Spurningar frá lesendum
Í 1. Pétursbréfi 2:9 eru smurðir kristnir menn kallaðir „útvalin kynslóð.“ Ætti það að hafa áhrif á skilning okkar á orðinu „kynslóð“ eins og Jesús notar það í Matteusi 24:34?
Orðið „kynslóð“ stendur á báðum stöðunum í sumum þýðingum Biblíunnar. Samkvæmt Biblíunni frá 1981 skrifaði Pétur postuli: „En þér eruð ‚útvalin kynslóð, konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður, til þess að þér skuluð víðfrægja dáðir hans,‘ sem kallaði yður frá myrkrinu til síns undursamlega ljóss.“ Og Jesús sagði fyrir: „Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.“ — 1. Pétursbréf 2:9; Matteus 24:34.
Í fyrri ritningargreininni notaði Pétur postuli gríska orðið geʹnos, en þar sem sagt er frá orðum Jesú er notað orðið geneaʹ. Þessi tvö grísku orð eru lík að sjá og eru af sama stofni, en þetta eru mismunandi orð og hafa hvort sína merkinguna. Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar — með tilvísunum segir í neðanmálsathugasemd við 1. Pétursbréf 2:9: „‚Kynstofn.‘ Gr. geʹnos; ólíkt geneaʹ, ‚kynslóð‘ eins og í Mt 24:34.“ Samsvarandi neðanmálsathugasemd er að finna við Matteus 24:34.
Eins og þessar neðanmálsathugasemdir bera með sér er geʹnos réttilega þýtt með orðinu „kynstofn“ („race“) eins og algengt er í enskum þýðingum. Í fyrra bréfi sínu 2. kafla versi 9 heimfærði Pétur spádóminn í Jesaja 61:6 á smurða kristna menn sem hafa himneska von. Þeir eru komnir af mörgum þjóðum og kynflokkum, en þjóðerni skiptir þá ekki máli þegar þeir verða hluti af andlegu Ísraelsþjóðinni. (Rómverjabréfið 10:12; Galatabréfið 3:28, 29; 6:16; Opinberunarbókin 5:9, 10) Pétur sagði að þeir yrðu í andlegum skilningi aðgreindur hópur — „útvalin kynslóð [„kynstofn,“ NW], konunglegt prestafélag, heilög þjóð, eignarlýður.“
Í grískum texta Matteusar 24:34, þar sem við finnum orð Jesú, er notað orðið geneaʹ. Það er almennt viðurkennt að Jesús hafi ekki verið að tala um einhvern „kynstofn“ manna heldur fólkið sem lifði á ákveðnu tímabili.
Fyrir nálega hundrað árum tók Charles T. Russell, fyrsti forseti Varðturnsfélagsins, þetta skýrt fram er hann skrifaði: „Enda þótt segja megi að orðin ‚kynslóð‘ og ‚kynstofn‘ séu af sama stofni eða uppruna merkja þau ekki hið sama, og eins og Ritningin notar orðin tvö eru þau harla ólík. . . . Í hinum þrem mismunandi frásögum af þessum spádómi er Drottni vorum eignað gerólíkt grískt orð (genea) sem merkir ekki kynstofn heldur er sömu merkingar og . . . orðið kynslóð. Aðrir staðir, þar sem þetta gríska orð (genea) er notað, sanna að það er ekki notað í merkingunni kynstofn heldur um samtíðarmenn.“ — Hefndardagurinn, bls. 602-3.
Í bókinni A Handbook on the Gospel of Matthew (1988), sem er ætluð biblíuþýðendum, segir: „[New International Version] þýðir það bókstaflega þessi kynslóð en lætur fylgja neðanmálsathugasemd: ‚eða kynstofn.‘ Og einn Nýjatestamentisfræðingur álítur að ‚Matteus eigi ekki aðeins við fyrstu kynslóð eftir daga Jesú heldur allar kynslóðir Gyðingdómsins sem hafna honum.‘ En hvorug niðurstaðan á sér nokkur málvísindaleg rök og þeim ber að hafna sem tilraunum til að sniðganga hina augljósu merkingu. Í sinni upprunalegu umgjörð var eingöngu átt við samtíðarmenn Jesú.“
Eins og fjallað er um á bls. 19-24 fordæmdi Jesús þá kynslóð Gyðinga sem var uppi á hans dögum, samtíðarmenn sína sem höfnuðu honum. (Lúkas 9:41; 11:32; 17:25) Hann notaði oft lýsingarorð svo sem „vond og ótrú,“ ‚vantrú og rangsnúin‘ og ‚ótrú og syndug‘ til að lýsa þessari kynslóð. (Matteus 12:39; 17:17; Markús 8:38) Jesús var á Olíufjallinu með fjórum postulum sínum þegar hann notaði orðið „kynslóð“ í síðasta sinn. (Markús 13:3) Þessir menn, sem voru enn ekki andasmurðir og tilheyrðu enn ekki kristnum söfnuði, voru vissulega hvorki „kynslóð“ né kynstofn manna. En þeim var fullkunnugt hvernig Jesús notaði orðið „kynslóð“ um samtíðarmenn sína. Þeir hljóta því að hafa skilið það sem hann hafði í huga þegar hann minntist á ‚þessa kynslóð‘ í síðasta sinn.a Pétur postuli, sem var viðstaddur, hvatti Gyðinga síðar: „Látið frelsast frá þessari rangsnúnu kynslóð.“ — Postulasagan 2:40.
