‚Verðið sjálfir heilagir í allri hegðun‘
„Verðið heldur sjálfir heilagir í allri hegðun, eins og sá er heilagur, sem yður hefur kallað. Ritað er: ‚Verið heilagir, því ég er heilagur.‘“ — 1. PÉTURSBRÉF 1:15, 16.
1. Hvers vegna hvetur Pétur kristna menn til að vera heilaga?
HVERS vegna gaf Pétur postuli ráðin hér að ofan? Vegna þess að hann sá þörfina á að sérhver kristinn maður gæti að hugsunum sínum og verkum til að þau séu samstillt heilagleika Jehóva. Hann hafði því þennan formála að orðunum hér að ofan: „Gjörið því hugi yðar viðbúna og vakið. . . . Verið eins og hlýðin börn og látið eigi framar lifnað yðar mótast af þeim girndum, er þér áður létuð stjórnast af í vanvisku yðar.“ — 1. Pétursbréf 1:13, 14.
2. Af hverju voru girndir okkar vanheilagar áður en við kynntumst sannleikanum?
2 Hinar fyrri girndir okkar voru vanheilagar. Af hverju? Af því að mörg okkar voru á veraldlegri braut áður en við tókum við sannleika kristninnar. Pétur vissi það og sagði hreint og beint: „Nógu lengi hafið þér gjört vilja heiðingjanna og lifað í saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ Pétur nefndi auðvitað ekki vanheilög verk sem einkenna heim nútímans því að þau voru óþekkt á þeim tíma. — 1. Pétursbréf 4:3, 4.
3, 4. (a) Hvernig getum við spornað gegn röngum löngunum? (b) Þurfa kristnir menn að bæla niður tilfinningar sínar? Skýrðu svarið.
3 Tekurðu eftir að þessar girndir höfða til holdsins, til skynfæranna og tilfinninganna? Þegar við leyfum þeim að taka völdin verða hugsanir okkar og verk mjög auðveldlega vanheilög. Þetta sýnir vel þörfina á að láta verk okkar stjórnast af skynseminni. Páll orðaði það þannig: „Svo áminni eg yður, bræður, að þér, vegna miskunnar Guðs, bjóðið fram líkami yðar að lifandi, heilagri, Guði þóknanlegri fórn, og er það skynsamleg guðsdýrkun af yðar hendi.“ — Rómverjabréfið 12:1, 2, Biblían 1912.
4 Til að færa Guði heilaga fórn verðum við að láta skynsemina ráða ferðinni, ekki tilfinningarnar. Hve margir hafa ekki dregist út í siðleysi af því að þeir leyfðu tilfinningunum að stjórna gerðum sínum! Þar með er ekki sagt að við verðum að bæla niður tilfinningarnar; hvernig gætum við þá sýnt gleði í þjónustu Jehóva? En ef við viljum bera ávöxt andans en ekki vinna verk holdsins, þá verðum við að endurnýja hugarfarið og tileinka okkur hugsunarhátt Krists. — Galatabréfið 5:22, 23; Filippíbréfið 2:5.
Heilagt líf, heilagt lausnarverð
5. Hvers vegna var Pétur vakandi fyrir nauðsyn þess að vera heilagur?
5 Hvers vegna var Pétur svona vakandi fyrir þörfinni á kristnum heilagleik? Vegna þess að hann vissi mætavel að greitt hafði verið heilagt lausnarverð fyrir hlýðna menn. Hann skrifaði: „Þér vitið, að þér voruð eigi leystir með hverfulum hlutum, silfri eða gulli, frá fánýtri hegðun yðar, er þér höfðuð að erfðum tekið frá feðrum yðar, heldur með blóði hins lýtalausa og óflekkaða lambs, með dýrmætu blóði Krists.“ (1. Pétursbréf 1:18, 19) Já, uppspretta heilagleikans, Jehóva Guð, hafði sent eingetinn son sinn, ‚hinn heilaga,‘ til jarðar til að greiða lausnargjaldið sem gat veitt mönnum gott samband við Guð. — Jóhannes 3:16; 6:69; 2. Mósebók 28:36; Matteus 20:28.
