Gefist ekki upp!
„Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.“ — GALATABRÉFIÐ 6:9.
1, 2. (a) Hvernig veiðir ljón? (b) Hverja vill djöfullinn sérstaklega klófesta?
LJÓN veiðir á ýmsa vegu. Stundum ræðst það á bráð sína úr launsátri við vatnsból eða troðninga. En stundum, segir bókin Portraits in the Wild, „notfærir ljónið sér einfaldlega aðstæður — til dæmis er það gengur óvænt fram á sofandi sebrafolald.“
2 Pétur postuli bendir á að ‚óvinur okkar, djöfullinn, gangi um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hann geti gleypt.‘ (1. Pétursbréf 5:8) Satan veit að tíminn er naumur þannig að hann leggst með æ meiri þunga á menn til að hindra að þeir þjóni Jehóva. En þetta „öskrandi ljón“ hefur sérstakan áhuga á að gera þjóna Jehóva að bráð sinni. (Opinberunarbókin 12:12, 17) Veiðiaðferðir hans eru líkar veiðiaðferðum ljónsins í dýraríkinu. Hvernig þá?
3, 4. (a) Hvaða aðferðum beitir Satan til að reyna að klófesta þjóna Jehóva? (b) Hvaða spurninga er spurt þar eð við lifum „örðugar tíðir“?
3 Stundum reynir Satan að ráðast á okkur úr launsátri — með ofsóknum eða andstöðu sem ætlað er að fá okkur til að láta af ráðvendni okkar þannig að við hættum að þjóna Jehóva. (2. Tímóteusarbréf 3:12) En stundum notfærir djöfullinn sér bara aðstæður líkt og ljónið. Hann bíður uns við verðum kjarklítil eða langþreytt og reynir þá að notfæra sér dapurleika okkar og fá okkur til að gefast upp. Við megum ekki verða auðveld bráð fyrir hann!
4 Við lifum erfiðustu tíma allrar mannkynssögunnar. Á þessum ‚örðugu tíðum‘ geta mörg okkar orðið kjarklítil eða langþreytt af og til. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hvernig getum við þá komið í veg fyrir að við lýjumst svo að við verðum auðveld bráð fyrir djöfulinn? Já, hvernig getum við farið eftir innblásnum heilræðum Páls postula: „Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp“? — Galatabréfið 6:9.
Þegar aðrir valda okkur vonbrigðum
5. Hvað þreytti Davíð en hvað gerði hann ekki?
5 Jafnvel trúföstustu þjónar Jehóva á biblíutímanum voru stundum lúnir og niðurbeygðir. „Ég er þreyttur af andvörpum mínum,“ sagði sálmaritarinn Davíð. „Ég lauga rekkju mína í tárum, læt hvílu mína flóa hverja nótt. Augu mín eru döpruð af harmi.“ Hvers vegna leið Davíð þannig? „Sakir allra óvina minna,“ sagði hann. Særandi framkoma annarra olli Davíð slíkum sársauka að augu hans flóðu í tárum. En Davíð sneri ekki baki við Jehóva vegna þess sem aðrir menn höfðu gert honum. — Sálmur 6:7-10.
6. (a) Hvaða áhrif geta orð eða verk annarra haft á okkur? (b) Hvernig gera sumir sig að auðveldri bráð djöfulsins?
6 Orð eða verk annarra geta líka valdið okkur mikilli kvöl og þreytu. „Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur,“ segja Orðskviðirnir 12:18. Þegar það er kristinn bróðir eða systir sem þvaðrar í hugsunarleysi getur ‚spjótsstungan‘ orðið djúp. Það er mannleg tilhneiging að móðgast og jafnvel ala með sér gremju eða kala, einkum ef okkur finnst við ranglæti beitt eða illa komið fram við okkur. Þá finnst okkur kannski erfitt að tala við þann sem gerði á hlut okkar og við sneiðum jafnvel hjá honum. Þjakandi gremja hefur komið sumum til að gefast upp og hætta að sækja kristnar samkomur. Því miður ‚gefa þeir djöflinum þannig færi‘ á sér og eru auðveld bráð. — Efesusbréfið 4:27.
7. (a) Hvernig getum við forðast að gefa djöflinum færi á okkur þegar aðrir valda okkur vonbrigðum eða særa okkur? (b) Hvers vegna ættum við að losa okkur við gremju?
