugmyndinni um blíða umhyggju Jehóva fyrir þeim sem hann elskar.“
6. Hvernig hefur Jesús Kristur sýnt hluttekningu?
6 Jesús hefur líka alltaf sýnt sterka hluttekningu. Oftsinnis ‚kenndi hann í brjósti‘ um þjáða og sjúka. (Markús 1:41; 6:34) Hann gaf til kynna að þegar ekki væri komið vinsamlega fram við smurða fylgjendur hans fyndist honum sem komið væri þannig fram við sig. (Matteus 25:41-46) Og núna er hann himneskur ‚æðstiprestur‘ okkar og getur „séð aumur á veikleika vorum.“ — Hebreabréfið 4:15.
7. Hvernig gæti hluttekning hjálpað okkur þegar bróðir eða systir fer í taugarnar á okkur?
7 Er ekki hughreystandi að hann skuli ‚sjá aumur á veikleika okkar‘? Við ættum þá að vilja gera hið sama hvert fyrir annað. Auðvitað er miklu auðveldara að koma auga á veikleika annarra. (Matteus 7:3-5) En hvernig væri að reyna eftirfarandi næst þegar bróðir eða systir fer í taugarnar á þér? Ímyndaðu þér að þú sért í sömu aðstöðu og hinn og eigir þér sama bakgrunn, persónuleika og skapgerðargalla og hann. Ertu viss um að þú myndir ekki gera sömu mistök — eða kannski enn verri? Í stað þess að ætlast til of mikils af öðrum ættum við að sýna hluttekningu sem hjálpar okkur að vera sanngjörn eins og Jehóva sem „minnist þess að vér erum mold.“ (Sálmur 103:14; Jakobsbréfið 3:17, NW) Hann þekkir takmörk okkar. Hann ætlast aldrei til meira af okkur en við getum með góðu móti gert. (Samanber 1. Konungabók 19:5-7.) Við skulum öll sýna öðrum þess konar samkennd og hluttekningu.
8. Hvernig ættum við að bregðast við þegar bróðir eða systir á í einhverjum erfiðleikum?
8 Páll skrifaði að söfnuðurinn væri eins og líkami með ólíka limi sem verði að vinna saman í einingu. Svo bætti hann við: „Hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum.“ (1. Korintubréf 12:12-26) Við þurfum að þjást með þeim sem eru að ganga gegnum einhverja eldraun og sýna þeim samúðarskilning. Öldungarnir taka forystuna í því. Páll skrifaði líka: „Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?“ (2. Korintubréf 11:29) Öldungar og farandumsjónarmenn líkja eftir Páli að þessu leyti. Í ræðum sínum, hirðastarfi og jafnvel í meðferð sinni á dómsmálum reyna þeir að sýna samkennd og hluttekningu. Páll ráðlagði: „Grátið með grátendum.“ (Rómverjabréfið 12:15) Þegar sauðirnir skynja að hirðarnir finna virkilega til með þeim, gera sér grein fyrir takmörkum þeirra og skilja erfiðleikana sem þeir eiga í, þá eru þeir yfirleitt fúsari en ella til að þiggja ráð, leiðbeiningar og aga. Þeir sækja samkomur fúslega og treysta að þar finni þeir ‚hvíld sálum sínum.‘ — Matteus 11:29.
Sýndu að þú kunnir að meta aðra
9. Hvernig sýnir Jehóva að hann kann að meta hið góða í fari okkar?
9 Önnur leið til að snerpa á bróðurkærleikanum er að kunna að meta aðra. Til að gera það verðum við að einbeita okkur að og meta góða eiginleika þeirra og viðleitni. Þannig líkjum við eftir Jehóva sjálfum. (Efesusbréfið 5:1) Hann fyrirgefur okkur daglega margar minni háttar syndir. Hann fyrirgefur jafnvel alvarlegar syndir, svo framarlega sem við iðrumst einlæglega. Eftir að hann hefur fyrirgefið syndir okkar hugsar hann ekki um þær framar. (Esekíel 33:14-16) Sálmaritarinn spurði: „Ef þú, [Jah], gæfir gætur að misgjörðum, [Jehóva], hver fengi þá staðist?“ (Sálmur 130:3) Jehóva einbeitir sér að hinu góða sem við gerum í þjónustu hans. — Hebreabréfið 6:10.
10. (a) Af hverju er hættulegt fyrir hjón að hætta að meta hvort annað að verðleikum? (b) Hvað ætti sá að gera sem metur ekki lengur maka sinn að verðleikum?
