Hvernig skírnin getur frelsað okkur
„Skírnin . . . frelsar yður.“ — 1. Pétursbréf 3:21.
1, 2. Hvers er krafist af manni áður en hann skírist í vatni?
JEHÓVA gerir ákveðnar kröfur til þeirra sem leita hjálpræðis. Þeir þurfa að afla sér nákvæmrar þekkingar, iðka trú, iðrast synda sinna, snúa við, vígjast Guði og láta skírast sem trúaðir menn. (Jóhannes 3:16; 17:3; Postulasagan 3:19; 18:8) Skírnþegar verða að játa opinberlega að þeir hafi, vegna fórnar Jesú, iðrast synda sinna og vígst Jehóva. Þeir verða líka að skilja að vígsla og skírn auðkennir þá sem votta Jehóva.
2 Skírnarráðstöfunin í heild, þar á meðal þessi opinbera játning trúar, er nauðsynleg til að hljóta hjálpræði. (Rómverjabréfið 10:10) Það var staðfest með orðum Péturs postula: „Skírnin . . . frelsar yður.“ (1. Pétursbréf 3:21) En hvernig nákvæmlega ber okkur að skilja þessi orð? Hvað sýnir samhengið?
Hvernig skírnin frelsar
3. Endursegðu með eigin orðum 1. Pétursbréf 3:18-21.
3 Pétur benti á að sem upprisin andavera hafi Jesús prédikað fordæmingarboðskap yfir hinum illu öndum í fangelsi, hinum illu englum, sem eru geymdir í eilífum fjötrum til dóms hins mikla dags Jehóva. Þeir óhlýðnuðust með því að mynda sér holdslíkama og eiga mök við konur „þegar Guð sýndi langlyndi og beið á dögum Nóa meðan örkin var í smíðum. Í henni frelsuðust fáeinar — það er átta [Nói, kona hans, synir og eiginkonur þeirra] — sálir í vatni.“ Pétur bætti við: „Með því var skírnin fyrirmynduð, sem nú einnig frelsar yður, hún sem ekki er [aðeins hin nauðsynlega] hreinsun óhreininda á líkamanum, heldur bæn til Guðs um góða samvisku fyrir upprisu Jesú Krists.“ — 1. Pétursbréf 3:18-21; 1. Mósebók 6:1, 2; 2. Pétursbréf 3:4; 2. Korintubréf 7:1.
4. Hvað átti Pétur við með orðunum „með því var skírnin fyrirmynduð“?
4 Hvað átti Pétur við þegar hann sagði „Með því var skírnin fyrirmynduð“? Hann átti við að skírn byggð á trú samsvaraði björgun Nóa og fjölskyldu hans sem voru óhult í örkinni þegar flóðið tortímdi öllum sem voru utan hennar. Líkt og Nói þurfti trú til að smíða örkina, eins þurfa allir sem verða skírðir lærisveinar Jesú Krists og vottar Jehóva að hafa trú til að standast þann þrýsting sem þessi trúlausi heimur og guð hans, Satan djöfullinn, beita þá. — Hebreabréfið 11:6, 7; 1. Jóhannesarbréf 5:19.
5. Hvernig veitist okkur hjálpræði „fyrir upprisu Jesú Krists“?
5 Það er ekki skírnin sjálf sem frelsar. Og þótt við þurfum að ‚hreinsa óhreinindi af líkamanum‘ bjargar það eitt okkur ekki. Hjálpræðið veitist okkur „fyrir upprisu Jesú Krists.“ Þeir sem skírast verða að trúa að þetta hjálpræði sé mögulegt aðeins vegna þess að sonur Guðs dó fórnardauða og var reistur upp. Þeir verða líka að viðurkenna Jesú sem Drottin sinn er hefur vald til að dæma lifendur og dauða. Hann er „uppstiginn til himna,“ sagði Pétur, „situr Guði á hægri hönd, en englar, völd og kraftar eru undir hann lagðir.“ — 1. Pétursbréf 3:22.