6. (a) Af hverju er ekki auðvelt að ástunda heilaga breytni? (b) Hvað getur hjálpað okkur að vera heilög í breytni okkar?
6 En við verðum að viðurkenna að það er ekki auðvelt að vera heilagur mitt í spilltum heimi Satans. Hann leggur snörur fyrir sannkristna menn sem eru að reyna að komast af í heimskerfi hans. (Efesusbréfið 6:12; 1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Það er nauðsynlegt að vera sterkur andlega til að varðveita heilagleika sinn andspænis álagi veraldlegrar vinnu, andstöðu frá ættingjum eða háði, spotti og hópþrýstingi í skólanum. Það undirstrikar hve mikilvægt er fyrir okkur að nema Biblíuna sjálf og sækja kristnar samkomur reglulega. Páll ráðlagði Tímóteusi: „Haf þér til fyrirmyndar heilnæmu orðin, sem þú heyrðir mig flytja. Stattu stöðugur í þeirri trú og þeim kærleika, sem veitist í Kristi Jesú.“ (2. Tímóteusarbréf 1:13) Við heyrum þessi heilnæmu orð í ríkissalnum og í einkabiblíunámi okkar. Þau geta hjálpað okkur að vera heilög í breytni okkar dag hvern við margs konar ólíkar aðstæður.
Heilög breytni í fjölskyldunni
7. Hvaða áhrif ætti heilagleiki að hafa á fjölskyldulíf okkar?
7 Þegar Pétur vitnaði í 3. Mósebók 11:44 notaði hann gríska orðið haʹgios sem merkir „aðgreindur frá synd og þess vegna helgaður Guði, heilagur.“ (W. E. Vine: An Expository Dictionary of New Testament Words) Hvaða áhrif ætti það að hafa á kristið fjölskyldulíf okkar? Það hlýtur vissulega að þýða að fjölskyldulífið ætti að byggjast á kærleika því að „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Fórnfús kærleikur er smurolían sem liðkar samband hjóna og samband foreldra og barna. — 1. Korintubréf 13:4-8; Efesusbréfið 5:28, 29, 33; 6:4; Kólossubréfið 3:18, 21.
8, 9. (a) Hvaða aðstæður skapast stundum á kristnu heimili? (b) Hvaða heilræði gefur Biblían um þetta mál?
8 Við hugsum kannski sem svo að slíkur kærleikur hljóti að koma af sjálfu sér í kristinni fjölskyldu. Við verðum samt að viðurkenna að kærleikur ríkir ekki á öllum kristnum heimilum í þeim mæli sem hann ætti að gera. Hann gæti virst ríkja þegar við erum í ríkissalnum en heilagleikinn gæti hæglega dvínað þegar heim kemur. Þá gætum við skyndilega gleymt að eiginkonan er enn þá kristin systir okkar eða að eiginmaðurinn er enn sami bróðirinn (og kannski safnaðarþjónn eða öldungur) sem virtist njóta virðingar í ríkissalnum. Fólk verður ergilegt og hörkurifrildi hlýst stundum af. Við gætum jafnvel farið að lifa tvöföldu lífi. Þá er ekki lengur um að ræða kristilegt samband eiginmanns og eiginkonu heldur bara karl og kona að rífast. Þau gleyma að andrúmsloftið á heimilinu ætti að vera heilagt. Kannski fara þau að tala eins og veraldlegt fólk. Þá er stutt í andstyggileg og meiðandi orð! — Orðskviðirnir 12:18; samanber Postulasöguna 15:37-39.
9 Páll ráðleggur hins vegar: „Látið ekkert skaðlegt orð [á grísku: loʹgos saprosʹ, „saurgandi mál“ og þar með vanheilagt] líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.“ Og það á við alla á heimilinu sem heyra, líka börnin. — Efesusbréfið 4:29; Jakobsbréfið 3:8-10.
