Hve heitt elskarðu orð Guðs?
„Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ — SÁLMUR 119:97.
1. Nefndu eina leið fyrir guðrækna menn til að sýna að þeir elski orð Guðs.
HUNDRUÐ milljóna karla og kvenna eiga biblíu. En það er munur á því að eiga biblíu og að elska orð Guðs. Getur maður sagt með réttu að maður elski orð Guðs ef maður les það sjaldan? Að sjálfsögðu ekki. En sumir, sem áður fyrr gáfu engan gaum að Biblíunni, lesa nú í henni á hverjum degi. Þeir hafa lært að elska orð Guðs og þeir íhuga það „allan liðlangan daginn“ líkt og sálmaritarinn. — Sálmur 119:97.
2. Hvernig styrkti einn vottur Jehóva trú sína við erfiðar aðstæður?
2 Einn af þeim sem lærði að elska orð Guðs er Nasho Dori. Ásamt trúbræðrum sínum sýndi hann þolgæði í marga áratugi og þjónaði Jehóva í heimalandi sínu, Albaníu. Vottar Jehóva voru bannaðir þar næstum allan þann tíma og þessir trúföstu kristnu menn fengu aðeins örfá biblíurit. En trú bróður Doris var sterk. Hvernig þá? „Markmið mitt,“ sagði hann, var „að lesa í Biblíunni í að minnsta kosti klukkutíma á hverjum degi, sem ég gerði í heil 60 ár áður en ég missti sjónina.“ Biblían í heild var ekki fáanleg á albönsku fyrr en nýlega, en Dori hafði lært grísku í barnæsku og las Biblíuna á því tungumáli. Reglulegur biblíulestur styrkti hann í ýmsum raunum og getur einnig styrkt okkur.
„Sækist eftir“ orði Guðs
3. Hvaða viðhorf ættu kristnir menn að tileinka sér til orðs Guðs?
3 „Sækist eins og nýfædd börn eftir hinni andlegu, ósviknu mjólk,“ skrifaði Pétur postuli. (1. Pétursbréf 2:2) Rétt eins og ungbarn þráir móðurmjólkina hafa kristnir menn, sem gera sér grein fyrir andlegri þörf sinni, einstakt yndi af því að lesa orð Guðs. Er þér þannig innanbrjósts? Örvæntu ekki þótt svo sé ekki. Þú getur einnig ræktað með þér löngun í orð Guðs.
4. Hvað þarf að gera til að venja sig á daglegan biblíulestur?
4 Til þess þarftu fyrst að beita þig sjálfsaga til að gera biblíulestur að venju, daglegri ef hægt er. (Postulasagan 17:11) Ef til vill getur þú ekki varið klukkutíma til biblíulestrar á hverjum degi eins og Nasho Dori, en líklega getur þú tekið frá ákveðinn tíma dag hvern til að íhuga orð Guðs. Margir kristnir menn fara á fætur nokkrum mínútum fyrr en ella til að hugleiða brot úr Biblíunni. Er hægt að byrja daginn betur? Aðrir kjósa að enda daginn á því að lesa í Biblíunni rétt áður en þeir taka á sig náðir. Enn aðrir lesa Biblíuna á öðrum hentugum tíma. Það sem skiptir máli er að lesa að staðaldri í Biblíunni. Taktu þér síðan smástund til að hugleiða efnið. Athugum hvernig sumir höfðu gagn af því að lesa og hugleiða orð Guðs.
Sálmaritari sem elskaði lög Guðs
5, 6. Enda þótt við vitum ekki hver skrifaði Sálm 119, hvaða vitneskju fáum við samt um ritarann með því að lesa og hugleiða það sem hann skrifaði?
5 Ritari 119. sálmsins mat orð Guðs vissulega mikils. Hver orti sálminn? Biblían segir það ekki. En samhengið lætur okkur í té nokkrar upplýsingar um hann og við vitum að líf hans var enginn dans á rósum. Nokkrir kunningjar hans, sem áttu að heita tilbiðjendur Jehóva, elskuðu ekki meginreglur Biblíunnar eins og hann. En sálmaritarinn lét viðhorf þeirra ekki hindra sig í að gera það sem var rétt. (Sálmur 119:23) Ef þú býrð eða vinnur með fólki, sem virðir ekki meginreglur Biblíunnar, geturðu séð hvað er líkt með aðstæðum sálmaritarans og þínum eigin.