6. Hvað þarf skírnþegi að hafa gert til að öðlast góða samvisku?
6 Pétur tengir skírnina einnig „bæn til Guðs um góða samvisku.“ Til að öðlast góða samvisku verður sá sem ætlar að láta skírast að iðrast synda sinna, snúa baki við rangri lífsstefnu sinni og vígjast Jehóva Guði skilyrðislaust í bæn fyrir milligöngu Jesú Krists. Ef skírður einstaklingur varðveitir þessa góðu samvisku með því að halda sér við staðla Guðs, þá er hann frelsaður í þeim skilningi að Jehóva dæmir hann ekki fordæmingardómi.
Að vera hæfur til skírnar
7. Hvað hafa trúboðar kristna heimsins gert í sambandi við skírn?
7 Þegar Jesús bauð fylgjendum sínum að skíra lærisveina sagði hann þeim ekki að stökkva vatni á vantrúaða í þúsundatali. En hvað hafa trúboðar kristna heimsins gert? Jesúítinn Francis Xavier skrifaði árið 1545 um Indland: „Í konungsríkinu Travancore . . . hef ég á fáeinum mánuðum skírt yfir tíu þúsund karla, konur og börn. . . . Ég fór frá þorpi til þorps og kristnaði þá.“ Þetta er ekki aðferð Jesú til að ‚kristna‘ menn. Fólk þarf að verða hæft til skírnar.
8. Hvað er sagt í ritum, sem eru eignuð Páli, um þá sem bjóða sig fram til skírnar?
8 Jafnvel ýmsir sem játuðu sig kristna á tímunum eftir dauða postulanna álitu að þeir sem buðu sig fram til skírnar yrðu að standast strangar kröfur. Um slíka skírnþega segja helgirit sem ranglega eru eignuð Páli postula: „Kanna skal hætti þeirra og líf . . . Ef þeir eru ógiftir skulu þeir læra að lifa ekki í saurlífi heldur að ganga í heiðvirt hjónaband. . . . Ef skækja kemur skal hún snúa baki við hórdómi sínum eða hafnað verða ella. Ef skurðgoðasmiður kemur skal hann annaðhvort segja skilið við atvinnu sína eða hafnað verða ella. . . . Sá sem sekur er um ónefndar syndir, . . . töframaður, galdramaður, stjörnuspámaður, spásagnamaður, töfraþulumaður, . . . sá sem býr til verndargripi, sjónhverfingamaður, . . . lófalestrarmaður, . . . skal fyrst reyndur um tíma . . . og láti hann af iðju sinni skal við honum tekið; fallist hann ekki á það skal honum hafnað.“
9. Hvers vegna eiga safnaðaröldungar fundi með þeim sem vilja láta skírast?
9 Vottar Jehóva fylgja ekki óbiblíulegum ritum, svo sem þeim er hér var vitnað í, en eiga þó fundi með þeim sem vilja láta skírast. Í hvaða tilgangi? Þeim að ganga úr skugga um að þessir einstaklingar hafi tekið trú, uppfylli kröfur Guðs og hafi vígst Jehóva. (Postulasagan 4:4; 18:8; 2. Þessaloníkubréf 3:2) Spurningar í bókinni Skipulag til að fullna þjónustu okkar hjálpa þeim að komast að niðurstöðu um hvort einstaklingurinn sé hæfur til skírnar. Ef sum atriði eru ekki skýr fyrir honum eða ef hann hefur ekki samræmt líf sitt kröfum Guðs er öldungunum fagnaðarefni að veita andlega aðstoð.
10. Hvaða viðhorf ættum við að hafa ef við viljum láta skírast?
10 Ef við metum að verðleikum gæsku Guðs í því að hjálpa okkur að kynnast tilgangi sínum ættum við að vera eins og þeir sem Páll prédikaði fyrir í Antíokkíu í Litlu-Asíu. „Er heiðingjarnir heyrðu þetta [um tækifærið til að hljóta viðurkenningu Guðs], glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú,“ þrátt fyrir andstöðu Gyðinganna. (Postulasagan 13:48) Þeir sem tóku þannig trú létu skíast.