10. Hvernig eiga heilræði um heilagleika við börn?
10 En þessi viðmiðunarregla um heilagleika á líka við börnin í kristinni fjölskyldu. Það er auðvelt fyrir þau að koma heim úr skólanum og byrja að líkja eftir uppreisnargjörnu og óvirðulegu tali veraldlegra jafnaldra sinna! Börn, temjið ykkur ekki viðhorf ósiðuðu drengjanna sem smánuðu spámann Jehóva og eiga sér samsvörun í orðljótum, lastmálum unglingum nú á dögum. (2. Konungabók 2:23, 24) Mál ykkar ætti ekki að vera mengað grófu götumáli fólks sem er of latt eða tillitslaust til að temja sér sæmandi málfar. Mál okkar, kristinna manna, ætti að vera heilagt, viðfelldið, uppbyggjandi, vingjarnlegt og „salti kryddað.“ Það ætti að aðgreina okkur frá öðrum og sýna að við erum ólík. — Kólossubréfið 3:8-10; 4:6.
Heilagleiki og vantrúaðir ættingjar
11. Hvers vegna er heilagleiki ekki hið sama og að vera sjálfbirgingslegur?
11 Enda þótt við reynum samviskusamlega að ástunda heilagleika ættum við ekki að virðast sjálfbirgingsleg eða yfir aðra hafin, sérstaklega ekki í samskiptum við ættingja sem eru ekki í trúnni. Vinsemd okkar og kristileg breytni ætti að minnsta kosti að sýna þeim að við erum ólík öðrum á jákvæðan hátt, að við kunnum að sýna ást, umhyggju og meðaumkun alveg eins og miskunnsami Samverjinn í dæmisögu Jesú. — Lúkas 10:30-37.
12. Hvernig geta kristnir eiginmenn og konur gert sannleikann meira aðlaðandi fyrir maka sinn?
12 Pétur lagði áherslu á hve rétt viðhorf til vantrúaðra ættingja væru mikilvæg er hann skrifaði kristnum eiginkonum: „Eins skuluð þér, eiginkonur, vera undirgefnar eiginmönnum yðar, til þess að jafnvel þeir, sem vilja ekki hlýða orðinu, geti unnist orðalaust við hegðun kvenna sinna, þegar þeir sjá yðar grandvöru og skírlífu hegðun.“ Kristin eiginkona (eða eiginmaður) getur gert sannleikann aðlaðandi fyrir vantrúaðan maka með hreinlífi sínu, tillitssemi og virðingu. Það þýðir að guðræðisleg stundaskrá hennar þarf að vera sveigjanleg þannig að vantrúaði makinn sé ekki lítilsvirtur eða hafður útundan.a — 1. Pétursbréf 3:1, 2.
13. Hvernig geta öldungar og safnaðarþjónar stundum hjálpað vantrúuðum eiginmönnum að læra að meta sannleikann?
13 Öldungar og safnaðarþjónar geta stundum orðið að liði með því að stofna til kynna við vantrúaðan eiginmann. Þannig sér hann kannski að vottarnir eru eðlilegt, heiðvirt fólk með ýmis fjölbreytt áhugamál önnur en Biblíuna. Svo dæmi sé nefnt sýndi öldungur áhuga á veiðimennsku sem var áhugamál eiginmanns nokkurs. Það nægði til að brjóta ísinn. Eiginmaðurinn varð síðar skírður bróðir. Annar eiginmaður hafði mikið dálæti á kanarífuglum. Öldungarnir létu það ekki aftra sér. Einn þeirra las sér til um kanarífugla þannig að næst þegar hann hitti manninn gat hann bryddað upp á samræðum um aðaláhugamál hans! Að vera heilagur merkir því ekki að vera einstrengingslegur eða siðavandur úr hófi fram. — 1. Korintubréf 9:20-23.
Hvernig getum við verið heilög í söfnuðinum?
14. (a) Nefndu eina af aðferðum Satans til að grafa undan söfnuðinum. (b) Hvernig getum við forðast snörur Satans?