6 Enda þótt sálmaritarinn væri guðhræddur var hann engan veginn sjálfumglaður. Hann viðurkenndi opinskátt eigin ófullkomleika. (Sálmur 119:5, 6, 67) En þó leyfði hann syndinni ekki að stjórna sér. „Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum?“ spurði hann. Hann svaraði sjálfur: „Með því að gefa gaum að orði þínu.“ (Sálmur 119:9) Síðan lagði hann áherslu á hve orð Guðs er kröftugt afl til góðs með því að bæta við: „Ég geymi orð þín í hjarta mínu, til þess að ég skuli eigi syndga gegn þér.“ (Sálmur 119:11) Það er vissulega sterkt afl sem getur forðað okkur frá því að syndga gegn Guði!
7. Af hverju ætti einkum ungt fólk að gera sér grein fyrir nauðsyn daglegs biblíulestrar?
7 Það er kristnum ungmennum hollt að íhuga orð sálmaritarans. Kristnir unglingar sæta árásum. Djöfullinn væri hæstánægður að geta spillt komandi kynslóð tilbiðjenda Jehóva. Markmið Satans er að tæla kristin ungmenni svo að þau láti undan löngunum holdsins og brjóti lög Guðs. Kvikmyndir og sjónvarpsþættir endurspegla oft hugsunarhátt djöfulsins. Stjörnur slíkra mynda virðast aðlaðandi og viðkunnanlegar; siðleysi þeirra er látið virðast eðlilegt. Hver er boðskapurinn? ‚Það er allt í lagi að ógift fólk hafi kynmök svo framarlega sem það elskar hvert annað.‘ Því miður ganga mörg kristin ungmenni í þessa gildru ár hvert. Sum bíða skipbrot á trú sinni. Þrýstingurinn er því mikill! En er hann það mikill að ungt fólk geti ómögulega staðist hann? Engan veginn! Jehóva hefur látið ungmennum í té hjálp til að vinna bug á óæskilegum löngunum. Þau geta staðist öll vopn, sem djöfullinn upphugsar, með því að ‚gefa gaum að orði Guðs, geyma orð hans í hjarta sér.‘ Hve mikinn tíma notar þú að staðaldri til að lesa og hugleiða Biblíuna?
8. Hvernig geta dæmin í þessari grein hjálpað þér að meta Móselögmálið enn betur?
8 Ritari 119. sálmsins kvað: „Hve mjög elska ég lögmál þitt!“ (Sálmur 119:97) Hvaða lögmál átti hann við? Opinberað orð Jehóva, þar á meðal Móselögin. Við fyrstu sýn gætu sumir hafnað lögmálinu sem gamaldags og furðað sig á því hvernig nokkur skuli hafa getað elskað það. En þegar við hugleiðum ýmsa þætti Móselaganna, eins og sálmaritarinn, skiljum við viskuna að baki þeim. Auk hinna mörgu spádómlegu þátta lögmálsins er að finna ákvæði um hreinlæti og mataræði sem stuðluðu að heilbrigði og góðri heilsu. (3. Mósebók 7:23, 24, 26; 11:2-8) Lögmálið hvatti til heiðarleika í viðskiptum og brýndi fyrir Ísraelsmönnum að þeir þyrftu að sýna trúbræðrum í neyð hluttekningu. (2. Mósebók 22:26, 27; 23:6; 3. Mósebók 19:35, 36; 5. Mósebók 24:17-21) Dóm átti að fella án hlutdrægni. (5. Mósebók 16:19; 19:15) Þegar ritari 119. sálmsins varð reynslunni ríkari sá hann eflaust hve vel þeim vegnaði sem fylgdu lögum Guðs og kærleikur hans til þeirra varð enn sterkari. Eins er það núna. Þegar kristnir menn fylgja meginreglum Biblíunnar og vegnar vel eflist kærleikur þeirra og þakklæti fyrir orð Guðs.
Prins sem þorði að skera sig úr
9. Hvaða viðhorf tileinkaði Hiskía konungur sér til orðs Guðs?
9 Inntak 119. sálmsins er í góðu samræmi við það sem við vitum um Hiskía á meðan hann var enn ungur prins. Sumir biblíufræðingar halda að Hiskía hafi skrifað sálminn. Enda þótt það sé ekki víst vitum við að Hiskía bar mikla virðingu fyrir orði Guðs. Með lífi sínu sýndi hann að hjarta hans sló í takt við orðin í Sálmi 119:97. Biblían segir um Hiskía: „Hann hélt sér fast við [Jehóva], veik eigi frá honum og varðveitti boðorð hans, þau er [Jehóva], hafði lagt fyrir Móse.“ — 2. Konungabók 18:6.