Skírn í æsku
11. Er rétt að vígjast Guði á unga aldri? Rökstyddu svar þitt.
11 Í hópi þeirra sem hneigjast til eilífs lífs er æskufólk. Rétt er að nefna að enda þótt menn eins og Samúel og Jóhannes skírari hafi verið helgaðir Guði fyrir fæðingu geta foreldrar ekki gefið Jehóva vígsluheit fyrir börnin sín. (1. Samúelsbók 1:11, 24-28; 2:11, 18, 19; Lúkas 1:15, 66) Vegna góðs biblíulegs uppeldis verða margir unglingar hæfir til skírnar mjög snemma. Systir, sem er trúboði og lét skírast á táningaaldri, segir: „Mér virðist ég hafa verið vígð til að þjóna skapara mínum allt frá þeim aldri er mér varð tilvist hans ljós, en þegar ég eignaðist nákvæma þekkingu á honum og tilgangi hans langaði mig til að láta skírast til að bera því vitni. En móðir mín efaðist um að ég vissi hvað ég væri að gera og lagði því til að ég biði þangað til einhver annar væri tilbúinn til að láta skírast.“ Kona fannst sem langaði til að láta skírast og systirin segir: „Á þeim tíma voru engir sérstakir fræðslutímar fyrir skírnþega, enda þótt þjónustustjórinn, sem Félagið útnefndi . . . talaði vissulega vingjarnlega við mig um það hve alvarlegt skref ég væri að stíga. Ég féllst fúslega á öll skilyrði, sem sett voru, og á björtum sunnudagsmorgni í maí 1921 vorum við . . . skírðar.“
12. Hvernig leit bróðir Russell á vígslu unglinga?
12 Árið 1914 fékk C. T. Russell (þá forseti Varðturnsfélagsins) bréf frá bróður í trúnni sem spurði hvort hann ætti að hvetja tólf ára son sinn til að vígjast Guði. „Ef ég væri þú,“ svaraði Russell, „myndi ég ekki halda vígslu fast að honum, heldur halda henni fyrir hugskotssjónum hans sem einu skynsamlegu lífsstefnu allra skyniborinna manna sem hafa komist til þekkingar á Guði og náðugum tilgangi hans. . . Án vígslu getur enginn maður nokkurn tíma hlotið eilíft líf. . . . Vígsla getur ekki verið syni þínum til tjóns heldur mikillar hjálpar. . . . Hver getur sagt að tíu ára barn geti ekki fullkomlega og algerlega vígst Guði í orði og æði? Þegar ég lít um öxl er mér ljóst að ég vígðist fyrst ungur — liðlega tólf ára.
13. Hvað sagði þetta tímarit við börn og unglinga fyrir um það bil 94 árum?
13 Varðturn Zíonar þann 1. júlí 1894 sagði: „Varðturninn sendir kveðju sína öllum ástkærum börnum og unglingum sem hafa gefið Guði hjarta sitt og reyna dag hvern að fylgja Jesú. Við þekkjum sum af þeim allra yngstu sem elska Jesú og skammast sín ekki fyrir að taka málstað Jesú meðal annarra barna sem ekki elska hann eða reyna að þóknast honum; börn sem eru hugrökk og trúföst Guði, jafnvel þegar skólafélagar, sem þau segja fagnaðarerindið um ríkið, hlægja að þeim eða þykja þau undarleg. Það gleður okkur að sjá sum af ykkur unga fólkinu, sem hafið með hugrekki afneitað heiminum, metnaðarmálum hans og munaði, í hópi þeirra trúföstustu sem hafa vígt líf sitt Drottni. Sumir aðstoðarmanna okkar á skrifstofunni og margir af hinum ötulu bóksölum eru enn ungir að árum.“ Hví ekki að tala við foreldra þína um vígslu til Jehóva Guðs þótt þú sért enn ungur að árum?
Hlutverk foreldranna
14. Hvaða gagn er ungu fólki að því að vígjast Jehóva?
14 Hugleiddu hve gagnlegt það er fyrir börn að fá þá handleiðslu frá foreldrum sínum sem leiðir þau til skírnar. (Efesusbréfið 6:4) Það að hugsa um andleg mál hjálpar þeim að forðast veraldlegar snörur og sambönd sem geta flækt þau í óæskilegan vanda. (1. Jóhannesarbréf 2:15-17) Þau hljóta ekki hina beisku uppskeru sem fæst af því að ‚sá í holdið.‘ (Galatabréfið 6:7, 8) Með því að þeim hefur verið kennt að lifa guðrækilega bera þau ávöxt anda Guðs. (Galatabréfið 5:22, 23) Þar eð þau eru vígð Guði eiga þau náið samband við hann. Og sökum þess að þau hafa lært að ‚treysta á Jehóva‘ láta þau himneska visku leiða sig og ganga vegi yndisleika og friðar. — Orðskviðirnir 3:5, 6, 13, 17.