14 Satan djöfullinn er rógberi þar sem gríska nafnið fyrir djöful, diaʹbolos, merkir „ákærandi“ eða „rógberi.“ Rógur er ein af sérgreinum hans sem hann reynir að beita í söfnuðinum. Og slúður er uppáhaldsaðferðin. Leyfum við honum að hafa okkur að leiksoppi með þessari vanheilögu breytni? Hvernig gæti það gerst? Með því að hefja slúður, endurtaka það eða hlusta á það. Viturlegur orðskviður segir: „Vélráður maður kveikir illdeilur, og rógberinn veldur vinaskilnaði.“ (Orðskviðirnir 16:28) Hvert er mótefnið gegn slúðri og rógi? Við ættum að gæta þess að mál okkar sé alltaf uppbyggjandi og byggt á kærleika. Ef við erum vakandi fyrir dyggðum bræðra okkar frekar en meintum löstum verða samræður okkar alltaf ánægjulegar og andlegar. Munum að það er auðvelt að gagnrýna. Og sá sem slúðrar í þín eyru um aðra slúðrar kannski líka um þig við aðra! — 1. Tímóteusarbréf 5:13; Títusarbréfið 2:3.
15. Hvaða kristilegir eiginleikar hjálpa öllum í söfnuðinum að vera heilagir?
15 Til að halda söfnuðinum heilögum þurfum við öll að hafa huga Krists og við vitum að kærleikur er aðaleiginleiki hans. Þess vegna ráðlagði Páll Kólossumönnum að vera meðaumkunarsamir eins og Kristur: „Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi . . . fyrirgefið hver öðrum . . . Íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.“ Svo bætti hann við: „Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar.“ Ef við höfum þennan fyrirgefningaranda getum við varðveitt einingu og heilagleika safnaðarins. — Kólossubréfið 3:12-15.
Er heilagleiki okkar augljós í hverfinu?
16. Af hverju ætti heilög tilbeiðsla okkar að vera gleðirík tilbeiðsla?
16 Hvað um nágranna okkar? Hvaða augum líta þeir okkur? Geislum við frá okkur gleði sannleikans eða er hann eins og byrði á okkur? Ef við erum heilög eins og Jehóva er heilagur ætti það að sýna sig í tali okkar og hegðun. Það ætti að vera ljóst að heilög tilbeiðsla okkar er gleðileg tilbeiðsla. Hvers vegna? Vegna þess að Jehóva, Guð okkar, er hamingjusamur Guð og vill að tilbiðjendur hans séu glaðir. Þess vegna gat sálmaritarinn sagt um fólk Jehóva til forna: „Sæl er sú þjóð, sem á [Jehóva] að Guði.“ Endurspeglum við þessa hamingju og gleði? Eru börnin okkar líka ánægð að vera meðal fólks Jehóva í ríkissalnum og á mótunum? — Sálmur 89:16, 17; 144:15b.
17. Hvernig getum við á raunhæfan hátt sýnt jafnvægi í heilagleika okkar?
17 Við getum einnig sýnt jafnvægi í heilagri tilbeiðslu okkar með því að vera samvinnuþýð og góðviljuð við nágranna okkar. Stundum þurfa nágrannar að vinna saman, kannski við hreinsun hverfisins eða, eins og í sumum löndum, að viðhaldi gatna og þjóðvega. Þar getur heilagleiki okkar birst í því hvernig við önnumst garðinn okkar eða aðrar eignir. Ef við látum rusl liggja úti undir vegg eða garðurinn er sóðalegur eða illa hirtur, kannski jafnvel fullur af bílhræjum sem blasa við öllum, getum við þá sagt að við sýnum nágrönnum okkar virðingu? — Opinberunarbókin 11:18.
Heilagleiki í vinnu og skóla
18. (a) Í hvaða erfiðri stöðu eru kristnir menn nú á tímum? (b) Hvernig getum við verið ólík heiminum?