10. Hvaða hvatning er Hiskía kristnum mönnum sem hafa ekki alist upp á guðhræddu heimili?
10 Ekki er að sjá að Hiskía hafi alist upp á guðræknu heimili. Faðir hans, Akas konungur, var guðlaus skurðgoðadýrkandi sem lét brenna lifandi að minnsta kosti einn son sinn – bróður Hiskía – til fórnar falsguði! (2. Konungabók 16:3) Þrátt fyrir þetta slæma fordæmi gat Hiskía „haldið vegi sínum hreinum“ og lausum við heiðin áhrif með því að kynna sér orð Guðs. — 2. Kroníkubók 29:2.
11. Hvernig fór fyrir hinum óguðlega Akasi að Hiskía ásjáandi?
11 Þegar Hiskía óx úr grasi sá hann með eigin augum hvernig skurðgoðadýrkandinn faðir hans stjórnaði málum ríkisins. Óvinir umkringdu Júda. Resín Sýrlandskonungur sat um Jerúsalem ásamt Peka Ísraelskonungi. (2. Konungabók 16:5, 6) Edómítar og Filistar gerðu velheppnaðar innrásir í Júda og hertóku nokkrar borgir. (2. Kroníkubók 28:16-19) Hvernig brást Akas við þessari hættu? Í stað þess að leita til Jehóva eftir hjálp gegn Sýrlandi leitaði Akas til Assýríukonungs og mútaði honum með gulli og silfri, meðal annars úr fjárhirslum musterisins. En það færði Júda ekki varanlegan frið. — 2. Konungabók 16:6, 8.
12. Hvernig gat Hiskía komist hjá því að gera sömu mistök og faðir hans?
12 Að lokum dó Akas og Hiskía varð konungur 25 ára að aldri. (2. Kroníkubók 29:1) Hann var tiltölulega ungur en það hindraði hann ekki í að verða farsæll konungur. Í stað þess að hegða sér eins og ótrúr faðir hans, hélt hann fast við lög Jehóva. Þau fólu í sér sérstök fyrirmæli til konunga: „Þegar [konungurinn] nú er setstur í hásæti konungdóms síns, þá skal hann fá lögmál þetta hjá levítaprestunum og rita eftirrit af því handa sér í bók. Og hann skal hafa hana hjá sér og lesa í henni alla ævidaga sína, til þess að hann læri að óttast [Jehóva] Guð sinn og gæti þess að halda öll fyrirmæli þessa lögmáls.“ (5. Mósebók 17:18, 19) Með því að lesa orð Guðs daglega myndi Hiskía læra að óttast Jehóva og forðast að gera sömu mistök og faðir hans.
13. Hvernig getur kristinn maður verið viss um að í andlegum skilningi lánist honum allt sem hann gerir?
13 Það voru ekki aðeins konungar Ísraels sem voru hvattir til að hafa orð Guðs stöðugt fyrir hugskotssjónum heldur allir guðræknir Ísraelsmenn. Fyrsti sálmurinn lýsir manni sem er raunverulega sæll eða hamingjusamur og segir hann hafa ‚yndi af lögmáli Jehóva og hugleiða lögmál hans dag og nótt.‘ (Sálmur 1:1, 2) Sálmaritarinn segir enn fremur um hann: „Allt er hann gjörir lánast honum.“ (Sálmur 1:3) Aftur á móti segir Biblían um þann sem skortir trú á Jehóva Guð: „Sá maður [er] tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum.“ (Jakobsbréfið 1:7) Við viljum öll vera glöð og farsæl. Reglulegur og innihaldsríkur biblíulestur getur stuðlað að hamingju okkar.
Orð Guðs styrkti Jesú
14. Hvernig sýndi Jesús kærleika til orðs Guðs?
14 Eitt sinn fundu foreldrar Jesú hann þar sem hann sat mitt á meðal fræðaranna í musterinu í Jerúsalem. Þessa sérfræðinga í lögmáli Guðs „furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.“ (Lúkas 2:46, 47) Þetta gerðist þegar Jesús var 12 ára. Já, jafnvel á unga aldri hafði hann dálæti á orði Guðs. Síðar meir notaði hann Ritninguna til að ávíta djöfulinn og sagði: „Eigi lifir maðurinn á einu saman brauði, heldur á hverju því orði, sem fram gengur af Guðs munni.“ (Matteus 4:3-10) Stuttu seinna notaði Jesús Ritninguna við að prédika fyrir íbúum heimabæjar síns, Nasaret. — Lúkas 4:16-21.
15. Hvaða fordæmi gaf Jesús þegar hann prédikaði fyrir öðrum?
15 Jesús vitnaði oft í orð Guðs til stuðnings kennslu sinni. Áheyrendur hans „[undruðust] mjög kenningu hans.“ (Matteus 7:28) Og það er engin furða — kennsla Jesú kom frá Jehóva Guði sjálfum! Jesús sagði: „Kenning mín er ekki mín, heldur hans, er sendi mig. Sá sem talar af sjálfum sér, leitar eigin heiðurs, en sá sem leitar heiðurs þess, er sendi hann, er sannorður og í honum ekkert ranglæti.“ — Jóhannes 7:16, 18.