15. Hvað geta kristnir foreldrar gert til að móta líf barna sinna?
15 Úr því að vígsla til Jehóva er svona gagnleg ungu fólki ættu kristnir foreldrar að gera allt sem þeir geta til að móta sem best líf barna sinna. Hægt er að kenna börnum Ritninguna frá blautu barnsbeini, líkt og Tímóteusi, þannig að þau ‚haldi sér stöðuglega við það sem þau hafa numið og hafa fest trú á.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:14, 15) Guðræknir foreldrar geta umvafið börn sín þeim áhrifum sem gott fordæmi sjálfra þeirra er og innprentað þeim þekkingu í samræmi við sitt eigið samband við Guð, reynslu og þroskaða dómgreind. Þegar rétt er að farið fer slík vinna ekki í súginn. — Orðskviðirnir 22:6.
16. Hvað ættu börnin að sjá í fordæmi þínu og kennslu?
16 Með kennslu þinni og fordæmi skaltu hjálpa börnum þínum að sjá hve skír mörk eru á milli skipulags Jehóva og Satans. Sýndu þeim fram á að engin tilslökun gagnvart þessum heimi geti komið til greina, að kristnir menn verði að afneita undirferli hans, guðlausri skemmtun, metnaðargirni og félagsskap. (1. Korintubréf 15:33; 2. Korintubréf 4:2) Með viðhorfum þínum, svo og einnig með kennslu þinni og fordæmi skalt þú láta börnin þín sjá hve innantómur unaður heimsins er, og hve afvegaleitt fólk heimsins er í samanburði við votta Jehóva. Segðu því frá hvernig Guð hefur leitt þig með heilögum anda sínum og komið í veg fyrir að þú færir út á brautir sem myndu leiða til ógæfu, hvernig hann hefur haldið þér uppi á tímum erfiðleika og hryggðar. Gerðu aldrei þau mistök að halda að börnin þín muni taka trú ef þeim er leyft að hlaupa með heiminum í stolti hans, metnaðargirni, léttúð og glópsku. Skýldu börnum þínum fyrir illum áhrifum heimsins áður en heimurinn getur fest þau í snöru sinni, og hjálpaðu þeim að festa tilfinningar sína og vonir á Jehóva.
Litið fram yfir skírnina
17. (a) Hvers vegna fer sumum skírðum kristnum mönnum aftur andlega? (b) Hvernig ættum við að líta á vígslu okkar?
17 Hvort sem skírnþegar eru ungir eða aldnir vilja þeir áreiðanlega vera Jehóva trúfastir. Hvers vegna skyldu þá sumir skírðir kristnir menn hrasa á vegi dyggðarinnar? Þótt margt geti haft áhrif á það virðist vera ein meginorsök öðrum fremur — sú að skilja ekki til fullnustu hvað í vígslunni felst. Við erum ekki að vígja okkur ákveðnu starfi. Það myndi halda okkur önnum köfnum en ekki gera okkur að andlegum mönnum. Við þurfum að muna að við erum ekki vígð starfi heldur persónu — Jehóva Guði. Það hjálpar okkur að forðast þau mistök að líta á vígslu okkar sem málamyndaskref sem við urðum að stíga áður en við gátum haldið starfi okkar áfram. Við þurfum að hafa það viðhorf til vígslu að við séum að eignast aðild að lífsnauðsynlegu sambandi sem við þurfum alltaf að vernda og viðhalda. Við höfum fordæmi Jesú Krists fyrir því. Spádómsorðin: „Ég kem . . . að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér,“ lýsa viðhorfum hjarta hans þegar hann bauð sig Jehóva. — Sálmur 40:7-9; Hebreabréfið 10:5-10.