7 Hvernig getum við forðast að gefa djöflinum færi á okkur þegar aðrir valda okkur vonbrigðum eða særa okkur? Við verðum að reyna að ala ekki með okkur gremju heldur eiga frumkvæðið að því að sættast eða útkljá málið eins fljótt og hægt er. (Efesusbréfið 4:26) Kólossubréfið 3:13 hvetur okkur: „Fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.“ Fyrirgefning er sérstaklega viðeigandi þegar sá sem gerði á hlut manns viðurkennir mistök sín og sér virkilega eftir þeim. (Samanber Sálm 32:3-5 og Orðskviðina 28:13.) Þó ber að hafa hugfast að fyrirgefning felst ekki í því að horfa fram hjá því ranga sem aðrir hafa gert eða gera sem minnst úr því. Að fyrirgefa er að losa sig við gremjuna. Gremja er þung byrði að bera. Hún getur heltekið hugsanir okkar og rænt okkur gleðinni. Hún getur jafnvel haft áhrif á heilsuna. Fyrirgefning, þegar hún á við, er okkur hins vegar til góðs. Megum við vera staðföst eins og Davíð og aldrei gefast upp og fjarlægjast Jehóva vegna þess sem aðrir menn hafa sagt eða gert okkur!
Þegar okkur verður á
8. (a) Af hverju hafa sumir stundum mjög mikið samviskubit? (b) Hvaða hætta fylgir því að vera svo gagntekinn sektarkennd að við gefumst upp á sjálfum okkur?
8 „Allir hrösum vér margvíslega,“ segir Jakobsbréfið 3:2. Þegar það gerist er eðlilegt að fá samviskubit. (Sálmur 38:4-9) Sektarkenndin getur verið afar sterk ef við eigum í baráttu við einhvern veikleika holdsins og fáum bakslag af og til.a Kristin kona, sem átti í slíkri baráttu, sagði: „Mig langaði ekki til að lifa lengur því að ég vissi ekki hvort ég hefði drýgt ófyrirgefanlega synd eða ekki. Mér fannst ég alveg eins geta látið það vera að leggja mig fram í þjónustu Jehóva vegna þess að það væri hvort eð er um seinan fyrir mig.“ Þegar sektarkenndin gagntekur okkur svo að við gefumst upp á sjálfum okkur gefum við djöflinum færi — og hann getur verið fljótur að notfæra sér það! (2. Korintubréf 2:5-7, 11) Við gætum þurft að sjá sekt okkar í nýju ljósi og yfirvegaðra.
9. Hvers vegna ættum við að treysta á miskunn Guðs?
9 Það er eðlilegt að vera sakbitinn þegar við syndgum. En stundum varir sektarkenndin vegna þess að kristnum manni finnst hann aldrei geta verðskuldað miskunn Guðs. Biblían fullvissar okkur hins vegar hlýlega: „Ef vér játum syndir vorar, þá er hann trúr og réttlátur, svo að hann fyrirgefur oss syndirnar og hreinsar oss af öllu ranglæti.“ (1. Jóhannesarbréf 1:9) Er nokkur heilbrigð ástæða til að ætla að Guð fyrirgefi okkur ekki? Munum að Jehóva segir í orði sínu að hann sé „fús til að fyrirgefa.“ (Sálmur 86:5; 130:3, 4) Þar eð hann getur ekki logið gerir hann eins og orð hans lofar, svo framarlega sem við snúum okkur til hans með iðrunarhug. — Títusarbréfið 1:2.
10. Hvaða hlýleg hughreysting birtist í Varðturninum fyrir mörgum árum um baráttu við veikleika holdsins?
10 Hvað ættirðu að gera ef þú átt í baráttu við veikleika og færð bakslag? Gefstu ekki upp! Bakslag eyðileggur ekki endilega þær framfarir sem þú hefur þegar tekið. Þetta tímarit kom með þessa hlýlegu hughreystingu hinn 15. febrúar 1954: „Stundum hrösum við og föllum mörgum sinnum vegna ávana sem var orðinn rótgrónari í okkar fyrra lífsmynstri en við höfðum gert okkur grein fyrir. . . . Ekki örvænta. Ekki halda að þú hafir drýgt ófyrirgefanlega synd. Satan vill einmitt að þú haldir það. Sú staðreynd að þú ert sorgmæddur og óánægður með sjálfan þig sannar einmitt að þú hefur ekki farið yfir mörkin. Þreystu aldrei á að snúa þér í auðmýkt og einlægni til Guðs, leita fyrirgefningar hans, hreinsunar og hjálpar. Leitaðu til hans eins og barn leitar til föður síns þegar það á í erfiðleikum, óháð því hve oft það er vegna sama veikleika, og Jehóva mun náðarsamlega hjálpa þér vegna óverðskuldaðrar gæsku sinnar, og ef þú ert einlægur mun hann láta þig finna að hann hefur hreinsað samvisku þína.“
Þegar okkur finnst við ekki gera nóg
11. (a) Hvernig ættum við að líta á þátttöku í prédikun Guðsríkis? (b) Hvaða tilfinningar í sambandi við boðunarstarfið sækja á suma kristna menn?