10 Það er sérstaklega þýðingarmikið að fylgja þessu fordæmi í fjölskyldunni. Þegar hjón sýna að þau meta hvort annað mikils gefa þau börnunum tóninn. Hjónabandið er lítils metið nú á tímum og allt of auðvelt að líta á maka sinn sem sjálfsagðan hlut, mikla fyrir sér galla hans og gera lítið úr kostunum. Slík afstaða grefur undan hjónabandinu og gerir það að gleðisnauðri byrði. Ef þú metur ekki lengur maka þinn að verðleikum skaltu spyrja þig hvort hann hafi virkilega enga góða eiginleika. Líttu um öxl og hugsaðu um hvers vegna þið urðuð ástfangin og giftust. Eru allar þessar ástæður fyrir því að elska þessa einstöku manneskju virkilega foknar út í veður og vind? Auðvitað ekki. Leggðu þig því fram um að meta hið góða í fari maka þíns og tjá það með orðum. — Orðskviðirnir 31:28.
11. Hvað verður að forðast til að ástin milli hjóna sé hræsnislaus?
11 Með því að meta hvort annað mikils eru hjón líka að snerpa á og viðhalda hræsnislausri og falslausri ást. (Samanber 2. Korintubréf 6:6; 1. Pétursbréf 1:22.) Slík ást gefur ekkert svigrúm fyrir grimmd bak við lokaðar dyr, fyrir meiðandi og auðmýkjandi orð, fyrir kuldalega framkomu þar sem dagar líða án þess að sagt sé vingjarnlegt eða kurteislegt orð, og auðvitað alls ekkert svigrúm fyrir líkamlegt ofbeldi. (Efesusbréfið 5:28, 29) Hjón, sem kunna virkilega að meta hvort annað, bera virðingu hvort fyrir öðru. Þau gera það ekki bara á almannafæri heldur líka alltaf þegar Jehóva sér til — með öðrum orðum öllum stundum. — Orðskviðirnir 5:21.
12. Hvers vegna ættu foreldrar að sýna börnunum að þeir kunni að meta hið góða í fari þeirra?
12 Börn þurfa líka að finna að þau séu metin að verðleikum. Ekki svo að skilja að foreldrar ættu að ausa yfir þau oflofi, en þeir ættu að hrósa börnum sínum fyrir hrósunarverða eiginleika þeirra og það sem þau gera gott. Mundu hvernig Jehóva lýsti velþóknun sinni á Jesú. (Markús 1:11) Mundu líka eftir fordæmi Jesú sem ‚húsbóndinn‘ í dæmisögu einni. Hann hrósaði tveim ‚góðum og trúum þjónum‘ jafnt, enda þótt þeim hefði verið gefið mismikið og þeir hefðu skilað mismiklu til hans. (Matteus 25:20-23; samanber Matteus 13:23.) Vitrir foreldrar finna líka leiðir til að láta í ljós að þeir kunni að meta eiginleika, hæfni og verk hvers barns fyrir sig. Þeir gæta þess þó að leggja ekki svo mikla áherslu á að börnin afreki eitthvað að þeim finnist þau sífellt knúin til að skara fram úr. Þeir vilja ekki að börnin alist upp reið eða ístöðulaus. — Efesusbréfið 6:4; Kólossubréfið 3:21.
13. Hverjir taka forystuna í að sýna að hver einasti safnaðarmaður sé metinn að verðleikum?
13 Í kristna söfnuðinum taka öldungar og farandumsjónarmenn forystuna í að sýna að hver einstakur meðlimur hjarðar Guðs sé mikils metinn. Þeir gegna erfiðri stöðu því þeir bera líka þá miklu ábyrgð að aga í réttlæti, leiðrétta mildilega þá sem villast af leið og veita alvarleg ráð þeim sem þurfa. Hvernig fara þeir að því að halda jafnvægi milli þessara ólíku skyldna? — Galatabréfið 6:1; 2. Tímóteusarbréf 3:16.
14, 15. (a) Hvernig sýndi Páll jafnvægi í sambandi við alvarlegar ráðleggingar? (b) Hvernig geta kristnir umsjónarmenn gætt jafnvægis milli þess að leiðrétta og hrósa? Lýstu með dæmi.