18. Hvernig var lögmál Guðs „innra“ í Jesú?
18 Í hvaða skilningi var lögmál Jehóva „innra í“ Jesú? Hann sagði skriftlærðum Gyðingi að Jehóva, Guð okkar, sé einn og enginn annar sé til, og lagði þar með áherslu á drottinvald Jehóva. Síðan benti Jesús á að kjarninn í lögmáli Guðs væri sá að elska Jehóva af öllu hjarta, skilningi og mætti og náungann eins og sjálfan sig. (Markús 12:28-34) Það er meginástæðan fyrir því að Jesús gat sagst hafa ‚yndi af því að gera vilja Guðs.‘ Hann gat haldið sér trúfastur við þá stefnu þrátt fyrir miklar prófraunir og þjáningar, ekki aðeins af því að hann leit á það sem gott starf heldur vegna þess að hann átti náið samband við Jehóva Guð. Ef við á sama hátt viðurkennum drottinvald Jehóva og erum bundin honum órjúfanlegum kærleiksböndum munum við lifa í samræmi við vígslu okkar og skírn.
19. Hver eru tengsl sambands okkar við Jehóva og þess starfs sem við vinnum?
19 Að sjálfsögðu eru tengsl á milli sambands okkar við Guð og þess starfs sem við vinnum. Við látum í ljós kærleika til Jehóva með því að prédika Guðsríki. Grant Suiter, fyrrum meðlimur hins stjórnandi ráðs votta Jehóva sem nú er látinn, skrifaði einu sinni: „Þegar ég hlustaði á [farandhirði] tala um þau sérréttindi að þjóna Jehóva og ábyrgð okkar að gera það, varð mér ljóst hvað ég ætti að gera og hvað ég vildi gera. Því vígði ég mig Jehóva persónulega og aðrir í fjölskyldu minni gerðu slíkt hið sama um svipað leyti. Þann 10. október 1926 gáfum við öll tákn um vígslu okkar til Jehóva með því að skírast í vatni í San Jose í Kaliforníu. . . . Eftir skírnina . . . sagði faðir minn við öldunginn sem hafði yfirumsjón með skírninni: ‚Þið farið út með rit, er það ekki? Við viljum líka taka þátt í því starfi núna.‘ Þannig hóf fjölskylda okkar þátttöku í þjónustunni á akrinum.“ Núna byrja þeir sem eru hæfir að taka virkan þátt í þjónustunni á akrinum jafnvel áður en þeir láta skírast.
Skírnin getur frelsað okkur
20, 21. (a) Á hvaða veg eru þrælar Jehóva ‚merktir‘? (b) Hvað er þetta „merki“ og hvað hefur það í för með sér að bera það?
20 Með verkum okkar getum við sýnt að við ‚tilheyrum Jehóva.‘ Hjálpræði okkar veltur á því að við störfum trúfastir sem vígðir þrælar hans! (Rómverjabréfið 6:20-23; 14:7, 8) Til forna voru þrælar oft merktir á enni sér. Með prédikun fagnaðarerindisins er hinn fyrirmyndaði ‚línklæddi maður‘ — leifar smurðra fylgjenda Jesú — að ‚merkja‘ þá sem lifa munu af endalok þessa heimskerfis. Félagar hinna smurðu, hinir ‚aðrir sauðir,‘ aðstoða þá við það. (Esekíel 9:1-7; Jóhannes 10:16) Og hvað er ‚merkið‘? Það eru sönnunargögnin fyrir því að við séum vígðir Jehóva og skírðir lærisveinar Jesú sem hafa persónuleika líkan Kristi.
21 Einkanlega núna er brýnt að hafa „merkið“ og varðveita það því að langt er liðið á tíma endalokanna. (Daníel 12:4) Til að bjargast verðum við að ‚vera staðfastir allt til enda‘ okkar núverandi lífs eða þessa heimskerfis. (Matteus 24:13) Aðeins ef við erum trúfastir sem vottar Jehóva mun skírnin frelsa okkur.
Upprifjun
◻ Hvers er krafist af okkur til að frelsast?
◻ Hvers vegna funda öldungar með þeim sem vilja láta skírast?
◻ Hvað geta foreldrar gert til að veita börnum sínum andlega leiðsögn sem leiðir til skírnar?
◻ Vígjum við okkur starfi?
◻ Hvernig getur skírnin frelsað okkur?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Veist þú hvernig skírnin samsvarar verndun Nóa og fjölskyldu hans í örkinni?
[Mynd á blaðsíðu 30]
Víglsa og skírn eru ungu fólki til góðs. Veist þú hvernig?