11 Prédikun Guðsríkis gegnir mikilvægu hlutverki í lífi kristins manns og það er ánægjulegt að taka þátt í því. (Sálmur 40:9) En sumir kristnir menn eru mjög sakbitnir út af því að geta ekki gert meira í boðunarstarfinu. Slík sektarkennd gæti jafnvel spillt gleði okkar og látið okkur gefast upp því að við ímyndum okkur að Jehóva finnist við ekki gera nóg. Lítum á dæmi um það sem sumir eiga í baráttu við.
„Vitið þið hvað það er tímafrekt að vera fátæk?“ skrifaði kristin systir sem er að ala upp þrjú börn ásamt eiginmanni sínum. „Ég verð að spara hvar sem ég get. Það kostar að eyða tíma í að leita á mörkuðum sem selja notuð föt og á útsölumörkuðum og jafnvel að sauma föt sjálf. Ég nota líka eina eða tvær klukkustundir í viku í að klippa út, flokka og notfæra mér afsláttarmiða [fyrir matvörur]. Stundum hef ég mjög slæma samvisku út af þessu því mér finnst að ég ætti að nota þennan tíma úti í boðunarstarfinu.“
„Mér fannst að það gæti ekki verið að ég elskaði Jehóva nógu heitt,“ sagði fjögurra barna móðir sem á vantrúaðan eiginmann. „Ég streittist því við að þjóna Jehóva sem best. Ég lagði virkilega hart að mér en fannst ég aldrei gera nóg. Ég hafði nefnilega ekkert álit á sjálfri mér þannig að ég gat ekki ímyndað mér að Jehóva gæti nokkurn tíma verið ánægður með þjónustu mína við sig.“
Kristin kona, sem þurfti að hætta þjónustu í fullu starfi, sagði: „Ég þoldi ekki tilhugsunina að ég væri að bregðast þeirri skyldu minni að þjóna Jehóva í fullu starfi. Þið getið ekki ímyndað ykkur hve vonsvikin ég var! Ég græt þegar mér verður hugsað til þess.“
12. Hvers vegna eru sumir kristnir menn mjög sakbitnir af því að geta ekki gert meira í boðunarstarfinu?
12 Það er ekki nema eðlilegt að vilja þjóna Jehóva sem allra best. (Sálmur 86:12) En af hverju eru sumir mjög sakbitnir yfir því að geta ekki gert meira? Hjá sumum virðist það tengt því að þeim finnst þeir einskis virði, hugsanlega vegna erfiðrar lífsreynslu. Í öðrum tilvikum getur óeðlileg sektarkennd stafað af óraunsæjum hugmyndum um kröfur Jehóva til okkar. „Mér fannst ég ekki vera að gera nóg ef ég útkeyrði mig ekki,“ viðurkenndi kristin kona. Þar af leiðandi gerði hún óheyrilegar kröfur til sjálfrar sín — og hafði enn meira samviskubit þegar hún gat ekki staðið undir þeim.
13. Til hvers ætlast Jehóva af okkur?
13 Hvers væntir Jehóva af okkur? Í stuttu máli væntir hann þess að við þjónum honum af heilum huga og gerum það sem aðstæður leyfa. (Kólossubréfið 3:23) En það getur verið mikill munur á því sem við vildum gera og því sem er raunhæft að við getum gert. Margt getur sett okkur skorður, svo sem aldur, heilsa, líkamsþol og fjölskylduábyrgð. En þegar við gerum allt sem við getum megum við treysta að við séum að þjóna Jehóva af heilum huga — ekki síður heilshugar en sá sem hefur heilsu og aðstæður til að þjóna í fullu starfi. — Matteus 13:18-23.