18 Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í hinni vanheilögu Korintuborg: „Ég ritaði yður í bréfinu, að þér skylduð ekki umgangast saurlífismenn. Átti ég þar ekki við saurlífismenn þessa heims yfirleitt, ásælna og ræningja eða hjáguðadýrkendur, því að þá hefðuð þér orðið að fara út úr heiminum.“ (1. Korintubréf 5:9, 10) Þetta er erfið staða fyrir kristna menn því þeir verða að umgangast siðlaust eða siðblint fólk daglega. Það er mikil prófraun á ráðvendni okkar, einkum í samfélögum þar sem ýtt er undir kynferðislega áreitni, spillingu og óheiðarleika, eða slíkt er látið óátalið. Í slíku umhverfi getum við ekki leyft okkur að slaka á lífsreglum okkar til að virðast „eðlileg“ í augum þeirra sem við umgöngumst. Í stað þess ættum við að skera okkur úr með kristinni breytni okkar og góðvild þannig að skarpskyggnt fólk, sem er meðvita um andlega þörf sína og er að leita að einhverju betra, taki eftir. — Matteus 5:3; 1. Pétursbréf 3:16, 17.
19. (a) Hvaða prófraunir mæta ykkur börnunum í skólanum? (b) Hvað geta foreldrar gert til að styðja börn sín og heilaga breytni þeirra?
19 Börn okkar verða sömuleiðis fyrir mörgum prófraunum í skólanum. Heimsækið þið foreldrar skólann sem börnin ykkar ganga í? Vitið þið hvers konar andrúmsloft ríkir þar? Hafið þið samband við kennarana? Hvers vegna skipta þessar spurningar máli? Vegna þess að víða um heim eru borgarskólar orðnir að frumskógum ofbeldis, fíkniefna og kynlífs. Hvernig geta börnin okkar varðveitt ráðvendni sína og heilaga breytni ef þau njóta ekki fulls skilnings og stuðnings foreldra sinna? Páll ráðlagði foreldrum réttilega: „Þér feður, verið ekki vondir við [„angrið ekki,“ NW] börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.“ (Kólossubréfið 3:21) Ein leið til að reita börnin til reiði er sú að sýna ekki skilning á daglegum vandamálum þeirra og prófraunum. Undirbúningur til að standast freistingarnar í skólanum hefst í andlegu umhverfi kristins heimilis. — 5. Mósebók 6:6-9; Orðskviðirnir 22:6.
20. Hvers vegna er nauðsynlegt fyrir okkur öll að vera heilög?
20 Að lokum, hvers vegna er nauðsynlegt fyrir okkur öll að vera heilög? Vegna þess að það er okkur vernd gegn ásókn hugsunarháttar og heims Satans. Það er okkur til blessunar núna og í framtíðinni. Það á sinn þátt í að tryggja okkur hið sanna líf í nýjum heimi réttlætisins. Það hjálpar okkur að halda jafnvægi og vera viðmótsgóðir, skrafhreifnir kristnir menn — ekki ósveigjanlegir ofstækismenn. Í stuttu máli gerir það okkur lík Kristi. — 1. Tímóteusarbréf 6:19.
[Neðanmáls]
a Nánari upplýsingar um nærgætni í samskiptum við vantrúaðan maka er að finna í Varðturninum 1. september 1989, bls. 27, gr. 20-22 og í enskri útgáfu blaðsins í greininni „Vanræktu ekki maka þinn!“ 15. ágúst 1990, bls. 20-22.
Manstu?
◻ Hvers vegna taldi Pétur nauðsynlegt að veita kristnum mönnum ráð um heilagleika?
◻ Hvers vegna er ekki auðvelt að vera heilagur?
◻ Hvað getum við öll gert til að sýna meiri heilagleika innan fjölskyldunnar?
◻ Hvaða vanheilaga hegðun ættum við að forðast til að varðveita söfnuðinn heilagan?
◻ Hvernig getum við verið heilög í vinnu og skóla?
[Myndir á blaðsíðu 16]
Við sem erum vottar Jehóva ættum að vera glöð í þjónustu Guðs og í öðru sem við gerum.