14 Fordæmi Páls er mikil hjálp. Hann var afburðakennari, öldungur og hirðir. Hann þurfti að hafa afskipti af söfnuðum sem áttu við alvarleg vandamál að glíma, og hann veigraði sér ekki við að gefa alvarleg ráð þegar þeirra var þörf. (2. Korintubréf 7:8-11) Yfirlit yfir þjónustu Páls bendir til að hann hafi verið spar á ávítur — og aðeins veitt þær þegar aðstæður kröfðust. Hann sýndi þar með guðlega visku.
15 Ef þjónustu öldungs í söfnuðinum væri líkt við tónverk væru ávítur og ofanígjöf eins og stök nóta sem félli inn í heildina. Þessi nóta fer vel þar sem hún á heima. (Lúkas 17:3; 2. Tímóteusarbréf 4:2) En hugsaðu þér lag sem væri aðeins þessi eina nóta síendurtekin. Hún yrði fljótlega þreytandi fyrir eyrun. Kristnir öldungar reyna á sama hátt að auðga kennslu sína og gera hana fjölbreytta. Þeir takmarka hana ekki við það að leysa vandamál. Heildaryfirbragð hennar er uppbyggjandi. Líkt og Jesús Kristur leita kærleiksríkir öldungar fyrst eftir því góða til að hrósa, ekki göllum til að gagnrýna. Þeir kunna að meta eljusemi kristinna bræðra og systra. Þeir eru fullvissir um að langflestir séu að gera sitt besta til að þjóna Jehóva. Og öldungar tjá þessa skoðun sína fúslega með orðum. — Samanber 2. Þessaloníkubréf 3:4.
16. Hvaða áhrif hafði það á trúbræður Páls að hann var hluttekningarsamur og mat þá að verðleikum?
16 Flestir kristnir menn, sem Páll þjónaði, skynjuðu tvímælalaust að hann kunni að meta þá og þótti vænt um þá. Hvernig vitum við það? Sjáum hvernig þeir hugsuðu um hann. Þeir óttuðust hann ekki þótt hann færi með mikil völd. Nei, hann var elskaður og viðmótsgóður. Þegar hann fór frá einum stað féllu öldungarnir meira að segja ‚um háls honum og kysstu hann‘! (Postulasagan 20:17, 37) Öldungar — og við öll — ættum að vera þakklát fyrir að hafa fordæmi Páls til að líkja eftir. Já, við skulum sýna að við kunnum að meta hvert annað.
Ástrík góðvild í verki
17. Nefndu sum af þeim góðu áhrifum sem góðvild í verki hefur á söfnuðinn?
17 Góðvild í verki er eitt áhrifamesta eldsneyti bróðurkærleikans. Eins og Jesús sagði er ‚sælla að gefa en þiggja.‘ (Postulasagan 20:35) Hvort sem við gefum andlega, efnislega eða af tíma okkar og kröftum erum við ekki aðeins að gleðja aðra heldur líka sjálfa okkur. Góðvild í söfnuðinum er smitandi. Eitt vinsamlegt verk framkallar fleiri og áður en langt um líður dafnar bróðurkærleikurinn. — Lúkas 6:38.
18. Hvað merkir orðið sem þýtt er ‚kærleikur‘ í Míka 6:8?
18 Jehóva hvatti fólk sitt, Ísraelsmenn, til að sýna góðvild. Við lesum í Míka 6:8: „Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar [Jehóva] annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“ Hvað merkir það að „ástunda kærleika“? Hebreska orðið cheʹsed, sem hér er þýtt ‚kærleikur,‘ er einnig þýtt „góðvild“ og „miskunn.“ Samkvæmt fræðibókinni The Soncino Books of the Bible merkir þetta orð „meiri virkni en hið óhlutstæða orð miskunn. Það merkir ‚miskunn sem birtist í verki,‘ persónulega, ástríka góðvild í verki, ekki aðeins gagnvart fátækum og þurfandi heldur gagnvart öllum mönnum.“ Annar fræðimaður segir að cheʹsed merki „kærleika sem birtist í verki.“
19. (a) Á hvaða hátt gætum við átt frumkvæðið að því að sýna öðrum góðvild í söfnuðinum? (b) Nefndu dæmi um hvernig þér hefur verið sýndur bróðurkærleikur.