14. Hvað geturðu gert ef þú þarft hjálp til að meta hvers raunhæft sé að vænta af sjálfum þér?
14 Hvernig geturðu þá komist að því hvað sé raunhæft að ætlast til af sjálfum þér? Þú gætir rætt málið við þroskaðan kristinn vin sem þú treystir, kannski öldung eða reynda systur sem þekkir getu þína, takmörk og fjölskylduábyrgð. (Orðskviðirnir 15:22) Mundu að Guð mælir manngildi þitt ekki eftir því hve mikið þú getur gert í boðunarstarfinu. Allir þjónar Jehóva eru honum dýrmætir. (Haggaí 2:7; Malakí 3:16, 17) Það sem þú gerir í prédikunarstarfinu er kannski meira eða minna en aðrir gera, en meðan það er það besta sem þú getur gert er Jehóva ánægður, og það er engin ástæða fyrir þig til að hafa samviskubit. — Galatabréfið 6:4.
Þegar mikils er krafist af okkur
15. Á hvaða vegu er mikils krafist af safnaðaröldungum?
15 „Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn,“ sagði Jesús. (Lúkas 12:48) Vissulega er ‚mikils krafist‘ af safnaðaröldungum. Líkt og Páll leggja þeir sig fram í þágu safnaðarins. (2. Korintubréf 12:15) Þeir þurfa að undirbúa ræður, fara í hirðisheimsóknir, taka á dómsmálum — án þess að vanrækja fjölskyldur sínar. (1. Tímóteusarbréf 3:4, 5) Sumir öldungar eru líka önnum kafnir við að byggja ríkissali, þjóna í spítalasamskiptanefndum og vinna sjálfboðastörf á svæðis- og umdæmismótum. Hvernig geta þessir iðjusömu og dyggu menn komið í veg fyrir að þeir lýist undan allir þessari ábyrgð?
16. (a) Hvaða raunhæfri lausn stakk Jetró upp á við Móse? (b) Hvaða eiginleiki hjálpar öldungi að deila viðeigandi ábyrgð út til annarra?
16 Þegar Móse, sem var lítillátur og auðmjúkur maður, var að ofgera sér á því að leysa vandamál annarra gaf Jetró tengdafaðir hans honum gott ráð. Hann ætti að deila einhverju af ábyrgðinni niður á aðra hæfa menn. (2. Mósebók 18:17-26; 4. Mósebók 12:3) „Hjá lítillátum er viska,“ segja Orðskviðirnir 11:2. Að vera lítillátur er að viðurkenna takmörk sín og sætta sig við þau. Lítillátur maður hikar ekki við að fela öðrum ýmis verkefni og hann óttast ekki að hann missi einhvern veginn tökin með því að deila viðeigandi ábyrgð með öðrum hæfum mönnum.b (4. Mósebók 11:16, 17, 26-29) Hann er mjög áfram um að hjálpa þeim að taka framförum. — 1. Tímóteusarbréf 4:15.
17. Hvernig geta safnaðarmenn létt öldungunum byrðina? (b) Hvaða fórnir færa eiginkonur öldunga og hvernig getum við sýnt þeim að við tökum fórnir þeirra ekki sem sjálfsagðan hlut?
17 Safnaðarmenn geta gert margt til að létta öldungunum byrðina. Ef menn skilja að öldungarnir þurfa að annast eigin fjölskyldur eru þeir ekki óhóflega kröfuharðir á tíma þeirra og athygli. Og þó að eiginkonur öldunga færi fúslega þá fórn sem felst í fjarveru eiginmanna við safnaðarstörf, ættu safnaðarmenn ekki að líta á það sem sjálfsagðan hlut. Þriggja barna móðir, sem er eiginkona öldungs, segir: „Ég kvarta aldrei undan því aukaálagi sem ég ber fúslega í fjölskyldunni til að eiginmaður minn geti þjónað sem öldungur. Ég veit að Jehóva blessar fjölskyldu okkar ríkulega vegna þjónustu hans og ég er ekki öfundsjúk yfir því sem hann gefur. Mér er samt ljóst að ég þarf oft að vinna meira í garðinum og eiga meiri þátt í ögun barnanna en ég myndi ella gera af því að maðurinn minn er upptekinn.“ Því miður komst þessi systir að raun um að sumir gerðu sér enga grein fyrir því aukaálagi sem á henni hvíldi heldur spurðu tillitslaust: „Af hverju ertu ekki brautryðjandi?“ eða eitthvað í þá áttina. (Orðskviðirnir 12:18) Það er miklu betra að hrósa öðrum fyrir það sem þeir gera en að gagnrýna þá fyrir það sem þeir geta ekki gert! — Orðskviðirnir 16:24; 25:11.