Við höfum oft birt rök fyrir því að margt, sem Jesús spáði í þessari sömu ræðu (svo sem styrjaldir, jarðskjálftar og hungursneyð) hafi uppfyllst frá því að hann bar fram spádóminn og fram til eyðingar Jerúsalem árið 70. Margt af því rættist en ekki allt. Það liggur til dæmis ekkert fyrir um að „tákn Mannssonarins“ hafi birst eftir að Rómverjar réðust á Jerúsalem (á árunum 66-70), með þeim afleiðingum að „allar kynkvíslir jarðar“ hafi hafið kveinstafi. (Matteus 24:30) Þess vegna hlýtur þessi uppfylling milli áranna 33 og 70 að hafa verið byrjunaruppfylling, ekki sú víðtæka lokauppfylling sem Jesús var líka að benda á.
Í formálsorðum þýðingar sinnar á verki Jósefusar, The Jewish War, segir G. A. Williamson: „Matteus segir okkur að lærisveinarnir hafi spurt [Jesú] tvíþættrar spurningar — um eyðingu musterisins og lokakomu sjálfs hans — og hann hafi gefið þeim tvíþætt svar. Í fyrri hluta svarsins sagði hann mjög skýrt fyrir þá atburði sem Jósefus átti eftir að lýsa svo ítarlega.“
Já, í byrjunaruppfyllingunni merkti „þessi kynslóð“ greinilega hið sama og annars staðar — samtíðarkynslóð trúlausra Gyðinga. Sú „kynslóð“ myndi ekki líða undir lok án þess að kynnast af eigin raun því sem Jesús sagði fyrir. Eins og Williamson gat um, gerðist það á áratugunum fram að eyðingu Jerúsalem, eins og sjónarvottur, sagnaritarinn Jósefus, lýsti.
Í hinni síðari eða meiri uppfyllingu hlýtur að teljast rökrétt að „þessi kynslóð“ sé líka samtíðarmenn. Eins og greinin, sem hefst á bls. 25, sýnir fram á, þurfum við ekki að álykta sem svo að Jesús hafi verið að tilgreina að „kynslóð“ samsvaraði ákveðnum árafjölda.
Þvert á móti er hægt að segja tvennt um hvern þann tíma sem „kynslóð“ gefur í skyn. (1) Ekki er hægt að líta á kynslóð manna sem afmarkaðan árafjölda, eins og um væri að ræða orð sem merkja ákveðinn árafjölda (áratugur eða öld). (2) Fólk einnar kynslóðar lifir tiltölulega stutt tímabil, ekki langt.
Hvað hljóta postularnir þá að hafa hugsað þegar þeir heyrðu Jesú tala um ‚þessa kynslóð‘? Við erum svo vel í sveit sett að geta litið um öxl og vitum því að eyðing Jerúsalem í ‚þrengingunni miklu‘ kom 37 árum síðar, en postularnir, sem hlýddu á Jesú, gátu ekki vitað það. Orðið „kynslóð“ hefur í þeirra huga merkt fólk sem lifði tiltölulega skamman tíma en ekki verulega langt tímabil. Hið sama er uppi á teningnum hvað okkur varðar. Það sem Jesús sagði til áréttingar var því vel við hæfi: „En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn. Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.“ — Matteus 24:36, 44.
[Neðanmáls]
a Ábendingarfornafnið hóʹtos í sambandinu „þessi kynslóð“ samsvarar ágætlega íslenska orðinu „þessi.“ Það getur bent á eitthvað sem er á staðnum eða frammi fyrir þeim sem talar. En það getur líka haft aðrar merkingar. Orðabókin Exegetical Dictionary of the New Testament (1991) segir: „Orðið [hóʹtos] bendir á staðreynd sem blasir við. [Aion hóʹtos] er því ‚núverandi heimur‘ . . . og [geneaʹ háte] er ‚núlifandi kynslóð‘ (t.d. Matt 12:41f., 45; 24:34).“ Dr. George B. Winer skrifar: „Fornafnið [hóʹtos] vísar ekki alltaf til næsta nafnorðs heldur vísar það stundum til annars sem stendur fjær en er aðalfrumlagið og næst í huganum, næst hugsun ritarans.“ — A Grammar of the Idiom of the New Testament, 7. útgáfa, 1897.