19 Bróðurkærleikurinn er ekki fræðilegur eða óhlutstæður. Hann er áþreifanlegur veruleiki. Leitaðu því færis að gera bræðrum þínum og systrum gott. Vertu eins og Jesús sem beið ekki alltaf eftir að fólk kæmi til sín og bæði um hjálp heldur tók oft frumkvæðið sjálfur. (Lúkas 7:12-16) Hugsaðu sérstaklega um þá sem hafa mestu þörfina. Þarf að heimsækja einhvern aldraðan eða heilsuveilan eða þarf kannski að snúast fyrir hann? Þarfnast ‚munaðarleysingi‘ tíma og athygli? Þarf einhver niðurdreginn að úthella hjarta sínu eða heyra nokkur hughreystingarorð? Við skulum taka okkur tíma til að sýna slíka góðvild í verki í þeim mæli sem við erum fær um. (Jobsbók 29:12; 1. Þessaloníkubréf 5:14, NW; Jakobsbréfið 1:27) Gleymum aldrei að í söfnuði, sem er fullur af ófullkomnu fólki, er fyrirgefning ein mikilvægasta góðvildin — að láta af gremju og reiði jafnvel þótt við höfum gilda ástæðu til að kvarta. (Kólossubréfið 3:13) Fyrirgefningarvilji stuðlar að því að halda söfnuðinum lausum við sundrung, óvild og deilur sem kæfa bróðurkærleikann.
20. Hvernig ættum við öll að halda áfram að líta í eigin barm?
20 Við skulum öll vera staðráðin í að halda þessum mikilvæga kærleikseldi brennandi í hjörtum okkar. Höldum áfram að líta í eigin barm. Sýnum við öðrum samkennd og hluttekningu? Sýnum við að við kunnum að meta aðra? Sýnum við öðrum góðvild í verki? Svo framarlega sem við gerum það yljar kærleikseldurinn bræðralag okkar, hversu nístandi kaldur og tilfinningalaus sem þessi heimur verður. Við skulum því fyrir alla muni láta ‚bróðurkærleikann haldast‘ — nú og að eilífu! — Hebreabréfið 13:1.
[Neðanmáls]
a Sumar þýðingar gefa í skyn að sá sem snertir fólk Guðs sé ekki að snerta auga Guðs heldur Ísraels eða jafnvel sitt eigið. Þessa villu má rekja aftur til miðaldaritara sem breyttu versinu þegar þeir reyndu ranglega að lagfæra ritningargreinar sem þeir töldu virðingarlausar. Með því drógu þeir úr kraftinum í persónulegum samúðarskilningi Jehóva.
Hvað finnst þér?
◻ Hvað er bróðurkærleikur og hvers vegna verðum við að láta hann haldast?
◻ Hvernig hjálpar hluttekning okkur að viðhalda bróðurkærleikanum?
◻ Hvernig er bróðurkærleikurinn tengdur því að meta aðra að verðleikum?
◻ Hvernig stuðlar góðvild í verki að því að bróðurkærleikurinn dafni í kristna söfnuðinum?
[Rammi á blaðsíðu 31]
Kærleikur í verki
Maður, sem var að nema Biblíuna hjá vottum Jehóva fyrir nokkrum árum, var enn dálítið efins um bróðurkærleikann. Hann vissi að Jesús hafði sagt: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) En hann átti erfitt með að trúa því. Dag nokkurn sá hann kristinn kærleika í verki.
Maðurinn var á ferð fjarri heimili sínu þótt hann væri í hjólastól. Hann sótti safnaðarsamkomu í Betlehem í Ísrael. Arabískur vottur lagði fast að öðrum votti, sem var þar á ferð, að gista hjá sér og fjölskyldunni um nóttina, og þessum biblíunemanda var boðið líka. Áður en biblíunemandinn fór í háttinn spurði hann húsráðanda hvort hann mætti fara út á veröndina um morguninn til að horfa á sólarupprásina. Gestgjafinn varaði hann eindregið við því. Daginn eftir útskýrði þessi arabíski bróðir hvers vegna. Með hjálp túlks sagði hann að ef nágrannarnir vissu að hann væri með gesti sem væru Gyðingar, eins og þessi biblíunemandi, myndu þeir brenna húsið til grunna ásamt sér og fjölskyldunni. Biblíunemandinn spurði þá undrandi: „Af hverju tókstu þá slíka áhættu?“ Bróðirinn horfði beint á hann og sagði einfaldlega: „Jóhannes 13:35.“
Biblíunemandinn var djúpt snortinn af þessum áþreifanlega bróðurkærleika og lét skírast skömmu síðar.
[Mynd á blaðsíðu 32]
Páll postuli var mannblendinn og þakklátur að eðlisfari og þar af leiðandi viðmótsgóður.