Vegna þess að endirinn er ókominn
18, 19. (a) Af hverju er ekki rétti tíminn núna til að hætta í kapphlaupinu um eilíft líf? (b) Hvaða tímabær ráð gaf Páll postuli kristnum mönnum í Jerúsalem?
18 Hlaupari í langhlaupi gefst ekki upp er hann veit að hann er að nálgast markið. Líkaminn er kannski að niðurlotum kominn — örmagna, ofhitnaður og uppþornaður — en hann hættir ekki að hlaupa þegar hann á örstutt eftir í mark. Kristnir menn eru í kapphlaupi þar sem lífið er í verðlaun og eiga mjög stuttan spöl í mark. Núna er ekki rétti tíminn til að hætta í hlaupinu! — Samanber 1. Korintubréf 9:24; Filippíbréfið 2:16; 3:13, 14.
19 Kristnir menn á fyrstu öld voru í svipaðri aðstöðu. Páll postuli skrifaði kristnum mönnum í Jerúsalem um árið 61. Tíminn var naumur — hin óguðlega „kynslóð,“ hið fráfallna gyðingakerfi, var í þann mund að „líða undir lok.“ Kristnir menn í Jerúsalem þurftu að vera sérstaklega vel vakandi og trúfastir; þeir þyrftu að flýja borgina er þeir sæju hana umkringda hersveitum. (Lúkas 21:20-24, 32) Hið innblásna ráð Páls var því tímabært: „Þreytist ekki og látið hugfallast.“ (Hebreabréfið 12:3) Páll postuli notaði hér tvær lýsandi sagnir sem þýddar eru ‚þreytast‘ (kaʹmno) og ‚láta hugfallast‘ (eklyʹomæ). Biblíufræðingur nokkur segir að Aristóteles hafi notað þessi grísku orð „um hlaupara sem slaka á og hníga niður eftir að þeir eru komnir í mark. Lesendur [að bréfi Páls] voru enn í hlaupinu. Þeir máttu ekki gefast upp of snemma. Þeir máttu ekki örmagnast og hníga niður af þreytu. Enn einu sinni er hvatt til þrautseigju andspænis erfiðleikum.“
20. Hvers vegna eru ráð Páls tímabær fyrir okkur núna?
20 Ráð Páls eru vissulega tímabær fyrir okkur núna. Andspænis vaxandi álagi líður okkur kannski stundum eins og uppgefnum hlaupara sem er að því kominn að hníga niður. En við megum ekki gefast upp rétt áður en við komum í mark! (2. Kroníkubók 29:11) Það er einmitt það sem óvinur okkar, ‚ljónið öskrandi,‘ vill að við gerum. Sem betur fer hefur Jehóva gert ráðstafanir til að veita „kraft hinum þreytta.“ (Jesaja 40:29) Næsta grein fjallar um þessar ráðstafanir og hvernig við getum notfært okkur þær.
[Neðanmáls]
a Sumir gætu til dæmis átt í baráttu við rótgróna skapgerðargalla svo sem reiðiköst, eða við vandamál svo sem sjálfsfróun. — Sjá Vaknið! (enska útgáfu) 22. maí 1988, bls. 19-21; 8. nóvember 1981, bls. 16-20 og Spurningar unga fólksins — svör sem duga, bls. 198-211, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Sjá greinina „Öldungar — felið öðrum verkefni!“ í Varðturninum (enskri útgáfu) 15. október 1992, bls. 20-3.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig getum við komið í veg fyrir að við gefumst upp þegar aðrir særa okkur eða valda vonbrigðum?
◻ Hvaða yfirveguð afstaða til sektarkenndar kemur í veg fyrir að við gefumst upp?
◻ Til hvers ætlast Jehóva af okkur?
◻ Hvernig getur hæverska hjálpað safnaðaröldungunum að lýjast ekki?
◻ Hvers vegna eru ráð Páls í Hebreabréfinu 12:3 tímabær fyrir okkur núna?