16. Að hvaða marki sýndi Jesús kærleika sinn til orðs Guðs?
16 Ólíkt ritara 119. sálmsins var „ekkert ranglæti“ í Jesú. Hann var syndlaus, sonur Guðs, sem „lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða.“ (Filippíbréfið 2:8; Hebreabréfið 7:26) En þótt Jesús væri fullkominn kynnti hann sér lög Guðs og hlýddi þeim. Það var lykillinn að ráðvendni hans. Þegar Pétur notaði sverð til að reyna að forða meistara sínum frá handtöku ávítaði Jesús hann og spurði: „Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla? Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?“ (Matteus 26:53, 54) Já, Jesú fannst mikilvægara að Ritningin uppfylltist en að hann kæmist hjá kvalafullum og niðurlægjandi dauða. Það er framúrskarandi kærleikur til orðs Guðs!
Eftirbreytendur Krists
17. Hve mikilvægt var orð Guðs Páli postula?
17 Páll postuli skrifaði trúbræðrum sínum: „Verið eftirbreytendur mínir eins og ég er eftirbreytandi Krists.“ (1. Korintubréf 11:1) Páll ræktaði með sér kærleika til Ritningarinnar eins og meistari hans. Hann sagði: „Innst inni elska ég lögmál Guðs heitt.“ (Rómverjabréfið 7:22, The Jerusalem Bible) Páll vitnaði iðulega í orð Guðs. (Postulasagan 13:32-41; 17:2, 3; 28:23) Þegar Páll gaf Tímóteusi, ástkærum samþjóni sínum, síðustu fyrirmælin lagði hann áherslu á hve orð Guðs ætti að skipa veglegan sess í daglegu lífi allra ‚sem tilheyra Guði.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:15-17.
18. Segðu frá manni á okkar tímum sem sýndi orði Guðs virðingu.
18 Margir trúfastir þjónar Jehóva nú á tímum hafa á svipaðan hátt líkt eftir kærleika Jesú til orðs Guðs. Snemma á þessari öld fékk ungur maður biblíu frá vini. Hann lýsti áhrifum þessarar dýrmætu gjafar á sig: „Ég ákvað að ég yrði að lesa í Biblíunni á hverjum einasta degi.“ Þessi ungi maður var Frederick Franz og ást hans á Biblíunni varð til þess að hann átti langa og farsæla ævi í þjónustu Jehóva. Hans er minnst með hlýju fyrir að geta vitnað í heilu biblíukaflana utanbókar.
19. Hvernig skipuleggja sumir vikulegan biblíulestur fyrir Guðveldisskólann?
19 Vottar Jehóva leggja mikla áherslu á reglulegan biblíulestur. Í hverri viku lesa þeir nokkra kafla í Biblíunni þegar þeir undirbúa sig fyrir eina af samkomum sínum, Guðveldisskólann. Höfuðþættir biblíulesefnisins eru ræddir á samkomunni. Sumum vottum finnst hentugt að deila biblíulesefni vikunnar í minni hluta og lesa einn hluta á hverjum degi. Þeir hugleiða efnið þegar þeir lesa. Þegar hægt er afla þeir sér meiri upplýsinga með hjálp biblíutengdra rita.
20. Hvað þarf til að taka frá tíma til reglulegs biblíulestrar?
20 Ef til vill þarftu að ‚kaupa hentugan tíma‘ frá öðrum verkum til að lesa reglulega í Biblíunni. (Efesusbréfið 5:16, NW) En gagnið af því mun vega meira en nokkrar fórnir. Þegar þú venur þig á að lesa daglega í Biblíunni eflist kærleikur þinn til orðs Guðs. Áður en langt um líður finnurðu þig knúinn til að taka undir með sálmaritaranum: „Hve mjög elska ég lögmál þitt, allan liðlangan daginn íhuga ég það.“ (Sálmur 119:97) Þetta viðhorf kemur þér að miklu gagni núna og í framtíðinni eins og næsta grein sýnir fram á.
Manstu?
◻ Hvernig sýndi ritari 119. sálmsins djúpan kærleika á orði Guðs?
◻ Hvaða lærdóm getum við dregið af fordæmi Jesú og Páls?
◻ Hvernig getum við eflt kærleika okkar til orðs Guðs?
[Myndir á blaðsíðu 23]
Trúfastir konungar áttu að lesa reglulega í orði Guðs. Gerir þú það?
[Mynd á blaðsíðu 24]
Jesús elskaði orð Guðs jafnvel sem ungur drengur.